Virðing fyrir yfirvaldi — af hverju nauðsynleg?
ALLIR kunna að meta það að lögreglan skuli hafa vald til að handtaka afbrotamenn sem stela eignum þeirra eða ógna fjölskyldum þeirra. Og það er ekki síður mikils virði að dómstólar skuli hafa vald til að refsa afbrotamönnum. Það verndar samfélagið.
Trúlega kemur upp í hugann ýmis önnur þjónusta sem greitt er fyrir með sköttum almennings. Má þar nefna sorphreinsun, menntun og viðhald vega. Sannkristnir menn viðurkenna fúslega að það sé nauðsynlegt að virða rétt skipað yfirvald. En hversu langt á þessi virðing að ganga og á hvaða sviðum er hennar krafist?
Í samfélaginu
Biblían segir að allir menn, jafnt trúaðir sem vantrúaðir, eigi að virða borgaraleg yfirvöld. Það er samfélaginu til góðs ef menn gera það. Páll postuli fjallaði um þetta í bréfi til kristinna manna í Róm, og það er gagnlegt fyrir okkur að kynna okkur það sem hann sagði um málið í Rómverjabréfinu 13:1-7.
Páll var rómverskur ríkisborgari og Róm var heimsveldi þess tíma. Í bréfinu, sem hann skrifar um árið 56, ráðleggur hann kristnum mönnum að vera fyrirmyndarborgarar. „Sérhver maður hlýði . . . yfirvöldum,“ segir hann. „Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði.“
Páll bendir á það hérna að mennsk yfirvöld séu einungis til af því að Guð leyfir það. Það er í þeim skilningi sem þau eru skipuð af Guði, og „sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu.“
Ef menn gera það sem gott er fá þeir lofstír af yfirvöldum en þau hafa líka umboð til að refsa afbrotamönnum. Ef menn gera það sem illt er hafa þeir ærna ástæðu til að óttast yfirvöld því að þau eru „hegnari“ til refsingar og eru að því leyti „þjónn Guðs.“
Páll segir að lokum: „Þess vegna er nauðsynlegt að hlýðnast, ekki einungis vegna hegningarinnar, heldur og vegna samviskunnar. Einmitt þess vegna gjaldið þér og skatta, því að valdsmennirnir eru Guðs þjónar, sem annast þetta.“
Ráðstöfun skattfjárins er á ábyrgð yfirvalda en ekki skattgreiðanda. Kristinn maður varðveitir góða samvisku af því að hann er heiðarlegur borgari. Hann veit að með því að vera yfirvöldum undirgefinn og greiða skatta skilvíslega fylgir hann reglum samfélagsins og lifir í samræmi við kröfur Guðs.
Innan fjölskyldunnar
Hvað um forræði eða yfirráð innan fjölskyldunnar? Ungbarn heimtar oft athygli með því að gráta eða orga en vitrir foreldrar eru næmir á raunverulegar þarfir þess og láta ekki stjórnast af geðvonskuköstum þess. Sum börn fá að ráða ferðinni sjálf og setja sér oft eigin reglur þegar þau stækka. En þau eru reynslulítil og fyrir vikið leiðast þau stundum út í afbrot og aðra ranga breytni sem er bæði skaðleg fyrir fjölskylduna og samfélagið í heild eins og yfirvöld vita manna best.
„Foreldrar byrja of seint að aga börnin,“ segir Rosalind Miles, höfundur bókarinnar Children We Deserve. „Ögunin á að byrja um leið og barnið fæðist.“ Ef raddblær foreldra ber frá upphafi vott um hlýju, umhyggju og myndugleik og ef þeir eru sjálfum sér samkvæmir í verki læra börnin fljótt að viðurkenna vald þeirra og kærleiksríkan aga.
Biblían inniheldur mikinn sjóð verðmætra upplýsinga um foreldravaldið. Í Orðskviðunum beinir spekingurinn Salómon athyglinni að einingu guðhræddra foreldra gagnvart börnum sínum: „Hlýð þú, son minn, á áminning föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar.“ (Orðskviðirnir 1:8) Þegar foreldrar eru samtaka vita börnin hvar þau standa. Þau reyna kannski að tefla öðru foreldrinu gegn hinu til að fá vilja sínum framgengt, en samstaða foreldranna er börnunum til verndar.
Biblían bendir á að ábyrgðin á andlegri velferð bæði barna og móður hvíli fyrst og fremst á herðum eiginmannsins. Það er þetta sem átt er við þegar sagt er að eiginmaðurinn sé höfuð fjölskyldunnar. Hvernig á hann að fara með forystuhlutverk sitt? Páll bendir á að Kristur sé höfuð safnaðarins líkt og maðurinn sé höfuð konunnar. Síðan segir hann: „Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna [söfnuðinn, andlega brúði sína] og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana.“ (Efesusbréfið 5:25) Þegar maður líkir eftir fordæmi Jesú og veitir fjölskyldunni kærleiksríka forystu ávinnur hann sér „lotningu“ eða djúpa virðingu eiginkonu sinnar. (Efesusbréfið 5:33) Börnin sjá þá líka gildi þess að lúta þeirri forystu, sem Guð hefur sett, og þau eru hvött til að gera það. — Efesusbréfið 6:1-3.
Hvernig geta einstæðir foreldrar spjarað sig í forystuhlutverkinu? Bæði feður og mæður geta skírskotað beint til yfirráða Jehóva Guðs og Jesú Krists. Jesús talaði alltaf mynduglega enda hafði hann föður sinn og Ritninguna sem bakhjarl. — Matteus 4:1-10; 7:29; Jóhannes 5:19, 30; 8:28.
Biblían inniheldur gnægð gagnlegra meginreglna sem snúa að vandamálum barna. Foreldrar geta gefið börnunum holl og góð ráð með því að finna þessar meginreglur og fylgja þeim. (1. Mósebók 6:22; Orðskviðirnir 13:20; Matteus 6:33; 1. Korintubréf 15:33; Filippíbréfið 4:8, 9) Þeir geta líka sótt efnivið í biblíutengd rit sem eru sérstaklega samin til að hjálpa þeim að kenna börnunum að meta hversu gagnlegt það er að virða fyrirmæli Biblíunnar.a
Í kristna söfnuðinum
„Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ (Matteus 17:5) Með þessum orðum lýsti Jehóva Guð yfir að Jesús talaði í umboði hans. Og við höfum greiðan aðgang að orðum Jesú í guðspjöllunum fjórum.
Rétt áður en Jesús steig upp til himna sagði hann lærisveinunum að sér hefði verið gefið ‚allt vald á himni og jörðu.‘ (Matteus 28:18) Sem höfuð safnaðarins hefur hann haft vakandi auga með smurðum fylgjendum sínum á jörðinni, og frá því að heilögum anda var úthellt á hvítasunnunni árið 33 hefur hann notað þá sem boðleið sannleikans, sem ‚trúan og hygginn þjón‘ sinn. (Matteus 24:45-47; Postulasagan 2:1-36) Hvað hefur hann gert til að styrkja kristna söfnuðinn? Eftir að hann steig upp til himna gaf hann mönnunum „gjafir.“ (Efesusbréfið 4:8) Þessar „gjafir“ eru safnaðaröldungarnir sem heilagur andi hefur útnefnt til starfa og falið þá ábyrgð að gæta andlegra hagsmuna safnaðarmanna. — Postulasagan 20:28.
Þess vegna ráðleggur Páll: „Verið minnugir leiðtoga yðar [þeirra sem fara með forystu í söfnuðinum], sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra.“ Þessir trúföstu menn feta sem best þeir geta í fótspor Jesú svo að það er skynsamlegt að líkja eftir trú þeirra. Páll bætir svo við: „Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir [„virðið yfirráð þeirra í hvívetna,“ The Amplified Bible]. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.“ — Hebreabréfið 13:7, 17.
Hvað gerist ef forysta öldunganna er ekki virt? Sumir safnaðarmenn á fyrstu öld gerðu sig seka um það og snerust gegn trúnni. Hýmeneus og Fíletus eru nefndir til sögunnar og sagt að þeir hafi umhverft trú sumra og stundað vanheilagar hégómaræður. Þeir fullyrtu meðal annars að upprisan væri um garð gengin, sennilega í þeirri merkingu að hún væri andleg eða táknræn, og þess vegna væri engrar upprisu að vænta þegar Guðsríki framtíðarinnar tæki völd. — 2. Tímóteusarbréf 2:16-18.
Hinir útnefndu forystumenn, öldungarnir, komu söfnuðinum til bjargar. Sem fulltrúar Jesú Krists gátu þeir hrakið þessar fullyrðingar með orðum Ritningarinnar. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Eins er það í kristna söfnuðinum núna sem er kallaður „stólpi og grundvöllur sannleikans.“ (1. Tímóteusarbréf 3:15) Falskenningar fá aldrei að spilla hinum ‚heilnæmu orðum‘ sannleikans í Biblíunni sem okkur er trúað fyrir. — 2. Tímóteusarbréf 1:13, 14.
Þó svo að virðing fyrir yfirvaldi sé á hröðu undanhaldi í heiminum virða kristnir menn það að í samfélaginu, fjölskyldunni og söfnuðinum er sett ákveðið yfirvald og forysta sem er þeim til góðs. Líkamleg, tilfinningaleg og andleg velferð er undir því komin að virða yfirvald. Ef við virðum og viðurkennum það yfirvald, sem Guð hefur sett, njótum við verndar æðstu yfirvalda alheims — hans sjálfs og Jesú Krists — sjálfum okkur til eilífra heilla. — Sálmur 119:165; Hebreabréfið 12:9.
[Neðanmáls]
a Sjá bækurnar Spurningar unga fólksins — svör sem duga og The Secret of Family Happiness, gefnar út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Rammi á blaðsíðu 5]
Biblían inniheldur mikinn sjóð upplýsinga um fjölskylduforystu.
[Mynd á blaðsíðu 6]
Einstæðir foreldrar geta skírskotað beint til yfirráða Jehóva Guðs og Jesú Krists.
[Myndir á blaðsíðu 7]
Kristnir menn virða það að í samfélaginu, fjölskyldunni og söfnuðinum er sett ákveðið yfirvald og forysta sem er þeim til góðs.
[Mynd credit line á blaðsíðu 4]
Ljósmynd: Josh Mathes, Collection of the Supreme Court of the United States.