Söfnuðurinn lofi Jehóva
„Ég mun kunnugt gjöra nafn þitt bræðrum mínum, ég mun syngja þér lof mitt í söfnuðinum.“ — HEBREABRÉFIÐ 2:12.
1, 2. Af hverju er söfnuðurinn mikilvægur og hvaða hlutverki gegnir hann fyrst og fremst?
FRÁ því að sögur hófust hefur fólk getað notið öryggis og félagsskapar innan vébanda fjölskyldunnar. En í Biblíunni er nefnt annað fyrirkomulag þar sem mikill fjöldi fólks um heim allan nýtur öryggis og félagsskapar sem á sér engan sinn líka. Þetta er kristni söfnuðurinn. Hvort sem þú tilheyrir samheldinni fjölskyldu eða ekki ættirðu að meta það sem Guð lætur í té fyrir tilhlutan safnaðarins. Ef þú tilheyrir nú þegar einum af söfnuðum Votta Jehóva þekkirðu eflaust ef eigin raun hlýjuna, vináttuna og öryggistilfinninguna sem þú getur notið þar.
2 Söfnuðurinn er annað og meira en félagsskapur. Hann er ekki samtök eða klúbbur þar sem fólk af svipuðum uppruna eða með svipuð áhugamál hittist, til dæmis til að stunda íþróttir eða fást við tómstundaiðju. Söfnuðurinn gegnir fyrst og fremst því hlutverki að lofa Jehóva Guð. Svo hefur verið um langan aldur eins og vel kemur fram í Sálmunum. Í Sálmi 35:18 segir: „Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði, vegsama þig í miklum mannfjölda.“ Í Sálmi 107:31, 32 er tekið í sama streng en þar segir: „Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn, vegsama hann í söfnuði þjóðarinnar.“ — Biblíurit, ný þýðing 2003.
3. Hvert er hlutverk safnaðarins að sögn Páls postula?
3 Páll postuli bendir á annað mikilvægt hlutverk safnaðarins þegar hann talar um Guðs hús og segir að það sé „söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans“. (1. Tímóteusarbréf 3:15) Um hvaða söfnuð var Páll að tala? Hvernig er orðið „söfnuður“ notað í Biblíunni? Og hvaða áhrif ætti söfnuðurinn að hafa á líf okkar og framtíðarhorfur? Til að kanna það skulum við byrja á að athuga hvernig orðið „söfnuður“ er notað í Biblíunni.
4. Hvernig er orðið „söfnuður“ oftast notað í Hebresku ritningunum?
4 Hebreska orðið, sem er oft þýtt „söfnuður“, er myndað af stofni sem merkir að „kalla saman“ eða „safna saman“. (5. Mósebók 4:10; 9:10) Sálmaskáldið notaði orðið um englana á himnum og það er einnig hægt að nota það um hóp illvirkja. (Sálmur 26:5; 89:6-8) Í Hebresku ritningunum er það hins vegar oftast notað um Ísraelsmenn. Guð sagði að ‚margar kynkvíslir‘ myndu koma af Jakobi eða „söfnuður þjóða“ eins og það er orðað á frummálinu. Og það fór svo. (1. Mósebók 28:3; 35:11; 48:4) Ísraelsmenn voru útvaldir til að vera ‚söfnuður Drottins‘ og ‚söfnuður Guðs‘. — 4. Mósebók 20:4; Nehemíabók 13:1; Jósúabók 8:35; 1. Samúelsbók 17:47; Míka 2:5.
5. Hvaða gríska orð er yfirleitt þýtt „söfnuður“ en í hvaða merkingu er hægt að nota það?
5 Samsvarandi orð í grísku er ekklesiʹa en það er samsett úr tveim grískum orðum sem merkja „út“ og „kalla“. Hægt er að nota það um hóp sem er ekki trúarlegs eðlis. Það er til dæmis notað um ‚mannsöfnuðinn‘ sem Demetríus æsti gegn Páli í Efesus. (Postulasagan 19:32, 39, 41) Yfirleitt er það þó notað í Biblíunni um kristna söfnuðinn. Í sumum biblíuþýðingum er það þýtt „kirkja“ en The Imperial Bible-Dictionary segir að það sé aldrei notað um „bygginguna þar sem kristnir menn söfnuðust saman til almennrar tilbeiðslu“. Hins vegar er athyglisvert að orðið „söfnuður“ er notað að minnsta kosti á fjóra mismunandi vegu í Grísku ritningunum.
Andasmurður söfnuður Guðs
6. Hvað gerðu Davíð og Jesús í söfnuðinum?
6 Páll postuli heimfærir orð Davíðs í Sálmi 22:23 á Jesú og skrifar: „Ég mun kunnugt gjöra nafn þitt bræðrum mínum, ég mun syngja þér lof mitt í söfnuðinum. Því var það, að [Jesús] í öllum greinum átti að verða líkur bræðrum sínum, svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði.“ (Hebreabréfið 2:12, 17) Davíð hafði lofað Guð í söfnuði Ísraels til forna. (Sálmur 40:10) En hvað átti Páll við þegar hann sagði að Jesús hefði lofað Guð „mitt í söfnuðinum“? Hvaða söfnuður er þetta?
7. Hvernig er orðið „söfnuður“ fyrst og fremst notað í Grísku ritningunum?
7 Hér skiptir máli það sem við lásum í Hebreabréfinu 2:12, 17. Það sýnir að Kristur tilheyrði söfnuði þar sem hann boðaði bræðrum sínum nafn Guðs. Hverjir voru bræður hans? Það voru þeir sem tilheyrðu „afsprengi Abrahams“, andasmurðir bræður Krists, „hluttakar himneskrar köllunar“. (Hebreabréfið 2:16–3:1; Matteus 25:40) Orðið „söfnuður“ er sem sagt notað fyrst og fremst um hóp andasmurðra fylgjenda Krists í heild. Þeir eru 144.000 talsins og mynda ‚söfnuð frumgetinna, sem á himnum eru skráðir‘. — Hebreabréfið 12:23.
8. Hvernig gaf Jesús til kynna að kristni söfnuðurinn yrði myndaður?
8 Jesús gaf til kynna að þessi kristni „söfnuður“ yrði myndaður. Um ári fyrir dauða sinn sagði hann einum af postulunum: „Þú ert Pétur, og á þessum kletti mun ég byggja söfnuð minn, og hlið Heljar skulu eigi verða honum yfirsterkari.“ (Matteus 16:18, Biblían 1912) Pétur og Páll skildu báðir réttilega að Jesús sjálfur væri kletturinn fyrirheitni. Pétur nefndi þá sem yrðu uppbyggðir sem „lifandi steinar“ í andlegt hús á klettinum, Kristi, og sagði að þeir yrðu „eignarlýður, til þess að [þeir skyldu] víðfrægja dáðir hans“ sem kallaði þá. — 1. Pétursbréf 2:4-9; Sálmur 118:22; Jesaja 8:14; 1. Korintubréf 10:1-4.
9. Hvenær fór söfnuður Guðs að myndast?
9 Hvenær var byrjað að mynda kristna söfnuðinn af þessum ‚eignarlýð‘? Það gerðist á hvítasunnu árið 33 þegar Guð úthellti heilögum anda yfir lærisveinana sem voru saman komnir í Jerúsalem. Síðar sama dag flutti Pétur áhrifamikla ræðu yfir hópi Gyðinga og trúskiptinga. Margir voru sakbitnir yfir dauða Jesú, iðruðust og létu skírast. Í frásögn Biblíunnar segir að þetta hafi verið þrjú þúsund manns og þeir bættust þegar í stað við hinn nýja og vaxandi söfnuð Guðs. (Postulasagan 2:1-4, 14, 37-47) Söfnuðurinn óx vegna þess að æ fleiri Gyðingar og trúskiptingar gerðu sér grein fyrir því að Ísraelsþjóðin væri ekki lengur söfnuður Guðs. Nú voru andasmurðir kristnir menn, sem mynduðu hinn andlega „Ísrael Guðs“, orðnir söfnuður Guðs. — Galatabréfið 6:16; Postulasagan 20:28.
10. Lýstu sambandi Jesú við söfnuð Guðs.
10 Biblían gerir oft greinarmun á Jesú og hinum andasmurðu, til dæmis þegar hún talar um „Krist og söfnuðinn“. Jesús er höfuð safnaðar hinna andasmurðu. Páll skrifaði að Guð hefði „gefið hann söfnuðinum svo sem höfuðið yfir öllu; en söfnuðurinn er líkami hans“. (Efesusbréfið 1:22, 23; 5:23, 32, Biblían 1912; Kólossubréfið 1:18, 24) Nú eru aðeins fáeinir eftir á jörðinni af þeim sem mynda hinn andasmurða söfnuð. Við getum hins vegar verið viss um að Jesús Kristur, höfuð þeirra, elskar þá. Afstöðu hans til þeirra er lýst í Efesusbréfinu 5:25: „Kristur elskaði söfnuðinn og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hann.“ (Biblían 1912) Jesús elskar söfnuðinn vegna þess að hann er stöðugt að færa Guði „lofgjörðarfórn . . . ávöxt vara, er játa nafn hans,“ alveg eins og Jesús gerði sjálfur meðan hann var á jörðinni. — Hebreabréfið 13:15.
Aðrar merkingar orðsins „söfnuður“
11. Í hvaða annarri merkingu er orðið „söfnuður“ notað í Grísku ritningunum?
11 Stundum er orðið „söfnuður“ notað í þrengri merkingu í Biblíunni, og á þá ekki við allan hóp hinna 144.000 andasmurðu sem mynda ‚söfnuð Guðs‘. Til dæmis skrifaði Páll ákveðnum hópi kristinna manna: „Verið hvorki Gyðingum né Grikkjum né söfnuði Guðs til ásteytingar.“ (1. Korintubréf 10:32, Biblían 1912) Ljóst er að kristinn maður í Korintu hefði getað orðið einhverjum til ásteytingar ef hann hefði hegðað sér ósæmilega. En hefði hann getað hneykslað alla Gyðinga, Grikki eða andasmurða frá þeim tíma allt fram á þennan dag? Auðvitað ekki. Í þessu versi virðist ‚söfnuður Guðs‘ vera notað um kristna menn sem eru uppi á ákveðnum tíma. Það er því hægt að segja að Guð leiðbeini söfnuðinum, sjái fyrir honum eða blessi hann og er þá átt við alla kristna menn sem eru uppi á ákveðnum tíma, hvar sem þeir eru niðurkomnir. Sömuleiðis mætti tala um hamingju og frið safnaðar Guðs á okkar tímum og er þá átt við hið kristna bræðrafélag í heild.
12. Í hvaða þriðju merkingu er orðið „söfnuður“ notað í Biblíunni?
12 Í þriðja lagi er orðið „söfnuður“ notað í Biblíunni um alla kristna menn á ákveðnu svæði. Við lesum: „Nú hafði söfnuðurinn frið um alla Júdeu og Galíeu og Samaríu.“ (Postulasagan 9:31, Biblían 1912) Þetta er töluvert stórt svæði og kristnir menn þar skiptust í allnokkra hópa sem voru allir kallaðir „söfnuðurinn“. Í ljósi þess hve margir létu skírast á hvítasunnu árið 33 og skömmu síðar má vel vera að fleiri en einn hópur hafi komið reglulega saman í Jerúsalem og nágrenni. (Postulasagan 2:41, 46, 47; 4:4; 6:1, 7) Heródes Agrippa 1. réð ríkjum í Júdeu til dauðadags árið 44, og ljóst er af 1. Þessaloníkubréfi 2:14 að árið 50 voru margir söfnuðir í Júdeu. Þegar við lesum að Heródes hafi látið misþyrma ‚nokkrum úr söfnuðinum‘ má vel vera að þar sé vísað til fleiri en eins hóps sem söfnuðust saman í Jerúsalem. — Postulasagan 12:1.
13. Í hvaða fjórðu merkingu er algengt að orðið „söfnuður“ sé notað í Biblíunni?
13 Í fjórða lagi er orðið „söfnuður“ notað í enn þrengri og algengari merkingu, það er að segja um kristna menn sem mynda einn stakan söfnuð, hugsanlega á einkaheimili. Páll minnist á ‚söfnuðina í Galatíu‘ sem var rómverskt skattland og allstórt. Kristnir menn á því svæði skiptust í nokkra söfnuði. Páll notar fleirtöluna „söfnuðir“ tvívegis þegar hann talar um Galatíu sem hefur þá einnig náð yfir Antíokkíu, Derbe, Lýstru og Íkóníum. Hæfir safnaðaröldungar eða umsjónarmenn voru skipaðir í hverjum þessara safnaða. (1. Korintubréf 16:1; Galatabréfið 1:2; Postulasagan 14:19-23) Samkvæmt Biblíunni voru þetta allt ‚söfnuðir Guðs‘. — 1. Korintubréf 11:16; 2. Þessaloníkubréf 1:4.
14. Hvaða ályktun má draga af nokkrum versum þar sem orðið „söfnuður“ kemur fyrir?
14 Í sumum tilfellum hljóta kristnir menn að hafa haldið samkomur í fámennum hópum sem komust fyrir á einkaheimilum. Engu að síður eru sumir af þessum hópum kallaðir „söfnuðir“. Við vitum af söfnuðum á heimili Akvílasar og Prisku, Nýmfu og Fílemons. (Rómverjabréfið 16:3-5; Kólossubréfið 4:15; Fílemonsbréfið 2) Þetta ætti að vera uppörvandi fyrir fámenna söfnuði sem halda jafnvel samkomur að staðaldri í heimahúsum. Jehóva viðurkenndi þessa fámennu söfnuði á fyrstu öld og gerir það sömuleiðis á okkar tímum og leiðir þá með anda sínum.
Söfnuðir lofa Jehóva
15. Hvernig starfaði heilagur andi í sumum af söfnuðunum á fyrstu öld?
15 Jesús lofaði Guð í söfnuðinum eins og áður hefur komið fram og uppfyllti þar Sálm 22:23. (Hebreabréfið 2:12) Trúir fylgjendur hans áttu að gera það líka. Sannkristnir menn voru smurðir með heilögum anda á fyrstu öld og urðu synir Guðs og bræður Krists. Sumir fengu náðargáfur andans sem starfaði þá í þeim með sérstökum hætti. Þetta birtist meðal annars í því að þeir gátu talað af sérstakri visku eða þekkingu, fengu lækninga- eða spádómsgáfu eða gátu jafnvel talað tungumál sem þeir þekktu ekki áður. — 1. Korintubréf 12:4-11.
16. Hvert var eitt af markmiðunum með náðargáfum andans?
16 Páll sagði um tungutal: „Ég vil lofsyngja með anda, en ég vil einnig lofsyngja með skilningi.“ (1. Korintubréf 14:15) Hann gerði sér grein fyrir því að það var mikilvægt að aðrir skildu það sem hann sagði og fræddust af. Það var markmið hans að lofa Jehóva í söfnuðinum. Hann hvatti aðra sem höfðu fengið náðargáfur andans: „Leitist . . . við að vera auðugir að þeim, söfnuðinum til uppbyggingar“, það er að segja söfnuðinum á þeim stað þar sem náðargáfa þeirra kom fram. (1. Korintubréf 14:4, 5, 12, 23) Páli var greinilega umhugað um söfnuðina á hverjum stað og hann vissi að kristnir menn höfðu tækifæri til að lofa Guð í þeim öllum.
17. Hverju megum við treysta varðandi söfnuði okkar á hverjum stað?
17 Jehóva heldur áfram að nota söfnuð sinn og styðja hann. Hann blessar hóp hinna andasmurðu sem eru á jörðinni núna eins og sjá má af allri andlegu fæðunni sem þjónar Guðs njóta. (Lúkas 12:42) Hann blessar allt bræðrafélagið um allan heim. Og hann blessar hvern einasta söfnuð þar sem við lofum skaparann og styrkjum aðra með uppbyggilegum orðum okkar og verkum. Þar fáum við menntun og þjálfun þannig að við getum lofað Guð við aðrar aðstæður, þegar við erum ekki á safnaðarsamkomum.
18, 19. Hvað vilja dyggir þjónar Guðs í öllum söfnuðunum gera?
18 Eins og við munum hvatti Páll trúsystkini sín í söfnuðinum í Filippí sem var í Makedóníu: „Þetta bið ég um, að . . . [þið séuð] auðugir að réttlætis ávexti þeim, er fæst fyrir Jesú Krist til dýrðar og lofs Guði.“ Það hefur falið í sér að þeir töluðu við aðra, utan safnaðarins, um trúna á Jesú og þá dásamlegu von sem þeir báru í brjósti. (Filippíbréfið 1:9-11; 3:8-11) Þess vegna hvatti Páll aðra í söfnuðinum: „Fyrir [Jesú] skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.“ — Hebreabréfið 13:15.
19 Hefur þú ánægju af því að lofa Guð „í söfnuðinum“ eins og Jesús gerði, og nota varir þínar til að lofa Jehóva í áheyrn þeirra sem hafa ekki enn þá kynnst honum og lært að lofa hann? (Hebreabréfið 2:12; Rómverjabréfið 15:9-11) Svar okkar, hvers og eins, við þessari spurningu er að nokkru leyti undir því komið hvernig við lítum á hlutverk okkar eigin safnaðar í fyrirætlun Guðs. Í greininni á eftir skulum við kanna hvernig Jehóva leiðbeinir söfnuðunum á hverjum stað og hvaða hlutverki söfnuðurinn ætti að gegna í lífi okkar.
Manstu?
• Hvernig var „söfnuður Guðs“ myndaður, það er að segja söfnuður hinna andasmurðu?
• Á hvaða þrjá aðra vegu er orðið „söfnuður“ notað í Biblíunni?
• Hvað þráðu Davíð, Jesús og kristnir menn á fyrstu öld að gera í söfnuðinum og hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur?
[Mynd á blaðsíðu 13]
Hvaða söfnuður var byggður á Jesú?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Hópar kristinna manna á hverjum stað komu saman sem „söfnuðir Guðs“.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Við getum lofað Jehóva í söfnuðinum eins og kristnir menn í Benín.