NÁMSGREIN 29
„Farið ... og gerið allar þjóðir að lærisveinum“
„Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum.“ – MATT. 28:19.
SÖNGUR 60 Það bjargar þeim
YFIRLITa
1, 2. (a) Hvert er aðalverkefni kristna safnaðarins samkvæmt fyrirmælum Jesú í Matteusi 28:18–20? (b) Um hvaða spurningar er rætt í þessari grein?
POSTULARNIR hafa eflaust verið eftirvæntingarfullir þegar þeir söfnuðust saman í fjallshlíðinni. Jesús hafði beðið þá að hitta sig þar eftir að hann reis upp frá dauðum. (Matt. 28:16) Kannski var það þá sem ,hann birtist meira en fimm hundruð bræðrum í einu‘. (1. Kor. 15:6) Hvers vegna hafði Jesús kallað lærisveinana til fundar við sig? Til að fela þeim spennandi verkefni: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum.“ – Lestu Matteus 28:18–20.
2 Lærisveinarnir sem heyrðu þessi orð Jesú áttu eftir að tilheyra frumkristna söfnuðinum. Aðalverkefni safnaðarins var að gera fleira fólk að lærisveinum Krists.b Núna eru á annað hundrað þúsund sannkristnir söfnuðir um allan heim og aðalverkefni þeirra er hið sama. Í þessari grein leitum við svara við fjórum spurningum: Hvers vegna er mjög mikilvægt að gera fólk að lærisveinum? Hvað er fólgið í því? Eiga allir þjónar Guðs þátt í að gera fólk að lærisveinum? Og hvers vegna þurfum við að vera þolinmóð til að sinna því?
HVERS VEGNA ER MIKILVÆGT AÐ GERA FÓLK AÐ LÆRISVEINUM?
3. Hvers vegna er mjög mikilvægt að gera fólk að lærisveinum samkvæmt Jóhannesi 14:6 og 17:3?
3 Hvers vegna er mjög mikilvægt að gera fólk að lærisveinum? Vegna þess að engir nema lærisveinar Krists geta verið vinir Guðs. Fylgjendur Krists eiga líka betra líf núna og hafa þá von að geta lifað að eilífu. (Lestu Jóhannes 14:6; 17:3.) Jesús hefur sannarlega falið okkur mikilvægt hlutverk en við vinnum ekki þetta verk ein sér. Páll postuli skrifaði um sjálfan sig og nokkra nána félaga: „Samverkamenn Guðs erum við.“ (1. Kor. 3:9) Hvílíkur heiður sem Jehóva og Kristur hafa veitt ófullkomnum mönnum!
4. Hvað getum við lært af því sem Ivan og Matilde upplifðu?
4 Það veitir okkur mikla gleði að hjálpa fólki að verða lærisveinar. Hjón í Kólumbíu, Ivan og Matilde, eru dæmi um það. Þau boðuðu trúna ungum manni sem heitir Davier en hann sagði við þau: „Mig langar að breyta lífi mínu en ég get það ekki.“ Davier var atvinnumaður í hnefaleikum. Hann notaði fíkniefni, drakk ótæpilega og bjó í óvígðri sambúð með Eriku, kærustu sinni. Ivan segir svo frá: „Við fórum að heimsækja hann í einangraða þorpinu þar sem hann bjó. Við þurftum að hjóla í marga klukkutíma eftir moldarvegum til að komast þangað. Þegar Erika sá að framkoma Daviers og hegðun batnaði fór hún líka að taka þátt í biblíunáminu.“ Með tímanum hætti Davier að nota fíkniefni, drekka og stunda hnefaleika. Hann giftist líka Eriku. Matilde segir: „Þegar Davier og Erika skírðust árið 2016 minntumst við þess sem Davier hafði oft sagt: ,Mig langar að breyta mér en ég get það ekki.‘ Við gátum ekki haldið aftur af tárunum.“ Það gleður okkur ákaflega að fá að aðstoða fólk við að verða lærisveinar Krists.
HVAÐ ER FÓLGIÐ Í ÞVÍ AÐ GERA FÓLK AÐ LÆRISVEINUM?
5. Hvað er það fyrsta sem við þurfum að gera til að hjálpa fólki að verða lærisveinar Krists?
5 Fyrsta skrefið til að gera fólk að lærisveinum er að leita að þeim sem hafa rétt hjartalag. (Matt. 10:11) Við sýnum að við erum vottar Jehóva með því að vitna fyrir öllum sem við hittum. Við sýnum líka að við erum sannkristin þar sem við fylgjum fyrirmælum Krists um að boða trúna.
6. Hvað getur hjálpað okkur að ná góðum árangri í boðuninni?
6 Sumir vilja ákafir kynnast sannleika Biblíunnar en margir sem við hittum virðast áhugalausir í byrjun. Við gætum þurft að örva áhuga þeirra. Til að ná árangri í boðuninni þurfum við að undirbúa okkur vel. Veldu umræðuefni sem er líklegt að höfði til fólks sem þú hittir. Veltu síðan fyrir þér hvernig best sé að kynna efnið.
7. Hvernig gætirðu byrjað samræður og hvers vegna finnst þér mikilvægt að hlusta og sýna virðingu?
7 Þú gætir til dæmis spurt húsráðanda: „Má ég spyrja þig um álit þitt á einu máli? Margt sem hrjáir okkur hrjáir fólk alls staðar í heiminum. Heldurðu að það væri hægt að leysa öll þessi vandamál ef ein stjórn færi með völd um allan heim?“ Síðan gætirðu rætt um Daníel 2:44. Önnur hugmynd væri að segja: „Hvað heldurðu að þurfi til að kenna börnum góða hegðun? Það væri gaman að heyra hvaða skoðun þú hefur á því.“ Ræddu síðan um 5. Mósebók 6:6, 7. Hvert sem málefnið er skaltu hugsa um fólkið sem þú ætlar að tala við. Veltu fyrir þér hvaða gagn það hefur af því að læra það sem Biblían kennir. Þegar þú síðan talar við húsráðanda er mikilvægt að þú hlustir á hann og virðir skoðun hans. Þannig geturðu skilið hann betur og þá er líklegra að hann vilji hlusta á þig.
8. Af hverju kostar það þrautseigju að fara í endurheimsóknir?
8 Þú gætir þurft að nota talsverðan tíma og krafta í að fara í endurheimsóknir áður en húsráðandi ákveður að kynna sér Biblíuna. Af hverju? Af því að fólk er kannski ekki heima eða er upptekið næst þegar við komum. Það gæti líka þurft að heimsækja húsráðanda nokkrum sinnum áður en hann er tilbúinn til að þiggja biblíunámskeið. Mundu að blóm vex líklega betur ef það er vökvað reglulega. Að sama skapi er líklegra að áhugasöm manneskja læri að elska Jehóva og Jesú ef við komum reglulega til að ræða um orð Guðs.
EIGA ALLIR KRISTNIR MENN ÞÁTT Í AÐ GERA FÓLK AÐ LÆRISVEINUM?
9, 10. Hvers vegna má segja að allir þjónar Guðs taki þátt í að finna einlægt fólk?
9 Allir þjónar Guðs taka þátt í að finna einlægt fólk. Það má líkja því við að leita að týndu barni. Hvernig þá? Tökum dæmi af þriggja ára dreng sem týndist. Um 500 manns tóku þátt í leitinni að honum. Að lokum, 20 tímum eftir að drengurinn fór að heiman, fann sjálfboðaliði hann á maísakri. Sjálfboðaliðinn vildi þó ekki fá heiðurinn af því að hafa fundið drenginn heldur sagði: „Það þurfti mörg hundruð manns til að finna hann.“
10 Margir eru í svipuðum sporum og þetta barn. Þeim finnst þeir vera týndir. Þeir hafa enga von en vilja fá hjálp. (Ef. 2:12) Við sem tökum þátt í leitinni erum yfir átta milljónir. Kannski finnurðu ekki sjálfur neinn sem þiggur biblíunámskeið. En aðrir sem starfa með þér á sama svæði finna ef til vill einhvern sem vill kynnast sannleikanum í orði Guðs. Þegar bróðir eða systir hittir einhvern sem verður síðar lærisveinn Krists hafa allir sem tóku þátt í leitinni ástæðu til að fagna.
11. Hvernig geturðu hjálpað til við að gera fólk að lærisveinum þó að þú sért ekki með biblíunemanda?
11 Þú getur hjálpað til við að gera fólk að lærisveinum á ýmsa vegu þó að þú sért ekki með biblíunemanda eins og er. Þú gætir boðið nýja velkomna og vingast við þá þegar þeir koma í ríkissalinn. Með því að sýna þeim kærleika á þennan hátt geturðu átt þátt í að sannfæra þá um að við séum sannkristin. (Jóh. 13:34, 35) Af svörum þínum á samkomum, þó stutt séu, geta þeir lært að tjá trú sína í einlægni og af virðingu. Þú gætir líka farið með nýjum boðbera í boðunina og hjálpað honum að nota Biblíuna þegar hann ræðir við fólk. Þannig kennirðu honum að líkja eftir Kristi. – Lúk. 10:25-28.
12. Þurfum við sérstaka hæfileika til að kenna fólki að fylgja Kristi? Skýrðu svarið.
12 Enginn ætti að halda að við þurfum sérstaka hæfileika til að geta kennt öðrum að fylgja Kristi. Tökum Faustinu sem dæmi en hún býr í Bólivíu. Hún kunni ekki að lesa þegar hún kynntist vottum Jehóva en hefur síðan lært að lesa að einhverju marki. Núna er hún skírð og hefur yndi af því að kenna öðrum. Hún er yfirleitt með fimm biblíunemendur á viku. Þó að flestir nemendur hennar lesi betur en hún hefur hún hjálpað sex manns að kynnast Jehóva og láta skírast. – Lúk. 10:21.
13. Hvaða blessun getum við hlotið þegar við hjálpum fólki að gerast lærisveinar þótt við eigum annríkt?
13 Margir þjónar Guðs eru mjög uppteknir við að sinna öllum þeim skyldum sem á þeim hvíla. Þeir finna sér samt tíma til að halda biblíunámskeið og hafa mikla ánægju af. Melanie er dæmi um það en hún býr í Alaska. Hún var einstæð móðir með átta ára dóttur, vann fulla vinnu og þurfti einnig að hugsa um annað foreldri sitt sem var með krabbamein. Melanie var eini votturinn í afskekktum bæ. Hún bað oft til Jehóva um styrk til að fara út í kuldann og boða trúna því að hún þráði að hitta einhvern sem vildi fá biblíunámskeið. Einn daginn hitti hún Söru en henni fannst mjög merkilegt að uppgötva að Guð ætti sér nafn. Að nokkrum tíma liðnum þáði Sara biblíunámskeið. Melanie segir: „Ég var uppgefin á föstudagskvöldum en við mæðgurnar höfðum báðar gott af því að fara til biblíunemandans. Við höfðum ánægju af því að leita svara við spurningum Söru og það var svo gaman að sjá hana verða vinur Jehóva.“ Sara tókst hugrökk á við andstöðu sem hún mætti, skráði sig úr kirkjunni og lét skírast.
HVERS VEGNA ÞARF ÞOLINMÆÐI TIL AÐ GERA FÓLK AÐ LÆRISVEINUM?
14. (a) Hvað er líkt með boðuninni og fiskveiðum? (b) Hvaða áhrif hafa orð Páls í 2. Tímóteusarbréfi 4:1, 2 á þig?
14 Þótt þér finnist þú ekki sjá mikinn árangur af starfi þínu skaltu ekki gefast upp á að leita að áhugasömum. Mundu að Jesús líkti boðuninni við fiskveiðar. Fiskimenn eru stundum að í marga klukkutíma áður en þeir fá fisk. Þeir halda oft til veiða seint á kvöldin eða snemma morguns og stundum þurfa þeir að sigla langar leiðir á miðin. (Lúk. 5:5) Margir boða líka trúna með þolinmæði klukkustundum saman á mismunandi tímum og ýmsum stöðum. Hvers vegna? Til að auka líkurnar á að hitta fólk. Þeim sem leggja hart að sér tekst oft að hitta fólk sem hefur áhuga á boðskap okkar. Geturðu reynt að boða trúna á þeim tíma dags sem líklegast er að fólk sé heima eða á stað þar sem líklegast er að fólk sé að finna? – Lestu 2. Tímóteusarbréf 4:1, 2.
15. Hvers vegna þurfum við að vera þolinmóð þegar við erum með biblíunemendur?
15 Hvers vegna þurfum við að vera þolinmóð þegar við erum með biblíunemendur? Ein ástæðan er sú að biblíunemendur þurfa meira en að kynnast Biblíunni og læra að meta það sem hún kennir. Við þurfum að hjálpa nemandanum að kynnast Jehóva, höfundi Biblíunnar, og læra að elska hann. Auk þess er ekki nóg að nemandinn læri hvað Jesús sagði að lærisveinar sínir þyrftu að gera. Við þurfum líka að kenna honum hvernig hann getur lifað eins og sannkristinn maður. Við þurfum að aðstoða hann með þolinmæði meðan hann reynir að tileinka sér meginreglur Biblíunnar. Sumir þurfa ekki nema nokkra mánuði til að breyta hugsunarhætti sínum og venjum en aðrir þurfa lengri tíma.
16. Hvað lærum við af frásögunni af Raúl?
16 Trúboði í Perú sá góðan árangur af því að vera þolinmóður. „Ég var með biblíunemanda sem heitir Raúl og við vorum búnir að fara yfir tvær bækur,“ segir hann. „En Raúl átti enn við alvarleg vandamál að glíma. Hjónabandið var stormasamt, hann var orðljótur og börnunum hans fannst erfitt að virða hann. Hann sótti þó samkomur reglulega svo að ég hélt áfram að heimsækja hann og fjölskyldu hans. Rúmum þrem árum eftir að ég hitti hann fyrst var hann tilbúinn að láta skírast.“
17. Um hvað er rætt í næstu grein?
17 Jesús sagði okkur að ,fara og gera allar þjóðir að lærisveinum‘. Til að hlýða þessum fyrirmælum þurfum við oft að tala við fólk sem hugsar mjög ólíkt okkur, meðal annars fólk sem tilheyrir engu trúfélagi eða trúir ekki að Guð sé til. Í næstu grein er rætt hvernig við getum kynnt fagnaðarerindið fyrir slíkum einstaklingum.
SÖNGUR 68 Sáum sæði sannleikans
a Kristni söfnuðurinn hefur fengið eitt verkefni öðrum fremur – að hjálpa fólki að verða lærisveinar Krists. Í þessari grein fáum við góðar tillögur sem auðvelda okkur að sinna verkefninu.
b ORÐASKÝRING: Lærisveinar Krists læra ekki bara það sem hann kenndi heldur fara líka eftir því. Þeir reyna að feta eins náið í fótspor hans og hægt er. – 1. Pét. 2:21.
c MYND: Maður sem er á leið í frí þiggur rit hjá vottum á flugvelli. Þegar hann er í skoðunarferð sér hann votta standa við ritatrillur. Boðberar banka upp á hjá honum eftir að hann kemur heim.
d MYND: Sami maður þiggur biblíunámskeið og lætur að lokum skírast.