Gefstu ekki upp að gera það sem gott er
„Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp.“ — GALATABRÉFIÐ 6:9.
1. Hvaða fyrirmæli gaf Jesús fylgjendum sínum?
KRISTNIR menn hafa fengið skýr fyrirmæli um að inna af hendi þjónustu sem er hluti af tilbeiðslu þeirra: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá . . . og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.“ (Matteus 28:19, 20) Það var Jesús Kristur sjálfur sem fól lærisveinum sínum með þessum orðum það verkefni að fræða fólk um víða veröld.
2. (a) Hvers vegna getum við sagt að það sé mikilvægt og gott starf að gera menn að lærisveinum? (b) Hvaða tilgangi þjónar boðunarstarfið?
2 Þessi fyrirmæli um að kenna voru ein þau síðustu sem Jesús gaf sínum fyrstu lærsveinum áður en hann steig upp til himna. Þótt svo væri voru þau afar þýðingarmikil því að með því að fylgja þeim væru þeir að bjarga mannslífum. (1. Tímóteusarbréf 4:16) Með þessu góða starfi veitum við þeim sem vilja hlusta á boðskapinn um Guðsríki gæða biblíufræðslu og vörum við þá sem taka ekki við boðskapnum. (Lúkas 10:10, 11) Það að taka þátt í þessu verki auðkennir sannkristna menn því í sama mæli og hlýðni þeirra við öll önnur fyrirmæli Jesú. — Jóhannes 8:31.
3. (a) Hvernig brugðust lærisveinar Jesú við fordæmi hans og fyrirmælum? (b) Hvaða viðhorf byggði Jesús upp með lærisveinum sínum?
3 Sem kennarinn mikli gaf Jesús lærisveinum sínum gott fordæmi. Hann kenndi opinberlega og gerði menn að lærisveinum með því að ‚flytja fagnaðarerindið um ríkið.‘ (Matteus 9:35) Hinir nýju lærisveinar líktu eftir honum með því að boða Guðsríki sjálfir og gera menn að lærisveinum, því að sannur lærisveinn er „sá sem tekur við kenningu annars og tekur þátt í að útbreiða hana.“ Í byrjun prédikuðu þeir aðeins meðal Gyðinga og trúskiptinga. Þótt lærisveinar Jesú mættu mótspyrnu fylgdu þeir fyrirmælum hans og ‚létu eigi af‘ að kenna ‚týndum sauðum af Ísraelsætt‘ þangað til fyrstu heiðingjarnir tóku trú árið 36. (Matteus 10:5, 6; Postulasagan 5:42) Sagt var að lærisveinarnir hefðu „fyllt Jerúsalem með kenningu [sinni].“ (Postulasagan 5:28) Þeir gáfust ekki upp að gera það sem rétt var heldur héldu þeir trúfastir áfram að vinna að því verkefni sem þeim var falið.
„Akurinn er heimurinn“
4. Með hvaða hugarfari sinntu fylgjendur Jesú verkefni sínu sem nú var orðið umfangsmeira?
4 Jesús gaf til kynna að boða skyldi fólki af ‚öllum þjóðum‘ Guðsríki. (Matteus 28:19) Í dæmisögunni um manninn, sem sáði sæði Guðsríkis, sagði hann: „Akurinn er heimurinn.“ (Matteus 13:38) Kristnir menn áttu því að vera „vottar“ um hann út um alla jörðina. Þeir áttu að prédika án afláts, núna „til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Páll postuli ‚gaf sig allan að boðun orðsins‘ og það hafa aðrir kristnir menn greinilega gert líka. — Postulasagan 18:5.
5. Hvernig sýndi Jesús að hann ætlaðist til þess af lærisveinum sínum að þeir væru uppteknir af því að bera vitni allt fram til endaloka heimskerfisins?
5 Jesús vænti þess að kristnir menn væru uppteknir af prédikun fagnaðarerindisins allt fram til endaloka núverandi heimsskipanar. Það má sjá af því sem hann sagði fyrir um þessa kristnu þjónustu og umfang hennar: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14.
6. Hve lengi á að prédika Guðsríki og hvaða áhrif ætti það að hafa á afstöðu okkar til þess?
6 Þegar Jesús fól lærisveinum sínum að boða Guðsríki og gera menn að lærisveinum út um alla jörðina vissi hann að því starfi myndi ljúka einn góðan veðurdag, alveg eins og boðuninni fyrir Gyðingunum lauk á vissum tíma. En boðunin myndi ná tilgangi sínum og fyrst þá myndi ‚endirinn koma‘ eins og Jesús sagði. Vottar Jehóva halda því fullir trúartrausts og gleði áfram því starfi sem þeim hefur verið falið, og vitneskjan um að þetta hjálpar þeim að halda því áfram þar til yfir lýkur.
Hvernig starfið skal innt af hendi
7. Hvert var stefið í boðun Jesú og lærisveina hans?
7 Fystu lærisveinar Jesú voru mjög kappsfullir þegar hann bauð þeim að fara út og prédika. Hann kenndi þeim hvernig þeir skyldu ber sig að og sagði meðal annars: „Farið og prédikið: ‚Himnaríki er í nánd.‘“ (Matteus 10:7) Prédikun þeirra átti því að hafa sama stef og prédikun Jesú. Boðskapur þeirra myndi vera fagnaðartíðindi fyrir réttsinnað fólk. Hætti Jesús að prédika þegar lærisveinar hans hófu það? Nei. „Þá er Jesús hafði mælt svo fyrir við lærisveina sína tólf, hélt hann þaðan að kenna og prédika í borgum þeirra.“ — Matteus 11:1.
8. (a) Hvar og hvernig áttu boðberar Guðsríkis að taka fólk tali? (b) Hvers vegna er rétt að færa fólki fagnaðarerindið heim að dyrum? (c) Hvers vegna er gott að heilsa húsráðanda vingjarnlega?
8 Hvar og hvernig áttu þessir boðberar Guðsríkis að gefa sig á tal við fólk? Jesús sagði: „Þegar þér komið í hús, þá árnið því góðs.“ (Matteus 10:12) Að við skulum fara heim til fólks að boða því fagnaðarerindið þýðir að það er „á heimavelli“ þegar það á að taka afstöðu til boðskaparins. Okkur ber að hefja samtalið með vingjarnlegum og glaðlegum kveðjuorðum. Bæði er það almenn kurteisi og getur einnig vakið löngun með fólki að tala við okkur þótt við komum óboðnir. (Samanber Matteus 28:9; Lúkas 1:28.) Gott er að hlusta af athygli á svör fólks — orð þess og raddbrigði geta sagt okkur margt um viðhorf þess, og þegar við þekkjum þau eigum við auðveldara með að sníða kynningu boðskaparins að þörfum þess. — Samanber Postulasöguna 22:1, 2; 23:6.
9. Hvað sýnir að ekki munu allir hlusta á boðskapinn um Guðsríki og hvað áttu lærisveinarnir að gera þegar fólk sýndi ekki áhuga?
9 Jesús vakti athygli lærisveina sinna á að ekki myndu allir á starfssvæðinu vilja hlusta á fagnaðarerindið. Hann sagði: „Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um, hver þar sé verðugur.“ Ef allir myndu taka við boðskapnum um ríkið hefði engin ástæða verið til að nota orðin ‚spyrjist fyrir.‘ Hvað áttu lærisveinarnir að gera þegar menn sýndu boðskapnum ekki áhuga? „Og taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar.“ Þeir áttu að fara burt með friði og láta Jehóva eftir að fella dóm. — Matteus 10:11, 14.
Aðstæðurnar nú á tímum
10. Hvað hefur verið sagt um prédikun votta Jehóva?
10 Í hlýðni við þau fyrirmæli, sem Jesús hefur gefið öllum kristnum mönnum, boða vottar Jehóva boðskapinn um ríkið um alla jörðina. Hollenskur blaðamaður, A. P. Wisse að nafni, hefur skrifað í þessu sambandi: „Þeir eru frábrugðnir öðrum. Sá munur stafar að nokkru leyti af kostgæfu kristniboði þeirra. Þeir líta ekki á sanna kristni sem trúfélag er á sér dómkirkjur og sóknarbörn sem eru hvert á sínum stað og lítils er krafist af annað en að hlusta. Þeir tala með djörfung eins og Páll við hvern þann er vill hlusta.“ Jehóva Guð hefur blessað slíka kostgæfni gagnvart þjónustunni.
11, 12. (a) Hvaða árangri hefur þjónustan skilað á síðustu árum? (b) Hvað gerist í sambandi við prédikunarsvæðið þegar okkur fjölgar? (c) Hvaða spurningum er varpað fram?
11 Núna eru yfir þrjár og hálf milljón kappsamra boðbera í 212 löndum. Nýjum lærisveinum fjölgar dag frá degi — á síðustu sjö árum hafa 1.365.636 látið skírast. Augljóst er að Jehóva blessar hið ötula framlag þeirra. (Jesaja 60:8-10, 22) Í að minnsta kosti 40 löndum og eyjum er nú einn vottur Jehóva fyrir hverja 300 íbúa eða færri — það svarar til eins boðbera á móti 100 heimilum hér um bil. Sums staðar í löndum svo sem Kanada og Guadelupe, svo dæmi séu tekin, er hlutfallið einn vottur Jehóva á móti 45 til 50 íbúum á starfssvæðinu. Þar þarf hver boðberi því að heimsækja um það bil 15 heimili eða færri! Starfað er í gegnum mörg þessi svæði í hverjum mánuði. Jafnvel í löndum þar sem hlutfallstalan er hærri er að finna bæja- og borgarsvæði sem starfað er mjög oft yfir. Starfað er í gegnum sum svæði í höfuðborg Suður-Kóreu, Seúl, fimmta hvern dag! Eftir því sem okkur fer fjölgandi og fleiri og fleiri gerast brautryðjendur eða aðstoðarbrautryðjendur heimsækjum við fólk oftar og oftar. Er eitthvert vandamál samfara því?
12 Það skal viðurkennt að það veldur vissum vandamálum á sumum starfssvæðum, bæði fyrir okkur og þá sem við heimsækjum. Þessi vandamál færast í vöxt af því að margt fólk víða um lönd verður síðfellt sinnulausara og lætur sér standa á sama. Hefur það í för með sér að við gefumst smátt og smátt upp á hinu góða starfi okkar eftir því sem okkur fjölgar? Ímyndum við okkur að starfi okkar sé næstum lokið og að við séum búin að ná til allra sem hneigjast til réttlætis og vilja verða lærisveinar? Ert þú farinn að þreytast? Leiðist þér að halda áfram að heimsækja aftur og aftur sama fólkið sem engan áhuga sýnir? Hvernig getum við verið jafniðnir í þjónustunni eins og við höfum verið fram til þessa?
Varðveittu rétt viðhorf
13, 14. (a) Hvernig ber okkur að líta á það þegar oft er starfað yfir svæðið? (b) Hvers vegna látum við það ekki aftra okkur þótt sumir séu ekki móttækilegir? (c) Hvernig getum við fylgt fordæmi postulanna þegar við hittum fólk sem gremst heimsóknir okkar?
13 Lausn vandans snertir aðallega okkar eigið viðhorf sem vottar um Jehóva. Við skulum í fyrsta lagi alltaf horfa á björtu hliðarnar. Eftir því sem starf okkar nær hámarki sínu er það rökrétt að hækkandi hlutfall boðbera miðað við íbúatölu hafi í för með sér að starfað sé oftar á svæðunum. En er það ekki einmitt það sem við höfum beðið um? (2. Þessaloníkubréf 3:1) Núverandi staða ætti að gleðja okkur og sannfæra um að náð sé síðasta stigi prédikunarstarfsins! Guðsríki er prédikað eins og Jesús sagði fyrir. Og jafnvel þar sem fólk ‚hlýðir ekki á orð okkar‘ nær boðun okkar því takmarki að aðvara það. Við boðum ekki fagnaðarerindið aðeins til að gera menn að lærisveinum heldur líka „til vitnisburðar.“ — Matteus 10:14; 24:14.
14 Þar að auki getum við búist við því að fleiri og fleiri vísi boðskapnum um Guðsríki á bug eftir því sem endirinn nálgast. Sagt er fyrir að þannig muni það vera og bæði Jesús og Páll reyndu það að sumir væru ‚daufheyrðir‘ og væru með „tilfinningarlaust“ eða ómóttækilegt hjarta. En við verðum að gæta þess að það séum ekki við sem verðum þannig gagnvart því starfi sem okkur er falið! Jafnvel þótt menn sýni engan áhuga eigum við að heimsækja þá aftur og aftur. (Jesaja 6:9-11; Matteus 13:14, 15; Orðskviðirnir 10:21) Það kostar að vísu hugrekki að knýja oft dyra hjá þeim sem gremjast heimsóknir okkar. En óháð því hvernig ástatt er á starfssvæði okkar megum við aldrei hætta að tala. Eins og postularnir verðum við þess í stað að biðja um djörfung til að halda áfram að tala — þrátt fyrir að fólki gremjist eða það reiðist — þangað til verkinu er lokið. — Postulasagan 4:18-20, 24-31.
15. Hvaða hvatningu fáum við í Galatabréfinu 6:9 og hvaða áhrif ætti hún að hafa á viðhorf okkar til þess að færa nágrönnum okkar fagnaðarerindið?
15 Í raun er aðeins um tvenns konar fólk að ræða á svæðinu — þá sem þessa stundina hafa áhuga og þá sem ekki hafa það. Þess vegna verðum við að halda áfram að reyna að ‚finna þá sem eru verðugir.‘ Það er eitt af hinum mörgu ágætu verkum sem við, kristnir menn, eigum að vinna til að sýna Jehóva kærleika og hollustu. „Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp.“ (Galatabréfið 6:9) Með því að við stöndum núna svona nálægt endalokum þessarar heimsskipanar megum við ekki gefast upp eða hætta að heimsækja fólk til að færa því fagnaðarerindið um ríkið. Jehóva hefur enn ekki sagt að starfinu sé lokið.
Hvers vegna þurfum við að halda áfram að tala?
16. (a) Hvað getur valdið því að viðbrögð fólks á svæðinu breytist? (b) Nefndu nokkur staðbundin dæmi um að viðhorf fólks hafi breyst.
16 Ef við höfum í huga að kostgæf prédikun Guðsríkis er merki um hollustu okkar við Jehóva munum við eiga auðveldara með að varðveita jákvæð viðhorf. Auk þess er starfssvæðið sífellt að breytast. Sumir flytjast úr því, aðrir í það. Hjá sumum breytast aðstæðurnar. Kannski höfðu þeir ekki áhuga síðast þegar við heimsóttum þá, en vegna atvinnuleysis, dauðsfalls í fjölskyldunni, breytingar í samskiptum stórveldanna, alvarlegra veikinda eða einhvers annar hlusta þeir kannski á okkur næst þegar við komum. Aðrir eiga vin eða ættingja sem er orðinn vottur Jehóva og vilja nú gjarnan vita hverju við trúum sem hefur orðið þessari breytingu valdandi.
17. Hvernig bregðast sumir við boðskapnum um ríkið? Nefndu staðbundin dæmi.
17 Hafðu líka hugfast að nýir einstaklingar eru stöðugt að vaxa úr grasi, stofna til heimilis, hugleiða lífið og tilveruna og bera fram spurningar sem aðeins orð Guðs getur svarað. Ung kona, sem hafði boðið vottum Jehóva inn til sín, sagði til dæmis: ‚Þegar ég var lítil skildi ég ekki hvers vegna móðir mín vísaði vottum Jehóva á bug og sagðist ekki hafa áhuga þegar þeir vildu bara tala við hana um Biblíuna. Ég einsetti mér að þegar ég væri orðin fullorðin, gift og ætti eigið heimili ætlaði ég að bjóða vottum Jehóva inn og biðja þá að segja mér frá Biblíunni.‘
18. Hvaða áhrif hafa breytingar innan Babýlonar hinnar miklu á fólkið sem við prédikum fyrir og kennum?
18 Sumir hafa um áraraðir ekki viljað tala við okkur og hafa verið sannfærðir um að þeir væru ‚frelsaðir.‘ Nú eru þeir farnir að spyrja spurninga í einlægni. Hvað kemur til? Þeir hafa breytt afstöðu sinni til þeirrar trúar sem þeir aðhylltust. Margir segja frá vonbrigðum sínum og hneykslun á siðlausu líferni kunnra sjónvarpsprédikara eða presta, afskiptum þeirra af stjórnmálum og misnotkun á fé kirkjunnar. Þeim finnst þeir ekki geta treyst þeim lengur. Trúlega munu augu fleiri og fleiri manna opnast fyrir þessu eftir því sem ástandið innan Babýlonar hinnar miklu versnar á þeim tíma sem eftir er þangað til henni verður eytt. — Opinberunarbókin 18:1-8.
19, 20. Hvað sýnir að við þurfum ekki að missa kjarkinn þótt við þurfum að fara aftur og aftur til þeirra sem hafna boðskapnum?
19 Þótt fáir vilji hlusta á okkur megum við ekki missa kjarkinn. Að öllum líkindum hugsa þeir um okkur nokkra stund eftir að við erum farnir í næstu heimsókn. Kona í Kanada, sem tveir af vottum Jehóva heimsóttu, lét það skýrt í ljós að hún hefði ekki áhuga. Síðan fór hún að hugleiða hvað hún hafði sagt og vildi gjarnan finna þá aftur þannig að þeir gætu svarað spurningu sem komið hafði upp í huga hennar. Hún lagði af stað í bifreið sinni og ók hverja götuna af annarri í hverfinu án árangurs. Gafst hún upp? Nei, hún leit við hjá vinkonu sinni til að kanna hvort þeir hefðu komið þangað. Það höfðu þeir ekki gert, en vinkonan bauðst til að koma henni í samband við vinnufélaga sem var einn af vottum Jehóva. Sú systir heimsótti þessa áhugasömu konu margsinnis og í hvert skipti hafði hún boðið til sín fáeinum vinum, nágrönnum, ættingjum eða vinnufélögum. Stundum voru allt upp í 15 manns viðstaddir og samanlagt hefur systirin útbreitt 430 bækur og 2015 blöð.
20 Margir eru ánægðir með að fá okkur í heimsókn. Kona skrifaði einni af deildarskrifstofum Varðturnsfélagsins: „Ég er þakklát fyrir að þið skuluð hafa innrætt þeim sem tilheyra ykkar trú svona mikla kostgæfni. Ég er þakklát fyrir að þið skuluð koma í heimsókn . . . og miðla öðrum af kærleika Drottins. Þetta einfalda starf hefur mikla þýðingu . . . Þótt sumir séu fjandsamlegir, öðrum standi á sama og sumir sýni áhuga . . . er gott að þið skuluð minna okkur á það sem andlegt er — við höfum gott af því. Það er heilnæmt að tala hver við annan um Drottin.“ Í öðru bréfi bað maður um að við ‚gæfumst ekki upp á fólki‘ óháð því hvernig það kæmi fram við okkur. „Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp.“ (Galatabréfið 6:9) Jehóva hefur velþóknun á og blessar þátttöku okkar í þjónustunni og hún ber því vitni að við elskum Guð og náungann. (Matteus 22:37-39) Við skulum því fullna verkið. — Samanber Filippíbréfið 1:6.
21. (a) Í hverju liggur að minnsta kosti hluti vandans í að starfa þar sem oft er starfað? (b) Hvað verður rætt í greininni á eftir?
21 Við þurfum líka að horfast í augu við að það er ekki alltaf öðrum að kenna að okkur skuli finnast erfitt að starfa oft á starfssvæði okkar. Stundum er sökin okkar eigin. Förum við út í starfið með því neikvæða hugarfari að við þekkjum allt þetta fólk og vitum hver viðbrögð þess verði? Það getur haft áhrif á viðhorf okkar og líklega er bæði hægt að sjá það og heyra á okkur. Höfum við svo árum skiptir notað sams konar kynningu á boðskap okkar? Þegar starfssvæðið breytist er ekki sjálfgefið að sú aðferð, sem einu sinni skilaði árangri, haldi áfram að vekja áhuga þeirra ‚verðugu.‘ Kannski er tímabært að finna nýja aðferð og fá nýtt viðhorf til þjónustunnar. Í næstu grein munum við skoða hvað við getum gert til að ‚gefast ekki upp heldur uppskera á sínum tíma.‘
Getur þú útskýrt?
◻ Hvers vegna ættum við ekki að ‚gefast upp‘ á að flytja nágrönnum okkar fagnaðarerindið?
◻ Hver sagði okkur að gera menn að lærisveinum og hvernig á í megindráttum að vinna það verk?
◻ Hvaða staða er komin upp víða á starfssvæðinu og hvað hjálpar okkur að hafa rétt viðhorf gagnvart henni?
◻ Hvers vegna ættum við ‚ekki að láta af‘ að boða fagnaðarerindið?
[Rammi á blaðsíðu 26]
VIÐ ‚GEFUMST EKKI UPP‘ AÐ PRÉDIKA GUÐSRÍKI EF VIÐ MUNUM:
◻ Hver gaf okkur fyrirmæli og leiðbeiningar um að prédika.
◻ Að Jehóva hefur blessað það sem gert hefur verið um heim allan fram til þessa.
◻ Að hafa rétt viðhorf þótt sumir séu ómóttækilegir.
◻ Að biðja um djörfung, eins og postularnir, til að halda áfram að tala.