Unglingar, kenningu hvers farið þið eftir?
„Sumir [munu] ganga af trúnni og gefa sig að . . . lærdómum illra anda.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 4:1.
1. (a) Hvaða valkostir blasa við unglingum? (b) Hvernig kennir Jehóva?
ÞEGAR unglingar eru spurðir: ‚Kenningu hvers farið þið eftir?‘ gefur það í skyn að þið unglingarnir getið valið. Valkostirnir eru þeir að fylgja kenningum Guðs eða lærdómum illra anda. Jehóva kennir með orði sínu, Biblíunni, og með þjónustu þeirra er hann notar sem fulltrúa sína á jörðinni. (Jesaja 54:13; Postulasagan 8:26-39; Matteus 24:45-47) En kemur það þér á óvart að illir andar skuli líka vera með lærdóma eða kenningar?
2. Hvers vegna er lífsnauðsynlegt núna að vera sérstaklega vel á verði gegn lærdómum illra anda?
2 Páll postuli skrifaði: „Á síðari tímum [munu] sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.“ (1. Tímóteusarbréf 4:1) Þar eð við lifum á „síðustu dögum“ þegar Satan og illir andar hans eru sérstaklega athafnasamir, getið þið þá skilið hvers vegna við spyrjum spurningarinnar: Kenningu hvers farið þið eftir? (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Opinberunarbókin 12:7-12) Með því að Satan og illir andar hans eru svo slóttugir og beita svo lokkandi aðferðum, er lífsnauðsynlegt að þið gefið þessari spurningu alvarlegan gaum. — 2. Korintubréf 11:14, 15.
Illir andar og lærdómar þeirra
3. Hverjir eru illu andarnir, hvert er markmið þeirra og hvernig leitast þeir við að ná því?
3 Illu andarnir voru einu sinni englar Jehóva, en þeir gerðu uppreisn gegn skapara sínum og gerðust þar með áhangendur Satans. (Matteus 12:24) Markmið þeirra er að spilla fólki og fá það til að hætta að þjóna Guði. Til þess nota illu andarnir mennska kennara og gera þá að talsmönnum eigingjarns og siðlauss lífernis sem Jehóva fordæmir. (Samanber 2. Pétursbréf 2:1, 12-15.) Upprifjun á því hvernig englar, sem áður voru trúfastir en urðu illir andar, auðveldar þér að bera kennsl á kenningar þeirra og það líferni sem þær ýta undir.
4. (a) Af hverju komu óhlýðnir englar til jarðar á dögum Nóa? (b) Hvað varð um illu englana og afkvæmi þeirra í flóðinu?
4 Á dögum Nóa urðu sumir englar svo hrifnir af hinum fögru dætrum mannanna, að þeir yfirgáfu stöður sínar á himni og komu til jarðar þótt þeir væru andaverur. Kynblendingar, sem kallaðir voru nefílím, voru ávöxturinn af kynferðissambandi þeirra við konur. Það er óeðlilegt fyrir andaverur að vera í sambúð með mannverum, þannig að það sem óhlýðnu englarnir gerðu með þessum konum var jafnrangt og kynvilluathafnir karlmanna og drengja í Sódómu síðar meir. (1. Mósebók 6:1-4; 19:4-11; Júdasarbréfið 6, 7) Konur englanna fórust í flóðinu ásamt kynblendingsbörnum sínum, en hinir illu englar afklæddust efnislíkömum sínum, sem þeir höfðu myndað, og sneru aftur til himna þar sem þeir urðu djöflaenglar Satans. — 2. Pétursbréf 2:4.
5. Hvers konar verur eru illu andarnir og hvernig reyna þeir að grafa undan lögum Guðs?
5 Skilur þú, með þessa sögu að bakhjarli, hvers konar verur illu andarnir eru í raun? Þeir eru kynferðislegir öfuguggar sem ráðskast bak við tjöldin með þennan kynóða heim. Þótt þeim sé meinað að holdgast aftur sem mannverur hafa þeir ánægju af siðleysi þeirra sem þeir geta spillt á jörðinni. (Efesusbréfið 6:11, 12) Illu andarnir reyna að grafa undan lögum Jehóva um kynferðislegan hreinleika og gott siðferði með því að láta þau virðast óþarflega ströng. Þessir illu englar ala á þeirri hugmynd að kynferðislegt siðleysi sé eðlilegt og skemmtilegt líferni.
Lærdómum illra anda komið á framfæri
6. Af hverju ætti það ekki að koma okkur á óvart að illu andarnir komi kenningum sínum lævíslega á framfæri?
6 Það ætti ekki að koma okkur á óvart að illir andar skuli koma lærdómum sínum lævíslega á framfæri, því að það var sú aðferð sem foringi þeirra, Satan djöfullinn, notaði til að tæla Evu. Mundu að hann talaði við hana eins og hann vildi vera hjálplegur. „Er það satt, að Guð hafi sagt: ‚Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum‘?“ spurði Satan. Síðan reyndi hann með slægð að grafa undan kenningu Guðs með því að segja Evu að hún hefði gott af því að borða ávöxtinn af forboðna trénu. „Jafnskjótt sem þið etið af honum,“ lofaði djöfullinn, „munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.“ (1. Mósebók 3:1-5) Þannig lét Eva lokka sig, já, tæla, til að óhlýðnast Guði. — 2. Korintubréf 11:3; 1. Tímóteusarbréf 2:13, 14.
7. Hvaða áhrif hafa hinir lævísu lærdómar illra anda haft og hvaða viðvörun er fólgin í því?
7 Margir hafa líka látið tælast á okkar tímum. Illu andarnir hafa stuðlað að kynferðislegu siðleysi með slíkri slægð að margir, sem áður fordæmdu það, hafa sætt sig við það núna. Þegar þekktur dálkahöfundur, kona sem svarar lesendabréfum í bandarísku dagblaði, svaraði bréfi um kynmök ógiftra, sagði hún: „Ég hélt ekki að ég ætti eftir að skipta um skoðun í þessu máli, en ég álít núna að hjónaleysi, sem eru að hugsa alvarlega um að giftast, ættu að fara saman í nokkrar helgarferðir til að prófa hvernig þau eigi saman.“ Síðan bætti hún við: „Ég trúi varla að ég hafi skrifað þetta!“ Hún trúði því tæpast sjálf að hún hefði mælt með kynmökum milli ógiftra, en það hafði hún gert! Ljóst er að við verðum að vera á verði til að kenningar illra anda hafi ekki áhrif á afstöðu okkar til athafna sem Guð fordæmir. — Rómverjabréfið 1:26, 27; Efesusbréfið 5:5, 10-12.
8. (a) Hvernig er orðið ‚heimur‘ notað í Biblíunni? (b) Hver stjórnar heiminum og hvernig ættu fylgjendur Jesú að líta á heiminn?
8 Við megum aldrei gleyma að Satan er ‚höfðingi þessa heims.‘ Jóhannes postuli sagði meira að segja að ‚allur heimurinn væri á valdi hins vonda.‘ (Jóhannes 12:31; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Að vísu notaði Jesús orðið ‚heimur‘ stundum um allt mannkynið. (Matteus 26:13; Jóhannes 3:16; 12:46) Oftar notaði hann þó orðið ‚heimur‘ um allt hið skipulagða mannfélag utan sannkristna safnaðarins. Til dæmis sagði Jesús að fylgjendur hans mættu ‚ekki vera af heiminum‘ (hinu rangláta mannfélagi) og að heimurinn hataði þá af því að þeir tilheyrðu honum ekki. (Jóhannes 15:19; 17:14-16) Biblían varaði enn fremur við því að verða vinir þessa heims sem Satan stjórnar. — Jakobsbréfið 4:4.
9, 10. (a) Hvað er það í heiminum sem vekur upp rangar kynferðislegar langanir? (b) Hvernig er hægt að bera kennsl á þann sem stendur að baki því sem skemmtiefni heimsins kennir?
9 Jóhannes postuli hvatti: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru.“ Hann sagði líka: „Allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum.“ (1. Jóhannesarbréf 2:15, 16) Hugsaðu um þetta. Hvað er það í heimi nútímans sem örvar ranga löngun til dæmis í óleyfileg kynmök? (1. Þessaloníkubréf 4:3-5) Nú, hvað um stóran hluta af tónlist heimsins? Skilorðsfulltrúi hjá lögreglunni í Kaliforníu sagði: „Boðskapur tónlistarinnar er í meginatriðum sá að maður þurfi ekki að hlusta á foreldra sína, og að maður ætti að lifa lífinu eins og maður vill sjálfur.“ Kemurðu auga á uppruna þess boðskapar sem slík tónlist kemur á framfæri?
10 Mundu að Satan sagði Evu í reynd: ‚Þú ert að fara á mis við eitthvað. Lifðu lífinu eins og þig langar til. Ákveddu sjálf hvað sé gott og hvað sé illt. Þú þarft ekki að hlusta á Guð.‘ (1. Mósebók 3:1-5) Er þetta ekki sami boðskapurinn og ómar gegnum stóran hluta af tónlist heimsins? En lærdómar illra anda enduróma ekki bara í tónlist. Þeir nota líka sjónvarpsefni, kvikmyndir og myndbönd til að koma boðskap sínum á framfæri. Hvernig þá? Fjölmiðlar heims bjóða fram skemmtiefni sem lætur kenningar Guðs í siðferðismálum líta út fyrir að vera þvingandi. Þeir hvetja til lauslætis með því að hampa því og sýna það sem eftirsóknarvert.
11. Hvað kennir sjónvarpið oft í siðferðismálum?
11 Tímaritið U.S.News & World Report sagði: „Árið 1991 sýndu sjónvarpsstöðvarnar þrjár [í Bandaríkjunum] yfir 10.000 kynlífsatriði á besta áhorfstíma; fyrir hvert atriði, sem sýndi kynmök milli hjóna, sýndu sjónvarpsstöðvarnar 14 atriði með kynmökum utan hjónabands.“ Hvað finnst þér sjónvarpið vera að kenna með því að sýna 9000 kynlífsatriði utan hjónabands á einu ári á besta áhorfstíma? Barry S. Sapolsky, einn af höfundum skýrslunnar „Kynlíf á besta áhorfstíma sjónvarps: 1979 í samanburði við 1989,“ segir: „Ef unglingur horfir ár eftir ár á sjónvarpsefni þar sem mikið er um daður og djörf atriði, þá kenna þessar þúsundir mynda, sem hann sér ár eftir ár, honum að kynlíf sé ánægjulegt — og hafi nánast engin eftirköst.“ Það leikur enginn vafi á því að skemmtiefni þessa heims kennir ungu fólki að það gildi engar reglur, að kynmök ógiftra séu í lagi og að það hafi engar óæskilegar afleiðingar að lifa á þann hátt sem Guð fordæmir. — 1. Korintubréf 6:18; Efesusbréfið 5:3-5.
12. Hvers vegna er skemmtiefni heimsins sérstaklega hættulegt kristnum unglingum?
12 Tónlist heimsins, kvikmyndir, myndbönd og sjónvarpsefni er allt til þess gert að höfða til ungs fólks. Þessir miðlar breiða út spilltar kenningar illra anda! En ætti það að koma okkur á óvart? Ef fölsk trúarbrögð og stjórnmál eru hluti af heimi Satans — og það eru þau greinilega — er þá rökrétt að halda að skemmtiefnið, sem þessi heimur býður fram, sé laust við áhrif illra anda? Þið unga fólkið þurfið sérstaklega að vera á verði til að ‚láta umheiminn ekki þrengja ykkur í sitt mót.‘ — Rómverjabréfið 12:2, The New Testament in Modern English í þýðingu J. B. Phillips.
Rannsakaðu sjálfan þig
13. Hvaða sjálfsrannsókn ætti að gera?
13 Svarið við spurningunni hvaða kenningum þú farir eftir sést ekki bara á orðum þínum heldur einnig verkum. (Rómverjabréfið 6:16) Þú skalt því spyrja þig: ‚Eru viðhorf mín og lífsstefna undir óeðlilegum áhrifum af því sem ég læri af áróðursmiðlum heimsins? Getur hugsast að lærdómar illra anda séu að þrengja sér inn í líf mitt?‘ Til að hjálpa þér að svara slíkum spurningum gætirðu borið saman hve mikinn tíma og krafta þú notar til að nema Biblíuna, sækja kristnar samkomur og tala við aðra um ríki Guðs, og þann tíma og krafta sem þú notar til að horfa á sjónvarp, hlusta á tónlist, stunda uppáhaldsíþróttina þína eða annað þvíumlíkt. Gerðu heiðarlega sjálfsrannsókn af því að það er svo mikið í húfi, nefnilega lífið sjálft. — 2. Korintubréf 13:5.
14. Hvað hefur áhrif á andlega heilsu okkar og hvaða alvarlega staðreynd ættum við að hafa í huga?
14 Þér er fullkunnugt að maturinn, sem þú borðar, hefur áhrif á líkamsheilsu þína. Á svipaðan hátt hefur það sem þú nærir huga þinn á og hjarta áhrif á andlega heilsu þína. (1. Pétursbréf 2:1, 2) Þú getur talið sjálfum þér trú um að raunveruleg áhugamál þín séu önnur en þau eru, en þú getur ekki blekkt dómara okkar, Jesú Krist. (Jóhannes 5:30) Spyrðu því sjálfan þig: ‚Ef Jesús væri á jörðinni, myndi ég þá verða vandræðalegur ef hann kæmi inn í herbergið mitt og heyrði tónlistina sem ég hlusta á eða sæi það sem ég er að horfa á í sjónvarpinu?‘ En sannleikurinn er sá að Jesús er að horfa á og veit fullvel hvað við erum að gera. — Opinberunarbókin 3:15.
Stattu gegn lærdómum illra anda
15. Hvers vegna ættu kristnir menn að berjast af krafti gegn kenningum illra anda?
15 Þrýstingur illra anda á unga fólkið til að fara eftir kenningum þeirra er gríðarlegur. Þeir virðast bjóða upp á að menn geti fullnægt löngunum sínum tafarlaust — notið lífsins og skemmt sér. Til að þóknast Guði hafnaði Móse til forna ‚skammvinnum unaði af syndinni‘ sem áhrifamaður í húsi Faraós. (Hebreabréfið 11:24-27) Það er ekki auðvelt að hafna því sem illu andarnir bjóða, þannig að þú þarft að berjast af krafti til að gera það sem rétt er. Ástæðan er sérstaklega sú að við höfum erft syndina, og hjörtu okkar þrá oft að gera það sem illt er. (1. Mósebók 8:21; Rómverjabréfið 5:12) Vegna syndugra tilhneiginga varð jafnvel Páll postuli að vera harður við sjálfan sig og leyfði ekki holdlegum löngunum sínum að ráða yfir sér. — 1. Korintubréf 9:27; Rómverjabréfið 7:21-23.
16. Hvernig geta unglingar staðist þrýsting sem leiðir til siðleysis?
16 Þótt reynt sé að freista þín til að „fylgja fjöldanum til illra verka“ getur Guð hjálpað þér að standast þrýsting jafnaldra þinna til að gera rangt eins og þeir. (2. Mósebók 23:2; 1. Korintubréf 10:13) En þú verður að hlusta á leiðbeiningar Guðs og geyma orð hans í hjarta þér. (Sálmur 119:9, 11) Þú þarft að gera þér ljóst að þegar tvö ungmenni einangra sig geta kynferðislegar langanir magnast upp og leitt til þess að þau brjóti lög Guðs. „Þegar ég er ein með kærastanum mínum langar líkama minn til að gera eitt en heilinn segir mér að gera annað,“ viðurkenndi ung stúlka. Gerðu þér því grein fyrir takmörkum þínum og mundu að hjarta þitt er svikult. (Jeremía 17:9) Einangraðu þig ekki. (Orðskviðirnir 18:1, NW) Settu því hömlur hve langt þú gengur í því að tjá væntumþykju þína. Og það er sérlega þýðingarmikið að eiga aðeins náinn félagsskap við þá sem elska Jehóva og bera djúpa virðingu fyrir lögum hans. — Sálmur 119:63; Orðskviðirnir 13:20; 1. Korintubréf 15:33.
17. Hvað getur hjálpað kristnum unglingum að fá styrk til að standa gegn kenningum illra anda?
17 Rækilegt nám í kristnum ritum, sem eru gerð til að styrkja þig andlega, er gagnlegt fyrir þig. Tökum greinarnar „Ungt fólk spyr . . . “ í tímaritinu Vaknið! sem dæmi og kaflann „Baráttan að gera það sem rétt er“ í bókinni Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð. Láttu hinar biblíulegu leiðbeiningar festast í huga þér og hjarta; það styrkir þig. Þú mátt aldrei gleyma þeirri staðreynd að í þessum heimi, sem illir andar stjórna, er ekki auðvelt að gera það sem rétt er. Berstu því af krafti. (Lúkas 13:24) Byggðu upp andlegan þrótt þinn. Líktu ekki eftir þeim veiklyndu og óttaslegnu sem fylgja fjöldanum.
Hafðu gagn af kennslu Guðs
18. Hvaða kostir fylgja því að taka við kennslu Guðs?
18 Hafðu líka hugfast að þú missir ekki af neinu sem máli skiptir með því að taka við kennslu Jehóva. Hann elskar þig í sannleika og það er þess vegna sem hann ‚kennir þér að gera það sem þér er gagnlegt.‘ (Jesaja 48:17) Taktu því við kennslu Jehóva og forðastu þær sorgir sem fylgja samviskubiti, missi sjálfsvirðingar, óæskilegri þungun, samræðissjúkdómum eða áþekkum harmleikjum. Jehóva fagnar þegar þjónar hans láta honum í té svar við þeirri ögrun Satans að menn reynist ekki trúfastir Guði þegar á reynir. (Jobsbók 1:6-12) Ef þú gleður hjarta Jehóva með því að vera honum trúfastur, lifir þú af þegar hann fullnægir dómi á þessum heimi, en þá farast allir sem virða lög hans að vettugi. — Orðskviðirnir 27:11; 1. Korintubréf 6:9, 10; 1. Jóhannesarbréf 2:17.
19. Hvert er gildi þess að umgangast þá sem kunna að meta gagnið af kenningum Jehóva?
19 Ef þú umgengst náið þá sem kunna að meta það sem Jehóva hefur gert fyrir þá geturðu lært af reynslu þeirra. Kona, sem var áður í ánauð fíkniefna og hafði lifað siðlausu lífi, sagði: „Ég væri dauð ef ég hefði ekki hlustað á Jehóva. Maðurinn, sem ég ætlaði að giftast, er dáinn úr alnæmi. Allir fyrrverandi vinir mínir eru dánir úr alnæmi eða dauðvona. Ég sé þá oft á götunum og ég þakka Jehóva daglega fyrir lög hans sem stjórna fólki hans og halda okkur heilögum ef við bara förum eftir þeim. Ég hef aldrei á ævinni verið eins ánægð, hamingjusöm og örugg.“ Svo sannarlega er það okkur alltaf til gagns að fara eftir kenningu Jehóva!
Taktu rétta ákvörðun
20, 21. (a) Hvað tvennt geta unglingar valið um? (b) Hvaða varanlegt gagn er af því að fara eftir kenningum Guðs?
20 Við hvetjum ykkur unga fólkið: Takið rétta ákvörðun með því að þjóna Jehóva. Verið síðan einbeitt í því að framfylgja þeirri ákvörðun. (Jósúabók 24:15) Í rauninni er aðeins um tvennt að velja. Jesús sagði að til væri víður og breiður vegur — auðfarni vegurinn þar sem menn gera það þeim sýnist. Sá vegur er blindgata og endar með tortímingu. Hinn vegurinn er mjór. Hann er vandfarinn í þessum siðlausa heimi sem illir andar stjórna. En þeir sem fara þann veg ganga að lokum inn í stórkostlegan, nýjan heim Guðs. (Matteus 7:13, 14) Hvorn veginn ætlar þú að velja? Kenningum hvers ætlar þú að fylgja?
21 Jehóva lætur þig um að velja. Hann reynir ekki að neyða þig til að þjóna sér. „Ég hefi lagt fyrir þig lífið og dauðann,“ sagði Móse, spámaður Guðs, og hvatti svo: „Veldu þá lífið.“ Þú velur það „með því að elska [Jehóva] Guð þinn, hlýða raustu hans og halda þér fast við hann.“ (5. Mósebók 29:2; 30:19, 20) Vertu vitur og veldu að fylgja kenningum Guðs og hljóta endalaust líf í dýrlegum, nýjum heimi Guðs.
Hverju svarar þú?
◻ Hverjir eru illu andarnir og hvaða lærdómum koma þeir á framfæri?
◻ Hvernig koma illu andarnir kenningum sínum á framfæri nú á dögum?
◻ Hvernig er hægt að standa gegn lærdómum illu andanna?
◻ Hvaða kostir fylgja því að fara eftir kenningum Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Fyrir flóðið stuðluðu óhlýðnir englar og afkvæmi þeirra að ofbeldi og ólifnaði.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Yrðir þú vandræðalegur ef Jesús heyrði uppáhaldstónlistina þína?