Látum andann leiða okkur til að hljóta líf og frið
„Andinn fær að leiða [okkur] en ekki sjálfshyggjan.“ – RÓMV. 8:4.
1, 2. (a) Af hverju er hættulegt að vera annars hugar undir stýri? (b) Af hverju erum við í hættu ef athygli okkar beinist frá því að þjóna Guði?
„ÞAÐ jaðrar við faraldur hve ökumenn eru annars hugar, og ástandið virðist versna ár frá ári.“ Þetta er haft eftir bandaríska samgönguráðherranum. Farsímar geta til dæmis truflað ökumenn svo að þeir hafa ekki hugann við aksturinn sem þeir ættu einmitt að einbeita sér að. Meira en þriðjungur fólks, sem spurt var í könnun, sagðist hafa lent í árekstri eða sloppið naumlega við árekstur við ökutæki þar sem ökumaðurinn var að tala í farsíma. Fljótt á litið virðist það kannski stórsniðugt að nýta tímann meðan maður er að keyra til að tala í símann en það getur hæglega valdið slysi.
2 Hið sama gæti gerst varðandi samband okkar við Guð. Sá sem er ekki með hugann við það að þjóna Guði er í hættu, rétt eins og bílstjóri sem er ekki með hugann við aksturinn. Ef við leyfum okkur að fara út af réttri leið og athyglin fer að beinast frá þjónustunni við Guð getum við beðið skipbrot á trú okkar. (1. Tím. 1:18, 19) Páll postuli varaði við þessari hættu þegar hann skrifaði trúsystkinum sínum í Róm: „Sjálfshyggjan er dauði en hyggja andans líf og friður.“ (Rómv. 8:6) Hvað átti hann við? Hvernig getum við forðast ,sjálfshyggjuna‘ og látið ,hyggju andans‘ ráða ferðinni?
Þeim er „engin fyrirdæming búin“
3, 4. (a) Hvaða baráttu lýsir Páll? (b) Af hverju eru orð Páls áhugaverð fyrir okkur?
3 Í Rómverjabréfinu lýsir Páll baráttu sem hann átti í. Það var eins og hugurinn og holdið ættu í stríði. (Lestu Rómverjabréfið 7:21-23.) Hann var þó ekki að reyna að réttlæta sjálfan sig eða farast úr sjálfsmeðaumkun, rétt eins og áhrif syndarinnar væru svo sterk að hann hefði enga stjórn á sjálfum sér. Nei, Páll var þroskaður, andasmurður kristinn maður og hafði verið útvalinn til að vera „postuli heiðingja“. (Rómv. 1:1; 11:13) Af hverju er hann þá að tala um baráttuna sem hann átti í?
4 Páll viðurkennir hreinskilnislega að hann geti ekki í eigin krafti gert vilja Guðs í þeim mæli sem hann vilji. Hver var ástæðan? „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð,“ segir hann. (Rómv. 3:23) Líkt og allir afkomendur Adams fann hann fyrir því að hann var ófullkominn og langanir hans rangar. Við skiljum vel hvernig honum var innanbrjósts því að við erum líka ófullkomin og eigum í sams konar baráttu dag frá degi. Margt getur enn fremur dregið athygli okkar frá þjónustunni við Guð og leitt okkur út af ,mjóa veginum sem liggur til lífsins‘. (Matt. 7:14) Við erum þó ekki í vonlausri aðstöðu frekar en Páll.
5. Hvað varð Páli til hjálpar og frelsunar?
5 „Hver mun frelsa mig?“ spurði Páll og bætir svo við: „Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.“ (Rómv. 7:24, 25, Biblían 1981) Síðan ávarpar hann þá sem „eru í Kristi Jesú“, það er að segja hina andasmurðu. (Lestu Rómverjabréfið 8:1, 2.) Með heilögum anda sínum ættleiðir Jehóva þá sem syni og þeir verða „samarfar Krists“. (Rómv. 8:14-17) Andi Guðs og trú þeirra á lausnarfórn Jesú gerir þeim kleift að sigra í baráttunni sem Páll lýsir og þar af leiðandi er þeim „engin fyrirdæming búin“. Þeir eru frelsaðir frá „lögmáli syndarinnar og dauðans“.
6. Af hverju ættu allir þjónar Guðs að gefa gaum að orðum Páls?
6 Þótt Páll beini orðum sínum til hinna andasmurðu getur það sem hann sagði um anda Guðs og lausnarfórn Krists verið til góðs fyrir alla sem þjóna Guði, hvort sem þeir eiga himneska von eða jarðneska. Þar sem Páli var innblásið að gefa þessar leiðbeiningar er mikilvægt fyrir alla þjóna Guðs að skilja orð hans og reyna að fara eftir þeim.
Þannig dæmdi Guð „syndina í manninum“
7, 8. (a) Í hvaða skilningi var lögmálið „vanmegna gagnvart sjálfshyggju mannsins“? (b) Hverju hefur Guð áorkað með anda sínum og lausnarfórninni?
7 Í 7. kafla Rómverjabréfsins talar Páll um það vald sem syndin hefur yfir okkur ófullkomnum mönnum. Í 8. kaflanum minnist hann á mátt heilags anda. Hann skýrir hvernig andi Guðs geti hjálpað kristnum mönnum í baráttunni gegn afli syndarinnar svo að þeir geti lifað í samræmi við vilja Jehóva og átt velþóknun hans. Hann bendir á að Guð hafi notað anda sinn og lausnarfórn Jesú til að áorka því sem Móselögin gátu ekki gert.
8 Lögmálið fordæmdi syndara vegna þess að þeir gátu ekki lifað eftir öllum boðum þess. Æðstuprestar Ísraels voru auk þess ófullkomnir og gátu ekki borið fram fullnægjandi fórn fyrir syndina. Þess vegna var lögmálið „vanmegna gagnvart sjálfshyggju mannsins“. En „með því að senda sinn eigin son í líkingu syndugs manns“ og færa hann sem lausnarfórn dæmdi Guð „syndina í manninum“. Þannig áorkaði hann því sem „lögmálinu var ógerlegt“. Andasmurðir kristnir menn eru þar af leiðandi réttlættir vegna trúar sinnar á lausnarfórn Jesú. Þeir eru hvattir til að láta ,andann leiða sig en ekki sjálfshyggjuna‘. (Lestu Rómverjabréfið 8:3, 4.) Þeir þurfa að gera það dyggilega þangað til lífi þeirra á jörð er lokið. Ef þeir eru Guði trúir hljóta þeir „kórónu lífsins“. – Opinb. 2:10.
9. Hvað merkir orðið „lögmál“ eins og það er notað í Rómverjabréfinu 8:2?
9 Auk þess að tala um „lögmálið“ nefnir Páll „lögmál þess anda“ og ,lögmál syndarinnar og dauðans‘. (Rómv. 8:2) Hvaða lögmál eru það? Hér er ekki átt við beinar reglur og ákvæði líkt og voru í Móselögunum. Í heimildarriti segir að gríska orðið, sem hér er þýtt „lögmál“, lýsi hinu góða eða illa sem fólk gerir og stjórnar því eins og þar sé lögmál að verki. Orðið er einnig notað um þær lífsreglur sem fólk lifir eftir.
10. Hvernig hefur lögmál syndarinnar og dauðans tök á okkur?
10 Páll postuli skrifaði: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“ (Rómv. 5:12) Öll erum við afkomendur Adams og erum þess vegna undirorpin lögmáli syndarinnar og dauðans. Syndin, sem býr í okkur, veldur því að okkur langar til að gera margt sem Guð hefur vanþóknun á. En slík verk eru ávísun á dauða. Páll talar í Galatabréfinu um „holdsins verk“ og á þá við verkin og veikleikana sem hér um ræðir. Síðan segir hann: „Þeir sem slíkt gera munu ekki erfa Guðs ríki.“ (Gal. 5:19-21) Þetta eru þeir hinir sömu og láta sjálfshyggjuna leiða sig. (Rómv. 8:4) Lífsreglur þeirra og „lögmálið“ innra með þeim stjórnast í einu og öllu af sjálfshyggjunni. En er einungis átt við saurlifnað, skurðgoðadýrkun, andakukl og aðrar grófar syndir þegar talað er um að láta sjálfshyggjuna leiða sig? Nei, því að holdsins verk ná einnig yfir meting, reiðiköst, deilur, öfund og þess háttar sem sumir flokka kannski frekar undir skapgerðargalla. Við skulum aldrei ímynda okkur að við höfum losað okkur algerlega við sjálfshyggjuna.
11, 12. (a) Hvað hefur Jehóva gert til að hjálpa okkur að vinna bug á lögmáli syndarinnar og dauðans? (b) Hvað þurfum við að gera til að eiga velþóknun Guðs?
11 Það er mikið fagnaðarefni að Jehóva skuli hafa gert okkur kleift að sigrast á lögmáli syndarinnar og dauðans. Jesús sagði: „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ Ef við kunnum að meta kærleika Guðs og trúum á lausnarfórn Jesú Krists getum við losnað undan fordæmingunni sem fylgir erfðasyndinni. (Jóh. 3:16-18) Þá tökum við undir með Páli postula sem sagði: „Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.“
12 Það er rétt eins og við höfum verið læknuð af alvarlegum sjúkdómi. Til að ná okkur að fullu þurfum við að fara eftir fyrirmælum læknisins. Þó að við getum losnað undan lögmáli syndarinnar og dauðans með því að trúa á lausnargjaldið erum við eftir sem áður syndug og ófullkomin. Til að eiga náið samband við Jehóva og eiga velþóknun hans þurfum við að gera meira. Páll bendir á að við þurfum að láta andann leiða okkur til að geta lifað eftir „réttlætiskröfu lögmálsins“.
Hvernig látum við andann leiða okkur?
13. Hvað merkir það að lifa í andanum?
13 Til að láta andann leiða okkur þurfum við jafnt og þétt að taka framförum í sannleikanum. (1. Tím. 4:15) Við þurfum að gera okkar besta til að lifa í samræmi við handleiðslu andans dag frá degi þó að okkur takist það ekki fullkomlega. Ef við ,lifum í andanum‘ hljótum við velþóknun Guðs. – Gal. 5:16.
14. Hvernig hugsa þeir sem „stjórnast af eigin hag“?
14 Í Rómverjabréfinu talar Páll þessu næst um tvenns konar fólk með harla ólíkt hugarfar. (Lestu Rómverjabréfið 8:5.) Þegar talað er um „eigin hag“ í þessu versi er átt við ófullkomleika mannsins og syndugt eðli. Það er þetta eðli mannsins sem veldur átökunum sem Páll nefnir í 7. kafla Rómverjabréfsins. En ólíkt honum reyna þeir sem „stjórnast af eigin hag“ ekki einu sinni að berjast gegn röngum löngunum. Í stað þess að leiða hugann að vilja Guðs og þiggja hjálp hans láta þeir eigin hag ráða ferðinni. Þeir hugsa oft mest um að fullnægja líkamlegum löngunum sínum. Þeir sem „stjórnast af anda Guðs“ hafa aftur á móti hugann við það sem hann vill. Þeir vilja þjóna honum eftir bestu getu og eiga gott samband við hann.
15, 16. (a) Hvaða áhrif getur það haft að beina huganum að einhverju ákveðnu? (b) Hvernig er hugarfar flestra nú á tímum?
15 Lestu Rómverjabréfið 8:6. Til að gera eitthvað, annaðhvort gott eða illt, þurfum við að beina huganum að því. Ef fólk er sífellt með hugann við eigin hag hefur það fljótlega þau áhrif að hið synduga eðli tekur völdin. Hugsanir fólks, áhugamál og tilfinningar snúast þá vanalega um það og ekkert annað.
16 Hverju eru flestir uppteknir af nú á tímum? Jóhannes postuli skrifaði: „Allt sem maðurinn girnist, allt sem glepur augað, allt oflæti vegna eigna er ekki frá föðurnum heldur frá heiminum.“ (1. Jóh. 2:16) Þessar girndir snúast meðal annars um kynferðislegt siðleysi, frama og efnislega hluti. Bækur, tímarit, dagblöð, kvikmyndir, sjónvarpsþættir og Netið eru full af efni sem ala á þessum girndum, fyrst og fremst vegna þess að það er það sem flestir beina huganum að og langar í. En „sjálfshyggjan er dauði“. Hún getur orðið til þess að við missum tengslin við Guð og týnum lífinu í náinni framtíð. Hvernig stendur á því? „Sjálfshyggjan er fjandsamleg Guði og lýtur ekki lögmáli Guðs, enda getur hún það ekki. Þau sem lúta eigin hag geta ekki þóknast Guði.“ – Rómv. 8:7, 8.
17, 18. Hvernig getum við látið hyggju andans ráða ferðinni og hvaða áhrif hefur það á okkur?
17 Á hinn bóginn er „hyggja andans líf og friður“. Hún veitir ekki aðeins eilíft líf í framtíðinni heldur hljótum við líka innri frið núna og eigum frið við Guð. Hvernig getum við látið hyggju andans ráða ferðinni? Með því að fylgja leiðsögn Guðs og heilags anda öllum stundum. Þá tileinkum við okkur það hugarfar sem Guð hefur velþóknun á. Ef við gerum það er hugarfar okkar þannig að það lýtur „lögmáli Guðs“ og er honum þóknanlegt. Þegar freisting verður á vegi okkar erum við ekki í neinum vafa um hvað við eigum að gera. Við látum anda Guðs leiða okkur og tökum rétta ákvörðun.
18 Það er því mikilvægt fyrir okkur að hafa hugann við andlegu málin. Við gerum það með því að temja okkur góðar venjur varðandi bænasamband við Guð, biblíulestur og nám, samkomur og boðunarstarf. Þannig ,gerum við hugi okkar viðbúna‘. (1. Pét. 1:13) Við látum ekki sjálfshyggjuna ráða ferðinni heldur höfum hugann við andlegu málin. Þannig látum við anda Guðs leiða okkur. Það er okkur til blessunar því að hyggja andans er líf og friður. – Gal. 6:7, 8.
Geturðu svarað?
• Hvað var „lögmálinu . . . ógerlegt“ og hvernig réð Guð bót á því?
• Hvað er ,lögmál syndarinnar og dauðans‘ og hvernig getum við losnað undan því?
• Hvað þurfum við að gera til að láta ,hyggju andans‘ ráða ferðinni?
[Myndir á bls. 12, 13]
Læturðu sjálfshyggjuna ráða ferðinni eða læturðu anda Guðs leiða þig?