Kennsla Guðs hrósar sigri
„Augu þín [munu] líta hann [sem kennir þér], og eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér, þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: ‚Hér er vegurinn! Farið hann!‘“ — JESAJA 30:20, 21.
1. Hvernig getum við fengið kennslu frá Guði?
JEHÓVA er uppspretta bestu kennslu sem nokkur maður getur fengið. Ef við hlustum þegar hann talar, einkum í heilögu orði sínu, verður hann okkar mikli fræðari. (Jesaja 30:20) Við getum því fengið kennslu frá Guði.
2. Í hvaða skilningi er Guð einn vitur?
2 Heimurinn er stoltur af sínum mörgu menntastofnunum, en engin þeirra miðlar kennslu frá Guði. Öll sú veraldarviska, sem safnað hefur verið saman í aldanna rás, er ósköp léttvæg í samanburði við fræðslu Jehóva sem byggist á óendanlegri visku hans. Rómverjabréfið 16:27 (NW) segir að Guð einn sé vitur og það er rétt í þeim skilningi að Jehóva einn býr yfir algerri visku.
3. Hvers vegna er Jesús Kristur mesti kennarinn sem verið hefur á jörðinni?
3 Sonur Guðs, Jesús Kristur, er afbragð annarra hvað visku áhrærir og er mesti kennari sem verið hefur á jörð. Og það er engin furða! Um aldaraðir hafði Jehóva verið kennari hans á himnum. Kennsla Guðs hófst reyndar þegar hann byrjaði að kenna fyrstu sköpunarveru sinni, eingetnum syni sínum. Jesús gat þess vegna sagt: „Ég [tala] það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.“ (Jóhannes 8:28; Orðskviðirnir 8:22, 30) Orð Krists sjálfs, sem skráð eru í Biblíunni, auka til muna þekkingu okkar á kennslu Guðs. Með því að kenna það sem Jesús kenndi hlýða smurðir kristnir menn fræðaranum mikla, en það er vilji hans að „margháttuð speki Guðs“ sé kunngerð fyrir atbeina safnaðarins. — Efesusbréfið 3:10, 11; 5:1; Lúkas 6:40.
Leitin að visku
4. Hvað hefur verið sagt um getu heilans?
4 Að afla sér þeirrar visku, sem kennsla Guðs veitir, útheimtir að við notum vel hæfnina sem Guð hefur gefið okkur til að hugsa. Hin gríðarlega geta mannsheilans gerir okkur það mögulegt. Bókin The Incredible Machine segir: „Jafnvel fullkomnasta tölva, sem við getum ímyndað okkur, er frumstæð í samanburði við næstum óendanlega flókna gerð og sveigjanleika mannsheilans — eiginleika sem hið margbrotna, staðlaða kerfi rafefnaboða hans gerir mögulega. . . . Þær milljónir boða, sem þjóta leiftursnöggt um heilann á sérhverju augnabliki, bera með sér ótrúlegt upplýsingamagn. Þau færa fréttir af hinu innra og ytra umhverfi líkamans: af krampa í tá eða ilm af kaffi eða spaugilegri athugasemd vinar. Meðan önnur boð vinna úr og greina sundur upplýsingar framkalla þau vissar tilfinningar, minningar, hugsanir eða áætlanir sem leiða til ákvörðunar. Á augabragði segja boð frá heilanum öðrum líkamshlutum fyrir verkum: að liðka tána, drekka kaffið, hlægja eða kannski að koma með fyndið svar. Samhliða öllu þessu stýrir heilinn öndun, samsetningu blóðsins, líkamshita og annarri nauðsynlegri en ómeðvitaðri líkamsstarfsemi. Hann sendir út fyrirskipanir sem halda líkamanum á réttum kili þrátt fyrir stöðugar breytingar í umhverfinu. Hann býr sig líka undir síðari kröfur.“ — Bls. 326.
5. Hvað er viska í biblíulegum skilningi?
5 Mannsheilinn býr tvímælalaust yfir undraverðum hæfileikum en hvernig getum við notað hugann á sem bestan hátt? Ekki með því að sökkva okkur eingöngu niður í erfitt nám í tungumálum, sögu, raunvísindum eða samanburðartrúfræði. Við ættum að nota hæfnina til að hugsa fyrst og fremst til að taka við kennslu Guðs. Hún ein leiðir af sér ósvikna visku. En hvað er sönn viska? Í biblíulegum skilningi leggur orðið viska áherslu á heilbrigða dómgreind byggða á nákvæmri þekkingu og raunverulegum skilningi. Viska gerir okkur kleift að beita þekkingu og skilningi með árangri til að leysa vandamál, forðast eða bægja frá hættum, hjálpa öðrum og ná markmiðum. Athyglisvert er að Biblían stillir visku upp sem andstæðu flónsku og heimsku — einkenna sem við viljum svo sannarlega forðast. — 5. Mósebók 32:6; Orðskviðirnir 11:29; Prédikarinn 6:8.
Hin mikla kennslubók Jehóva
6. Hvað verðum við að nota vel til að geta sýnt sanna visku?
6 Það er meira en nóg af veraldlegri visku í kringum okkur. (1. Korintubréf 3:18, 19) Í heiminum eru fjölmargir skólar og bókasöfn sem geyma milljónir bóka! Margar þeirra eru kennslubækur í tungumálum, stærðfræði, raunvísindum og öðrum þekkingarsviðum. En fræðarinn mikli hefur séð fyrir kennslubók sem skarar fram úr þeim öllum — innblásnu orði sínu, Biblíunni. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Hún er nákvæm ekki aðeins þegar hún drepur á atriði tengd sögu, landafræði og grasafræði heldur líka þegar hún segir fyrir framtíðina. Enn fremur hjálpar hún okkur að lifa eins hamingjuríku og frjóu lífi núna og hægt er. Að sjálfsögðu verðum við að kynna okkur vel og nota hina miklu kennslubók Guðs ef við viljum sýna sanna visku eins og einstaklingar „af [Jehóva] fræddir,“ alveg eins og nemendur í veraldlegum skólum verða að nota bækurnar sínar. — Jóhannes 6:45.
7. Hvers vegna mætti segja að það sé ekki nóg aðeins að kunna einhver skil á efni Biblíunnar?
7 En að kunna einhver skil á Biblíunni er ekki það sama og sönn viska og hlýðni við kennslu Guðs. Lýsum því með dæmi: Á 17. öld sóttist kaþólskur maður, sem hét Cornelius van der Steen, eftir því að verða Jesúíti en var hafnað af því að hann var of lágur vexti. Manfred Barthel segir í bók sinni The Jesuits — History & Legend of the Society of Jesus: „Nefndin tilkynnti van der Steen að hún væri fús til að falla frá hæðarkröfunni en aðeins með því skilyrði að hann lærði að þylja upp alla Biblíuna utanbókar. Sagan væri varla frásagnarverð ef van der Steen hefði ekki farið að þessari fremur óskammfeilnu kröfu.“ Það kostaði ekki lítið erfiði að læra alla Biblíuna utanbókar! En að sjálfsögðu er margfalt mikilvægara að skilja orð Guðs en að leggja það á minnið.
8. Hvað hjálpar okkur að hafa gagn af kennslu Guðs og sýna sanna visku?
8 Ef við ætlum að hafa fullt gagn af kennslu Guðs og sýna sanna visku verðum við að hafa nákvæma þekkingu á Ritningunni. Við verðum líka að láta leiðast af heilögum anda eða starfskrafti Jehóva. Það gerir okkur kleift að læra djúptæk sannindi, „djúp Guðs.“ (1. Korintubréf 2:10) Þess vegna skulum við nema hina miklu kennslubók Jehóva kostgæfilega og biðja um handleiðslu heilags anda hans. Í samræmi við Orðskviðina 2:1-6 skulum við gefa gaum að visku, hneigja hjörtu okkar að hyggindum og hrópa eftir skilningi. Þetta þurfum við að gera eins og værum við að leita fólginna fjársjóða, því að aðeins þannig ‚skiljum við hvað ótti Jehóva er og öðlumst þekkingu á Guði.‘ Við metum enn meir viskuna sem Guð gefur ef við íhugum gagnið af kennslu Guðs og suma þá sigra sem hún hefur unnið.
Stigvaxandi skilningur
9, 10. Hvað sagði Guð eins og fram kemur í 1. Mósebók 3:15 og hver er réttur skilningur á þessum orðum?
9 Kennsla Guðs hrósar sigri með því að veita þjónum Jehóva stigvaxandi skilning á Ritningunni. Til dæmis höfum við lært að það var Satan djöfullinn sem talaði gegnum höggorm í Eden og ásakaði Guð ranglega um að hafa logið þegar hann sagði að dauðarefsing lægi við því að neyta forboðna ávaxtarins. En við sjáum að óhlýðni við Jehóva Guð leiddi dauða yfir mannkynið. (1. Mósebók 3:1-6; Rómverjabréfið 5:12) Samt sem áður gaf Guð mannkyninu von þegar hann sagði höggorminum og þar með Satan: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ — 1. Mósebók 3:15.
10 Þessi orð fólu í sér leyndardóm sem kennsla Guðs opinberaði stig af stigi. Jehóva hefur kennt fólki sínu að meginstef Biblíunnar sé réttlæting drottinvalds hans fyrir atbeina sæðisins, afkomanda Abrahams og Davíðs sem eigi lagalegt tilkall til að stjórna sem konungur Guðsríkis. (1. Mósebók 22:15-18; 2. Samúelsbók 7:12, 13; Esekíel 21:25-27) Okkar mikli fræðari hefur kennt okkur að Jesús Kristur sé aðalsæði „konunnar,“ alheimsskipulags Guðs. (Galatabréfið 3:16) Þrátt fyrir allar þær prófraunir, sem Satan lagði fyrir Jesú, varðveitti hann ráðvendni — allt til dauða þegar sæðið fékk hælmarið. Við höfum líka lært að 144.000 samerfingjar Krists að ríkinu úr hópi mannanna muni eiga þátt í að merja höfuð Satans, ‚hins gamla höggorms.‘ (Opinberunarbókin 14:1-4; 20:2; Rómverjabréfið 16:20; Galatabréfið 3:29; Efesusbréfið 3:4-6) Við metum slíka þekkingu á orði Guðs sannarlega mikils!
Inn í undursamlegt ljós Guðs
11. Hvers vegna má segja að kennsla Guðs hrósi sigri með því að leiða fólk inn í andlegt ljós?
11 Kennsla Guðs hrósar sigri með því að leiða fólk inn í andlegt ljós. Smurðir kristnir menn hafa haft þá reynslu samkvæmt uppfyllingu orðanna í 1. Pétursbréfi 2:9: „Þér eruð ‚útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ Núna nýtur „mikill múgur“ einnig ljóss frá Guði og mun lifa að eilífu á jörð sem verður paradís. (Opinberunarbókin 7:9; Lúkas 23:43) Orðskviðirnir 4:18 rætast þegar Guð kennir þjónum sínum: „Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.“ Þessi stigvaxandi lærdómur fágar skilning okkar á kennslu Guðs líkt og nemendur taka framförum vegna góðrar hjálpar kennarans þegar þeir læra málfræði, sögu eða einhverja aðra námsgrein.
12, 13. Fyrir hvaða kenningalegum hættum hefur kennsla Jehóva verndað fólk hans?
12 Enn einn sigur kennslu Guðs felst í því að hún verndar auðmjúka þiggjendur hennar fyrir „lærdómum illra anda.“ (1. Tímóteusarbréf 4:1) Lítum á kristna heiminn til samanburðar! Árið 1878 skrifaði rómversk-kaþólski prelátinn John Henry Newman: „Stjórnendur kirkjunnar reiddu sig á mátt kristninnar til að standa gegn því að smitast af hinu illa og til að umbreyta sjálfum hjálpartólum og fylgibúnaði djöfladýrkunar í tæki til kristniboðs . . . og voru allt frá fornu fari reiðubúnir, ef tilefni gæfist, til að taka upp, líkja eftir eða leggja blessun sína yfir trúarathafnir og siði almennings, svo og heimspeki menntastéttarinar.“ Newman bætti við að hlutir eins og heilagt vatn, messuskrúði presta og líkneski væru „allir af heiðnum uppruna og helgaðir með því að kirkjan tók þá upp.“ Fólk Guðs er þakklátt fyrir að kennsla hans skuli vernda það fyrir slíku fráhvarfi. Hún sigrar djöfladýrkun í sérhverri mynd. — Postulasagan 19:20.
13 Kennsla Guðs hrósar sigri yfir trúarlegri villu á allan hátt. Við, sem Guð kennir, trúum til dæmis ekki á þrenningu heldur viðurkennum Jehóva sem hinn hæsta, Jesú sem son hans og heilagan anda sem starfskraft Guðs. Við óttumst ekki elda helvítis því að við vitum að það er ekki til. Og þótt áhangendur falstrúarbragða segi að mannssálin sé ódauðleg vitum við að hinir dauðu hafa alls enga meðvitund. Þannig mætti lengi telja upp sannindi sem Guð hefur kennt okkur. Hvílík blessun að vera frjáls úr andlegri ánauð Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða! — Jóhannes 8:31, 32; Opinberunarbókin 18:2, 4, 5.
14. Hvers vegna geta þjónar Guðs haldið áfram að ganga í andlegu ljósi?
14 Þar eð kennsla Guðs hrósar sigri yfir trúarlegri villu gerir hún þjónum Guðs kleift að ganga í andlegu ljósi. Í reynd heyra þeir orð kölluð á eftir sér: „Hér er vegurinn! Farið hann!“ (Jesaja 30:21) Kennsla Guðs verndar líka þjóna hans gegn fölskum röksemdum. Þegar „falspostular“ voru til vandræða í söfnuðinum í Korintu skrifaði Páll postuli: „Vopnin, sem vér berjumst með, eru ekki jarðnesk, heldur máttug vopn Guðs til að brjóta niður vígi. Vér brjótum niður hugsmíðar og allt, sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði, og hertökum hverja hugsun til hlýðni við Krist.“ (2. Korintubréf 10:4, 5; 11:13-15) Rök, sem stangast á við kennslu Guðs, eru brotin niður með þeirri fræðslu sem veitt er mildilega í söfnuðinum og með prédikun fagnaðarerindisins fyrir þeim sem fyrir utan eru. — 2. Tímóteusarbréf 2:24-26.
Tilbiðjið í anda og sannleika
15, 16. Hvað merkir það að tilbiðja Jehóva í anda og sannleika?
15 Samhliða framgangi prédikunarstarfsins um Guðsríki hrósar kennsla Guðs sigri með því að sýna auðmjúkum mönnum hvernig þeir eigi að tilbiðja Guð „í anda og sannleika.“ Við Jakobsbrunn nálægt borginni Síkar sagði Jesús samverskri konu að hann gæti gefið vatn sem veitti eilíft líf. Síðan bætti hann við og átti þá við Samverja: „Þér tilbiðjið það, sem þér þekkið ekki. . . . Sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann.“ (Jóhannes 4:7-15, 21-23) Jesús sagði henni síðan að hann væri Messías.
16 En hvernig getum við tilbeðið Guð í anda? Með því að tilbiðja hann í hreinleika með þakklátum hjörtum sem eru full kærleika til hans byggðum á nákvæmri þekkingu á orði hans. Við getum tilbeðið Jehóva í sannleika með því að hafna trúarlegum ósannindum og gera vilja Guðs eins og hann er opinberaður í hinni miklu kennslubók hans.
Sigur í prófraunum og yfir heiminum
17. Hvernig getur þú sannað að kennsla Jehóva hafi hjálpað þjónum hans að horfast í augu við prófraunir?
17 Þegar þjónar Guðs eiga í prófraunum hrósar kennsla Guðs sigri aftur og aftur. Íhugaðu þetta: Við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar í september 1939 þörfnuðust þjónar Jehóva sérstaks innsæis í hina miklu kennslubók hans. Þeim var mikil hjálp í grein í Varðturninum þann 1. nóvember 1939 en þar kom skýrt fram hvað Guð kennir um kristið hlutleysi. (Jóhannes 17:16) Á svipaðan hátt hjálpuðu greinar í Varðturninum um afstæða undirgefni við ‚yfirvöld,‘ sem birtust snemma á sjöunda áratugnum, þjónum Guðs að halda sér við kenningar Guðs andspænis þjóðfélagsólgu. — Rómverjabréfið 13:1-7; Postulasagan 5:29.
18. Hvernig litu þeir sem játuðu kristna trú á annarri og þriðju öld okkar tímatals á siðspillandi skemmtun og hvernig hjálpar kennsla Guðs í því sambandi nú á tímum?
18 Kennsla Guðs hjálpar okkur að sigrast á freistingum, svo sem þeirri að sækjast eftir siðspillandi skemmtun. Taktu eftir því sem þeir er játuðu kristna trú á annarri og þriðju öld okkar tímatals sögðu. Tertúllíanus skrifaði: „Hvorki munnur okkar, augu né eyru hafa neitt með brjálæði hringleikhússins að gera, blygðunarleysi leikhússins, villimennsku leikvangsins.“ Annar rithöfundur þess tíma spurði: „Hvaða erindi á kristinn maður þangað úr því að hann má ekki einu sinni hugsa um illskuna? Hvers vegna hefur hann ánægju af lostasýningum?“ Jafnvel þótt þeir sem þetta skrifuðu hafi verið uppi allnokkru eftir daga kristinna manna á fyrstu öld fordæmdu þeir siðspillandi skemmtun. Kennsla Guðs nú á tímum gefur okkur visku til að forðast klúra, siðlausa og ofbeldisfulla skemmtun.
19. Hvernig hjálpar kennsla Guðs okkur að sigra heiminn?
19 Það að fara eftir kennslu Guðs gerir okkur kleift að hrósa sigri yfir sjálfum heiminum. Já, það að heimfæra það sem okkar mikli fræðari kennir lætur okkur sigrast á illum áhrifum þessa heims sem er á valdi Satans. (2. Korintubréf 4:4; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Efesusbréfið 2:1-3 segir að Guð hafi lífgað okkur þótt við hefðum verið dauð í afbrotum okkar og syndum meðan við framgengum eftir vilja valdhafans í loftinu. Við þökkum Jehóva að kennsla hans skuli hjálpa okkur að sigrast á veraldlegum löngunum og þeim anda sem kemur frá óvini hans og okkar — blekkingameistaranum Satan djöflinum!
20 Hvaða spurningar þarf að íhuga nánar?
20 Það er því ljóst að kennsla Guðs hrósar sigri á marga vegu. Reyndar virðist ógerlegt að telja upp alla sigra hennar. Hún hefur áhrif á fólk um heim allan. En hvað er hún að gera fyrir þig? Hvernig hefur kennsla Guðs áhrif á líf þitt?
Hvað hefur þú lært?
◻ Hvernig er hægt að skilgreina sanna visku?
◻ Hvað hefur Guð opinberað stig af stigi um 1. Mósebók 3:15?
◻ Hvernig hefur kennsla Guðs hrósað sigri í andlegum málum?
◻ Hvað merkir það að tilbiðja Guð í anda og sannleika?
◻ Hvernig hefur kennsla Guðs hjálpað þjónum hans að hrósa sigri yfir prófraunum og heiminum?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Jesús varðveitti ráðvendni til dauða — en þá fékk sæðið hælmarið.