Ábyrgð fylgir því að þekkja hina réttu trú
„Sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ — LÚKAS 11:28.
1. Hvers konar fólk hefur hina sönnu trú að þungamiðju lífs síns þegar það veit hver hún er?
ÞAÐ ER ekki nóg einfaldlega að vita hvaða trú er sú rétta. Ef við elskum það sem er rétt og satt höfum við hina sönnu trú að þungamiðju lífs okkar þegar við höfum fundið hana. Hin sanna trú er ekki bara heimspekilegar vangaveltur; hún er lífsbraut. — Sálmur 119:105; Jesaja 2:3; Samanber Postulasöguna 9:2.
2, 3. (a) Hvernig lagði Jesús áherslu á mikilvægi þess að gera vilja Guðs? (b) Hvaða ábyrgð hvílir á öllum sem þekkja hina réttu trú?
2 Jesús Kristur lagði áherslu á að það væri mikilvægt að gera það sem Guð hefði opinberað að væri vilji sinn. Í lok þess sem nú er nefnt fjallræðan sagði Jesús að ekki myndu allir, sem kölluðu hann herra (og segðust þar með vera kristnir), ganga inn í Guðsríki heldur aðeins þeir sem gerðu vilja föður hans. Hann sagði að öðrum yrði hafnað sem ‚illgjörðamönnum.‘ Hvers vegna eru þeir kallaðir illgjörðamenn? Vegna þess að Biblían segir að það sé synd að gera ekki vilja Guðs og öll synd er illgjörð. (Matteus 7:21-23; 1. Jóhannesarbréf 3:4; samanber Rómverjabréfið 10:2, 3.) Maður þekkir kannski hina réttu trú og hrósar þeim sem kenna hana og lýkur lofsorði á þá sem iðka hana. En hann hefur einnig þá ábyrgð að heimfæra hana á líf sitt. (Jakobsbréfið 4:17) Ef hann tekur á sig þá ábyrgð á hann eftir að uppgötva að hún auðgar líf hans og veitir honum gleði sem ekki er hægt að öðlast á nokkurn annan hátt.
3 Í greininni á undan voru tekin fyrir sex einkenni sannrar trúar. Hvert þeirra hjálpar okkur ekki aðeins að bera kennsl á hina réttu trú heldur hefur líka áskoranir og tækifæri í för með sér. Á hvaða hátt?
Hvernig bregst þú við orði Guðs?
4. (a) Hverju taka menn fljótlega eftir í sambandi við notkun Biblíunnar þegar þeir byrja að hafa samband við votta Jehóva? (b) Hvaða áhrif hefur það á þjóna Jehóva að vera ríkulega andlega nærðir?
4 Margir, sem hafa nýlega sýnt boðskapnum áhuga og nema Biblíuna með vottum Jehóva, sjá fljótt að það sem þeir eru að læra er úr Biblíunni. Spurningum þeirra er ekki svarað með því að vitna í trúarjátningar kirkjunnar, erfðavenjur manna eða skoðanir frammámanna. Orð Guðs er látið ráða. Fari þeir í ríkissalinn sjá þeir að einnig þar er Biblían aðalkennslubókin. Það tekur einlæga sannleiksleitendur ekki langan tíma að gera sér ljóst að gleðin, sem þeir sjá hjá vottum Jehóva, byggist að miklu leyti á hinni ríkulegu andlegu fæðu sem þeir fá frá orði Guðs. — Jesaja 65:13, 14.
5. (a) Hvaða áskorun blasir við þeim sem fylgjast með vottum Jehóva? (b) Hvernig geta þeir fengið hlutdeild í gleði vottanna?
5 Ef þér er þetta ljóst, hvernig bregst þú þá við? Ef þú áttar þig á þessu getur þú ekki með góðu móti verið bara aðgerðarlaus áhorfandi og ættir ekki að vilja það. Biblían sýnir að þeir sem eru „aðeins heyrendur“ en ekki „gjörendur orðsins,“ ‚svíkja sjálfa sig.‘ (Jakobsbréfið 1:22) Ef þeir hlýða ekki Guði er augljóst að þeir elska hann ekki í raun og veru, hvað sem þeir segja, og þannig svíkja þeir sjálfa sig. Ef maður segist trúa en sýnir ekki trúna með verkum er trúin dauð. (Jakobsbréfið 2:18-26; 1. Jóhannesarbréf 5:3) En sá sem er knúinn áfram af kærleika til Jehóva til að vera ‚gjörandi orðsins‘ mun „sæll verða í verkum sínum.“ Já, eins og Jesús Kristur sagði: „Sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ — Jakobsbréfið 1:25; Lúkas 11:28; Jóhannes 13:17.
6. Ef við í sannleika kunnum að meta orð Guðs, hvaða tækifæri viljum við reyna að nýta?
6 Þessi gleði dýpkar þegar maður lærir meira um vilja Guðs og heimfærir allt það nýja sem maður lærir. Hve mikið ætlar þú að leggja þig fram við að nema orð Guðs? Tugþúsundir manna, sem voru ólæsir, hafa lagt mikið á sig til að læra að lesa, sérstaklega til þess að þeir gætu lesið Ritninguna og kennt öðrum hana. Aðrir fara snemma á fætur á hverjum morgni svo að þeir hafi tíma til að lesa Biblíuna eða biblíunámsrit eins og til dæmis Varðturninn. Þegar þú lest Biblíuna kerfisbundið eða flettir upp ritningarstöðum, sem vísað er til í öðru námsefni, skaltu taka vel eftir lögum og boðorðum Jehóva og reyna að koma auga á þær mörgu meginreglur sem eru þar okkur til leiðsagnar. Hugleiddu hvað hver hluti segir okkur um Guð, tilgang hans og samskipti við mennina. Gefðu þér tíma til að láta það sem þú lest móta hjartalag þitt. Íhugaðu hvort þú getir á einhvern hátt heimfært ráðleggingar Biblíunnar betur á þitt eigið líf. — Sálmur 1:1, 2; 19:8-12; 1. Þessaloníkubréf 4:1.
Helgar þú líf þitt Jehóva algerlega?
7. (a) Hvernig hefur þrenningarkenningin haft áhrif á þá sem vilja tilbiðja Guð? (b) Hvað getur gerst þegar einhver lærir sannleikann um Jehóva?
7 Milljónum manna hefur létt við að heyra að hinn sanni Guð er ekki þrenning. Þeir hafa aldrei getað sætt sig við þá útskýringu að hún væri „leyndardómur.“ Hvernig gætu þeir nálgast Guð sem er óskiljanlegur? Þessi kenning gerði það að verkum að þeir gáfu föðurnum engan gaum (þeir höfðu aldrei heyrt minnst á nafn hans í kirkjunni) og tilbáðu Jesú sem Guð eða beindu tilbeiðslu sinni að Maríu (sem þeim hafði verið kennt að væri „guðsmóðir“). En þeir brugðust jákvætt við þegar einn af vottum Jehóva lauk upp Biblíunni og sýndi þeim einkanafn Guðs, Jehóva. (Sálmur 83:19) Kona nokkur frá Venesúela varð svo yfir sig hrifin þegar hún sá nafn Guðs að hún bókstaflega faðmaði unga vottinn, sem sýndi henni það, og þáði boð um að hafa biblíunám. Þegar slíkt fólk heyrir að Jesús talaði um föður sinn sem ,Guð minn og Guð yðar‘ og að Jesús ávarpaði föður sinn sem „hinn eina sanna Guð,“ verður því ljóst að það sem Biblían kennir um Guð er ekki óskiljanlegt. (Jóhannes 17:3; 20:17) Þegar það kynnist eiginleikum Jehóva laðast það að honum, byrjar að biðja til hans og vill þóknast honum. Hver er afleiðingin?
8. (a) Hvað hafa milljónir manna gert vegna kærleika síns til Jehóva og löngunar til að þóknast honum? (b) Hvers vegna er kristileg skírn lífsnauðsynleg?
8 Síðastliðin tíu ár hafa 2.528.524 einstaklingar á sex meginlöndum og á tugum úthafseyja vígt líf sitt Jehóva og síðan látið skírast í vatni til tákns um það. Varst þú einn þeirra eða ertu nú að búa þig undir að láta skírast? Skírn er mikilvægur áfangi í lífi sérhvers sannkristins manns. Jesús fyrirskipaði fylgjendum sínum að gera menn af öllum þjóðum að lærisveinum og skíra þá. (Matteus 28:19, 20) Einnig er eftirtektarvert að það gerðist strax eftir að Jesús lét skírast að Jehóva talaði frá himnum og sagði: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.“ — Lúkas 3:21, 22.
9. Hvers er krafist af okkur til viðhalda góðu sambandi við Jehóva?
9 Gott samband við Jehóva er afar dýrmætt. Ef þú hefur öðlast slíkt samband með vígslu og skírn skaltu forðast allt sem gæti skaðað það. Leyfðu ekki áhyggjum lífsins og efnislegum hlutum að ýta því til hliðar. (1. Tímóteusarbréf 6:8-12) Lifðu í fullu samræmi við ráðleggingu Orðskviðanna 3:6: „Mundu til hans [Jehóva] á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“
Hve djúpt snertir kærleikur Krists þig?
10. Hvers vegna fær tilbeiðsla okkar á Jehóva okkur ekki til að sniðganga Jesú Krist?
10 Þó að menn meti Jehóva réttilega sem hinn eina sanna Guð kemur það þeim að sjálfsögðu ekki til að sniðganga Jesú Krist. Þvert á móti segir Opinberunarbókin 19:10: „Vitnisburður Jesú er andi spádómsgáfunnar.“ Hinir innblásnu spádómar frá 1. Mósebók til Opinberunarbókarinnar lýsa í smáatriðum hlutverki Jesú Krists í tilgangi Jehóva. Þegar fólk kynnist þessum smáatriðum rennur upp fyrir því heillandi mynd sem er laus við bjögun og rangfærslur er rekja má til falskenninga kristna heimsins.
11. Hvaða áhrif hafði það á konu í Póllandi að læra það sem Biblían kennir um son Guðs?
11 Það getur haft mjög djúp áhrif á fólk að skilja sannleikann um son Guðs. Svo var um konu í Póllandi sem heitir Danuta. Hún hafði verið í sambandi við votta Jehóva í átta ár, líkað vel við það sem þeir kenndu en ekki tileinkað sér sanna tilbeiðslu sem lífsbraut. Þá fékk hún í hendur bókina Mesta mikilmenni sem lifað hefur sem segir frá ævi Krists á auðskilinn hátt.a Síðla kvölds byrjaði hún að lesa bókina og ætlaði að lesa aðeins einn kafla. En hún lagði hana ekki frá sér fyrr en í dögun eftir að hafa lesið hana alla. Hún brast í grát. „Jehóva, fyrirgefðu mér,“ sárbændi hún. Það sem hún hafði lesið hjálpaði henni að sjá skýrar en nokkru sinni fyrr þann kærleika sem Jehóva og sonur hans hafa auðsýnt. Það rann upp fyrir henni að í átta ár hafði hún vanþakklát afþakkað þá hjálp sem Guð hafði þolinmóður boðið henni. Árið 1993 lét hún skírast til merkis um að hún hafði vígt líf sitt Jehóva Guði á grundvelli trúar sinnar á Jesú Krist.
12. Hvaða áhrif hefur nákvæm þekking á Jesú Kristi á líf okkar?
12 Nákvæm ,þekking á Drottni vorum Jesú Kristi‘ tengist því að vera virkur kristinn maður og bera ávöxt. (2. Pétursbréf 1:8) Að hve miklu leyti munt þú eiga þátt í því starfi að segja öðrum frá boðskapnum um Guðsríki? Margvíslegar aðstæður hafa áhrif á hve mikið menn geta gert. (Matteus 13:18-23) Sumum aðstæðum fáum við breytt, öðrum ekki. Hvað hvetur okkur til að finna út hverju við getum breytt og síðan gera það? Páll postuli skrifaði: „Kærleiki Krists knýr oss,“ eða með öðrum orðum, kærleikurinn, sem hann sýndi með því að gefa líf sitt fyrir okkur, er svo framúrskarandi að hjörtu okkar verða djúpt snortin þegar þakklæti okkar dýpkar. Þar af leiðir að við gerum okkur grein fyrir hve óviðeigandi það væri fyrir okkur að halda áfram að keppa eftir eigingjörnum markmiðum og lifa að mestu leyti til að þóknast sjálfum okkur. Þess í stað hagræðum við málum okkar til að starfið, sem Kristur kenndi lærisveinum sínum að gera, megi skipa fyrsta sæti. — 2. Korintubréf 5:14, 15.
Aðskilin frá heiminum — að hve miklu leyti?
13. Hvers vegna ættum við ekki að vilja eiga neitt saman að sælda við trúarbrögð sem hafa gert sig að hluta af heiminum?
13 Ekki er vandséð hvað hefur einkennt sögu kristna heimsins og annarra trúarbragða af því að þau vilja tilheyra heiminum. Kirkjusjóðir hafa verið notaðir til að fjármagna starfsemi uppreisnarmanna. Klerkar hafa gerst skæruliðar. Dag eftir dag birtast í blöðum fréttir víðsvegar að úr heiminum af trúarklofningshópum sem berjast hver við annan. Hendur þeirra eru alblóðugar. (Jesaja 1:15) Og um heim allan reynir klerkastéttin að ráðskast með gang stjórnmálanna. Sannir tilbiðjendur eiga engan þátt í þessu. — Jakobsbréfið 4:1-4.
14. (a) Hvað þurfum við sjálf að forðast ef við viljum vera aðskilin frá heiminum? (b) Hvað getur hjálpað okkur að forðast að viðhorf og hegðun heimsins smiti okkur?
14 En aðskilnaður frá heiminum felur í sér meira en það. Heimurinn einkennist af ást á peningum og því sem fæst fyrir peninga, löngun til að láta á sér bera og linnulausri eftirsókn eftir skemmtunum. Auk þess einkennist hann af skorti á einlægri umhyggju fyrir öðrum, lygi og svívirðilegu tali, uppreisn gegn yfirvaldi og skorti á sjálfstjórn. (2. Tímóteusarbréf 3:2-5; 1. Jóhannesarbréf 2:15, 16) Vera má að við endurspeglum stundum einhverja af þessum eiginleikum vegna okkar eigin ófullkomleika. Hvað getur hjálpað okkur í þeirri baráttu að forðast slíkar snörur? Við þurfum að minna okkur á hver stendur á bak við allt þetta. „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Einu gildir hve lokkandi ákveðinn lífsstíll virðist vera eða hve margt fólk temur sér hann. Okkur verður ljóst hve ljótur hann er þegar við sjáum erkiandstæðing Jehóva Guðs, Satan djöfulinn, standa þar að baki. — Sálmur 97:10.
Hve langt nær kærleikur þinn?
15. Hvernig hjálpaði óeigingjarn kærleikur, sem þú sást, þér að þekkja hina réttu trú?
15 Þegar þú fyrst byrjaðir að umgangast votta Jehóva höfðaði kærleikurinn hjá þeim án efa til þín vegna þess hve ólíkur hann er anda heimsins. Áhersla á óeigingjarnan kærleika skilur hreina tilbeiðslu á Jehóva frá öllum öðrum tilbeiðsluformum. Vera má að það hafi einmitt verið þetta sem sannfærði þig að vottar Jehóva séu svo sannarlega að iðka hina réttu trú. Jesús Kristur sagði sjálfur: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ — Jóhannes 13:35.
16. Hvaða möguleikar eru fyrir hvert og eitt okkar að sýna meiri kærleika?
16 Einkennir þessi eiginleiki þig sem einn af lærisveinum Krists? Getur þú gert meira af því að sýna kærleika? Eflaust getum við það öll. Það felur í sér meira en að vera vingjarnlegur við aðra í ríkissalnum. Og ef við sýndum kærleika aðeins þeim sem elska okkur á móti, værum við þá nokkuð öðruvísi en fólk í heiminum? „Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars,“ hvetur Biblían. (1. Pétursbréf 4:8) Hverjum gætum við sýnt meiri kærleika? Kristnum bróður eða systur sem hafa annan bakgrunn en við og gera suma hluti á þann hátt að það fer í taugarnar á okkur? Einhverjum sem vegna veikinda eða aldurs hefur ekki getað sótt samkomur reglulega? Maka okkar? Eða kannski öldruðum foreldrum okkar? Sumum, sem voru duglegir að sýna ávexti andans, þar með talinn kærleika, fannst þeir læra þessa eiginleika alveg upp á nýtt þegar þeir stóðu frammi fyrir þeim mjög svo erfiðu aðstæðum að þurfa að annast einn úr fjölskyldunni sem var orðinn alvarlega fatlaður. Jafnvel við þess háttar aðstæður ætti kærleikur okkar að sjálfsögðu ekki að einskorðast við fjölskylduna.
Hve mikilvægt er þér að boða Guðsríki?
17. Hvað ættum við að finna okkur knúin til að gera ef við höfum haft gagn af heimsóknum votta Jehóva?
17 Mikilvæg aðferð til að sýna náunganum kærleika er sú að segja honum frá ríki Guðs. Aðeins einn hópur manna vinnur það starf sem Jesús sagði fyrir. (Markús 13:10) Það eru vottar Jehóva. Við höfum sjálf haft gagn af því. Nú eru það sérréttindi okkar að hjálpa öðrum. Ef við lítum málið sömu augum og Guð látum við þetta starf skipa fremstan sess í lífi okkar.
18. Hvaða áhrif gæti það haft á þátttöku okkar í boðunarstarfinu að lesa bókina Vottar Jehóva — boðendur ríkis Guðs?
18 Í bókinni Vottar Jehóva — boðendur ríkis Guðs eru hrífandi frásögur af því hvernig boðskapurinn um Guðsríki hefur breiðst út til hinna fjarlægustu staða á jörðinni nú á hinum síðustu dögum. Lestu hana fyrir alla muni ef hún er til á tungumáli sem þú getur lesið. Og þegar þú gerir það, taktu sérstaklega eftir á hve margvíslega vegu menn hafa tekið þátt í að vitna um ríki Guðs. Getur þú tekið einhverja þér til fyrirmyndar? Margs konar tækifæri bjóðast okkur öllum. Megi kærleikur okkar til Jehóva hvetja okkur til að nýta þau vel.
19. Hvaða gagn höfum við af því að standa undir þeirri ábyrgð sem fylgir því að þekkja hina réttu trú?
19 Þegar við því leggjum okkur fram við að gera vilja Guðs finnum við svarið við spurningunni hver sé tilgangur lífsins. (Opinberunarbókin 4:11) Við þurfum ekki lengur að fálma okkur áfram með tómleikatilfinningu. Ekki er til nokkurt ævistarf sem veitir meiri ánægju en það að helga sig af öllu hjarta þjónustunni við Jehóva Guð. Og hvílíkar framtíðarhorfur sem það býður upp á! Líf og lífsfylling í hinum nýja heimi hans að eilífu, þar sem við getum notað hæfileika okkar til fulls í samræmi við hinn kærleiksríka tilgang Guðs með mannkynið.
[Neðanmáls]
a Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Hvernig svarar þú?
◻ Hvers vegna er það mikilvægt að trúin viðurkenni að Biblían sé orð Guðs og heiðri Jehóva sem hinn sanna Guð?
◻ Hvað kennir hin sanna trú um hlutverk Jesú sem lausnara?
◻ Hvers vegna ættu kristnir menn að halda sér aðskildum frá heiminum og iðka óeigingjarnan kærleika?
◻ Hvaða hlutverki gegnir boðun Guðsríkis í hinni réttu trú?
[Myndir á blaðsíðu 16]
Skírn er mikilvægt skref í að gangast undir þá ábyrgð sem fylgir sannri tilbeiðslu. Í hverjum mánuði stíga um 25.000 manns um allan heim þetta skref.
Rússland
Senegal
Papúa Nýja-Gínea
Bandaríkin
[Myndir á blaðsíðu 17]
Að segja öðrum frá sannindum Biblíunnar er hluti sannrar tilbeiðslu.
Bandaríkin
Brasilía
Bandaríkin
Hong Kong