„Skynsamleg Guðsdýrkun“
„Bjóðið fram líkami yðar að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn, og er það skynsamleg guðsdýrkun af yðar hendi.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 12:1, Biblían 1912.
1, 2. Hvað er líkt með því að læra að fylgja meginreglum Biblíunnar og ná tökum á nýju tungumáli?
HEFURÐU einhvern tíma reynt að læra nýtt tungumál? Ef svo er veistu að það kostar mikla vinnu. Það er nefnilega ekki nóg bara að læra ný orð. Til að ná góðum tökum á málinu þarf líka að setja sig vel inn í málfræðina. Maður verður að skilja hvernig orð tengjast innbyrðis og hvernig þeim er raðað saman til að mynda heilsteyptar hugsanir.
2 Það er ekki ósvipað að tileinka sér þekkingu á orði Guðs. Það er ekki nóg að læra bara einstök biblíuvers. Við verðum líka að ná tökum á málfræði Biblíunnar, ef svo má að orði komast. Við þurfum að skilja hvernig ritningarstaðir tengjast innbyrðis og hvaða meginreglur þeir geyma sem hægt er að fylgja í daglegu lífi. Þannig getum við orðið ‚albúin og hæf til sérhvers góðs verks.‘ — 2. Tímóteusarbréf 3:17.
3. Hvaða breyting átti sér stað árið 33 í sambandi við þjónustu við Guð?
3 Meðan lagasáttmáli Móse var í gildi var að verulegu leyti hægt að sýna trúfesti með því að halda skýrar og fastmótaðar reglur. En árið 33 afmáði Jehóva lögmálið, eiginlega ‚negldi það á kvalastaurinn‘ sem sonur hans hafði verið líflátinn á. (Kólossubréfið 2:13, 14) Eftir það var þjónum Guðs ekki gefin ítarleg skrá um fórnir sem átti að færa og reglur sem bar að fylgja. Þeim var sagt: „Bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt [„skynsamleg,“ Biblían 1912] guðsdýrkun af yðar hendi.“ (Rómverjabréfið 12:1) Já, kristnir menn áttu að gefa af sjálfum sér í þjónustu Guðs af öllu hjarta, sálu, huga og mætti. (Markús 12:30; samanber Sálm 110:3.) En hvað er átt við með ‚skynsamlegri guðsdýrkun‘?
4, 5. Hvað er fólgið í því að þjóna Jehóva með skynseminni?
4 Orðið ‚skynsamlegur‘ er þýðing gríska orðsins logíkosʹ sem merkir „skynsamur,“ „rökréttur,“ eða „gáfaður.“ Þjónar Guðs eiga að beita biblíufræddri samvisku sinni. Í stað þess að byggja ákvarðanir sínar á ótal fyrirfram ákveðnum reglum eiga kristnir menn að vega og meta meginreglur Biblíunnar. Þeir þurfa að skilja „málfræði“ Biblíunnar, það er að segja innbyrðis tengsl hinna ýmsu meginreglna hennar. Þannig geta þeir tekið öfgalausar og skynsamlegar ákvarðanir.
5 Þýðir það að kristnir menn séu án laga? Vissulega ekki. Kristnu Grísku ritningarnar banna afdráttarlaust skurðgoðadýrkun, kynferðislegt siðleysi, morð, lygar, spíritisma, misnotkun blóðs og ýmsar aðrar syndir. (Postulasagan 15:28, 29; 1. Korintubréf 6:9, 10; Opinberunarbókin 21:8) En við verðum að beita skynseminni í langtum ríkari mæli en krafist var af Ísraelsmönnum til að læra meginreglur Biblíunnar og fara eftir þeim. Það kostar tíma og erfiði líkt og þarf til að ná tökum á nýju tungumáli. Hvernig getum við þroskað skynsemina?
Að þroska skynsemina
6. Hvað felur biblíunám í sér?
6 Í fyrsta lagi verðum við að vera kappsamir biblíunemendur. Innblásið orð Guðs er ‚nytsamt til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Við ættum ekki alltaf að vænta þess að lausn á vandamáli finnist í einu biblíuversi. Við þurfum kannski að rökhugsa út frá nokkrum ritningarstöðum sem varpa ljósi á ákveðnar aðstæður eða vandamál. Við þurfum að leita vandlega til að sjá viðhorf Guðs til málsins. (Orðskviðirnir 2:3-5) Við þurfum líka að vera hyggin og skilningsgóð því að „hinn hyggni nemur hollar lífsreglur.“ (Orðskviðirnir 1:5) Skilningsgóður maður getur greint milli einstakra málsatriða og komið auga á innbyrðis samband þeirra. Hann raðar bútunum saman þannig að hann sjái heildarmyndina.
7. Hvernig geta foreldrar beitt skynseminni í sambandi við meginreglur Biblíunnar um aga?
7 Tökum uppeldismál sem dæmi. Orðskviðirnir 13:24 segja að faðir sem elskar son sinn ‚agi hann snemma.‘ Ein sér mætti mistúlka þessi ritningarorð til að réttlæta harðneskjulega og miskunnarlausa refsingu. En áminning Kólossubréfsins 3:21 hjálpar okkur að forðast slíkar öfgar: „Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.“ Foreldrar, sem nota skynsemina og samræma þessar meginreglur, beita ekki svo hörðum aga að kalla mætti „misþyrmingu.“ Þeir eru hlýlegir við börn sín, skilningsríkir og virða þau. (Efesusbréfið 6:4) Í uppeldismálum og hverju öðru, þar sem meginreglur Biblíunnar koma við sögu, getum við þroskað skynsemina með því að vega og meta öll málsatriði. Þannig getum við borið skyn á „málfræðina“ í meginreglum Biblíunnar, skilið hvers Guð ætlaðist til og hvernig á að ná því fram.
8. Hvernig getum við forðast stífni og kreddufestu í sambandi við skemmtiefni?
8 Önnur leið til að þroska skynsemina er að forðast stíf og kreddukennd sjónarmið. Ósveigjanleiki hindrar okkur í að þroska skynsemina. Tökum skemmtanir sem dæmi. Biblían segir: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Þýðir það að hver einasta bók, kvikmynd eða sjónvarpsþáttur, sem heimurinn gerir, sé spilltur og djöfullegur? Það er tæpast skynsamleg afstaða. Sumir kjósa kannski að forðast sjónvarp, kvikmyndir og veraldlegar bókmenntir með öllu. Það er réttur þeirra og enginn ætti að gagnrýna þá fyrir. En þeir ættu ekki heldur að reyna að þröngva öðrum til að vera jafnstrangir við sjálfa sig. Félagið hefur birt greinar með biblíulegum meginreglum sem ættu að gera okkur kleift að vera skynsöm og vandfýsin í vali okkar á afþreyingu eða skemmtiefni. Það er ákaflega óviturlegt að sniðganga þessar viðmiðunarreglur og gera okkur berskjölduð fyrir hinu siðlausa hugarfari, grófa ofbeldi eða spíritisma sem einkennir stóran hluta af skemmtiefni þessa heims. Viturlegt val skemmtiefnis útheimtir að við beitum skynseminni og meginreglum Biblíunnar þannig að við höfum hreina samvisku fyrir Guði og mönnum. — 1. Korintubréf 10:31-33.
9. Hvað er átt við með „allri dómgreind“?
9 Stór hluti af skemmtiefni nútímans er greinilega ekki við hæfi kristinna manna.a Þess vegna verðum við að æfa hjörtu okkar til að „hata hið illa“ þannig að við verðum ekki eins og sumt fólk á fyrstu öld sem var búið að ‚missa alla siðferðisvitund.‘ (Sálmur 97:10; Efesusbréfið 4:17-19, NW) Til að beita skynseminni í slíkum málum þurfum við nákvæma ‚þekkingu og alla dómgreind.‘ (Filippíbréfið 1:9) Gríska orðið, sem þýtt er „dómgreind,“ merkir „næm siðferðisvitund.“ Orðið er notað um bókstafleg skilningarvit svo sem sjónina. Þegar skemmtiefni er annars vegar eða eitthvað annað, sem kallar á persónulega ákvörðun, þá ætti siðferðisvitund okkar að vera næm þannig að við skynjum ekki bara það sem er greinilega svart eða hvítt heldur líka það sem er á gráa svæðinu. En við ættum þó að gæta okkar að fara ekki með meginreglur Biblíunnar út í öfgar og ætlast til að allir bræður okkar geri það líka. — Filippíbréfið 4:5, NW.
10. Hvernig getum við skilið persónuleika Jehóva út frá Sálmi 15?
10 Þriðja leiðin til að þroska skynsemina er að skilja hugsanagang Jehóva og rótfesta hann í hjarta sér. Í orði sínu opinberar Jehóva persónuleika sinn og staðla. Í Sálmi 15 lesum við til dæmis um hvers konar manngerð Jehóva bjóði að gista í tjaldi sínu. Það er sá sem iðkar réttlæti, talar sannleika af hjarta, er orðheldinn og notar sér ekki aðra í eigingjörnum tilgangi. Spyrðu þig þegar þú lest þennan sálm: ‚Lýsa þessir eiginleikar mér? Myndi Jehóva bjóða mér að gista í tjaldi sínu?‘ Skilningarvitin styrkjast er við samstillum okkur vegum og hugsanagangi Jehóva. — Orðskviðirnir 3:5, 6; Hebreabréfið 5:14.
11. Hvernig hirtu farísearnir ekki um „réttlæti og kærleika Guðs“?
11 Það var einmitt í þessu sem farísearnir brugðust hrapallega. Farísearnir þekktu formlega umgjörð lögmálsins en skildu ekki „málfræði“ þess. Þeir gátu þulið upp ókjörin öll af lagaákvæðum en þeir skildu ekki persónuleika höfundarins. Jesús sagði þeim: „Þér gjaldið tíund af myntu og rúðu og alls kyns matjurtum, en hirðið ekki um réttlæti og kærleika Guðs.“ (Lúkas 11:42) Ósveigjanleiki og harðúð faríseanna olli því að þeir notuðu ekki skynsemina. Mótsagnirnar í hugsanagangi þeirra komu í ljós er þeir gagnrýndu lærisveina Jesú fyrir að tína öx á hvíldardegi og eta kornið, en síðar sama dag fengu þeir ekki minnsta samviskubit er þeir lögðu á ráðin um að myrða Jesú. — Matteus 12:1, 2, 14.
12. Hvernig getum við orðið samstilltari Jehóva sem persónu?
12 Við viljum ekki líkjast faríseunum. Þekking á orði Guðs þarf að hjálpa okkur að verða samstilltari honum sem persónu. Hvernig getum við gert það? Eftir lestur biblíukafla eða biblíutengdra rita hafa spurningar eins og ‚hvað kennir þetta efni mér um Jehóva og eiginleika hans?‘ og ‚hvernig get ég sýnt eiginleika Jehóva í samskiptum mínum við aðra?‘ hjálpað sumum. Með því að hugleiða slíkar spurningar þroskum við skynsemina og getum orðið „eftirbreytendur Guðs.“ — Efesusbréfið 5:1.
Þjónar Guðs og Krists, ekki mannaþrælar
13. Hvernig sögðu farísearnir öðrum fyrir verkum í siðferðismálum?
13 Öldungar verða að leyfa þeim sem eru í þeirra umsjá að beita skynseminni. Safnaðarmennirnir eru ekki mannaþrælar. „Ef ég væri enn að þóknast mönnum,“ skrifaði Páll, „þá væri ég ekki þjónn Krists.“ (Galatabréfið 1:10; Kólossubréfið 3:23, 24) En farísearnir vildu láta fólk halda að velþóknun manna væri mikilvægari en velþóknun Guðs. (Matteus 23:2-7; Jóhannes 12:42, 43) Farísearnir tóku sér það hlutverk að segja öðrum fyrir verkum í siðferðismálum, settu sínar eigin reglur og dæmdu svo aðra eftir því hve vel eða illa þeir fylgdu þeim. Biblíufrædd samviska þeirra sem fylgdu faríseunum varð slöpp og þeir urðu í reynd mannaþrælar.
14, 15. (a) Hvernig geta öldungar sýnt að þeir séu samverkamenn hjarðarinnar? (b) Hvernig ættu öldungar að taka á samviskumálum?
14 Kristnir öldungar nú á tímum vita að hjörðin er ekki fyrst og fremst ábyrg gagnvart þeim. Sérhver kristinn maður verður að bera sína byrði. (Rómverjabréfið 14:4; 2. Korintubréf 1:24; Galatabréfið 6:5) Þannig ætti það að vera. Ef einhverjir í hjörðinni yrðu mannaþrælar og hlýddu bara af því að fylgst væri með þeim, hvað myndu þeir þá gera þegar öldungarnir væru ekki nálægir? Páll hafði ástæðu til að gleðjast yfir bræðrunum í Filippí: „Þér sem ætíð hafið verið hlýðnir, vinnið nú að sáluhjálp yðar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá yður, því fremur nú, þegar ég er fjarri.“ Þeir voru sannarlega þjónar Krists en ekki Páls. — Filippíbréfið 2:12.
15 Öldungar taka því ekki ákvarðanir í samviskumálum fyrir þá sem eru í þeirra umsjá. Þeir skýra þær meginreglur Biblíunnar, sem koma málinu við, og leyfa síðan hlutaðeigandi einstaklingum að beita skynseminni til að taka ákvörðun. Þetta er alvarleg ábyrgð en hver og einn verður að bera hana sjálfur.
16. Hvaða fyrirkomulag var í Ísrael til að taka á vandamálum?
16 Líttu á tímann er Jehóva notaði dómara til að leiða Ísrael. Biblían segir okkur: „Í þá daga var enginn konungur í Ísrael. Hver maður gjörði það, sem honum vel líkaði.“ (Dómarabókin 21:25) En Jehóva sá til þess að fólk hans gæti fengið leiðsögn. Í hverri borg voru reyndir öldungar sem gátu veitt hjálp til að svara spurningum og leysa vandamál. Auk þess höfðu levítaprestarnir góð áhrif með því að fræða fólkið í lögum Guðs. Í sérstaklega erfiðum málum gat æðsti presturinn leitað leiðsagnar Guðs með hjálp úrím og túmmím. Bókin Innsýn í Ritningarnar segir: „Sá sem notfærði sér þessar ráðstafanir, sem aflaði sér þekkingar á lögum Guðs og fór eftir þeim hafði örugga leiðsögn fyrir samvisku sína. Í slíku tilviki var það ekki til ills að ‚gera það sem honum vel líkaði.‘ Jehóva leyfði fólkinu að sýna með afstöðu sinni og stefnu hvort það vildi hlýða honum eða ekki.“ — 2. bindi, bls. 162-3.b
17. Hvernig geta öldungar sýnt að þeir ráðleggja í samræmi við staðla Guðs en ekki sína eigin.
17 Reyndir öldungar hjálpa safnaðarmönnum að leysa vandamál og gefa verðmætar ráðleggingar eins og dómarar og prestar Ísraels gerðu. Stundum þurfa þeir jafnvel að ‚vanda um, ávíta og áminna með öllu langlyndi og fræðslu.‘ (2. Tímóteusarbréf 4:2) Þeir gera það í samræmi við staðla Guðs, ekki sína eigin. Það er einkar áhrifaríkt er öldungar gefa gott fordæmi og leitast við að ná til hjartans!
18. Af hverju er sérlega áhrifaríkt fyrir öldungana að höfða til hjartans?
18 Hjartað er „vélin“ í kristnu starfi okkar. Biblían segir þess vegna: „Þar eru uppsprettur lífsins.“ (Orðskviðirnir 4:23) Öldungar, sem ná til hjartans, komast að raun um að safnaðarmennirnir finna þá hvöt hjá sér til að gera allt sem þeir geta í þjónustu Guðs. Þeir verða þá ‚sjálfræsandi‘ og þurfa ekki alltaf að láta aðra ýta sér af stað. Jehóva vill ekki hlýðni sem er tilkomin af þvingun. Hann vill hlýðni sprottna af kærleiksfullu hjarta. Öldungar geta hvatt til slíkrar þjónustu frá hjartanu með því að hjálpa hjörðinni að þroska skynsemina.
Að rækta með sér „huga Krists“
19, 20. Af hverju er mikilvægt fyrir okkur að rækta með okkur huga Krists?
19 Eins og bent hefur verið á er ekki nóg bara að þekkja lög Guðs. „Veit mér skyn,“ sárbað sálmaritarinn, „að ég megi halda lögmál þitt og varðveita það af öllu hjarta.“ (Sálmur 119:34) Jehóva hefur opinberað „huga Krists“ í orði sínu. (1. Korintubréf 2:16) Jesús þjónaði Jehóva með skynseminni og gaf okkur fullkomna fyrirmynd. Hann skildi lög Guðs og meginreglur og fylgdi þeim óaðfinnanlega. Með því að kynna okkur fordæmi hans getum við „skilið, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur, og komist að raun um hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu.“ (Efesusbréfið 3:17-19) Já, það sem við lærum um Jesú af Biblíunni nær miklu lengra en fræðileg þekking ein sér; hún gefur okkur skýra mynd af Jehóva sjálfum. — Jóhannes 14:9, 10.
20 Er við nemum orð Guðs getum við áttað okkur á hvernig hann lítur málin og tekið öfgalausar ákvarðanir. Það kostar áreynslu. Við verðum að vera dugleg að nema orð Jehóva og gera okkur næm fyrir persónuleika hans og stöðlum. Við erum að læra nýja málfræði ef svo má segja. En þeir sem gera það eru að fylgja hvatningu Páls um að ‚bjóða fram líkami sína að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn, og veita skynsamlega guðsdýrkun.‘ — Rómverjabréfið 12:1, Biblían 1912.
[Neðanmáls]
a Það útilokar skemmtiefni sem hampar illum öndum, klámi eða kvalalosta, og einnig svokallað skemmtiefni fyrir alla fjölskylduna er ýtir undir lauslætishugmyndir eða undanlátsemi sem kristnir menn geta ekki sætt sig við.
b Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Hvað lærðir þú?
◻ Hvaða breyting átti sér stað árið 33 í sambandi við þjónustu við Guð?
◻ Hvernig getum við þroskað skynsemina?
◻ Hvernig geta öldungar hjálpað hjörðinni að þjóna Guði og Kristi?
◻ Af hverju ættum við að rækta með okkur „huga Krists“?