Færum Jehóva fórnir af heilum huga
„Hvað sem þið gerið, þá gerið það af heilum huga eins og Drottinn ætti í hlut.“ – KÓL. 3:23.
KANNAÐU HVORT ÞÚ GETUR SVARAÐ ÞESSUM SPURNINGUM:
Hvernig getum við heiðrað Jehóva í daglega lífinu?
Hvaða fórnir færum við í tengslum við tilbeiðslu okkar?
Hvernig getum við fært Jehóva efnislega hluti að fórn?
1-3. (a) Ætlast Jehóva ekki til neinna fórna af okkar hálfu fyrst Jesús fórnaði lífi sínu? Skýrðu svarið. (b) Hvaða spurning vaknar um þær fórnir sem við færum?
JEHÓVA opinberaði þjónum sínum á fyrstu öld að Móselögin hefðu verið afnumin með lausnarfórn Jesú. (Kól. 2:13, 14) Allar fórnirnar, sem Gyðingar höfðu fært öldum saman, voru nú óþarfar. Þær höfðu ekkert gildi lengur. Lögmálið hafði gegnt því hlutverki sínu að vera „tyftari . . . þangað til Kristur kom“. – Gal. 3:24.
2 Þetta ber ekki að skilja þannig að kristnir menn hafi engan áhuga á því að færa fórnir. Pétur postuli talaði um að við þyrftum að „bera fram andlegar fórnir fyrir Jesú Krist, Guði velþóknanlegar“. (1. Pét. 2:5) Páll postuli tók einnig fram að það megi líta svo á að líf kristins manns í heild sé ákveðin fórn. – Rómv. 12:1.
3 Kristnir menn færa Jehóva því fórnir, annaðhvort með því að leggja eitthvað í sölurnar fyrir hann eða með því að neita sér um eitthvað. Hvaða lærdóm getum við dregið af fórnum Ísraelsmanna til að tryggja sem best að allar fórnir okkar séu Jehóva þóknanlegar?
Í DAGLEGA LÍFINU
4. Hvað þurfum við að hafa hugfast varðandi dagleg störf okkar?
4 Það liggur kannski ekki í augum uppi hvernig daglega lífið tengist því að færa Jehóva fórnir. Húsverkin, skólinn, vinnan, innkaup og þess háttar virðist fljótt á litið ekki tengjast beinlínis sambandi okkar við hann. En ef þú hefur vígt Jehóva líf þitt eða stefnir að því að gera það á næstunni skiptir máli með hvaða hugarfari þú sinnir daglegum störfum. Við erum kristin allan sólarhringinn. Við þurfum að fylgja frumreglum Biblíunnar á öllum sviðum lífsins. Það var þess vegna sem Páll skrifaði sem hvatningu til okkar: „Hvað sem þið gerið, þá gerið það af heilum huga eins og Drottinn ætti í hlut en ekki menn.“ – Lestu Kólossubréfið 3:18-24.
5, 6. Hvað ætti að hafa áhrif á framkomu okkar og klæðaburð?
5 Daglegt líf kristins manns er ekki þáttur í heilagri þjónustu hans. En að Páll skuli hvetja okkur til að gera hvaðeina af heilum huga eins og Jehóva ætti í hlut minnir á að það skiptir alltaf máli hvernig við hegðum okkur. Hvernig er klæðnaður okkar og framkoma við dagleg störf? Er hún kannski þannig að við veigrum okkur við að segja frá því að við séum vottar Jehóva? Látum það aldrei gerast. Þjónar Jehóva vilja ekki gera neitt sem kastar rýrð á nafn hans. – Jes. 43:10; 2. Kor. 6:3, 4, 9.
6 Við skulum nú kanna hvernig löngunin til að starfa af heilum huga eins og Jehóva eigi í hlut segir til sín á mörgum sviðum lífsins. Samhliða því skulum við hafa hugfast að allar fórnir, sem Ísraelsmenn færðu Jehóva, urðu að vera fyrsta flokks. – 2. Mós. 23:19.
ÁHRIFIN Á LÍF OKKAR
7. Hvað er fólgið í því að vígjast Jehóva?
7 Þegar þú vígðir þig Jehóva gerðirðu það án skilyrða. Þú lofaðir að helga líf þitt þjónustunni við hann. Það merkti að þú ætlaðir að láta hann ganga fyrir á öllum sviðum lífsins. (Lestu Hebreabréfið 10:7.) Það var skynsamleg ákvörðun. Það hefur örugglega verið þér til blessunar að kynna þér vilja Jehóva í hverju máli og breyta í samræmi við það. (Jes. 48:17, 18) Þjónar Jehóva eru heilagir og glaðir vegna þess að þeir þiggja leiðsögn hans og líkja eftir honum. – 3. Mós. 11:44; 1. Tím. 1:11, Biblían 1912.
8. Hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur að fórnir Ísraelsmanna skyldu vera heilagar í augum Jehóva?
8 Fórnirnar, sem Ísraelsmenn færðu Jehóva, voru álitnar heilagar. (3. Mós. 6:25; 7:1) Hebreska orðið, sem er þýtt „heilagleiki“, felur í sér þá hugmynd að vera aðgreindur, frátekinn eða helgaður Guði. Eigi Jehóva að hafa velþóknun á fórnum okkar mega þær ekki vera flekkaðar af áhrifum heimsins. Við megum ekki elska neitt sem Jehóva hatar. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.) Það þýðir að við verðum að forðast allt og alla sem gætu gert okkur óhrein í augum Guðs. (Jes. 2:4; Opinb. 18:4) Það merkir líka að við getum ekki leyft okkur að horfa á neitt sem er óhreint eða siðlaust eða leyft huganum að gæla við það. – Kól. 3:5, 6.
9. Af hverju skiptir máli hvernig við komum fram við aðra?
9 Páll skrifaði trúsystkinum sínum: „Gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.“ (Hebr. 13:16) Ef við erum hjálpsöm og gerum öðrum gott erum við að færa ákveðnar fórnir í augum Jehóva og hann hefur velþóknun á því. Með því að elska aðra og bera umhyggju fyrir þeim sýnum við að við erum sannkristin. – Jóh. 13:34, 35; Kól. 1:10.
FÓRNIR TENGDAR TILBEIÐSLUNNI
10, 11. Hvernig lítur Jehóva á þjónustu okkar og tilbeiðslu og hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur?
10 Ein besta leiðin til að gera öðrum gott er að segja þeim frá voninni sem við höfum. Grípurðu hvert tækifæri til að vitna? Páll kallaði boðunarstarfið „lofgjörðarfórn“ og talaði um „ávöxt vara er játa nafn hans“, það er að segja Guðs. (Hebr. 10:23; 13:15; Hós. 14:2) Það getur verið gott að velta fyrir sér hve mikinn tíma við notum til að boða fagnaðarerindið og hve vel við notum hann. Við erum oft hvött til að íhuga þetta á þjónustusamkomum. Þar sem bæði formleg og óformleg boðun er „lofgjörðarfórn“, það er að segja þáttur í tilbeiðslu okkar, ætti fórnin að vera í hæsta gæðaflokki. Aðstæður fólks eru ólíkar en viðhorf okkar til þjónustunnar við Jehóva hefur oft áhrif á það hve mikinn tíma við notum til að boða fagnaðarerindið um ríkið.
11 Við tökum okkur reglulega tíma til að tilbiðja Jehóva, bæði heima fyrir og á samkomum. Jehóva ætlast til þess að við gerum það. Við þurfum auðvitað ekki að fylgja ströngum hvíldardagsreglum eða fara þrisvar á ári til Jerúsalem að halda hátíðir. Það má hins vegar draga ákveðinn lærdóm af þessum ákvæðum. Jehóva ætlast enn til þess að við látum af dauðum verkum og lesum í orði hans, biðjum og sækjum samkomur. Og þeir sem hafa fyrir fjölskyldu að sjá eiga að skipuleggja reglulegt biblíunámskvöld handa fjölskyldunni. (1. Þess. 5:17; Hebr. 9:14; 10:24, 25) Það er ágætt að hugleiða af og til hvort við getum lagt okkur enn betur fram í tilbeiðslunni á Jehóva.
12. (a) Hvað er sambærilegt við reykelsisfórnirnar forðum daga? (b) Hvaða áhrif ætti þessi samanburður að hafa á bænir okkar?
12 „Bæn mín berist sem reykelsi fyrir auglit þitt,“ söng Davíð konungur. (Sálm. 141:2) Veltu aðeins fyrir þér hve reglulega þú biður til Jehóva og hvað þú segir í bænum þínum. Í Opinberunarbókinni er bænum hinna heilögu líkt við reykelsi í þeim skilningi að þær stíga upp til Guðs eins og sætur og þægilegur ilmur. (Opinb. 5:8) Í Forn-Ísrael var að staðaldri brennt reykelsi á altari Jehóva. Það þurfti að búa reykelsið til eftir ákveðinni uppskrift og vanda til verksins. Jehóva hafði ekki velþóknun á reykelsisfórninni nema hún væri færð í samræmi við þær reglur sem hann hafði sett. (2. Mós. 30:34-37; 3. Mós. 10:1, 2) Við getum treyst að Jehóva bænheyri okkur ef við biðjum í samræmi við leiðbeiningar hans.
AÐ GEFA OG ÞIGGJA
13, 14. (a) Hvað gerðu Epafrodítus og söfnuðurinn í Filippí fyrir Pál og hvernig leit hann á það? (b) Hvernig getum við líkt eftir Epafrodítusi og Filippímönnum?
13 Það má líkja fjárframlögum til alþjóðastarfsins við fórnir, og gildir þá einu hvort við gefum mikið eða lítið. (Mark. 12:41-44) Söfnuðurinn í Filippí sendi Epafrodítus til Rómar til að sinna þörfum Páls. Epafrodítus hafði meðferðis peningagjöf frá söfnuðinum. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem söfnuðurinn í Filippí hafði sýnt Páli slíkt örlæti. Trúsystkini Páls vildu ekki að hann hefði áhyggjur af peningum heldur gæti helgað boðunarstarfinu enn meiri tíma. Hvernig leit Páll á gjöfina? Hann kallaði hana „þægilegan ilm, þekka fórn, Guði velþóknanlega“. (Lestu Filippíbréfið 4:15-19.) Páll var innilega þakklátur fyrir góðvild Filippímanna og hið sama er að segja um Jehóva.
14 Jehóva kann líka vel að meta framlög okkar til alþjóðastarfsins. Og hann lofar að sjá fyrir þörfum okkar, bæði andlegum og efnislegum, ef við höldum áfram að leita fyrst ríkis hans. – Matt. 6:33; Lúk. 6:38.
SÝNDU ÞAKKLÆTI ÞITT
15. Fyrir hvað ertu Jehóva þakklátur?
15 Við höfum ótalmargt til að vera Jehóva þakklát fyrir. Ættum við ekki að þakka honum dag hvern fyrir að gefa okkur lífið? Hann gefur okkur allt sem við þurfum til viðurværis – fæði, klæði, húsaskjól og loftið sem við öndum að okkur. Og við erum innilega þakklát fyrir að hafa fengið nákvæman skilning á sannleika Biblíunnar. Fyrir vikið höfum við trú og von. Það er ærin ástæða til að tilbiðja Jehóva og færa honum lofgerðarfórnir vegna þess að hann er skapari okkar og hefur gert svo margt fyrir okkur. – Lestu Opinberunarbókina 4:11.
16. Hvernig sýnum við að við séum þakklát fyrir lausnarfórn Krists?
16 Eins og fram kom í greininni á undan er lausnarfórn Jesú ákaflega verðmæt gjöf frá Jehóva. Hún er skýrt merki um kærleika hans til okkar mannanna. (1. Jóh. 4:10) Hvernig sýnum við þakklæti okkar? Páll sagði: „Kærleiki Krists knýr mig því að ég hef ályktað svo: Ef einn er dáinn fyrir alla . . . og hann er dáinn fyrir alla til þess að þeir sem lifa lifi ekki framar sjálfum sér heldur honum sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.“ (2. Kor. 5:14, 15) Páll segir með öðrum orðum að séum við þakklát fyrir óverðskuldaða góðvild Guðs notum við líf okkar til að heiðra hann og son hans. Við sýnum Guði og Kristi kærleika okkar og þakklæti með því að vera hlýðin og með því að hafa brennandi löngun til að boða trúna og gera fólk að lærisveinum. – 1. Tím. 2:3, 4; 1. Jóh. 5:3.
17, 18. Hvað hafa sumir gert til að færa Jehóva lofgerðarfórnir í enn meira mæli? Nefndu dæmi.
17 Geturðu fært Jehóva lofgerðarfórnir í enn meira mæli en þú gerir núna? Eftir að hafa hugleitt allt hið góða sem Jehóva gerir fyrir þjóna sína hafa margir ákveðið að gera vissar breytingar til að geta tekið meiri þátt í boðunarstarfinu og öðru starfi safnaðarins. Sumir hafa getað verið aðstoðarbrautryðjendur einn eða fleiri mánuði á ári en aðrir hafa getað gerst brautryðjendur til lengri tíma. Sumir hafa tekið þátt í byggingarframkvæmdum á vegum safnaðarins. Þetta eru prýðisgóðar leiðir til að sýna þakklæti sitt. Jehóva hefur velþóknun á því sem við gerum í þjónustu hans ef við gerum það af réttu tilefni, það er að segja til að sýna honum þakklæti okkar.
18 Margir þjónar Jehóva hafa fundið löngun hjá sér til að sýna honum þakklæti í verki. Morena, sem var alin upp í kaþólskri trú, er ein þeirra. Hún vildi fá svör við spurningum sínum um Guð og tilgang lífsins og leitaði svara bæði í kaþólsku trúnni og austurlenskri heimspeki en hafði ekki erindi sem erfiði. Það var ekki fyrr en hún fór að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva að hún fékk svalað andlegum þorsta sínum. Morena var Jehóva svo þakklát fyrir svör Biblíunnar við öllum spurningum sínum og fyrir þá kjölfestu sem það veitti henni í lífinu að hún vildi gefa sig alla að þjónustu hans. Hún gerðist reglulegur aðstoðarbrautryðjandi strax eftir að hún skírðist og brautryðjandi eins fljótt og aðstæður hennar leyfðu. Þetta var fyrir 30 árum og Morena þjónar Jehóva enn í fullu starfi.
19. Hvað gætirðu gert til að færa Jehóva fórnir í enn meira mæli?
19 Margir trúir þjónar Jehóva eru auðvitað ekki í aðstöðu til að vera brautryðjendur. En hverjar sem aðstæður okkar eru getum við öll fært honum andlegar fórnir sem hann hefur velþóknun á. Við þurfum að breyta rétt með því að halda réttlátar reglur hans vandlega, minnug þess að við erum fulltrúar hans öllum stundum. Við sýnum trú með því að treysta að fyrirætlun Guðs nái fram að ganga. Og við vinnum góð verk með því að taka þátt í að kunngera fagnaðarerindið. Við skulum halda áfram að færa Jehóva fórnir af heilum huga og þakklátu hjarta, minnug þess hve mikið hann hefur gert fyrir okkur.
[Innskot á bls. 25]
Er gæska Jehóva þér hvatning til að færa honum lofgerðarfórnir í enn meira mæli?
[Mynd á bls. 23]
Notarðu öll tækifæri til að vitna?