„Seg þú oss, hvenær verður þetta?“
„Nú boða ég nýja hluti og læt yður heyra þá áður en fyrir þeim vottar.“ — Jesaja 42:9.
1, 2. (a) Hvað spurðu postular Jesú hann um í sambandi við framtíðina? (b) Hvernig uppfylltist svar Jesú um samsett tákn?
KENNSLA Guðs er frá Jehóva komin, honum sem „kunngjörði endalokin frá öndverðu.“ (Jesaja 46:10) Eins og greinin á undan sýndi sóttust postularnir eftir slíkri kennslu frá Jesú og spurðu hann: „Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að allt þetta sé að koma fram?“ — Markús 13:4.
2 Í svari sínu lýsti Jesús samsettu ‚tákni‘ fólgnu í atburðum sem skyldu sanna að kerfi Gyðinganna væri brátt á enda. Það rættist þegar Jerúsalem var eytt árið 70. En spádómur Jesú átti að eiga sér meiri uppfyllingu löngu síðar í tímans rás. Þegar ‚tímum heiðingjanna‘ lyki árið 1914 átti umfangsmikið tákn að blasa við og sýna að hið núverandi illa kerfi myndi bráðlega enda í ‚mikilli þrengingu.‘a (Lúkas 21:24) Milljónir núlifandi manna geta staðfest að þetta tákn hefur uppfyllst í heimsstyrjöldum og öðrum stórviðburðum 20. aldarinnar. Þeir eru einnig merki um aðaluppfyllingu spádóms Jesú, en atburðir áranna 33 til 70 voru táknrænir fyrir þessa nútímauppfyllingu.
3. Hvaða frekari framvindu sagði Jesús fyrir er hann talaði um annað tákn?
3 Eftir að Lúkas minnist á tíma heiðingjanna lýsa hinar hliðstæðu frásagnir Matteusar, Markúsar og Lúkasar frekari framvindu mála, meðal annars tákni til viðbótar hinu samsetta ‚tákni um enda veraldar.‘ (Matteus 24:3) (Á blaðsíðu 15 er þessi staður í frásögunni afmarkaður með tvöfaldri brotalínu.) Matteus segir: „Þegar eftir þrenging þessara daga mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast. Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð. Hann mun senda út engla sína með hvellum lúðri, og þeir munu safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli.“ — Matteus 24:29-31.
Þrenging og fyrirbæri á himni
4. Hvaða spurningar vakna um fyrirbærin á himni sem Jesús nefndi?
4 Hvenær myndi þetta rætast? Öll guðspjöllin þrjú nefna það sem við gætum kallað fyrirbæri á himni — sól og tungl myrkvast og stjörnur hrapa. Jesús sagði að það myndi gerast eftir ‚þrenginguna.‘ Var Jesús að hugsa um þrenginguna sem náði hámarki árið 70 eða var hann að tala um þrenginguna miklu sem er enn ókomin nú á tímum? — Matteus 24:29; Markús 13:24.
5. Hvað var einu sinni haldið um þrenginguna nú á tímum?
5 Allt frá því að tímum heiðingjanna lauk árið 1914 hefur fólk Guðs haft brennandi áhuga á „þrengingunni miklu.“ (Opinberunarbókin 7:14) Í mörg ár héldu þeir að hin mikla þrenging nútímans ætti sér upphafskafla sem svaraði til tímabils fyrri heimsstyrjaldarinnar, síðan yrði gert hlé á henni og loks kæmi lokakafli, ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘ Ef það væri þannig, hvað átti þá að gerast á þeim áratugum endalokatímans sem væru þar í milli? — Opinberunarbókin 16:14; Matteus 13:39; 24:3; 28:20.
6. Hvað var haldið uppfylla spádóm Jesú um fyrirbæri á himni?
6 Álitið var að á þessu tímabili myndi hið samsetta tákn sjást, þar á meðal prédikunarstarf hinna samansöfnuðu þjóna Guðs. Einnig virtist mega vænta fyrirbæranna á himni, sem spáð var, á þessum millibilstíma eftir upphafskafla áranna 1914-18. (Matteus 24:29; Markús 13:24, 25; Lúkas 21:25) Athyglin beindist að bókstaflegum hlutum á himni — geimförum, eldflaugum, geim- eða gammageislum og tunglferðum eða tunglstöðvum.
7. Hvaða endurbættan skilning höfum við fengið á þrengingunni miklu?
7 En Varðturninn þann 15. janúar 1970 (1. febrúar 1971 á íslensku) tók spádóm Jesú fyrir að nýju, einkum hina komandi, miklu þrengingu. Þar koma fram að í ljósi þess sem gerðist á fyrstu öldinni gæti þrengingin nú á dögum ekki átt sér upphafskafla á árunum 1914-18, síðan áratugalangt hlé og loks framhald. Niðurstaða blaðsins var þessi: „Sú ‚mikla þrenging,‘ sem aldrei mun aftur verða, er enn þá framundan, því að hún merkir eyðingu heimsveldis falstrúarbragðanna (hinn kristni heimur meðtalinn), en því næst kemur ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ við Harmagedón.“
8. Hvernig var Matteus 24:29 skýrt út frá hinum endurbætta skilningi á þrengingunni sem verður nú á tímum?
8 En Matteus 24:29 segir að fyrirbærin á himni komi „þegar eftir þrenging þessara daga.“ Hvernig gæti það verið? Varðturninn þann 1. maí 1975 (1. ágúst 1976 á íslensku) stakk upp á að hér væri átt við þrenginguna sem náði hámarki árið 70. En í hvaða skilningi væri hægt að segja að hin himnesku fyrirbæri okkar tíma ættu sér stað „þegar“ eftir atburð árið 70? Rökrætt var eftir þeim nótum að í augum Guðs væru aldirnar, sem liðu á milli, skammur tími. (Rómverjabréfið 16:20; 2. Pétursbréf 3:8) En dýpri rannsókn á þessum spádómi, einkum á Matteusi 24:29-31, bendir til allt annarrar skýringar. Þetta er dæmi um hvernig ljósið verður ‚æ skærara fram á hádegi.‘ (Orðskviðirnir 4:18)b Við skulum skoða hvers vegna ný eða breytt skýring á hér við.
9. Hvernig gefa Hebresku ritningarnar bakgrunn að orðum Jesú um atvik á himni?
9 Jesús gaf fjórum postula sinna spádóminn um að ‚sólin myndi sortna, tunglið hætta að skína og stjörnurnar hrapa af himni.‘ Sem Gyðingar hafa þeir kannast við slíkt orðfæri úr Hebresku ritningum þar sem til dæmis Sefanía 1:15 kallar dómstíma Guðs ‚dag eyðingar og umturnunar, dag myrkurs og niðdimmu, dag skýþykknis og skýsorta.‘ Ýmsir hebreskir spámenn lýstu líka með svipuðum hætti að sólin myndi myrkvast, tunglið ekki lýsa og stjörnurnar hætta að skína. Slíkt orðfæri er að finna í boðskap Guðs gegn Babýlon, Edóm, Egyptalandi og norðurríkinu Ísrael. — Jesaja 13:9, 10; 34:4, 5; Jeremía 4:28; Esekíel 32:2, 6-8; Amos 5:20; 8:2, 9.
10, 11. (a) Hverju spáði Jóel um fyrirbæri á himni? (b) Hvaða hliðar á spádómi Jóels rættust árið 33 og hverjar ekki?
10 Þegar Pétur og hinir þrír heyrðu það sem Jesús sagði minntust þeir líklega spádóms Jóels í kafla 3:1-4 og 3:20: „Ég [mun] úthella anda mínum yfir allt hold. Synir yðar og dætur yðar munu spá. . . . Ég mun láta tákn verða á himni og á jörðu: blóð, eld og reykjarstróka. Sólin mun snúast í myrkur og tunglið í blóð, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur [Jehóva] kemur.“ „Sól og tungl eru myrk orðin, og stjörnurnar hafa misst birtu sína.“
11 Eins og sagt er frá í Postulasögunni 2:1-4 og 14-21 úthellti Guð heilögum anda sínum yfir 120 lærisveina, bæði karla og konur, á hvítasunnunni árið 33. Pétur postuli lýsti yfir að þetta væri það sem Jóel hefði sagt fyrir. En hvað um þau orð Jóels að ‚sólin myndi snúast í myrkur og tunglið í blóð og stjörnurnar missa birtu sína?‘ Ekkert bendir til að þetta hafi ræst árið 33 eða á hinu rúmlega 30 ára langa endalokatímabili gyðingakerfisins.
12, 13. Hvernig komu fyrirbærin á himni, sem Jóel spáði, fram?
12 Því virðist síðari hluti spádóms Jóels hafa verið nátengdari ‚komu hins mikla og ógurlega dags Jehóva‘ — eyðingu Jerúsalem. Varðturninn (á ensku) þann 15. nóvember 1966 sagði um þrenginguna sem kom yfir Jerúsalem árið 70: „Hún var vissulega ‚dagur Jehóva‘ hvað varðaði Jerúsalem og börn hennar. Og í tengslum við þann dag var heilmikið ‚blóð og eldur og reykjarmistur.‘ Sólin lýsti ekki upp niðdimmu borgarinnar á daginn og tunglið minnti á úthellt blóð, ekki friðsælt, silfurlitt tunglskin á nóttu.“c
13 Já, eins og var með hina spádómana, sem við höfum nefnt, áttu fyrirbærin á himni, sem Jóel spáði um, að koma fram þegar Jehóva fullnægði dómi. Í stað þess að ná yfir allan endalokatíma gyðingakerfisins myrkvuðust sól, tungl og stjörnur þegar eyðingarsveitirnar réðust á Jerúsalem. Það er því rökrétt að við megum búast við meiri uppfyllingu þessa hluta spádóms Jóels þegar Guð byrjar að eyða núverandi heimskerfi.
Hvaða þrenging kemur á undan fyrirbærunum á himni?
14, 15. Hvernig tengist spádómur Jóels skilningi okkar á Matteusi 24:39?
14 Uppfyllingin á spádómi Jóels (í samræmi við aðra spádóma sem nota áþekkt orðfæri) hjálpar okkur að skilja orðin í Matteusi 24:29. Greinilegt er að það sem Jesús sagði um að ‚sólin myndi sortna, tunglið hætta að skína og stjörnurnar hrapa‘ á ekki við atburði sem eiga sér stað á áratugalöngum endalokatíma núverandi heimskerfis, svo sem geimferðir, lendingar á tunglinu og þess háttar. Nei, hann var að benda á atburði sem tengdust hinum ‚mikla og ógurlega degi Jehóva,‘ eyðingunni sem er enn ókomin.
15 Þetta tengist skilningi okkar á því hvernig fyrirbærin á himni áttu að koma ‚þegar eftir þrenginguna.‘ Jesús átti ekki við þrenginguna sem náði hámarki árið 70. Hann var að vísa til upphafs þrengingarinnar miklu sem kæmi yfir heimskerfið í framtíðinni og yrði hámark ‚nærveru‘ hans sem heitið var. (Matteus 24:3, NW) Þessi þrenging er enn ókomin.
16. Hvaða þrengingu var Markús 13:24 að benda á og hvers vegna segjum við það?
16 Hvað um orðin í Markúsi 13:24: „En á þeim dögum, eftir þrenging þessa, mun sólin sortna og tunglið hætta að skína“? Orðin „þeim“ og „þessa“ eru bæði þýðing gríska orðsins ekeiʹnos, ábendingarfornafns er vísar til einhvers sem er fjarri í tíma. Nota má ekeiʹnos um eitthvað sem er löngu liðið (eða minnst á áður) eða um eitthvað í fjarlægri framtíð. (Matteus 3:1; 7:22; 10:19; 24:38; Markús 13:11, 17, 32; 14:25; Lúkas 10:12; 2. Þessaloníkubréf 1:10) Þegar því Markús 13:24 talaði um „þrenging þessa“ er ekki átt við þrenginguna sem Rómverjar ollu heldur máttarverk Jehóva við endalok núverandi heimskerfis.
17, 18. Hvaða ljósi varpar Opinberunarbókin á framvindu þrengingarinnar miklu?
17 Sautjándi til 19. kafli Opinberunarbókarinnar kemur heim og saman við og staðfestir þennan endurbætta skilning á Matteusi 24:29-31, Markúsi 13:24-27 og Lúkasi 21:25-28. Á hvaða hátt? Guðspjöllin sýna að þess þrenging byrjar ekki og endar í einu vetfangi. Eftir að hún er byrjuð verða sumir óhlýðnir menn enn á lífi til að sjá „tákn Mannssonarins“ og bregðast við því — kveina og, eins og segir í Lúkasi 21:26, „gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina.“ Þessi yfirþyrmandi ótti kemur til af því að þeir sjá ‚táknið‘ sem veit á yfirvofandi eyðingu þeirra.
18 Frásaga Opinberunarbókarinnar sýnir að hin mikla þrenging framtíðarinnar hefst þegar hervædd ‚horn‘ hins alþjóðlega ‚dýrs‘ snúast gegn „skækjunni miklu,“ Babýlon hinni miklu.d (Opinberunarbókin 17:1, 10-16) En margir munu lifa áfram því að konungar, kaupmenn, skipstjórar og fleiri munu harma endalok falstrúarbragðanna. Vafalaust gera margir sér grein fyrir að dómurinn lendir næst á þeim. — Opinberunarbókin 18:9-19.
Hvað er framundan?
19. Hverju megum við búast við þegar þrengingin mikla hefst?
19 Ásamt Opinberunarbókinni 17. til 19. kafla varpa kaflar í guðspjöllum Matteusar, Markúsar og Lúkasar töluverðu ljósi á það sem gerist bráðlega. Á tilsettum tíma Guðs hefst þrengingin mikla með árás á heimsveldi falskra trúarbragða (Babýlon hina miklu). Hún verður sérstaklega hörð gegn kristna heiminum sem samsvarar hinni ótrúu Jerúsalem. Það er „þegar eftir“ þennan áfanga þrengingarinnar sem „tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu [í áður óþekktum mæli] angist þjóða“. — Matteus 24:29; Lúkas 21:25.
20. Hvaða fyrirbæra á himni getum við enn vænst?
20 Í hvaða skilningi mun ‚sólin sortna, tunglið hætta að skína, stjörnurnar hrapa af himni og kraftar himnanna bifast‘? Í fyrsta hluta þrengingarinnar miklu munu „hornin tíu,“ sem nefnd eru í Opinberunarbókinni 17:16, vafalaust hafa afhjúpað og útrýmt mörgum leiðarstjörnum — nafntoguðum klerkum í trúmálaheiminum. Eflaust verður líka búið að róta rækilega upp í stjórnmálaveldunum. Gætu líka orðið ógnvekjandi atburðir á hinum bókstaflega himni? Mjög sennilega, og það langtum ógnþrungnari en þeir sem Jósefus lýsir að hafi orðið nálægt endalokum gyðingakerfisins. Við vitum vel að endur fyrir löngu sýndi Guð mátt sinn til að valda slíkum hamfarafyrirbærum og hann getur gert það aftur. — 2. Mósebók 10:21-23; Jósúabók 10:12-14; Dómarabókin 5:20; Lúkas 23:44, 45.
21. Hvaða himneskt „tákn“ á eftir að koma fram?
21 Þegar hér er komið nota allir þrír guðspjallaritararnir gríska orðið toʹte (þá) til að kynna næstu framvindu mála. „Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni.“ (Matteus 24:30; Markús 13:26; Lúkas 21:27) Frá dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar hafa sannir lærisveinar Jesú skynjað hið samsetta tákn um ósýnilega nærveru hans þótt flest fólk hafi ekki borið kennsl á það. En Matteus 24:30 bendir fram á við til frekara ‚tákns‘ sem muni birtast, ‚tákns Mannssonarins,‘ og að allar þjóðir neyðist til að veita því athygli. Þegar Jesús kemur ósýnilegur ‚í skýjunum‘ verða andstæðingar meðal mannanna um heim allan að viðurkenna þá ‚komu‘ (á grísku erkhoʹmenon) vegna þess að konunglegur máttur hans birtist með yfirnáttúrlegum hætti. — Opinberunarbókin 1:7.
22. Hvaða áhrif mun það að sjá ‚táknið‘ í Matteusi 24:30 hafa?
22 Matteus 24:30 notar toʹte aftur til að kynna það sem kemur næst. Þjóðirnar skynja þá hvaða afleiðingar staða þeirra hefur og hefja kveinstafi. Þær gera sér kannski grein fyrir að eyðing þeirra er yfirvofandi. Hversu ólíkt þjónum Guðs því að við getum lyft upp höfðum okkar í þeirri vissu að lausn okkar sé í nánd! (Lúkas 21:28) Opinberunarbókin 19:1-6 sýnir líka sanna guðsdýrkendur á himni og jörð fagna endalokum skækjunnar miklu.
23. (a) Hvað gerir Jesús fyrir hina útvöldu? (b) Hvað má segja um það að leifarnar verði teknar til himna?
23 Spádómur Jesú heldur áfram í Markúsi 13:27: „Hann mun [á grísku toʹte, „þá“] senda út englana og safna sínum útvöldu úr áttunum fjórum, frá skautum jarðar til himinskauta.“ Jesús beinir hér athygli sinni að leifum hinna 144.000 „útvöldu“ sem enn eru lifandi á jörðinni. Snemma á endalokatíma heimskerfisins var komið á guðræðislegri einingu með þessum smurðu lærisveinum Jesú. En samkvæmt atburðarásinni hér lýsa Markús 13:27 og Matteus 24:31 einhverju öðru. „Með hvellum lúðri“ verður þeim sem eftir eru af hinum „útvöldu“ safnað heimsendanna á milli. Hvernig verður þeim safnað? Tvímælalaust mun Jehóva ‚innsigla‘ þá og auðkenna greinilega sem hluta hinna „kölluðu og útvöldu og trúu.“ Og á tilsettum tíma Guðs verður þeim safnað upp til himna til að vera konungar og prestar.e Það mun gleðja þá og trúfasta félaga þeirra, ‚múginn mikla‘ sem verða sjálfir merktir til að koma „úr þrengingunni miklu“ til að hljóta eilífa blessun á jörð sem verður paradís. — Matteus 24:22; Opinberunarbókin 7:3, 4, 9-17; 17:14; 20:6; Esekíel 9:4, 6.
24. Hvað sýnir Matteus 24:29-31 um atburðarás framtíðarinnar?
24 Þegar postularnir sögðu: „Seg þú oss . . . ,“ fólst meira í svari Jesú en þeir náðu að skilja. Þó gátu þeir fagnað því að sjá táknræna uppfyllingu spádóms hans áður en ævi þeirra var öll. Athugun okkar á svari hans hefur beinst að þeim hluta spádómsins sem uppfyllist í náinni framtíð. (Matteus 24:29-31; Markús 13:24-27; Lúkas 21:25-28) Við getum nú þegar séð að hjálpræði okkar færist nær. Við getum hlakkað til þess að sjá þrenginguna miklu hefjast, þá sjá tákn Mannssonarins og þá sjá Guð safna hinum útvöldu. Loks mun stríðshetja okkar og konungur, Jesús sem sestur er í hásæti, „fullna sigur sinn“ sem böðull Jehóva í Harmagedón. (Opinberunarbókin 6:2, NW) Þessi dagur Jehóva, þegar hann lætur hefndina ná fram að ganga, verður stórfenglegur lokakafli endaloka heimskerfisins sem hafa einkennt dag Drottins Jesú allt frá 1914.
25. Hvernig getum við átt hlutdeild í hinni komandi uppfyllingu Lúkasar 21:28?
25 Megir þú halda áfram að hafa gagn af kennslu Guðs þannig að þú getir brugðist við framtíðaruppfyllingu orða Jesú: „Þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“ (Lúkas 21:28) Hvílík framtíð sem hinir útvöldu og múgurinn mikli á í vændum þegar Jehóva gengur fram til að helga heilagt nafn sitt!
[Neðanmáls]
a Vottar Jehóva færa fúslega sannanir fyrir þessu og sýna hvernig blákaldar staðreyndir okkar daga uppfylla spádóma Biblíunnar.
b Meira efni birtist á bls. 296-323 í bókinni God’s Kingdom of a Thousand Years Has Approached (Þúsundáraríki Guðs er í nánd), gefin út árið 1973 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., og Varðturninum 1. júlí 1983 bls. 25-29.
c Jósefus skrifar um atburði milli fyrstu árásar Rómverja á Jerúsalem (árið 66) og eyðingar hennar: „Um nóttina skall á mannskaðastormur; fellibylur geisaði, regnið féll í stríðum straumum, eldingar leiftruðu án afláts, skruggurnar voru ógnvekjandi, jörðin skalf undan ærandi þrumunum. Að innviðir allir skyldu þannig falla saman var greinilega merki þess að ógæfa vofði yfir mannkyninu og enginn gat efast um að fyrirboðarnir vissu á hörmungar sem áttu sér enga hliðstæðu.“
d Það sem Jesús kallaði ‚mikla þrengingu‘ og ‚þrengingu‘ var í fyrri uppfyllingunni eyðing gyðingakerfisins. En í versum, sem eiga aðeins við okkar daga, er notaður ákveðni greinirinn á grískunni og talað um ‚þrenginguna.‘ (Matteus 24:21, 29, NW; Markús 13:19, 24) Opinberunarbókin 7:14 kallar þennan framtíðaratburð ‚þrenginguna miklu‘ eða orðrétt ‚þrenginguna hina miklu.‘
e Sjá „Spurningar frá lesendum í Varðturninum (enskri útgáfu) þann 15. ágúst 1990.
Manst þú?
◻ Hvernig uppfylltust vissir þættir spádómsins í Jóel 3:1-4, 20 á fyrstu öldinni?
◻ Hvaða þrengingu er átt við í Matteusi 24:29 og hvers vegna ályktum við svo?
◻ Hvaða fyrirbæri á himni á Matteus 24:29 við og hvernig geta þau átt sér stað þegar eftir þrenginguna?
◻ Hvernig mun Lúkas 21:26, 28 rætast í framtíðinni?
[Mynd á blaðsíðu 16, 17]
Musterissvæðið
[Rétthafi]
Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.