Eignastu frið við Guð með vígslu og skírn
„Og [Jehóva] sagði . . . ‚Engan mann skuluð þér snerta, sem merkið er á.‘ “ — ESEKÍEL 9:4, 6.
1, 2. (a) Hvers vegna á fólk almennt ekki frið við Guð? (b) Hvers vegna er lífsnauðsynlegt að allir eignist slíkan frið?
AÐ eignast frið við Guð? Hvers vegna? Fáir telja sig eiga í nokkrum ófriði við Guð. En er mögulegt að vera hreinn og beinn óvinur Guðs án þess að gera sér það ljóst? Páll postuli sagði kristnum mönnum á fyrstu öld: „Vér lifðum fyrrum allir eins og þeir í mannlegum girndum vorum. Þá lutum vér vilja holdsins og hugsana vorra og vorum að eðli til reiðinnar börn alveg eins og hinir.“ — Efesusbréfið 2:3.
2 Eins er það núna að þótt þér sé það hugleikið að þóknast Guði þá getur erfðasyndin frá Adam haft áhrif á viðhorf þín og komið þér til að fara eftir „vilja holdsins.“ Jafnvel þótt þú sért að nema Biblíuna með hjálp votta Jehóva eða sért óskírður unglingur og eigir votta fyrir foreldra, getur það eigingjarna viðhorf að gera eins og þér sjálfum sýnist ráðið mestu í lífi þínu og gert þig fjarlægan Guði. Sá sem heldur slíkri stefnu ‚safnar sjálfum sér reiði.‘ (Rómverjabréfið 2:5; Kólossubréfið 1:21; 3:5-8) Guð mun gefa reiði sinni lausan tauminn á þeim „reiðidegi, er réttlátur dómur Guðs verður opinber,“ og dagur sá nálgast óðfluga. (Rómverjabréfið 1:28-2:6) Hvernig getur þú eignast frið við Guð og lifað af þennan ‚reiðidag‘?
Grundvöllur friðar
3. Hvernig lagði Guð grundvöll að sáttum við sig?
3 Jehóva átti frumkvæðið að því að hjálpa. „Hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar.“ (1. Jóhannesarbréf 4:10) Fórnardauði Jesú friðþægir eða fullnægir réttlæti Jehóva. Hann er honum lagalegur grundvöllur til að fyrirgefa syndir og eyða að lokum allri óvináttu milli Guðs og manna. Já, það er hægt að fá „sættir við hann með dauða sonar hans,“ eins og Páll postuli skrifaði. — Rómverjabréfið 5:8-10.
4. Hvaða mikilvæga sýn fékk Esekíel að sjá og hvers vegna hefur hún þýðingu fyrir okkur?
4 Til að hafa sjálf gagn af fórn Krists verðum við hins vegar að stíga ákveðin skref. Þessi skref koma fram í leikrænni sýn sem spámaðurinn Esekíel sá, sýn sem uppfyllist nú á okkar dögum þegar ‚reiðidagur‘ Guðs er yfirvofandi. Aftökusveitir Guðs birtast í gervi sex vopnaðra manna. Áður en þeir gefa reiði Guðs lausan tauminn er sjöunda manninum, sem ber skriffæri, sagt: „ ‚Gakk þú mitt í gegn um borgina, . . . og set merki á enni þeirra manna, sem andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum, sem framdar eru inni í henni.‘ En til hinna [sex vopnuðu manna] mælti hann að mér áheyrandi: ‚Farið á eftir honum um borgina og höggvið niður, . . . en engan mann skuluð þér snerta, sem merkið er á.‘ “ — Esekíel 9:1-6.
5. Hvað leiðir til iðrunar?
5 Þá sem fengu „merki“ til verndar hryllti við því hvernig menn, sem sögðust dýrka hinn sanna Guð, höfðu ‚fyllt landið ofbeldi,‘ stunduðu siðleysi, skurðgoðadýrkun og alls konar rangsleitni. (Esekíel 8:5-18; Jeremía 7:9) Eins þurfa þeir nútímamenn, sem vilja fá „merki,“ fyrst að læra með reglulegu námi í Biblíunni að meta staðla Guðs að verðleikum og finna til hryggðar í hjarta sér, já, „andvarpa og kveina“ yfir kenningum og hátterni sem svívirðir Guð. Ef til vill hafa sumir vegna fávisku stundað ranga breytni eða ýtt undir hana með einum eða öðrum hætti. En nú eru þeir farnir að skoða slíkt hátterni sömu augum og Guð — sem viðurstyggilegt! (Rómverjabréfið 1:24-32; Jesaja 2:4; Opinberunarbókin 18:4; Jóhannes 15:19) Þessi viðhorfsbreyting fær þá til að stíga eitthvert fyrsta skrefið til að eignast frið við Guð — að iðrast. Pétur postuli hvatti: „Gjörið því iðrun og snúið yður, að syndir yðar verði afmáðar. Þá munu koma endurlífgunartímar [ekki reiði] frá augliti [Jehóva].“ (Postulasagan 3:19, 20) Slík fyrirgefning er mjög hressandi!
Að fá „merkið“
6. Af hvaða tilefni voru menn stundum merktir til forna?
6 Til að umflýja reiði Guðs urðu þeir sem ‚andvörpuðu og kveinuðu‘ að fá merki á enni sér. (Esekíel 9:4) Til forna voru þrælar oft merktir á enninu til að auðvelt væri að þekkja þá. Greinilegt merki á enni manna eða annars staðar gat líka verið tákn þess að sá sem það bar tilbæði ákveðinn guðdóm.a (Samanber Jesaja 44:5.) Hvert er þá á okkar dögum hið auðkennandi merki sem sýnir að maðurinn sé sannur dýrkandi og þræll Jehóva og skiptir sköpum um líf eða dauða?
7. Hvert er hið táknræna merki?
7 Þetta merki er sönnun, sem birtist hún á beru enni okkar, um að (1) við séum vígðir, skírðir lærisveinar Jesú Krists og (2) höfum íklæðst hinum nýja persónuleika sem líkist Kristi. (Efesusbréfið 4:20-24) Þeir sem þannig eru ‚merktir‘ þurfa fyrst að vígja sig Guði og við þurfum þess vegna að vita hvað í því felst. Jesús svarar því: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.“ — Markús 8:34.
8, 9. (a) Hvað merkir það að ‚afneita sjálfum sér‘? (b) Með hvaða dæmi má lýsa því hvers vígsla krefst af okkur?
8 Gríska orðið, sem þýtt er „að afneita,“ merkir „að vísa algerlega á bug“ eða „að afsala sér.“ Það að ‚afneita sjálfum sér‘ felur því meira í sér en aðeins að neita sér um ákveðinn munað eða nautn af og til. Það merkir að vera fús til að segja nei við sjálfan sig að því er varðar að láta líf sitt stjórnast af persónulegum löngunum og metnaði. Ef við skoðum hvernig þetta orð er þýtt á ýmsum tungumálum hjálpar það okkur að skilja hvað í orðum Jesú felst: „Að hætta að gera það sem hjartað vill“ (Tzeltal, Mexíkó), „að tilheyra ekki sjálfum sér lengur“ (Kanjobal, Guatemala) og „að snúa baki við sjálfum sér“ (javanska, Indónesía). Já, þetta felur í sér skilyrðislausa helgun, ekki aðeins skuldbindingu sem hægt er að gera í sambandi við fjöldamargt.
9 Kristin kona að nafni Susan, sem áður var mjög sjálfstæð, skýrir svo hvað vígsla þýddi fyrir hana: „Ég var að afsala mér sjálfri mér í hendur einhverjum öðrum. Nú er það Jehóva sem ákveður stefnu mína, segir mér hvað ég eigi að gera, segir mér hvað eigi að koma á undan öðru.“ Ert þú fús til að vígja þig jafnskilyrðislaust til að gera vilja Guðs? Mundu að hið táknræna merki segir að þú „tilheyrir“ Guði, sért hamingjusamur þræll hans. — Samanber 2. Mósebók 21:5, 6; Rómverjabréfið 14:8.
10. Hvað ber að íhuga áður en vígsla á sér stað?
10 „Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn, og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu?“ spurði Jesús. (Lúkas 14:28) Spyrðu því sjálfan þig hvort þú sért fús til að: Sækja kristnar samkomur reglulega? (Hebreabréfið 10:25) Halda þann háa siðferðisstaðal sem Guð setur þjónum sínum? (1. Þessaloníkubréf 4:3, 4, 7) Eiga eins mikinn hlut í prédikun Guðsríkis og þú getur? Láta vilja Guðs ganga fyrir þegar þú velur þér starf eða setur þér markmið í lífinu? (Matteus 6:33; Prédikarinn 12:1) Annast skyldur þínar gagnvart fjölskyldunni? (Efesusbréfið 5:22-6:4; 1. Tímóteusarbréf 5:8) Þegar þú hefur vígt þig Guði í einkabæn stígur þú annað skref til að sýna öðrum það opinberlega.
Skírn — fyrir hverja?
11. Hvað táknar skírnin og hvað ávinnst með henni?
11 Jesús gaf boð um að fylgjendur hans létu skírast. (Matteus 28:19, 20) Þeir áttu að láta kaffæra sig í vatni og lyfta sér síðan upp úr því. Líkt og greftrun og upprisa er það góð táknmynd þess að maður deyi gagnvart sjálfselskri lífsbraut og sé endurlífgaður til að gera vilja Guðs. Með því að skírast lætur þú í ljós að þú sért einn votta Jehóva og eigir samfélag við söfnuð Guðs um allan heim.b Skírnin fullgildir alvarlegan samning gerðan við Guð. (Samanber 2. Mósebók 19:3-8.) Líf þitt verður að vera í samræmi við lög hans. (Sálmur 15; 1. Korintubréf 6:9-11) Skírnin, sem vígir þig sem þjón Guðs, er um leið „bæn til Guðs um góða samvisku“ því að þú veist að þú átt nú frið við Guð. — 1. Pétursbréf 3:21.
12. Hvenær verndar „merki“ foreldranna börnin?
12 Ættu jafnvel börn eða unglingar að leiða hugann að skírn? Nú, hvað sagði Jehóva mönnunum sex sem báru vopnin í sýninni? „Öldunga og æskumenn, meyjar og börn og konur skuluð þér brytja niður, en engan mann skuluð þér snerta, sem merkið er á.“ (Esekíel 9:6) Að sjálfsögðu hljóta börn, sem eru of ung til að vígjast Guði, vernd vegna ‚merkis‘ foreldra sinna, annars eða beggja, ef það eða þau leggja sig fram um að ala þau upp til að elska Jehóva og börnin taka hlýðin á móti því. (1. Korintubréf 7:14) En ef barn er komið nægilega til vits og ára til að vígjast Jehóva sjálft og hefur orðið „vit á gott að gjöra“ má ekki ganga að því sem gefnum hlut að „merki“ foreldra þess haldi áfram að vernda það endalaust. — Jakobsbréfið 4:17.
13. Hvað ber að skoða til að ganga úr skugga um hvort unglingur sé tilbúinn til skírnar?
13 Áður en unglingur vígist Guði ætti hann að hafa næga þekkingu til að skilja hvað í því felst og leitast við að eiga persónulegt samband við Guð. Hann ætti að skilja og halda sér við meginreglur Biblíunnar, vitandi að hann mun þurfa að svara fyrir sérhvert brot á þeim. Hann ætti líka að hafa næga reynslu í að tala við aðra um trú sína til að skilja að það er lífsnauðsynlegur þáttur sannrar guðsdýrkunar, og ætti í einlægni að vilja þjóna Guði. Að sjálfsögðu verður þess ekki vænst að hann sýni þroska til jafns við fullvaxta mann, en andleg framför hans ætti að vera nokkuð jöfn og stöðug.
14. Hvers vegna leit ungur piltur á skírn sína sem vernd?
14 Sá sem hefur ‚reiknað kostnaðinn‘ er, þótt ungur sé að árum, í engu lakari aðstöðu en aðrir til að vígjast Guði. Flestir nýir kristnir menn læra að meta Guð enn betur að verðleikum eftir skírn sína. „Að láta skírast sem unglingur var vernd fyrir mig,“ segir Davíð. „Þegar ég eltist veitti ég athygli hvernig sumir óskírðir táningar í söfnuðinum héldu sig vera frjálsa undan yfirvaldi öldunganna og leiddust af þeim sökum út í slæma breytni. En ég mundi alltaf eftir að ég hafði vígt líf mitt Guði, að líf mitt var þegar keypt svo ég gat ekki fylgt slíkum unglingum.“
15. (a) Hvernig vitum við að börn og unglingar geta haft alvarleg viðhorf til sannrar guðsdýrkunar? (b) Hvernig geta foreldrarnir best aðstoðað börnin?
15 Sumir foreldrar velta fyrir sér hvort ekki sé hætta á að kærleikur barna þeirra til sannleikans kólni síðar meir ef þau láta skírast mjög ung. Að sjálfsögðu ætti unglingur ekki að láta skírast aðeins til að þóknast foreldrum sínum eða af því að kunningjarnir gera það. En ekki má gleyma að Jósef, Samúel, Jósía konungur og Jesús höfðu allir á táningaaldri alvarlegt viðhorf til tilbeiðslunnar á Guði og héldu sér við hana. (1. Mósebók 37:2; 39:1-3; 1. Samúelsbók 1:24-28; 2:18-21; 2. Kroníkubók 34:3; Lúkas 2:42-49) Ekki er langt síðan kristin stúlka að nafni Jean lét skírast aðeins tíu ára gömul. Aðspurð síðar hvort hún hefði í raun skilið hvað hún var að gera svaraði hún: „Ég vissi að ég elskaði Jehóva, ég var þakklát fyrir það sem Jesús gerði fyrir okkur og vildi þjóna Jehóva.“ Hún hefur nú þjónað trúföst í um fjóra áratugi síðan hún lét skírast. Engir tveir unglingar eru eins og enginn getur tilgreint ákveðinn staðalaldur þegar taka skuli skírn. Foreldrar ættu að kappkosta að ná til hjartna barna sinna og hjálpa þeim að rækta með sér guðrækni.c Þeir ættu ekki aðeins að halda börnum sínum fyrir hugskotssjónum hvílík sérréttindi það eru að vígjast og skírast, heldur líka að styrkja þau til að vera staðfastir tilbiðjendur Guðs.
Hindranir yfirstignar
16. Hvers vegna er þekking ein saman ekki nóg?
16 Þótt biblíuþekking sé nauðsynleg er ‚merkið‘ meira en aðeins þekking. Í sýninni, sem gefin var Esekíel, höfðu öldungarnir, sem teknir voru af lífi fyrir að færa falsguðum reykelsisfórnir, líklega yfirgripsmikla þekkingu á rituðu orði Jehóva. Hegðun þeirra að baki luktum dyrum bar hins vegar vitni um að þeir væru ekki sannir dýrkendur Guðs. (Esekíel 8:7-12; 9:6) Að vera ‚merktur‘ til björgunar útheimtir því að „íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ — Efesusbréfið 4:22-24.
17. (a) Hvaða hindrun aftrar sumum frá að láta skírast? (b) Hvernig má heimfæra heilræðið í Jakobsbréfinu 4:8?
17 Áhrif hins synduga holds eru óárennilegur þrándur í götu. (Rómverjabréfið 8:7, 8) Sumir veigra sér jafnvel við að láta skírast af því að þeir ráða ekki við einhvern alvarlegan veikleika holdsins eða vilja láta eftir sér óleyfilegan, veraldlegan munað. (Jakobsbréfið 4:1, 4) Þeir sem það gera verða af dýrmætu sambandi. Orð Guðs ráðleggur: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður. Hreinsið hendur yðar, þér syndarar, og gjörið hjörtun flekklaus, þér tvílyndu.“ (Jakobsbréfið 4:8) Einbeittra aðgerða er þörf. Maður nokkur, sem fór að nema Biblíuna, hafði drukkið og neytt fíkniefna í 16 ár og var dauðsjúkur af þeim orsökum. Með einbeitni tókst honum að yfirstíga sína slæmu ávana. „En rétt í þann mund er ég var að sækja fram til vígslu fór kona að nauða í mér um að eiga ástarævintýri með sér,“ sagði hann. „Það var mikil freisting. Þótt konan áliti mig vitlausan sagði ég henni: ‚Ég er að nema Biblíuna með vottum Jehóva og get það ekki.‘ “ Hver var kveikjan að þessum viðbrögðum? „Ég var búinn að sjá hvað Jehóva hafði gert við líf mitt með því að hjálpa mér að hætta drykkjuskap. Hann hjálpaði mér á aðra vegu líka. Það styrkti tengsl mín við hann. Ég gat ekki brugðist honum.“ Þessi maður hafði nálægt sig Guði.
18. Hver er lykillinn að því að yfirstíga hindranir?
18 Það sem hér skiptir máli er ekki hve mikið þú veist heldur hve heitt þú elskar það sem þú veist. Sámur 119:165 segir: „Gnótt friðar hafa þeir er elska [ekki bara þekkja] lögmál þitt, og þeim er við engri hrösun hætt.“ Lykillinn er sá að ‚elska lögmál Guðs,‘ að meta mikils gildi þess í lífi þínu. — Jesaja 48:17, 18.
19, 20. (a) Hvaða hindranir verður að yfirstíga og hverju megum við treysta? (b) Hvaða árangri mun það skila að yfirstíga farsællega allar hindranir?
19 Að sjálfsögðu geta aðrar hindranir verið í veginum. Bróðirinn, sem getið var um hér á undan, sagði: „Ótti við menn var mér þyngstur í skauti. Ég átti nokkra veraldlega ‚vini‘ sem ég var vanur að drekka með. Það erfiðasta fyrir mig var að segja þeim að ég væri hættur félagsskap við þá því ég ætlaði að vígja líf mitt Guði.“ (Orðskviðirnir 29:25) Aðrir hafa mátt horfast í augu við fyrirlitningu fjölskyldunnar. Nýskírð systir, sem sigraðist á andstöðu eiginmanns síns, sagði: „Í staðinn fyrir eina stóra hindrun þurfti ég að yfirstíga margar litlar, eina í einu.“ Það mun styrkja hjarta þitt að yfirstíga trúfastur eina hindrun af annarri eftir því sem þær verða á vegi þínum. Þú mátt vera viss um að engin hindrun er svo stór að þeir sem elska lögmál Jehóva geti ekki yfirstigið hana! — Lúkas 16:10.
20 Þegar þú yfirstígur hverja hindrun af annarri munt þú öðlast „gnótt friðar.“ (Sálmur 119:165) Já, þú munt „ganga óhultur veg þinn og eigi drepa við fæti. . . . Hvílist þú, mun svefninn verða vær. Þú þarft ekki að óttast skyndilega hræðslu, né eyðilegging hinna óguðlegu, þegar hún dynur yfir. Því að [Jehóva] mun vera athvarf þitt.“ — Orðskviðirnir 3:23-26.
[Neðanmáls]
a Um 150 árum eftir sýn Esekíels skrifaði gríski sagnfræðingurinn Heródótus sem veitt hafði athygli að merki áhangenda guðsins Herkúlusar var þeim til verndar: „Ef þræll einhvers manns leitar hælis [í musteri Herkúlusar] og lætur setja á sig heilagt merki, svo að hann sé helgaður guðinum, er ekki löglegt að leggja hendur á hann.“
b Nýlega voru spurningarnar tvær, sem lagðar eru fyrir skírnþega, einfaldaðar til að tryggja að skírnþegar hefðu fullan skilning á hvað í því fælist að eignast náið samband við Guð og jarðneskt skipulag hans.
c Sjá greinina „Kenndu barni þínu að rækta með sér guðrækni“ í Varðturninum þann 1. febrúar 1986.
Til upprifjunar
◻ Hvernig hjálpar Guð okkur að eignast frið við sig?
◻ Hvert er hið táknræna merki til björgunar?
◻ Hver er þýðing vígslu og skírnar?
◻ Hvers konar hindranir þarf að horfast í augu við og hvernig má yfirstíga þær?
[Rammagrein á blaðsíðu 23]
Að dýfa niður eða ausa vatni
Frásagan af skírn Jesú getur þess að hann hafi ‚stigið upp úr vatninu.‘ (Markús 1:10) Það kemur heim og saman við gríska orðið baptisma að Jesús hafi verið skírður niðurdýfingarskírn. Þetta orð er komið af baptiso sem merkir „að dýfa niður, kaffæra.“ Það var stundum notað um það að skip sykki. Lúsíanus, rithöfundur á annarri öld, notar skylt orð til að lýsa því er einn maður drekkti öðrum: „Stakk honum svo djúpt niður [baptisonta] að hann gat ekki komið upp aftur.“ The New International Dictionary of New Testament Theology segir: „Þrátt fyrir fullyrðingar um hið gagnstæða virðist sem baptiso, bæði í gyðinglegu og kristnu samhengi, merkti yfirleitt ‚að kaffæra‘ og að jafnvel þegar farið var að nota það sem tækniheiti fyrir skírn stóð hugmyndin um niðurdýfingu óbreytt.“