Foreldrar og börn: Látið Guð ganga fyrir!
„Óttastu Guð og haltu hans boðorð.“ — PRÉDIKARINN 12:13.
1. Hvaða ótta þurfa foreldrar og börn að rækta með sér og hvað mun hann veita þeim?
SPÁDÓMUR um Jesú Krist sagði að ‚unun hans myndi vera að óttast Jehóva.‘ (Jesaja 11:3) Ótti hans var fyrst og fremst djúp lotning fyrir Guði, ótti við að vanþóknast honum, sprottinn af kærleika til hans. Foreldrar og börn þurfa að rækta með sér líkan guðsótta og Kristur sem þau munu hafa unun af eins og hann. Þau þurfa að láta Guð ganga fyrir í lífi sínu með því að hlýða boðorðum hans. „Það á hver maður að gjöra,“ að sögn biblíuritara. — Prédikarinn 12:13.
2. Hvert var mikilvægasta boðorð lögmálsins og hverjum var það gefið fyrst og fremst?
2 Þýðingarmesta boðorði lögmálsins, því að ‚elska Jehóva af öllu hjarta, sálu og mætti,‘ var beint fyrst og fremst til foreldra. Það má sjá af framhaldi þess í lögmálinu: „Þú skalt brýna þau [þessi orð um að elska Jehóva] fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ (5. Mósebók 6:4-7; Markús 12:28-30) Foreldrum var þannig fyrirskipað að láta Guð ganga fyrir með því að elska hann sjálfir og með því að kenna börnum sínum að gera það líka.
Kristin ábyrgð
3. Hvernig sýndi Jesús fram á mikilvægi þess að sinna börnum?
3 Jesús sýndi fram á mikilvægi þess að sinna jafnvel ungum börnum. Einhverju sinni undir lok jarðneskrar þjónustu Jesú tók fólk að koma með ungbörn til hans. Lærisveinarnir héldu greinilega að Jesús ætti of annríkt til að sinna þeim og reyndu að stöðva fólkið. En Jesús snupraði lærisveinana og sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi.“ Hann jafnvel „tók þau sér í faðm“ og sýndi þannig á hjartnæman hátt hve mikilvægt væri að sinna börnunum. — Lúkas 18:15-17; Markús 10:13-16.
4. Hverjir fengu fyrirmæli um að ‚fara og gera allar þjóðir að lærisveinum‘ og hvað myndi það útheimta?
4 Jesús benti líka á að fylgjendum hans væri skylt að kenna öðrum en sínum eigin börnum. Eftir dauða sinn og upprisu birtist Jesús „meira en fimm hundruð bræðrum í einu“ — þeirra á meðal nokkrum foreldrum. (1. Korintubréf 15:6) Þetta virðist hafa gerst á fjalli í Galíleu þar sem postular hans 11 voru einnig saman komnir. Þar hvatti Jesús þá alla: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:16-20) Enginn kristinn maður má vanrækja það að hlýða þessum fyrirmælum! Feður og mæður þurfa að fara eftir þeim með því að annast börn sín og jafnframt að taka þátt í almennri prédikun og kennslu.
5. (a) Hvað sýnir að flestir eða allir postularnir voru kvæntir og áttu því hugsanlega börn? (b) Hvaða heilræði þurfa fjölskyldufeður að taka alvarlega?
5 Rétt er að taka eftir að jafnvel postularnir urðu að finna jafnvægið milli fjölskylduábyrgðar sinnar og þeirrar skyldu að prédika og gæta hjarðar Guðs. (Jóhannes 21:1-3, 15-17; Postulasagan 1:8) Það kom til af því að flestir þeirra, ef ekki allir, voru kvæntir. Þess vegna sagði Páll postuli: „Höfum vér ekki rétt til að ferðast um með kristna eiginkonu, alveg eins og hinir postularnir og bræður Drottins og Kefas?“ (1. Korintubréf 9:5; Matteus 8:14) Sumir postularnir kunna einnig að hafa átt börn. Fornir sagnaritarar, svo sem Evsebíus, segja að Pétur hafi átt börn. Allir kristnir foreldrar til forna þurftu að hlýða áminningu Ritningarinnar: „Ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“ — 1. Tímóteusarbréf 5:8.
Aðalábyrgðin
6. (a) Hvaða áskorun þurfa kristnir öldungar, sem eru fjölskyldufeður, að taka? (b) Hver er helsta ábyrgð öldungs?
6 Kristnir öldungar nú á tímum, sem eru fjölskyldufeður, eru í svipaðri aðstöðu og postularnir. Þeir verða að sinna andlegum og líkamlegum þörfum fjölskyldna sinna í jafnvægi við þá skyldu að prédika fyrir almenningi og gæta hjarðar Guðs. Hvort ætti að ganga fyrir? Varðturninn sagði hinn 1. janúar 1965: „[Faðirinn hefur] fyrst og fremst ábyrgð á heimili sínu og gæti raunverulega ekki verið þjónn, ef hann gegndi ekki þeirri skyldu.“
7. Hvernig láta kristnir feður Guð ganga fyrir?
7 Feður verða því að láta Guð ganga fyrir með því að hlýða boðinu um að ‚ala börn sín upp með aga og umvöndun Jehóva.‘ (Efesusbréfið 6:4) Þá ábyrgð er ekki hægt að fela öðrum, jafnvel þótt faðirinn hafi líka umsjón með ýmissi starfsemi í kristna söfnuðinum. Hvernig geta feður í þeirri aðstöðu gegnt ábyrgð sinni — séð líkamlega, andlega og tilfinningalega fyrir fjölskyldu sinni — og jafnframt veitt forstöðu og gegnt umsjónarstarfi í söfnuðinum?
Nauðsynlegur stuðningur veittur
8. Hvernig getur eiginkona öldungs stutt hann?
8 Ljóst er að öldungar með fjölskylduábyrgð geta þegið stuðning. Áðurnefndur Varðturn tók fram að kristin eiginkona geti verið manni sínum stoð og stytta. Blaðið sagði: „Hún getur séð um að hann hafi góð skilyrði til að undirbúa verkefni sín. Hún getur sparað sjálfri sér og manni sínum dýrmætan tíma með því að skipuleggja hússtörfin vel, hafa matinn tilbúinn á réttum tíma og vera nógu snemma tilbúin til að fara á samkomurnar. . . . Kristin eiginkona getur undir forystu manns síns gert mikið til þess að ala börnin upp samkvæmt vegi Jehóva.“ (Orðskviðirnir 22:6) Já, eiginkonan var sköpuð til að vera „meðhjálp“ og það er viturlegt af eiginmanni að þiggja aðstoð hennar með þökkum. (1. Mósebók 2:18) Stuðningur hennar getur gert honum kleift að annast bæði fjölskyldu sína og safnaðarábyrgð sem best.
9. Hverjir í Þessaloníkusöfnuðinum voru hvattir til að hjálpa öðrum safnaðarmönnum?
9 En eiginkonur kristinna öldunga eru ekki einar um að geta stutt umsjónarmann sem þarf bæði að vera ‚hirðir hjarðar Guðs‘ og annast eigið heimili. (1. Pétursbréf 5:2) Hverjir aðrir geta gert það? Páll postuli hvatti bræðurna í Þessaloníku til að sýna þeim viðurkenningu sem ‚veittu þeim forstöðu.‘ Páll hélt síðan áfram og sagði þessum sömu bræðrum — sérstaklega þeim sem ekki gegndu forstöðu: „Vér áminnum yður, bræður: Vandið um við þá, sem óreglusamir eru, hughreystið ístöðulitla [‚niðurdregna,‘ NW], takið að yður þá, sem óstyrkir eru, verið langlyndir við alla.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:12-14.
10. Hvaða góð áhrif hefur kærleiksrík hjálp allra bræðranna á söfnuðinn?
10 Það er verðmætt þegar bræðurnir í söfnuðinum hafa til að bera kærleika sem kemur þeim til að hughreysta niðurdregna, styðja óstyrka, vanda um við óreglusama og vera langlyndir við alla! Bræðurnir í Þessaloníku, sem höfðu skömmu áður tekið við sannleika Biblíunnar þrátt fyrir miklar þrengingar, fóru eftir ráðleggingum Páls. (Postulasagan 17:1-9; 1. Þessaloníkubréf 1:6; 2:14; 5:11) Hugsaðu þér hve góð áhrif kærleiksríkur stuðningur þeirra hefur haft í þá átt að styrkja og sameina allan söfnuðinn! Eins er það nú á dögum þegar bræðurnir hughreysta, styðja og vanda um við aðra; það auðveldar öldungunum, sem eiga margir fyrir fjölskyldu að sjá, hirðisábyrgðina til muna.
11. (a) Hvers vegna er skynsamlegt að ætla að konur hafi verið meðtaldar þegar talað var um „bræður“? (b) Hvaða hjálp getur þroskuð kristin kona veitt yngri konum nú á dögum?
11 Voru konur meðal ‚bræðranna‘ sem Páll postuli ávarpaði? Já, því að margar konur tóku trú. (Postulasagan 17:1, 4; 1. Pétursbréf 2:17; 5:9) Hvers konar hjálp gátu þær veitt? Í söfnuðinum voru ungar konur sem áttu erfitt með að hafa stjórn á kynhvötinni eða voru ‚niðurdregnar.‘ (1. Tímóteusarbréf 5:11-13) Sumar konur eiga við sams konar vandamál að glíma nú á dögum. Kannski þarfnast þær meira en nokkurs annars að eiga trúnaðarvin sem hlustar og sýnir þeim samúð. Oft er þroskuð kristin kona best til þess fallin að veita slíka hjálp. Hún getur til dæmis rætt persónuleg vandamál við aðra konu sem ekki væri viðeigandi fyrir kristinn karlmann að ræða við hana um einn síns liðs. Páll lagði áherslu á gildi slíkrar hjálpar er hann skrifaði: „Svo eiga og aldraðar konur að . . . [kenna] gott frá sér, til þess að þær laði hinar ungu til að elska menn sína og börn, vera hóglátar, skírlífar, heimilisræknar, góðlátar og eiginmönnum sínum undirgefnar, til þess að orði Guðs verði ekki lastmælt.“ — Títusarbréfið 2:3-5.
12. Handleiðslu hverra þurfa allir í söfnuðinum að fylgja?
12 Auðmjúkar, samvinnuþýðar systur eru söfnuðinum til mikillar blessunar þegar þær styðja bæði eiginmenn sína og öldungana! (1. Tímóteusarbréf 2:11, 12; Hebreabréfið 13:17) Öldungar með fjölskylduábyrgð hafa sérstaklega mikið gagn af þegar allir í söfnuðinum aðstoða hver annan í anda kærleikans og þegar allir eru undirgefnir handleiðslu hinna útnefndu hirða. — 1. Pétursbréf 5:1, 2.
Foreldrar, hvað látið þið ganga fyrir?
13. Hvernig bregðast margir feður fjölskyldum sínum?
13 Þekktur skemmtikraftur sagði fyrir mörgum árum: „Ég sé athafnamenn reka fyrirtæki með hundruðum starfsmanna; þeir kunna að takast á við allar hugsanlegar aðstæður, að aga og að umbuna í heimi viðskiptanna. En mikilvægasta fyrirtækið, sem þeir reka, er fjölskyldan og þeim rekstri klúðra þeir.“ Hvers vegna? Er það ekki vegna þess að þeir láta fyrirtækið og önnur áhugamál ganga fyrir og vanrækja að fara eftir ráðleggingum Guðs? Orð hans segir: „Þessi orð, sem ég legg fyrir þig . . . , þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum.“ Og þetta átti að gera daglega. Foreldrar þurfa að gefa óspart af tíma sínum — en einkum þó ást og djúpri umhyggju. — 5. Mósebók 6:6-9.
14. (a) Hvernig ættu foreldrar að annast börn sín? (b) Hvað felst í viðeigandi uppeldi barna?
14 Biblían minnir okkur á að börn séu gjöf frá Jehóva. (Sálmur 127:3) Annastu börn þín eins og eign Guðs, gjöf sem þér er trúað fyrir? Barnið þitt bregst trúlega vel við ef þú tekur það í faðm þér og sýnir þannig ástríka umhyggju þína og athygli. (Markús 10:16) En að ‚fræða barn um veginn, sem það á að ganga,‘ er meira en bara að faðma það og kyssa. Barnið þarf líka ástríkan aga til að öðlast visku svo að það geti forðast tálgryfjur lífsins. Foreldri sýnir ósvikna ást með því að ‚aga barn sitt snemma.‘ — Orðskviðirnir 13:1, 24; 22:6.
15. Hvað sýnir að foreldrar þurfa að aga börnin?
15 Lýsing nemendaráðgjafa í skóla segir margt um þörf barna fyrir aga frá foreldrunum: „Þau eru aumkunarverð, niðurdregin og ráðvillt. Þau gráta þegar þau lýsa ástandinu eins og það raunverulega er. Mörg börn — miklu fleiri en maður skyldi ætla — hafa reynt að svipta sig lífi, ekki af því að þau séu óstjórnlega hamingjusöm heldur af því að þau eru svo vansæl, þeim finnst enginn láta sér annt um þau og þau eru að farast úr streitu af því að þau ‚ráða sér sjálf‘ og það er þeim hreinlega ofviða.“ Hann bætir við: „Það er ógnvekjandi fyrir krakka að hafa á tilfinningunni að hann ráði ferðinni.“ Vissulega reyna börn oft að komast hjá aga en í raun réttri kunna þau að meta viðmiðunarreglur og hömlur foreldra sinna. Þau eru glöð þegar foreldrarnir láta sér nógu annt um þau til að veita þeim aðhald. „Það hefur verið gríðarlegur léttir fyrir mig,“ segir táningur sem foreldrarnir veittu aðhald.
16. (a) Hvernig fer fyrir sumum börnum sem alast upp á kristnum heimilum? (b) Hvers vegna er þrjóskt og villuráfandi barn ekki sjálfkrafa merki þess að foreldrarnir hafi ekki alið það vel upp?
16 En sumir krakkar hafna handleiðslu foreldra sinna og fara út á villigötur líkt og glataði sonurinn í dæmisögu Jesú, þótt þeir eigi ástríka foreldra sem veita þeim gott uppeldi. (Lúkas 15:11-16) Það þarf í sjálfu sér ekki að þýða að foreldrarnir hafi ekki gegnt ábyrgð sinni að ala börnin almennilega upp eins og Orðskviðirnir 22:6 leiðbeina um. Fyrirmælin um að ‚fræða barnið um veginn sem það á að halda og það muni ekki af honum víkja‘ voru gefin sem almenn regla. Því miður er það svo að sum börn ‚fyrirlíta hlýðni við foreldri‘ líkt og glataði sonurinn. — Orðskviðirnir 30:17.
17. Í hverju geta foreldrar þrjóskra og villuráfandi barna leitað hughreystingar?
17 Faðir, sem átti þrjóskan og villuráfandi son, sagði mæðulega: „Ég hef reynt eins og ég get að ná til hjarta hans. Ég veit ekki mitt rjúkandi ráð því að ég hef reynt svo margt. Ekkert hefur hrifið.“ Vonandi minnast þessi þrjósku og villuráfandi börn einhvern tíma hins ástríka uppeldis, sem þau fengu, og snúa aftur eins og glataði sonurinn. En sú staðreynd stendur að sum börn gera uppreisn og leggjast í siðleysi, foreldrum sínum til mikillar mæðu. Foreldrar geta sótt hughreystingu í þá vitneskju að jafnvel mesti kennari á jörð varð fyrir því að nemandi hans um langan tíma, Júdas Ískaríot, sveik hann. Og Jehóva hryggðist vafalaust sjálfur þegar margir af andasonum hans höfnuðu ráðleggingum hans og gerðu uppreisn án þess að honum yrði um kennt. — Lúkas 22:47, 48; Opinberunarbókin 12:9.
Börn — hverjum ætlið þið að þóknast?
18. Hvernig geta börn sýnt að þau láta Guð ganga fyrir?
18 Jehóva hvetur ykkur börnin: „Hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins.“ (Efesusbréfið 6:1) Unga fólkið lætur Guð ganga fyrir með því að gera þetta. Verið ekki óskynsöm! „Afglapinn smáir aga föður síns,“ segir orð Guðs. Og sýnið ekki þann hroka að halda að þið getið spjarað ykkur án aga. Sannleikurinn er sá að til er „kyn, sem þykist vera hreint og hefir þó eigi þvegið af sér saurinn.“ (Orðskviðirnir 15:5; 30:12) Fylgið því leiðbeiningum Guðs — ‚hlýðið,‘ ‚veitið viðtöku,‘ ‚geymið,‘ ‚gleymið eigi,‘ ‚varðveitið‘ og ‚hafnið eigi‘ boðorðum og aga foreldranna. — Orðskviðirnir 1:8; 2:1; 3:1; 4:1; 6:20.
19. (a) Hvaða ærnar ástæður hafa börn til að hlýða Jehóva? (b) Hvernig geta börn og unglingar sýnt að þau séu Guði þakklát?
19 Þú hefur ærnar ástæður til að hlýða Jehóva. Hann elskar þig og hefur gefið þér lög sín til að vernda þig og hjálpa þér að vera hamingjusamur, þeirra á meðal það ákvæði að börn eigi að hlýða foreldrum sínum. (Jesaja 48:17) Hann hefur líka gefið son sinn sem dó fyrir þig þannig að þú gætir bjargast frá synd og dauða og hlotið eilíft líf. (Jóhannes 3:16) Ertu þakklátur? Guð horfir niður af himni og rannsakar hjarta þitt til að sjá hvort þú elskir hann í sannleika og kunnir að meta ráðstafanir hans. (Sálmur 14:2) Satan fylgist líka með og hann smánar Guð og fullyrðir að þú ætlir ekki að hlýða honum. Þú gleður Satan og ‚hryggir‘ Jehóva ef þú óhlýðnast honum. (Sálmur 78:40, 41) Jehóva biður þig innilega: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt [með því að hlýðnast mér], svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ (Orðskviðirnir 27:11) Já, spurningin er sú hvorum þú ætlir að þóknast, Satan eða Jehóva.
20. Hvernig hefur ung stúlka varðveitt hugrekki til að þjóna Jehóva jafnvel þegar hún verður hrædd?
20 Það er ekki auðvelt að gera vilja Guðs undir álaginu frá Satan og heimi hans. Það getur verið ógnvekjandi. Unglingsstúlka segir: „Að vera hræddur er eins og að vera kalt. Maður getur gert eitthvað við því.“ Hún hélt áfram: „Maður klæðir sig í peysu þegar manni er kalt. Síðan bætir maður annarri við ef manni er enn þá kalt. Og maður heldur áfram að bæta á sig fötum uns kuldinn hverfur og manni hitnar. Að biðja til Jehóva þegar maður er hræddur er eins og að klæða sig í peysu þegar manni er kalt. Ef ég er enn hrædd eftir eina bæn, þá bið ég aftur, og svo aftur og aftur þangað til ég er ekki hrædd lengur. Og það hrífur. Það hefur forðað mér frá vandræðum!“
21. Hvernig styður Jehóva okkur ef við reynum virkilega að láta hann ganga fyrir í lífi okkar?
21 Jehóva styður okkur ef við látum hann virkilega ganga fyrir í lífi okkar. Hann styrkir okkur og hjálpar með aðstoð engla þegar þess er þörf, eins og hann gerði fyrir son sinn. (Matteus 18:10; Lúkas 22:43) Verið hugrökk, bæði foreldrar og börn. Óttist Guð eins og Kristur gerði; það veitir ykkur gleði. (Jesaja 11:3) Já, „óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ — Prédikarinn 12:13.
Geturðu svarað?
◻ Hvaða jafnvægis þurftu fylgjendur Jesú á fyrstu öld að gæta er þeir ræktu skyldur sínar?
◻ Hvaða ábyrgð verða kristnir foreldrar að rækja?
◻ Hvaða hjálp geta kristnir öldungar, sem eru fjölskyldufeður, fengið?
◻ Hvaða verðmæta þjónustu geta systur veitt í söfnuðinum?
◻ Hvaða heilræðum og handleiðslu er mikilvægt fyrir börn að hlýða?
[Mynd á blaðsíðu 29]
Þroskuð kristin kona getur oft veitt yngri konu nauðsynlega hjálp.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Hvaða hughreystingu geta foreldrar þrjóskra og villuráfandi barna sótt í Ritninguna?