Orð Jehóva eflist!
„Þannig breiddist orð [Jehóva] út og efldist í krafti hans.“ — POSTULASAGAN 19:20.
1. Hvaða hluta Postulasögunnar verður farið yfir í þessari grein?
JEHÓVA var að opna dyr til verka. Sér í lagi Páll, „postuli heiðingja,“ átti að vera þar í fremstu víglínu. (Rómverjabréfið 11:13) Er við höldum áfram að athuga Postulasöguna rekumst við á Pál á spennandi trúboðsferðum. — Postulasagan 16:6-19:41.
2. (a) Hvernig þjónaði Páll postuli sem innblásinn ritari á árabilinu 50-56? (b) Hvað gerðist er Guð blessaði þjónustu Páls og annarra?
2 Páll fékk einnig innblástur frá Guði til skrifta. Á árabilinu 50 til 56 sendi hann 1. og 2. Þessaloníkubréf frá Korintu, Galatabréfið frá sama stað eða Antíokkíu í Sýrlandi, 1. Korintubréf frá Efesus, 2. Korintubréf frá Makedóníu og Rómverjabréfið frá Korintu. Og Guð blessaði þjónustu Páls og annarra með þeim afleiðingum að ‚orð Jehóva breiddist út og efldist í krafti hans.‘ — Postulasagan 19:20.
Frá Asíu til Evrópu
3. Hvernig gáfu Páll og förunautar hans gott fordæmi í tengslum við leiðsögn heilags anda?
3 Páll og félagar hans settu gott fordæmi í því efni að viðurkenna handleiðslu heilags anda. (16:6-10) Ef til vill með draumum, sýnum eða með því að láta heyrast rödd, kom andinn í veg fyrir að þeir prédikuðu í skattlandinu Asíu og héraðinu Biþýníu, sem síðar fékk að heyra fagnaðarerindið. (Postulasagan 18:18-21; 1. Pétursbréf 1:1, 2) Hvers vegna kom andinn í veg fyrir að þeir færu þangað? Verkamennirnir voru fáir og andinn beindi þeim á frjósamari akra í Evrópu. Eins er það núna að vottar Jehóva prédika annars staðar ef eitt svæði er þeim lokað, í þeirri vissu að andi Guðs mun leiða þá til sauðumlíkra manna.
4. Hvernig brást Páll við er hann sá makedónskan mann í sýn biðja um hjálp?
4 Páll og félagar hans „fóru þá um“ Mýsíu, sem er hérað í Litlu-Asíu, í trúboðsstarfinu. Þá sá Páll í sýn makedónskan mann biðja um hjálp. Trúboðarnir fóru því þegar í stað til Makedóníu, héraðs á Balkanskaga. Á svipaðan hátt knýr heilagur andi marga votta nú á dögum til að þjóna þar sem mikil þörf er fyrir boðbera Guðsríkis.
5. (a) Hvernig má segja að orð Jehóva hafi eflst í Filippí? (b) Hvað er líkt með mörgum vottum nú á tímum og Lýdíu?
5 Orð Jehóva efldist í Makedóníu. (16:11-15) Í Filippí, nýlendu sem byggð var aðallega rómverskum borgurum, virðast hafa verið fáir Gyðingar og ekkert samkunduhús. Bræðurnir fóru því á „bænastað“ við á utan borgarinnar. Þar fundu þeir meðal annars Lýdíu frá Þýatíru, borg í Litlu-Asíu sem var þekkt fyrir litunariðn. Lýdía, sem kann að hafa verið trúskiptingur, seldi purpuralit eða efni og föt með purpuralit. Eftir að Lýdía og heimilisfólk hennar lét skírast sýndi hún svo mikla gestrisni að Lúkas skrifaði að hún hefði ‚fylgt því fast fram‘ að þeir dveldust í húsi hennar. Við metum mikils slíkar systur nú á dögum.
Fangavörður tekur trú
6. Hvernig leiddi starfsemi illra anda til þess að Páli og Sílasi var varpað í fangelsi í Filippí?
6 Satan hlýtur að hafa verið ævareiður yfir því hvernig andlegum málum fór fram í Filippí, því að starf illra anda þar leiddi til þess að Páli og Sílasi var varpað í fangelsi. (16:16-24) Svo dögum skipti hafði elt þá stúlka sem hafði „spásagnaranda“ (bókstaflega „pýtonanda“). Illi andinn kann að hafa komið fram í gervi Pýtons Apollós, guðs sem höggormur, er kallaðist pýton, átti að hafa drepið. Stúlkan aflaði húsbændum sínum mikils fjár með spásögnum sínum. Hún kann að hafa sagt bændum hvenær þeir ættu að sá og gróðursetja, stúlkum hvenær þær ættu að giftast og gullgröfurum hvar þeir skyldu leita gulls! Hún elti bræðurna á röndum og hrópaði: „Menn þessir eru þjónar Guðs hins hæsta, og boða þeir yður veg til hjálpræðis!“ Illa andanum kann að hafa gengið það til að láta líta út fyrir að spár hennar væru innblásnar af Guði, en illi andinn hafði engan rétt til að koma með yfirlýsingar um Jehóva og hjálpræðisráðstöfun hans. Páll þreyttist á ásókn illa andans og rak hann út í nafni Jesú. Er ábatavon húsbænda stúlkunnar var horfin drógu þeir Pál og Sílas á torgið þar sem þeir voru húðstrýktir. (2. Korintubréf 11:25) Síðan var þeim varpað í fangelsi og felldur stokkur á fætur þeirra. Hægt var með slíkum tólum að þvinga fætur manna sundur sem gat verið mjög kvalafullt.
7. Hverjum var fangavist Páls og Sílasar í Filippí til blessunar og hvernig?
7 Fangelsun þeirra var fangaverðinum og fjölskyldu hans til blessunar. (16:25-40) Um miðnæturskeið voru Páll og Sílas að biðjast fyrir og syngja Guði lof í trausti þess að hann væri með þeim. (Sálmur 42:9) Skyndilega varð jarðskjálfti sem opnaði dyr og leysti alla fjötra er hlekkir losnuðu frá veggjum eða bjálkum. Fangavörðurinn óttaðist dauðadóm nú er fangarnir væru sloppnir. Hann var í þann mund að svipta sig lífi er Páll hrópaði: „Gjör þú sjálfum þér ekkert mein, vér erum hér allir!“ Hann leiddi Pál og Sílas út fyrir og spurði þá hvernig hann gæti orðið hólpinn. „Trú þú á Drottin Jesú,“ svöruðu þeir. Við það að heyra orð Jehóva „var hann þegar skírður og allt hans fólk.“ Það var mikið fagnaðarefni!
8. Hvað gerðu höfuðsmennirnir í Filippí og hverju gæti það skilað ef þeir viðurkenndu mistök sín opinberlega?
8 Næsta dag sendu höfuðsmennirnir boð um að Páll og Sílas skyldu leystir úr haldi. En Páll sagði: ‚Þeir létu húðstrýkja okkur, rómverska menn, án dóms og laga og varpa í fangelsi. Ætla þeir nú leynilega að hleypa okkur út? Þeir skulu koma sjálfir og leiða okkur út.‘ Ef höfuðsmennirnir viðurkenndu mistök sín opinberlega kynnu þeir að hika við að húðstrýkja eða fangelsa aðra kristna menn. Með því að höfuðsmennirnir höfðu ekki vald til að reka rómverska borgara úr bænum komu þeir og báðu bræðurna að fara. Trúboðarnir gerðu það ekki fyrr en þeir höfðu uppörvað trúbræður sína. Slíkur áhugi fær meðlimi hins stjórnandi ráðs nú á dögum og aðra fulltrúa þess til að heimsækja og uppörva þjóna Guðs um víða veröld.
Orð Jehóva eflist í Þessaloníku og Beroju
9. Með hvað aðferð, sem vottar Jehóva nota enn þann dag í dag, sýndi Páll fram á að Messías hefði átt að þjást og rísa upp frá dauðum?
9 Orð Guðs efldist nú í Þessaloníku, höfuðborg Makedóníu og helstu hafnarborg. (17:1-9) Páll rökræddi þar við Gyðinga og „setti þeim fyrir sjónir“ að Messías hafi átt að þjást og rísa upp frá dauðum. (Páll gerði það með því að bera saman spádómana og þá atburði sem uppfylltu þá, líkt og vottar Jehóva gera.) Við það létu sumir Gyðingar og margir trúskiptingar og aðrir sannfærast. Nokkrir öfundsjúkir Gyðingar fengu í lið með sér götuskríl en tókst ekki að finna Pál og Sílas. Þá drógu þeir Jason og nokkra fleiri bræður fyrir borgarstjórana og sökuðu þá um undirróður og upphlaup. Þetta voru upplognar sakir sem eru bornar upp á þjóna Jehóva enn þann dag í dag. En bræðrunum var sleppt eftir að þeir höfðu verið látnir „setja tryggingu.“
10. Af hvaða tilefni ‚rannsökuðu Gyðingar í Beroju Ritningarnar‘?
10 Þessu næst héldu Páll og Sílas til borgarinnar Beroju. (17:10-15) Þar ‚rannsökuðu Gyðingar vandlega‘ Ritningarnar líkt og vottar Jehóva hvetja menn til að gera nú á dögum. Þessir Berojumenn vantreystu ekki orðum Páls heldur rannsökuðu þeir Ritningarnar sjálfir til að sanna að Jesús væri Messías. Með hvaða árangri? Margir Gyðingar og nokkrir Grikkir (ef til vill trúskiptingar) tóku trú. Er Gyðingar frá Þessaloníku hleyptu ólgu og æsingu í múginn þar fylgdu bræðurnir Páli til strandar þar sem sumir úr hópnum fóru á skip, ef til vill til Píraeus (sem nú heitir Piraiévs), hafnarborgar Aþenu.
Orð Jehóva eflist í Aþenu
11. (a) Hvernig bar Páll djarflega vitni í Aþenu en hverjir áttu í orðastælum við hann? (b) Hvað var gefið í skyn með því að kalla Pál ‚skraffinn‘?
11 Í Aþenu var borið djarflega vitni. (17:16-21) Vegna orða Páls um Jesú og upprisuna tóku heimspekingar að eiga í orðastælum við hann. Sumir þeirra voru Epíkúringar sem lögðu áherslu á munað og vellíðan. Sumir voru Stóumenn en þeir lögðu áherslu á sjálfsaga. ‚Hvað ætli þessi skraffinnur hafi að flytja?‘ spurðu einhverjir. Orðið „skraffinnur“ (bókstaflega „fræplokkari“) gaf í skyn að Páll væri eins og fugl sem tíndi upp fræ og léti svo frá sér þekkingarmola en skorti visku. Aðrir sögðu: „Hann virðist boða ókennda guði.“ Það var alvörumál því að Sókrates hafði týnt lífi sökum slíkrar ákæru. Innan skamms var farið með Pál til Areópagusar (Mars- eða Aresarhæðar) í grennd við Akrópólis en hugsanlegt er að þar hafi hæstiréttur komið saman undir berum himni.
12. (a) Hvað einkenndi ræðu Páls við Areopagusardóminn? (b) Hvað benti Páll á í sambandi við Guð og með hvaða árangri?
12 Ræða Páls við Areópagusardóminn er afbragðsdæmi um áhrifaríkan inngang, rökfasta úrvinnslu og sannfærandi rökfærslu — eins og kennd er í Guðveldisskóla votta Jehóva. (17:22-34) Hann sagði að Aþenumenn væru trúhneigðari en margir aðrir. Þeir ættu sér meira að segja altari helgað „Ókunnum Guði,“ kannski til að forðast það að vanrækja nokkurn guðdóm! Páll talaði um skaparann sem ‚skóp af einum allar þjóðir manna‘ og ‚ákvað setta tíma og mörk bólstaða þeirra,‘ eins og þegar hann upprætti Kanverja. (1. Mósebók 15:13-21; Daníel 2:21; 7:12) Þennan Guð geta menn fundið „því að vér erum líka hans ættar,“ sagði Páll og vísaði þar til sköpunar mannsins með tilvitnun í ljóðskáld Aþeninga þá Aratus og Kleanþes. Sem ætt Guðs skyldum við ekki halda að hinn fullkomni skapari líktist skurðgoði gerðu af ófullkomnum mönnum. Guð hefur umborið slíka fávisku en nú boðar hann mannkyni að það skuli iðrast, því að hann hefur sett dag til að láta þann sem hann hefur valið dæma menn. Þar eð Páll hafði verið að ‚flytja fagnaðarerindið um Jesú‘ vissu áheyrendur hans að hann átti við að Kristur yrði þessi dómari. (Postulasagan 17:18; Jóhannes 5:22, 30) Það fór í taugarnar á Epíkúringum að minnst skyldi á iðrun og grískir heimspekingar gátu sætt sig við hugmyndina um ódauðleika en ekki dauða og upprisu. Sumir sögðu, líkt og margir sem núna yppa öxlum er þeir heyra fagnaðarerindið: ‚Við munum hlusta á þetta hjá þér öðru sinni.‘ En dómarinn Díónýsíus og fleiri tóku trú.
Orð Guðs eflist í Korintu
13. Hvernig sá Páll fyrir sér í þjónustunni og hvaða hliðstæður sjáum við nú á dögum?
13 Páll hélt nú til Korintu, höfuðborgar Akkeuhéraðs. (18:1-11) Þar fann hann Akvílas og Priskillu sem komið höfðu þangað er Kládíus keisari skipaði Gyðingum, sem ekki voru rómverskir borgarar, að yfirgefa Róm. Páll sá sér farborða í þjónustunni með því að vinna að tjaldgerð ásamt þessum kristnu hjónum. (1. Korintubréf 16:19; 2. Korintubréf 11:9) Það var erfiðisvinna að skera og sauma dúk úr stríðu geitahári. Á sama hátt sjá vottar Jehóva fyrir sér með veraldlegri vinnu, en þjónustan er köllun þeirra.
14. (a) Hvað gerði Páll er Gyðingar stóðu gegn honum í Korintu? (b) Hvernig var Páll fullvissaður um að hann ætti að vera áfram í Korintu en hvernig er þjónum Jehóva leiðbeint nú á dögum?
14 Gyðingar í Korintu héldu áfram að lastmæla Páli er hann boðaði Messíasardóm Jesú. Hann hristi því klæði sín til að lýsa ábyrgð af sér gagnvart þeim og tók að halda samkomur í húsi Títusar Jústusar sem líklega var rómverskur. Margir (meðal annarra Krispus, fyrrum samkundustjóri og heimili hans) tóku trú og létu skírast. Fjandskapur Gyðinga vakti efasemdir með Páli um að rétt væri að dvelja áfram í Korintu, en sá efi var þurrkaður út er Drottinn sagði honum í sýn: ‚Óttast eigi, heldur tala þú, því að ég er með þér og enginn skal vinna þér mein. Ég á margt fólk í þessari borg.‘ Páll hélt því áfram að kenna orð Guðs þar, alls í eitt og hálft ár. Þótt þjónar Jehóva fái ekki sýnir nú á dögum geta þeir á sama hátt tekið viturlegar ákvarðanir er tengjast hagsmunum Guðsríkis, bæði með því að biðja og lúta handleiðslu heilags anda.
15. Hvað gerðist er Páll var leiddur fyrir Gallíon landstjóra?
15 Gyðingar leiddu Pál fyrir Júníus Gallíon landstjóra. (18:12-17) Þeir gáfu í skyn að Páll væri að vinna að trúboði með ólöglegum hætti — en þetta er ósönn ákæra sem grískir prestar beina nú gegn vottum Jehóva. Gallíon var ljóst að Páll var ekki sekur um nein illræði og að Gyðingum stóð mikið til á sama um lög Rómar og velferð, þannig að hann rak þá burt. Er áhorfendur tóku Sósþenes, nýja samkundustjórann og börðu hann, lét Gallíon sig það engu skipta. Hann hugsaði kannski sem svo að sá sem virtist forsprakki skrílslátanna gegn Páli fengi þar makleg málagjöld.
16. Hvers vegna var við hæfi að Páll léti skera hár sitt í tengslum við heit?
16 Páll sigldi nú frá hafnarborginni Kenkreu við Eyjahaf til Efesus, borgar í Litlu-Asíu. (18:18-22) Fyrir ferðina ‚lét hann skera hár sitt því að heit hafði hvílt á honum.‘ Ósagt er látið hvort Páll gerði þetta heit áður en hann gerðist fylgjandi Jesú og eins hvort um var að ræða upphaf eða endi þess tímabils sem heitið stóð. Kristnir menn eru ekki undir lögmálinu en það var gefið af Guði og heilagt og því var ekkert syndsamlegt við það að vinna slíkt heit. (Rómverjabréfið 6:14; 7:6, 12; Galatabréfið 5:18) Í Efesus rökræddi Páll við Gyðinga og hét að koma aftur ef Guð vildi. (Hann stóð við það loforð síðar.) Annarri trúboðsferðinni lauk er hann sneri aftur til Antíokkíu í Sýrlandi.
Orð Jehóva eflist í Efesus
17. Hvaða leiðbeiningar þurftu Apollós og fleiri að fá varðandi skírnina?
17 Páll lagði fljótlega upp í þriðju trúboðsferð sína (um 52-56). (18:23-19:7) Á meðan var Apollós að kenna um Jesú í Efesus en þekkti aðeins skírn Jóhannesar til tákns iðrunar vegna synda gegn lagasáttmálanum. Priskilla og Akvílas „skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg,“ líklega með því að sýna fram á að skírn að fyrirmynd Jesú væri niðurdýfingarskírn og eftir hana fengju menn hlutdeild í hinum úthellta heilaga anda. Eftir að skírn með heilögum anda átti sér stað á hvítasunnunni árið 33 þurfti hver sá, sem skírður var skírn Jóhannesar, að skírast á ný í nafni Jesú. (Matteus 3:11, 16; Postulasagan 2:38) Síðar, í Efesus, létu um tólf karlmenn, Gyðingar, „skírast til nafns Drottins Jesú,“ en þeir höfðu aðeins tekið skírn Jóhannesar. Það er eina endurskírnin sem Ritningin segir frá. Er Páll lagði hendur yfir þá fengu þeir heilagan anda og tvö undraverð tákn um viðurkenningu af himni ofan — tungutal og spádómsgáfur.
18. Hvar bar Páll vitni í Efesus og með hvaða árangri?
18 Páll hafði sannarlega nóg að gera í Efesus þar sem íbúar voru um 300.000. (19:8-10) Musteri gyðjunnar Artemisar þar í borg var eitt af hinum sjö undrum veraldar til forna og leikhúsið tók 25.000 manns í sæti. Í samkundunni ‚reyndi Páll að sannfæra menn‘ með því að koma fram með sannfærandi rök, en dró sig í hlé er sumir tóku að illmæla veginum, þeim lífsvegi sem byggðist á trú á Krist. Í tvö ár talaði Páll daglega í skóla Týranusar og ‚orðið‘ breiddist út um allt Asíuhérað.
19. Hvað gerðist í Efesus sem olli því að ‚orð Jehóva breiddist út og efldist í krafti hans‘ þar?
19 Guð sýndi velþóknun sína á starfi Páls með því að gera honum fært að lækna og reka út illa anda. (19:11-20) En hinum sjö sonum æðsta prestsins Skeva mistókst að reka út illan anda í nafni Jesú, vegna þess að þeir voru ekki fulltrúar Guðs og Krists. Maðurinn, sem haldinn var illa andanum, særði þá meira að segja! Við þetta sló ótta á menn „og nafn Drottins Jesú varð miklað.“ Margir tóku trú, sneru baki við kukli sínu og brenndu opinberlega bækur sem innihéldu særingaþulur eða töfraformúlur. „Þannig,“ skrifaði Lúkas, „breiddist orð [Jehóva] út og efldist í krafti hans.“ Nú á dögum hjálpa þjónar Guðs fólki líka að losna úr fjötrum djöfladýrkunar. — 5. Mósebók 18:10-12.
Trúarlegt umburðarleysi megnar ekkert
20. Hvers vegna æstu silfursmiðirnir í Efesus til uppþots og hvernig var endi bundinn á það?
20 Vottar Jehóva hafa oft staðið frammi fyrir æstum skríl og það gerðu kristnir menn í Efesus líka. (19:21-41) Er trúuðum fjölgaði tóku Demetríus og aðrir silfursmiðir að tapa fé því að færri keyptu nú silfurlíkneski þeirra af frjósemisgyðjunni Artemis. Demetríus æsti til uppþots og farið var með förunauta Páls, þá Gajus og Aristarkus, í leikhúsið en lærisveinarnir leyfðu Páli ekki að fara þangað. Jafnvel sumir af höfðingjum, sem höfðu umsjón með hátíðum og leikjum, báðu hann um að hætta sér ekki inn á leikvanginn. Í um það bil tvær stundir æpti lýðurinn: „Mikil er Artemis Efesusmanna!“ Loks tókst borgarritaranum (sem var æðsti maður borgarstjórnar) að sefa lýðinn og benda iðnaðarmönnunum á að þeir ættu að bera kærur sínar upp við landstjórann en hann hafði vald til að fella dóma; þá yrði skorið úr máli þeirra „á löglegu þingi“ borgara. Ella kynni Róm að saka þá sem þarna voru samankomnir um uppþot. Síðan lét hann þá fara.
21. Hvernig blessaði Guð starf Páls og hvernig blessar hann starf votta Jehóva nú á dögum?
21 Guð hjálpaði Páli að horfast í augu við margs kyns þrengingar og blessaði viðleitni hans til að hjálpa fólki að hafna trúarlegum villum og taka við sannleikanum. (Samanber Jeremía 1:9, 10.) Við megum vera mjög þakklát fyrir að himneskur faðir okkar skuli blessa starf okkar með svipuðum hætti! Þannig heldur ‚orð Jehóva áfram að breiðast út og eflast í krafti hans,‘ eins og var á fyrstu öld.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvaða fordæmi setti Páll í því að lúta handleiðslu heilags anda?
◻ Hvaða aðferð, sem þjónar Jehóva nota enn, beitti Páll til að sanna mál sitt og skýra?
◻ Hvað er hliðstætt með viðbrögðunum við ræðu Páls á Areopagusarhæð og prédikun votta Jehóva?
◻ Hvernig sá Páll fyrir sér í þjónustunni og hvaða hliðstæðu á það sér nú á dögum?
◻ Hvernig hefur Guð blessað starf votta Jehóva nú á dögum eins og hann blessaði starf Páls?
[Myndir á blaðsíðu 14]
Orð Jehóva efldist í . . .
1. Filippí
2. og 3. Aþenu
4. og 6. Efesus
5. Róm.
[Rétthafi]
Mynd nr. 4: Manley Studios