Verum sveigjanlegir og úrræðagóðir boðberar
„Ég hef verið öllum allt, til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra.“ — 1. KORINTUBRÉF 9:22.
1, 2. (a) Að hvaða leyti var Páll postuli dugmikill boðberi? (b) Hvernig leit Páll á verkefni sitt?
HANN átti jafn auðvelt með að tala við veraldarvana menntamenn og óbreytta tjaldgerðarmenn. Hann var jafn sannfærandi þegar hann ræddi við tignarmenn í Róm og sveitamenn í Frýgíu. Rit hans höfðuðu jafnt til frjálslyndra Grikkja sem íhaldssamra Gyðinga. Rök hans voru óhrekjandi og hann höfðaði sterkt til tilfinninga manna. Hann reyndi að finna sameiginlegan grundvöll með öllum sem hann boðaði trúna þannig að hann gæti leitt einhverja til Krists. — Postulasagan 20:21.
2 Maðurinn, sem hér um ræðir, var Páll postuli. Það er engum blöðum um það að fletta að hann var dugmikill og úrræðagóður boðberi. (1. Tímóteusarbréf 1:12) Jesús fól honum það verkefni að „bera nafn [sitt] fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels“. (Postulasagan 9:15) Hvernig leit Páll á þetta verkefni? „Ég hef verið öllum allt,“ sagði hann, „til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra. Ég gjöri allt vegna fagnaðarerindisins, til þess að ég fái hlutdeild með því.“ (1. Korintubréf 9:19-23) Hvað getum við lært af Páli sem getur gert okkur enn dugmeiri boðbera og kennara?
Breyttur maður tekst á við krefjandi verkefni
3. Hvernig leit Páll á kristna menn áður en hann snerist til trúar?
3 Hafði Páll alltaf verið langlyndur og tillitssamur maður og hæfur til að gegna því verkefni sem hann fékk? Nei, Sál, eins og hann var kallaður áður, hafði verið trúarofstækismaður og ofsótt fylgjendur Krists grimmilega. Sem ungur maður lagði hann blessun sína yfir morðið á Stefáni. Síðan tók hann að leita kristna menn uppi af mikilli hörku. (Postulasagan 7:58; 8:1, 3; 1. Tímóteusarbréf 1:13) Hann „blés . . . ógnum og manndrápum gegn lærisveinum Drottins“ og lét sér ekki nægja að ofsækja hina trúuðu í Jerúsalem heldur ætlaði sér að færa út kvíarnar allt norður til Damaskus. — Postulasagan 9:1, 2.
4. Hvað þurfti Páll að leiðrétta til að gera verkefni sínu skil?
4 Líklegt er að Páll hafi verið sannfærður um að nýja trúin myndi spilla Gyðingdómnum með óæskilegum, útlendum hugmyndum, og að hatur hans á kristninni hafi verið sprottið af þeim rótum. Hann hafði verið „farísei“ en nafnið merkir „þeir sem skilja sig frá“. (Postulasagan 23:6) Við getum rétt ímyndað okkur hve honum hlýtur að hafa brugðið þegar hann uppgötvaði að Guð hefði valið hann til að prédika Krist — já, einmitt — fyrir heiðingjum! (Postulasagan 22:14, 15; 26:16-18) Farísear vildu ekki einu sinni matast með fólki sem þeir álitu syndara! (Lúkas 7:36-39) Eflaust hefur það kostað hann mikla áreynslu að breyta um afstöðu og laga sjónarmið sín að þeim vilja Guðs að alls konar menn skyldu bjargast. — Galatabréfið 1:13-17.
5. Hvernig getum við líkt eftir Páli í boðunarstarfinu?
5 Við gætum þurft að gera eitthvað svipað. Við kynnumst æ fjölbreyttara mannlífi vegna þess að starfssvæðið er alþjóðlegt og þar eru töluð ótal tungumál. Við þurfum að leggja okkur meðvitað fram um að skoða viðhorf okkar og reyna að losa okkur við alla fordóma. (Efesusbréfið 4:22-24) Hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki mótumst við af þeirri menntun sem við fáum og af félagslegu umhverfi okkar í uppvextinum. Þetta getur skapað hjá okkur ósveigjanlegar skoðanir og viðhorf og vissa fordóma. Við verðum að sigrast á slíku til að geta fundið sauðumlíkt fólk og hjálpað því. (Rómverjabréfið 15:7) Páll, sem var „postuli heiðingja“, gerði það. (Rómverjabréfið 11:13) Hann tók áskoruninni og færði út kvíarnar í boðunarstarfinu. Hann tileinkaði sér góða kennslutækni enda var það kærleikur sem knúði hann til verka. Þegar við kynnum okkur starf hans kemur í ljós að hann var athugull, sveigjanlegur og úrræðagóður boðberi og kennari.a
Úrræðagóður boðberi að verki
6. Hvernig tók Páll mið af uppruna og þekkingu áheyrenda og með hvaða árangri?
6 Páll gaf gaum að trú og uppruna áheyrenda sinna. Þegar hann ávarpaði Agrippu konung annan viðurkenndi hann að konungur gerþekkti „alla siðu Gyðinga og ágreiningsmál“. Páll nýtti sér vitneskju sína um trú Agrippu og ræddi við hann um málefni sem konungur skildi mætavel. Svo skýrt flutti Páll mál sitt og af slíkri sannfæringu að konungur sagði: „Lítið vantar á, að þú gjörir mig kristinn.“ — Postulasagan 26:2, 3, 27, 28, Biblían 1912, neðanmáls.
7. Hvernig sýndi Páll að hann var sveigjanlegur þegar hann prédikaði fyrir mannfjölda í Lýstru?
7 Páll var líka sveigjanlegur. Taktu eftir hve ólíkt hann fór að þegar hann reyndi að fá mannfjöldann í Lýstru til að hætta við að tilbiðja hann og Barnabas sem guði. Þetta fólk talaði lýkaónsku og sagt er að það hafi verið illa menntað og hjátrúarfullt. Samkvæmt Postulasögunni 14:14-18 benti Páll þessu fólki á sköpunarverkið og nægtir náttúrunnar. Þannig rökstuddi hann að hinn sanni Guð væri öllum æðri. Þetta voru auðskilin rök og þau nægðu til að fá fólkið ofan af því að færa Páli og Barnabasi fórnir.
8. Hvernig reyndist Páll sveigjanlegur þrátt fyrir að hann hefði stundum sterkar skoðanir?
8 Páll var auðvitað ekki fullkominn og hann hafði stundum sterkar skoðanir á hlutunum. Einu sinni var ráðist á hann með niðurlægjandi og ranglátum hætti og lét hann þá Gyðing, sem hét Ananías, hafa það óþvegið. En Páll baðst afsökunar tafarlaust þegar honum var sagt að hann hefði óafvitandi misboðið æðstaprestinum. (Postulasagan 23:1-5) Þegar Páll var í Aþenu var honum í fyrstu „mikil skapraun að sjá, að borgin var full af skurðgoðum“ en í ræðu hans á Aresarhæð vottar hvergi fyrir því. Hann ávarpar Aþeninga á þingstað þeirra og byggir á sameiginlegum grundvelli með því að minnast á altari þeirra sem var helgað „ókunnum guði“ og vitna í eitt af skáldum þeirra. — Postulasagan 17:16-28.
9. Hvernig reyndist Páll úrræðagóður í samskiptum við áheyrendur af ólíkum uppruna?
9 Páll reyndist með afbrigðum úrræðagóður í samskiptum við áheyrendur af ólíkum uppruna. Hann tók tillit til þess að hugsunarháttur þeirra hafði mótast af ólíkri menningu og umhverfi. Þegar hann skrifaði kristnum mönnum í Róm tók hann mið af því að þeir bjuggu í höfuðborg voldugasta ríkis þess tíma. Eitt af meginatriðunum í bréfi hans til þeirra var það að lausnarfórn Krists var nógu máttug til að yfirbuga synd Adams og spillandi afl hennar. Hann talaði til þeirra og annarra, sem bjuggu í Rómaveldi, á máli sem ætla mátti að höfðaði til þeirra. — Rómverjabréfið 1:4; 5:14, 15.
10, 11. Hvernig lagaði Páll líkingar sínar að lesendum? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)
10 Hvað gerði Páll þegar hann vildi útskýra djúpstæð biblíusannindi fyrir lesendum sínum og áheyrendum? Hann var leikinn í að nota almennar og auðskildar samlíkingar til að skýra flókin trúaratriði. Hann vissi til dæmis að þegnar Rómaveldis þekktu til þess hvernig þrælahaldi var háttað þar. Margir lesendur bréfsins voru sennilega þrælar sjálfir. Páll notaði því þrælahald sem dæmi til að styrkja hin sterku rök sín fyrir því að fólk gæti valið að þjóna annaðhvort syndinni eða réttlætinu. — Rómverjabréfið 6:16-20.
11 Heimildarrit segir: „Meðal Rómverja gat eigandi þræls veitt honum frelsi án skilyrða og þræll gat keypt sér frelsi með því að greiða eiganda sínum. Þræll gat einnig hlotið frelsi ef eignarhaldið var fært í hendur einhverjum guði.“ Fyrrverandi þræll gat haldið áfram að vinna fyrir húsbónda sinn gegn launum. Páll er sennilega að vísa óbeint til þessa þegar hann talar um að hver maður geti valið hvorum húsbóndanum hann þjónar, syndinni eða réttlætinu. Kristnir menn í Róm höfðu hlotið frelsi frá syndinni og voru nú eign Guðs. Þeir höfðu frelsi til að þjóna Guði en gátu engu að síður valið að þjóna syndinni, fyrrverandi húsbónda sínum, ef þeir vildu. Þessi einfalda en kunnuglega samlíking hefur verið kristnum mönnum í Róm hvatning til að spyrja sig hvorum húsbóndanum þeir þjónuðu.b
Lærum af dæmi Páls
12, 13. (a) Hvað þarf að gera til að ná til hjartna fólks af alls konar uppruna? (b) Hvað hefur reynst mörgum vel þegar þeir boða trúna meðal fólks af ólíkum uppruna?
12 Við þurfum að vera athugul, sveigjanleg og úrræðagóð, líkt og Páll, til að snerta hjörtu fólks af alls konar uppruna. Við viljum hjálpa áheyrendum okkar að skilja fagnaðarerindið. Við viljum ekki bara heimsækja fólk fyrir siðasakir, flytja fyrir fram ákveðið erindi eða skilja eftir biblíutengd rit. Við viljum reyna að skilja þarfir manna, áhyggjur og ótta, glöggva okkur á hvað þeim líkar og hvað ekki og átta okkur á hvaða fordóma þeir hafa. Þetta getur kostað töluverða vinnu og umhugsun en boðberar fagnaðarerindisins um allan heim gera þetta engu að síður. Til dæmis segir í greinargerð frá deildarskrifstofunni í Ungverjalandi: „Bræðurnir virða siðvenjur og lífsmáta fólks af öðrum þjóðernum og ætlast ekki til að það taki upp siði heimamanna.“ Vottar Jehóva annars staðar leitast við að gera slíkt hið sama.
13 Heilbrigðismál, barnauppeldi og menntun eru helstu hugðarefni fólks í landi einu í Austurlöndum fjær. Boðberar þar í landi reyna að leggja áherslu á þessi málefni frekar en versnandi ástand í heiminum eða flókin þjóðfélagsvandamál. Boðberar í bandarískri stórborg veittu því athygli að fólk í ákveðnu hverfi hefur áhyggjur af spillingu, umferðarteppum og afbrotum. Þeir nota því þessi málefni til að koma boðskap Biblíunnar á framfæri við fólk. En óháð umræðuefninu gæta biblíukennarar þess að vera jákvæðir og hvetjandi, leggja áherslu á að meginreglur Biblíunnar hafi hagnýtt gildi í daglegu lífi og benda á þá björtu framtíðarvon sem Guð býður okkur. — Jesaja 48:17, 18; 52:7.
14. Hvernig getum við lagað okkur að ólíkum þörfum og aðstæðum fólks?
14 Það er líka gott fyrir okkur að kynna fagnaðarerindið á mismunandi vegu vegna þess að áheyrendur okkar eru sprottnir úr alls konar ólíkri menningu og hafa mismunandi trú og menntun. Við tölum öðruvísi við fólk sem viðurkennir ekki Biblíuna en trúir á skapara heldur en fólk sem trúir ekki að Guð sé til. Við förum öðruvísi að þegar við tölum við mann sem álítur öll trúarrit vera áróðurstæki heldur en mann sem viðurkennir það sem Biblían kennir. Við þurfum sömuleiðis að vera sveigjanleg í samskiptum við fólk með afar ólíka menntun. Færir kennarar nota breytilega rökfærslu og líkingar eftir aðstæðum. — 1. Jóhannesarbréf 5:20.
Hjálpum nýjum boðberum
15, 16. Af hverju þarf að kenna nýjum boðberum og æfa þá?
15 Páll lét sér ekki nægja að bæta sínar eigin kennsluaðferðir. Hann gerði sér ljóst að það þurfti að kenna yngri kynslóðinni, svo sem Tímóteusi og Títusi, þannig að þeir yrðu dugmiklir boðberar. (2. Tímóteusarbréf 2:2; 3:10, 14; Títusarbréfið 1:4) Það er líka mikil þörf fyrir slíka kennslu núna.
16 Árið 1914 voru um 5000 boðberar í heiminum en núna skírast um 5000 nýir vottar í hverri viku! (Jesaja 54:2, 3; Postulasagan 11:21) Það þarf að kenna og leiðbeina nýjum boðberum sem byrja að sækja safnaðarsamkomur og vilja fá að taka þátt í boðunarstarfinu. (Galatabréfið 6:6) Það er mikilvægt að nota aðferðir húsbóndans, Jesú, til að kenna nýjum lærisveinum og æfa þá.c
17, 18. Hvernig getum við hjálpað nýjum að byggja upp sjálfstraust í boðunarstarfinu?
17 Jesús lét sér ekki nægja að finna hóp af fólki og segja postulunum að byrja að tala. Hann byrjaði á því að ræða um hve nauðsynlegt boðunarstarfið væri og hvatti þá til að minnast oft á það í bænum sínum. Síðan gerði hann þrennt: Hann sá þeim fyrir starfsfélaga, úthlutaði þeim starfssvæði og sagði þeim hvaða boðskap þeir ættu að flytja. (Matteus 9:35-38; 10:5-7; Markús 6:7; Lúkas 9:2, 6) Við getum farið eins að. Hvort sem við erum að hjálpa okkar eigin barni, nýjum nemanda eða boðbera sem hefur ekki tekið þátt í boðunarstarfinu um tíma er gott að kenna með þessum hætti.
18 Nýir þurfa töluverðan stuðning til að byggja upp nægilegt sjálfstraust til að boða fagnaðarerindið. Geturðu hjálpað þeim að undirbúa og æfa einfalda kynningu sem er til þess fallin að vekja áhuga? Þegar komið er út á starfssvæðið skaltu leyfa þeim að læra af þér með því að sjá sjálfur um fyrstu heimsóknirnar. Þú getur líkt eftir dæmi Gídeons sem sagði félögum sínum í hernaði: „Lítið á mig og gjörið sem ég.“ (Dómarabókin 7:17) Gefðu síðan hinum nýja tækifæri til að spreyta sig. Hrósaðu honum hlýlega fyrir viðleitni hans og bentu honum stuttlega á hvernig hann geti bætt sig, eftir því sem við á.
19. Hvað ættirðu að gera til að geta ‚fullnað þjónustu þína‘?
19 Við viljum ‚fullna þjónustu okkar‘ þannig að við ættum að vera staðráðin í að vera sveigjanleg í boðunarstarfinu og kenna nýjum boðberum að vera það líka. Við höfum það mikilvæga markmið að miðla fólki þekkingu á Guði sem leiðir til hjálpræðis. Við erum ekki í vafa um að það sé þess virði að leggja hvað sem er á sig til að vera ‚öllum allt til þess að við getum að minnsta kosti frelsað nokkra‘. — 2. Tímóteusarbréf 4:5; 1. Korintubréf 9:22.
[Neðanmáls]
a Við sjáum dæmi um þessa eiginleika Páls í Postulasögunni 13:9, 16-42; 17:2-4; 18:1-4; 19:11-20; 20:34; Rómverjabréfinu 10:11-15 og 2. Korintubréfi 6:11-13.
b Páll notaði sömuleiðis hugtak úr lögum, sem lesendur hans í Rómaveldi þekktu mætavel, til að útskýra hið nýja samband milli Guðs og andasmurðra „barna“ hans. (Rómverjabréfið 8:14-17) „Ættleiðing var í meginatriðum rómverskur siður og var nátengd hugmyndum Rómverja um fjölskylduna,“ segir í bókinni St. Paul at Rome.
c Áætlunin Brautryðjendur hjálpa öðrum er í gangi í öllum söfnuðum Votta Jehóva. Þar er reynsla og færni boðbera, sem eru í fullu starfi, notuð til að aðstoða óreyndari boðbera.
Manstu?
• Hvernig getum við líkt eftir Páli í boðunarstarfinu?
• Hvernig þurfum við líklega að breyta hugsunarhætti okkar?
• Hvernig getum við haldið boðskapnum á jákvæðum nótum?
• Hvað þurfa nýir boðberar til að byggja upp sjálfstraust?
[Innskot á blaðsíðu 29]
Páll postuli var athugull, sveigjanlegur og úrræðagóður boðberi og kennari.
[Innskot á blaðsíðu 31]
Jesús sá lærisveinunum fyrir starfsfélaga, úthlutaði þeim starfssvæði og sagði þeim hvaða boðskap þeir ættu að flytja.
[Myndir á blaðsíðu 28]
Páli tókst að ná til alls konar fólks af því að hann lagaði sig að aðstæðum.
[Mynd á blaðsíðu 30]
Dugmiklir boðberar taka mið af menningu og uppruna áheyrenda sinna.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Úrræðagóðir boðberar hjálpa nýjum að búa sig undir boðunarstarfið.