Foreldrar, börnin ykkar þarfnast sérhæfðrar athygli
„Synir þínir [eru] sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.“ — SÁLMUR 128:3.
1. Hvernig má líkja barnauppeldi við plönturækt?
BÖRN vaxa og þroskast að mörgu leyti eins og plöntur. Það er því ekkert undarlegt að Biblían skuli tala um eiginkonu manns sem ‚frjósaman vínvið‘ og líkja börnum við ‚teinunga olíutrésins umhverfis borð hans.‘ (Sálmur 128:3) Bóndinn veit að það er ekki hlaupið að því að rækta ungar plöntur, einkum í hrjóstrugum jarðvegi og óblíðu loftslagi. Á sama hátt er afar erfitt að ala upp börn á þessum erfiðu „síðustu dögum,“ þannig að þau vaxi upp sem heilsteyptir og guðhræddir einstaklingar. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.
2. Hvað þarf venjulega til að fá góða uppskeru?
2 Til að fá góða uppskeru þarf bóndinn frjósaman jarðveg, yl sólarinnar og vatn. Auk þess að yrkja jörðina og reyta illgresi þarf hann að halda skaðvöldum í skefjum og hlúa að plöntunum. Hann getur átt við ýmsa erfiðleika að glíma allt fram til uppskerunnar. Og það er mjög dapurlegt þegar uppskeran bregst! En hversu ánægður er ekki bóndinn þegar hann fær góða uppskeru alls erfiðis síns! — Jesaja 60:20-22; 61:3.
3. Hvaða munur er á mikilvægi plantna og barna, og hvers konar athygli ættu börn að fá?
3 Farsælt og gjöfugt mannlíf er vissulega langtum dýrmætara en uppskera bóndans. Það er því ekkert undarlegt að farsælt barnauppeldi geti kostað enn meiri tíma og krafta en ríkuleg uppskera af akrinum. (5. Mósebók 11:18-21) Ungt barn, gróðursett í garði lífsins, getur vaxið og dafnað andlega ef það er vökvað og hlúð er að því með ást og því eru settar skynsamlegar skorður, jafnvel í heimi þar sem siðferðisgildin eru flest rotin. En ef barnið sætir illri meðferð eða kúgun, skrælnar það hið innra og getur dáið andlega. (Kólossubréfið 3:21; samanber Jeremía 2:21; 12:2.) Öll börn þarfnast svo sannarlega sérhæfðrar athygli.
Dagleg athygli frá fæðingu
4. Hvers konar athygli þarfnast börn „frá blautu barnsbeini“?
4 Foreldrar þurfa að sinna nýfæddu barni nánast stöðuglega. En nægir ungbarninu að sinnt sé aðeins líkamlegum eða efnislegum þörfum þess dag frá degi? Páll postuli skrifaði Tímóteusi sem var þjónn Guðs: „Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar.“ (2. Tímóteusarbréf 3:15) Móðir Tímóteusar sinnti einnig andlegum þörfum hans frá blautu barnsbeini. En hvað er átt við með orðunum „frá blautu barnsbeini“?
5, 6. (a) Hvað segir Biblían um ófædd börn? (b) Hvað gefur til kynna að foreldrar ættu að láta sér annt um velferð ófædds barns?
5 Gríska orðið, sem Páll notar hér (breʹfos), er einnig notað um ófætt barn. Elísabet, móðir Jóhannesar skírara, sagði Maríu frænku sinni: „Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér, tók barnið [breʹfos] viðbragð af gleði í lífi mínu.“ (Lúkas 1:44) Biblían notar því orðið breʹfos jafnvel um ófætt barn, og hún sýnir að það getur brugðist við ýmsu sem gerist utan móðurlífsins. Ætti umhyggja fyrir fóstrinu, sem oft er hvatt til nú á dögum, þá einnig að ná til andlegrar velferðar hins ófædda barns?
6 Það er umhugsunarvert, því að margt bendir til að ófædd börn geti orðið fyrir annaðhvort gagnlegum eða skaðlegum áhrifum af því sem þau heyra. Hljómsveitarstjóri uppgötvaði að ýmsar raddir tónverka, sem hann var að æfa, hljómuðu merkilega kunnuglega, einkum sellóröddin. Þegar hann nefndi heiti tónverkanna við móður sína, sem var sellóleikari að atvinnu, sagði hún að þetta væru þau verk sem hún hefði verið að æfa þegar hún gekk með hann. Á sama hátt getur ófætt barn orðið fyrir neikvæðum áhrifum ef móðirin hefur fyrir venju að horfa á sápuóperur í sjónvarpi. Læknatímarit talaði þess vegna um „sápuóperufíkn barns á fósturstigi.“
7. (a) Hvernig hafa margir foreldrar gefið gaum að velferð ófæddra barna sinna? (b) Hvaða hæfileika býr barn yfir?
7 Í ljósi þess hve jákvæð örvun er gagnleg fyrir ungbörn, byrja margir foreldrar að lesa, tala og syngja fyrir barn sitt jafnvel áður en það fæðist. Þú getur gert það líka. Enda þótt barnið skilji ekki orðin hefur sefandi rödd þín og ástríkur raddblær líklega góð áhrif á það. Eftir fæðingu byrjar barnið að skilja orðin, kannski miklu fyrr en þú heldur. Á aðeins tveim eða þrem árum lærir barn flókið tungumál aðeins með því að heyra það. Barn getur líka byrjað að læra hið ‚hreina tungumál‘ sannleika Biblíunnar. — Sefanía 3:9, NW.
8. (a) Hvað á Biblían greinilega við þegar hún segir að Tímóteus hafi þekkt heilaga ritningu „frá blautu barnsbeini“? (b) Hvað sannaðist á Tímóteusi?
8 Hvað átti Páll við þegar hann sagði að Tímóteus hefði ‚þekkt heilagar ritningar frá blautu barnsbeini‘? Hann átti greinilega við að Tímóteus hefði fengið andlegt uppeldi frá því að hann var ungbarn, ekki aðeins eftir að hann komst á legg. Það er í samræmi við merkingu gríska orðsins breʹfos sem er almennt notað um nýbura. (Lúkas 2:12, 16; Postulasagan 7:19) Svo lengi sem Tímóteus gat munað hafði hann fengið andlega fræðslu frá Evnike móður sinni og Lóis ömmu sinni. (2. Tímóteusarbréf 1:5) Málshátturinn ‚svo vex tréð sem teinungurinn er beygður‘ átti vissulega við Tímóteus. Hann hafði verið ‚fræddur um veginn sem hann átti að halda‘ og varð þar af leiðandi góður þjónn Guðs. — Orðskviðirnir 22:6; Filippíbréfið 2:19-22.
Sérhæfð umönnun sem veita þarf
9. (a) Hvað ættu foreldrar að forðast og hvers vegna? (b) Hvað þurfa foreldrar að gera þegar barnið þroskast og hvaða fordæmi ættu þeir að fara eftir?
9 Börn eru líka eins og plöntur í þeim skilningi að þau hafa ekki öll sömu persónueinkenni og svara ekki öll sams konar umönnun. Vitrir foreldrar virða þennan mun og forðast að bera eitt barn saman við annað. (Samanber Galatabréfið 6:4.) Ef börnin þín eiga að vaxa upp sem heilbrigðir einstaklingar, þarftu að gefa gaum að persónuleikaeinkennum þeirra, hlúa að hinum góðu og uppræta hin slæmu. Hvað geturðu gert ef þú kemur auga á veikleika eða óheppilega tilhneigingu, svo sem til óheiðarleika, efnishyggju eða eigingirni? Leiðréttu barnið vingjarnlega, alveg eins og Jesús leiðrétti postula sína þegar veikleikar þeirra komu upp á yfirborðið. (Markús 9:33-37) Gættu þess sérstaklega að hrósa hverju barni oft fyrir sínar sterku hliðar og góða eiginleika.
10. Hvers þarfnast börn sérstaklega og hvernig er hægt að veita það?
10 Það sem börn þarfnast sérstaklega er kærleiksrík, persónuleg athygli. Jesús tók sér tíma til að veita börnum slíka sérhæfða athygli, jafnvel á hinum erilsömu lokadögum þjónustu sinnar. (Markús 10:13-16, 32) Foreldrar, fylgið þessu fordæmi! Sýnið þá óeigingirni að taka ykkur tíma til að vera með börnum ykkar. Skammist ykkar ekki fyrir að sýna þeim ósvikna ást. Takið utan um þau eins og Jesús gerði. Faðmið þau ástúðlega að ykkur og kyssið þau. Þegar foreldrar fullvaxta, heilsteyptra barna voru spurðir hvað þeir vildu ráðleggja öðrum foreldrum voru algengustu svörin: ‚Elskið ríkulega,‘ ‚verið saman,‘ ‚byggið upp gagnkvæma virðingu,‘ ‚hlustið virkilega á þau,‘ ‚leiðbeinið frekar en áminnið‘ og ‚verið raunsæir.‘
11. (a) Hvernig ættu foreldrar að líta á þá kvöð að veita börnum sínum sérhæfða athygli? (b) Við hvaða tækifæri gætu foreldrar notið ánægjulegra skoðanaskipta við börn sín?
11 Það getur verið ánægjulegt að veita slíka sérhæfða athygli. Faðir, sem tókst vel með barnauppeldið, skrifaði: „Þegar drengirnir okkar tveir voru yngri höfðum við yndi af því að koma þeim í háttinn, lesa fyrir þá, breiða yfir þá og biðja með þeim.“ Slíkar stundir bjóða upp á tækifæri til skoðanaskipta og geta verið uppörvandi bæði fyrir foreldri og barn. (Samanber Rómverjabréfið 1:11, 12.) Hjón hlustuðu á þriggja ára son sinn biðja Guð að blessa „Vallí.“ Hann bað fyrir „Vallí“ nokkur kvöld í röð og foreldrunum þótti það mjög uppörvandi þegar það rann upp fyrir þeim, að hann átti við bræðurna í Malaví sem voru ofsóttir grimmilega á þeim tíma. Kona nokkur sagði: ‚Ég var bara fjögurra ára þegar mamma hjálpaði mér að leggja ritningarstaði á minnið og syngja ríkissöngva þar sem ég stóð á stól til að þurrka leirtauið um leið og hún þvoði upp.‘ Hvaða stundir gætir þú notað til að eiga verðmæt tjáskipti við börnin þín?
12. Hvað er viturlegt af kristnum foreldrum að veita börnum sínum og hvaða aðferðir mætti nota?
12 Vitrir, kristnir foreldrar sjá líka um að halda uppi reglulegri námsáætlun. Þótt vel megi nota þá aðferð að hafa formlegar spurningar og svör, mætti líka stuðla að ánægjulegum tjáskiptum með því að aðlaga námsstundirnar að þörfum barnanna, sérstaklega ungra barna. Hægt væri meðal annars að teikna myndir af biblíuatburðum, segja biblíusögur eða hlusta á ritgerð sem barnið hefur verið beðið að skrifa. Gerðu orð Guðs eins „bragðgott“ fyrir börnin þín og þú getur, þannig að þau sækist eftir því. (1. Pétursbréf 2:2, 3) Faðir nokkur sagði: ‚Meðan börnin voru yngri skriðum við saman á gólfinu og lékum sögulega atburði úr ævi þekktra biblíupersóna. Krakkarnir höfðu yndi af því.‘
13. Hvaða gildi hafa æfingar og hvað er hægt að æfa?
13 Æfingastundir stuðla einnig að dýrmætum tjáskiptum vegna þess að þær hjálpa börnunum að búa sig undir ýmsar aðstæður sem koma upp í lífinu. Eitt af Kusserow börnunum — sem voru 11 talsins og reyndust öll trúföst Guði í ofsóknum nasista — sagði um foreldra sína: „Þau sýndu okkur hvernig við áttum að hegða okkur og verja okkur með Biblíunni. [1. Pétursbréf 3:15] Við æfðum okkur oft, spurðum spurninga og svöruðum.“ Af hverju ekki að gera það líka? Þið getið æft kynningar fyrir boðunarstarfið þar sem annað foreldrið leikur húsráðandann. Eins mætti æfa viðbrögð við freistingum sem koma upp í lífinu. (Orðskviðirnir 1:10-15) „Með því að æfa barnið fyrir erfiðar aðstæður er hægt að byggja upp færni þess og sjálfstraust,“ útskýrir kona nokkur. „Meðal annars mætti æfa viðbrögð við því að kunningi bjóði barninu sígarettu, áfengi eða fíkniefni.“ Þessar æfingar geta hjálpað þér að sjá hvernig barnið þitt myndi bregðast við slíkum aðstæðum.
14. Af hverju eru ástríkar og hlýlegar umræður við börnin svona þýðingarmiklar?
14 Þegar þú skiptist á skoðunum við barnið skaltu reyna að höfða til þess á jafnhlýlegan hátt og sá sem skrifaði þessi orð: „Son minn, gleym eigi kenning minni, og hjarta þitt varðveiti boðorð mín, því að langa lífdaga og farsæl ár og velgengni munu þau veita þér í ríkum mæli.“ (Orðskviðirnir 3:1, 2) Heldurðu ekki að þú náir til hjarta barns þíns ef þú útskýrir hlýlega, að þú krefjist hlýðni vegna þess að það hafi í för með sér farsæl ár og langa lífdaga — já, eilíft líf í friðsælum, nýjum heimi Guðs? Taktu tillit til persónuleika barnsins þegar þú rökræðir út frá orði Guðs. Gerðu það í bænarhug, og Jehóva mun blessa viðleitni þína. Slíkar ástríkar og hlýlegar umræður byggðar á Biblíunni skila að öllum líkindum góðum árangri og eru til varanlegs gagns. — Orðskviðirnir 22:6.
15. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að leysa vandamál?
15 Jafnvel þótt slíkar umræður eigi sér stað á öðrum tímum en þeim sem ætlaðir eru til náms, skaltu ekki láta önnur mál draga til sín athygli þína á meðan. Hlustaðu vandlega, ekki bara á það sem barnið segir heldur líka eftir því hvernig það kemur hugsun sinni á framfæri. „Horfðu á barnið,“ segir sérfræðingur. „Veittu því fulla athygli. Þú þarft að skilja, ekki bara heyra. Það getur skipt sköpum fyrir börnin þegar foreldrar leggja þetta á sig.“ Börn standa oft frammi fyrir alvarlegum vandamálum nú á tímum í skólanum og annars staðar. Sem foreldri þarftu að fá barnið þitt til að opna sig og hjálpa því að sjá málin sömu augum og Guð. Ef þú ert ekki viss um hvernig eigi að leysa úr málinu skaltu rannsaka Ritninguna og rit frá hinum ‚trúa og hyggna þjóni.‘ (Matteus 24:45) Gefðu barninu þínu fyrir alla muni alla þá sérhæfðu athygli sem þarf til að leysa vandamálið.
Njótið samverustundanna ykkar
16, 17. (a) Af hverju þarfnast sérstaklega ungt fólk sérhæfðrar athygli og fræðslu nú á dögum? (b) Hvað þurfa börn að vita þegar foreldrar þeirra aga þau?
16 Ungt fólk þarfnast meiri sérhæfðrar athygli nú á tímum en nokkru sinni fyrr vegna þess að við lifum á „síðustu dögum“ og nú eru „örðugar tíðir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Matteus 24:3-14) Bæði foreldrar og börn þarfnast þeirrar verndar sem sönn viska veitir, en hún „heldur lífinu í þeim sem hana á.“ (Prédikarinn 7:12) Þar eð guðleg viska felur í sér rétta notkun biblíuþekkingar, þurfa börnin að fá reglubundna fræðslu í orði Guðs. Þess vegna skaltu nema Biblíuna með börnum þínum. Segðu þeim frá Jehóva, útskýrðu vandlega hverjar kröfur hans eru og skapaðu ánægjulega eftirvæntingu eftir því að hin stórkostlegu fyrirheit hans rætist. Talaðu um þau heima, þegar þú gengur með börnin þér við hlið — já, við hvert einasta viðeigandi tækifæri. — 5. Mósebók 6:4-7.
17 Bændur vita að það dafna ekki allar plöntur við sömu skilyrði. Plöntur þarfnast sérhæfðrar umönnunar. Hið sama gildir um börn. Þau eru öll ólík og þarfnast sérhæfðrar athygli, fræðslu og ögunar. Til dæmis getur vanþóknunaraugnaráð foreldris nægt til að stöðva eitt barn í að gera eitthvað rangt, en annað barn getur þurft að fá harðari aga. En öll börnin þín þurfa að vita hvers vegna þú hefur vanþóknun á vissum orðum eða athöfnum, og báðir foreldrarnir ættu að vinna saman þannig að þeir séu samstíga í ögun sinni. (Efesusbréfið 6:4) Það er sérlega þýðingarmikið að kristnir foreldrar veiti skýra leiðsögn sem samræmist Biblíunni.
18, 19. Hver er ábyrgð kristinna foreldra gagnvart börnum sínum og hver er líklegur árangur ef verkið er vel af hendi leyst?
18 Bóndinn verður að gróðursetja og rækta á réttum tíma. Ef hann frestar því eða vanrækir jurtirnar uppsker hann lítið eða ekkert. Litlu börnin þín eru vaxandi „jurtir“ sem þarfnast sérhæfðrar athygli nú þegar, ekki í næsta mánuði eða á næsta ári. Láttu ekki dýrmæt tækifæri ganga þér úr greipum til að stuðla að andlegum vexti þeirra í samræmi við orð Guðs, og uppræta veraldlegar hugsanir sem geta komið þeim til að visna og deyja andlega. Mettu mikils þær stundir og þá daga, sem þú nýtur þeirra sérréttinda að vera með börnum þínum, því að þessar stundir eru fljótar að líða. Leggðu þig kappsamlega fram við að rækta með börnum þínum þá guðrækilegu eiginleika sem þau þurfa til að lifa hamingjuríku lífi sem trúfastir þjónar Jehóva. (Galatabréfið 5:22, 23; Kólossubréfið 3:12-14) Þetta er þitt verkefni, ekki einhvers annars, og Guð getur hjálpað þér að leysa það af hendi.
19 Gefið börnum ykkar ríkulegan, andlegan arf. Nemið orð Guðs með þeim og njótið heilnæmrar afþreyingar saman. Takið börnin ykkar með á kristnar samkomur og hafið þau með ykkur í prédikunarstarfi Guðsríkis. Byggið upp með ástkærum börnum ykkar persónuleika sem Jehóva hefur velþóknun á. Þá munu þau að öllum líkindum veita ykkur mikla gleði síðar á ævinni. „Faðir réttláts manns fagnar, og sá sem gat vitran son, gleðst af honum. Gleðjist faðir þinn og móðir þín og fagni hún, sem fæddi þig.“ — Orðskviðirnir 23:24, 25.
Ríkuleg umbun
20. Hver er lykillinn að góðum árangri þegar börnin komast á táningaaldur?
20 Uppeldi barna er flókið langtímaverkefni. Það hefur verið kallað 20 ára verkefni að ala upp þessa ‚teinunga olíutrésins umhverfis borð þitt‘ þannig að þeir verði guðhræddir einstaklingar þegar þeir vaxa úr grasi og beri ávöxt Guðsríkis. (Sálmur 128:3; Jóhannes 15:8) Þetta verkefni gerist yfirleitt erfiðara þegar börnin ná táningaaldri. Þá eykst þrýstingurinn á þau og foreldrarnir verða að leggja enn meira á sig fyrir börnin. En lykillinn að góðum árangri er eftir sem áður hinn sami — að vera eftirtektarsamur, hlýlegur og skilningsríkur. Mundu að börnin þín þarfnast í raun og veru persónulegrar athygli. Þú getur veitt þeim slíka athygli með því að sýna ósvikna og kærleiksríka umhyggju fyrir velferð þeirra. Til að hjálpa þeim þarftu að leggja þig fram með því að gefa þeim þann tíma, ást og umhyggju sem þau raunverulega þarfnast.
21. Hvaða umbun geta foreldrar hlotið fyrir að veita börnum sínum sérhæfða athygli?
21 Þegar þú leggur þig fram við að annast þennan dýrmæta ávöxt, sem Jehóva hefur trúað þér fyrir, getur árangurinn orðið miklu ánægjulegri en ríkuleg uppskera bóndans. (Sálmur 127:3-5) Foreldrar, haldið því áfram að veita börnum ykkar sérhæfða athygli. Gerið það þeim til góðs og til dýrðar himneskum föður okkar, Jehóva.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig má líkja barnauppeldi við plönturækt?
◻ Hvers konar athygli ætti barn að fá daglega frá blautu barnsbeini?
◻ Hvers konar sérhæfða athygli þurfa börn að fá og hvernig er hægt að veita hana?
◻ Hvers vegna ættirðu að veita börnum þínum sérhæfða athygli?