Sérðu þörfina að kenna öðrum?
„Góðan lærdóm veiti ég yður.“ – ORÐSKV. 4:2.
1, 2. Hvers vegna þurfum við að kenna nýjum að sinna þjónustunni vel?
HELSTA verkefni Jesú var að boða fagnaðarerindið um ríkið. Hann gaf sér engu að síður tíma til að þjálfa lærisveinana svo að þeir yrðu hæfir hirðar hjarðarinnar og góðir kennarar. (Matt. 10:5-7) Filippus var ötull trúboði en lagði sig eflaust líka fram við að kenna dætrum sínum að miðla sannleika Biblíunnar til fólks. (Post. 21:8, 9) Hve mikilvægt er það að veita slíka kennslu og þjálfun nú á tímum?
2 Um allan heim fjölgar þeim jafnt og þétt sem taka við fagnaðarerindinu. Nýir, sem eru enn óskírðir, þurfa að átta sig á hve sjálfsnám er mikilvægt. Það þarf líka að kenna þeim að boða fagnaðarerindið og að leiðbeina áhugasömum við biblíunám. Bræður í söfnuðinum þurfa að fá góða kennslu svo að þeir geti með tímanum orðið safnaðarþjónar og öldungar. Þroskaðir vottar geta allir lagt sitt af mörkum til að hjálpa nýjum að taka framförum í þjónustunni. – Orðskv. 4:2.
HJÁLPAÐU NÝJUM AÐ SÆKJA VISKU OG STYRK Í ORÐ GUÐS
3, 4. (a) Hvernig benti Páll postuli á tengsl biblíunáms og árangurs af boðuninni? (b) Hvað þurfum við sjálf að gera til að geta hvatt nemendur okkar til að stunda sjálfsnám í Biblíunni?
3 Hve mikilvægt er að stunda sjálfsnám í Biblíunni? Svarið er að finna í bréfi sem Páll postuli skrifaði trúsystkinum sínum í Kólossu. Þar segir meðal annars: „Ég [hef] ekki látið af að biðja fyrir ykkur. Ég bið þess að Guð láti anda sinn auðga ykkur að þekkingu á vilja sínum með allri speki og skilningi svo að þið breytið eins og Guði líkar og þóknist honum á allan hátt, að þið berið ávöxt með hvers kyns góðum verkum og vaxið að þekkingu á Guði.“ (Kól. 1:9, 10) Þekkingin á Guði gerði kristnum mönnum í Kólossu kleift að ,breyta eins og Guði líkaði og þóknast honum á allan hátt‘. Þá gátu þeir ,borið ávöxt með hvers kyns góðum verkum‘, ekki síst með því að boða fagnaðarerindið. Til að koma að sem mestu gagni í þjónustu Jehóva er nauðsynlegt að hafa góða reglu á biblíunámi sínu. Við þurfum að hjálpa biblíunemendum okkar að átta sig á því.
4 Til að geta sýnt nemendum okkar fram á að það sé gagnlegt að stunda sjálfsnám í Biblíunni þurfum við sjálf að vera sannfærð um gildi þess. Við þurfum að hafa góða reglu á biblíunámi okkar. Segjum sem svo að þú sért að boða fagnaðarerindið og húsráðandi spyrji erfiðra spurninga eða láti í ljós skoðun sem stangast á við Biblíuna. Geturðu þá byggt svör þín á Biblíunni? Eða segjum að þú lesir um úthald Jesú, Páls og annarra þegar þeir boðuðu fagnaðarerindið. Veltirðu þá fyrir þér hvernig þrautseigja þeirra geti verið þér til hvatningar í þjónustu Jehóva? Við þurfum öll að sækja visku og leiðbeiningar í orð Guðs. Ef við segjum öðrum frá hvernig við njótum góðs af reglubundnu biblíunámi getur það verið þeim hvatning til að vera ötulir biblíunemendur.
5. Hvernig er hægt að hjálpa nýjum að stunda reglulegt sjálfsnám?
5 Hvernig geturðu kennt biblíunemanda þínum að stunda reglulegt sjálfsnám? Byrjaðu á því að sýna honum hvernig hann geti búið sig undir námsstundir ykkar. Þú gætir hvatt hann til að lesa kafla og kafla í viðauka bókarinnar Hvað kennir Biblían? og fletta upp versum sem vísað er í. Hjálpaðu honum að búa sig undir samkomur til að geta tekið þátt í þeim. Hvettu hann til að lesa hvert einasta tölublað Varðturnsins og Vaknið! Ef VEFBÓKASAFN Varðturnsins eða geisladiskurinn Watchtower Library er til á málinu hans geturðu sýnt honum hvernig hann geti leitað svara þar við biblíutengdum spurningum. Ef þú hjálpar biblíunemandanum á þennan hátt eru allar líkur á að hann læri fljótt að njóta þess að lesa og hugleiða orð Guðs.
6. (a) Hvernig geturðu hjálpað nemanda þínum að glæða með sér ást á Biblíunni? (b) Hvaða áhrif hefur það eflaust á biblíunemanda ef hann hefur yndi af Biblíunni?
6 Við ættum auðvitað ekki að ýta á einn né neinn að lesa og hugleiða Biblíuna. Notum frekar þau hjálpargögn sem söfnuður Jehóva lætur í té til að glæða ást nemandans á Biblíunni. Það má vel vera að honum verði innanbrjósts eins og sálmaskáldinu sem söng: „Mín gæði eru það að vera nálægt Guði, ég gerði Drottin að athvarfi mínu.“ (Sálm. 73:28) Þú mátt treysta að Jehóva hjálpi samviskusömum og þakklátum biblíunemanda með anda sínum.
KENNDU NÝJUM AÐ BOÐA OG KENNA FAGNAÐARERINDIÐ
7. Hvernig þjálfaði Jesús nýja boðbera? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
7 Í 10. kafla hjá Matteusi er að finna fyrirmæli sem Jesús gaf postulunum 12. Hann gaf ekki bara almennar leiðbeiningar heldur ræddi um ákveðin atriði.[1] Postularnir hlustuðu vel þegar Jesús kenndi þeim áhrifaríkar boðunaraðferðir. Síðan héldu þeir út á starfssvæðið. Þeir höfðu fylgst með Jesú þegar hann boðaði og kenndi og voru fljótir að tileinka sér sömu aðferðir. (Matt. 11:1) Við getum líka kennt nemendum okkar þannig að þeir geti boðað fagnaðarerindið á skilvirkan hátt. Lítum nánar á tvennt sem hægt er að gera til að hjálpa þeim.
8, 9. (a) Hvernig hóf Jesús samræður við fólk? (b) Hvernig getum við hjálpað nýjum boðberum að líkja eftir Jesú þegar þeir ræða við fólk?
8 Að ræða við fólk. Jesús ræddi oft við fólk um ríki Guðs. Hann átti til dæmis líflegt samtal við konu við Jakobsbrunn nálægt borginni Síkar. (Jóh. 4:5-30) Hann ræddi einnig við Matteus Leví sem var tollheimtumaður. Guðspjöllin segja fátt um samtal þeirra en Matteus þáði boð Jesú um að fylgja honum. Síðar ræddi Jesús í alllöngu máli við gesti í veislu sem Matteus hélt. – Matt. 9:9; Lúk. 5:27-39.
9 Jesús talaði einnig vinsamlega við Natanael en sá síðarnefndi var ekki sérlega jákvæður í garð fólks frá Nasaret. En Natanael skipti um skoðun og ákvað að kynna sér betur það sem Jesús var að kenna – þótt hann væri frá Nasaret. (Jóh. 1:46-51) Það er því full ástæða til að kenna nýjum boðberum að ræða við fólk á vinsamlegum nótum.[2] Þegar við förum þannig að taka nýju boðberarnir eftir hvernig auðmjúkt fólk bregst við vinsamlegum orðum og læra trúlega að njóta þess að boða trúna.
10-12. (a) Hvernig hjálpaði Jesús þeim sem sýndu áhuga á fagnaðarerindinu? (b) Hvernig getum við hjálpað nýjum boðberum svo að þeir verði færari biblíukennarar?
10 Að glæða áhuga. Jesús hafði takmarkaðan tíma til umráða. Hann gaf sér þó góðan tíma til að örva þann áhuga sem fólk sýndi á fagnaðarerindinu. Einu sinni safnaðist fjöldi fólks saman á strönd Galíleuvatns til að hlusta á hann og hann kenndi þá af báti lítið eitt frá landi. Síðan vann hann kraftaverk sem fólst í því að Pétur fékk mikinn afla í einu kasti. Hann benti Pétri á hvaða lærdóm hann ætti að draga af því og sagði: „Héðan í frá skalt þú menn veiða.“ Hvaða áhrif hafði það sem Jesús sagði og gerði? Pétur og félagar hans „lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum“. – Lúk. 5:1-11.
11 Nikódemus, sem sat í Æðstaráði Gyðinga, fékk áhuga á því sem Jesús kenndi. Hann langaði til að vita meira en óttaðist það sem aðrir myndu segja ef þeir sæju hann tala við Jesú fyrir opnum tjöldum. Jesús var sveigjanlegur og tilbúinn til að hitta hann að nóttu til fjarri fjöldanum. (Jóh. 3:1, 2) Hvað má læra af þessum frásögum? Sonur Guðs tók sér tíma til að styrkja trú annarra. Ættum við þá ekki að vera dugleg að fara í endurheimsóknir og hjálpa áhugasömum við biblíunám?
12 Það eru allar líkur á að nýir boðberar verði færari kennarar ef við störfum með þeim. Við getum hjálpað þeim að fara aftur til þeirra sem sýna þó ekki sé nema örlítinn áhuga. Við getum boðið nýjum boðberum með okkur þegar við förum í endurheimsóknir og höldum biblíunámskeið. Ef við kennum óreyndari boðberum og hvetjum þá með þessum hætti langar þá eflaust til að glæða áhuga annarra og aðstoða áhugasama við biblíunám. Þeir læra líka að gefast ekki fljótt upp heldur vera þolinmóðir og þrautseigir í boðuninni. – Gal. 5:22; sjá rammagreinina „Hann gafst ekki upp“.
KENNDU NÝJUM AÐ ÞJÓNA ÖÐRUM Í SÖFNUÐINUM
13, 14. (a) Hvað finnst þér um þá sem Biblían segir að hafi fært miklar fórnir í þágu annarra? (b) Hvernig geturðu kennt ungum og nýjum í söfnuðinum að sýna bróðurkærleika?
13 Ljóst er af Biblíunni að Jehóva vill að þjónar sínir sýni bróðurkærleika og þjóni hver öðrum. (Lestu 1. Pétursbréf 1:22; Lúkas 22:24-27.) Sonur hans gaf allt sem hann átti til að þjóna öðrum, þar á meðal líf sitt. (Matt. 20:28) Dorkas var „mjög góðgerðasöm og örlát við snauða“. (Post. 9:36, 39) María, sem var systir í Róm, erfiðaði fyrir aðra í söfnuðinum. (Rómv. 16:6) Hvernig getum við sýnt nýjum fram á að það sé mikilvægt að aðstoða bræður sína og systur?
14 Reyndir vottar geta boðið nýjum með sér þegar þeir heimsækja sjúka og aldraða. Foreldrar geta tekið börnin sín með í heimsóknir af því tagi ef við á. Öldungar heimsækja gjarnan aldraða í söfnuðinum til að ganga úr skugga um að þeir hafi nóg að borða og að dytt sé að einu og öðru á heimilum þeirra. Þá geta þeir beðið unga fólkið eða nýja í söfnuðinum að koma með sér. Þannig læra ungir og nýir vottar að gera öðrum gott. Öldungur nokkur var vanur að líta inn hjá vottum á sveitasvæði þar sem hann starfaði til að kanna hvernig þeim liði. Ungur bróðir, sem starfaði oft með honum, lærði af þessu að allir í söfnuðinum þurfi að finna að öðrum þyki vænt um þá. – Rómv. 12:10.
15. Hvers vegna er mikilvægt að öldungar stuðli að framförum bræðra í söfnuðinum?
15 Jehóva hefur falið karlmönnum það verkefni að kenna í söfnuðinum. Það er því mikilvægt að bræður þjálfi sig í ræðumennsku. Ef þú ert öldungur geturðu kannski hlustað á safnaðarþjón þegar hann æfir sig í að flytja ræðu. Með þinni hjálp getur hann ef til vill orðið færari kennari. – Neh. 8:8.[3]
16, 17. (a) Hvernig sýndi Páll áhuga á framförum Tímóteusar? (b) Hvernig geta öldungarnir þjálfað tilvonandi hirða hjarðarinnar?
16 Það vantar fleiri öldunga til að gæta hjarðarinnar og þeir sem eiga að gera það á komandi árum þurfa að fá markvissa kennslu. Páll lýsir í meginatriðum hvernig hægt sé að veita slíka kennslu. Hann skrifaði Tímóteusi: „Þú barnið mitt ... ver styrkur í náðinni sem veitist í Kristi Jesú. Það sem þú heyrðir mig tala í margra votta viðurvist skalt þú fá í hendur trúum mönnum sem líka munu færir um að kenna öðrum.“ (2. Tím. 2:1, 2) Páll var bæði öldungur og postuli, og Tímóteus lærði margt af honum. Tímóteus beitti síðan aðferðum Páls í boðuninni og þjónustu sinni í söfnuðinum. – 2. Tím. 3:10-12.
17 Páll lét ekki tilviljun ráða hvers konar kennslu og þjálfun Tímóteus fengi heldur leyfði honum að ferðast með sér. (Post. 16:1-5) Öldungar geta líkt eftir Páli og tekið hæfa safnaðarþjóna með sér í hirðisheimsóknir þegar við á. Þannig fá safnaðarþjónarnir tækifæri til að sjá með eigin augum hvernig umsjónarmennirnir kenna og hvernig þeir sýna kærleika, trú og þolinmæði. Þetta er mikilvægt til að þjálfa tilvonandi hirða hjarðar Guðs. – 1. Pét. 5:2.
ÞAÐ ER MIKILVÆGT AÐ KENNA ÖÐRUM
18. Hvers vegna ættum við að leggja áherslu á að þjálfa aðra í þjónustu Jehóva?
18 Núna rétt fyrir endalokin þurfa margir nýir að fá þjálfun og kennslu til að verða skilvirkari í boðuninni. Það vantar líka fleiri bræður til að gæta hjarðarinnar. Jehóva vill að allir þjónar sínir fái góða þjálfun til starfa og hann hefur falið okkur það verkefni að hjálpa þeim sem eru nýir í söfnuðinum. Það er því mikilvægt að leggja sig fram við að kenna þeim og þjálfa þá, rétt eins og Jesús og Páll gerðu. Við þurfum að þjálfa eins marga og við getum vegna þess að það er enn margt ógert í boðuninni áður en endirinn kemur.
19. Hvers vegna geturðu treyst að Jehóva styðji þig þegar þú þjálfar aðra?
19 Það kostar auðvitað tíma og vinnu að þjálfa aðra. En Jehóva og Jesús styðja okkur og gefa okkur þá visku sem til þarf. Það er gleðilegt að fylgjast með þeim sem við aðstoðum ,leggja á sig erfiði‘ í söfnuðinum og boðuninni. (1. Tím. 4:10) Og sjálf skulum við halda áfram að taka framförum í heilagri þjónustu okkar við Jehóva.
^ [1] (7. grein.) Jesús ræddi meðal annars við postulana um eftirfarandi: (1) Að boða rétta boðskapinn, (2) að treysta að Guð sæi þeim fyrir lífsnauðsynjum, (3) að standa ekki í deilum við fólk, (4) að treysta Guði þegar þeir ættu í höggi við andstæðinga og (5) að óttast ekki menn.
^ [2] (9. grein.) Í bókinni Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum, bls. 62-64, er að finna góðar tillögur um hvernig við getum átt samræður við fólk þegar við boðum trúna.
^ [3] (15. grein.) Í bókinni Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum, bls. 52-61, er rætt um helstu þætti góðrar ræðumennsku.