Hjálpum fólki að nálægja sig Jehóva
„Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.“ — JÓHANNES 14:6.
1. Hvaða fyrirmæli gaf hinn upprisni Jesús lærisveinum sínum og hverju hafa vottar Jehóva áorkað með því að hlýða þeim?
JESÚS KRISTUR fól fylgjendum sínum það verkefni að ‚gera allar þjóðir að lærisveinum og skíra þá í nafni föður, sonar og heilags anda.‘ (Matteus 28:19) Á síðastliðnum tíu árum hafa vottar Jehóva hjálpað rösklega þrem milljónum manna að kynnast Guði og skírt þá til tákns um að þeir séu vígðir honum til að gera vilja hans. Það er mjög gleðilegt fyrir okkur að hjálpa þeim að nálægja sig Guði. — Jakobsbréfið 4:8.
2. Hvað hefur gerst þótt margir láti skírast?
2 En sums staðar í heiminum, þar sem margir nýir lærisveinar hafa látið skírast, hefur boðberum Guðsríkis ekki fjölgað að sama skapi. Að sjálfsögðu þarf að gera ráð fyrir því að einhverjir deyi, en árleg dánartíðni er um 1 prósent. En einhverra orsaka vegna hafa margir fallið frá trúnni á síðustu árum. Af hverju? Í þessari grein og þeirri næstu ætlum við að skoða hvernig fólk laðast að Jehóva og kanna hugsanlegar ástæður fyrir því að sumir falla frá.
Tilgangurinn með prédikun okkar
3. (a) Hvernig fer verkefnið, sem Jesús fól lærisveinunum, saman við verkefni engilsins sem lýst er í Opinberunarbókinni 14:6? (b) Hvað hefur reynst áhrifaríkt til að vekja áhuga fólks á guðsríkisboðskapnum en hvaða vandamál blasir við?
3 Núna, „er að endalokunum líður,“ hefur lærisveinum Jesú verið falið að útbreiða sanna ‚þekkingu‘ á ‚fagnaðarerindinu um ríkið.‘ (Daníel 12:4; Matteus 24:14) Þetta verkefni fer saman við verkefni engilsins sem „hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð.“ (Opinberunarbókin 14:6) Heimurinn er upptekinn af veraldarvafstri og áhrifaríkasta leiðin til að vekja áhuga fólks á ríki Guðs og hjálpa því að nálgast hann er yfirleitt sú að segja því frá voninni um eilíft líf í paradís á jörð. Þetta er auðvitað skiljanlegt, en þeir sem umgangast fólk Guðs í þeim eina tilgangi að komast inn í paradís eru ekki staðfastir á mjóa veginum til lífsins. — Matteus 7:13, 14.
4. Hver er tilgangurinn með boðunarstarfi okkar að sögn Jesú og engilsins sem flýgur um háhvolf himins?
4 Jesús sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Engillinn, sem flýgur um háhvolf himins, boðar ‚eilífan fagnaðarboðskap‘ og segir þeim sem búa á jörðinni: „Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans. Tilbiðjið þann, sem gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna.“ (Opinberunarbókin 14:7) Það leiðir því af sjálfu sér að megintilgangurinn með boðun fagnaðarerindisins er sá að hjálpa fólki að nálægja sig Jehóva fyrir milligöngu Krists Jesú.
Hlutverk okkar í starfi Jehóva
5. Hvaða orð Páls og Jesú sýna að við erum að vinna verk Jehóva en ekki okkar eigið?
5 Í bréfi til smurðra trúbræðra sinna talar Páll postuli um „þjónustu sáttargjörðarinnar“ og segir að Guð sætti fólk við sig á grundvelli lausnarfórnar Jesú Krists. Páll segir að það sé ‚eins og það sé Guð sem áminni þegar við áminnum‘ og bætir við að „vér biðjum í Krists stað: Látið sættast við Guð.“ Þetta er hlýleg tilhugsun. Hvort sem við erum smurðir „erindrekar Krists“ eða fulltrúar með jarðneska von megum við aldrei gleyma að þetta er ekki okkar starf heldur Jehóva. (2. Korintubréf 5:18-20) Það er raunverulega Guð sem dregur til sín þá sem koma til Krists og kennir þeim. Jesús sagði: „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann, og ég mun reisa hann upp á efsta degi. Hjá spámönnunum er skrifað: ‚Þeir munu allir verða af Guði fræddir.‘ Hver sem hlýðir á föðurinn og lærir af honum, kemur til mín.“ — Jóhannes 6:44, 45.
6. Hvernig er Jehóva að hræra þjóðir og hverjir leita á sama tíma skjóls í ‚tilbeiðsluhúsi‘ hans?
6 Hvernig dregur Jehóva fólk til sín núna á síðustu dögum og opnar þeim ‚dyr trúarinnar‘? (Postulasagan 14:27; 2. Tímóteusarbréf 3:1) Ein helsta leið hans er sú að láta votta sína boða boðskapinn um hjálpræði og um dóm yfir þessu illa heimskerfi. (Jesaja 43:12; 61:1, 2) Þessi boðun veldur hræringum meðal allra þjóða — sem eru fyrirboði þess að þær farist í dómi hans innan tíðar. Á sama tíma er verið að draga út úr þessu heimskerfi fólk sem er „gersemar“ í augum Guðs, og það finnur öruggt skjól í ‚húsi‘ hans þar sem hann er tilbeðinn í sannleika. Þannig er Jehóva að uppfylla spádómsorðin sem skráð eru fyrir munn Haggaí: „Ég mun hræra allar þjóðir, svo að gersemar allra þjóða skulu hingað koma, og ég mun fylla hús þetta dýrð.“ — Haggaí 2:6, 7; Opinberunarbókin 7:9, 15.
7. Hvernig opnar Jehóva hjörtu fólks og dregur menn til sín og sonar síns?
7 Jehóva opnar hjörtu þessara guðhræddu manna — ‚gersema allra þjóða‘ — til að þeir ‚taki við‘ því sem vottar hans segja. (Postulasagan 16:14) Líkt og á fyrstu öldinni notar Jehóva engla sína stundum til að vísa vottum sínum á einlægt fólk sem hrópar á hjálp til hans. (Postulasagan 8:26-31) Þegar fólk kemst að raun um hvað hann hefur gert fyrir það með fórn sonar síns, Jesú Krists, laðast það að honum vegna kærleika hans. (1. Jóhannesarbréf 4:9, 10) Já, Guð dregur fólk til sín og sonar síns með „náð“ sinni eða „hollum kærleika.“ — Jeremía 31:3, NW, neðanmáls.
Hverja dregur Jehóva?
8. Hvers konar fólk dregur Jehóva til sín?
8 Jehóva dregur til sín og sonar síns þá sem leita hans. (Postulasagan 17:27) Þetta er meðal annars fólk sem ‚andvarpar og kveinar yfir öllum þeim svívirðingum sem framdar eru‘ í kristna heiminum og reyndar heiminum öllum. (Esekíel 9:4) Þetta fólk er sér „meðvita um andlega þörf sína.“ (Matteus 5:3, NW) Þetta eru „hinir auðmjúku í landinu“ sem búa munu að eilífu í paradís á jörð. — Sefanía 2:3.
9. Hvernig getur Jehóva séð hvort fólk ‚hneigist til eilífs lífs‘ og hvernig dregur hann það til sín?
9 Jehóva getur lesið hjarta mannsins. Davíð konungur sagði Salómon syni sínum: „[Jehóva] rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugrenningar. Ef þú leitar hans, mun hann gefa þér kost á að finna sig.“ (1. Kroníkubók 28:9) Jehóva getur séð af hjartalagi og hugarfari einstaklingsins hvort líklegt sé að hann taki við ráðstöfun hans til syndafyrirgefningar og voninni um eilíft líf í réttlátum nýjum heimi hans. (2. Pétursbréf 3:13) Með orði sínu, sem vottar hans prédika og kenna, dregur Jehóva til sín og til sonar síns ‚alla þá sem hneigjast til eilífs lífs‘ og þeir ‚taka trú.‘ — Postulasagan 13:48, NW.
10. Hvað sýnir að það á ekkert skylt við forlög að Jehóva skuli draga til sín suma en ekki aðra?
10 Ber það vott um einhvers konar forlög að Jehóva skuli draga til sín suma en ekki aðra? Engan veginn. Það er háð löngunum fólks hvort Guð dregur það til sín. Hann virðir frjálsan vilja þess. Hann gefur jarðarbúum sömu valkosti núna og hann gaf Ísraelsmönnum fyrir rösklega 3000 árum þegar Móse sagði: „Ég hefi í dag lagt fyrir þig líf og heill, dauða og óheill. . . . Ég kveð í dag bæði himin og jörð til vitnis móti yður, að ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann, blessunina og bölvunina. Veldu þá lífið, til þess að þú og niðjar þínir megi lifa, með því að elska [Jehóva] Guð þinn, hlýða raustu hans og halda þér fast við hann, því að undir því er líf þitt komið og langgæður aldur þinn.“ — 5. Mósebók 30:15-20.
11. Hvernig áttu Ísraelsmenn að velja lífið?
11 Taktu eftir að Ísraelsmenn áttu að velja lífið ‚með því að elska Jehóva, hlýða raust hans og halda sér fast við hann.‘ Ísraelsmenn höfðu enn ekki sest að í fyrirheitna landinu þegar þessi orð voru sögð. Þeir voru staddir á Móabsvöllum og voru að búa sig undir að fara yfir Jórdan inn í Kanaanland. Það var eðlilegt að hugurinn beindist að landinu ‚góða og víðlenda,‘ sem ‚flaut í mjólk og hunangi‘ og þeir áttu bráðlega að eignast. En til að sjá þessa drauma rætast urðu þeir að elska Jehóva, hlýða raust hans og halda sér fast við hann. (2. Mósebók 3:8) Móse tók það skýrt fram: „Ef þú hlýðir skipunum [Jehóva] Guðs þíns, þeim er ég legg fyrir þig í dag, að elska [Jehóva] Guð þinn, ganga á hans vegum og varðveita skipanir hans, lög og ákvæði, þá munt þú lifa og margfaldast, og [Jehóva] Guð þinn mun blessa þig í landi því, er þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar.“ — 5. Mósebók 30:16.
12. Hvað ættum við að læra af Ísraelsmönnum um prédikun okkar og kennslu?
12 Ættum við ekki að læra eitthvað af þessu um prédikunar- og kennslustarf okkar núna á endalokatímanum? Við hugsum um hina komandi paradís á jörð og tölum um hana í boðunarstarfinu. En hvorki við né þeir sem við gerum að lærisveinum sjá fyrirheitið uppfyllast ef við eða þeir þjóna Guði af eigingjörnum hvötum. Við og þeir sem við kennum verða að læra að ‚elska Jehóva, hlýða raust hans og halda sér fast við hann,‘ líkt og Ísraelsmenn. Ef við höfum það hugfast í þjónustu okkar erum við að vinna með Guði að því að draga fólk til hans.
Samverkamenn Guðs
13, 14. (a) Hvernig verðum við samverkamenn Guðs samkvæmt 1. Korintubréfi 3:5-9? (b) Hver á heiðurinn af allri aukningu og hvers vegna?
13 Páll líkti samvinnunni við Guð við akuryrkju. Hann skrifaði: „Hvað er þá Apollós? Já, hvað er þá Páll? Þjónar, sem hafa leitt yður til trúar, og það eins og Drottinn hefur gefið hvorum um sig. Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn. Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur. Sá, sem gróðursetur, og sá, sem vökvar, eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir sínu erfiði. Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi.“ — 1. Korintubréf 3:5-9.
14 Sem samverkamenn Guðs verðum við að vinna trúföst að því að gróðursetja „orðið um ríkið“ í hjörtum fólks. Síðan verðum við að vökva hvern þann áhuga, sem við finnum, með vel undirbúnum endurheimsóknum og biblíunámskeiðum. Ef jarðvegurinn er góður, það er að segja ef hjartað er móttækilegt, þá leggur Jehóva sitt af mörkum með því að láta frækorn sannleikans vaxa og verða að frjósamri jurt. (Matteus 13:19, 23) Hann dregur manninn til sín og sonar síns. Í raun réttri má því rekja alla boðberafjölgun til þess sem Jehóva gerir í hjörtum manna til að láta sæði sannleikans vaxa og draga þá til sín og sonar síns.
Byggingarstarf til frambúðar
15. Hvaða líkingu notaði Páll til að sýna fram á hvernig við hjálpum öðrum að byggja upp trú?
15 Þótt við fögnum vextinum þráum við í einlægni að sjá fólk halda áfram að elska Jehóva, hlýða raust hans og halda sér fast við hann. Það hryggir okkur að sjá suma heltast úr lestinni. Getum við komið í veg fyrir það með einhverjum ráðum? Í annarri líkingu bendir Páll á hvernig við getum hjálpað öðrum að byggja upp trú. Hann skrifar: „Annan grundvöll getur enginn lagt en þann, sem lagður er, sem er Jesús Kristur. En ef einhver byggir ofan á grundvöllinn gull, silfur, dýra steina, tré, hey eða hálm, þá mun verk hvers um sig verða augljóst. Dagurinn mun leiða það í ljós, af því að hann opinberast með eldi og eldurinn mun prófa hvílíkt verk hvers og eins er.“ — 1. Korintubréf 3:11-13.
16. (a) Hvaða ólík markmið hafa líkingarnar tvær sem Páll notar? (b) Hvernig gæti það sem við byggjum reynst ófullnægjandi og ótraust?
16 Í líkingu Páls um akurinn ræðst vöxturinn af samviskusamri gróðursetningu, reglulegri vökvun og blessun Guðs. Í hinni líkingunni bendir postulinn á ábyrgð kristins boðbera á því sem verður úr byggingarstarfi hans. Hefur hann byggt á traustum grunni úr góðum efnum? Páll segir: „Sérhver athugi, hvernig hann byggir.“ (1. Korintubréf 3:10) Við byrjum á því að vekja áhuga manns með því að segja honum frá voninni um eilíft líf í paradís. En einbeitum við okkur síðan að því að kenna honum grundvallaratriði Biblíunnar og leggjum aðaláhersluna á hvað hann þurfi að gera til að hljóta eilíft líf? Getur verið að kennsla okkar sé eingöngu þessi: ‚Ef þú vilt fá eilíft líf í paradís verður þú að kynna þér Biblíuna, sækja samkomur og taka þátt í boðunarstarfinu‘? Ef sú er raunin erum við ekki að byggja þekkingu mannsins á traustum grunni, og óvíst er að það sem við byggjum ofan á sé eldtraust og endingargott. Ef við reynum að draga fólk til Jehóva á þeim forsendum einum að hægt sé að fá eilíft líf í paradís með því að þjóna honum í fáein ár, er eins og við séum að byggja úr ‚tré, heyi eða hálmi.‘
Að byggja upp kærleika til Guðs og Krists
17, 18. (a) Hvað er nauðsynlegt til að trúin haldi? (b) Hvernig getum við hjálpað manni að láta Krist búa í hjarta sér?
17 Til að trúin haldi þarf hún að byggjast á einkasambandi við Jehóva Guð fyrir milligöngu Jesú Krists. Við erum ófullkomnir menn og getum aðeins eignast þetta friðsamlega samband við Guð fyrir atbeina sonar hans. (Rómverjabréfið 5:10) Munum að Jesús sagði: „Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.“ Við viljum hjálpa öðrum að byggja upp trú og „annan grundvöll getur enginn lagt en þann, sem lagður er, sem er Jesús Kristur.“ Hvað felur það í sér? — Jóhannes 14:6; 1. Korintubréf 3:11.
18 Að byggja á Kristi sem grundvelli merkir að kenna þannig að biblíunemandinn fái djúpan kærleika til Jesú og kynnist honum vel sem lausnara, höfði safnaðarins, kærleiksríkum æðstapresti og ríkjandi konungi. (Daníel 7:13, 14; Matteus 20:28; Kólossubréfið 1:18-20; Hebreabréfið 4:14-16) Það merkir að gera Jesú svo raunverulegan fyrir þeim að hann búi nánast í hjörtum þeirra. Við ættum að biðja fyrir þeim eins og Páll bað fyrir kristnum mönnum í Efesus. Hann skrifaði: „Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum . . . Megi hann gefa yður . . . að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum yðar og þér verða rótfestir og grundvallaðir í kærleika.“ — Efesusbréfið 3:14-17.
19. Hverju ætti vaxandi kærleikur til Krists í hjörtum biblíunemenda okkar að koma til leiðar, en hvað þarf að kenna?
19 Ef við byggjum þannig að kærleikur til Krists vaxi í hjörtum nemenda okkar verður það eðlilega til þess að byggja upp kærleika til Jehóva Guðs. Kærleikur Jesú, samhugur og meðaumkun er nákvæm spegilmynd af eiginleikum Jehóva. (Matteus 11:28-30; Markús 6:30-34; Jóhannes 15:13, 14; Kólossubréfið 1:15; Hebreabréfið 1:3) Um leið og fólk kynnist Jesú og lærir að elska hann kynnist það Jehóva og lærir að elska hann líka.a (1. Jóhannesarbréf 4:14, 16, 19) Við þurfum að kenna biblíunemendum að Jehóva standi að baki öllu því sem Kristur hefur gert fyrir mannkynið og að við skuldum honum þess vegna þakkir, lof og tilbeiðslu sem ‚hjálpræðisguði‘ okkar. — Sálmur 68:20, 21; Jesaja 12:2-5; Jóhannes 3:16; 5:19.
20. (a) Hvernig getum við hjálpað fólki að nálægja sig Guði og syni hans? (b) Hvað er fjallað um í næstu grein?
20 Sem samverkamenn Guðs skulum við hjálpa mönnum að nálægja sig honum og syni hans og byggja upp kærleika og trú í hjörtum sér. Þannig verður Jehóva þeim raunverulegur. (Jóhannes 7:28) Fyrir atbeina Krists geta þeir eignast náið samband við Guð og munu elska hann og halda sér fast við hann. Þá setja þeir ekkert tímatakmark á kærleiksþjónustu sína, og þeir treysta að stórkostleg fyrirheit Jehóva uppfyllist þegar þar að kemur. (Harmljóðin 3:24-26; Hebreabréfið 11:6) En um leið og við hjálpum öðrum að byggja upp trú, von og kærleika verðum við að byggja upp okkar eigin trú svo að hún verði eins og sterkt skip sem getur staðist verstu storma. Um það er nánar fjallað í næstu grein.
[Neðanmáls]
a Bókin Mesta mikilmenni sem lifað hefur er góð hjálp til að kynnast Jesú betur og þar af leiðandi föður hans, Jehóva Guði. Hún er gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Til upprifjunar
◻ Hvernig vekjum við oft áhuga fólks á guðsríkisboðskapnum en hvaða hætta er fyrir hendi?
◻ Hvers konar fólk dregur Jehóva til sín og sonar síns?
◻ Undir hverju var það komið að Ísraelsmenn fengju að fara inn í fyrirheitna landið og hvað getum við lært af því?
◻ Hvaða hlutverki gegnum við í því að draga fólk til Jehóva og sonar hans?
[Mynd á blaðsíðu 9]
Enda þótt við bendum fólki á vonina um eilíft líf í paradís er meginmarkmið okkar að draga það til Jehóva.
[Myndir á blaðsíðu 12]
Endurheimsóknir geta verið mjög áhrifaríkar ef við undirbúum okkur vel.