‚Í nafni Heilags anda‘
„Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni . . . heilags anda.“ — MATTEUS 28:19
1. Hvaða nýtt orðalag notaði Jóhannes skírari í tengslum við heilagan anda?
ÁRIÐ 29 að okkar tímatali starfaði Jóhannes skírari í Ísrael við að undirbúa veginn fyrir Messías, og meðan á þjónustu hans stóð boðaði hann eitthvað nýtt um heilagan anda. Að sjálfsögðu vissu Gyðingarnir þá þegar það sem Hebresku ritningararnar sögðu um andann. Þeir kunna þó að hafa verið hissa þegar Jóhannes sagði: „Ég skíri yður með vatni til iðrunar, en sá sem kemur eftir mig, . . . mun skíra yður með heilögum anda.“ (Matteus 3:11) ‚Skírn með heilögum anda‘ var nýtt orðalag.
2. Hvaða nýtt orðalag kynnti Jesús í tengslum við heilagan anda?
2 Sá sem koma átti var Jesús. Á meðan Jesús lifði hér á jörðu skírði hann í rauninni aldrei neinn með heilögum anda þó að hann talaði vissulega oft um andann. Þar að auki vísaði hann eftir upprisu sína til heilags anda á enn einn nýjan hátt. Hann sagði lærisveinum sínum: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda.“ (Matteus 28:19) Orðasambandið „í nafni“ þýðir „til viðurkenningar á.“ Vatnsskírn til viðurkenningar á föðurnum, syninum og hinum heilaga anda, átti að vera frábrugðin skírn með heilögum anda. Þetta var því einnig nýtt orðalag í tengslum við heilagan anda.
Skírðir með heilögum anda
3, 4. (a) Hvenær var fyrst skírt með heilögum anda? (b) Hvaða áhrif hafði hinn heilagi andi á lærisveina Jesú á hvítasunnunni árið 33 fyrir utan það að skíra þá?
3 Hvað viðkemur skírn með heilögum anda gaf Jesús lærisveinum sínum þetta loforð skömmu fyrir uppstigningu sína: „Þér skuluð skírðir verða með heilögum anda, nú innan fárra daga.“ (Postulasagan 1:5, 8) Stuttu síðar var þetta loforð uppfyllt. Heilagur andi kom yfir um 120 lærisveina sem voru saman komnir í loftstofu í Jerúsalem þá er Jesús framkvæmdi frá himnum sína fyrstu skírn með heilögum anda. (Postulasagan 2:1-4, 33) Með hvaða árangri? Lærisveinarnir urðu hluti af andlegum líkama Krists. Eins og Páll postuli útskýrir: „Í einum anda [voru þeir] allir skírðir til að vera einn líkami.“ (1. Korintubréf 12:13) Jafnframt voru þeir smurðir til að vera í framtíðinni konungar og prestar í himnesku ríki Guðs. (Efesusbréfið 1:13, 14; 2. Tímóteusarbréf 2:12; Opinberunarbókin 20:6) Heilagur andi var einnig innsigli og til sannindamerkis um þann dýrlega framtíðararf. En það var ekki allt. — 2. Korintubréf 1:21, 22.
4 Nokkrum árum áður hafði Jesú sagt við Nikódemus: „Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju. . . . Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda.“ (Jóhannes 3:3, 5) Nú höfðu 120 manns endurfæðst. Fyrir tilstuðlan heilags anda höfðu þeir fengið barnarétt sem andlegir synir Guðs, bræður Krists. (Jóhannes 1:11-13; Rómverjabréfið 8:14, 15) Öll þessi starfsemi heilags anda er á sinn hátt dásamlegri en kraftaverk. Enn fremur hefur heilagur andi ekki liðið undir lok eftir dauða postulanna, eins og kraftaverk sem gerast aðeins einu sinni, heldur hefur hann haldið áfram að starfa á þennan hátt allt til okkar daga. Það eru sérréttindi votta Jehóva að hafa á meðal sín hina síðustu þessa andaskírðu meðlima líkama Krists er þjóna sem ‚trúr og hygginn þjónn‘ til að bera fram andlega fæðu á réttum tíma. — Matteus 24:45-47.
Skírðir „í nafni . . . heilags anda“
5, 6. Hvernig leiddu fyrstu skírnirnar með heilögum anda til vatnsskírna?
5 En hvað um vatnsskírnina í nafni föðurins, sonarins og hins heilaga anda sem heitið var? Þessir fyrstu lærisveinar, sem voru skírðir með anda, gengust ekki undir slíka vatnsskírn. Þeir höfðu þá þegar fengið vatnsskírn Jóhannesar og þar sem það var þóknanlegt Jehóva á þeim tíma þurfti ekki að skíra þá aftur. En á hvítasunnunni árið 33 fékk stór hópur sálna þessa nýju vatnsskírn. Hvernig bar það til?
6 Skírn hinna 120 með heilögum anda hafði fylgt mikill hávaði sem dró að fjölda manns. Þeir urðu forviða að heyra lærisveinana tala tungum, það er á erlendum tungumálum sem þeir er viðstaddir voru skildu. Pétur postuli útskýrði að þetta kraftaverk væri sönnun þess að Jesús, sem hafði verið reistur upp frá dauðum og sat nú við hægri hönd Guðs á himni, hefði úthellt anda Guðs. Pétur hvatti hlustendur sína: „Með öruggri vissu viti þá öll Ísraels ætt, að þennan Jesú, sem þér krossfestuð, hefur Guð gjört bæði að Drottni og Kristi.“ Hann lauk máli sínu með því að segja: „Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar; þá munuð þér öðlast að gjöf heilagan anda.“ Um 3000 sálir brugðust jákvætt við. — Postulasagan 2:36, 38, 41.
7. Á hvaða hátt voru þeir 3000, sem létu skírast á hvítasunnunni árið 33, skírðir í nafni föðurins, sonarins og hins heilaga anda?
7 Er hægt að segja að þeir sem þá skírðust hafi verið skírðir í nafni föðurins, sonarins og heilags anda, eða til viðurkenningar á þeim? Já. Þó að Pétur hafi ekki sagt þeim að skírast í nafni föðurins viðurkenndu þeir þá þegar Jehóva sem alvaldan drottinvald, þar eð þeir voru fæddir Gyðingar, meðlimir þjóðar sem var vígð honum. Hins vegar sagði Pétur: ‚Látið skírast í nafni sonarins.‘ Skírn þeirra var því til marks um viðurkenningu þeirra á Jesú sem Drottni og Kristi. Þeir voru nú lærisveinar hans og viðurkenndu að fyrirgefning synda fengist upp frá þessu fyrir milligöngu hans. Loks var skírnin til viðurkenningar á heilögum anda, og að gangast undir hana voru viðbrögð þeirra við því loforði að þeir myndu öðlast heilagan anda sem gjöf.
8. (a) Hvaða skírn, auk vatnsskírnar, hafa smurðir kristnir menn hlotið? (b) Hverjir fyrir utan hinar 144.000 hljóta vatnsskírn í nafni heilags anda?
8 Þeir sem voru skírðir í vatni á hvítasunnudeginum árið 33, voru einnig skírðir með anda. Þeir voru smurðir til að vera í framtíðinni konungar og prestar í hinu himneska ríki. Samkvæmt Opinberunarbókinni eru aðeins 144.000 slíkir einstaklingar. Þeir sem skírðir eru með heilögum anda og að lokum ‚innsiglaðir‘ sem ríkiserfingjar eru þess vegna aðeins 144.000 að tölu. (Opinberunarbókin 7:4; 14:1) Samt sem áður eru allir nýir lærisveinar — hver sem von þeirra er — skírðir í vatni í nafni föðurins, sonarins og hins heilaga anda. (Matteus 28:19, 20) Hvað leiðir þá skírn í nafni heilags anda af sér fyrir alla kristna menn, hvort sem þeir tilheyra ‚litlu hjörðinni‘ eða hinum ‚öðrum sauðum‘? (Lúkas 12:32; Jóhannes 10:16) Áður en því er svarað skulum við athuga nokkra þætti í starfsemi andans eftir að kristnin kom til sögunnar.
Ávextir andans
9. Hvaða starfsemi heilags anda er mikilvæg öllum kristnum mönnum?
9 Miklvægur þáttur í starfsemi heilags anda er hjálp hans við að þroska með okkur kristinn persónuleika. Vegna ófullkomleikans komumst við að vísu ekki hjá því að syndga. (Rómverjabréfið 7:21-23) En þegar við iðrumst einlæglega fyrirgefur Jehóva okkur á grundvelli fórnar Krists. (Matteus 12:31, 32; Rómverjabréfið 7:24, 25; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Auk þess ætlast Jehóva til þess af okkur að við berjumst gegn tilhneigingu okkar til að syndga og heilagur andi hjálpar okkur við það. „Lifið í andanum,“ sagði Páll „og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins.“ (Galatabréfið 5:16) Páll sýndi því næst að andinn getur leitt fram í okkur bestu eiginleika sem til eru. Hann skrifaði: „Ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi.“ — Galatabréfið 5:22, 23.
10. Hvernig þroskast ávextir andans hjá kristnum manni?
10 Hvernig gerir andinn slíka ávexti mögulega hjá kristnum manni? Það gerist ekki sjálfkrafa, aðeins vegna þess að við erum vígðir og skírðir kristnir menn. Við verðum að vinna að því. En ef við eigum félagsskap við aðra kristna menn sem sýna þessa eiginleika, biðjum Guð um anda hans til að hjálpa okkur að þroska með okkur ákveðna eiginleika, forðumst slæman félagsskap og nemum Biblíuna í leit að ráðum og góðum fordæmum, þá munu ávextir andans vaxa í okkur. — Orðskviðirnir 13:20; 1. Korintubréf 15:33; Galatabréfið 5:24-26; Hebreabréfið 10:24, 25.
Útnefndir af heilögum anda
11. Á hvaða vegu útnefnir heilagur andi öldunga?
11 Í ávarpi til öldunganna í Efesus kynnti Páll annan þátt í starfsemi heilags anda er hann sagði: „Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði.“ (Postulasagan 20:28) Já, umsjónarmenn eða safnaðaröldungar eru útnefndir af heilögum anda. Á hvaða vegu? Þá að útnefndir öldungar verða að uppfylla þær hæfniskröfur sem hin innblásna Biblía setur fram. (1. Tímóteusarbréf 3:1-13; Títusarbréfið 1:5-9) Aðeins með hjálp heilags anda geta þeir þroskað þessa hæfileika. Öldungaráðið, sem mælir með nýjum öldungi, biður auk þess til Guðs um að heilagur andi megi leiðbeina því við að sjá hvort hann uppfyllir kröfurnar eða ekki. Og útnefningin sjálf er gerð undir yfirumsjón hins andasmurða trúa og hyggna þjóns.
Látum andann leiðbeina okkur
12. Hvernig getur andinn haft áhrif á okkur gegnum Biblíuna?
12 Kristnir menn viðurkenna að Heilög ritning var rituð undir áhrifum heilags anda. Þess vegna grafast þeir fyrir í henni eftir visku innblásinni af andanum eins og vottar Jehóva fyrir daga kristninnar gerðu. (Orðskviðirnir 2:1-9) Þeir lesa hana, hugleiða hana og láta hana leiðbeina sér í lífinu. (Sálmur 1:1-3; 2. Tímóteusarbréf 3:16) Þannig hjálpar andinn þeim við að ‚rannsaka djúp Guðs.‘ (1. Korintubréf 2:10, 13; 3:19) Það er mikilvægur þáttur í starfsemi anda Guðs á okkar tímum að leiðbeina þjónum Guðs á þennan hátt.
13, 14. Hvað notaði Jesús til að taka á vandamálum í söfnuðinum og hvernig gerir hann það sama nú á dögum?
13 Í Opinberunarbókinni sendi hinn upprisni Jesús enn fremur skilaboð til sjö safnaða í Litlu-Asíu. (Opinberunarbókin, kaflar 2 og 3) Í þeim upplýsti hann að hann hefði rannsakað söfnuðina og tekið eftir andlegu ástandi þeirra. Hann komst að raun um að sumir þeirra settu gott fordæmi í trú. Í öðrum höfðu öldungarnir leyft sértrúarstefnu, siðleysi og hálfvelgju að spilla hjörðinni. Söfnuðurinn í Sardis var, að undanskildum fáum trúföstum sálum, andlega dauður. (Opinberunarbókin 3:1, 4) Hvernig tók Jesús á þessum vandamálum? Með heilögum anda. Þegar Jesús gaf hinum sjö söfnuðum ráðleggingar lauk orðsendingunni frá honum í hvert skipti með orðunum: „Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.“ — Opinberunarbókin 2:7, 11, 17, 29; 3:6, 13, 22.
14 Jesús rannsakar líka söfnuðina nú á dögum. Og þegar hann sér að einhverju er ábótavant tekur hann enn á því með heilögum anda. Andinn getur hjálpað okkur beint að viðurkenna og yfirstíga vandamál þegar við lesum Biblíuna. Hjálp getur einnig komið gegnum biblíurit sem hinn andasmurði trúi og hyggni þjónn hefur gefið út. Eins getur hún komið frá öldungum í söfnuðinum sem andinn hefur útnefnt. Hvert sem málið er, hvort sem ráðleggingarnar eru ætlaðar einstaklingi eða söfnuðinum í heild, sinnum við þá orðum Jesú: „Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir“?
Andinn og prédikunarstarfið
15. Hvaða áhrif hafði andinn á Jesú varðandi prédikunarstarfið?
15 Við eitt tækifæri, þegar Jesús var að prédika í samkunduhúsi í Nasaret, benti hann á enn annan þátt í starfsemi andans. Frásagan segir okkur: „Hann lauk upp bókinni og fann staðinn, þar sem ritað er: ‚Andi [Jehóva] er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa.‘ Hann tók þá að tala til þeirra: ‚Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar.‘“ (Lúkas 4:17, 18, 21; Jesaja 61:1, 2) Já, heilagur andi smurði Jesú til að prédika fagnaðarerindið.
16. Hvernig átti heilagur andi mikinn þátt í prédikun fagnaðarerindisins á fyrstu öldinni?
16 Skömmu fyrir dauða sinn spáði Jesús stórkostlegri prédikunarherferð sem fylgjendur hans myndu leiða til lykta. Hann sagði: „En fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.“ (Markús 13:10) Þessi orð rættust upphaflega á fyrstu öldinni og hlutverk heilags anda í því var athyglisverður. Það var heilagur andi sem stýrði Filippusi til að prédika fyrir eþíópska hirðmanninum. Heilagur andi stýrði Pétri til Kornelíusar og heilagur andi stýrði því að Páll og Barnabas voru sendir frá Antíokkíu sem postular. Síðar, þegar Páll vildi prédika í Asíu og Biþýníu, hindraði heilagur andi hann á einhvern hátt. Guð vildi að vitnisburðarstarfið færðist inn í Evrópu. — Postulasagan 8:29; 10:19; 13:2; 16:6, 7.
17. Hvaða þátt á heilagur andi í prédikunarstarfinu nú á tímum?
17 Nú á dögum gegnir heilagur andi aftur miklu hlutverki í prédikunarstarfinu. Andi Jehóva hefur smurt bræður Jesú til að prédika og með því uppfyllist Jesaja 61:1, 2 í enn ríkari mæli. Í lokauppfyllingunni á Markúsi 13:10 hafa hinir smurðu, með aðstoð frá hinum mikla múgi, prédikað fagnaðarerindið bókstaflega hjá „öllum þjóðum.“ Og andinn styður þá alla í þessu. Eins og á fyrstu öldinni opnar hann upp svæði og stjórnar almennt framgangi starfsins. Hann styrkir einstaklinga, hjálpar þeim að yfirstíga óframfærni og þroska kennsluhæfileika sína. Þar að auki sagði Jesús við lærisveina sína: „Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna þeim og heiðingjunum til vitnisburðar. En þá er menn draga yður fyrir rétt, skuluð þér ekki hafa áhyggjur af því, hvernig eða hvað þér eigið að tala. . . . Þér eruð ekki þeir sem tala, heldur andi föður yðar, hann talar í yður.“ — Matteus 10:18-20.
18, 19. Á hvaða hátt sameinast andinn brúðinni í því að bjóða þeim sem eru auðmjúkir í hjarta að fá „ókeypis lífsins vatn“?
18 Í Opinberunarbókinni leggur Biblían aftur áherslu á þátttöku heilags anda í prédikunarstarfinu. Þar skýrir Jóhannes postuli svo frá: „Og andinn og brúðurinn segja: ‚Kom þú!‘ Og sá sem heyrir segi: ‚Kom þú!‘ Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.“ (Opinberunarbókin 22:17) Þeir sem enn eru eftir á jörðinni af þeim 144.000 eru fulltrúar brúðarinnar er býður öllum að taka ókeypis af lífsins vatni. En tökum eftir að heilagur andi segir einnig „Kom þú!“ Á hvaða hátt?
19 Á þann hátt að boðskapurinn sem brúðarhópurinn prédikar — nú á tímum með aðstoð hins mikla múgs annarra sauða — kemur frá Biblíunni sem rituð er undir beinum áhrifum heilags anda. Og sá sami andi hefur opnað hjörtu og hugi brúðarhópsins til að skilja hið innblásna orð og útskýra það fyrir öðrum. Þeir sem eru skírðir sem nýir lærisveinar Jesú Krists gleðjast yfir því að taka ókeypis af lífsins vatni. Og með gleði og ákafa vinna þeir að því með andanum og brúðinni að segja við enn aðra: „Kom þú!“ Núna taka yfir fjórar milljónir þátt í þessu starfi með andanum.
Lifað í samræmi við skírn okkar
20, 21. Hvernig getum við lifað í samræmi við skírn okkar í nafni heilags anda og hvernig ættum við að líta á þessa skírn?
20 Skírn í nafni heilags anda er opinber yfirlýsing um það að við viðurkennum hinn heilaga anda, svo og það hlutverk sem hann gegnir í tilgangi Jehóva. Af henni leiðir að við munum starfa með andanum og ekkert gera til að hindra starfsemi hans meðal fólks Jehóva. Við viðurkennum þannig og störfum með hinum trúa og hyggna þjóni. Við vinnum með öldungafyrirkomulagi safnaðarins. (Hebreabréfið 13:7, 17; 1. Pétursbréf 5:1-4) Við lifum eftir andlegri, ekki holdlegri visku og leyfum andanum að móta persónuleika okkar og gerum hann þannig líkari Kristi. (Rómverjabréfið 13:14) Við tökum líka heilshugar undir með andanum og brúðinni í að segja: „Kom þú!“ við þær milljónir sem enn gætu brugðist jákvætt við.
21 Það er sannarlega alvörumál að vera ‚skírður í nafni heilags anda.‘ Mikil er þó sú blessun sem af því getur leitt. Megi þeim sem skírðir eru þannig halda áfram að fjölga. Og megum við öll halda áfram að lifa í samræmi við þýðingu þeirrar skírnar er við þjónum Jehóva og höldum áfram að vera „brennandi í andanum.“ — Rómverjabréfið 12:11.
Hvað manst þú varðandi heilagan anda?
◻ Á hvaða vegu starfaði heilagur andi á hvítasunnunni árið 33?
◻ Hvernig getum við borið ávexti andans?
◻ Á hvaða vegu útnefnir heilagur andi öldunga?
◻ Hvernig tekur Jesús með heilögum anda á vandamálum í söfnuðinum?
◻ Hvernig á andinn mikinn þátt í prédikunarstarfinu?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Skírnin sem Pétur prédikaði var einnig í nafni föðurins og heilags anda.
[Mynd á blaðsíðu 30]
Andinn tekur mikinn þátt í prédikun fagnaðarerindisins.