Virtu þá sem fara með yfirráð
„Virðið alla menn, elskið bræðrafélagið, óttist Guð, heiðrið keisarann.“ —1. Pétursbréf 2:17.
1, 2. Hvaða augum lítur fólk völd og yfirráð nú á tímum? Hvers vegna?
„KRAKKAR þykjast alltaf hafa á réttu að standa. Foreldrum er engin virðing sýnd,“ segir móðir mæðulega. „Véfengdu yfirráð“ stendur á stuðaralímmiða. Þessi tvenn ummæli endurspegla mjög útbreidda afstöðu sem hefur eflaust ekki farið fram hjá þér — hið almenna virðingarleysi fyrir foreldrum, kennurum, vinnuveitendum og embættismönnum í heimi nútímans.
2 Sumir yppta bara öxlum og segja að fólk í valdastöðu verðskuldi ekki virðingu. Það getur stundum verið erfitt að neita því. Stöðugt berast fréttir um spillta embættismenn, ágjarna vinnuveitendur, vanhæfa kennara og lastmála foreldra. Sem betur fer hafa fáir kristnir menn þessa afstöðu til yfirráða innan safnaðarins. — Matteus 24:45-47.
3, 4. Hvers vegna eiga kristnir menn að virða þá sem eru í valdastöðu?
3 Það er „nauðsynlegt“ að við virðum þá sem fara með yfirráð í þjóðfélaginu. Páll postuli hvetur kristna menn til að ‚hlýða yfirvöldum því ekki sé neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau séu skipuð af Guði.‘ (Rómverjabréfið 13:1, 2, 5; 1. Pétursbréf 2:13-15) Hann bendir líka á gilda ástæða fyrir því að lúta yfirráðum í fjölskyldunni: „Þér konur, verið undirgefnar mönnum yðar, eins og sómir þeim, er Drottni heyra til. Þér börn, verið hlýðin foreldrum yðar í öllu, því að það fer þeim vel, sem Drottni heyra til.“ (Kólossubréfið 3:18, 20) Safnaðaröldungar verðskulda virðingu okkar „þar sem heilagur andi hefur skipað [þá] umsjónarmenn, til að gæta safnaðar Guðs.“ (Postulasagan 20:28, NW) Við virðum mannleg yfirvöld vegna virðingar fyrir Jehóva og virðing fyrir yfirráðum hans gengur fyrir öðru í lífi okkar. — Postulasagan 5:29.
4 Með hið æðsta yfirvald Jehóva í huga skulum við athuga dæmi um menn sem virtu ekki þá sem fóru með yfirráð og aðra sem virtu þá.
Virðingarleysi kallar á vanþóknun
5. Hvaða virðingarleysi sýndi Míkal Davíð og hvaða afleiðingar hafði það?
5 Saga Davíðs konungs sýnir hvaða augum Jehóva lítur þá sem vanvirða yfirráð frá honum. Þegar Míkal, kona Davíðs, sá hann „hoppa og dansa fyrir [Jehóva]“ þegar hann flutti sáttmálsörkina til Jerúsalem „fyrirleit hún hann í hjarta sínu.“ Í stað þess að virða hann sem höfuð fjölskyldunnar og konung landsins sagði hún kaldhæðnislega: „Tígulegur var Ísraelskonungurinn í dag, þar sem hann beraði sig í dag í augsýn ambátta þjóna sinna, eins og þegar einhver af argasta skrílnum berar sig!“ Fyrir vikið var hún barnlaus til dauðadags. — 2. Samúelsbók 6:14-23.
6. Hvernig leit Jehóva á virðingarleysi Kóra fyrir hinum smurða?
6 Kóra er annað svívirðilegt dæmi um mann sem virti ekki guðræðislega skipaða forystu. Hann var Kahatíti og hafði þau sérréttindi að þjóna við altari Jehóva. Samt fann hann að Móse og Aroni sem Guð hafði skipað leiðtoga Ísraelsmanna. Hann tók höndum saman við aðra höfðingja Ísraels gegn Móse og Aroni og sagði óskammfeilinn: „Allur söfnuðurinn er heilagur, og [Jehóva] er meðal þeirra. Hví hefjið þið ykkur þá upp yfir söfnuð [Jehóva]?“ Hvað fannst Jehóva um afstöðu Kóra og fylgismanna hans? Hann leit á það sem virðingarleysi við sig. Jörðin svalg alla stuðningsmenn Kóra áður en hann og höfðingjarnir 250 urðu eldi frá Jehóva að bráð. — 4. Mósebók 16:1-3, 28-35.
7. Höfðu ‚hinir stórmiklu postular‘ nokkra ástæðu til að gagnrýna forystu Páls?
7 Í kristna söfnuðinum á 1. öld gerðu sumir lítið úr guðræðislegum yfirráðum. ‚Hinir stórmiklu postular‘ í Korintusöfnuðinum sýndu Páli virðingarleysi og settu út á ræðumennsku hans með því að segja að ‚hann væri lítill fyrir mann að sjá og enginn tæki mark á ræðu hans.‘ (2. Korintubréf 10:10; 11:5) Óháð því hvernig ræðumaður Páll var átti hann skilið að sér væri sýnd virðing sem postuli. En var rétt að enginn tæki mark á ræðu hans? Ræður Páls í Biblíunni bera því glöggt vitni að hann var sannfærandi ræðumaður. Heródes Agrippa konungur 2., sem ‚þekkti öll ágreiningsmál Gyðinga,‘ fann sig knúinn til að segja eftir stutt samtal við hann: „Lítið vantar á, að þú gjörir mig kristinn.“ (Postulasagan 13:15-43; 17:22-34; 26:1-28, vers 28 samkvæmt Biblíunni 1912 neðanmáls.) Samt sögðu hinir stórmiklu postular í Korintu að enginn tæki mark á ræðu hans! Hvað fannst Jehóva um afstöðu þeirra? Í bréfi til umsjónarmanna í Efesussöfnuði fór Jesús Kristur lofsamlegum orðum um þá sem neituðu að láta menn, ‚sem sögðu sjálfa sig vera postula en voru það ekki,‘ leiða sig afvega. — Opinberunarbókin 2:2.
Virðing þrátt fyrir ófullkomleika
8. Hvernig sýndi Davíð að hann virti þau yfirráð sem Jehóva fékk Sál?
8 Í Biblíunni eru fjöldamörg dæmi um einstaklinga sem virtu forystu, jafnvel þótt forystumennirnir misbeittu valdi sínu. Davíð var gott dæmi um þetta. Þegar hann þjónaði Sál konungi varð Sál öfundsjúkur vegna afreka hans og reyndi að drepa hann. (1. Samúelsbók 18:8-12; 19:9-11; 23:26) Þótt Davíð gæfist margsinnis færi á að drepa Sál sagði hann: „[Jehóva] láti það vera fjarri mér að leggja hendur á [Jehóva] smurða.“ (1. Samúelsbók 24:4-7; 26:7-13) Hann vissi að Sál var sekur en lét Jehóva um að dæma hann. (1. Samúelsbók 24:13, 16; 26:22-24) Hann talaði hvorki illa um Sál né við hann.
9. (a) Hvernig leið Davíð þegar Sál ofsótti hann? (b) Hvernig sést að virðing Davíðs fyrir Sál var einlæg?
9 Var Davíð miður sín þegar hann var órétti beittur? „Ofríkismenn sækjast eftir lífi mínu,“ kallaði hann til Jehóva. (Sálmur 54:5) Hann úthellti hjarta sínu fyrir honum og sagði: „Frelsa mig frá óvinum mínum, Guð minn . . . Hinir sterku áreita mig, þótt ég hafi ekki brotið eða syndgað, [Jehóva]. Þótt ég hafi eigi misgjört, hlaupa þeir að og búast til áhlaups. Vakna þú mér til liðveislu og lít á!“ (Sálmur 59:2-5) Hefur þér einhvern tíma liðið þannig, fundist einhver í valdastöðu gera þér lífið leitt þótt þú hafir ekki gert honum neitt? Davíð virti Sál undir öllu kringumstæðum. Hann orti harmljóð þegar Sál dó í stað þess að kætast: „Sál og Jónatan, ástúðugir og ljúfir í lífinu . . . Þeir voru örnum léttfærari, ljónum sterkari. Ísraels dætur, grátið Sál!“ (2. Samúelsbók 1:23, 24) Davíð er afbragðsdæmi um mann sem sýndi einlæga virðingu fyrir hinum smurða Jehóva enda þótt honum hafi verið gert rangt til.
10. Hvaða gott fordæmi gaf Páll með því að virða forystu hins stjórnandi ráðs og til hvers leiddi það?
10 Til eru framúrskarandi dæmi um virðingu fyrir yfirráðum eftir að kristnin kom til sögunnar. Má þar nefna Pál. Hann virti ákvarðanir hins stjórnandi ráðs kristna safnaðarins á fyrstu öld. Þegar hann heimsótti Jerúsalem í síðasta sinn ráðlagði hið stjórnandi ráð honum að hreinsa sig trúarlega til að sýna að hann bæri engan kala til Móselögmálsins. Páll hefði getið hugsað eitthvað á þessa leið: ‚Þessir bræður hafa áður skipað mér að yfirgefa Jerúsalem þegar líf mitt var í hættu. Nú vilja þeir að ég sýni opinberlega að ég virði Móselögmálið. Ég hef þegar skrifað til Galatamanna og hvatt þá til að hætta að fylgja lögmálinu. Ef ég fer í musterið gætu sumir misskilið það og litið á það sem tilslökun við umskurnarsinna.‘ En Páll hugsaði greinilega ekki þannig. Þar eð ekki var um tilslökun við kristnar meginreglur að ræða virti hann ráðleggingar hins stjórnandi ráðs fyrstu aldar og fylgdi þeim. Strax á eftir varð að bjarga honum undan æstum gyðingaskríl og hann þurfti að sitja tvö ár í fangelsi. En þegar upp var staðið var vilji Guðs gerður. Páll vitnaði fyrir háttsettum embættismönnum í Sesareu og var fluttur á kostnað ríkisins til Rómar þar sem hann bar vitni fyrir sjálfum keisaranum. — Postulasagan 9:26-30; 21:20-26; 23:11; 24:27; Galatabréfið 2:12; 4:9, 10.
Sýnir þú virðingu?
11. Hvernig getum við sýnt veraldegum yfirvöldum virðingu?
11 Sýnirðu valdsmönnum tilhlýðilega virðingu? Kristnum mönnum er fyrirskipað að gjalda „öllum það sem skylt er: . . . þeim virðing, sem virðing ber.“ Undirgefni við ‚yfirvöld‘ felur ekki aðeins í sér að gjalda skatta heldur að sýna yfirvöldunum virðingu með tali okkar og hegðun. (Rómverjabréfið 13:1-7) Hvernig bregstu við þegar embættismenn grípa til harkalegra aðgerða? Yfirvöld sveitarfélags í Chiapasríki í Mexíkó tóku bújarðir 57 vottafjölskyldna eignarnámi vegna þess að þær vildu ekki taka þátt í vissum trúarhátíðum. Vottarnir voru hreinir og snyrtilegir til fara á sáttafundunum, sem í hönd fóru, og töluðu alltaf kurteislega og með virðingu. Meira en ári síðar var dómur kveðinn upp í málinu þeim í vil. Framkoma þeirra ávann þeim slíkrar virðingar að sumir, sem með málinu fylgdust, vildu gerast vottar Jehóva!
12. Hvers vegna er mikilvægt að sýna vantrúuðum eiginmanni ‚djúpa virðingu‘?
12 Hvernig geturðu sýnt að þú virðir yfirráð í fjölskyldunni? Eftir að hafa rætt um hvernig Jesús þoldi illt segir Pétur postuli: „Sömuleiðis skuluð þér, konur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem ef til vill ekki vilja hlýða orðinu, gætu unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá yðar skírlífu hegðun í ótta [„ásamt djúpri virðingu,“ NW].“ (1. Pétursbréf 3:1, 2, Biblían 1912; Efesusbréfið 5:22-24) Hér leggur Pétur áherslu á að eiginkona sýni manni sínum undirgefni sökum ‚djúprar virðingar,‘ jafnvel þótt sumir eiginmenn geri kannski fátt til að verðskulda hana. Virðing eiginkonu fyrir vantrúuðum eiginmanni getur orðið til að hann vinnist orðalaust.
13. Hvernig virðir eiginkona mann sinn?
13 Í versunum á eftir beinir Pétur athyglinni að Söru sem var gift trúmanninum Abraham. (Rómverjabréfið 4:16, 17; Galatabréfið 3:6-9; 1. Pétursbréf 3:6) Á eiginkona með trúaðan maka að virða mann sinn minna en eiginkona með vantrúaðan maka? Hvað ef þú ert ósammála honum í einhverju? Jesús gaf þessi almennu ráð: „Neyði einhver þig með sér eina mílu, þá far með honum tvær.“ (Matteus 5:41) Virðirðu eiginmann þinn með því að verða við óskum hans? Ef þú átt erfitt með það skaltu segja honum hvernig þér er innanbrjósts. Gerðu ekki ráð fyrir að hann viti hvernig þér líði, en sýndu tilhlýðilega virðingu þegar þú segir honum það. Biblían hvetur: „Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.“ — Kólossubréfið 4:6.
14. Hvað felur það í sér að heiðra foreldra?
14 Hvað um börnin? Orð Guðs segir: „Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt. ‚Heiðra föður þinn og móður,‘ — það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti.“ (Efesusbréfið 6:1-3) Taktu eftir að hlýðni við foreldra er lagt að jöfnu við að virða eða ‚heiðra föður sinn og móður.‘ Gríska orðið, sem þýtt er „heiðra,“ merkir að „meta mikils“ eða „leggja hátt matsverð á.“ Hlýðni felur því meira í sér en að fylgja með semingi foreldrareglum sem manni finnst ósanngjarnar. Guð vill að þú metir foreldra þína mikils og hafir leiðsögn þeirra í hávegum. — Orðskviðirnir 15:5.
15. Hvernig geta börn sýnt foreldrum sínum virðingu jafnvel þótt þau telji þá hafa gert mistök?
15 En hvað ef foreldrar þínir gera eitthvað sem dregur úr virðingu þinni fyrir þeim? Reyndu að sjá málin frá sjónarhóli þeirra. Hafa þeir ekki „getið þig“ og alið önn fyrir þér? (Orðskviðirnir 23:22) Stjórnast þeir ekki af kærleika til þín? (Hebreabréfið 12:7-11) Talaðu vinsamlega við þá og segðu þeim með stillingu hvernig þér er innanbrjósts. Forðastu að vera ókurteis í tali ef viðbrögð þeirra eru þér ekki að skapi. (Orðskviðirnir 24:29) Mundu hvernig Davíð hélt áfram að virða Sál konung jafnvel þótt Sál hætti að fylgja ráðleggingum Guðs. Biddu Jehóva um að hjálpa þér að glíma við tilfinningarnar. „Úthellið hjörtum yðar fyrir honum,“ sagði Davíð. „Guð er vort hæli.“ — Sálmur 62:9; Harmljóðin 3:25-27.
Virtu þá sem fara með forystuna
16. Hvaða lærdóm drögum við af fordæmi falskennara og engla?
16 Safnaðaröldungar eru útnefndir af heilögum anda. En þrátt fyrir það eru þeir ófullkomnir og gera mistök. (Sálmur 130:3; Prédikarinn 7:20; Postulasagan 20:28; Jakobsbréfið 3:2) Óánægja í garð öldunganna getur kviknað í brjósti sumra safnaðarmanna. Hvernig eigum við að bregðast við þegar við teljum ekki alveg rétt tekið á einhverju safnaðarmáli eða okkur virðist það að minnsta kosti? Taktu eftir muninum á falskennurum fyrstu aldar og englunum: „Þessir fífldjörfu sjálfbirgingar [falskennararnir] skirrast ekki við að lastmæla tignum. Jafnvel englarnir, sem eru þeim meiri að mætti og valdi, fara ekki með guðlast [„vegna virðingar fyrir Jehóva,“ NW].“ (2. Pétursbréf 2:10-13) Þótt falskennararnir lastmæltu „tignum“ — öldungum sem fóru með yfirráð í kristna söfnuðinum á fyrstu öld — lastmæltu englarnir ekki falskennurunum sem ollu sundrungu meðal bræðranna. Englarnir, sem eru hærra settir og með næmara réttlætisskyn en menn, vissu hvað var á seyði í söfnuðinum en létu Jehóva um að dæma „vegna virðingar fyrir“ honum. — Hebreabréfið 2:6, 7; Júdasarbréfið 9.
17. Hvernig kemur trúin inn í myndina ef þér finnst að öldungarnir hafi á röngu að standa í einhverju máli?
17 Jafnvel þótt málsmeðhöndlun sé ekki alveg eins og vera ber ættum við að treysta Jesú Kristi, höfði kristna safnaðarins. Hann veit hvað er að gerast í söfnuði sínum um allan heim. Ættum við ekki að virða það hvernig hann tekur á málum og viðurkenna að hann sé fær um að stýra þeim? ‚Hver erum við sem dæmum náungann?‘ (Jakobsbréfið 4:12; 1. Korintubréf 11:3; Kólossubréfið 1:18) Hví ekki að leggja áhyggjur þínar fyrir Jehóva í bæn?
18, 19. Hvað geturðu gert ef þú telur að öldungi hafi orðið á mistök?
18 Erfiðleikar og vandamál geta skotið upp kollinum vegna mannlegs ófullkomleika. Stundum getur öldungi orðið á mistök og raskað ró sumra. Hvatvísleg viðbrögð af okkar hálfu bæta ekki úr skák heldur geta gert illt verra. Andleg hyggni fær okkur til að bíða þess að Jehóva komi málum í rétt horf og veiti þann aga sem þarf þegar hann telur tímabært og á þann hátt sem hann ákveður. — 2. Tímóteusarbréf 3:16; Hebreabréfið 12:7-11.
19 Hvað áttu að gera ef þú ert miður þín út af einhverju máli? Leitaðu til öldunganna í stað þess að ræða um það við aðra í söfnuðinum. Útskýrðu hvernig þér líður án þess að vera gagnrýninn. Sýndu ‚hluttekningu‘ og tilhlýðilega virðingu þegar þú trúir þeim fyrir málum þínum. (1. Pétursbréf 3:8) Gríptu ekki til napuryrða heldur reiddu þig á kristilegan þroska þeirra. Þiggðu þá biblíulegu hvatningu sem þeir kunna að veita þér. Og sé frekari aðgerða þörf skaltu treysta því að Jehóva leiði öldungana svo að þeir geri það sem er gott og rétt. — Galatabréfið 6:10; 2. Þessaloníkubréf 3:13.
20. Um hvað verður fjallað í næstu grein?
20 En það er að fleiru að hyggja í sambandi við að heiðra og virða þá sem fara með yfirráð. Eiga ekki þeir sem fara með yfirráð að virða þá sem eru í umsjá þeirra? Um það verður fjallað í næstu grein.
Hvert er svarið?
• Hvaða góða ástæðu höfum við til að virða þá sem fara með yfirráð?
• Hvaða augum líta Jehóva og Jesús þá sem virða ekki yfirráð?
• Hvaða góð fordæmi höfum við um menn og konur sem virtu yfirráð?
• Hvað getum við gert ef einhverjum, sem fer með yfirráð yfir okkur, virðist hafa orðið á mistök?
[Mynd á blaðsíðu 19]
Sara bar djúpa virðingu fyrir yfirráðum Abrahams og var hamingjusöm.
[Mynd á blaðsíðu 20]
Míkal virti ekki húsbónda- og konungsvald Davíðs.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Leggðu áhyggjur þínar fyrir Jehóva í bæn.
[Mynd á blaðsíðu 23]
„Láti það vera fjarri mér að leggja hendur á hinn smurða [Jehóva].“