Haltu þig frá falstrú
„Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint.“ — 2. KORINTUBRÉF 6:17.
1. Hvernig er ástatt fyrir mörgu einlægu fólki?
MARGT einlægra manna þekkir ekki sannleikann um Guð og framtíð mannkyns. Þeir hafa ekki fengið svör við áleitnustu spurningum lífsins og eru þar af leiðandi óöruggir og ráðvilltir. Milljónir manna eru í fjötrum hjátrúar, helgisiða eða trúarhátíða sem eru móðgun við skaparann. Sennilega áttu nágranna eða ættingja sem trúa á helvíti, þríeinan Guð, ódauðleika sálarinnar eða einhverja aðra falskenningu.
2. Hvað hafa trúarleiðtogar gert og með hvaða afleiðingum?
2 Hvað veldur þessu mikla andlega myrkri? Þótt ótrúlegt sé eru það trúarbrögðin, sérstaklega trúarbrögð og trúarleiðtogar sem hafa haldið á lofti hugmyndum sem stangast á við sannleika Guðs. (Markús 7:7, 8) Margir hafa þar af leiðandi látið telja sér trú um að þeir tilbiðji hinn sanna Guð þó að veruleikinn sé sá að þeir misbjóða honum. Þetta dapurlega ástand er fölskum trúarbrögðum að kenna.
3. Hvert er helsta aflið á bak við fölsk trúarbrögð og hvernig er því lýst í Biblíunni?
3 Að baki fölskum trúarbrögðum er ósýnilegt afl að verki. Páll postuli segir um þetta afl: „Guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.“ (2. Korintubréf 4:4) „Guð þessarar aldar“ er enginn annar en Satan djöfullinn. Hann er helsta aflið á bak við fölsk trúarbrögð. „Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd,“ skrifaði Páll. „Það er því ekki mikið, þótt þjónar hans taki á sig mynd réttlætisþjóna.“ (2. Korintubréf 11:14, 15) Satan lætur hið illa virðast gott, blekkir fólk og fær það til að trúa lyginni.
4. Hvað er sagt um falsspámenn í lögmáli Guðs sem hann gaf Ísrael forðum daga?
4 Það er engin furða að fölsk trúarbrögð skuli vera fordæmd harkalega í Biblíunni. Í Móselögunum var útvalin þjóð Guðs til að mynda vöruð sérstaklega við falsspámönnum. Hvern þann sem hélt fram fölskum kenningum og hvatti til tilbeiðslu á falsguðum skyldi ‚deyða því að hann hafði prédikað uppreisn gegn Drottni‘. Ísraelsmönnum var fyrirskipað að „útrýma hinu illa burt frá [sér]“. (5. Mósebók 13:1-5) Já, fölsk trúarbrögð eru ill í augum Jehóva. — Esekíel 13:3.
5. Hvaða viðvaranir ættum við að taka til okkar?
5 Jesús Kristur og postular hans endurspegluðu sterka andúð Jehóva á falstrúarbrögðum. Jesús aðvaraði postulana: „Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar.“ (Matteus 7:15; Markús 13:22, 23) Páll skrifaði: „Reiði Guðs opinberast af himni yfir öllu guðleysi og rangsleitni þeirra manna, er kefja sannleikann.“ (Rómverjabréfið 1:18) Sannkristnir menn verða að taka þessar viðvaranir til sín og forðast hvern þann sem kæfir sannleikann í orði Guðs eða breiðir út falskenningar. — 1. Jóhannesarbréf 4:1.
Forðaðu þér út úr ‚Babýlon hinni miklu‘
6. Hvernig er ‚Babýlon hinni miklu‘ lýst í Biblíunni?
6 Lítum á hvernig talað er um fölsk trúarbrögð í Opinberunarbók Biblíunnar. Þar er þeim lýst eins og drukkinni vændiskonu sem fer með ákveðið vald yfir mörgum ríkjum og þegnum þeirra. Þessi táknræna kona drýgir hór með fjölda konunga og er drukkin af blóði sannra tilbiðjenda Guðs. (Opinberunarbókin 17:1, 2, 6, 18) Á enni hennar er ritað nafn sem hæfir vel soralegu og ógeðfelldu líferni hennar. Nafnið er „Babýlon hin mikla, móðir hórkvenna og viðurstyggða jarðarinnar“. — Opinberunarbókin 17:5.
7, 8. Hvernig hafa falstrúarbrögðin lifað skækjulífi og með hvaða afleiðingum?
7 Lýsing Biblíunnar á Babýlon hinni miklu hæfir falstrúarbrögðum heims í heild sinni. Þó að þessi trúfélög, sem skipta þúsundum, séu ekki formlega sameinuð í ein heildarsamtök eru þau nátengd hvað varðar markmið og gerðir. Falstrúarbrögð hafa gífurlega sterk áhrif á stjórnir þjóðanna, rétt eins og siðlausa konan sem dregin er upp mynd af í Opinberunarbókinni. Þau líkjast ótrúrri eiginkonu af því að þau hafa lifað skækjulífi með því að stofna til bandalags við hvert stjórnmálaveldið á fætur öðru. „Þér ótrúu, vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði?“ skrifaði lærisveinninn Jakob. „Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.“ — Jakobsbréfið 4:4.
8 Þetta bandalag falstrúarbragða og ríkisstjórna hefur valdið mannkyni ómældum þjáningum. Afrískur stjórnmálafræðingur, dr. Xolela Mangcu, bendir á að „saga veraldar sé stráð fjöldamorðum sem rekja má til þess að trú og stjórnmálum hefur verið blandað saman“. Dagblað sagði ekki alls fyrir löngu: „Blóðugustu og hættulegustu deilur okkar daga . . . eru með sterku trúarlegu ívafi.“ Milljónir manna hafa verið brytjaðar niður í stríðsátökum sem notið hafa stuðnings trúarlegra afla. Babýlon hin mikla hefur jafnvel ofsótt og drepið sanna þjóna Guðs og orðið drukkin af blóði þeirra ef svo má að orði komast. — Opinberunarbókin 18:24.
9. Hvernig lýsir Opinberunarbókin hatri Jehóva á fölskum trúarbrögðum?
9 Örlög Babýlonar hinnar miklu vitna greinilega um hatur Jehóva á fölskum trúarbrögðum. Í Opinberunarbókinni 17:16 segir: „Hornin tíu, sem þú sást, og dýrið, munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi.“ Risastórt dýr ræðst á hana, drepur hana og étur hold hennar. Leifarnar eru síðan brenndar til ösku. Á hliðstæðan hátt mun Guð sjá til þess að stjórnir heims snúist bráðlega gegn falstrúarbrögðunum. (Opinberunarbókin 17:17) Babýlon hin mikla, heimsveldi falskra trúarbragða, er dæmd til gereyðingar. „Engar menjar skulu eftir verða.“ — Opinberunarbókin 18:21.
10. Hvaða afstöðu ættum við að taka til falstrúarbragðanna?
10 Hvaða afstöðu ættu sannir guðsdýrkendur að taka til Babýlonar hinnar miklu? Biblían talar enga tæpitungu þegar hún fyrirskipar: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.“ (Opinberunarbókin 18:4) Þeir sem vilja komast undan verða að forða sér út úr falstrúarbrögðunum áður en það er um seinan. Þegar Jesús Kristur var á jörðinni spáði hann að á síðustu dögum myndu margir einungis fylgja sér í orði kveðnu. (Matteus 24:3-5) Hann beinir orðum sínum til slíkra manna þegar hann segir: „Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.“ (Matteus 7:23) Jesús Kristur, sem nú er krýndur konungur, hefur hafnað falstrúarbrögðunum með öllu.
Haltu þig frá falstrú — hvernig?
11. Hvað ættum við að gera til halda okkur frá fölskum trúarbrögðum?
11 Sannkristnir menn halda sig frá falskri tilbeiðslu og hafna falstrúarkenningum. Þetta merkir að við hlustum ekki né horfum á trúarlegt dagskrárefni í útvarpi eða sjónvarpi né lesum trúarrit sem útbreiða lygar um Guð og orð hans. (Sálmur 119:37) Það er líka viturlegt af okkur að taka ekki þátt í viðburðum eða skemmtunum sem haldnar eru á vegum samtaka eða stofnana sem tengjast fölskum trúarbrögðum. Og við styðjum ekki við fölsk trúarbrögð með einum eða neinum hætti. (1. Korintubréf 10:21) Þannig gætum við þess að „enginn verði til að hertaka [okkur] með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi“. — Kólossubréfið 2:8.
12. Hvernig er hægt að slíta öll tengsl við fölsk trúarbrögð?
12 Hvað þarf sá maður að gera sem vill verða vottur Jehóva en er skráður í trúfélag sem tilheyrir Babýlon hinni miklu? Í flestum tilfellum þarf hann ekki annað en að segja sig skriflega úr trúfélaginu til að staðfesta að hann vilji ekki lengur teljast meðlimur í því. Það er mjög mikilvægt að ganga hreint til verks til að forðast með öllu hvers konar skaðleg áhrif frá fölskum trúarbrögðum. Þannig getur tilvonandi vottur Jehóva sýnt trúfélaginu og öðrum í verki að hann hafi slitið öll tengsl við það.
13. Hvað þurfum við að gera samkvæmt Biblíunni til að halda okkur frá falstrú?
13 „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum,“ skrifaði Páll postuli. „Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur? Hver er samhljóðan Krists við Belíar? Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum? Hvernig má sætta musteri Guðs við skurðgoð? . . . Þess vegna segir Drottinn: Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint.“ (2. Korintubréf 6:14-17) Við gerum eins og hér er sagt með því að halda okkur frá falstrú. Ber að skilja orð Páls þannig að við eigum líka að forðast þá sem tilheyra fölskum trúarbrögðum?
„Umgangist viturlega þá, sem fyrir utan eru“
14. Eigum við að forðast alla umgengni við þá sem tilheyra fölskum trúarbrögðum? Skýrðu svarið.
14 Ættu sannir guðsdýrkendur að forðast alla umgengni við fólk sem stundar falska tilbeiðslu? Ættum við að sýna þeim fálæti sem eru ekki sömu trúar og við? Nei, alls ekki. Annað mesta boðorðið hljóðar svo: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matteus 22:39) Við sýnum vissulega náungakærleika með því að boða öðrum fagnaðarerindið um ríkið og við gerum það sömuleiðis með því að fræða þá um Biblíuna og benda þeim á að þeir þurfi að halda sig frá fölskum trúarbrögðum.
15. Hvað merkir það að vera „ekki af heiminum“?
15 Fylgjendur Jesú ‚eru ekki af heiminum‘ þó að þeir boði fólki fagnaðarerindið. (Jóhannes 15:19) Orðið ‚heimur‘ er notað hér um mannlegt samfélag sem er fjarlægt Guði. (Efesusbréfið 4:17-19; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Við erum aðgreind frá heiminum að því leyti að við forðumst viðhorf, framkomu og tal sem misbýður Jehóva. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Og í samræmi við meginregluna að ‚vondur félagsskapur spilli góðum siðum‘ forðumst við náin tengsl við þá sem lifa ekki eftir lífsreglum kristninnar. (1. Korintubréf 15:33) Við þurfum að vera ‚óflekkuð af heiminum‘ til að tilheyra honum ekki. (Jakobsbréfið 1:27) Að vera aðgreind frá heiminum merkir því ekki að við forðumst bókstaflega allt samneyti við annað fólk. — Jóhannes 17:15, 16; 1. Korintubréf 5:9, 10.
16, 17. Hvernig ættu kristnir menn að koma fram við fólk sem þekkir ekki sannleika Biblíunnar?
16 Hvernig eigum við þá að koma fram við fólk sem þekkir ekki sannleika Biblíunnar? Páll skrifaði söfnuðinum í Kólossu: „Umgangist viturlega þá, sem fyrir utan eru, og notið hverja stundina. Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.“ (Kólossubréfið 4:5, 6) Pétur postuli skrifaði: „Helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar. Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er. En gjörið það með hógværð og virðingu.“ (1. Pétursbréf 3:15, 16) Páll ráðlagði kristnum mönnum að „lastmæla engum, vera ódeilugjarnir, sanngjarnir og sýna hvers konar hógværð við alla menn“. — Títusarbréfið 3:2.
17 Vottar Jehóva forðast að vera hranalegir eða hrokafullir í garð annarra. Við notum ekki niðrandi orð um fólk sem tilheyrir öðrum trúfélögum. Við erum kurteis jafnvel þó að húsráðandi, nágranni eða vinnufélagi sé óvingjarnlegur eða hreyti í okkur ónotum. — Kólossubréfið 4:6; 2. Tímóteusarbréf 2:24.
Haltu þig við „heilnæmu orðin“
18. Hvaða ömurlegu afleiðingar hefur það í för með sér að snúa aftur til falskrar tilbeiðslu?
18 Það væri ákaflega dapurlegt ef við snerum aftur til falskrar trúar eftir að hafa kynnst sannleika Biblíunnar. Ömurlegum afleiðingum þess er lýst með eftirfarandi orðum: „Ef þeir, sem fyrir þekkingu á Drottni vorum og frelsara Jesú Kristi voru sloppnir frá saurgun heimsins, flækja sig í honum að nýju og bíða ósigur, þá er hið síðara orðið þeim verra en hið fyrra. . . . Fram á þeim hefur komið þetta sannmæli: ‚Hundur snýr aftur til spýju sinnar,‘ og: ‚Þvegið svín veltir sér í sama saur.‘“ — 2. Pétursbréf 2:20-22.
19. Af hverju verðum við að vera á varðbergi gagnvart öllu sem gæti stofnað trú okkar í voða?
19 Við verðum að vera á varðbergi gagnvart öllu sem gæti stofnað trú okkar í voða. Og hættan er raunveruleg! Páll postuli aðvarar: „Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.“ (1. Tímóteusarbréf 4:1) Við lifum núna „á síðari tímum“. Þeir sem halda sig ekki frá falskri tilbeiðslu eiga á hættu að „berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, [tældir] af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar“. — Efesusbréfið 4:13, 14.
20. Hvernig getum við varið okkur gegn skaðlegum áhrifum falskra trúarbragða?
20 Hvernig getum við varið okkur gegn skaðlegum áhrifum falskra trúarbragða? Höfum hugfast hvað Jehóva hefur látið okkur í té. Við höfum orð hans, Biblíuna. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Hann hefur látið hinn ‚trúa og hyggna þjón‘ sjá okkur fyrir nægri andlegri fæðu. (Matteus 24:45) Og þegar við tökum framförum í trúnni ættum við að læra að meta ‚fasta fæðu fyrir fullorðna‘ og finna fyrir löngun til að safnast saman þar sem við lærum andleg sannindi. (Hebreabréfið 5:13, 14; Sálmur 26:8) Verum staðráðin í að notfæra okkur ráðstafanir Jehóva til fulls svo að við getum haldið okkur við „heilnæmu orðin“ sem við höfum heyrt. (2. Tímóteusarbréf 1:13) Þannig getum við haldið okkur frá falstrú.
Hvað hefurðu lært?
• Hvað er „Babýlon hin mikla“?
• Hvað þurfum við að gera til að halda okkur frá falstrú?
• Hvað ættum við að varast sem gæti skaðað trú okkar?
[Mynd á blaðsíðu 28]
Veistu af hverju ‚Babýlon hinni miklu‘ er lýst sem siðlausri konu?
[Mynd á blaðsíðu 29]
„Babýlon hin mikla“ er dæmd til gereyðingar.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Við sýnum „hógværð og virðingu“ í samskiptum við fólk sem er ekki sömu trúar og við.