27. KAFLI
„Góðvild þín er sannarlega mikil!“
1, 2. Hversu víðtæk er góðvild Guðs og hvernig leggur Biblían áherslu á það?
NOKKRIR glaðværir vinir dást að kvöldsólinni meðan þeir borða saman úti í guðsgrænni náttúrunni. Bóndi horfir yfir akra sína og brosir af ánægju er hann sér regnskýin hrannast upp og fyrstu dropana falla úr lofti yfir þurra moldina. Foreldrar horfa himinlifandi á barnið sitt stíga fyrstu skrefin óstyrkt fótum.
2 Allt þetta fólk nýtur góðs af góðvild Jehóva Guðs, hvort sem það gerir sér grein fyrir því eða ekki. Trúað fólk segir oft sem svo að „Guð sé góður“ en Biblían tekur dýpra í árinni. Hún segir: „Góðvild þín er sannarlega mikil!“ (Sálmur 31:19) En fáir virðast gera sér grein fyrir hvað þessi orð merkja. Hvað er eiginlega fólgið í góðvild Jehóva Guðs og hvaða áhrif hefur hún á alla menn?
Sterkur þáttur í kærleika Guðs
3, 4. Hvað er góðvild og hvers vegna er góðvild Jehóva best lýst sem merki um kærleika hans?
3 Orðið „góðvild“ er mjög merkingarríkt eins og það er notað í Biblíunni þó að það sé fremur innihaldslítið í mörgum tungumálum. Það lýsir fyrst og fremst dyggð og siðferðilegu ágæti. Það má því segja í vissum skilningi að Jehóva sé fullur góðvildar. Allir eiginleikar hans eru algóðir, þar á meðal máttur hans, réttlæti og viska. En góðvildinni er best lýst sem merki um kærleika hans. Hvers vegna?
4 Góðvild er eiginleiki sem birtist í verki. Páll postuli bendir á að hún höfði mun sterkar til fólks en réttlæti. (Rómverjabréfið 5:7) Það má treysta réttlátum manni til að fylgja lögum í hvívetna en góður maður gerir meira en það. Hann tekur frumkvæðið og leitar færis að gera öðrum gott. Jehóva er vissulega góður í þeim skilningi eins og við munum sjá. Ljóst er að góðvild Jehóva á sér rætur í takmarkalausum kærleika hans.
5–7. Af hverju vildi Jesús ekki láta kalla sig ‚góðan kennara‘ og hvaða mikilvægu sannindi staðfesti hann með því?
5 Góðvild Jehóva ber líka af. Skömmu áður en Jesús dó kom til hans maður sem spurði hann spurningar. Maðurinn ávarpaði hann: „Góði kennari.“ Jesús svaraði: „Hvers vegna kallarðu mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.“ (Markús 10:17, 18) Þetta kann í fyrstu að virðast undarlegt svar. Af hverju var Jesús að leiðrétta manninn? Var Jesús ekki ‚góður kennari‘?
6 Ljóst er að maðurinn notaði orðin „góði kennari“ sem titil til að smjaðra fyrir Jesú. Jesús sýndi þá hógværð að beina slíkum heiðri að föður sínum á himnum því að hann er góður í æðsta skilningi. (Orðskviðirnir 11:2) En Jesús var einnig að staðfesta mikilvæg sannindi. Jehóva einn er mælikvarðinn á hvað sé gott. Hann einn hefur skilyrðislausan rétt til að ákveða hvað sé gott og hvað illt. Adam og Eva reyndu að taka sér þennan rétt þegar þau gerðu uppreisn og borðuðu ávöxt af skilningstré góðs og ills. Jesús sýnir þá auðmýkt, ólíkt þeim, að eftirláta föður sínum að setja staðla og mælikvarða.
7 Jesús vissi að Jehóva er uppspretta alls sem gott er. „Sérhver góð og fullkomin gjöf“ er frá honum komin. (Jakobsbréfið 1:17) Við skulum kanna hvernig góðvild Jehóva birtist í örlæti hans.
Merki um ríkulega góðvild Jehóva
8. Hvernig hefur Jehóva sýnt öllu mannkyni góðvild?
8 Allir menn hafa notið góðs af góðvild Jehóva allt frá öndverðu. Sálmur 145:9 segir: „Jehóva er öllum góður.“ Postulasagan 14:17 nefnir dæmi um hina miklu góðvild hans: „En [hann] hefur þó vitnað um sjálfan sig með góðverkum sínum. Hann hefur gefið ykkur regn af himni og uppskerutíma, veitt ykkur næga fæðu og fyllt hjörtu ykkar gleði.“ Hefurðu tekið eftir hve upplífgandi það getur verið að borða ljúffenga máltíð? Ef Jehóva hefði ekki í góðvild sinni útbúið endalausa hringrás af fersku vatni og „uppskerutíma“ á jörðinni væri engar máltíðir að fá. Góðvild hans beinist að öllum, ekki aðeins að þeim sem elska hann. Jesús sagði: „Hann lætur sólina skína bæði á vonda og góða og rigna bæði yfir réttláta og rangláta.“ – Matteus 5:45.
9. Hvernig er eplið dæmi um góðvild Jehóva?
9 Margir taka þetta mikla örlæti sem sjálfsagðan hlut því að sólin heldur áfram að skína, regnið vökvar jörðina og uppskerutíðirnar koma hver af annarri. Lítum á eplið sem dæmi. Þetta er algengur ávöxtur sem vex víðast hvar í tempraða beltinu. En eplið er fallegt, ljúffengt og fullt af frískandi vatni og mikilvægum næringarefnum. Vissirðu að það vaxa um 7.500 afbrigði af eplum á jörðinni – rauð, gul, græn og allt þar á milli? Sum eru á stærð við greipaldin en önnur lítið stærri en kirsuber. Það fer ekki mikið fyrir eplafræi milli fingra þér en tréð, sem vex af því, er meðal fegurstu trjáa. (Ljóðaljóðin 2:3) Það skartar dásamlegu blómskrúði að vori og ber ávöxt að hausti. Á hverju ári, í allt að 75 ár, getur eitt eplatré borið nægan ávöxt til að fylla 20 kassa með tæplega 20 kílógrömmum!
Jehóva gefur okkur „regn af himni og uppskerutíma“.
10, 11. Hvernig vitna skilningarvitin um góðvild Guðs?
10 Í óendanlegri góðvild sinni hefur Jehóva gefið okkur líkama sem er „frábærlega hannaður“ búinn skilningarvitum sem gera okkur kleift að skynja verk hans og njóta þeirra. (Sálmur 139:14) Rifjaðu upp fyrir þér dæmin sem nefnd voru í byrjun kaflans. Hvað gleður augað á slíkum stundum? Rjóðar kinnar brosandi barnsins. Regndemban sem vökvar akrana. Roðaglóð sólarlagsins. Mannsaugað er gert til að greina meira en 300.000 litbrigði. Heyrnin nemur blæbrigði raddar sem er okkur kær, þyt vindsins í laufi trjánna og gleðina í hlátri barnsins. Hvers vegna erum við fær um að sjá þetta og heyra? Biblían segir: „Eyrað sem heyrir og augað sem sér, hvort tveggja er verk Jehóva.“ (Orðskviðirnir 20:12) En við höfum fleiri skilningarvit.
11 Lyktarskynið er enn eitt merki um góðvild Jehóva. Með nefinu geturðu numið gríðarlega mörg tilbrigði af lykt. Menn hafa áætlað að þau séu allt frá þúsundum upp í billjón. Sem dæmi má nefna ilminn af uppáhaldsmatnum þínum, angan blómanna, lyktina af föllnu haustlaufi eða örlítinn eim af notalegum arineldi. Og með snertiskyninu geturðu fundið ljúfa golu leika um vanga þér, traustvekjandi faðmlag ástvinar og mjúka áferð ávaxtar í hendi þér. Þú sekkur tönnunum í ávöxtinn og bragðskynið segir til sín. Flókin efnasamsetning ávaxtarins myndar sérstætt samspil bragðtegunda sem kitla bragðlaukana. Já, við höfum ærna ástæðu til að syngja um Jehóva: „Góðvild þín er sannarlega mikil! Þú hefur geymt hana handa þeim sem óttast þig.“ (Sálmur 31:19) En hvernig hefur Jehóva „geymt“ góðvild sína þeim sem óttast hann?
Góðvild til eilífs gagns
12. Hvaða gjafir Jehóva eru mikilvægastar og hvers vegna?
12 Jesús sagði: „Skrifað stendur: ‚Maðurinn lifir ekki aðeins á brauði heldur á hverju orði sem kemur af munni Jehóva.‘“ (Matteus 4:4) Já, andlegar gjafir Jehóva geta gert okkur enn meira gagn en þær efnislegu því að þær leiða til eilífs lífs. Í 8. kafla þessarar bókar var á það bent að Jehóva hafi notað endurnýjunarmátt sinn núna á síðustu dögum til að mynda andlega paradís. Eitt af megineinkennum þessarar paradísar er ríkulegt framboð andlegrar fæðu.
13, 14. (a) Hvað sá spámaðurinn Esekíel í sýn og hvað þýðir það fyrir okkur sem nú lifum? (b) Hvað gerir Jehóva fyrir trúa þjóna sína til að þeir geti hlotið líf?
13 Í einum af hinum miklu endurreisnarspádómum Biblíunnar fékk spámaðurinn Esekíel að sjá endurreist og dýrlegt musteri í sýn. Vatn rann frá musterinu sem jókst svo að úr varð stór á. Vatnið var alls staðar til blessunar þar sem það rann. Á bökkunum uxu tré til matar og lækningar. Og áin lífgaði meira að segja Dauðahafið sem er lífvana sökum seltu. (Esekíel 47:1-12) En hvað merkti þetta?
14 Musterissýnin merkti að Jehóva ætlaði að endurreisa hreina tilbeiðslu. Hún myndi aftur standast réttlátan mælikvarða hans. Áin táknaði að gjafir Guðs, sem veita líf, myndu streyma til þjóna hans í vaxandi mæli. Síðan hrein tilbeiðsla var endurreist árið 1919 hefur Jehóva gefið fólki sínu gjafir sem veita þeim líf. Hvernig? Biblíur, biblíufræðslurit, samkomur og mót hafa átt sinn þátt í því að færa milljónum manna mikilvæg sannindi. Jehóva hefur notað þessar leiðir til að fræða fólk um lausnarfórn Krists en hún er það mikilvægasta sem hann hefur gert til að veita líf. Hún gerir þeim sem elska Jehóva og óttast hann kleift að standa hreinir frammi fyrir honum og eiga von um eilíft líf.a Fólk Jehóva hefur þess vegna setið að andlegu veisluborði núna á síðustu dögum meðan umheimurinn hefur soltið andlega. – Jesaja 65:13.
15. Í hvaða skilningi mun góðvild Jehóva streyma til trúfastra manna í þúsundáraríki Krists?
15 En áin í sýn Esekíels hættir ekki að streyma fram þegar gamla heimskerfið líður undir lok heldur magnast rennslið eftir að þúsundáraríki Krists gengur í garð. Jehóva notar þá messíasarríkið til að miðla gagninu af lausnarfórn Jesú að fullu og lyfta trúu mannkyni smám saman upp til fullkomleika. Þá munum við sannarlega gleðjast yfir góðvild Jehóva!
Aðrir þættir í góðvild Jehóva
16. Hvernig kemur fram í Biblíunni að góðvild Jehóva birtist á marga vegu?
16 Góðvild Jehóva birtist í fleiru en örlæti hans. Hann sagði Móse: „Ég skal leyfa þér að sjá alla gæsku mína og ég skal kunngera þér nafn mitt, Jehóva.“ Síðar í frásögunni segir: „Jehóva gekk fram hjá honum og kallaði: ‚Jehóva, Jehóva, miskunnsamur og samúðarfullur Guð sem er seinn til reiði, sýnir tryggan kærleika í ríkum mæli og er alltaf sannorður.‘“ (2. Mósebók 33:19; 34:6) Við sjáum að góðvild Jehóva birtist á marga vegu.
17. Hvernig kemur Jehóva fram við ófullkomna menn?
17 Þessi vers segja okkur margt um framkomu Jehóva við sköpunarverur sínar. Hann er ekki hranalegur, kuldalegur eða ráðríkur eins og margir sem ráða yfir öðrum, heldur er hann mildur og vingjarnlegur. Hann sagði til dæmis við Abram: „Líttu í kringum þig frá staðnum þar sem þú ert og horfðu til norðurs, suðurs, austurs og vesturs.“ (1. Mósebók 13:14) Biblíufræðingar benda á að í hebreska frumtextanum sé smáorð sem breyti setningunni úr skipun í kurteislega beiðni. Fleiri svipuð dæmi er að finna í Biblíunni. (1. Mósebók 31:12; Esekíel 8:5) Hugsaðu þér að Drottinn alheims skuli biðja ófullkomna menn kurteislega um eitthvað! Í heimi, þar sem harka, frekja og ruddaskapur er daglegt brauð, er ákaflega upplífgandi að hugsa til þess hve hlýlegur og mildur Jehóva Guð er.
18. Í hvaða skilningi er Jehóva „alltaf sannorður“ og hvers vegna er það traustvekjandi?
18 Í þessum sömu versum kemur fram að Jehóva sé „alltaf sannorður“. Óheiðarleiki er útbreiddur í heimi samtímans. En Biblían minnir á að ‚Guð sé ekki maður sem lýgur‘. (4. Mósebók 23:19) Í Títusarbréfinu 1:2 segir: „Guð … getur ekki logið.“ Góðvild hans leyfir ekki að hann ljúgi. Þess vegna eru loforð hans fullkomlega áreiðanleg og orð hans rætast alltaf. Hann er meira að segja kallaður „Guð sannleikans“. (Sálmur 31:5) Bæði segir hann alltaf satt og eins miðlar hann frá sér sannleika í ríkum mæli. Hann er ekki dulur, fálátur eða fjarlægur heldur upplýsir trúa þjóna sína ríkulega af ótæmandi viskubrunni sínum.b Hann kennir þeim meira að segja að fara eftir sannleikanum sem hann miðlar þeim, þannig að þeir geti ‚haldið áfram að ganga á vegi sannleikans‘. (3. Jóhannesarbréf 3) Hvaða áhrif ætti góðvild Jehóva að hafa á hvert og eitt okkar?
‚Þeir ljóma af gleði yfir góðvild Jehóva‘
19, 20. (a) Hvernig reyndi Satan að veikja traust Evu á góðvild Jehóva og hvaða afleiðingar hafði það? (b) Hvaða áhrif ætti góðvild Jehóva að hafa á okkur og hvers vegna?
19 Þegar Satan freistaði Evu í aldingarðinum Eden byrjaði hann á því að veikja lævíslega traust hennar á góðvild Jehóva. Jehóva hafði sagt Adam: „Þú mátt borða eins og þig lystir af öllum trjám í garðinum.“ Trén í garðinum hljóta að hafa skipt þúsundum, og Jehóva bannaði manninum aðeins að borða af einu. En taktu eftir hvernig Satan orðaði spurningu sína þegar hann kom að máli við Evu: „Sagði Guð í alvöru að þið mættuð ekki borða af öllum trjám í garðinum?“ (1. Mósebók 2:9, 16; 3:1) Satan rangsneri orðum Jehóva til að telja Evu trú um að Jehóva væri að synja henni um eitthvað gott. Því miður hreif þetta bragð. Þó að Guð hefði gefið Evu allt sem hún átti fór hún að efast um góðvild hans líkt og margir hafa gert eftir hennar dag.
20 Við vitum mætavel hvílíkum sorgum og eymd þessar efasemdir hafa valdið. Við skulum því taka til okkar það sem stendur í Jeremía 31:12: „Þeir … ljóma af gleði yfir góðvild Jehóva.“ Við ættum sannarlega að ljóma af gleði yfir góðvild Jehóva. Við þurfum aldrei að efast um að Guði gangi gott eitt til, enda er hann ímynd góðvildarinnar. Við getum treyst honum í hvívetna því að hann vill þeim sem elska hann ekkert annað en gott.
21, 22. (a) Hvernig getur þú brugðist við góðvild Jehóva? (b) Um hvaða eiginleika er fjallað í næsta kafla og hvernig er hann ólíkur góðvildinni?
21 Við njótum þess að fá tækifæri til að segja öðrum frá góðvild Guðs. Sálmur 145:7 segir: „Þær eru himinlifandi þegar þær hugsa um ríkulega góðvild þína.“ Hvern dag sem við lifum njótum við góðs af góðvild Jehóva á einhvern hátt. Væri ekki ráð að temja sér að þakka Jehóva daglega fyrir góðvild hans og nefna sérstök atriði eftir því sem hægt er? Við líkjum eftir Jehóva með því að hugsa um góðvild hans, þakka honum daglega fyrir hana og segja öðrum frá henni. Og við nálgumst hann með því að leitast alltaf við að gera hið góða eins og hann sjálfur. Hinn aldraði Jóhannes postuli skrifaði: „Kæri bróðir, líktu ekki eftir þeim sem gera illt heldur þeim sem gera gott. Sá sem gerir hið góða er Guðs megin.“ – 3. Jóhannesarbréf 11.
22 Góðvild Jehóva er einnig tengd öðrum eiginleikum hans. Hann sýnir til dæmis „tryggan kærleika í ríkum mæli“. (2. Mósebók 34:6) Þessi eiginleiki er sértækari en góðvildin því að það eru einkum trúfastir þjónar Jehóva sem njóta hans. Við lítum nánar á málið í næsta kafla.
a Lausnargjaldið er skýrasta dæmið um góðvild Jehóva. Af milljónum andavera, sem hann gat valið úr, fól hann einkasyni sínum að deyja fyrir okkur.
b Það er ákaflega viðeigandi að Biblían skuli setja sannleika í samband við ljós. „Sendu ljós þitt og sannleika,“ söng sálmaskáldið. (Sálmur 43:3) Jehóva sendir andlegt ljós í ríkum mæli til þeirra sem eru fúsir til að þiggja kennslu eða upplýsingu hjá honum. – 2. Korintubréf 4:6; 1. Jóhannesarbréf 1:5.