„Lifið í andanum“
„Lifið í andanum, og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins.“ — GALATABRÉFIÐ 5:16.
1. Hvað getum við gert til að þurfa ekki að óttast að við syndgum gegn andanum?
EIN leið til að þurfa ekki að óttast að við syndgum gegn heilögum anda Jehóva er að fylgja ráðum Páls postula: „Lifið í andanum, og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins.“ (Galatabréfið 5:16) Ef við látum anda Guðs leiða okkur leyfum við ekki að óviðeigandi langanir holdsins taki völdin. — Rómverjabréfið 8:2-10.
2, 3. Hvaða gagn höfum við af því að lifa í andanum?
2 Þegar við lifum í andanum hjálpar hann okkur að hlýða Guði. Þá líkjum við eftir eiginleikum Jehóva Guðs í boðunarstarfinu, í söfnuðinum, á heimilinu og annars staðar. Ávöxtur andans sést þá í samskiptum okkar við maka, börn, trúsystkini og aðra.
3 Við fáum kraft til að standa á móti syndinni ef við lifum „í andanum með Guði“. (1. Pétursbréf 4:1-6) Þegar við erum undir áhrifum andans drýgjum við örugglega ekki ófyrirgefanlega synd. En hvaða góðu áhrif hefur það á okkur að lifa í andanum?
Styrkjum sambandið við Guð og Krist
4, 5. Hvernig lítum við á Jesú ef við látum andann leiða okkur?
4 Þegar við látum anda Guðs leiða okkur getum við átt náið samband við Guð og son hans. Páll talaði um andlegar gjafir í bréfi sínu til Korintumanna og sagði: „Ég [læt] yður [fyrrverandi skurðgoðadýrkendur] vita, að enginn, sem talar af Guðs anda, segir: ‚Bölvaður sé Jesús!‘ og enginn getur sagt: ‚Jesús er Drottinn!‘ nema af heilögum anda.“ (1. Korintubréf 12:1-3) Hver sá andi, sem fær fólk til að formæla Jesú, hlýtur að koma frá Satan djöflinum. En við sem lifum í andanum erum sannfærð um að Jehóva hafi reist Jesú upp frá dauðum og sett hann ofar öllu öðru í sköpunarverkinu. (Filippíbréfið 2:5-11) Við trúum á lausnarfórn Krists og viðurkennum að Guð hafi skipað hann Drottin okkar.
5 Sumir sem kölluðu sig kristna á fyrstu öld viðurkenndu ekki að Jesús hefði komið í holdinu. (2. Jóhannesarbréf 7-11) Þeir sem tóku undir þessa röngu hugmynd höfnuðu sannleikanum um að Jesús væri Messías. (Markús 1:9-11; Jóhannes 1:1, 14) Ef við lifum í andanum látum við ekki blekkjast af slíkum fráhvarfshugmyndum. Við verðum að halda okkur andlega vakandi til að halda áfram að njóta óverðskuldaðrar gæsku Jehóva og ‚lifa í sannleikanum‘. (3. Jóhannesarbréf 3, 4) Við skulum því vera ákveðin í að hafna öllum fráhvarfshugmyndum svo að við getum varðveitt sterkt samband við föður okkar á himnum.
6. Hvaða eiginleika kallar andi Guðs fram í fari þeirra sem lifa í andanum?
6 Páll nefndi fráhvarf, sem birtist í skurðgoðadýrkun og flokkadráttum, með öðrum ‚verkum holdsins‘ eins og frillulífi og saurlífi. Hann bætti svo við: „Þeir, sem tilheyra Kristi Jesú, hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum. Fyrst andinn er líf vort skulum vér lifa í andanum!“ (Galatabréfið 5:19-21, 24, 25) Hvaða eiginleika kallar andi Guðs fram í fari þeirra sem lifa í andanum? Páll sagði að ávöxtur andans væri „kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi,“ eða sjálfstjórn. (Galatabréfið 5:22, 23) Við skulum skoða nánar hvað er fólgið í ávexti andans.
Elskum hvert annað
7. Hvað er kærleikur og hvað einkennir hann?
7 Kærleikur, einn af ávöxtum andans, felur oft í sér djúpa ástúð, óeigingjarna umhyggju fyrir öðrum og náin tengsl við þá. „Guð er kærleikur,“ segir Biblían því að hann er ímynd þessa eiginleika. Lausnarfórnin er einstakt dæmi um þann mikla kærleika sem Guð og Jesús Kristur, sonur hans, bera til mannkynsins. (1. Jóhannesarbréf 4:8; Jóhannes 3:16; 15:13; Rómverjabréfið 5:8) Fylgjendur Jesú þekkjast á kærleika sínum hver til annars. (Jóhannes 13:34, 35) Okkur er jafnvel sagt að við eigum að elska hvert annað. (1. Jóhannesarbréf 3:23) Páll segir að kærleikurinn sé langlyndur og góðviljaður. Hann öfundar ekki, er ekki raupsamur, hegðar sér ekki ósæmilega og leitar ekki síns eigin. Kærleikurinn reiðist ekki og er ekki langrækinn. Hann gleðst yfir sannleikanum en ekki óréttvísinni. Kærleikurinn breiðir yfir allt, trúir öllu vonar allt og umber allt. Og hann fellur aldrei úr gildi. — 1. Korintubréf 13:4-8.
8. Af hverju ættum við að sýna trúsystkinum okkar kærleika?
8 Ef við leyfum anda Guðs að kalla fram kærleika hjá okkur verður sá eiginleiki ríkjandi í samskiptum okkar við Guð og náungann. (Matteus 22:37-39) Jóhannes postuli skrifaði: „Sá sem ekki elskar er áfram í dauðanum. Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari og þér vitið, að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér.“ (1. Jóhannesarbréf 3:14, 15) Manndrápari gat því aðeins leitað hælis í griðaborg í Ísrael að hann hataði ekki þann sem hann hafði orðið að bana. (5. Mósebók 19:4, 11-13) Við sýnum Guði, trúsystkinum okkar og öðrum kærleika ef við látum heilagan anda leiða okkur.
„Gleði Drottins er hlífiskjöldur yðar“
9, 10. Hvaða ástæður höfum við til að vera glöð?
9 Jehóva er ‚hinn sæli Guð‘. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912; Sálmur 104:31) Sonurinn hefur yndi af því að gera vilja föður síns. (Sálmur 40:9; Hebreabréfið 10:7-9) Og „gleði Drottins er hlífiskjöldur [okkar]“. — Nehemíabók 8:10.
10 Guð veitir okkur djúpstæða gleði þegar við gerum vilja hans og við njótum hennar jafnvel þegar við verðum fyrir erfiðleikum, sorgum eða ofsóknum. Við búum yfir ‚þekkingu á Guði‘ og hún veitir okkur mikla gleði. (Orðskviðirnir 2:1-5) Það er gleðilegt að eiga samband við Guð byggt á nákvæmri þekkingu, trú á hann og trú á lausnarfórn Jesú. (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Annað sem veitir okkur gleði er að vera hluti af einstöku bræðrafélagi sem teygir sig um allan heim. (Sefanía 3:9; Haggaí 2:7) Vonin um Guðsríki og sá heiður að fá að boða fagnaðarerindið gefur okkur einnig gleði. (Matteus 6:9, 10; 24:14) Hið sama er að segja um vonina um eilíft líf. (Jóhannes 17:3) Þar sem við eigum svona stórkostlega framtíðarvon ættum við að „gleðjast mikillega“. — 5. Mósebók 16:15.
Verum friðsöm og langlynd
11, 12. (a) Hvað er friður? (b) Hvaða áhrif hefur friður Guðs á okkur?
11 Friður — annar ávöxtur andans — er fólginn í innri ró og því að vera laus við áhyggjur. Faðir okkar á himnum er Guð friðarins og okkur er lofað: „Drottinn blessar lýð sinn með friði.“ (Sálmur 29:11; 1. Korintubréf 14:33) Jesús sagði við lærisveina sína: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður.“ (Jóhannes 14:27) Hvernig hjálpaði það fylgjendum hans?
12 Friðurinn, sem Jesús gaf lærisveinunum, róaði huga þeirra og hjarta og dró úr ótta þeirra og áhyggjum. Þeir fundu sérstaklega fyrir þessum friði þegar þeir fengu heilagan anda eins og þeim hafði verið lofað. (Jóhannes 14:26) Þegar við biðjum til Guðs njótum við óviðjafnanlegs friðar vegna áhrifa andans og það róar huga okkar og hjarta. (Filippíbréfið 4:6, 7) Andi Guðs getur einnig hjálpað okkur að vera róleg og friðsöm í samskiptum við trúsystkini og aðra. — Rómverjabréfið 12:18; 1. Þessaloníkubréf 5:13.
13, 14. Hvað er langlyndi og hvers vegna ættum við að vera langlynd?
13 Langlyndi tengist friðsemi vegna þess að það felur í sér að vera þolinmóð og umbera ögranir eða ranglæti í von um að ástandið batni. Guð er langlyndur. (Rómverjabréfið 9:22-24) Jesús sýnir einnig þennan eiginleika. Við getum notið góðs af langlyndi hans því að Páll skrifaði: „Fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna á mér fyrstum gjörvallt langlyndi sitt, þeim til dæmis, er á hann munu trúa til eilífs lífs.“ — 1. Tímóteusarbréf 1:16.
14 Langlyndi hjálpar okkur að umbera hugsunarlaus orð eða verk annarra. Páll hvatti trúbræður sína: „Verið langlyndir við alla.“ (1. Þessaloníkubréf 5:14) Þar sem við erum öll ófullkomin og gerum mistök viljum við að sjálfsögðu að fólk sýni okkur þolinmæði og langlyndi þegar okkur verður eitthvað á. Við skulum því leggja okkur fram um að vera ‚umburðarlynd‘. — Kólossubréfið 1:9-12.
Sýnum gæsku og góðvild
15. Hvað er góðvild? Nefndu dæmi.
15 Góðvild birtist í því að sýna öðrum áhuga með því að vera vingjarnleg og hjálpsöm. Jehóva sýnir góðvild og sonur hans líka. (Matteus 5:45; Lúkas 9:11) Þjónar Guðs og Krists eiga að vera góðviljaðir. (Kólossubréfið 3:12) Sumir sem eiga ekki persónulegt samband við Guð hafa jafnvel sýnt „einstaka góðmennsku“. (Postulasagan 27:3; 28:2) Við ættum því að geta sýnt góðvild ef við lifum í andanum.
16. Við hvaða aðstæður ættum við sérstaklega að sýna góðvild?
16 Við getum sýnt góðvild þó að við reiðumst vegna særandi orða eða hugsunarlausra verka annarra. Páll sagði: „Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. Gefið djöflinum ekkert færi. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.“ (Efesusbréfið 4:26, 27, 32) Það er sérstaklega viðeigandi að sýna þeim góðvild sem ganga í gegnum prófraunir. En það væri að sjálfsögðu ekki góðvild af hálfu safnaðaröldungs að veigra sér við að gefa biblíulegar leiðbeiningar af ótta við að særa einhvern sem stefnir út af braut ‚góðvildar, réttlætis og sannleika‘. — Efesusbréfið 5:9.
17, 18. Hvernig má skilgreina gæsku og hve stóru hlutverki ætti hún að gegna í lífi okkar?
17 Gæska er dyggð, siðferðilegt ágæti eða það að vera góður. Guð er góður í æðsta skilningi. (Sálmur 25:8) Jesús sýndi af sér dyggð og siðferðilegt ágæti. Hann vildi hins vegar ekki vera titlaður „góður“ þegar hann var kallaður „góði meistari“. (Markús 10:17, 18) Það var greinilega vegna þess að hann gerði sér grein fyrir því að Guð væri æðsta dæmið um gæsku.
18 Erfðasyndin tálmar okkur að vissu marki að gera gott. (Rómverjabréfið 5:12) En við getum samt sýnt þennan eiginleika ef við biðjum Guð að kenna okkur gæsku. Páll skrifaði trúbræðrum sínum í Róm: „Ég er líka sjálfur sannfærður um yður, bræður mínir, að þér og sjálfir eruð fullir góðgirni, auðgaðir alls konar þekkingu.“ (Rómverjabréfið 15:14) Umsjónarmaður í söfnuðinum á að vera „góðgjarn“. (Títusarbréfið 1:7, 8) Ef við látum anda Guðs leiða okkur verðum við þekkt fyrir gæsku og Jehóva ‚man það okkur til góðs‘. — Nehemíabók 5:19; 13:31.
Hræsnislaus trú
19. Skilgreindu trú í samræmi við Hebreabréfið 11:1.
19 Trú — sem er líka einn af ávöxtum andans — „er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá“. (Hebreabréfið 11:1) Ef við höfum trú erum við örugg um að allt sem Jehóva lofar uppfyllist. Trúin er fullvissa eða sannfæring af því að sönnunargögnin fyrir hinu óséða eru svo sterk. Tökum dæmi. Sköpunarverkið sannfærir okkur um að til sé skapari. Við sýnum þess konar trú ef við framgöngum í andanum.
20. Hver er hin „viðloðandi synd“ og hvernig getum við forðast hana og verk holdsins?
20 Trúarskortur er kallaður „viðloðandi synd“. (Hebreabréfið 12:1) Við verðum að treysta á anda Guðs til að forðast verk holdsins, efnishyggju og falskar kenningar sem geta spillt trúnni. (Kólossubréfið 2:8; 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10; 2. Tímóteusarbréf 4:3-5) Andi Guðs vekur jafnsterka trú hjá þjónum Guðs nú á dögum og hann vakti hjá vottum Guðs fyrir daga kristninnar og öðrum sem sagt er frá í Biblíunni. (Hebreabréfið 11:2-40) Og með „hræsnislausri trú“ getum við jafnvel styrkt trú annarra. — 1. Tímóteusarbréf 1:5; Hebreabréfið 13:7.
Sýnum hógværð og sjálfstjórn
21, 22. Hvað er hógværð og hvernig getum við sýnt hana?
21 Hógværð birtist í því að vera mildur í lund og hátterni. Guð er mildur í lund. Við vitum það af því að Jesús var hógvær og mildur og hann endurspeglaði persónuleika Jehóva fullkomlega. (Matteus 11:28-30; Jóhannes 1:18; 5:19) En hvers er krafist af okkur sem erum þjónar Guðs nú á dögum?
22 Kristnir menn eiga að „sýna . . . hógværð við alla menn“. (Títusarbréfið 3:2) Við temjum okkur meðal annars að vera hógvær í boðunarstarfinu. Andlega þroskaðir menn eru hvattir til að leiðrétta „með hógværð“ trúbróður sem verður eitthvað á. (Galatabréfið 6:1) Við getum öll stuðlað að einingu og friði með því að vera ‚lítillát og hógvær‘. (Efesusbréfið 4:1-3) Við sýnum hógværð og mildi ef við framgöngum ávallt í andanum og þroskum með okkur sjálfstjórn.
23, 24. Hvað er sjálfstjórn og hvernig hjálpar hún okkur?
23 Sjálfstjórn hjálpar okkur að hafa taumhald á hugsunum okkar, tali og hegðun. Jehóva ‚stillti sig‘ í samskiptum við Babýloníumenn sem eyddu Jerúsalem. (Jesaja 42:14) Sonur hans ‚lét okkur eftir fyrirmynd‘ með því að sýna sjálfstjórn þegar hann þjáðist. Og Pétur postuli hvatti trúsystkini sín til að auðsýna „í þekkingunni sjálfsögun“. — 1. Pétursbréf 2:21-23; 2. Pétursbréf 1:5-8.
24 Safnaðaröldungar eiga að sýna sjálfstjórn. (Títusarbréfið 1:7, 8) Allir sem láta heilagan anda leiða sig geta haft sjálfstjórn og forðast þar með siðleysi, gróft tal og allt annað sem gæti kallað yfir þá vanþóknun Jehóva. Ef við temjum okkur sjálfstjórn með hjálp anda Guðs verður það augljóst öðrum vegna þess hvernig við tölum og hegðum okkur.
Höldum áfram að lifa í andanum
25, 26. Hvaða áhrif hefur það á samskipti okkar við aðra og á framtíð okkar að lifa í andanum?
25 Ef við lifum í andanum verðum við duglegir boðberar Guðsríkis. (Postulasagan 18:24-26) Við verðum þægileg í umgengni og aðrir guðræknir einstaklingar njóta þess sérstaklega að eiga félagsskap við okkur. Þegar við látum heilagan anda leiða okkur getum við einnig verið trúsystkinum okkar hvatning til að lifa í andanum. (Filippíbréfið 2:1-4) Viljum við ekki öll geta gert það?
26 Það er ekki auðvelt að framganga í andanum í þessum heimi sem er undir stjórn Satans. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Milljónir manna gera það engu að síður. Ef við treystum Jehóva af öllu hjarta getum við notið lífsins núna og gengið að eilífu á réttlátum vegum Jehóva, gjafara heilags anda. — Sálmur 128:1; Orðskviðirnir 3:5, 6.
Hvert er svarið?
• Hvaða áhrif hefur það á samband okkar við Guð og son hans að lifa í andanum?
• Hverjir eru ávextir andans?
• Hvernig er hægt sýna ávexti andans?
• Hvaða áhrif hefur það á líf okkar núna og á framtíð okkar að lifa í andanum?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Heilagur andi Jehóva vekur með okkur kærleika til trúsystkina okkar.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Sýnum öðrum góðvild í orði og verki.