Stjórn til að framkvæma fyrirætlun Guðs
„[Guð] framkvæmir allt eftir ályktun vilja síns.“ — EFESUSBRÉFIÐ 1:11.
1. Af hverju safnast allir Vottar Jehóva saman hinn 12. apríl 2006?
MIÐVIKUDAGSKVÖLDIÐ 12. apríl 2006 safnast saman um 16 milljónir manna til að halda hátíðlega kvöldmáltíð Drottins. Á öllum samkomustöðunum er borð með ósýrðu brauði, sem táknar líkama Krists, og rauðvíni sem táknar úthellt blóð hans. Á samkomunni er flutt ræða þar sem fjallað er um gildi minningarhátíðarinnar um dauða Jesú. Undir lok hennar er brauðið látið ganga milli allra viðstaddra og síðan vínið. Í fáeinum söfnuðum Votta Jehóva neyta einn eða fleiri viðstaddra af brauðinu og víninu. Algengast er þó að enginn geri það. Þeir einir sem hafa von um að lifa á himnum neyta af brauðinu og víninu en meirihlutinn ekki, það er að segja þeir sem hafa von um að lifa á jörðinni. Hvers vegna?
2, 3. (a) Hvernig skapaði Jehóva alla hluti í samræmi við fyrirætlun sína? (b) Í hvaða tilgangi skapaði Guð jörðina og mannkynið?
2 Jehóva Guð hefur ákveðna fyrirætlun og „framkvæmir allt eftir ályktun vilja síns“ til að hún nái fram að ganga. (Efesusbréfið 1:11) Fyrst skapaði hann eingetinn son sinn. (Jóhannes 1:1, 14; Opinberunarbókin 3:14) Fyrir milligöngu þessa sonar skapaði hann síðan fjölskyldu andlegra sona og að lokum hinn efnislega alheim, þar á meðal jörðina og manninn. — Jobsbók 38:4, 7; Sálmur 103:19-21; Jóhannes 1:2, 3; Kólossubréfið 1:15, 16.
3 Jehóva skapaði ekki jörðina sem reynslustað í þeim tilgangi að fjölga andasonum sínum á himnum eins og sumar af kirkjum kristna heimsins kenna. Hann skapaði hana með ákveðinn tilgang í huga. Hún átti að vera byggð og byggileg. (Jesaja 45:18) Guð skapaði jörðina fyrir manninn og manninn fyrir jörðina. (Sálmur 115:16) Jörðin átti að verða ein samfelld paradís byggð réttlátum mönnum sem myndu yrkja hana og annast. Fyrstu hjónunum var aldrei boðið upp á þann möguleika að fara einhvern tíma til himna. — 1. Mósebók 1:26-28; 2:7, 8, 15.
Fyrirætlun Jehóva ögrað
4. Hvernig voru stjórnarhættir Jehóva véfengdir strax í upphafi mannkynssögunnar?
4 Andasonur Guðs misbeitti frjálsa viljanum sem honum var gefinn, gerði uppreisn og einsetti sér að ónýta fyrirætlun Guðs. Hann raskaði friði allra þeirra sem elska Jehóva og eru undirgefnir drottinvaldi hans. Satan leiddi fyrstu hjónin út á þá braut að vera sjálfstæð og óháð Guði. (1. Mósebók 3:1-6) Hann dró ekki mátt Guðs í efa en véfengdi að hann beitti drottinvaldi sínu rétt. Hann véfengdi þar með rétt Guðs til að stjórna. Þannig kom deilumálið mikla um drottinvald Jehóva fram á sjónarsviðið hér á jörð, strax í upphafi mannkynssögunnar.
5. Hvaða annað deilumál kom upp og til hverra náði það?
5 Nátengt deilumálinu mikla um drottinvald Jehóva er annað deilumál sem Satan vakti upp á dögum Jobs. Hann dró í efa að það væri af réttum hvötum sem sköpunarverur Jehóva væru honum undirgefnar og þjónuðu honum. Satan gaf í skyn að þær gerðu það af eigingjörnu tilefni og þær myndu snúast gegn Guði þegar á reyndi. (Jobsbók 1:7-11; 2:4, 5) Þó að deilumálið hafi upphaflega snúist um þjón Jehóva á jörðinni náði það einnig til andasona Guðs, meira að segja eingetins sonar hans.
6. Hvernig reyndist Jehóva trúr nafni sínu og fyrirætlun?
6 Jehóva var trúr nafni sínu og fyrirætlun og gerðist nú bæði spámaður og frelsari.a Hann sagði Satan: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mósebók 3:15) Jehóva ætlaði að svara ögrunum Satans og veita afkomendum Adams von um frelsun og líf og nota til þess sæði „konunnar“ sem er söfnuður andavera hans á himnum. — Rómverjabréfið 5:21; Galatabréfið 4:26, 31.
Helgur leyndardómur vilja hans
7. Hvaða fyrirætlun opinberaði Jehóva fyrir munn Páls postula?
7 Páll postuli skýrir með einstaklega fallegum orðum í Efesusbréfinu hvernig Jehóva heldur á málum til að hrinda fyrirætlun sinni í framkvæmd. Hann skrifaði: „Hann kunngerði okkur helgan leyndardóm vilja síns. Það var í samræmi við ákvörðun hans, sem hann hafði ráðið með sér, um stjórn er fylling tímans kæmi, það er að segja að safna öllu saman á ný í Kristi, því sem er á himni og því sem er á jörð.“ (Efesusbréfið 1:9, 10, NW) Stórbrotin fyrirætlun Jehóva er fólgin í því að allar sköpunarverur hans, hvar sem er í alheiminum, séu sameinaðar og lúti drottinvaldi hans með fúsu geði. (Opinberunarbókin 4:11) Þannig helgast nafn hans, það sannast að Satan er lygari og vilji Jehóva verður „svo á jörðu sem á himni“. — Matteus 6:10.
8. Hvað merkir orðið sem er þýtt „stjórn“?
8 Jehóva hefur „ráðið með sér“ eða ákveðið að nota „stjórn“ til að hrinda vilja sínum í framkvæmd. Páll notar hér orð sem merkir bókstaflega ‚heimilisrekstur, bústjórn‘. Hér er ekki átt við stjórn eins og Messíasarríkið heldur lýst þeirri hugmynd að hafa umsjón með einhverju.b Jehóva ætlaði að framkvæma fyrirætlun sína með stórfenglegum hætti en hvernig hann ætlaði að gera það var ‚helgur leyndardómur‘ sem yrði opinberaður smám saman í aldanna rás. — Efesusbréfið 1:10; 3:9, NW, neðanmáls.
9. Hvernig opinberaði Jehóva smám saman leyndardóm vilja síns?
9 Með röð af sáttmálum opinberaði Jehóva smám saman hvernig fyrirætlun hans með sæðið, sem heitið var í Eden, myndi rætast. Í sáttmálanum við Abraham var fólgið fyrirheit sem leiddi í ljós að sæðið myndi koma til jarðar í ætt hans og „allar þjóðir á jörðinni“ myndu óska sér blessunar fyrir atbeina þess. Í þessum sáttmála var einnig gefið í skyn að aðrir myndu tengjast aðalsæðinu. (1. Mósebók 22:17, 18) Í lagasáttmálanum, sem Jehóva gerði við Ísraelsmenn, kom fram að Jehóva ætlaði að eiga sér „prestaríki“. (2. Mósebók 19:5, 6) Sáttmálinn við Davíð leiddi í ljós að sæðið myndi verða konungur ríkis að eilífu. (2. Samúelsbók 7:12, 13; Sálmur 89:4, 5) Eftir að lagasáttmálinn hafði leitt Gyðinga til Messíasar opinberaði Jehóva meira um það hvernig fyrirætlun hans næði fram að ganga. (Galatabréfið 3:19, 24) Þeir menn, sem áttu að tengjast aðalsæðinu, yrðu ‚prestaríkið‘ sem spáð var og myndu gangast undir „nýjan sáttmála“. Þannig yrðu þeir nýtt „Ísraels hús“, það er að segja andlegt. — Jeremía 31:31-34; Hebreabréfið 8:7-9.c
10, 11. (a) Hvernig opinberaði Jehóva hvert yrði hið fyrirheitna sæði? (b) Af hverju kom eingetinn sonur Guðs til jarðar?
10 Hið fyrirheitna sæði kom fram á jörðinni á tilsettum tíma í samræmi við fyrirætlun Guðs. Jehóva sendi Gabríel engil til að segja Maríu að hún myndi eignast son sem ætti að heita Jesús. Engillinn sagði við hana: „Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta. Drottinn Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu, og á ríki hans mun enginn endir verða.“ (Lúkas 1:32, 33) Þar með varð ljóst hvert hið fyrirheitna sæði yrði. — Galatabréfið 3:16; 4:4.
11 Eingetinn sonur Jehóva átti að koma til jarðar þar sem átti að reyna hann til hins ýtrasta. Það yrði hlutverk hans að svara ásökunum Satans í eitt skipti fyrir öll. Yrði hann trúr föður sínum? Í því lá mikill leyndardómur. Páll postuli skýrði síðar hlutverk Jesú og sagði: „Víst er leyndardómur guðhræðslunnar mikill: Hann opinberaðist í holdi, var réttlættur í anda, birtist englum, var boðaður með þjóðum, var trúað í heimi, var hafinn upp í dýrð.“ (1. Tímóteusarbréf 3:16) Já, með því að vera fullkomlega ráðvandur allt til dauða gaf Jesús afdráttarlaust svar við ásökunum Satans. En ýmsir aðrir þættir leyndardómsins áttu eftir að koma í ljós.
„Leyndardómur Guðs ríkis“
12, 13. (a) Lýstu einum þætti ‚leyndardóms Guðs ríkis‘? (b) Hvað þurfti Jehóva að gera til að velja hóp manna sem átti að fara til himna?
12 Í einni af boðunarferðum sínum í Galíleu gaf Jesús til kynna að leyndardómurinn væri nátengdur Messíasarríkinu. Hann sagði lærisveinunum: „Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis [„Guðs ríkis“, Markús 4:11].“ (Matteus 13:11) Í þessum leyndardómi fólst meðal annars að Jehóva myndi velja „litla hjörð“, 144.000 manns, sem ættu að verða hluti sæðisins og ríkja með syni hans á himnum. — Lúkas 12:32; Opinberunarbókin 14:1, 4.
13 Þar eð mennirnir voru skapaðir til að lifa á jörðinni þurfti Jehóva að skapa suma menn á ný til að þeir gætu farið til himna. (2. Korintubréf 5:17) Pétur postuli var einn þeirra sem hlaut þessa óvenjulegu himnesku von. Hann skrifaði: „Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum, til óforgengilegrar, flekklausrar og ófölnandi arfleifðar, sem yður er geymd á himnum.“ — 1. Pétursbréf 1:3, 4.
14. (a) Hvernig fékk fólk af þjóðunum aðild að ‚leyndardómi Guðs ríkis‘? (b) Af hverju getum við skilið þessi djúpu sannindi Guðs?
14 Annar þáttur hins helga leyndardóms um ríki framtíðarinnar var fólginn í því að Guð ætlaði ekki aðeins að kalla Gyðinga til að ríkja með Kristi á himnum. Páll brá ljósi á þennan þátt í „stjórn“ Jehóva eða aðferð til að sjá um að ákvörðun hans næði fram að ganga. Hann segir: „Hann [leyndardómurinn] var ekki birtur mannanna sonum fyrr á tímum. Nú hefur hann verið opinberaður heilögum postulum hans og spámönnum í andanum: Heiðingjarnir eru í Kristi Jesú fyrir fagnaðarerindið orðnir erfingjar með oss, einn líkami með oss, og eiga hlut í sama fyrirheiti og vér.“ (Efesusbréfið 3:5, 6) „Heilögum postulum“ Guðs var gefið að skilja þennan þátt leyndardómsins. Hið sama er uppi á teningnum núna. Ef hjálp heilags anda væri ekki til að dreifa gætum við ekki skilið þessi djúpu sannindi Guðs. — 1. Korintubréf 2:10; 4:1; Kólossubréfið 1:26, 27.
15, 16. Af hverju valdi Jehóva meðstjórnendur Krists úr hópi manna?
15 Þær „hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir“, sem sáust standa með ‚lambinu‘ á himnesku Síonfjalli, eru sagðar vera ‚leystar frá jörðunni‘ og ‚leystar út úr hópi mannanna, frumgróði handa Guði og handa lambinu‘ Jesú Kristi. (Opinberunarbókin 14:1-4) Jehóva útvaldi fyrsta himneska son sinn til að vera aðalsæði en af hverju skyldi hann hafa valið félaga Krists úr hópi mannanna? Páll postuli segir að þeir sem mynda þennan fámenna hóp hafi verið „kallaðir . . . samkvæmt ákvörðun Guðs“ og samkvæmt ‚vilja hans og velþóknun‘. — Rómverjabréfið 8:17, 28-30; Efesusbréfið 1:5, 11; 2. Tímóteusarbréf 1:9.
16 Jehóva ætlar að helga hið mikla og heilaga nafn sitt og upphefja drottinvald sitt. Það var óviðjafnanleg stjórnviska af hans hálfu að senda frumgetinn son sinn til jarðar þar sem hann var reyndur til hins ýtrasta. Hann ákvað enn fremur að stjórn Messíasarríkisins yrði ekki aðeins skipuð syni sínum heldur einnig mönnum sem hefðu reynst trúir drottinvaldi hans allt til dauða. — Efesusbréfið 1:8-12; Opinberunarbókin 2:10, 11.
17. Af hverju er það fagnaðarefni að meðstjórnendur Krists skuli vera valdir úr hópi manna?
17 Jehóva sýndi afkomendum Adams mikinn kærleika með því að senda son sinn til jarðar og með því að útvelja meðstjórnendur handa honum úr hópi mannanna. Hvernig gat það orðið til góðs fyrir aðra sem höfðu reynst Jehóva trúir allt frá dögum Abels? Mennirnir fæddust ófullkomnir. Þeir voru þrælar syndar og dauða og þurftu að læknast andlega og líkamlega og verða fullkomnir í samræmi við upphaflega ætlun Jehóva með mannkynið. (Rómverjabréfið 5:12) Það er mjög traustvekjandi fyrir alla sem hlakka til þess að lifa að eilífu á jörðinni að vita að konungur þeirra er góður, ástríkur og skilningsríkur við þá, rétt eins og hann var við lærisveina sína meðan hann þjónaði á jörðinni. (Matteus 11:28, 29; Hebreabréfið 2:17, 18; 4:15; 7:25, 26) Og það er hughreystandi að meðkonungar og -prestar Jesú á himnum skuli hafa lifað sem karlar og konur hér á jörð og tekist á við veikleika og vandamál lífsins, rétt eins og við. — Rómverjabréfið 7:21-25.
Óbrigðul fyrirætlun Jehóva
18, 19. Hvaða skýringu höfum við fengið á orðum Páls í Efesusbréfinu 1:8-11 og um hvað fjöllum við í greininni á eftir?
18 Nú skiljum við betur kjarnann í orðum Páls sem hann skrifaði andasmurðum kristnum mönnum í Efesusbréfinu 1:8-11. Hann sagði að Jehóva hefði kunngert þeim „leyndardóm vilja síns“, að þeir ættu að „öðlast arfleifðina“ með Kristi og væri það „fyrirhugað samkvæmt fyrirætlun hans, er framkvæmir allt eftir ályktun vilja síns“. Við gerum okkur grein fyrir að þetta kemur fullkomlega heim og saman við það hvernig Jehóva ‚stjórnar‘ málum til að hrinda ákvörðun sinni í framkvæmd. Þetta glöggvar einnig fyrir okkur hvers vegna aðeins fáeinir kristnir menn neyta af brauðinu og víninu við kvöldmáltíð Drottins.
19 Í greininni á eftir lítum við á hvað minningarhátíðin um dauða Krists merkir fyrir kristna menn með himneska von. Við kynnum okkur einnig hvers vegna milljónir manna, sem vonast eftir eilífu lífi á jörð, ættu að hafa brennandi áhuga á hvað minningarhátíðin táknar.
[Neðanmáls]
a Nafnið Jehóva merkir bókstaflega „hann lætur verða“. Hann getur orðið hvaðeina sem nauðsynlegt er til að hrinda fyrirætlun sinni í framkvæmd. — 2. Mósebók 3:14, NW, neðanmáls.
b Orð Páls bera með sér að þessi „stjórn“ var hafin á hans dögum en Biblían gefur aftur á móti til kynna að Messíasarríkið hafi ekki verið stofnsett fyrr en 1914.
c Í Varðturninum, 1. september 1989, bls. 8-12, er fjallað ítarlega um þessa sáttmála sem tengjast fyrirætlun Jehóva og framvindu hennar.
Til upprifjunar
• Af hverju skapaði Jehóva jörðina og manninn?
• Hvers vegna þurfti að reyna eingetinn son Jehóva hér á jörð?
• Hvers vegna útvaldi Jehóva meðstjórnendur Krists úr hópi manna?