Eining kristinna manna er Guði til vegsemdar
„Kappkostið að varðveita einingu andans.“ — EF. 4:3.
1. Hvernig voru kristnir menn í Efesus Guði til vegsemdar?
EINING kristna safnaðarins í Efesus forðum daga var Jehóva, hinum sanna Guði, til vegsemdar. Efesus var auðug verslunarborg og sumir bræður í kristna söfnuðinum þar voru greinilega efnaðir og áttu þræla en sumir voru þrælar og sennilega bláfátækir. (Ef. 6:5, 9) Þarna voru Gyðingar sem höfðu lært sannleikann meðan Páll postuli dvaldi í borginni um þriggja mánaða skeið og kenndi í samkundunni. Og sumir í söfnuðinum höfðu áður tilbeðið Artemis og stundað kukl. (Post. 19:8, 19, 26) Ljóst er að sönn kristni sameinaði fólk af alls konar uppruna. Páll vissi að eining safnaðarins var Jehóva til vegsemdar. Hann skrifaði: „Honum sé dýrð í kirkjunni [söfnuðinum].“ — Ef. 3:21.
2. Hvað ógnaði einingu kristinna manna í Efesus?
2 En ýmislegt ógnaði þessari góðu einingu safnaðarins í Efesus. Páll sagði safnaðaröldungunum: „Úr hópi sjálfra ykkar munu koma menn sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.“ (Post. 20:30) Og sumir í söfnuðinum höfðu ekki losað sig að öllu leyti við sundrungarandann sem ,verkaði í þeim sem ekki trúðu‘ eins og Páll varaði við. — Ef. 2:2; 4:22.
Bréf sem leggur áherslu á einingu
3, 4. Hvernig leggur Páll áherslu á einingu í Efesusbréfinu?
3 Páll vissi að kristnir menn yrðu hver og einn að leggja sig fram um að stuðla að einingu til að geta haldið áfram að vinna vel saman. Guð innblés honum að skrifa söfnuðinum í Efesus bréf þar sem fjallað var ítarlega um einingu. Páll ræddi til dæmis um þá fyrirætlun Guðs að „safna öllu . . . undir eitt höfuð í Kristi“. (Ef. 1:10) Hann líkti safnaðarmönnum við steina sem hús er hlaðið úr. „Í honum [Kristi] tengist öll sú bygging saman, vex og verður heilagt musteri í Drottni.“ (Ef. 2:20, 21) Páll benti enn fremur á einingu kristinna manna af hópi Gyðinga og heiðingja og minnti á að þeir ættu sér allir sama uppruna. Hann kallaði Jehóva föðurinn „sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu“. — Ef. 3:5, 6, 14, 15.
4 Þegar við skoðum 4. kafla Efesusbréfsins sjáum við af hverju eining fæst ekki fyrirhafnarlaust, hvernig Jehóva hjálpar okkur að sameinast og hvaða viðhorf hjálpa okkur að varðveita eininguna. Væri ekki ráð að lesa allan kaflann til að hafa sem mest gagn af þessu námsefni?
Hvers vegna fæst eining ekki fyrirhafnarlaust?
5. Af hverju geta englar Guðs þjónað saman í einingu en af hverju getur það verið erfiðara fyrir okkur?
5 Páll áminnti trúsystkini sín í Efesus um að ,kappkosta að varðveita einingu andans‘. (Ef. 4:3) Benda má á engla Guðs til að sýna fram á að við þurfum að leggja eitthvað á okkur til að vera samhuga. Engar tvær lífverur á jörð eru nákvæmlega eins. Það er því rökrétt að álykta að englarnir, sem Jehóva skapaði í milljónatali, hafi hver sín sérkenni. (Dan. 7:10) Engu að síður geta þeir þjónað Jehóva í fullkominni einingu vegna þess að þeir hlýða allir á hann og gera vilja hans. (Lestu Sálm 103:20, 21.) Trúir englar Guðs hafa margs konar eiginleika en kristnir menn hafa auk þess ýmsa galla. Það getur gert okkur erfiðara fyrir að vinna saman í einingu.
6. Hvaða viðhorf geta hjálpað bræðrum að vinna saman þótt báðir hafi sína galla?
6 Þegar ófullkomið fólk reynir að vinna saman getur hæglega komið upp ágreiningur. Segjum sem svo að geðgóður bróðir, sem er oft óstundvís, þjóni Jehóva ásamt bróður sem er stundvís en uppstökkur. Báðum finnst kannski hegðun hins vera ábótavant en þeir gleyma ef til vill að hegðun sjálfra þeirra er ekkert síður óviðeigandi. Hvernig geta þessir tveir bræður unnið saman í sátt og samlyndi? Páll nefnir í framhaldinu viðhorf sem gætu hjálpað þeim til þess. Hugleiddu hvernig við getum stuðlað að einingu með því að tileinka okkur þessi viðhorf. Páll skrifaði: „[Ég] áminni ykkur . . . um að hegða ykkur svo sem samboðið er þeirri köllun sem þið hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins.“ — Ef. 4:1-3.
7. Af hverju er afar mikilvægt að ófullkomnir kristnir menn vinni saman í sátt og samlyndi?
7 Það er afar mikilvægt að læra að þjóna Guði í einingu með öðru ófullkomnu fólki vegna þess að það er aðeins til einn hópur sem tilbiður Guð í sannleika. „Einn er líkaminn og einn andinn eins og Guð gaf ykkur líka eina von þegar hann kallaði ykkur. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra.“ (Ef. 4:4-6) Andi Jehóva og blessun hans er tengd eina bræðrafélaginu sem hann notar. Segjum sem svo að einhver í söfnuðinum komi okkur í uppnám. Gætum við þá farið eitthvað annað? Nei, orð eilífs líf er hvergi annars staðar að finna. — Jóh. 6:68.
„Gjafir“ sem stuðla að einingu
8. Hverja notar Kristur til að styrkja okkur í baráttunni gegn sundrandi áhrifum?
8 Páll tók líkingu af algengri venju meðal hermanna til forna til að lýsa hvernig Jesús hefur gefið „gjafir“ til að vinna að einingu safnaðarins. Þessar „gjafir“ voru menn. Sigursæll hermaður kom kannski heim með útlendan bandingja til að eiginkona hans hefði þræl til að hjálpa við húsverkin. (Sálm. 68:2, 13, 19) Þegar Jesús sigraði heiminn eignaðist hann marga fúsa þræla. (Lestu Efesusbréfið 4:7, 8.) Hvernig notaði hann þessa táknrænu fanga sína? „Frá honum er sú gjöf komin að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar. Þeir eiga að fullkomna hin heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar, þangað til við verðum öll einhuga í trúnni.“ — Ef. 4:11-13.
9. (a) Hvernig stuðla „gjafir“ í mynd manna að einingu okkar? (b) Af hverju ættu allir í söfnuðinum að styrkja einingu hans?
9 Kærleiksríkir hirðar safnaðarins eru „gjafir“ sem hjálpa okkur að vera einhuga. Segjum sem svo að safnaðaröldungur sjái tvo bræður,áreita og öfunda hvor annan‘. Hann getur þá átt drjúgan þátt í einingu safnaðarins með því að leiðbeina þeim einslega og ,leiðrétta þá með hógværð‘. (Gal. 5:26–6:1) Kennarar í söfnuðinum eru „gjafir“ sem hjálpa okkur að eiga sterka trú sem er byggð á kenningum Biblíunnar. Þannig vinna þeir að einingu og stuðla að því að við þroskumst í trúnni. Páll skrifaði að við ættum ekki að „halda áfram að vera börn sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi og tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar“. (Ef. 4:13, 14) Allir í söfnuðinum ættu að stuðla að einingu bræðrafélagsins rétt eins og allir limir líkamans leggja sitt af mörkum til að uppbyggja hina. — Lestu Efesusbréfið 4:15, 16.
Tileinkum okkur ný viðhorf
10. Hvernig getur lauslæti ógnað einingu okkar?
10 Tókstu eftir að það kemur skýrt fram í fjórða kafla Efesusbréfsins að kærleikur er forsenda þess að við séum sameinuð sem þroskaðir kristnir menn? Síðan er bent á hvað sé fólgið í kærleikanum. Ef við ástundum kærleika kemur saurlifnaður og lauslæti auðvitað ekki til greina. Páll hvetur trúsystkini sín til að ,hegða sé ekki framar eins og heiðingjarnir hegða sér‘. Þeir voru „tilfinningalausir“ og ,frömdu alls konar siðleysi af græðgi‘. (Ef. 4:17-19) Hinn siðlausi heimur, sem við búum í, er ógn við einingu okkar. Fólk hefur saurlifnað í flimtingum, syngur um hann, horfir á hann til skemmtunar og stundar hann, annaðhvort í laumi eða fyrir opnum tjöldum. Daður getur meira að segja valdið viðskilnaði við Jehóva og söfnuð hans. Daður getur falist í því að gefa í skyn með framkomu sinni að maður laðist kynferðislega að annarri manneskju án þess að ætla sér að giftast henni. Hvers vegna er það hættulegt? Vegna þess að það getur svo hæglega verið undanfari saurlifnaðar. Og daður, sem leiðir gifta manneskju út í hjúskaparbrot, getur gert börn viðskila við foreldri og saklausan einstakling við maka sinn. Það getur sundrað fjölskyldum á grimmilegan hátt. Það er engin furða að Páll skyldi skrifa: „Svo hafið þið ekki lært að þekkja Krist.“ — Ef. 4:20, 21.
11. Hvaða breytingu eru kristnir menn hvattir til að gera?
11 Páll lagði áherslu á að við þurfum að uppræta viðhorf sem leiða til sundrungar og tileinka okkur nýjan hugsunarhátt sem gerir okkur kleift að lifa í sátt og samlyndi við aðra. Hann sagði: „Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur af tælandi girndum en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt.“ (Ef. 4:22-24) Hvernig getum við „endurnýjast í anda og hugsun“? Ef við íhugum með þakklæti það sem við lærum af orði Guðs og góðu fordæmi þroskaðra trúsystkina getum við lagt okkur fram við að íklæðst hinum nýja manni sem „skapaður er í Guðs mynd“.
Temjum okkur nýjan talsmáta
12. Hvernig stuðlum við að einingu með því að tala sannleika og af hverju getur það verið erfitt fyrir suma?
12 Það er mikilvægt að vera sannsögull innan fjölskyldunnar og safnaðarins. Ef við erum hreinskilin, einlæg og vingjarnleg í tali getum við styrkt böndin milli okkar. (Jóh. 15:15) En hvað gerist ef einhver lýgur að bróður sínum? Þegar bróðirinn áttar sig á því hlýtur það að veikja traustið milli þeirra. Við skiljum mætavel hvers vegna Páll skrifaði: „Talið sannleika hvert við sinn náunga því að við erum hvert annars limir.“ (Ef. 4:25) Sá sem hefur vanið sig á að segja ósatt, kannski frá barnsaldri, getur átt erfitt með temja sér sannsögli. En Jehóva kann að meta viðleitni hans til að breyta sér og hjálpar honum til þess.
13. Hvernig er hægt að láta af lastmælum?
13 Jehóva kennir okkur að stuðla að virðingu og einingu, bæði í söfnuðinum og fjölskyldunni, með því að setja skýrar reglur um hvernig megi ekki tala. „Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni . . . Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur og alla mannvonsku yfirleitt.“ (Ef. 4:29, 31) Ein leið til að vera ekki særandi í tali er að temja sér meiri virðingu fyrir öðrum. Maður, sem er meiðandi í orðum við eiginkonu sína, ætti að leggja hart að sér að breyta um afstöðu til hennar, ekki síst þegar hann kemst að raun um hvernig Jehóva heiðrar konur. Sumar konur hljóta jafnvel smurningu heilags anda og Jehóva veitir þeim þá von að ríkja með Kristi. (Gal. 3:28; 1. Pét. 3:7) Kona, sem er vön að hreyta ónotum í manninn sinn, ætti sömuleiðis að finna hjá sér hvöt til að breyta sér þegar hún uppgötvar hvernig Jesús hafði hemil á sér þegar honum var illmælt. — 1. Pét. 2:21-23.
14. Af hverju er hættulegt að gefa reiði sinni útrás?
14 Að hafa ekki stjórn á skapi sínu er náskylt lastmælgi. Það getur líka valdið sundrungu. Reiði er eins og eldur. Hún getur hæglega farið úr böndum með skelfilegum afleiðingum. (Orðskv. 29:22) Sá sem er í fullum rétti að láta í ljós vanþóknun sína þarf að gæta þess vel að hafa hemil á skapi sínu til að spilla ekki góðum samskiptum við aðra. Kristinn maður ætti að leggja sig fram um að fyrirgefa. Hann ætti ekki að ala með sér gremju né ýfa upp gamlar sakir. (Sálm. 37:8; 103:8, 9; Orðskv. 17:9, Biblían 1981) Páll sagði Efesusmönnum: „Ef þið reiðist þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði ykkar. Gefið djöflinum ekkert færi.“ (Ef. 4:26, 27) Ef við höfum ekki hemil á skapsmunum okkar gefum við djöflinum færi á að ýta undir óeiningu og jafnvel ágreining í söfnuðinum.
15. Hvaða áhrif getur það haft að taka eitthvað ófrjálsri hendi?
15 Það stuðlar einnig að einingu í söfnuðinum að virða eigur annarra. Við lesum: „Hinn stelvísi hætti að stela.“ (Ef. 4:28) Þjónar Jehóva treysta hver öðrum. Ef einhver í söfnuðinum misnotaði þetta traust með því að taka eitthvað ófrjálsri hendi myndi hann spilla þessari góðu einingu.
Kærleikur til Guðs sameinar okkur
16. Hvernig getum við styrkt eininguna með því að vera uppbyggileg í tali?
16 Eining kristna safnaðarins stafar af því að kærleikurinn til Guðs er öllum hvatning til að sýna öðrum kærleika. Við erum Jehóva þakklát fyrir gæsku hans og þess vegna gerum við okkar ýtrasta til að fara eftir því sem segir í Efesusbréfinu 4:29, 32: „[Talið] það eitt sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra. Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.“ Jehóva fyrirgefur fúslega ófullkomnu fólki eins og okkur. Ættum við þá ekki líka að fyrirgefa öðrum ófullkomleika þeirra?
17. Hvers vegna ættum við kappkosta að varðveita einingu okkar?
17 Eining þjóna Jehóva er honum til vegsemdar. Andi hans hvetur okkur með ýmsum hætti til að stuðla að einingu. Ekki viljum við sporna gegn handleiðslu heilags anda. „Hryggið ekki Guðs heilaga anda,“ skrifaði Páll. (Ef. 4:30) Eining er fjársjóður sem er þess virði að varðveita. Hún er öllum sem búa við hana til gleði og Jehóva til vegsemdar. „Verðið því eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans. Lifið í kærleika.“ — Ef. 5:1, 2.
Hvert er svarið?
• Hvaða viðhorf stuðla að sátt og samlyndi meðal kristinna manna?
• Hvernig getum við unnið að einingu með hegðun okkar?
• Hvernig getum við stuðlað að góðri samvinnu með talsmáta okkar?
[Mynd á bls. 17]
Fólk af ýmiss konar uppruna er sameinað.
[Mynd á bls. 18]
Skilurðu hve daður er hættulegt?