Yfirgefum aldrei trúsystkini okkar
„FYRIR tíu árum létum við heillast af ljóma viðskiptaheimsins og höfðum fullt af peningum. Þótt við værum alin upp í sannleikanum höfðum við hrakist of langt af leið. Við höfðum ekki andlegan styrk til að snúa við,“ segja hjónin Jarosław og Beata.a
Marek, sem er einnig bróðir í söfnuðinum, segir: „Ég missti hvað eftir annað vinnuna vegna stjórnmála- og þjóðfélagsbreytinga í Póllandi. Ég var svekktur. Ég hafði verið ragur við að stofna eigið fyrirtæki af því að ég hafði ekki hið minnsta vit á viðskiptum. Að lokum freistaðist ég samt til þess þar sem ég taldi að þá gæti ég séð betur fyrir fjölskyldunni án þess að það hefði nokkur neikvæð áhrif á sambandið við Jehóva. Tíminn leiddi í ljós að ég hafði rangt fyrir mér.“
Í heimi dýrtíðar og vaxandi atvinnuleysis verða sumir örvæntingafullir og taka þar af leiðandi óviturlegar ákvarðanir. Margir bræður hafa tekið að sér yfirvinnu, bætt við sig aukastarfi eða farið út í eigin atvinnurekstur þótt þeir hafi jafnvel enga reynslu í þeim efnum. Þeir hugsa sem svo að viðbótartekjurnar hjálpi fjölskyldunni og hafi engin áhrif á samband þeirra við Jehóva. En ófyrirsjáanleg atvik og óstöðugur efnahagur getur gert góðan ásetning að engu. Sumir hafa þess vegna látið græðgi ná tökum á sér og sóst eftir veraldlegum gæðum á kostnað þjónustunnar við Jehóva. — Préd. 9:11, 12.
Sumir bræður og systur hafa orðið svo upptekin af að sækjast eftir veraldlegum gæðum að þau hafa ekki lengur tíma til að stunda sjálfsnám, sækja samkomur eða fara í boðunarstarfið. Það er augljóst að slík vanræksla hefur skaðleg áhrif á tilbeiðslu þeirra og sambandið við Jehóva. Þau fórna einnig öðrum mikilvægum tengslum — sambandinu við trúsystkini sín. (Gal. 6:10) Smám saman fjarlægjast sumir kristna söfnuðinn. Við skulum íhuga alvarlega þá hlið málsins.
Skyldur við trúsystkini
Sem bræður og systur fáum við mörg tækifæri til að sýna hvert öðru kærleika. (Rómv. 13:8) Í söfnuði þínum hefurðu líklega einhvern tíma séð ,snauðan sem hrópaði á hjálp‘. (Job. 29:12) Suma skortir ef til vill brýnustu nauðsynjar. Jóhannes postuli minnti okkur á tækifærið sem þá gefst: „Ef sá sem hefur heimsins gæði horfir á bróður sinn eða systur vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir þeim, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum?“ — 1. Jóh. 3:17.
Vera má að þú hafir brugðist við slíkri þörf, verið örlátur og rétt öðrum hjálparhönd. Við hugsum þó ekki bara um að veita efnislega aðstoð. Sumir hrópa á hjálp af því að þeir eru einmana eða niðurdregnir. Þeim finnst þeir kannski vera óverðugir að þjóna Jehóva, eru alvarlega veikir eða hafa misst ástvin. Við getum til dæmis hughreyst þá með því að hlusta á þá og ræða við þá. Þannig getum við orðið áskynja um líðan þeirra og hjálpað þeim að halda nánu sambandi við Jehóva. (1. Þess. 5:14) Þetta styrkir oft kærleiksbönd okkar við trúsystkini.
Öldungar safnaðarins eru í sérstakri aðstöðu til að hlusta með samúð, sýna skilning og veita kærleiksrík ráð sem byggð eru á Biblíunni. (Post. 20:28) Þannig líkja þeir eftir Páli postula sem bar „kærleiksþel“ til bræðra sinna og systra. — 1. Þess. 2:7, 8.
En hvað verður um skyldurnar við trúsystkini okkar ef við villumst frá hjörðinni? Umsjónarmenn safnaðarins eru ekki einu sinni ónæmir fyrir því að láta freistast af efnishyggjunni. Hvað gerist ef sannkristinn maður lætur undan slíkri freistingu?
Íþyngjandi áhyggjur lífsins
Eins og fram hefur komið fylgja því oft áhyggjur að vinna baki brotnu til að sjá fjölskyldunni fyrir brýnustu nauðsynjum, og fólk getur misst sjónar á kristnum gildum. (Matt. 13:22) Fyrrnefndur Marek segir: „Þegar fyrirtækið fór út um þúfur ákvað ég að fá mér vel launaða vinnu erlendis. Ég ætlaði bara að vera þrjá mánuði í burtu, en var síðan aftur í þrjá mánuði og svo koll af kolli. Þess á milli var ég heima í stuttan tíma. Þetta gekk nærri eiginkonu minni en hún var ekki í söfnuðinum.“
Þetta kom ekki aðeins niður á fjölskyldulífinu. Marek heldur áfram: „Auk vinnutímans, sem var langur í steikjandi hita, var ég berskjaldaður fyrir dólgslegum mönnum sem reyndu að hafa fé út úr öðrum. Þeir höguðu sér eins og ótíndir glæpamenn. Ég varð dapur og mér fannst vera troðið á mér. Þar sem ég hafði ekki einu sinni tíma til að annast sjálfan mig fór ég að efast um að ég gæti komið öðrum að gagni.“
Þessar sorglegu afleiðingar, sem ákvörðun Mareks hafði, ættu að fá okkur til að staldra við og hugsa. Það virðist kannski leysa fjárhagserfiðleikana að flytja til útlanda en koma þá ekki bara upp önnur vandamál? Hvað yrði um sambandið við Jehóva og tilfinningalega velferð fjölskyldunnar? Myndum við missa tengslin við söfnuðinn ef við flyttum? Færum við þá ekki á mis við ánægjuna sem fylgir því að þjóna trúsystkinum okkar? — 1. Tím. 3:2-5.
En eins og þú gerir þér sennilega ljóst þarf maður ekki að fara til útlanda til að sökkva sér niður í vinnu. Hvernig fór fyrir Jarosław og Beötu? Hann segir: „Þetta byrjaði allt ofur sakleysislega. Við vorum nýgift og opnuðum litla pylsusölu á góðum stað. Við græddum á tá og fingri og ákváðum að færa út kvíarnar. En við höfðum lítinn tíma aflögu og misstum af samkomum. Áður en langt um leið hætti ég að vera brautryðjandi og starfa sem safnaðarþjónn. Við urðum svo spennt yfir velgengni okkar að við opnuðum stóra verslun og stofnuðum félag með manni sem var ekki í söfnuðinum. Fljótlega var ég farinn að ferðast til útlanda og undirrita samninga upp á milljónir dollara. Ég var sjaldan heima og það kom niður á tengslunum við konu mína og dóttur. Uppgangur fyrirtækisins varð að lokum til þess að við hættum að þjóna Jehóva. Sambandið við söfnuðinn rofnaði og við leiddum ekki einu sinni hugann að bræðrum okkar og systrum.“
Hvaða lærdóm getum við dregið af þessu? Löngunin til að skapa sér sína eigin „paradís“ getur leitt þjón Guðs út af réttri braut svo að hann verður andvaralaus og missir jafnvel „klæði sín“ — einkenni sannkristins manns. (Opinb. 16:15) Það gæti rofið tengsl okkar við bræður og systur sem við gátum áður rétt hjálparhönd.
Metum stöðuna af raunsæi
Við hugsum gjarnan að þetta geti nú ekki hent okkur. En við höfum öll gott af því að íhuga alvarlega hvað sé í rauninni nauðsynlegt í lífinu. Páll postuli skrifaði: „Ekkert höfum við inn í heiminn flutt og ekki getum við heldur flutt neitt út þaðan. Ef við höfum fæði og klæði þá látum okkur það nægja.“ (1. Tím. 6:7, 8) Vissulega eru lífskjörin mismunandi eftir löndum. Það sem telst vera lágmarkskjör í þróuðu landi er ef til vill talinn munaður í mörgum öðrum löndum.
Óháð þeim lífskjörum sem við búum við skulum við íhuga alvarlega það sem Páll segir í framhaldinu: „Þeir sem ríkir vilja verða falla í freistni og lenda í snöru alls kyns óviturlegra og skaðlegra fýsna er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun.“ (1. Tím. 6:9) Snaran er oftast falin fyrir bráðinni. Henni er ætlað að veiða fórnarlambið með því að koma því á óvart. Hvernig getum við forðast að lenda í snöru „skaðlegra fýsna“?
Með því að forgangsraða getum við notað meiri tíma í þjónustu Jehóva, þar á meðal til sjálfsnáms. Slíkt nám samfara bæn getur hjálpað sannkristnum manni að vera „albúinn og hæfur“ til að hjálpa öðrum. — 2. Tím. 2:15; 3:17.
Í nokkur ár unnu kærleiksríkir öldungar að því að styrkja og hvetja Jarosław. Það varð til þess að hann gerði róttækar breytingar. Hann segir: „Það skipti sköpum fyrir mig þegar öldungarnir vitnuðu í frásögu í Biblíunni um ríkan ungan mann sem langaði til að lifa að eilífu en vildi ekki sleppa hendinni af efnislegum eigum sínum. Með háttvísi vöktu þeir máls á því hvort þetta gæti átt við mig. Það opnaði augu mín.“ — Orðskv. 11:28; Mark. 10:17-22.
Jarosław mat stöðu sína af raunsæi og ákvað að draga sig út úr meiri háttar viðskiptum. Innan tveggja ára endurheimtu hann og fjölskylda hans sambandið við Jehóva. Nú þjónar hann bræðrum sínum og systrum sem öldungur. Hann segir: „Þegar öll athygli bræðra beinist svo mikið að viðskiptum að þeir vanrækja þjónustuna við Jehóva nota ég sjálfan mig sem dæmi til að sýna fram á hvað það er óviturlegt að tengjast vantrúuðum. Það er ekki auðvelt að standast freistandi tilboð og halda sig frá óheiðarlegum aðferðum.“ — 2. Kor. 6:14.
Marek lærði líka af biturri reynslu. Þó að vel launuð vinna erlendis hafi hjálpað fjölskyldunni fjárhagslega kom það niður á sambandinu við Guð og við trúsystkini hans. Þegar fram liðu stundir breytti hann um áherslur í lífinu. „Árum saman var líkt komið fyrir mér og Barúk til forna sem ,ætlaði sér mikinn hlut‘. Að lokum létti ég á hjarta mínu og sagði Jehóva frá áhyggjum mínum. Nú finn ég að ég hef endurheimt sterkt samband við Guð.“ (Jer. 45:1-5) Marek sækist núna eftir að fá „göfugt hlutverk“ umsjónarmanns í söfnuðinum. — 1. Tím. 3:1.
Marek aðvarar þá sem hugleiða að fara til útlanda til að fá betur launaða vinnu: „Í útlöndum er mjög auðvelt að lenda í snöru þessa illa heims. Lítil kunnátta í tungumálinu kemur í veg fyrir samskipti við aðra. Maður kemur heim með peninga en hefur skaðað sambandið við Jehóva. Þann skaða getur tekið langan tíma að bæta.“
Við gleðjum Jehóva ef við gætum þess að láta ekki vinnuna verða til þess að við vanrækjum trúsystkini okkar. Og við getum verið lifandi dæmi sem hvetur aðra til að taka viturlegar ákvarðanir. Þeir sem láta áhyggjur lífsins ná tökum á sér þurfa stuðning, samúð og góða fyrirmynd bræðra og systra. Öldungar safnaðarins og aðrir þroskaðir vottar geta hjálpað trúsystkinum að halda góðu jafnvægi og forðað þeim frá að láta áhyggjur lífsins íþyngja sér. — Hebr. 13:7.
Við skulum aldrei vera svo upptekin af vinnu að við yfirgefum trúsystkini okkar. (Fil. 1:10) Þess í stað skulum við vera ,rík í augum Guðs‘ og láta þjónustuna við hann ganga fyrir. — Lúk. 12:21.
[Neðanmáls]
a Sumum nöfnum er breytt.
[Myndir á bls. 21]
Kemur vinnan stundum í veg fyrir að þú getir sótt samkomur?
[Myndir á bls. 23]
Kanntu að meta tækifærin sem þú hefur til að hjálpa trúsystkinum þínum?