30. KAFLI
„Lifið í kærleika“
1–3. Hvaða áhrif hefur það að líkja eftir Jehóva og sýna kærleika?
„ÞAÐ er ánægjulegra að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Þessi orð Jesú undirstrika þann mikilvæga sannleika að það er mjög gefandi að sýna óeigingjarnan kærleika. Það er vissulega unaðslegt að njóta kærleika annarra en það er enn unaðslegra að gefa, að sýna öðrum kærleika.
2 Enginn þekkir þetta betur en faðir okkar á himnum. Eins og við höfum séð í köflunum á undan er Jehóva hið fullkomna dæmi um kærleika. Enginn hefur sýnt kærleika á stórkostlegri hátt né lengur en hann. Það er því ekki að undra að Jehóva skuli vera kallaður „hinn hamingjusami Guð“. – 1. Tímóteusarbréf 1:11.
3 Guð kærleikans vill að við reynum að líkjast sér, ekki síst í því að sýna kærleika. Efesusbréfið 5:1, 2 segir okkur: „Líkið því eftir Guði sem elskuð börn hans og lifið í kærleika.“ Þegar við líkjum eftir fordæmi Jehóva og sýnum kærleika njótum við gleðinnar og hamingjunnar sem fylgir því að gefa. Og við njótum þess að vita að við þóknumst Jehóva því að orð hans hvetur okkur til að „elska hvert annað“. (Rómverjabréfið 13:8) En það eru fleiri ástæður fyrir því að við ættum að ‚lifa í kærleika‘.
Hvers vegna er kærleikur nauðsynlegur?
4, 5. Hvers vegna er mikilvægt að sýna trúsystkinum sínum fórnfúsan kærleika?
4 Hvers vegna er mikilvægt að elska trúsystkini sín? Einfaldlega vegna þess að kærleikurinn er kjarni sannrar kristni. Án hans getum við ekki átt náin tengsl við trúsystkini okkar, og það sem mikilvægara er, án hans erum við ekkert í augum Jehóva. Lítum á hvernig þessi sannindi koma skýrt fram í orði Guðs.
5 Jesús sagði fylgjendum sínum kvöldið áður en hann var tekinn af lífi: „Ég gef ykkur nýtt boðorð, að þið elskið hver annan. Elskið hver annan eins og ég hef elskað ykkur. Allir munu vita að þið eruð lærisveinar mínir ef þið berið kærleika hver til annars.“ (Jóhannes 13:34, 35) „Eins og ég hef elskað ykkur“ – já, við eigum að sýna sams konar kærleika og Jesús. Í síðasta kafla var bent á hve frábært dæmi Jesús hefði verið um fórnfúsan kærleika því að hann tók þarfir og hag annarra fram yfir sinn eigin. Við eigum líka að sýna óeigingjarnan kærleika, og við eigum að gera það svo greinilega að það blasi við fólki utan kristna safnaðarins. Já, fórnfús bróðurkærleikur er einkennismerki sannra fylgjenda Krists.
6, 7. (a) Hvernig vitum við að orð Jehóva leggur mikla áherslu á að sýna kærleika? (b) Hvaða þættir kærleikans eru til umræðu í 1. Korintubréfi 13:4–8?
6 En hvað þá ef kærleikann vantar hjá okkur? „[Ef ég] hefði ekki kærleika væri ég glymjandi gong eða skellandi málmgjöll,“ sagði Páll postuli. (1. Korintubréf 13:1) Skellandi málmgjöll lætur óþægilega í eyrum. Og hvað um glymjandi gong? Þetta eru viðeigandi samlíkingar. Maður án kærleika er eins og hljóðfæri sem gefur frá sér fráhrindandi og sargandi hávaða. Hvernig getur slíkur maður átt náið samband við aðra? Páll hélt áfram: „Þótt ég … hefði svo sterka trú að flytja mætti fjöll en hefði ekki kærleika væri ég ekki neitt.“ (1. Korintubréf 13:2) Hugsaðu þér, maður án kærleika er „ekki neitt“ þó að hann vinni ýmis stórvirki! Er ekki ljóst að orð Jehóva leggur mikla áherslu á kærleika?
7 En hvernig getum við sýnt kærleika í samskiptum við aðra? Til að svara því skulum við fara yfir orð Páls í 1. Korintubréfi 13:4–8. Páll er ekki að tala um kærleika Guðs til okkar eða okkar til hans heldur einbeitir sér að því hvernig við eigum að sýna hvert öðru kærleika. Hann lýsir því bæði hvernig kærleikurinn er og hvernig hann er ekki.
Hvernig er kærleikurinn?
8. Hvernig getur þolinmæði auðveldað samskipti okkar við aðra?
8 „Kærleikurinn er þolinmóður.“ Kærleikur merkir því að vera þolinmóður og umburðarlyndur við aðra. (Kólossubréfið 3:13) Þurfum við ekki á því að halda? Þar sem við þjónum hlið við hlið og erum ófullkomin er við því að búast að trúsystkini okkar fari stundum í taugarnar á okkur og við í taugarnar á þeim. En þolinmæði og langlundargeð geta hjálpað okkur að þola svolitlar skrámur og pústra sem við fáum í samskiptum við aðra – án þess að spilla friði safnaðarins.
9. Hvernig getum við sýnt öðrum góðvild?
9 „Kærleikurinn er … góðviljaður.“ Góðvild birtist í hjálpsemi og vingjarnlegum orðum. Kærleikurinn hvetur okkur til að leita færis að sýna góðvild, einkum þeim sem þarfnast hennar mest. Roskinn trúbróðir eða trúsystir eru kannski einmana og gætu þegið uppörvandi heimsókn. Einstæð móðir þarfnast hjálpar, eða þá systir sem á vantrúaðan eiginmann. Einhver er veikur eða hefur orðið fyrir andstreymi í lífinu og þráir að heyra vingjarnlegt orð frá góðum vini. (Orðskviðirnir 12:25; 17:17) Þegar við eigum frumkvæðið og sýnum góðvild á þennan hátt erum við að sýna að kærleikur okkar sé einlægur. – 2. Korintubréf 8:8.
10. Hvernig hjálpar kærleikurinn okkur að verja sannleikann og vera sannorð, jafnvel þegar það er erfitt?
10 „Kærleikurinn … fagnar sannleikanum.“ Önnur þýðing segir: „Kærleikurinn … tekur fagnandi afstöðu með sannleikanum.“ Kærleikurinn fær okkur til að verja sannleikann og ‚vera sannorð hvert við annað‘. (Sakaría 8:16) Segjum til dæmis að ástvinur hafi framið alvarlega synd. Þá mun kærleikurinn til Jehóva – og syndarans – hjálpa okkur að fylgja reglum Guðs í stað þess að reyna að leyna hinu ranga, afsaka það eða jafnvel að segja ósatt til að hylma yfir. Vissulega getur verið erfitt að horfast í augu við staðreyndirnar. En ef okkur er virkilega annt um ástvin okkar viljum við að hann fái kærleiksríkan aga frá Guði og fari eftir honum. (Orðskviðirnir 3:11, 12) Og þar sem við erum kærleiksrík viljum við sjálf ‚vera heiðarleg í öllu sem við gerum‘. – Hebreabréfið 13:18.
11. Hvað eigum við að reyna að gera í sambandi við galla trúsystkina okkar fyrst kærleikurinn „umber allt“?
11 „Kærleikurinn … umber allt.“ Fyrra Pétursbréf 4:8 segir: „Kærleikur hylur fjölda synda.“ Kristinn maður, sem lætur kærleikann ráða gerðum sínum, hefur engan sérstakan áhuga á að draga ófullkomleika og bresti trúsystkina sinna fram í dagsljósið. Oft eru mistök þeirra og gallar svo smávægileg að kærleikurinn getur umborið þau. – Orðskviðirnir 10:12; 17:9.
12. Hvernig sýndi Páll postuli að hann trúði því besta um Fílemon og hvað getum við lært af dæmi hans?
12 „Kærleikurinn … trúir öllu.“ Önnur þýðing orðar það þannig að kærleikurinn sé „alltaf óðfús að trúa því besta“. Við vantreystum ekki trúsystkinum okkar að óþörfu. Við véfengjum ekki hvatir þeirra sí og æ. Kærleikurinn hjálpar okkur að „trúa því besta“ um bræður okkar og treysta þeim.a Taktu eftir hvernig Páll talar í Fílemonsbréfinu. Þar hvetur hann Fílemon til að taka vel á móti Onesímusi, strokuþræl sínum, sem nú er orðinn kristinn. En Páll reynir ekki að þvinga Fílemon til þess heldur höfðar til hans í anda kærleikans. Hann kveðst treysta því að Fílemon geri hið rétta og segir: „Ég skrifa þér vegna þess að ég er viss um að þú verðir við beiðni minni. Ég veit að þú gerir jafnvel meira en það sem ég bið þig um.“ (21. vers) Við löðum fram hið besta í fari bræðra okkar þegar kærleikurinn kveikir slíkt traust til þeirra.
13. Hvernig getum við sýnt að við vonum að bræðrum okkar farnist vel?
13 „Kærleikurinn … vonar allt.“ Kærleikurinn bæði treystir og vonar. Við vonum að bræðrum okkar farnist vel af því að við elskum þá. Ef bróðir „fer út af sporinu án þess að átta sig á því“, svo dæmi sé tekið, vonum við að hann þiggi þá leiðréttingu sem hann fær í anda kærleikans. (Galatabréfið 6:1) Við vonum líka að þeir sem eru veikir í trúnni nái sér. Við erum þolinmóð við þá og gerum það sem við getum til að hjálpa þeim að verða sterkir í trúnni. (Rómverjabréfið 15:1; 1. Þessaloníkubréf 5:14) Og jafnvel þó að ástvinur fari af réttri braut vonum við að hann komi einhvern tíma til sjálfs sín og snúi aftur til Jehóva, líkt og týndi sonurinn í dæmisögu Jesú. – Lúkas 15:17, 18.
14. Hvernig getur reynt á þolgæði okkar innan safnaðarins og hvernig hjálpar kærleikurinn okkur?
14 „Kærleikurinn … er þolgóður í öllu.“ Við getum umborið alls konar vonbrigði og erfiðleika ef við erum þolgóð. Það er ekki aðeins utan safnaðarins sem reynir á þolgæði okkar. Stundum reynir líka á það innan hans. Bræður valda okkur stöku sinnum vonbrigðum af því að þeir eru ófullkomnir. Hugsunarlaus orð geta sært tilfinningar okkar. (Orðskviðirnir 12:18) Ef til vill finnst okkur að það ætti að taka eitthvert mál innan safnaðarins öðrum tökum en gert er. Virtur bróðir gerir kannski eitthvað sem kemur okkur í uppnám og við spyrjum okkur hvernig kristinn maður geti hegðað sér þannig. Hvað gerum við ef eitthvað slíkt kemur upp á? Fjarlægjumst við söfnuðinn og hættum að þjóna Jehóva? Ekki ef við höfum kærleika. Já, kærleikurinn hindrar að við blindumst svo af göllum eða veikleikum einhvers bróður að við hættum að sjá hið góða í fari hans eða hið góða í söfnuðinum. Kærleikurinn gerir okkur kleift að vera Guði trú og styðja söfnuðinn, hvað sem önnur ófullkomin manneskja segir eða gerir. – Sálmur 119:165.
Hvernig er kærleikurinn ekki?
15. Hvers vegna er öfund skaðleg og hvernig hjálpar kærleikurinn okkur að forðast hana?
15 „Kærleikurinn öfundar ekki.“ Við ættum ekki að öfunda aðra, hvorki af eigum þeirra, blessunum, getu né færni. Öfund er eigingjörn og skaðleg og getur spillt friði safnaðarins ef hún fær lausan tauminn. Hvernig getum við spornað gegn öfundartilhneigingunni? (Jakobsbréfið 4:5) Með kærleikanum. Þessi verðmæti eiginleiki auðveldar okkur að gleðjast með þeim sem virðast að einhverju leyti betur settir í lífinu en við. (Rómverjabréfið 12:15) Kærleikurinn hjálpar okkur að líta ekki á það sem persónulega móðgun ef einhverjum öðrum er hrósað fyrir einstaka hæfileika eða frábæran árangur.
16. Hvers vegna gortum við ekki af því sem við gerum í þjónustu Jehóva ef við elskum bræður okkar í raun og veru?
16 „Kærleikurinn … gortar ekki, er ekki montinn.“ Kærleikurinn kemur í veg fyrir að við flíkum hæfileikum okkar eða afrekum. Ef við elskum bræðurna er óhugsandi að við séum sí og æ að monta okkur af árangri í boðuninni eða þjónustuverkefnum í söfnuðinum. Ef við gerðum það gæti öðrum fundist þeir standa okkur að baki og þeir gætu orðið niðurdregnir. Kærleikurinn leyfir okkur ekki að gorta af því sem við fáum að gera í þjónustu Guðs. (1. Korintubréf 3:5–9) Kærleikurinn „er ekki montinn“ eða „ofmetur ekki mikilvægi sitt“ eins og það er orðað í annarri þýðingu. Kærleikurinn kemur í veg fyrir að við lítum stórt á sjálf okkur. – Rómverjabréfið 12:3.
17. Hvernig sýnum við öðrum tillitssemi ef við erum kærleiksrík og hvers konar framkomu forðumst við?
17 „Kærleikurinn … hegðar sér ekki ósæmilega.“ Sá sem hegðar sér ósæmilega er móðgandi eða dónalegur í framkomu. Það ber ekki vitni um kærleika heldur algera lítilsvirðingu fyrir tilfinningum og velferð annarra. Kærleikurinn er aftur á móti viðfelldinn og tillitssamur. Hann stuðlar að góðum mannasiðum, hegðun sem Guð hefur velþóknun á og einnig virðingu fyrir trúsystkinum okkar. Kærleikurinn leyfir okkur ekki að vera ‚skammarleg í hegðun‘, eða hegða okkur á nokkurn þann hátt sem gæti hneykslað eða móðgað trúsystkini okkar. – Efesusbréfið 5:3, 4.
18. Hvers vegna heimtar kærleiksríkur maður ekki að allt sé gert eftir hans höfði?
18 „Kærleikurinn … hugsar ekki um eigin hag.“ Önnur biblíuþýðing talar um að kærleikurinn ‚heimti ekki að fá vilja sínum framgengt‘. Kærleiksríkur maður krefst þess ekki að allt sé gert eftir hans höfði, rétt eins og skoðanir hans séu alltaf þær einu réttu. Hann ráðskast ekki með aðra né reynir með fortölum að lýja þá sem eru á öðru máli en hann. Slík þrjóska bæri vott um visst stolt og „stolt leiðir til falls“ eins og Biblían segir. (Orðskviðirnir 16:18) Ef við elskum trúsystkini okkar í alvöru virðum við skoðanir þeirra og erum eftirgefanleg þegar það er hægt. Það er í samræmi við orð Páls: „Hugsið ekki um eigin hag heldur hag annarra.“ – 1. Korintubréf 10:24.
19. Hvernig hjálpar kærleikurinn okkur þegar aðrir móðga okkur?
19 „Kærleikurinn … er ekki reiðigjarn … heldur ekki reikning yfir rangindi.“ Kærleikurinn er ekki gjarn á að reiðast orðum eða gerðum annarra. Það er að vísu eðlilegt að reiðast þegar aðrir móðga okkur. En jafnvel þó að við reiðumst með réttu látum við ekki reiðina sitja í okkur. (Efesusbréfið 4:26, 27) Við erum ekki langminnug á meiðandi orð eða gerðir, rétt eins og við höldum bókhald yfir þau til að þau gleymist ekki, heldur fær kærleikurinn okkur til að líkja eftir Jehóva Guði. Hann fyrirgefur þegar það er skynsamleg ástæða til þess, eins og fram kom í 26. kafla. Hann gleymir þegar hann fyrirgefur, það er að segja að hann notar ekki þessar syndir gegn okkur einhvern tíma síðar. Erum við ekki þakklát fyrir að Jehóva skuli ekki halda reikning yfir rangindi?
20. Hvernig ættum við að bregðast við ef trúsystkini festir sig í snöru syndar og líður fyrir það?
20 „Kærleikurinn … gleðst ekki yfir ranglæti.“ Önnur biblíuþýðing segir: „Kærleikurinn … hlakkar ekki yfir syndum annarra manna.“ Og sú þriðja kemst svo að orði: „Kærleikurinn gleðst aldrei þegar aðrir gera rangt.“ Kærleikurinn hefur enga ánægju af ranglætinu þannig að við gerum aldrei lítið úr siðleysi af neinu tagi. Hver eru viðbrögð okkar ef trúsystkini festir sig í snöru syndarinnar og líður fyrir það? Kærleikurinn leyfir okkur ekki að fagna og segja: Gott á hann! Hann átti þetta skilið! (Orðskviðirnir 17:5) Við fögnum hins vegar þegar bróðir bætir ráð sitt eftir að hafa orðið eitthvað á.
„Langtum betri leið“
21–23. (a) Hvað átti Páll við þegar hann sagði að ‚kærleikurinn brygðist aldrei‘? (b) Um hvað er fjallað í síðasta kafla bókarinnar?
21 „Kærleikurinn bregst aldrei.“ Hvað átti Páll við þegar hann sagði þetta? Eins og samhengið ber með sér var hann að ræða um náðargáfur andans meðal frumkristinna manna. Náðargáfurnar voru merki þess að Guð hefði velþóknun á hinum nýmyndaða söfnuði. En það gátu ekki allir kristnir menn læknað, spáð eða talað tungum. Það skipti hins vegar ekki máli því að náðargáfurnar áttu hvort eð er að líða undir lok þegar fram liðu stundir. En það var annað sem átti að standa óhaggað og það gátu allir kristnir menn ræktað með sér. Það var betra og varanlegra en nokkur náðargáfa. Páll kallaði það meira að segja „langtum betri leið“. (1. Korintubréf 12:31) Þessi „langtum betri leið“ var kærleikurinn.
22 Hinn kristni kærleikur, sem Páll lýsir, „bregst aldrei“. Hann líður aldrei undir lok. Fórnfús bróðurkærleikur er enn þann dag í dag aðalsmerki þeirra sem fylgja Jesú í raun og veru. Sjáum við ekki slíkan kærleika að verki í söfnuðum þjóna Jehóva um alla jörðina? Þessi kærleikur varir að eilífu því að Jehóva lofar trúföstum þjónum sínum eilífu lífi. (Sálmur 37:9–11, 29) Gerum okkar besta til að halda áfram að ‚lifa í kærleika‘. Þá njótum við hamingjunnar sem fylgir því að gefa. Og síðast en ekki síst getum við haldið áfram að lifa – já, og elska – um alla eilífð að fyrirmynd Jehóva, Guðs kærleikans.
Þjónar Jehóva þekkjast á því að þeir elska hver annan.
23 Með þessum kafla lýkur umfjöllun okkar um kærleikann. Við höfum fjallað um það hvernig við getum sýnt að við elskum hvert annað. En þegar til þess er litið á hve marga vegu við njótum góðs af kærleika Jehóva – og mætti hans, réttlæti og visku – þá er ekki úr vegi að spyrja hvernig við getum sýnt Jehóva að við elskum hann í raun og sannleika. Þessari spurningu er svarað í síðasta kaflanum.
a Kristinn kærleikur er vitanlega ekki auðtrúa. Biblían hvetur okkur til að „hafa auga með þeim sem valda sundrung og verða öðrum að falli“, og ‚forðast þá‘. – Rómverjabréfið 16:17.