Viðhorf kristins manns til yfirvalds
„Ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 13:1.
1. Hverju eru yfirvald og yfirráð tengd og hvers vegna má segja að Jehóva sé æðsta yfirvaldið?
YFIRVALD og yfirráð eru nátengd höfundarrétti. Hinn hæsti, sem er höfundur alls sköpunarverksins, bæði hins lifandi og hins lífvana, er Jehóva Guð. Hann er óneitanlega hið æðsta yfirvald. Sannkristnum mönnum er eins innanbrjósts og verunum á himnum sem lýsa yfir: „Verður ert þú, [Jehóva] vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ — Opinberunarbókin 4:11.
2. Hvernig viðurkenndu valdhafar til forna í vissum skilningi að þeir hefðu engan náttúrlegan rétt til að drottna yfir öðrum mönnum, og hvað sagði Jesús Pontíusi Pílatusi?
2 Sú staðreynd ein að margir af fyrstu valdhöfum manna reyndu að löghelga yfirráð sín með því að halda því fram að þeir væru guðir eða fulltrúar einhvers guðs, var þegjandi viðurkenning á því að enginn maður hefur meðfæddan rétt til að ráða yfir öðrum mönnum.a (Jeremía 10:23) Jehóva Guð er eina lögmæta uppspretta yfirráða. Kristur sagði Pontíusi Pílatusi, rómverskum landstjóra Júdeu: „Þú hefðir ekkert vald yfir mér, ef þér væri ekki gefið það að ofan.“ — Jóhannes 19:11.
„Ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði“
3. Hvað sagði Páll postuli um ‚yfirvöld‘ og hvaða spurningar vekja orð Jesú og Páls?
3 Páll postuli skrifaði kristnum mönnum sem voru undir yfirráðum Rómaveldis: „Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn. Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði.“ (Rómverjabréfið 13:1) Hvað átti Jesús við þegar hann sagði að Pílatusi hafi verið gefið vald sitt „að ofan“? Og á hvaða hátt áleit Páll að hin pólitísku yfirvöld síns tíma væru skipuð hvert í sína stöðu af Guði? Áttu þeir við að Jehóva beri persónulega ábyrgð á því að skipa hvern einstakan pólitískan stjórnanda þessa heims í embætti?
4. Hvað kölluðu Jesús og Páll Satan og hvaða fullyrðingu Satans andmælti Jesús ekki?
4 Hvernig gæti það verið þegar haft er í huga að Jesús kallaði Satan „höfðingja þessa heims“ og að Páll postuli nefndi hann síðar „guð þessarar aldar“? (Jóhannes 12:31; 16:11; 2. Korintubréf 4:4) Enn fremur, þegar Satan freistaði Jesú, bauð hann honum yfirráð yfir ‚öllum ríkjum veraldar‘ og fullyrti að honum hefði verið gefin þau í hendur. Jesús hafnaði tilboði hans en neitaði því ekki að Satan færi með slíkt vald. — Lúkas 4:5-8.
5. (a) Hvernig ber okkur að skilja orð Jesú og Páls um mennsk yfirvöld? (b) Í hvaða skilningi eru yfirvöldin „skipuð af Guði“?
5 Jehóva lét Satan eftir stjórnin yfir þessum heimi með því að leyfa honum að lifa eftir uppreisn hans og eftir að hann hafði freistað Adams og Evu sem varð til þess að þau risu upp gegn drottinvaldi hans. (1. Mósebók 3:1-6; samanber 2. Mósebók 9:15, 16.) Orð Jesú og Páls hljóta því að merkja að eftir að fyrstu mannhjónin í Eden höfnuðu guðræði eða stjórn Guðs, leyfði Jehóva fráhverfum mönnum að byggja upp valdakerfi sem gerðu þeim kleift að búa í skipulegu þjóðfélagi. Stundum hefur Jehóva látið vissa valdhafa eða stjórnir falla til að ná fram tilgangi sínum. (Daníel 2:19-21) Öðrum hefur hann leyft að halda völdum. Segja má að þeir stjórnendur, sem Jehóva umber, séu ‚skipaðir af Guði.‘
Frumkristnir menn og rómversk yfirvöld
6. Hvernig litu frumkristnir menn á rómversk yfirvöld og hvers vegna?
6 Frumkristnir menn lögðust ekki á sveif með sértrúarflokkum Gyðinga sem gerðu samsæri og börðust gegn hersetu Rómverja í Ísrael. Að því leyti sem rómversk yfirvöld héldu uppi lögum og reglu á landi og sjó með kerfisbundnum lögum sínum, gerðu margar vatnsleiðslur, vegi og brýr sem komu að góðum notum, og stuðluðu á heildina litið að almannaheill, þá litu kristnir menn á þau sem ‚þjón Guðs sér til góðs.‘ (Rómverjabréfið 13:3, 4) Lög og regla sköpuðu umhverfi sem gerði kristnum mönnum kleift að prédika fagnaðarerindið hvarvetna eins og Jesús fyrirskipaði. (Matteus 28:19, 20) Þeir gátu með góðri samvisku greitt skattana, sem Rómverjar lögðu á, jafnvel þótt sumt af fénu væri notað til málefna sem Guð hafði ekki velþóknun á. — Rómverjabréfið 13:5-7.
7, 8. (a) Hvað leiðir nákvæmur lestur Rómverjabréfsins 13:1-7 í ljós, og hvað sýnir samhengið? (b) Undir hvaða kringumstæðum komu rómversk yfirvöld ekki fram sem „þjónn Guðs,“ og hvaða afstöðu tóku frumkristnir menn í því tilviki?
7 Nákvæmur lestur fyrstu sjö versanna í 13. kafla Rómverjabréfsins leiðir í ljós að hin pólitísku ‚yfirvöld‘ voru „þjónn Guðs“ til lofs þeim sem gerðu gott og til refsingar þeim sem aðhöfðust illt. Samhengið sýnir að Guð, ekki yfirvöld, ákveður hvað sé gott og hvað illt. Ef því keisari Rómar eða einhver annar pólitískur valdamaður krafðist einhvers, sem Guð bannaði, eða bannaði eitthvað sem Guð krafðist, þá kom hann ekki lengur fram sem þjónn Guðs. Jesús sagði: „Gjaldið . . . keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ (Matteus 22:21) Ef rómverska ríkið krafðist þess sem tilheyrði Guði, svo sem tilbeiðslu eða lífs manns, þá fylgdu sannkristnir menn ráði postulanna: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ — Postulasagan 5:29.
8 Kristnir menn voru ofsóttir af því að þeir neituðu að tilbiðja keisarann og taka þátt í skurðgoðadýrkun, og vildu ekki hætta að sækja kristnar samkomur og prédika fagnaðarerindið. Almennt er talið að Páll postuli hafi verið líflátinn að skipan Nerós keisara. Aðrir keisarar, sér í lagi Dómitíanus, Markús Árelíus, Septimíus Severus, Decíus og Díócletíanus, ofsóttu líka frumkristna menn. Þegar þessir keisarar og lægra settir valdsmenn þeirra ofsóttu kristna menn komu þeir vissulega ekki fram sem „Guðs þjónn.“
9. (a) Hvað gildir enn um hin pólitísku yfirvöld og hvaðan fær hið pólitíska dýr mátt og vald? (b) Hvað er rökrétt að segja um undirgefni kristinna manna við yfirvöld?
9 Allt sýnir þetta að enda þótt hin pólitísku yfirvöld þjóni að sumu leyti sem „Guðs tilskipun“ til að viðhalda reglu í mannlegu samfélagi, eru þau samt hluti af því veraldlega heimskerfi sem Satan er guð yfir. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Þau tilheyra hinu pólitíska skipulagi sem nær til alls heimsins og „dýrið“ í Opinberunarbókinni 13:1, 2 táknar. Þetta dýr fær mátt sinn og vald frá „drekanum mikla,“ Satan djöflinum. (Opinberunarbókin 12:9) Það liggur því í hlutarins eðli að undirgefni kristinna manna við slík yfirvöld sé afstæð, ekki alger. — Samanber Daníel 3:16-18.
Tilhlýðileg virðing fyrir yfirvöldum
10, 11. (a) Hvernig sýndi Páll að við ættum að sýna valdamönnum virðingu? (b) Hvernig og hvers vegna má biðja fyrir „konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir“?
10 Þetta merkir þó ekki að kristnir menn ættu að vera hortugir og ögrandi í viðhorfum til pólitískra yfirvalda. Að vísu eru margir þessara valdamanna ekkert sérlega virðingarverðir í einkalífi sínu eða jafnvel opinberri framkomu. Eigi að síður sýndu postularnir, bæði með fordæmi sínu og ráðleggingum, að það bæri að sýna valdamönnum virðingu. Þegar Páll kom fram fyrir Heródus Agrippa konung annan, sem lifði í sifjaspelli, sýndi hann honum tilhlýðilega virðingu. — Postulasagan 26:2, 3, 25.
11 Páll sagði jafnvel að það væri við hæfi að minnast á veraldleg yfirvöld í bænum okkar, einkum þegar það fellur í þeirra hlut að taka ákvarðanir sem snerta líf okkar og kristið starf. Hann skrifaði: „Fyrst af öllu áminni ég um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum, fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði. Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði, sem vill að allir [„alls konar,“ NW] menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tímóteusarbréf 2:1-4) Virðing okkar fyrir slíkum yfirvöldum getur leitt til þess að þau leyfi okkur að starfa frjálslegar að því að reyna að bjarga ‚alls konar mönnum.‘
12, 13. (a) Hvaða ráð, sem lýsa góðu jafnvægi, gaf Pétur um yfirráð? (b) Hvernig getum við beitt okkur gegn „vanþekkingu heimskra manna“ sem skapa fordóma gegn vottum Jehóva?
12 Pétur postuli skrifaði: „Verið Drottins vegna undirgefnir allri mannlegri skipan, bæði keisara, hinum æðsta, og landshöfðingjum, sem hann sendir til að refsa illgjörðamönnum og þeim til lofs er breyta vel. Því að það er vilji Guðs, að þér skuluð með því að breyta vel þagga niður vanþekkingu heimskra manna. Þér eruð frjálsir menn, hafið ekki frelsið fyrir hjúp yfir vonskuna, breytið heldur sem þjónar Guðs. Virðið alla menn, elskið bræðrafélagið, óttist Guð, heiðrið keisarann.“ (1. Pétursbréf 2:13-17) Þessi ráð lýsa góðu jafnvægi. Við skuldum Guði algera undirgefni sem þrælar hans, og við sýnum pólitískum yfirvöldum, sem send eru til að refsa illvirkjum, afstæða undirgefni og virðingu.
13 Reynslan hefur sýnt að mörg veraldleg yfirvöld hafa hinar furðulegustu ranghugmyndir um votta Jehóva. Það kemur oftast til af því að illviljaðir óvinir fólks Guðs hafa gefið þeim rangar eða villandi upplýsingar. Stundum stafar það af því að þau hafa alla sína vitneskju um okkur úr fjölmiðlunum, en þeir eru ekki alltaf hlutlausir í umfjöllun sinni. Stundum getum við brotið þessa fordóma niður með kurteislegu viðmóti okkar gagnvart yfirvöldum og, þar sem því verður viðkomið, með því að gefa þeim nákvæma mynd af starfi og trúarskoðunum votta Jehóva. Bæklingurinn Vottar Jehóva á tuttugustu öldinni gefur störfum hlöðnum embættismönnum stutta og greinagóða lýsingu. Óski þeir ítarlegri upplýsinga má láta þeim í té bókina Vottar Jehóva — boðendur ríkis Guðs en hún er gott verkfæri sem á vel heima á hillum smárra og stórra almenningsbókasafna.
Yfirráð á kristnu heimili
14, 15. (a) Hver er grundvöllur yfirráða á kristnu heimili? (b) Hvaða viðhorf ættu kristnar eiginkonur að hafa til manna sinna og hvers vegna?
14 Það er augljóst að fyrst Guð krefst þess af kristnum mönnum að sýna veraldlegum yfirvöldum tilhlýðilega virðingu, ættu þeir á sama hátt að virða það fyrirkomulag yfirráða sem Guð hefur komið á á kristnum heimilum. Páll postuli lýsti í stuttu máli meginreglunni um forystu sem gildir meðal fólks Jehóva. Hann skrifaði: „Ég vil, að þér vitið, að Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.“ (1. Korintubréf 11:3) Þetta er meginreglan um guðræði eða stjórn Guðs. Hvað felst í henni?
15 Virðing fyrir guðræði byrjar á heimilinu. Kristin eiginkona, sem sýnir yfirráðum eiginmanns síns ekki tilhlýðilega virðingu — hvort heldur hann er trúbróðir eða ekki — er ekki guðræðisleg. Páll ráðlagði kristnum mönnum: „Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns. En eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu.“ (Efesusbréfið 5:21-24) Á sama hátt og kristnir karlmenn verða að lúta forystu Krists, ættu kristnar konur að sjá viskuna í því að lúta þeim yfirráðum sem Guð hefur falið eiginmönnum þeirra. Það veitir kristnum eiginkonum djúpa gleði hið innra og, það sem mikilvægara er, blessun Jehóva.
16, 17. (a) Hvernig geta börn, alin upp á kristnu heimili, verið frábrugðin mörgu ungu fólki nú á tímum og hvaða hvatningu hafa þau til þess? (b) Hvernig var Jesús börnum og unglingum nú á dögum gott fordæmi og hvað eru þau hvött til að gera?
16 Guðræðisleg börn hafa ánægju af því að að sýna foreldrum sínum tilhlýðilega virðingu. Sagt var fyrir um ungu kynslóðina á hinum síðustu dögum að hún yrði ‚foreldrum óhlýðin.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1, 2) En innblásið orð Guðs segir kristnum börnum: „Þér börn, verið hlýðin foreldrum yðar í öllu, því að það fer þeim vel, sem Drottni heyra til.“ (Kólossubréfið 3:20) Virðing fyrir foreldravaldi er Jehóva þóknanleg og hefur blessun hans í för með sér.
17 Þetta kemur vel fram í sambandi við Jesú. Frásögn Lúkasar segir: „Hann fór heim með þeim [foreldrum sínum] og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. . . . Og Jesús þroskaðist að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum.“ (Lúkas 2:51, 52) Jesús var 12 ára á þeim tíma, og gríska sagnmyndin, sem er notuð hér, leggur áherslu á að hann hafi haldið áfram að vera foreldrum sínum hlýðinn. Hann hætti því ekki að vera undirgefinn þegar hann komst á táningaaldurinn. Ef þið, börn og unglingar, viljið þroskast í andlegu hugarfari og náð hjá Jehóva og guðræknum mönnum, þá sýnið þið virðingu yfirráðum innan og utan heimilisins.
Yfirráð innan safnaðarins
18. Hver er höfuð kristna safnaðarins og hverjum hefur hann fengið yfirráðin í hendur?
18 Páll skrifaði um nauðsyn þess að halda uppi röð og reglu í kristna söfnuðinum: „Guð er ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins. . . . Allt fari sómasamlega fram og með reglu.“ (1. Korintubréf 14:33, 40) Til þess að allt geti farið fram með góðri reglu hefur Kristur, höfuð kristna safnaðarins, fengið trúföstum mönnum yfirráð í hendur. Við lesum: „Frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar. Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té . . . Vér eigum . . . að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið, — Kristur.“ — Efesusbréfið 4:11, 12, 15.
19. (a) Hvern hefur Kristur sett yfir allar jarðneskar eigur sínar og hverjum hefur hann falið sérstök yfirráð? (b) Hverjum hafa verið falin yfirráð í kristna söfnuðinum og hvaða kröfu gerir það til okkar?
19 Núna á endalokatímanum hefur Kristur sett hinn ‚trúa og hyggna þjón‘ í heild sinni yfir „allar eigur sínar“ eða hagsmuni Guðsríkis á jörðinni. (Matteus 24:45-47) Eins og á fyrstu öldinni kemur stjórnandi ráð smurðra kristinna manna fram fyrir hönd þessa þjóns, og Kristur hefur veitt því ákvörðunarvald og vald til að útnefna aðra umsjónarmenn. (Postulasagan 6:2, 3; 15:2) Hið stjórnandi ráð fær síðan deildarnefndum, umdæmis- og farandhirðum og öldungum í hverjum hinna ríflega 73.000 safnaða votta Jehóva um alla jörðina, yfirráð í hendur. Allir þessir dyggu kristnu karlmenn verðskulda stuðning okkar og virðingu. — 1. Tímóteusarbréf 5:17.
20. Hvaða dæmi sýnir að Jehóva hefur vanþóknun á þeim sem virða ekki kristna bræður sína sem fara með yfirráð?
20 Hægt er að gera athyglisverðan samanburð á þeirri undirgefni, sem við skuldum veraldlegum yfirvöldum, og þeirri virðingu sem við skuldum þeim sem fara með yfirráð í kristna söfnuðinum. Þegar maður brýtur mannalög, sem Guð viðurkennir, er refsing ‚valdsmanna‘ í reynd óbeint merki um reiði Guðs yfir „þeim er aðhefst hið illa.“ (Rómverjabréfið 13:3, 4) Fyrst Jehóva reiðist því að maður brjóti mannalög og skorti tilhlýðilega virðingu fyrir veraldlegum yfirvöldum, þá hlýtur hann að hafa enn meiri vanþóknun á því að vígður kristinn maður brjóti gegn meginreglum Biblíunnar og sýni kristnum bræðrum sínum, sem fara með yfirráð, óvirðingu!
21. Hvaða ráðum Biblíunnar fylgjum við fúslega, og hvað verður fjallað um í greininni á eftir?
21 Í stað þess að baka okkur vanþóknun Guðs með því að tileinka okkur uppreisnargjarnt eða sjálfstætt viðhorf, fylgjum við ráðleggingum Páls til kristinna manna í Filippí: „Þess vegna, mínir elskuðu, þér sem ætíð hafið verið hlýðnir, vinnið nú að sáluhjálp yðar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá yður, því fremur nú, þegar ég er fjarri. Því að það er Guð, sem verkar í yður bæði að vilja og framkvæma sér til velþóknunar. Gjörið allt án þess að mögla og hika, til þess að þér verðið óaðfinnanlegir og hreinir, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gjörspilltrar kynslóðar. Þér skínið hjá þeim eins og ljós í heiminum.“ (Filippíbréfið 2:12-15) Ólíkt hinni núverandi rangsnúnu og gerspilltu kynslóð, sem kallað hefur yfir sig yfirráðakreppu, þá lýtur fólk Jehóva Guðs yfirvaldi fúslega. Þannig uppsker það mikla blessun eins og við fáum að sjá í næstu grein.
[Neðanmáls]
a Sjá greinina á undan.
Til upprifjunar
◻ Hver er æðsta yfirvaldið og hvers vegna eru yfirráð hans lögmæt?
◻ Í hvaða skilningi eru yfirvöldin „skipuð af Guði“?
◻ Hvenær hætta yfirvöldin að vera „þjónn Guðs“?
◻ Hvaða fyrirkomulag er á yfirráðum í kristnum fjölskyldum?
◻ Hverjum hafa verið falin yfirráð í kristna söfnuðinum?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Jesús sagði: ‚Gjaldið keisaranum það sem keisarans er.‘