NÁMSGREIN 45
Hvernig hjálpar heilagur andi okkur?
„Ég get tekist á við hvað sem er vegna hans sem gefur mér kraft.“ – FIL. 4:13.
SÖNGUR 104 Heilagur andi er gjöf Guðs
YFIRLITa
1, 2. (a) Hvað hjálpar okkur að vera þolgóð dag frá degi? Skýrðu svarið. (b) Hvað skoðum við í þessari grein?
„ÞEGAR ég hugsa um erfiðleikana sem ég gekk í gegnum er mér ljóst að ég hefði ekki getað þraukað hjálparlaust.“ Hefur þú hugsað eitthvað svipað? Mörg okkar geta svarað því játandi. Ef til vill hugsaðirðu þannig þegar þú leiddir hugann að því hvernig þú gast tekist á við alvarleg veikindi eða ástvinamissi. Þegar þú lítur til baka veistu að þú komst í gegnum hvern dag aðeins vegna þess að heilagur andi Jehóva gaf þér ,kraftinn sem er ofar mannlegum mætti‘. – 2. Kor. 4:7–9.
2 Við þurfum líka hjálp heilags anda til að standa gegn áhrifum þessa illa heims. (1. Jóh. 5:19) Auk þess eigum við í baráttu við „andaverur vonskunnar“. (Ef. 6:12) Skoðum tvennt sem getur hjálpað okkur að takast á við álagið. Síðan skulum við skoða hvernig við getum haft sem mest gagn af hjálp heilags anda.
HEILAGUR ANDI VEITIR OKKUR KRAFT
3. Hvernig getur Jehóva hjálpað okkur að halda út í raunum?
3 Jehóva notar heilagan anda til að hjálpa okkur að sinna skyldum okkar þótt við þurfum að takast á við erfiðleika. Páll postuli fann að hann gat haldið áfram að þjóna Jehóva þrátt fyrir erfiðleika vegna þess að hann reiddi sig á ,kraft Krists‘. (2. Kor. 12:9) Á annarri trúboðsferð sinni vann Páll ekki aðeins hörðum höndum við að boða trúna heldur sá hann sér líka farborða. Hann dvaldi á heimili Akvílasar og Priskillu í Korintu. Þau voru tjaldgerðarmenn. Páll vann með þeim þar sem hann stundaði sömu iðn. (Post. 18:1–4) Heilagur andi veitti Páli kraft, bæði til að vinna fyrir sér og til að fullna þjónustu sína.
4. Í hvaða baráttu átti Páll samkvæmt 2. Korintubréfi 12:7b – 9?
4 Lestu 2. Korintubréf 12:7b – 9. Hvað átti Páll við þegar hann sagðist vera með ,þyrni í holdinu‘? Ef þú værir með þyrni fastan einhvers staðar í líkamanum fyndirðu mikið til. Páll var því að segja að hann þyrfti að takast á við vissa prófraun. Hann kallaði prófraunina ,engil Satans‘ og sagði að hann ,slægi‘ sig stöðugt. Satan og illir englar hans voru ekki endilega valdir að erfiðleikum Páls sem voru honum eins og þyrnir í holdinu. En þegar þessir illu andar tóku eftir ,þyrninum‘ má vera að þeir hafi reynt að ýta honum lengra inn ef svo má að orði komast til að Páll fyndi meira til. Hvað gerði Páll?
5. Hvernig svaraði Jehóva bænum Páls?
5 Páll vildi fyrst að Jehóva losaði sig við ,þyrninn‘. Hann viðurkennir: „Þrisvar hef ég beðið [Jehóva] um að fá að losna við hann.“ En þrátt fyrir bænir Páls hvarf þyrnirinn ekki. Þýðir það að Jehóva bænheyrði ekki Pál? Alls ekki. Hann bænheyrði hann en ekki með því að fjarlægja vandamálið. Þess í stað gaf Jehóva Páli kraft til að takast á við erfiðleikana. Jehóva sagði: „Kraftur minn fullkomnast í veikleika.“ (2. Kor. 12:8, 9) Og með hjálp Guðs gat Páll varðveitt gleðina og innri frið. – Fil. 4:4–7.
6. (a) Hvernig gæti Jehóva svarað bænum okkar? (b) Hvaða loforð í biblíuversunum í greininni veita þér kraft?
6 Hefur þú einhvern tíma sárbænt Jehóva um að losa þig við prófraun líkt og Páll? Ef vandamálið var áfram óbreytt eða versnaði þrátt fyrir einlægar og endurteknar bænir, hafðirðu þá áhyggjur af því að Jehóva hefði ekki velþóknun á þér? Hugsaðu þá um reynslu Páls. Jehóva mun bænheyra þig rétt eins og hann bænheyrði Pál. Hann fjarlægir ef til vill ekki vandamálið. En hann notar heilagan anda til að gefa þér styrk til að standast prófraunina. (Sálm. 61:4, 5) Þú ert kannski ,sleginn niður‘ en Jehóva yfirgefur þig ekki. – 2. Kor. 4:8, 9; Fil. 4:13.
HEILAGUR ANDI KNÝR OKKUR ÁFRAM
7, 8. (a) Að hvaða leyti er heilagur andi eins og vindur? (b) Hvernig lýsti Pétur því hvernig heilagur andi starfar?
7 Hvað fleira getur heilagur andi gert til að hjálpa okkur? Heilagur andi er eins og hagstæður vindur. Sjómaður getur nýtt sér hann til að komast í gegnum mikinn öldugang í lygnan sjó. Á svipaðan hátt getur heilagur andi knúið okkur áfram þar til við náum höfn í nýjum heimi Guðs.
8 Pétur var fiskimaður og þekkti vel til siglinga. Þess vegna er áhugavert að hann skyldi nota hugtak sem virðist tengjast siglingum til að lýsa því hvernig heilagur andi starfar. Hann skrifaði: „Spádómur hefur aldrei verið borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn það sem kom frá Guði, knúnir af heilögum anda.“ Gríska orðið sem þýtt er „knúnir“ merkir bókstaflega ,bornir áfram‘. – 2. Pét. 1:21, neðanmáls.
9. Hvaða mynd dró Pétur upp með því að nota hugtakið „bornir áfram“?
9 Hvaða mynd dró Pétur upp með hugtakinu „bornir áfram“? Lúkas, sem skrifaði Postulasöguna, notaði mynd af sama gríska orði til að lýsa skipi sem er ,látið reka‘ undan vindi. (Post. 27:15) Þegar Pétur skrifaði að biblíuritararnir væru „bornir áfram“ notaði hann „hrífandi myndlíkingu úr siglingum“ eins og biblíufræðingur nokkur orðaði það. Pétur sagði með öðrum orðum að heilagur andi hafi knúið biblíuritarana til að sinna verkefni sínu rétt eins og vindur ber skip áfram á áfangastað. Biblíufræðingurinn sagði líka: „Spámennirnir undu upp seglin ef svo má að orði komast.“ Jehóva sá um sinn hlut. Hann sá fyrir „vindinum“, eða heilögum anda. Og biblíuritararnir sáu um sinn hlut. Þeir unnu í samræmi við leiðsögn andans.
10, 11. Hvað tvennt þurfum við að gera til að heilagur andi knýi okkur áfram? Lýstu með dæmi.
10 Jehóva notar ekki lengur heilagan anda til að láta skrá boðskap sinn. En hann notar hann til að leiðbeina þjónum sínum. Jehóva sér enn um sinn hlut. Hvernig getum við haft gagn af hjálpinni sem heilagur andi veitir? Við þurfum að ganga úr skugga um að við sjáum um okkar hlut. Hvernig gerum við það?
11 Tökum dæmi. Sjómaður þarf að gera tvennt til að hafa gagn af vindinum. Í fyrsta lagi þarf hann að koma skipinu þangað sem vindurinn blæs. Skipið kemst ekki áfram ef það liggur við höfn fjarri vindinum sem getur fyllt seglin. Í öðru lagi þarf sjómaðurinn að vinda upp seglin eins mikið og kostur er. Þótt vindurinn blási berst skipið áfram aðeins ef hann fyllir seglin. Á svipaðan hátt getum við aðeins haldið út í þjónustu Jehóva með hjálp heilags anda. Til að fá þá hjálp þurfum við að gera tvennt. Í fyrsta lagi þurfum við að vera þar sem andinn er með því að gera það sem hann hvetur til svo að hann geti haft áhrif á okkur. Í öðru lagi þurfum við að gera það eins vel og við getum. Þannig „vindum við upp seglin“ eins mikið og kostur er. (Sálm. 119:32) Þegar við gerum það knýr heilagur andi okkur áfram í gegnum ólgusjó lífsins og hjálpar okkur að vera trúföst á leið okkar inn í nýjan heim Guðs.
12. Hvað skoðum við nú?
12 Hingað til höfum við skoðað hvernig heilagur andi hjálpar okkur á tvennan hátt. Hann veitir okkur kraft og hjálpar okkur að vera trúföst í raunum. Hann knýr okkur líka áfram og hjálpar okkur að halda réttri stefnu á leið okkar inn til eilífa lífsins. Skoðum nú fernt sem við þurfum að gera til að hafa sem mest gagn af hjálp heilags anda.
HVERNIG GETUM VIÐ HAFT SEM MEST GAGN AF HJÁLP HEILAGS ANDA?
13. Hvernig getur orð Guðs hjálpað okkur samkvæmt 2. Tímóteusarbréfi 3:16, 17 en hvað þurfum við að gera?
13 Lesum og hugleiðum orð Guðs. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.) Guð notaði anda sinn til að „blása“ hugsunum sínum í huga biblíuritara. Þegar við lesum Biblíuna og hugleiðum það sem við lesum ná leiðbeiningar Guðs til huga okkar og hjarta. Þessar innblásnu hugsanir hafa þau áhrif á okkur að við breytum lífi okkar í samræmi við vilja Guðs. (Hebr. 4:12) En til að hafa sem mest gagn af hjálp heilags anda þurfum við að taka okkur tíma til að lesa Biblíuna reglulega og hugleiða vandlega það sem við lesum. Þá hefur orð Guðs áhrif á allt sem við segjum og gerum.
14. (a) Hvers vegna mætti segja að „vindurinn blási“ á samkomum okkar? (b) Hvernig getum við mætt á samkomur með „seglin uppi“?
14 Tilbiðjum Guð saman. (Sálm. 22:23) Það mætti segja að „vindurinn blási“ á samkomum okkar. Þar er andi Jehóva til staðar. (Opinb. 2:29) Hvernig vitum við það? Vegna þess að þegar við erum á samkomum með trúsystkinum okkar biðjum við um heilagan anda, syngjum ríkissöngva byggða á orði Guðs og hlustum á bræður sem hafa verið útnefndir af heilögum anda og byggja kennslu sína á Biblíunni. Sami andinn hjálpar systrum að undirbúa og flytja verkefni sín. En til að hafa sem mest gagn af hjálp heilags anda þurfum við að koma undirbúin svo að við getum tekið þátt í samkomunum. Þannig getum við mætt á samkomur með „seglin uppi“.
15. Hvernig hjálpar heilagur andi okkur í boðuninni?
15 Boðum trúna. Við leyfum heilögum anda að hjálpa okkur þegar við notum Biblíuna í boðun okkar og kennslu. (Rómv. 15:18, 19) En til að hafa sem mest gagn af hjálp anda Guðs þurfum við að boða trúna reglulega og nota Biblíuna hvenær sem tækifæri gefst. Ein leið til að gera boðunina innihaldsríkari er að nota tillögurnar að umræðum í vinnubókinni Líf okkar og boðun.
16. Hver er beinasta leiðin til að fá heilagan anda?
16 Biðjum til Jehóva. (Matt. 7:7–11; Lúk. 11:13) Beinasta leiðin til að fá heilagan anda er að biðja Jehóva um hann. Ekkert getur komið í veg fyrir að bænir okkar nái til Jehóva eða hindrað að hann gefi okkur af anda sínum – hvorki fangelsismúrar né Satan. (Jak. 1:17) Hvernig ættum við að biðja til að hafa sem mest gagn af hjálp heilags anda? Til að fá svar við þeirri spurningu skulum við læra meira um bænina með því að skoða dæmisögu sem er aðeins að finna í biblíubók Lúkasar.b
VERUM STÖÐUG Í BÆNINNI
17. Hvað lærum við um bænina af dæmisögu Jesú í Lúkasi 11:5–9, 13?
17 Lestu Lúkas 11:5–9, 13. Af dæmisögu Jesú má sjá hvernig við ættum að biðja um heilagan anda. Maðurinn í dæmisögunni fékk það sem hann þurfti ,vegna ágengni sinnar‘. Hann var ekki smeykur við að biðja vin sinn um hjálp þótt það væri mjög áliðið. Hvernig heimfærði Jesús dæmisöguna upp á bænina? Hann sagði: „Haldið áfram að biðja og ykkur verður gefið, haldið áfram að leita og þið munuð finna, haldið áfram að banka og það verður opnað fyrir ykkur.“ Hvað lærum við? Við verðum stöðugt að biðja um heilagan anda til að fá hjálp hans.
18. Hvernig sjáum við af dæmisögu Jesú að við getum treyst því að Jehóva gefi okkur heilagan anda?
18 Dæmisaga Jesú hjálpar okkur líka að skilja hvers vegna Jehóva gefur okkur heilagan anda. Maðurinn í dæmisögunni vildi hugsa vel um gest sinn sem kom um nótt. Hann fann sig knúinn til að gefa gestinum að borða en átti ekkert. Jesús sagði að nágranni mannsins hafi gefið honum brauð vegna þess að hann gafst ekki upp á að biðja um það. Hver er kennslan? Fyrst ófullkominn maður er tilbúinn að hjálpa þrautseigum nágranna hlýtur okkar góði himneski faðir miklu frekar að hjálpa þeim sem stöðugt biðja hann um heilagan anda. Við getum því treyst að Jehóva verði við beiðni okkar um heilagan anda. – Sálm. 10:17; 66:19.
19. Hvers vegna getum við verið viss um að við förum með sigur af hólmi?
19 Við getum verið viss um að við förum með sigur af hólmi þrátt fyrir linnulausar árásir Satans. Hvers vegna? Vegna þess að heilagur andi hjálpar okkur á tvo vegu. Í fyrsta lagi veitir hann okkur þann kraft sem við þurfum til að standast raunir. Í öðru lagi „fyllir hann seglin okkar“ og knýr okkur áfram í þjónustu Jehóva þar til við náum í höfn í nýjum heimi hans. Verum staðráðin í að hafa sem mest gagn af hjálp heilags anda!
SÖNGUR 41 Heyr mínar bænir
a Í þessari grein skoðum við hvernig heilagur andi Guðs getur hjálpað okkur að vera þolgóð. Við fáum líka að vita hvað við getum gert til að hafa sem mest gagn af hjálp heilags anda.
c MYNDIR: SKREF 1: Hjón mæta í ríkissalinn og hitta þar trúsystkini sín. Með því að sækja samkomur fara þau þangað sem andi Jehóva er til staðar. SKREF 2: Þau hafa undirbúið sig svo að þau geti tekið þátt í samkomunni. Þetta tvennt á einnig við um aðra þætti tilbeiðslunnar – þegar við lesum og hugleiðum orð Guðs, boðum trúna og biðjum til Jehóva.