Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Postulasögunnar
POSTULASAGAN hefur að geyma heildstæða sögu af tilurð kristna safnaðarins og vexti hans í framhaldi af því. Hún er skráð af lækninum Lúkasi og segir með líflegum hætti frá starfi kristinna manna um 28 ára skeið, frá 33 til 61.
Fyrri hluti Postulasögunnar fjallar fyrst og fremst um starf Péturs postula en sá síðari um starf Páls postula. Lúkas notar oft fornafnið „við“ og gefur þar með til kynna að hann hafi verið viðstaddur vissa atburði sem sagt er frá í bókinni. Frásagan sýnir mjög greinilega fram á kraft heilags anda og máttinn í hinu ritaða orði Guðs. (Hebr. 4:12) Hún hvetur okkur jafnframt til þess að vera fórnfús og styrkir trúna á fyrirheitið um ríki Guðs.
PÉTUR NOTAR „LYKLA HIMNARÍKIS“
Postularnir flytja fagnaðarerindið með mikilli djörfung eftir að hafa fengið heilagan anda. Pétur notar fyrsta lykilinn að himnaríki til að opna Gyðingum og trúskiptingum, sem „veittu orði hans viðtöku“, dyr þekkingarinnar og Guðsríkis. (Matt. 16:19; Post. 2:5, 41) Þegar harðar ofsóknir bresta á dreifast lærisveinarnir en það verður til þess að útbreiða fagnaðarerindið enn frekar.
Þegar postularnir í Jerúsalem frétta að íbúar Samaríu hafi tekið við orði Guðs senda þeir þá Pétur og Jóhannes þangað. Pétur notar þá annan lykilinn til að opna Samverjum aðgang að ríki Guðs. (Post. 8:14-17) Hugsanlegt er að ekki sé liðið ár frá upprisu Jesú þegar Sál frá Tarsus söðlar um og gerist kristinn. Árið 36 notar Pétur þriðja lykilinn og heilögum anda er úthellt yfir óumskorið fólk af þjóðunum. — Post. 10:45.
Biblíuspurningar og svör:
2:44-47; 4:34, 35 — Af hverju seldu kristnir menn eigur sínar og gáfu andvirðið? Margir, sem höfðu tekið trú, voru langt að komnir og höfðu ekki nægan farareyri til að framlengja dvöl sína í Jerúsalem. Þá langaði hins vegar til að staldra lengur við til að fræðast betur um hina nýju trú og til að vitna fyrir öðrum. Sumir hinna kristnu seldu þá eigur sínar til að hjálpa þeim og fénu var dreift meðal þeirra sem á þurftu að halda.
4:13 — Voru Pétur og Jóhannes ólærðir, ólæsir og óskrifandi? Nei. Þeir voru sagðir „ekki lærðir, heldur óbrotnir alþýðumenn“ vegna þess að þeir höfðu ekki sótt trúarskóla rabbínanna.
5:34-39 — Hvernig gat Lúkas vitað hvað Gamalíel hafði sagt á lokuðum fundi æðstaráðsins? Möguleikarnir eru að minnsta kosti þrír: (1) Páll, sem var fyrrverandi nemandi Gamalíels, kann að hafa upplýst Lúkas um það, (2) Lúkas leitaði upplýsinga hjá ráðsöldungi, til dæmi Nikódemusi, sem var hliðhollur kristnum mönnum, (3) heilagur andi upplýsti Lúkas um það sem fram fór.
7:59 — Bað Stefán til Jesú? Nei, kristnir menn eiga engan að tilbiðja nema Jehóva Guð og ekki biðja til neins annars. (Lúk. 4:8; 6:12) Undir venjulegum kringumstæðum hefði Stefán beðið til Jehóva í nafni Jesú. (Jóh. 15:16) Í þessu tilfelli sá hann í sýn „Mannssoninn standa til hægri handar Guði“. (Post. 7:56) Hann vissi að Jesús hafði fengið mátt til að reisa upp dána og talaði því beint til hans og bað hann að meðtaka anda sinn. Hann var ekki að biðja bænar. — Jóh. 5:27-29.
Lærdómur:
1:8. Þjónar Jehóva gætu ekki verið vottar hans um heim allan án hjálpar heilags anda.
4:36–5:11. Jósef frá Kýpur var kallaður Barnabas sem þýðir „huggunarsonur“. Hugsanlegt er að postularnir hafi nefnt hann þessu nafni vegna þess að hann var hjartahlýr og hjálpsamur. Við ættum að reyna að líkjast honum en ekki Ananíasi og Saffíru sem voru undirförul, og sýndu af sér uppgerð og hræsni.
9:23-25. Það er engin ragmennska að forða sér frá óvinum til að geta haldið áfram að prédika.
9:28-30. Ef okkur stafar líkamleg eða siðferðileg hætta af því að prédika í ákveðnum hverfum eða fyrir ákveðnu fólki, eða það getur stofnað sambandi okkar við Jehóva í hættu, þurfum við að huga vel að því hvar og hvenær við boðum trúna.
9:31. Þegar við búum við frið ættum við að gera okkur far um að styrkja trúna með biblíunámi og hugleiðingu. Við framgöngum í ótta Jehóva með því að fara eftir því sem við lærum og vera dugleg að boða fagnaðarerindið.
KAPPSÖM ÞJÓNUSTA PÁLS
Árið 44 kom Agabus til Antíokkíu þar sem Barnabas og Sál höfðu kennt í „heilt ár“. Agabus boðar að „mikil hungursneyð“ komi og hún á sér stað tveim árum síðar. (Post. 11:26-28) Sál og Barnabas eru sendir til Jerúsalem með söfnunarfé og snúa síðan aftur til Antíokkíu að loknu erindi sínu. (Post. 12:25) Árið 47, um 12 árum eftir að Sál tók trú, eru þeir Barnabas sendir af heilögum anda í trúboðsferð. (Post. 13:1-4) Þeir koma aftur til Antíokkíu árið 48 þar sem þeir höfðu verið „faldir náð Guðs“. — Post. 14:26.
Páll (einnig þekktur sem Sál) velur Sílas sem trúboðsfélaga um níu mánuðum síðar og þeir leggja upp í aðra trúboðsferð. (Post. 15:40) Tímóteus og Lúkas slást síðan í för með þeim. Lúkas verður eftir í Filippí en Páll heldur áfram til Aþenu og síðan til Korintu þar sem hann hittir Akvílas og Priskillu. Þar er hann í eitt og hálft ár. (Post. 18:11) Páll lætur Tímóteus og Sílas eftir í Korintu en tekur með sér Akvílas og Priskillu og siglir sem leið liggur til Sýrlands snemma árs 52. (Post. 18:18) Akvílas og Priskilla fylgja honum allt til Efesus og verða eftir þar.
Eftir að hafa dvalið um hríð í Antíokkíu í Sýrlandi leggur Páll upp í þriðju trúboðsferðina. Það er árið 52. (Post. 18:23) Í Efesus „breiddist orð Drottins út og efldist í krafti hans“. (Post. 19:20) Páll dvelst þar í ein þrjú ár. (Post. 20:31) Á hvítasunnu árið 56 er hann staddur í Jerúsalem. Hann er handtekinn en vitnar óragur fyrir ráðamönnum. Hann er í stofufangelsi í Róm um tveggja ára skeið (um 59-61) og þar fær hann tækifæri til að boða ríkið og ‚fræða um Drottin Jesú Krist‘. — Post. 28:30, 31.
Biblíuspurningar og svör:
14:8-13 — Af hverju kölluðu Lýstrubúar „Barnabas Seif en Pál Hermes“? Seifur var æðstur guða samkvæmt goðafræði Grikkja og Hermes, sonur hans, var talinn mælskur mjög. Páll hafði orð fyrir þeim svo að Lýstrubúar kölluðu hann Hermes en Barnabas kölluðu þeir Seif.
16:6, 7 — Hvers vegna leyfði heilagur andi Páli og félögum hans ekki að prédika í Asíu og Biþýníu? Boðberarnir voru ekki margir svo að heilagur andi vísaði þeim á frjósamari svæði.
18:12-17 — Af hverju lét Gallíón landstjóri sig það engu skipta að mannfjöldinn skyldi berja Sósþenes? Gallíón hugsaði ef til vill sem svo að maðurinn, sem virtist forsprakki múgæsinganna gegn Páli, fengi þarna makleg málagjöld. En þetta atvik leiddi greinilega gott af sér því að það varð til þess að Sósþenes tók kristna trú. Síðar talar Páll um hann sem ‚bróðurinn‘. — 1. Kor. 1:1.
18:18 — Hvaða heit hvíldi á Páli? Sumir fræðimenn telja að Páll hafi unnið nasíreaheit. (4. Mós. 6:1-21) Biblían lætur hins vegar ósagt hvers konar heit þetta var. Og ekkert er sagt um það í Biblíunni hvort Páll vann heitið áður en hann tók trú eða eftir, eða hvort því var að ljúka. Hvað sem því líður var ekki um neina synd að ræða af hálfu Páls.
Lærdómur:
12:5-11. Við getum beðið fyrir trúsystkinum og við ættum að gera það.
12:21-23; 14:14-18. Heródes tók fúslega við upphefðinni sem hefði átt að veita Guði einum. Þar var hann ólíkur Páli og Barnabasi sem höfnuðu afdráttarlaust og tafarlaust að þiggja heiður og lof sem þeim bar ekki. Við ættum ekki að sækjast eftir því að fá lof fyrir það sem við áorkum í þjónustu Jehóva.
14:5-7. Skynsemi og forsjálni getur verið okkur hjálp til að halda þjónustu okkar áfram. — Matt. 10:23.
14:22. Kristnir menn búast við þrautum og þrengingum. Þeir reyna ekki að sleppa við þær með því að gefa eftir þegar trúin á í hlut. — 2. Tím. 3:12.
16:1, 2. Kristin ungmenni ættu að leggja sig vel fram í þjónustunni við Jehóva og leita hjálpar hans til að byggja upp góðan orðstír.
16:3. Við ættum að gera allt sem við getum og samræmist Biblíunni til að gera fagnaðarerindið aðlaðandi fyrir aðra. — 1. Kor. 9:19-23.
20:20, 21. Að boða trúna hús úr húsi er mikilvægur þáttur í starfi okkar.
20:24; 21:13. Það er mikilvægara að vera ráðvandur Guði en vernda líf sitt.
21:21-26. Við ættum að þiggja fúslega góð ráð annarra.
25:8-12. Kristnir menn ættu að nýta sér lagaleg úrræði, sem eru fyrir hendi, til að „verja fagnaðarerindið og sannfæra menn um gildi þess“. — Fil. 1:7.
26:24, 25. Við ættum að tala „sannleiks orð af fullu viti“ jafnvel þó að „jarðbundinn maður“ álíti þau heimsku. — 1. Kor. 2:14.
[Mynd á blaðsíðu 30]
Hvenær notaði Pétur „lykla himnaríkis“?
[Mynd á blaðsíðu 31]
Það væri ekki hægt að boða fagnaðarerindið út um allan heim án hjálpar heilags anda.