Láttu framför þína vera augljósa
1 Renndu huganum til þess tíma þegar þú heyrðir boðskapinn um Guðsríki í fyrsta sinn. Einföld sannindi vöktu þá hjá þér löngun til meiri þekkingar og skilnings. Brátt gastu séð þörfina á því að breyta að einhverju leyti lífsháttum þínum af því að vegir Jehóva eru svo miklu hærri en þínir vegir. (Jes. 55:8, 9) Þú tókst framförum, vígðir líf þitt og lést skírast.
2 Jafnvel eftir að þú hafðir tekið nokkrum andlegum framförum þurftir þú enn að sigrast á ýmsum veikleikum. (Rómv. 12:2) Ef til vill bjó í þér ótti við menn sem gerði þig tregan til að fara út í boðunarstarfið. Kannski var þér áfátt í því að sýna ávöxt anda Guðs. En í stað þess að láta þar við sitja varst þú staðráðinn í að taka framförum með því að setja þér guðræðisleg markmið til að stefna að.
3 Núna eru ef til vill liðin allmörg ár síðan þú vígðir líf þitt Jehóva. Þegar þú lítur til baka hvaða framfarir getur þú þá séð hjá sjálfum þér? Hefur þú náð sumum af markmiðunum sem þú settir þér? Er að finna hjá þér sömu kostgæfnina eins og hún „var að upphafi“? (Hebr.3:14) Tímóteus var þegar orðinn þroskaður, kristinn maður með margra ára reynslu þegar Páll hvatti hann: „Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.“ — 1. Tím. 4:15.
4 Nauðsynlegt að rannsaka sjálfan sig: Þegar við vegum og metum okkar gang kemur þá kannski í ljós að við höldum áfram að hafa sömu veikleikana og þegar við lögðum af stað eftir vegi sannleikans? Hefur okkur mistekist að ná sumum þeirra markmiða sem við settum okkur? Ef svo er hver er þá ástæðan? Jafnvel þótt ásetningurinn hafi verið góður höfum við ef til vill skotið framkvæmdunum á frest. Kannski leyfum við áhyggjum lífsins eða þrýstingi frá þessu heimskerfi að halda aftur af okkur. — Lúk. 17:28-30.
5 Þótt við getum lítið gert í því sem liðið er getum við svo sannarlega gert eitthvað varðandi ókominn tíma. Við getum lagt heiðarlegt mat á hvar við stöndum, í hverju okkur sé ábótavant, og einbeitt okkur síðan að því að taka framförum. Við þurfum kannski að standa okkur betur í því að sýna ávexti andans, eins og sjálfstjórn, hógværð eða langlyndi. (Gal. 5:22, 23) Ef við eigum erfitt með að lynda við aðra eða vera samstarfsfús við öldungana er mikilvægt að við ræktum með okkur hógværð og lítillæti. — Fil. 2:2, 3.
6 Getum við látið framför okkar vera augljósa með því að sækjast eftir þjónustusérréttindum? Bræður kunna að geta orðið hæfir sem safnaðarþjónar eða öldungar ef þeir leggja sig enn betur fram en hingað til. Sumir gætu ef til vill gerst reglulegir brautryðjendur. Aðstoðarbrautryðjandastarfið er takmark sem enn fleiri gætu keppt að og náð. Aðrir gætu lagt sig fram við að bæta námsvenjur sínar, taka virkari þátt í að svara á samkomum eða verða hæfari og afkastameiri sem safnaðarboðberar.
7 Það er vitaskuld mál hvers og eins að ákveða á hvaða sviðum hann þurfi að taka framförum. Við getum verið viss um að einlæg viðleitni okkar til að „sækja fram til fullkomleikans“ eykur gleði okkar til mikilla muna og gerir okkur virkari meðlimi safnaðarins. — Hebr. 6:1.