Foreldrar, hjálpið þið barninu ykkar að stefna að skírn?
„Hvað dvelur þig nú? Rís upp ... og lát skírast.“ – POST. 22:16.
1. Hvað vilja foreldrar í söfnuðinum fullvissa sig um áður en börnin skírast?
„MÁNUÐUM saman sagði ég pabba og mömmu að mig langaði til að skírast og þau töluðu oft við mig um það. Þau vildu ganga úr skugga um að ég skildi hve alvarleg ákvörðun þetta væri. Þessi merkisdagur ævi minnar rann loks upp 31. desember 1934.“ Þannig lýsir Blossom Brandt aðdraganda þess að hún ákvað að láta skírast. Kristnum foreldrum nú á tímum er líka mikið í mun að hjálpa börnunum að taka skynsamlegar ákvarðanir. Þeir vita að það getur skaðað sambandið við Jehóva að draga það að óþörfu að láta skírast. (Jak. 4:17) En áður en börnin skírast vilja foreldrarnir fullvissa sig um að þau séu fær um að axla þá ábyrgð sem fylgir því að vera lærisveinar Krists.
2. (a) Hverju hafa sumir farandhirðar veitt athygli? (b) Um hvað er rætt í þessari grein?
2 Sumir farandhirðar hafa vissar áhyggjur af ungu fólki um og yfir tvítugt sem hefur ekki látið skírast þó að það hafi alist upp á kristnum heimilum. Flest þessara ungmenna sækja samkomur og taka þátt í boðuninni. Þau líta á sig sem votta Jehóva. En einhverra orsaka vegna hafa þau ekki vígst Jehóva og látið skírast. Hver getur ástæðan verið? Í sumum tilvikum hafa foreldrarnir hvatt þau til að bíða með skírn. Í þessari grein er fjallað um fernt sem hefur valdið því að sumir foreldrar í söfnuðinum hjálpa ekki börnunum að stefna að skírn.
ER BARNIÐ MITT NÓGU GAMALT?
3. Hverju veltu foreldrar Blossomar fyrir sér?
3 Foreldrar Blossomar, sem er nefnd í fyrstu tölugreininni, veltu eðlilega fyrir sér hvort dóttirin væri nógu gömul til að skilja hvað það þýðir að skírast og hve alvarlegt skref það er. Hvernig geta foreldrar gengið úr skugga um að barnið sé tilbúið til að vígjast Jehóva?
4. Hvernig geta fyrirmæli Jesú í Matteusi 28:19, 20 hjálpað foreldrum að kenna börnunum?
4 Lestu Matteus 28:19, 20. Eins og fram kom í greininni á undan er ekki tiltekið í Biblíunni að fólk þurfi að ná ákveðnum aldri til að skírast. Það er þó gott fyrir foreldra að íhuga hvað sé fólgið í því að gera mann að lærisveini. Gríska orðið, sem er þýtt ,að gera að lærisveinum‘ í Matteusi 28:19, merkir að kenna öðrum með það að markmiði að gera hann að nemanda eða lærisveini. Lærisveinn er sá sem kynnir sér kenningar Jesú, skilur þær og er ákveðinn í að fara eftir þeim. Allir kristnir foreldrar ættu því að hafa það markmið að kenna börnunum frá blautu barnsbeini til að þau verði skírðir lærisveinar Krists. Ungbarn er auðvitað ekki hæft til að skírast. Hins vegar má sjá af Biblíunni að börn geta skilið sannleikann og tileinkað sér hann tiltölulega ung að aldri.
5, 6. (a) Hvenær má ætla að Tímóteus hafi látið skírast miðað við frásögu Biblíunnar? (b) Hvernig geta skynugir foreldrar hjálpað börnum sínum?
5 Tímóteus var lærisveinn sem tileinkaði sér sannleikann á unga aldri. Páll postuli segir að hann hafi þekkt sannleikann frá blautu barnsbeini. Faðir hans var ekki í trúnni en móðir hans og amma voru Gyðingar og kenndu drengnum svo að hann fékk miklar mætur á Ritningunni. Hann hafði því sterka trú. (2. Tím. 1:5; 3:14, 15) Um eða upp úr tvítugt hafði Tímóteus náð þeim trúarþroska að hann var talinn hæfur til að taka að sér sérstök verkefni í söfnuðinum. – Post. 16:1-3.
6 Börn eru auðvitað ólík og eru misfljót að þroskast. Sum ná góðum tilfinninga- og hugarþroska tiltölulega ung að árum og vilja þá skírast. Önnur þurfa svolítið lengri tíma áður en þau eru tilbúin til að skírast. Skynugir foreldrar þrýsta því ekki á börnin sín að láta skírast heldur hjálpa þeim hverju um sig að styrkja sambandið við Jehóva í samræmi við eigin þroska og getu. Það gleður foreldra að sjá barnið taka til sín það sem stendur í Orðskviðunum 27:11. (Lestu.) Þeir ættu samt aldrei að missa sjónar á markmiðinu sem er að börnin verði lærisveinar Krists. Þeir ættu þess vegna að íhuga hvort barnið búi yfir nægri þekkingu til að geta vígst Guði og látið skírast.
HEFUR BARNIÐ MITT NÆGA ÞEKKINGU?
7. Þarf sá sem vill skírast að hafa tæmandi þekkingu á Biblíunni? Skýrðu svarið.
7 Foreldrar vilja kenna börnunum þannig að þau hafi næga þekkingu til að geta vígst Guði. Það er þó ekki nauðsynlegt að þekkja hverja einustu biblíukenningu í þaula til að geta vígst og látið skírast. Allir lærisveinar Krists þurfa að halda áfram að afla sér þekkingar eftir að þeir skírast. (Lestu Kólossubréfið 1:9, 10.) Hve mikil þekking er þá nauðsynleg áður en maður skírist?
8, 9. Hvaða lærdóm má draga af frásögunni af Páli og fangaverðinum?
8 Í Biblíunni er sagt frá fjölskyldu á fyrstu öld sem foreldrar geta dregið vissan lærdóm af. (Post. 16:25-33) Páll kom til Filippí í annarri trúboðsferð sinni um árið 50. Þar voru þeir Sílas, félagi hans, handteknir fyrir upplognar sakir og varpað í fangelsi. Um nóttina varð jarðskjálfti og við það opnuðust dyr fangelsisins. Fangavörðurinn hélt að fangarnir væru sloppnir og ætlaði að fyrirfara sér. Páll kallaði til hans og tókst að koma í veg fyrir það. Þeir Sílas kenndu fangaverðinum og fjölskyldu hans sannleikann um Jesú. Þau trúðu því sem þau höfðu lært, skildu mikilvægi þess og létu skírast án þess að hika. Hvað má læra af þessari frásögu?
9 Ekki er ólíklegt að fangavörðurinn hafi verið fyrrverandi hermaður. Hann var ekki kunnugur Ritningunni. Til að gerast kristinn þurfti hann að læra grundvallarsannindin, skilja hvað það felur í sér að þjóna Guði og vera staðráðinn í að fylgja kenningum Jesú. Hann var ekki lengi að læra undirstöðuatriðin og það sem hann lærði var honum hvatning til að láta skírast. Hann hélt eflaust áfram að auka við þekkingu sína eftir að hann skírðist. Hvað geturðu gert, með hliðsjón af þessu dæmi, þegar barn þitt lætur í ljós að það elskar Jehóva, vill hlýða honum og langar til að skírast? Þið foreldrarnir komist kannski að þeirri niðurstöðu að barnið geti talað við öldunga safnaðarins til að þeir kanni hvort það uppfylli þær kröfur sem þarf til að skírast.a Líkt og aðrir skírðir lærisveinar heldur barnið síðan áfram að auka við þekkingu sína á vilja Jehóva alla ævi, jafnvel að eilífu. – Rómv. 11:33, 34.
HVAÐA MENNTUN ER BARNINU FYRIR BESTU?
10, 11. (a) Hvernig hafa einstaka foreldrar hugsað? (b) Hvað er mikilvægt fyrir foreldra að hafa í huga?
10 Einstaka foreldrar hafa hugsað sem svo að það sé barni sínu fyrir bestu að bíða með skírn þangað til það sé búið að afla sér framhaldsmenntunar og hafi fundið sér örugga vinnu. Foreldrarnir vilja eflaust vel en spurningin er hvort þetta stuðli að velgengni í lífinu. Samræmist það Biblíunni að hugsa þannig? Hvernig vill Jehóva að við notum líf okkar? – Lestu Prédikarann 12:1.
11 Það er mikilvægt að hafa hugfast að heimurinn og allt sem tilheyrir honum er andsnúið hagsmunum og hugsunarhætti Jehóva. (Jak. 4:7, 8; 1. Jóh. 2:15-17; 5:19) Náið samband við Jehóva er besta vörnin sem barnið getur haft gegn Satan, heiminum og óguðlegum hugsunarhætti hans. Ef foreldrar leggja ofuráherslu á veraldlega menntun og góða vinnu gæti það ruglað barnið í ríminu og stofnað sambandi þess við Jehóva í hættu. Varla vilja kærleiksríkir foreldrar leyfa heiminum að stjórna því hvernig börnin líta á farsæld og velgengni. Sannleikurinn er sá að sönn hamingja og velgengni byggist á því að láta Jehóva skipa fyrsta sætið í lífinu. – Lestu Sálm 1:2, 3.
HVAÐ EF BARNIÐ MITT SYNDGAR?
12. Hvers vegna hafa sumir foreldrar viljað að börnin frestuðu því að skírast?
12 Móðir nokkur sagðist hafa latt dóttur sína þess að skírast og meginástæðan hafi verið óttinn við að henni yrði eitthvað á og kynni að vera vikið úr söfnuðinum. Hún sagðist skammast sín fyrir að hafa hugsað þannig. Sumir foreldrar hafa hugsað sem svo að það væri betra að börnin biðu með að skírast þangað til þau væru vaxin upp úr því að gera heimskuleg og barnaleg mistök. (1. Mós. 8:21; Orðskv. 22:15) Þeir hugsa sem svo að það sé ekki hægt að víkja barninu úr söfnuðinum ef það er ekki búið að skírast. Hvað er rangt við þennan hugsunarhátt? – Jak. 1:22.
13. Þarf maður síður að bera ábyrgð á gerðum sínum ef maður er óskírður? Skýrðu svarið.
13 Kristnir foreldrar vilja auðvitað ekki að barnið þeirra skírist fyrr en það er nógu þroskað til að vígjast Jehóva. Það er hins vegar misskilningur að ætla að barn þurfi ekki að standa Jehóva reikningsskap gerða sinna fyrr en það hefur látið skírast. Af hverju? Ef barnið veit hvað er rétt og rangt í augum Jehóva þarf það að bera ábyrgð á gerðum sínum. (Lestu Jakobsbréfið 4:17.) Skynsamir foreldrar letja ekki börnin sín þess að skírast heldur leggja sig fram um að vera þeim góð fyrirmynd. Þeir vilja að börnin læri að virða háleitar siðferðisreglur Jehóva allt frá unga aldri. (Lúk. 6:40) Ef barnið elskar Jehóva langar það til að gera það sem er rétt í augum hans. Það er besta vörnin gegn því að syndga. – Jes. 35:8.
AÐRIR GETA AÐSTOÐAÐ
14. Hvernig geta öldungarnir verið foreldrum stuðningur?
14 Öldungar safnaðarins geta verið foreldrunum stuðningur með því að tala á jákvæðum nótum við börnin um markmið í þjónustu Jehóva. Systir nokkur, sem var brautryðjandi í meira en 70 ár, minntist samtals sem bróðir Charles T. Russell átti við hana þegar hún var sex ára. „Hann gaf sér stundarfjórðung til að ræða við mig um markmið mín í þjónustu Jehóva,“ sagði hún. Jákvæð og hvetjandi orð geta haft langstæð áhrif. (Orðskv. 25:11) Öldungarnir geta líka boðið foreldrum og börnum að taka þátt í ýmsu sem gera þarf í ríkissalnum og gefið börnunum verkefni í samræmi við aldur þeirra og getu.
15. Hvað geta aðrir í söfnuðinum gert til að hvetja unga fólkið?
15 Aðrir í söfnuðinum geta lagt lið með því að sýna börnum og unglingum viðeigandi áhuga. Þeir geta til dæmis haft augun opin fyrir vísbendingum um að barnið sé að þroska samband sitt við Jehóva. Gaf það einlægt og úthugsað svar á samkomu eða var það með verkefni á samkomunni í miðri viku? Hefur barnið staðist prófraun eða gripið tækifæri til að vitna um trúna í skólanum? Hrósaðu þá barninu í einlægni. Þú gætir haft það sem markmið að sýna áhuga þinn með því að tala við barn eða ungling fyrir eða eftir samkomu. Með þessum hætti og öðrum geturðu sýnt börnunum að þau tilheyri einstökum „stórum söfnuði“. – Sálm. 35:18.
HJÁLPAÐU BARNINU AÐ STEFNA AÐ SKÍRN
16, 17. (a) Hvers vegna er mikilvægt að börnin okkar skírist? (b) Hvaða gleði geta kristnir foreldrar hlotið? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
16 Kristnir foreldrar geta varla hlotið meiri heiður en þann að ala upp barn „með aga og fræðslu um Drottin“. (Ef. 6:4: Sálm. 127:3) Börnin eru ekki vígð Jehóva frá fæðingu, ólíkt því sem var í Ísrael forðum daga. Og börnin elska ekki Jehóva og sannleikann sjálfkrafa þó að foreldrarnir geri það. Allt frá því að þau fæðast ættu foreldrarnir að hafa það markmið að gera þau að lærisveinum svo að þau vígist Jehóva og láti skírast. Er eitthvað mikilvægara en það? Hver og einn þarf að vígjast, skírast og þjóna Jehóva dyggilega til að eiga von um að komast lifandi úr þrengingunni miklu sem er fram undan. – Matt. 24:13.
17 Þegar Blossom Brandt komst að þeirri niðurstöðu að hún vildi skírast vildu foreldrar hennar fullvissa sig um að hún væri tilbúin til að stíga þetta mikilvægasta skref ævinnar. Þegar þau höfðu gengið úr skugga um það studdu þau hana heils hugar. Blossom segir frá því sem pabbi hennar gerði kvöldið áður en hún skírðist: „Hann lét okkur öll krjúpa á kné og fór með bæn. Hann sagði Jehóva hve glaður hann væri að litla stúlkan sín skyldi hafa ákveðið að vígja honum líf sitt.“ Meira en 60 árum síðar sagði Blossom: „Eitt er víst að ég gleymi aldrei þessu kvöldi.“ Þið foreldrar, megið þið verða þeirrar gleði og ánægju aðnjótandi að sjá börnin ykkar vígjast og skírast sem þjónar Jehóva.
a Í bókinni Spurningar unga fólksins – svör sem duga, 2. bindi, bls. 304-310, er að finna gagnlegt efni sem foreldrar geta farið yfir með börnum sínum. Sjá einnig „Spurningakassann“ í Ríkisþjónustu okkar í apríl 2011, bls. 2.