Tjáskipti í hinni kristnu þjónustu
„Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“ — MATTEUS 28:19.
1. Hvaða starfsumboð frá Kristi gefur í skyn þörfina á tjáskiptum?
STARFSUMBOÐ Jesú, sem vitnað er í hér að ofan, setur okkur það krefjandi verkefni að eiga tjáskipti við fólk í þjónustu okkar er við förum hús úr húsi, förum í endurheimsóknir og tökum þátt í öllum öðrum greinum prédikunar Guðsríkis. Innifalin í þessu starfsumboði er sú ábyrgð að kunngera sannleikann um Jehóva Guð, Jesú Krist og um messíasarríkið sem Jesús stjórnar núna. — Matteus 25:31-33.
2. Hvað þarf til að tjáskiptin séu árangursrík?
2 Hvernig getum við komið boðskap okkar á framfæri með áhrifaríkustum hætti? Í fyrsta lagi verðum við að trúa fullkomlega á þær upplýsingar sem við erum að miðla. Með öðrum orðum verðum við að hafa sterka trú á að Jehóva sé hinn eini sanni Guð, að Biblían sé í raun og veru orð Guðs og að Guðsríki sé eina von mannkynsins. Þá mun það sem við kennum koma frá hjartanu og við tökum til okkar hvatningu Páls til Tímóteusar: „Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:15.
Tjáskipti án orða
3-5. (a) Hvernig getum við komið boðum á framfæri án þess að segja orð? (b) Hvaða reynslufrásagnir sýna það?
3 Tjáskipti eiga sér oft stað með orðum. En í raun erum við byrjuð að eiga tjáskipti við fólk áður en við tölum við það. Hvernig? Með framkomu okkar, klæðaburði og snyrtimennsku. Fyrir mörgum árum var trúboði, nýútskrifaður úr biblíuskóla Varðturnsins, Gíleað, á siglingu með farþegaskipi til starfssvæðis síns erlendis. Eftir nokkurra daga sjóferð spurði ókunnur maður hann að því hvers vegna hann væri svona ólíkur öllum öðrum um borð. Aðeins með útliti sínu og framkomu var trúboðinn að koma eftirtektarverðum upplýsingum á framfæri — að hann hefði aðra lífsstaðla en annað fólk og væri viðmótsgóður. Þetta gaf honum gott tækifæri til að bera vitni.
4 Þá má nefna systur sem stóð úti á götu og var að bjóða vegfarendum biblíurit. Hún brosti vingjarnlega til konu sem gekk fram hjá. Konan lagði af stað niður tröppurnar að neðanjarðarjárnbrautarstöð. En svo skipti hún um skoðun, sneri við og gekk til systurinnar og bað hana um biblíunám. Hvað hafði haft áhrif á hana? Þótt henni hefðu ekki verið boðin biblíurit hafði votturinn, sem var í götustarfinu, sent henni vingjarnlegt bros.
5 Nefnum eitt dæmi enn: Nokkrir ungir vottar borðuðu saman í veitingahúsi. Þeim kom það mjög á óvart þegar bláókunnugur maður gekk að borðinu þeirra og borgaði matinn fyrir þá. Hvers vegna gerði hann það? Hann hafði hrifist af framkomu þeirra. Án þess að segja orð við ókunna manninn höfðu þessi kristnu ungmenni komið þeim boðum á framfæri að þau væru guðhræddir einstaklingar. Ljóst er að við berum ákveðinn boðskap með framkomu okkar, útliti og vingjarnleik, áður en við segjum aukatekið orð. — Samanber 1. Pétursbréf 3:1, 2.
Rökræður er mikilvægur þáttur tjáskipta
6. Sýndu með dæmi hvernig rökræður eru nauðsynlegur þáttur tjáskipta.
6 Til að tjá fólki fagnaðarerindið munnlega verðum við að vera tilbúin til að rökræða við það, ekki aðeins tala með kreddukenndum hætti. Við lesum aftur og aftur að Páll hafi rökrætt við þá sem hann reyndi að miðla fagnaðarerindinu. (Postulasagan 17:2, 17; 18:19) Hvernig getum við fylgt fordæmi hans? Nú, versnandi heimsástand getur fengið suma til að efast um að til sé alvaldur og elskuríkur Guð sem lætur sér annt um mannkynið. Við gætum hins vegar rökrætt við þá á þeim nótum að Guð hafi tiltekinn tíma til allra hluta. (Prédikarinn 3:1-8) Þannig segir Galatabréfið 4:4 að Guð hafi sent son sinn til jarðar í fyllingu tímans. Það var þúsundum ára eftir að hann hét því fyrst að gera það. Eins mun hann, þegar tiltekinn tími hans kemur, binda enda á þjáningar og mannvonsku. Enn fremur sýnir orð Guðs að Guð hefur ærna ástæðu til að leyfa tilvist vonskunnar svona lengi. (Samanber 2. Mósebók 9:16.) Sé rökrætt á þessum nótum og rökin studd líkingum og sterkum sönnunargögnum út frá Biblíunni hjálpar það einlægum mönnum að gera sér ljóst að ekki sé hægt að nota tilvist illskunnar sem rök fyrir því að Jehóva sé ekki til eða standi á sama. — Rómverjabréfið 9:14-18.
7, 8. Hvernig mætti rökræða við rétttrúaðan Gyðing?
7 Setjum sem svo að þú sért að fara hús úr húsi og húsráðandi segi við þig: „Ég hef ekki áhuga. Ég er Gyðingur.“ Hvað gætir þú sagt? Einn bróðir hefur náð góðum árangri með því að segja: ‚Ég er viss um að þú ert mér sammála um að Móse hafi verið einn mesti spámaður sem Guð hefur notað. Og vissir þú að hann sagði eins og stendur í 5. Mósebók 31:29: „Því að ég veit, að eftir dauða minn munuð þér . . . víkja af þeim vegi, sem ég hefi boðið yður. Þá mun og ógæfan koma yfir yður“? Móse var sannur spámaður þannig að orð hans hljóta að hafa ræst. Getur hugsast að þau hafi ræst þegar Guð sendi Gyðingum Messías og að það sé þess vegna sem Gyðingar tóku ekki við honum? Það er hugsanlegt. En ef svo var og þeim urðu á mistök, er þá nokkur ástæða fyrir mig og þig að gera sömu mistökin?‘
8 Höfum líka hugfast að Gyðingar hafa liðið margt af hendi kristna heimsins, einkanlega á þessari öld. Þig gæti því langað til að segja húsráðanda að við höfum engan þátt tekið í því. Til dæmis gætir þú sagt: ‚Vissir þú að þegar Hitler var við völd tóku vottar Jehóva ekki mark á viðskiptabanni hans gegn Gyðingum? Þeir neituðu líka að heilsa með Hitlerskveðju og þjóna í her hans.‘a
9, 10. Hvernig mætti rökræða við þann sem trúir á helvíti?
9 Til að reyna að koma sannleikanum á framfæri við þann sem trúir á helvíti gætir þú sagt sem svo að menn hljóti að hafa ódauðlega sál ef þeir eigi að geta þjáðst að eilífu í helvíti. Sá sem trúir á helvíti fellst fúslega á það. Þá getur þú nefnt frásöguna af sköpun Adams og Evu og spurt vingjarnlega hvort þar sé nokkurs staðar minnst á slíka ódauðlega sál. Síðan gætir þú vakið athygli hans á 1. Mósebók 2:7 þar sem Biblían segir að Adam hafi orðið sál, og svo bent á það sem Guð sagði myndu verða afleiðinguna af synd Adams: „Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (1. Mósebók 3:19) Sálin Adam hvarf því aftur til moldarinnar.
10 Þú getur líka bent á þá staðreynd að frásaga 1. Mósebókar minnist hvergi á eilífar kvalir í vítiseldi. Þegar Guð varaði Adam við því að neyta forboðna ávaxtarins sagði hann: „Jafnskjótt og þú etur [ávöxtinn], skalt þú vissulega deyja.“ (1. Mósebók 2:17) Ekki aukatekið orð um helvíti! Ef hin raunverulega afleiðing syndar Adams átti ekki að vera dauði, það að ‚hverfa aftur til moldarinnar,‘ heldur eilífar þjáningar, hefði þá Guð ekki átt að útskýra það greinilega fyrir Adam? Þannig getur vönduð og vingjarnleg rökfærsla hjálpað einlægum einstaklingi að sjá ósamræmið í trúarskoðunum sínum. Megum við aldrei missa sjónar á mikilvægi þess að höfða til rökhyggju manna þegar við tölum við þá um sannindi orðs Guðs. — Samanber 2. Tímóteusarbréf 2:24-26; 1. Jóhannesarbréf 4:8, 16.
Hæfileikar sem þarf til áhrifaríkra tjáskipta
11-13. Hvaða kristnir eiginleikar gera hjálpað okkur að koma boðskapnum á framfæri með áhrifaríkum hætti?
11 Hvað eiginleika verðum við að rækta til að geta komið sannindum Guðsríkis á framfæri á sem áhrifaríkastan hátt? Nú, hvað getum við lært um það af fordæmi Jesú? Í Matteusi 11:28-30 lesum við þessi orð: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ Þarna sjáum við einn lykilinn að því hve áhrifarík tjáskipti Jesú voru. Hann var hógvær og af hjarta lítillátur. Réttsinnuðu fólki fannst návist hans hressandi. Páll postuli gaf líka gott fordæmi því að hann þrælaði fyrir Drottin „í allri auðmýkt,“ eins og hann sagði öldungunum frá Efesus. — Postulasagan 20:19.
12 Ef við erum alltaf hógvær og lítillát þykir öðrum návist okkar einnig hressandi, og það auðveldar okkur að skiptast á skoðunum við þá. Sérhver önnur viðhorf munu líklega reisa múr milli okkar og þeirra sem við reynum að eiga tjáskipti við. Sannarlega er ‚viska hjá lítillátum.‘ — Orðskviðirnir 11:2.
13 Þolinmæði og háttvísi er einnig mikilvæg til að koma upplýsingum á framfæri með áhrifaríkum hætti. Páll postuli var vissulega háttvís er hann vitnaði fyrir heimspekingunum sem söfnuðust saman frammi fyrir honum á Marshæð. Hann kom fagnaðarerindinu þannig á framfæri að þeir gátu skilið. (Postulasagan 17:18, 22-31) Ef við viljum koma boðskapnum vel á framfæri við áheyrendur okkar verðum við að hlýða ráðleggingu Páls við Kólossumenn er hann sagði: „Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.“ (Kólossubréfið 4:6) Mál okkar ætti alltaf að vera smekklegt. Slíkt mál er til þess fallið að opna hugi áheyrenda okkar en ógætileg orð geta aftur á móti komið þeim til að loka huganum.
14. Hvernig getur gott jafnvægi og samræðuform hjálpað okkur að ná til fólks?
14 Við viljum öllum stundum koma mönnum svo fyrir sjónir að við séum í góðu jafnvægi. Það hjálpar áheyrendum okkar að slaka á. Ef við erum í góðu jafnvægi reynum við ekki að tala linnulaust. Með því að vera róleg og spyrja vingjarnlegra spurninga gefum við áheyrendum okkar tækifæri til að tjá sig. Einkum þegar við berum óformlega vitni er viturlegt að hvetja aðra til að tjá sig. Vottur sat einu sinni við hliðina á rómversk-kaþólskum presti í flugvél. Í meira en klukkustund spurði votturinn prestinn háttvíslegra spurninga og það var aðallega presturinn sem talaði er hann svaraði spurningunum. Þegar leiðir þeirra skildu hafði presturinn þó tekið við nokkrum biblíuritum. Það að nálgast fólk með slíkri þolinmæði hjálpar okkur að sýna annan mikilvægan eiginleika, það er að segja að lifa okkur inn í tilfinningar annarra.
15, 16. Hvernig getur það að setja okkur í spor annarra hjálpað okkur að koma boðskap okkar á framfæri?
15 Við þurfum að geta sett okkur í spor annarra. Páll postuli gerði sér fulla grein fyrir þörfinni á því eins og sjá má af orðum hans til Korintumanna: „Þótt ég sé öllum óháður, hef ég gjört sjálfan mig að þræli allra, til þess að ávinna sem flesta. Ég hef verið Gyðingunum sem Gyðingur, til þess að ávinna Gyðinga. Þeim, sem eru undir lögmálinu, hef ég verið eins og sá, sem er undir lögmálinu, enda þótt ég sjálfur sé ekki undir lögmálinu, til þess að ávinna þá, sem eru undir lögmálinu. Hinum lögmálslausu hef ég verið sem lögmálslaus, þótt ég sé ekki laus við lögmál Guðs, heldur bundinn lögmáli Krists, til þess að ávinna hina lögmálslausu. Hinum óstyrku hef ég verið óstyrkur til þess að ávinna hina óstyrku. Ég hef verið öllum allt, til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra. Ég gjöri allt vegna fagnaðarerindisins, til þess að ég fái hlutdeild með því.“ — 1. Korintubréf 9:19-22.
16 Til að líkja eftir Páli postula á þessum sviðum þurfum við að vera háttvís, skynug og athugul. Það að setja okkur í spor áheyrenda okkar hjálpar okkur að koma sannleikanum á framfæri við þá í samræmi við hugsunarhátt þeirra og tilfinningar. Bókin Rökrætt úr af Ritningunni er mikil hjálp á þessu sviði. Hafðu hana alltaf með þér í þjónustunni.
Kærleikur — hjálp í tjáskiptum
17. Hvað kristinn eiginleiki er mikilvægastur allra til að koma sannleikanum á framfæri með áhrifaríkum hætti, og hvernig birtist hann?
17 Hógværð, lítillæti, þolinmæði og það að setja okkur í spor annarra er mikilvægt til að miðla upplýsingum með áhrifaríkum hætti. Framar öllu öðru er óeigingjarn kærleikur okkur þó hjálp til að ná vel til hjartna manna. Jesús kenndi í brjósti um fólk vegna þess að það var ‚hrjáð og tvístrað eins og sauðir er engan hirði hafa.‘ Það var kærleikur sem fékk Jesú til að segja: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“ (Matteus 9:36; 11:28) Það er vegna þess að við elskum fólk sem við viljum líka hressa það og hjálpa því að komast inn á veginn til lífsins. Boðskapur okkar er boðskapur kærleikans, þannig að við skulum koma honum á framfæri á kærleiksríkan hátt. Þessi kærleikur birtist í vingjarnlegu brosi, góðvild og mildi, gleði og hlýju.
18. Hvernig getum við líkt eftir Páli eins og hann líkti eftir meistara sínum?
18 Páll var góður eftirbreytandi meistarans, Jesú Krists, að þessu leyti. Hvers vegna varð honum svona vel ágengt í því að stofna hvern söfnuðinn á fætur öðrum? Vegna kostgæfni hans? Já, en líka vegna kærleika hans. Taktu eftir þeirri ástúð sem hann tjáir hinum nýja söfnuði í Þessaloníku: „Vér vorum mildir yðar á meðal, eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum. Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voruð orðnir oss ástfólgnir.“ — 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8.
19. Hvers vegna ættum við ekki að láta erfitt starfssvæði draga úr okkur kjark?
19 Ættum við að missa kjarkinn ef við höfum gert okkar besta til að koma boðskapnum á framfæri en náum ekki þeim árangri sem við óskum? Alls ekki. Biblíunemendurnir (eins og vottar Jehóva voru kallaðir áður) höfðu á orði að fólk þyrfti að vera gætt þrem eiginleikum til að taka við sannleikanum. Það þyrfti að vera heiðarlegt, auðmjúkt og hungrað. Við getum ekki búist við að óeinlægt fólk eða óheiðarlegt taki jákvætt á móti sannleikanum; við getum ekki heldur búist við að drambsamir eða stoltir einstaklingar hlýði á fagnaðarerindið. Enn fremur er ekki líklegt að sá taki við sannleikanum sem er ekki andlega hungraður, þótt hann sé heiðarlegur og auðmjúkur að einhverju marki.
20. Hvers vegna er alltaf hægt að segja að viðleitni okkar hafi ekki verið til einskis?
20 Enginn vafi leikur á að þú hittir marga á starfssvæði þínu sem skortir einn eða fleiri þessara eiginleika. Sú var einnig reynsla spámannsins Jeremía. (Jeremía 1:17-19; samanber Matteus 5:3.) Starf okkar er þó ekki til einskis. Hvers vegna? Vegna þess að við erum að kunngera nafn Jehóva og ríki. Með prédikun okkar og jafnvel nærveru einni saman erum við að aðvara hina óguðlegu. (Esekíel 33:33) Og gleymum aldrei að með viðleitni okkar til að koma sannleikanum á framfæri við aðra gerum við sjálfum okkur gott. (1. Tímóteusarbréf 4:16) Við höldum trú okkar sterkri og voninni um Guðsríki bjartri. Enn fremur varðveitum við ráðvendni og eigum þannig hlutdeild í að helga nafn Jehóva Guðs og gleðja hjarta hans. — Orðskviðirnir 27:11.
21. Hvernig getum við dregið saman það sem við höfum lært?
21 Í hnotskurn getum við sagt að tjáskipti séu áhrifarík upplýsingamiðlun. Tjáskipti eru afarmikilvæg list og það er mjög til tjóns þegar tjáskiptaleiðir rofna. Við höfum séð að Jehóva Guð og Jesús Kristur skara fram úr í tjáskiptum og að Jesús Kristur hefur komið á ákveðinni tjáskiptaleið á okkar tímum. Við höfum líka séð að hegðun okkar og útlit flytur fólki ákveðinn boðskap. Við höfum lært að rökræður gegna mikilvægu hlutverki í viðleitni okkar til að skiptast á skoðunum við fólk, og að við verðum að vera auðmjúk og hógvær, setja okkur í spor annarra, vera þolinmóð og, framar öllu öðru, að láta mótast af hjarta sem er fullt kærleika, til að tjáskipti okkar séu árangursrík. Ef við ræktum þessa eiginleika og fylgjum fordæmum úr Biblíunni getum við átt góð tjáskipti við aðra sem kristnir menn. — Rómverjabréfið 12:8-11.
[Neðanmáls]
a Fleiri tillögur um það hvernig skiptast megi á skoðunum við trúaða Gyðinga og aðra er að finna í bókinni Rökrætt út af Ritningunni, bls. 21-4.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvaða boðskap berum við áður en við höfum sagt aukatekið orð?
◻ Nefndu dæmi um hvernig hægt er að rökræða við fólk með áhrifaríkum hætti.
◻ Hvaða eiginleikar gerðu Jesú Kristi og Páli kleift að eiga áhrifarík tjáskipti við fólk?
◻ Hvers vegna þurfum við ekki að missa móðinn þótt árangurinn láti á sér standa?