Ástundar þú dyggð?
„Hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 4:8.
1. Hvað eru lestir og hvers vegna hafa þeir ekki spillt tilbeiðslunni á Jehóva?
LÖSTUR er sama og ódyggð eða siðspilling, og heimurinn, sem við lifum í, er gagnsýrður löstum. (Efesusbréfið 2:1-3) En Jehóva Guð leyfir ekki að hrein tilbeiðsla hans spillist. Við fáum tímabærar viðvaranir gegn rangri breytni í biblíutengdum ritum, á samkomum og mótum. Við fáum ágæta, biblíulega hjálp til að ‚halda fast við hið góða‘ í augum Guðs. (Rómverjabréfið 12:9) Vottar Jehóva kappkosta því sem samtök að vera hreinir og dyggðugir. En hvað um okkur sem einstaklinga? Ástundar þú dyggð?
2. Hvað er dyggð og hvers vegna kostar það áreynslu að vera dyggðugur?
2 Dyggð er góður siðferðilegur eiginleiki, siðgæði, rétt verk og hugsun. Hún er ekki hlutlaus heldur virk og jákvæð. Dyggð er meira en að forðast synd; hún merkir að stunda það sem gott er. (1. Tímóteusarbréf 6:11) Pétur postuli hvatti kristna bræður sína til að ‚auðsýna í trú sinni dyggð.‘ Hvernig? Með því að ‚leggja alla stund á‘ hana í samræmi við dýrmæt fyrirheit Guðs. (2. Pétursbréf 1:5) Sökum þess að við erum syndug að eðli kostar það áreynslu að vera dyggðugur. En guðhrætt fólk forðum daga gerði það, jafnvel þótt fjallháar hindranir væru í veginum.
Hann ástundaði dyggð
3. Hvaða vonskuverk var Akas konungur sekur um?
3 Í Ritningunni eru margar frásagnir af fólki sem ástundaði dyggð. Tökum hinn dyggðuga Hiskía sem dæmi. Faðir hans, Akas Júdakonungur, tilbað greinilega Mólok. „Akas var tvítugur að aldri, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði ekki það, sem rétt var í augum [Jehóva], Guðs hans, svo sem Davíð forfaðir hans, heldur fetaði hann í fótspor Ísraelskonunga. Hann lét jafnvel son sinn ganga gegnum eldinn og drýgði þannig sömu svívirðingarnar og þær þjóðir, er [Jehóva] hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum. Hann fórnaði og sláturfórnum og reykelsisfórnum á fórnarhæðunum og hólunum og undir hverju grænu tré.“ (2. Konungabók 16:2-4) Sumir segja að það að „ganga gegnum eldinn“ hafi táknað einhvers konar hreinsunarathöfn en ekki mannafórnir. En bókin Molech — A God of Human Sacrifice in the Old Testament eftir John Day segir: „Klassískar og púnverskar [karþagóskar] heimildir, svo og fornmenjar, benda til að mannafórnir hafi verið stundaðar . . . í heimi Kanverja, þannig að það er engin ástæða til að véfengja óbeinar tilvísanir Gamla testamentisins [til mannafórna].“ Og 2. Kroníkubók 28:3 tekur sérstaklega fram að Akas hafi ‚brennt syni sína í eldi.‘ (Biblían 1859; samanber 5. Mósebók 12:31; Sálm 106:37, 38.) Hvílíkt vonskuverk!
4. Hvernig hegðaði Hiskía konungur sér í lastafullu umhverfi?
4 Hvernig vegnaði Hiskía í þessu lastafulla umhverfi? Sálmur 119 er athyglisverður því sumir telja að Hiskía hafi ort hann meðan hann var enn þá prins. (Sálmur 119:46, 99, 100) Aðstæður hans má kannski lesa út úr orðunum: „Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér, þá íhugar þjónn þinn lög þín. Sál mín tárast af trega.“ (Sálmur 119:23, 28) Hiskía var umkringdur falstrúariðkendum og þurfti kannski að þola slíkt háð og spott konungshirðarinnar að honum var ekki svefnsamt. Samt sem áður var hann dyggðugur, varð síðar konungur og „gjörði það, sem rétt var í augum [Jehóva] . . . Hiskía treysti [Jehóva], Ísraels Guði.“ — 2. Konungabók 18:1-5.
Þeir voru dyggðugir
5. Í hvaða prófraunum lentu Daníel og félagar hans þrír?
5 Hebreinn Daníel og félagar hans þrír, þeir Hananja, Mísael og Asarja, voru einnig til fyrirmyndar í að auðsýna dyggð. Þeir voru fluttir með valdi frá heimalandi sínu til Babýlonar í útlegð. Unglingunum fjórum voru gefin babýlonsk nöfn — Beltsasar, Sadrak, Mesak og Abed-Negó. Þeim voru boðnar krásir „frá konungsborði,“ þar á meðal matur sem var bannaður samkvæmt lögmáli Guðs. Að auki voru þeir neyddir til að gangast undir þriggja ára nám í ‚bókmenntum og tungu Kaldea.‘ Hér var ekki aðeins um það að ræða að læra erlent tungumál því að með orðinu ‚Kaldear‘ er hér líklega átt við menntastéttina. Þessir hebresku unglingar komust því í kynni við rangsnúnar kenningar Babýlonar. — Daníel 1:1-7.
6. Hvers vegna getum við sagt að Daníel hafi ástundað dyggð?
6 Þrátt fyrir að Daníel og félagar hans þrír væru beittir gífurlegum þrýstingi tóku þeir dyggðina fram yfir lestina. Daníel 1:21 segir: „Daníel dvaldist þar allt til fyrsta árs Kýrusar konungs.“ Já, hann dvaldist þarna sem dyggðugur þjónn Jehóva í meira en 80 ár — meðan nokkrir voldugir konungar komu og fóru. Hann var Guði trúr þrátt fyrir leynimakk og samsæri spilltra embættismanna og þá kynferðislegu lesti sem gagnsýrðu trúarbrögð Babýlonar. Daníel hélt áfram að ástunda dyggð.
7. Hvað er hægt að læra af stefnu Daníels og félaga hans þriggja?
7 Við getum lært margt af hinum guðhrædda Daníel og félögum hans. Þeir voru dyggðugir og neituðu að samlagast babýlonskri menningu. Þótt þeim væru gefin babýlonsk nöfn voru þeir alltaf þekktir sem þjónar Jehóva. Um 70 árum síðar ávarpaði jafnvel konungur Babýlonar Daníel með hebresku nafni hans! (Daníel 5:13) Á langri ævi neitaði Daníel alltaf að láta undan, jafnvel í smáu. Sem ungur maður hafði hann ‚einsett sér að saurga sig ekki á matnum frá konungsborði.‘ (Daníel 1:8) Þessi einbeitta afstaða Daníels og félaga hans þriggja styrkti þá vafalaust til að standast síðari prófraunir þar sem um líf og dauða var að tefla. — Daníel 3. og 6. kafli.
Að ástunda dyggð nú á tímum
8. Hvernig geta kristnir unglingar forðast að samlagast heimi Satans?
8 Líkt og Daníel og félagar hans þrír forðast fólk Guðs nú á tímum að samlagast illum heimi Satans. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Kristnir unglingar mega búast við að jafnaldrarnir þrýsti fast á þá að herma eftir sér í öfgafullum klæðaburði, snyrtingu og tónlist. En í stað þess að fylgja hverri einustu dellu eða tísku sem upp kemur skaltu vera staðfastur og ekki ‚hegða þér eftir öld þessari.‘ (Rómverjabréfið 12:2) ‚Afneitaðu óguðleik og veraldlegum girndum og lifðu hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum.‘ (Títusarbréfið 2:11, 12) Það er velþóknun Jehóva en ekki jafnaldra þinna sem skiptir máli. — Orðskviðirnir 12:2.
9. Hvaða þrýstingi gætu kristnir menn orðið fyrir í viðskiptalífinu og hvernig ættu þeir að hegða sér?
9 Fullorðnir kristnir menn verða líka fyrir þrýstingi og verða að vera dyggðugir. Kannski er reynt að freista kristinna kaupsýslumanna til að beita vafasömum viðskiptaháttum eða hunsa reglur og skattalög yfirvalda. En hvernig svo sem keppinautar eða vinnufélagar hegða sér ‚viljum við í öllum greinum breyta vel‘ og heiðarlega. (Hebreabréfið 13:18) Ritningin leggur okkur þá kvöð á herðar að vera heiðarleg og sanngjörn við vinnuveitendur, starfsmenn, viðskiptavini og veraldleg stjórnvöld. (5. Mósebók 25:13-16; Matteus 5:37; Rómverjabréfið 13:1; 1. Tímóteusarbréf 5:18; Títusarbréfið 2:9, 10) Við skulum líka gera okkur far um að hafa góða reglu á öllum viðskiptum okkar. Oft má afstýra misskilningi með því að halda nákvæmar skrár og gera skriflega samninga.
Vertu á varðbergi
10. Af hverju er nauðsynlegt að vera á varðbergi gagnvart tónlist?
10 Sálmur 119:9 leggur áherslu á annan þátt þess að vera dyggðugur í augum Guðs. Sálmaritarinn söng: „Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að [„vera á varðbergi samkvæmt,“ NW] orði þínu.“ Tónlist er eitt af áhrifamestu vopnum Satans því að hún getur hreyft við tilfinningunum. Því miður hafa sumir kristnir menn ekki ‚verið á varðbergi‘ gagnvart tónlist og sótt í öfgafullar tónlistargreinar svo sem rapp og þungarokk. Sumir segja kannski að slík tónlist geri sér ekki mein eða að þeir hlusti ekki á textana. Aðrir segjast bara hafa ánægju af kröftugum takti eða sterkum gítarleik. En hjá kristnum mönnum snýst málið ekki um það hvort eitthvað sé skemmtilegt eða ekki. Hjá þeim er aðalatriðið „hvað Drottni þóknast.“ (Efesusbréfið 5:10) Stór hluti þungarokks og rapptónlistar heldur á loft löstum svo sem blótsyrðum, siðleysi og jafnvel Satansdýrkun — og slíkt á vissulega ekki heima meðal fólks Guðs.a (Efesusbréfið 5:3) Hvort sem við erum ung eða gömul ættum við öll að íhuga hvort við séum að ástunda dyggð eða lesti með tónlistarvali okkar.
11. Hvernig getur kristinn maður verið á varðbergi gagnvart sjónvarpsþáttum, myndböndum og kvikmyndum?
11 Margir sjónvarpsþættir, myndbönd og kvikmyndir hvetja til ýmissa lasta. Að sögn þekkts barnageðlæknis eru ‚nautnalíf, kynlíf, ofbeldi, ágirnd og eigingirni‘ yfirgnæfandi í flestum kvikmyndum sem nú eru gerðar. Til að vera á varðbergi er því nauðsynlegt að velja af vandfýsni það sem við horfum á. Sálmaritarinn bað: „Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma.“ (Sálmur 119:37) Kristinn unglingur, Jósep, fór eftir þessari meginreglu. Hann yfirgaf kvikmyndahúsið þegar gróft kynlíf og ofbeldi birtist á tjaldinu. Fannst honum vandræðalegt að gera það? „Nei, alls ekki,“ segir hann. „Ég hugsaði fyrst og fremst um að þóknast Jehóva.“
Hlutverk náms og hugleiðingar
12. Hvers vegna er einkanám og hugleiðing nauðsynleg til að ástunda dyggð?
12 Það er ekki aðeins nóg að forðast hið illa. Að ástunda dyggð felur einnig í sér að nema og hugleiða hið góða sem orð Guðs segir frá þannig að hægt sé að fara eftir réttlátum meginreglum þess í lífinu. „Hve mjög elska ég lögmál þitt,“ sagði sálmaritarinn, „allan liðlangan daginn íhuga ég það.“ (Sálmur 119:97) Er einkanám í Biblíunni og biblíutengdum ritum á vikulegri stundaskrá þinni? Vissulega getur það kostað átak að taka sér tíma til að nema orð Guðs rækilega og hugleiða það í bænarhug. En oft er hægt að taka sér tíma frá öðru. (Efesusbréfið 5:15, 16) Kannski hentar þér vel að biðja, nema og hugleiða snemma morguns. — Samanber Sálmur 119:147.
13, 14. (a) Af hverju er hugleiðing ómetanleg? (b) Hvaða ritningarstaðir geta hjálpað okkur að hafa andstyggð á siðleysi?
13 Hugleiðing er ómetanleg því að hún hjálpar okkur að muna það sem við lærum. Enn mikilvægara er að hún getur stuðlað að guðrækilegum viðhorfum. Tökum dæmi: Það er eitt að vita að Guð bannar siðleysi en allt annað að ‚hafa andstyggð á hinu vonda og halda fast við hið góða.‘ (Rómverjabréfið 12:9) Við getum virkilega skynjað hvað Jehóva finnst um siðleysi með því að ígrunda mikilvæga ritningarstaði eins og Kólossubréfið 3:5 sem hvetur: „Deyðið því hið jarðneska í fari yðar: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd, sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun.“ Spyrðu þig hvers konar kynferðislanganir þú þurfir að deyða. Hvað ættirðu að forðast sem gæti vakið óhreinar langanir? Þarftu að breyta framkomu þinni við hitt kynið? — Samanber 1. Tímóteusarbréf 5:1, 2.
14 Páll hvetur kristna menn til að halda sér frá siðleysi og sýna sjálfstjórn þannig að þeir ‚geri bróður sínum ekki rangt til né blekki hann.‘ (1. Þessaloníkubréf 4:3-7) Spyrðu þig hvers vegna siðleysi sé skaðlegt. Hvaða tjón myndirðu vinna sjálfum þér eða einhverjum öðrum ef þú syndgaðir í þessu efni? Hvaða áhrif gæti það haft á þig andlega, tilfinningalega og líkamlega? Hvað um safnaðarmenn sem hafa brotið lög Guðs og iðrast ekki? Hvernig hefur farið fyrir þeim? Með því að gefa gaum að því sem Ritningin segir um slíka breytni geturðu dýpkað hatur þitt á því sem er illt í augum Guðs. (2. Mósebók 20:14; 1. Korintubréf 5:11-13; 6:9, 10; Galatabréfið 5:19-21; Opinberunarbókin 21:8) Páll segir að saurlífismaður ‚fyrirlíti ekki mann heldur Guð.‘ (1. Þessaloníkubréf 4:8) Hvaða sannkristinn maður fyrirlítur himneskan föður sinn?
Dyggð og félagsskapur
15. Hvernig getur félagsskapur hjálpað okkur að vera dyggðug?
15 Góður félagsskapur er önnur hjálp til að vera dyggðugur. Sálmaritarinn söng: „Ég er félagi allra þeirra er óttast þig [Jehóva] og varðveita fyrirmæli þín.“ (Sálmur 119:63) Við þörfnumst hins heilnæma félagsskapar sem við fáum á kristnum samkomum. (Hebreabréfið 10:24, 25) Ef við einangrum okkur getum við orðið sjálfselsk í hugsun og lestir hæglega náð tökum á okkur. (Orðskviðirnir 18:1, NW) Góður kristinn félagsskapur getur hins vegar styrkt þann ásetning okkar að vera dyggðug. Við verðum auðvitað líka að forðast slæman félagsskap. Við getum verið vingjarnleg við nágranna, vinnufélaga og skólafélaga. En ef við erum vitur forðumst við of náin tengsl við þá sem ástunda ekki kristnar dyggðir. — Samanber Kólossubréfið 4:5.
16. Hvernig getur 1. Korintubréf 15:33 hjálpað okkur að vera dyggðug?
16 Páll skrifaði: „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ Með þessum orðum var hann að vara hina trúuðu við því að þeir gætu misst trúna ef þeir umgengjust þá sem kölluðu sig kristna en höfnuðu kenningu Biblíunnar um upprisuna. Meginreglan að baki viðvörun Páls á við félagsskap okkar bæði utan safnaðar og innan. (1. Korintubréf 15:12, 33) En við viljum auðvitað ekki sniðganga andlega bræður okkar og systur af því að þau eru ekki sammála einhverju persónulegu sjónarmiði okkar. (Matteus 7:4, 5; Rómverjabréfið 14:1-12) En varúðar er þörf ef hegðun einhvers í söfnuðinum er vafasöm eða hann er beiskur eða kvörtunarsamur. (2. Tímóteusarbréf 2:20-22) Það er hyggilegt að gefa sig að þeim sem við getum „uppörvast“ með. (Rómverjabréfið 1:11, 12) Það hjálpar okkur að auðsýna dyggð og halda okkur á ‚vegi lífsins.‘ — Sálmur 16:11.
Haltu áfram að ástunda dyggð
17. Hvaða ógæfu urðu Ísraelsmenn fyrir samkvæmt 25. kafla 4. Mósebókar, og hvaða lærdóm getum við dregið af því?
17 Skömmu áður en Ísraelsmenn lögðu fyrirheitna landið undir sig kusu þúsundir þeirra lastalíf — og urðu fyrir mikilli ógæfu. (4. Mósebók 25. kafli) Fólk Jehóva stendur núna á þröskuldi hins réttláta nýja heims. Þeir sem halda áfram að forðast lesti þessa heims fá þau miklu sérréttindi að ganga inn í nýja heiminn. Við erum ófullkomnir menn og getum haft margar rangar tilhneigingar, en Guð getur hjálpað okkur að fylgja réttlátri handleiðslu heilags anda síns. (Galatabréfið 5:16; 1. Þessaloníkubréf 4:3, 4) Við skulum því fara eftir hvatningu Jósúa til Ísraels: „Óttist [Jehóva] og þjónið honum einlæglega og dyggilega.“ (Jósúabók 24:14) Lotningarfullur ótti við að vanþóknast Jehóva hjálpar okkur að feta braut dyggðarinnar.
18. Hverju ættu allir kristnir menn að vera staðráðnir í varðandi lesti og dyggðir?
18 Ef þú þráir í hjarta þér að þóknast Guði, vertu þá staðráðinn í að fara eftir hvatningu Páls: „Allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ Hver verður árangurinn ef við gerum það? Páll sagði: „Guð friðarins mun vera með yður.“ (Filippíbréfið 4:8, 9) Já, með hjálp Jehóva getur þú forðast lesti og ástundað dyggð.
[Neðanmáls]
a Sjá Varðturninn 1. september 1993, bls. 24-29 og greinaröðina „Ungt fólk spyr . . .“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. febrúar, 22. febrúar og 22. mars 1993 og 22. nóvember 1996.
Til upprifjunar
◻ Hvað þarf til að ástunda dyggð?
◻ Undir hvaða kringumstæðum voru Hiskía, Daníel og félagar hans þrír dyggðugir?
◻ Hvernig getum við líkst Daníel í því að standast vélabrögð Satans?
◻ Af hverju verða kristnir menn að vera á varðbergi gagnvart skemmtiefni?
◻ Hvaða hlutverki gegnir nám, hugleiðing og félagsskapur í því að ástunda dyggð?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Hinn ungi Hiskía ástundaði dyggð enda þótt hann væri umkringdur Móloksdýrkendum.
[Myndir á blaðsíðu 16]
Kristnir menn verða að vera á varðbergi gagnvart skemmtiefni.