Tilheyrir tungutalsgáfan sannri kristni?
„MÉR fannst andrúmsloftið rafmagnað á meðan ég hlustaði á hann biðja með tungutali,“ sagði Bill eftir að hann og sex aðrir höfðu safnast fyrir framan prédikarann nálægt altari kirkjunnar. Er slík reynsla endurtekning á því sem heilagur andi gerði á fyrstu öldinni? Er tungutal einkenni Biblíutrúarinnar? Við getum fundið fullnæjandi svör með nákvæmri rannsókn á Ritningunni.
Frásaga Biblíunnar leiðir í ljós að í hvert skipti sem einhverri kraftavekagjöf andans var útbýtt var að minnsta kosti einn af postulunum 12 eða Páll postuli viðstaddur. Fyrsta skráða atvikið af þremur, þar sem talað var tungum, átti sér stað meðal 120 lærisveina Jesú sem voru samankomnir í Jerúsalem á hvítasunnunni árið 33. (Postulasagan 2:1-4) Þremur og hálfu ári seinna, þegar hópur óumskorinna Ítala var að hlusta á prédikun Péturs, fengu þeir heilagan anda og byrjuðu að „tala tungum og mikla Guð.“ (Postulasagan 10:44-48) Og 19 árum eftir hvítasunnuna, um árið 52, talaði Páll við hóp manna í Efesus og lagði hendur sínar yfir 12 lærisveina. Þeir byrjuðu líka að ‚tala tungum og spá.‘ — Postulasagan 19:6.
Hvers vegna var tungutalið gefið?
Rétt áður en Jesús steig upp til himna sagði hann fylgjendum sínum: „Þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem . . . og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Taktu eftir að hann gaf þannig til kynna nákvæmlega hvernig þetta geysimikla vitnisburðarstarf yrði framkvæmt — með aðstoð heilags anda.
Nútímafjarskiptatækni, sem gerir okkur kleift að senda upplýsingar um alla jörðina á mörgum tungumálum, var ekki til á þeim tíma. Fagnaðarerindið varð að útbreiða fyrst og fremst munnlega og þessi undursamlega gjöf að geta talað erlend tungumál myndi reynast mjög nytsamleg. Sú var raunin þegar kristnir menn á fyrstu öld prédikuðu fyrir Gyðingum og trúskiptingum í Jerúsalem á hvítasunnunni árið 33. Partar, Medar, Elamítar, Kríteyingar, Arabar, menn frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og héruðum Asíu og einnig menn sem höfðu flust frá Róm heyrðu „um stórmerki Guðs“ á eigin tungumáli og skildu það sem sagt var. Þrjú þúsund tóku trú á stuttum tíma. — Postulasagan 2:5-11, 41.
Oft yfirsést mönnum sú staðreynd að tungutal var aðeins ein af níu athöfnum heilags anda sem Páll postuli minnist á í bréfi sínu til kristinna manna í Korintu. Þó að Páll liti á tungutal sem óæðri gjöf var það mikilvægt frumkristna söfnuðinum til að útbreiða fagnaðarerindið um himneskt ríki Guðs. Það var ein af þeim ‚gjöfum‘ sem stuðluðu að tölulegum vexti og uppbyggingu kristna safnaðarins í bernsku hans. — 1. Korintubréf 12:7-11; 14:24-26.
Hinar mismunandi athafnir heilags anda á fyrstu öldinni, þar á meðal tungutal, voru líka sýnileg sönnun þess að Guð notaði ekki lengur hinn 1500 ára gamla söfnuð Ísraelsmanna sem útvalda þjóð sína. Tvímælalaust hvíldi blessun Guðs núna yfir þessum nýja kristna söfnuði sem eingetinn sonur hans stofnsetti. — Samanber Hebreabréfið 2:2-4.
Þessar opinberanir andans gegndu lykilhlutverki í því að festa hinn unga kristna söfnuð í sessi og hjálpa honum að vaxa og verða fullþroska. Páll útskýrði að þessar kraftaverkagjafir myndu líða undir lok eftir að hafa þjónað tilgangi sínum: „Spádómsgáfur, þær munu líða undir lok, og tungur, þær munu þagna.“ — 1. Korintubréf 13:8.
Já, Biblían segir skýrt að tungutalsgáfan myndi líða undir lok. En hvenær? Postulasagan 8:18 upplýsir að gáfur andans hafi veist „fyrir handayfirlagning postulanna.“ Það er því augljóst að með dauða síðasta postulans myndi útdeiling á gáfum andans stöðvast — þar á meðal tungutal. Þegar þeir sem fengu þessar gjafir gegnum postulana hyrfu einnig af sjónarsviðinu myndu þessar kraftaverkagjafir þar af leiðandi líða undir lok. Þegar að því kæmi hefði kristni söfnuðurinn haft nægan tíma til að koma vel undir sig fótum og breiðast út til margra landa.
Tungutal og túlkun þess
Nútímaendurvakning tungutals er „af sumum álitin tilfinningaöfgar óstöðuglyndra manna með sýnihneigð, en aðrir telja það nákvæmlega sama fyrirbærið og tungutalið á postulatímanum.“ Á þeim samkomum í kirkjum nú á tímum þar sem „tungutal“ á sér stað birtist það venjulega í hrifningarflaumi óskiljanlegra hljóða. Þar af leiðandi viðurkenndi maður einn: „Ég nota tungutalsgáfu mína aðallega í einrúmi í minni eigin íhugun. . . . Ég verð svolítið vandræðalegur fyrir framan annað fólk.“ Annar sagði: „Ég heyri mín eigin orð, ég skil þau ekki, en ég held áfram að finna hvernig tungu minni er ýtt til að tala.“
Hvaða upplýsingar, sem hafa raunverulegt gildi, fást með slíku tungutali og hvað um útlistun eða túlkun? Þeir sem telja sig geta túlkað þetta tal hafa gefið mismunandi útskýringar á sömu óskiljanlegu orðunum. Hvers vegna mismunandi? Þeir skýra slíkan mismun með því að segja: „Guð gefur einum manni eina túlkun og öðrum aðra túlkun.“ Einn einstaklingur viðurkenndi: „Ég veit dæmi þess að túlkunin hafi ekki verið nákvæm.“ D. A. Hayes nefnir í bók sinni, The Gift of Tongues, atvik þar sem maður einn neitaði að túlka orð konu sem talaði tungum vegna þess að hún viðhafði „svívirðilegasta munnsöfnuð sem hægt var að hugsa sér.“ Það er harla ólíkt tungutalinu sem var til staðar á fyrstu öldinni og var í reynd til að byggja upp söfnuðinn. — 1. Korintubréf 14:4-6, 12, 18.
Sumir nú á dögum fullyrða að þeir hafi heyrt undursamlega túlkun og að þeir geti því einlæglega trúað að Guð noti þessa gáfu þegar hann „vill koma boðskap milliliðalaust til manna.“ En hvaða boðskapar þörfnumst við nú á dögum frá Guði sem Jesús Kristur og postularnir létu okkur ekki í té? Páll, sem sjálfur hafði gáfur heilags anda, sagði: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.
Staðreyndin er sú að kristni söfnuðurinn er ekki lengur á bernskuskeiði og þar af leiðandi eru opinberanir frá Guði og kraftaverkagáfur andans ekki lengur nauðsynlegar til að staðfesta hlutverk hans. Biblían aðvarar: „Þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað [„sem stangast á við,“ The New English Bible] fagnaðarerindi en það, sem vér höfum boðað yður, þá sé hann bölvaður.“ — Galatabréfið 1:8.
Tungutal er ekki lengur nauðsynlegt og það er engin biblíuleg stoð fyrir þeirri trú að það sé hluti sannrar kristni nú á tímum. Núna er Biblían fullgerð og mjög útbreidd þannig að við höfum það sem við þurfum í orði Guðs. Það gefur okkur kost á að afla okkur nákvæmrar þekkingar á Jehóva og syni hans sem leiðir til eilífs lífs. — Jóhannes 17:3; Opinberunarbókin 22:18, 19.
Jafnvel á fyrstu öldinni fann Páll postuli sig tilneyddan að skrifa söfnuðinum í Korintu til að leiðrétta viðhorf hans til þess hvers vegna tungutalið var veitt hinum frumkristnu. Svo virðist sem sumir hafi orðið heillaðir af tungutalsgáfunni og hegðað sér eins og smábörn, óþroskaðir andlega. Það var of mikið gert úr því að „tala tungum.“ (1. Korintubréf 14:1-39) Páll undirstrikaði það að kristnir menn á fyrstu öldinni hefðu ekki allir hina undraverðu tungutalsgáfu. Hjálpræði þeirra var ekki háð því. Jafnvel þá, þegar tungutalið var til staðar, var það síðra hinni undursamlegu spádómsgáfu. Tungutal var ekki, og er ekki, nauðsynlegt kristnum mönnum til að öðlast eilíft líf. — 1. Korintubréf 12:29, 30; 14:4, 5.
Aflið að baki tungutali nú á tímum
Sumir telja að drifkrafturinn að baki tungutali nútímans sé kirkjuleiðtogar gæddir guðlegri náðargáfu sem hvetja safnaðarmeðlimi sína til að öðlast þennan hæfileika. Í sumum tilvikum orsakist það af tilfinningasemi og ójafnvægi. Cyril G. Williams segir í bók sinni Tongues of the Spirit að það sé orðið „í mörgum tilfellum tákn um heldri manna stöðu innan hópsins“ og veiti einstaklingum „mikilvægi og áhrifavald í augum hópsins og líka í sínum eigin augum.“ Áhugahvötin getur þar af leiðandi verið löngun í að tilheyra þeim hærra setta hópi sem talar tungum.
Donald P. Merrifield, rektor Loyola-háskólans, bendir á að „tungutal geti verið sprottið af móðursýki eða, að því er sumir álíta, vegna áhrifa djöfulsins.“ Todd H. Fast, sem er prestur, segir: „Tungutal er umdeilt. Djöfullinn kann margar leiðir til að komast að okkur.“ Biblían sjálf aðvarar að Satan og illir andar hans geti haft áhrif á fólk og stjórnað tali þess. (Postulasagan 16:17, 18) Jesús hastaði á djöflaanda sem hafði komið manni til að hrópa og falla í gólfið. (Lúkas 4:33-35) Páll varaði við því að ‚Satan myndi taka á sig ljósengilsmynd.‘ (2. Korintubréf 11:14) Þeir sem leitast nú á tímum við að tala tungum, sem Guð veitir þjónum sínum ekki lengur, eru í raun að gera sig berskjaldaða fyrir blekkingum Satans sem við erum vöruð við að muni beita „miklum krafti, lygatáknum og undrum.“ — 2. Þessaloníkubréf 2:9, 10.
Tungutal — og sönn kristni
Kristnir menn á fyrstu öld, sem veitt var tungutalsgáfa, notuðu hana til að segja frá stórmerkjum Guðs. Áhersla var lögð á nauðsyn þess að túlka greinilega þann boðskap sem tjáður var með tungutali þannig að allir gætu skilið hann og að hann hefði í för með sér andlega uppbyggingu fyrir marga. (1. Korintubréf 14:26-33) Páll áminnti: „Ef þér mælið ekki með tungu yðar fram skilmerkileg orð, hvernig verður það þá skilið, sem talað er? Því að þér talið þá út í bláinn.“ — 1. Korintubréf 14:9.
Þegar andi Guðs veitti frumkristnum mönnum tungutalsgáfuna lét hann þá ekki tala óskiljanlegt eða óþýðanlegt hrognamál. Í samræmi við ummæli Páls veitti heilagur andi málhæfileika sem varð þess valdandi að fagnaðarerindið var prédikað enn fljótar „fyrir öllu, sem skapað er undir himninum.“ — Kólossubréfið 1:23.
Varðandi hina síðustu daga núverandi heimskerfis gaf Jesús þessi fyrirmæli: „Fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið [um hið stofnsetta ríki].“ (Markús 13:10) Eins og á fyrstu öldinni verður öll sköpunin að heyra boðskapinn um Guðsríki. Það er mögulegt vegna þess að Biblían hefur nú verið þýdd, í heild eða að hluta, á nálega 2000 tungumál. Sami andinn og blés frumkristnum mönnum í brjóst að tala af áræðni og hugrekki styður núna hið mikla og undraverða prédikunarstarf nútímasafnaðar votta Jehóva. Með töluðum orðum og með því að nota nútímaprenttækni til að gera sannleika Biblíunnar aðgengilegan í prentuðu máli tala þeir hið „hreina tungumál.“ Þessi boðskapur berst til yfir 200 landa og eyja hafsins. Vottar Jehóva mynda einir þá þjóð sem andi Guðs knýr til að kunngera öllum stórmerki Guðs. — Sefanía 3:9, NW; 2. Tímóteusarbréf 1:13.
[Myndir á blaðsíðu 7]
Vitnisburður hús úr húsi í Japan
Vitnisburður skip úr skipi í Kólumbíu
Fyrir neðan: Biblíunám í Gvatemala
Neðst: Sveitastarf í Hollandi