Þreytum kapphlaupið af þolgæði
„Þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.“ — HEBREABRÉFIÐ 12:1.
1. (a) Hvað erum við látin hefja er við vígjum okkur Jehóva Guði? (b) Hvers konar kapphlaup verður kristinn maður að búa sig undir?
ÞEGAR við vígðum okkur Jehóva fyrir milligöngu Jesú Krists lét hann okkur, táknrænt talað, hefja kapphlaup. Í lok þess verður öllum sem ljúka því farsællega veitt verðlaun. Hvaða verðlaun? Eilíft líf. Til að vinna þessi stórfenglegu verðlaun verður kristinn hlaupari að vera undirbúinn, ekki aðeins fyrir stutt spretthlaup heldur langhlaup eða þolhlaup. Hann þarf því að hafa úthald. Hann þarf að þola bæði langvarandi áreynslu keppninnar sjálfrar og þær hindranir sem verða á vegi hans á leiðinni.
2, 3. (a) Hvað mun hjálpa okkur að ljúka hinu kristna kapphlaupi? (b) Hvernig hjálpaði gleðin Jesú að þreyta kapphlaupið af þolgæði?
2 Hvað hjálpar okkur að ljúka slíku kapphlaupi? Hvað hjálpaði Jesú að halda út er hann var maður hér á jörðinni? Hann sótti innri styrk í gleðina. Í Hebreabréfinu 12:1-3 lesum við: „Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan. Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs. Virðið hann fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast.“
3 Vegna gleðinnar frá Jehóva var Jesús fær um að þreyta skeið sitt alla opinbera þjónustutíð sína. (Samanber Nehemía 8:10.) Gleði hans hjálpaði honum að þola jafnvel smánarlegan dauðdaga á kvalastaur. Síðan fékk hann að reyna þá ólýsanlegu gleði að rísa upp frá dauðum og stíga upp til hægri handar föður sínum til að fullgera þaðan verk Guðs. Með þolgæði sínu sem maður er stóð með Guði hélt hann rétti sínum til eilífs lífs. Já, eins og Lúkas 21:19 segir: „Verið þrautseigir og þér munuð ávinna sálir yðar.“
4. Hvers konar fordæmi setti Jesús meðhlaupurum sínum og hvað ættum við að hafa hugfast?
4 Jesús Kristur setti meðhlaupurum sínum besta fordæmi sem hægt var og fordæmi hans fullvissar okkur um að við getum einnig sigrað. (1. Pétursbréf 2:21) Það sem Jesús biður okkur að gera getum við gert. Við getum haldið út alveg eins og hann. Og er við höldum staðfastlega áfram að líkja eftir honum verðum við að hafa hugfastar ástæðurnar sem við höfum til að vera glöð. (Jóhannes 15:11, 20, 21) Gleðin mun styrkja okkur til að halda ótrauð áfram kapphlaupinu í þjónustu Jehóva þar til við höfum öðlast hin dýrlegu verðlaun, eilíft líf. — Kólossubréfið 1:10, 11.
5. Hvernig getum við glaðst og styrkst fyrir keppnina sem við eigum framundan?
5 Jehóva gefur okkur kraft umfram það sem eðlilegt er til að hjálpa okkur að halda kapphlaupinu ótrauð áfram. Þegar við erum ofsótt styrkir þessi kraftur okkur, svo og vitneskjan um hvers vegna við erum virt þess að vera ofsótt. (2. Korintubréf 4:7-9) Hvað sem við þurfum að þola fyrir að upphefja nafn Guðs og halda á lofti drottinvaldi hans er ástæða gleði sem enginn getur rænt okkur. (Jóhannes 16:22) Þetta skýrir hvers vegna postularnir glöddust „yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú,“ er þeir höfðu verið barðir að skipun æðstaráðs Gyðinga, fyrir að bera vitni um þá stórkostlegu hluti sem Jehóva Guð kom til leiðar í tengslum við Jesú. (Postulasagan 5:41, 42) Gleði þeirra var ekki sprottin af ofsóknunum sjálfum heldur þeirri djúpu innri fullnægjukennd sem fylgir því að vita sig vera að þóknast Jehóva og Jesú.
6, 7. Hvernig getur hinn kristni hlaupari fagnað jafnvel í þrengingum og með hvaða árangri?
6 Annar stuðningskraftur í lífi okkar er vonin sem Guð hefur gefið okkur. Eins og Páll sagði: „Réttlættir af trú höfum vér því frið við Guð fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Fyrir hann höfum vér aðgang að þeirri náð, sem vér lifum í, og vér fögnum í von um dýrð Guðs. En ekki það eitt: Vér fögnum líka í þrengingunum, með því að vér vitum, að þrengingin veitir þolgæði, en þolgæðið fullreynd, en fullreyndin von. En vonin bregst oss ekki.“ — Rómverjabréfið 5:1-5.
7 Þrengingarnar sjálfar eru ekkert gleðiefni heldur þeir friðsælu ávextir sem þær gefa af sér eftir á. Þessir ávextir eru þolgæði, fullreynd, von og efnd þeirrar vonar. Þolgæði af okkar hálfu leiðir til þess að við öðlumst velþóknun Guðs. Þegar við höfum velþóknun Guðs getum við af öryggi vænst uppfyllingar loforða hans. Þessi von heldur okkur á réttri braut og hughreystir okkur í þrengingum þar til vonin rætist. — 2. Korintubréf 4:16-18.
Sælir eru þolgóðir!
8. Hvers vegna er biðtíminn ekki tímasóun fyrir okkur?
8 Við tökum ýmsum breytingum meðan við bíðum tímans sem Guð hefur sett til að deila út verðlaununum til hlauparanna. Þessar breytingar eru andlegar framfarir okkar sem eru afleiðing þess að við mætum prófraunum á árangursríkan hátt og þær veita okkur sérstaka velþóknun Guðs. Þær sýna hvaða mann við höfum að geyma og gefa okkur tækifæri til að iðka sömu góðu eiginleikana og trúfastir menn í fortíðinni sýndu, einkanlega fyrirmynd okkar, Jesús Kristur. Lærisveinninn Jakob segir: „Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir. Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði, en þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki, til þess að þér séuð fullkomnir og algjörir og yður sé í engu ábótavant.“ (Jakobsbréfið 1:2-4) Já, við megum búast við að mæta ýmiss konar raunum en þær koma okkur til að þroska viðeigandi eiginleika í fari okkar. Við sýnum þannig að við ætlum að halda kapphlaupinu áfram uns sigurlaunin eru unnin, sama hvaða hindranir verða á vegi okkar.
9, 10. (a) Hvers vegna eru þeir hamingjusamir sem halda út prófraunir og hvernig ættum við að mæta prófraunum? (b) Hverja úr fortíðinni teljum við sæla og hvernig getum við talist í þeirra hópi?
9 Það er því ekki að undra að Jakob skyldi segja: „Sæll er sá maður, sem stenst freistingu, því að þegar hann hefur reynst hæfur mun hann öðlast kórónu lífsins, sem Guð hefur heitið þeim er elska hann.“ (Jakobsbréfið 1:12) Mætum prófraunum af stefnufestu, vopnuð þeim guðlegu eiginleikum sem styrkja okkur til að standast þær. — 2. Pétursbréf 1:5-8.
10 Mundu að það er ekkert nýtt eða nýstárlegt hvernig Guð kemur fram við okkur núna. Hann kom eins fram við hinn trúfasta „fjölda votta“ fyrr á tímum er þeir reyndust samstíga honum. (Hebreabréfið 12:1) Velþóknun Guðs á þeim er látin í ljós í orði hans og við teljum þá alla sæla vegna þess að þeir stóðust prófraunir. Jakob segir: „Bræður, takið spámennina til fyrirmyndar, sem talað hafa í nafni Drottins og liðið illt með þolinmæði. Því vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið. Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir Drottinn gjörði á högum hans. Drottinn er mjög miskunnsamur og líknsamur.“ (Jakobsbréfið 5:10, 11) Það var sagt fyrir að á þessum síðustu og örðugu tímum myndu einhverjir koma fram á sjónarsvið heimsins sem þjónuðu Jehóva í ráðvendni, alveg eins og þessir spámenn gerðu fyrr á öldum. Erum við ekki ánægð að vera meðal þeirra sem gera það? — Daníel 12:3; Opinberunarbókin 7:9.
Sóttur styrkur í hughreystandi orð Jehóva
11. Hvernig getur orð Guðs hjálpað okkur að vera þolgóð og hvers vegna ættum við ekki að vera eins og grýtta jörðin í dæmisögu Jesú?
11 Páll benti á aðra hjálp til að vera þolgóð er hann sagði að „við, vegna þrautseigju, þolgæðis og þeirrar huggunar sem við sækjum í Ritningarnar, mættum halda fast í von okkar.“ (Rómverjabréfið 15:4, The Twentieth Century New Testament) Sannleikurinn, orð Guðs, verður að festa djúpar rætur í okkur til að laða fram rétt viðbrögð hjá okkur öllum stundum. Við högnumst alls ekkert á því að vera eins og grýtta jörðin sem lýst er í dæmisögu Jesú um sáðmanninn: „Það sem sáð var í grýtta jörð, það merkir þá sem taka orðinu með fögnuði, um leið og þeir heyra það, en hafa enga rótfestu. Þeir eru hvikulir og er þrenging verður síðan eða ofsókn vegna orðsins, bregðast þeir þegar.“ (Markús 4:16, 17) Sannleikurinn frá orði Guðs festir ekki djúpar rætur í slíkum einstaklingum. Þess vegna geta þeir ekki á þrengingatímum sótt styrk í orð Guðs sem er hin sanna uppspretta kraftar og vonar.
12. Hvað ættum við ekki að gera okkur falskar vonir um er við tökum á móti fagnaðarboðskapnum?
12 Enginn sem tekur á móti fagnaðarboðskapnum um ríkið ætti að gera sér falskar vonir um hvað fylgi því. Hann er að taka upp lífsstefnu sem hefur í för með sér þrengingar eða ofsóknir. (2. Tómóteusarbréf 3:12) En hann ætti að álíta það „eintómt gleðiefni“ að fá þau sérréttindi að þola ýmsar raunir fyrir að halda fast við orð Guðs og tala um það við aðra. — Jakobsbréfið 1:2, 3.
13. Hvernig og hvers vegna gladdist Páll yfir kristnum mönnum í Þessaloníku?
13 Á fyrstu öldinni efndu andstæðingar í Þessaloníku til uppþota vegna prédikunar Páls. Þegar hann fór til Beroju eltu þessir ofsækjendur hann þangað til að stofna til meiri vandræða. Hinn ofsótti postuli skrifaði trúföstum einstaklingum sem urðu eftir í Þessaloníku: „Skylt er oss, bræður, og maklegt að þakka Guði ætíð fyrir yður, því að trú yðar eykst stórum og kærleiki yðar allra hvers til annars fer vaxandi. Því getum vér hrósað oss af yður í söfnuðum Guðs fyrir þolgæði yðar og trú í öllum ofsóknum yðar og þrengingum þeim, er þér þolið. Þær eru augljóst merki þess, að Guð dæmir rétt og mun álíta yður maklega Guðs ríkis, sem þér nú líðið illt fyrir.“ (2. Þessaloníkubréf 1:3-5) Þrátt fyrir þjáningarnar, sem Þessaloníkumenn máttu þola af óvinahendi, fjölgaði þeim og þeir tóku framförum í að líkja eftir Kristi. Hvernig var það mögulegt? Með því að sækja styrk í hughreystandi orð Jehóva. Þeir hlýddu skipunum Drottins og þreyttu kapphlaupið af þolgæði. — 2. Þessaloníkubréf 2:13-17.
Öðrum til hjálpræðis
14. (a) Af hvaða ástæðum höldum við glöð áfram þjónustu okkar þrátt fyrir erfiðleika? (b) Hvers biðjum við og hvers vegna?
14 Við þolum erfiðleika og ofsóknir trúfastlega og möglunarlaust fyrst og fremst til réttlætingar Guði. En það er líka önnur óeigingjörn ástæða fyrir því að við sættum okkur við slíkt: Við viljum geta flutt öðrum fagnaðartíðindin um ríkið svo hægt sé að fjölga boðberum Guðsríkis sem ‚með munninum játa til hjálpræðis.‘ (Rómverjabréfið 10:10) Þeir sem eru að þjóna Guði ættu að biðja þess að herra uppskerunnar blessi verk þeirra með því að sjá fyrir fleiri boðberum Guðsríkis. (Matteus 9:38) Páll skrifaði Tímóteusi: „Það sem þú heyrðir mig tala í margra votta viðurvist, það skalt þú fá í hendur trúum mönnum, sem líka munu færir um að kenna öðrum. Þú skalt og að þínu leyti illt þola, eins og góður hermaður Krists Jesú.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:2, 3.
15. Hvers vegna verðum við að hegða okkur eins og hermenn og keppendur „í íþróttum“?
15 Hermaður segir skilið við líferni óbreytts borgara sem setur mönnum færri skorður. Við megum ekki heldur flækja okkur í málefni þeirra sem eru ekki í hersveit Drottins og eru í rauninni andstæðingar. Af þeim sökum hélt Páll áfram í bréfi sínu til Tímóteusar: „Enginn hermaður bendlar sig við atvinnustörf. Þá þóknast hann ekki þeim, sem hefur tekið hann á mála. Og sá sem keppir í íþróttum fær ekki sigursveiginn, nema hann keppi löglega.“ (2. Tímóteusarbréf 2:4, 5) Keppendurnir verða að iðka sjálfstjórn og forðast að íþyngja sér að óþörfu er þeir berjast til sigurs í kapphlaupinu um „kórónu lífsins.“ Þannig geta þeir einbeitt sér að því að bera öðrum fagnaðarerindi hjálpræðisins. — Jakobsbréfið 1:12; samanber 1. Korintubréf 9:24, 25.
16. Hvað er ekki hægt að fjötra, og hverjum er það til gagns að við erum þolgóð?
16 Með ánægju þolum við margt í þeim tilgangi að ná til annarra með hinar góðu hjálpræðisfréttir, vegna þess að við elskum Guð og sauðumlíka einstaklinga sem reyna að finna hann. Óvinir kunna að fjötra okkur fyrir að prédika orð Guðs. En það er ekki hægt að fjötra orð Guðs eða koma með hlekkjum í veg fyrir að talað sé um það öðrum til hjálpræðis. Páll lýsti fyrir Tímóteusi hvers vegna hann væri svo fús að mæta prófraunum: „Minnst þú Jesú Krists, hans sem risinn er upp frá dauðum, af kyni Davíðs, eins og boðað er í fagnaðarerindi mínu. Fyrir það líð ég illt og það jafnvel að vera í fjötrum eins og illvirki. En orð Guðs verður ekki fjötrað. Fyrir því þoli ég allt sakir hinna útvöldu, til þess að þeir einnig hljóti hjálpræðið, í Kristi Jesú með eilífri dýrð.“ (2. Tímóteusarbréf 2:8-10) Núna höfum við ekki aðeins í huga hinar litlu leifar þeirra sem vænta himneska ríkisins, heldur einnig hinn mikla múg annarra sauða góða hirðisins, Jesús Krists, sem öðlast líf í jarðneskri paradís í höndum ríkis Krists. — Opinberunarbókin 7:9-17.
17. Hvers vegna ættum við ekki að gefast upp í kapphlaupinu og hvaða árangur ber það ef við höldum áfram allt til enda?
17 Gæfumst við auðveldlega upp hjálpuðum við hvorki sjálfum okkur né nokkrum öðrum að hljóta hjálpræði. Með þolgæði í kristnu kapphlaupi okkar, óháð þeim hindrunum sem verða á veginum, getum við alltaf horft fram til verðlaunanna og getum bæði hjálpað öðrum beint að öðlast hjálpræði og verið þeim áhrifamikið fordæmi um styrk. Hvort sem von okkar er himnesk eða jarðnesk er viðhorf Páls að ‚keppa að markinu, til verðlaunanna‘ gott til eftirbreytni. — Filippíbréfið 3:14, 15.
Áframhaldandi staðfesta í kapphlaupinu
18. Hverju er það háð að við fáum verðlaunin en hvað þurfum við að forðast til að halda út allt til enda?
18 Áframhaldandi staðfesta okkar út í gegnum allt kapphlaupið ræður því hvort við ljúkum kristnum ferli okkar sigursæl, til réttlætingar Jehóva, og fáum verðlaunin sem hann geymir okkur. Við getum því ekki haldið út allt til enda ef við íþyngjum okkur með því sem þjónar ekki málstað réttlætisins. Jafnvel þótt við séum laus við allt slíkt eru kröfurnar enn svo miklar að þær kalla á alla þá hugprýði sem við getum byggt upp hjá okkur. Þess vegna ráðleggur Páll: ‚Léttum af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.‘ (Hebreabréfið 12:1) Við ættum, eins og Jesús, ekki að leggja of mikla áherslu á þjáningarnar sem við þurfum að þola heldur líta á þær sem lágt verð fyrir verðlaunin sem eru svo ánægjuleg. — Samanber Rómverjabréfið 8:18.
19. (a) Hvaða traust lét Páll í ljós nálægt ævilokum sínum? (b) Hvaða traust ættum við að hafa varðandi launin sem okkur er lofað er við nálgumst lokamark þolgæðiskapphlaupsins?
19 Nálægt ævilokum sínum gat Páll sagt: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna. Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins.“ (2. Tímóteusarbréf 4:7, 8) Við þreytum þetta þolgæðiskapphlaup til að öðlast eilíft líf í verðlaun. Ef þolgæði okkar fjarar út aðeins vegna þess að kapphlaupið er eitthvað lengra en við bjuggumst við í upphafi munum við gefast upp er við eigum skammt ófarið til að öðlast launin sem heitið er. Látum ekki villast. Á því leikur enginn vafi að launin bíða okkar þar.
20. Hver ætti að vera ásetningur okkar þar til lokamarkinu er náð?
20 Megi augu okkar því ekki þreytast á að bíða eftir að þrengingin mikla hefjist og tortími Babýlon hinni miklu og síðan því sem eftir er af skipulagi djöfulsins. (2. Pétursbréf 3:11, 12) Megum við, í ljósi allra hinna veigamiklu tákna allt í kringum okkur, horfa fram á við í trú. Gyrðum lendar okkar krafti þolgæðisins og höldum kapphlaupinu, sem Jehóva lætur okkur þreyta, áfram af hugrekki uns markinu er náð og hin ánægjulegu verðlaun eru fallin okkur í skaut, til upphafningar Jehóva fyrir milligöngu Jesú Krists.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvers konar kapphlaup verður kristinn maður að búa sig undir?
◻ Hvers vegna er gleði svo mikilvæg í kapphlaupinu?
◻ Hverjar eru helstu ástæðurnar fyrir því að við höldum þjónustu okkar áfram þrátt fyrir erfiðleika?
◻ Hvers vegna ættum við ekki að gefast upp í kapphlaupinu sem Guð lætur okkur þreyta?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Kristnir menn þurfa að hafa úthald eins og væru þeir í langhlaupi.
[Mynd á blaðsíðu 30]
Hlauparar sem seilast eftir „kórónu lífsins“ verða að iðka sjálfstjórn.