NÁMSGREIN 17
Þið mæður, lærið af fordæmi Evnike
„Hafnaðu ekki viðvörun móður þinnar, [hún er] yndislegur sveigur á höfði þér og men um háls þinn.“ – ORÐSKV. 1:8, 9.
SÖNGUR 137 Trúfastar konur og kristnar systur
YFIRLITa
1, 2. (a) Hver var Evnike og hvað þurfti hún að takast á við sem móðir? (b) Lýstu því sem þú sérð á forsíðumyndinni.
BIBLÍAN greinir ekki frá skírn Tímóteusar en það er ekki erfitt að ímynda sér hversu glöð Evnike móðir hans hlýtur að hafa verið þegar skírnin fór fram. (Orðskv. 23:25) Sjáum hana fyrir okkur með augun ljómandi af gleði þegar hún horfir á Tímóteus í vatninu. Hún stendur þar brosandi og Lóis amma Tímóteusar heldur um öxl hennar. Evnike grípur andann á lofti þegar Tímóteus fer undir vatnið. Það skvettist af honum þegar hann kemur aftur upp úr og hann brosir sínu breiðasta. Evnike getur ekki haldið aftur af tárunum. Þótt það hafi ekki verið átakalaust hefur henni tekist að hjálpa syni sínum að elska Jehóva og son hans, Jesú Krist. Hvaða erfiðleika hefur hún þurft að takast á við þegar hún leiðbeindi syni sínum?
2 Tímóteus var alinn upp á trúarlega skiptu heimili. Faðir hans var Grikki en móðir hans og amma voru Gyðingar. (Post. 16:1) Tímóteus var líklega á táningsaldri þegar Evnike og Lóis gerðust kristnar. En faðir hans varð ekki kristinn. Hvað myndi Tímóteus gera? Hann var sennilega nógu gamall til að taka sína eigin ákvörðun. Myndi hann velja trú föður síns? Myndi hann halda í hefðir Gyðinga sem hann hafði lært sem barn? Eða myndi hann gerast lærisveinn Jesú Krists?
3. Hvernig lítur Jehóva á viðleitni mæðra til að hjálpa börnum sínum að verða vinir hans samkvæmt Orðskviðunum 1:8, 9?
3 Kristnar mæður elska líka fjölskyldu sína. Þær þrá ekkert heitar en að hjálpa börnum sínum að mynda náið samband við Jehóva. Hann metur mikils það sem þær leggja á sig. (Lestu Orðskviðina 1:8, 9.) Hann hefur hjálpað ótal mæðrum að kenna börnum sínum að elska sig og þjóna sér.
4. Hvað þurfa mæður að takast á við?
4 Það er eðlilegt að móðir velti því stundum fyrir sér hvort börn hennar muni velja að þjóna Jehóva, eins og Tímeóteus gerði. Foreldrar eru meðvitaðir um þrýstinginn sem börnin þeirra verða fyrir í heimi Satans. (1. Pét. 5:8) Margar mæður takast auk þess á við að ala upp börnin einar eða með eiginmanni sem þjónar ekki Jehóva. Systir sem heitir Christineb segir: „Eiginmaðurinn minn var góður faðir og fjölskyldumaður en lagðist gegn því að ég myndi ala börnin upp til að verða vottar Jehóva. Ég hef fellt mörg tár í gegnum árin og velt fyrir mér hvort börnin mín myndu nokkurn tíma þjóna Jehóva.“
5. Hvað ræðum við í þessari grein?
5 Ef þú ert kristin móðir geturðu hjálpað börnunum þínum að elska Jehóva og þjóna honum, rétt eins og Evnike. Í þessari grein ræðum við hvernig þú getur líkt eftir fordæmi hennar og kennt börnum þínum með því sem þú segir og gerir. Við skoðum líka hvernig Jehóva hjálpar þér.
KENNDU BÖRNUM ÞÍNUM MEÐ ÞVÍ SEM ÞÚ SEGIR
6. Hvað varð til þess að Tímóteus gerðist kristinn eins og er gefið til kynna í 2. Tímóteusarbréfi 3:14, 15?
6 Þegar Tímóteus var lítill gerði móðir hans sitt besta til að fræða hann um „heilagar ritningar“ samkvæmt skilningi Gyðinga. Þekking hennar var takmörkuð því að hún vissi ekkert um Jesú Krist. En það sem Tímóteus lærði gaf honum góðan grunn til að verða kristinn. En myndi hann velja það? Sem ungur maður gat hann kosið hvort hann vildi lifa lífinu sem kristinn maður. Hann hefur eflaust „látið sannfærast“ um sannleikann um Jesú að hluta til vegna viðleitni móður sinnar. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:14, 15.) Evnike hlýtur að hafa verið ákaflega þakklát að sér skyldi takast að fræða son sinn um Jehóva. Hún stóð fyllilega undir nafni, en nafn hennar er dregið af orði sem merkir „að sigra“.
7. Hvernig gat Evnike hjálpað syni sínum að taka framförum eftir að hann lét skírast?
7 Skírnin var mikilvægur áfangi í lífi Tímóteusar en áhyggjur Evnike voru samt ekki á bak og burt. Hvernig myndi sonur hennar nota líf sitt? Myndi hann eignast vini sem hefðu slæm áhrif á hann? Myndi hann fara í skóla í Aþenu og byrja að trúa kenningum heimspekinganna? Myndi hann sóa tíma sínum, orku og æsku í að þræla fyrir auðinn? Evnike gat ekki tekið ákvarðanir fyrir Tímóteus en hún gat hjálpað honum að gera það viturlega. Hvernig? Með því að halda áfram að hjálpa syni sínum að elska Jehóva innilega og vera þakklátur fyrir allt sem hann og Jesús höfðu gert fyrir fjölskyldu þeirra. Erfiðleikarnir sem fylgja því að kenna börnum að elska Jehóva eru ekki bundnir við trúarlega skipt heimili. Jafnvel þegar báðir foreldrarnir þjóna Jehóva getur verið mjög erfitt að ná til hjartna barnanna og hjálpa þeim að verða trúfastir þjónar hans. Hvað geta foreldrar lært af Evnike?
8. Hvernig getur móðir hjálpað eiginmanni sem er vottur að annast þarfir barna þeirra?
8 Hjálpaðu börnum þínum að kynnast Biblíunni. Þið systur, ef þið eigið eiginmenn í trúnni vill Jehóva að þið aðstoðið þá við að annast andlegar þarfir barna ykkar. Þú getur meðal annars gert það með því að styðja reglulega biblíunámsstund fjölskyldunnar. Talaðu jákvætt um námsstundina og hugleiddu hvað þú getur gert til að andrúmsloftið sé hlýlegt og ánægjulegt. Þú getur kannski hjálpað eiginmanni þínum að undirbúa verkefni eða viðfangsefni fyrir námsstundina. Ef sum barnanna eru nógu gömul til að hafa gagn af kennslu með hjálp bókarinnar Von um bjarta framtíð gætirðu kannski aðstoðað manninn þinn við að veita hana.
9. Hvar getur móðir með eiginmann sem þjónar ekki Jehóva fengið hjálp?
9 Sumar mæður þurfa sjálfar að sjá um að fræða börnin sín, annaðhvort vegna þess að þær eru einstæðar eða að eiginmenn þeirra eru ekki vottar. Ef það á við um þig skaltu ekki hafa of miklar áhyggjur. Jehóva hjálpar þér. Notaðu þau frábæru kennslugögn sem hann hefur gefið okkur fyrir milligöngu safnaðarins til að fræða börnin þín. Og hvernig væri að fá góðar hugmyndir hjá reyndum foreldrum um hvernig þú getur notað þessi verkfæri í biblíunámsstund fjölskyldunnar?c (Orðskv. 11:14) Jehóva getur líka hjálpað þér að eiga góð tjáskipti við börnin þín. Biddu hann að hjálpa þér að komast að því hvað býr í hjarta þeirra. (Orðskv. 20:5) Einföld spurning eins og „Hvað finnst þér erfiðast í skólanum?“ getur leitt til góðra umræðna.
10. Á hvaða fleiri vegu geturðu hjálpað börnunum þínum að læra um Jehóva?
10 Skapaðu tækifæri til að fræða börnin þín um Jehóva. Talaðu um Jehóva og allt það góða sem hann hefur gert fyrir þig. (5. Mós. 6:6, 7; Jes. 63:7) Þetta er sértaklega mikilvægt ef þú getur ekki frætt þau heima hjá þér. Christine, sem er vitnað í áður, segir: „Ég hafði fáa möguleika til að ræða andleg mál við börnin svo að ég notaði hvert tækifæri sem gafst. Við fórum til dæmis í göngutúra eða rerum á kanó spöl frá ströndinni. Við þessi tækifæri ræddum við um stórkostlegt sköpunarverk Jehóva og margt fleira sem myndi hjálpa þeim að verða vinir hans. Um leið og þau höfðu aldur til hvatti ég þau til að rannsaka Biblíuna sjálf.“ Talaðu líka jákvætt um söfnuð Jehóva og trúsystkini þín. Gagnrýndu ekki öldungana. Það sem þú segir um þá getur ráðið úrslitum um það hvort börnin þín leiti til þeirra þegar þau þurfa á hjálp að halda.
11. Hvers vegna er mikilvægt að stuðla að friði á heimilinu samkvæmt Jakobsbréfinu 3:18?
11 Stuðlaðu að friðsömu andrúmslofti á heimilinu. Tjáðu eiginmanni þínum og börnum oft ást þína. Talaðu um eiginmann þinn með vinsemd og virðingu og kenndu börnum þínum að gera það líka. Þannig skaparðu friðsamt umhverfi sem auðveldar börnunum að læra um Jehóva. (Lestu Jakobsbréfið 3:18.) Tökum sem dæmi Jozsef, en hann er sérbrautryðjandi í Rúmeníu. Á uppvaxtarárunum gerði faðir hans honum, móður hans og systkinum mjög erfitt fyrir að þjóna Jehóva. Jozsef segir: „Móðir mín lagði sig fram um að hafa heimili okkar friðsamt. Því erfiðari sem faðir minn var þeim mun vingjarnlegri varð móðir mín. Þegar hún tók eftir að við börnin áttum erfitt með að virða föður okkar og hlýða ræddi hún við okkur um það sem segir í Efesusbréfinu 6:1–3. Síðan talaði hún við okkur um góða eiginleika hans og hjálpaði okkur að skilja hvers vegna okkur ætti að þykja vænt um hann. Þannig losaði hún oft um spennu í fjölskyldunni.“
KENNDU BÖRNUM ÞÍNUM MEÐ ÞVÍ SEM ÞÚ GERIR
12. Hvaða áhrif hafði fordæmi Evnike á Tímóteus samkvæmt 2. Tímóteusarbréfi 1:5?
12 Lestu 2. Tímóteusarbréf 1:5. Evnike setti Tímóteusi gott fordæmi. Hún hlýtur að hafa kennt honum að ósvikin trú sannast af verkum. (Jak. 2:26) Tímóteus gat eflaust séð að verk móður hans endurspegluðu sterkan kærleika til Jehóva. Hann hefur örugglega líka séð að þjónustan við Jehóva veitti henni hamingju. Hvaða áhrif hafði fordæmi hennar á Tímóteus? Páll postuli sagði að Tímóteus hefði sterka trú eins og móðir hans. Það var engin tilviljun. Tímóteus hafði séð fordæmi hennar og langaði að líkja eftir því. Margar mæður nú á dögum hafa á svipaðan hátt náð til hjartna annarra í fjölskyldu sinni „orðalaust“. (1. Pét. 3:1, 2) Þú getur það líka. Hvernig?
13. Hvers vegna ætti móðir að láta samband sitt við Jehóva hafa forgang?
13 Láttu samband þitt við Jehóva hafa forgang. (5. Mós. 6:5, 6) Þú færir margar fórnir líkt og margar aðrar mæður. Þú fórnar tíma, peningum, svefni og fleiru til að annast líkamlegar þarfir barna þinna. En þú ættir aldrei að vera svo upptekin við að annast þessar þarfir að þú vanrækir samband þitt við Jehóva. Taktu þér reglulega tíma fyrir bæn, sjálfsnám og safnaðarsamkomur. Þá styrkir þú vináttu þína við Jehóva og setur fjölskyldunni þinni og öðrum gott fordæmi.
14, 15. Hvað lærirðu af Leanne, Mariu og João?
14 Skoðum nokkur dæmi um ungt fólk sem fylgdist með mæðrum sínum og lærði þannig að elska Jehóva og treysta honum. Leanne dóttir Christine segir: „Við gátum ekki rannsakað Biblíuna þegar faðir okkar var heima. En móðir okkar sótti alltaf samkomur. Fordæmi hennar og sannfæring vó upp á móti því sem vantaði í þekkingu. Við vissum að þetta væri sannleikurinn löngu áður en við fórum að sækja samkomur.“
15 Faðir Mariu refsaði stundum fjölskyldunni fyrir að sækja samkomur. Hún segir: „Mamma er ein hugrakkasta systir sem ég þekki. Þegar ég var barn neitaði ég stundum að gera eitthvað því að ég óttaðist hvað aðrir myndu segja. En hugrekki hennar og það að hún setti Jehóva alltaf í fyrsta sæti hjálpaði mér að sigrast á ótta við menn.“ Faðir João bannaði fjölskyldunni að ræða andleg mál á heimilinu. João segir: „Það sem snerti mig kannski hvað mest var að móðir mín var tilbúin að fórna öllu til að þóknast föður okkar, öllu nema kærleika sínum til Jehóva.“
16. Hvaða áhrif getur fordæmi móður haft á aðra?
16 Mæður, gleymið ekki að fordæmi ykkar snertir aðra. Hugleiddu hvernig fordæmi Evnike snerti Pál postula. Hann sagði að hræsnislaus trú Tímóteusar hefði búið fyrst í Evnike. (2. Tím. 1:5) Hvenær tók Páll fyrst eftir trú hennar? Hann hitti sennilega Lóis og Evnike í Lýstru á fyrstu trúboðsferð sinni og hjálpaði þeim ef til vill að gerast kristnar. (Post. 14:4–18) Þegar Páll skrifaði Tímóteusi bréf um 15 árum seinna mundi hann enn eftir hvernig Evnike hafði sýnt trúfesti og benti á hana sem fordæmi til eftirbreytni. Fordæmi hennar hafði greinilega djúpstæð áhrif á Pál postula og líklega marga aðra kristna þjóna Guðs á þeim tíma. Ef þú ert einstætt foreldri eða býrð á trúarlega skiptu heimili máttu vera viss um að trúfesti þín styrkir og hvetur þá sem eru í kringum þig.
17. Hvað ættirðu að gera ef barnið þitt virðist ekki bregðast vel við kennslu þinni?
17 En hvað ef barnið þitt virðist ekki bregðast vel við kennslu þinni? Mundu að það tekur tíma að kenna barni. Eins og kemur fram á myndinni gæti sá sem hefur sáð fræi velt því fyrir sér hvort það verði nokkurn tíma að tré sem gefur af sér ávöxt. Hann getur ekki vitað það fyrir víst en heldur áfram að vökva til að auka líkurnar á árangri. (Mark. 4:26–29) Á svipaðan hátt getur þú sem móðir stundum velt því fyrir þér hvort viðleitni þín til að hjálpa börnum þínum að elska Jehóva skili sér. Þú getur ekki stjórnað því hvað þau kjósa að gera. En ef þú heldur áfram að gera þitt besta til að kenna þeim skaparðu þeim bestu skilyrðin til að vaxa og dafna andlega. – Orðskv. 22:6.
REIDDU ÞIG Á HJÁLP JEHÓVA
18. Hvernig getur Jehóva hjálpað börnunum þínum að verða vinir hans?
18 Allt frá biblíutímanum hefur Jehóva hjálpað fjölmörgu ungu fólki að verða vinir sínir. (Sálm. 22:10, 11) Hann getur líka hjálpað börnunum þínum að vaxa andlega, ef þau vilja það. (1. Kor. 3:6, 7) Hann heldur áfram að elska þau jafnvel þegar þau virðast ekki þjóna honum heils hugar. (Sálm. 11:4) Þegar þau sýna minnstu merki þess að hafa rétt hugarfar réttir hann þeim hjálparhönd. (Post. 13:48; 2. Kron. 16:9) Hann getur hjálpað þér að segja réttu hlutina á réttum tíma – þegar börnin þín þurfa mest á því að halda. (Orðskv. 15:23) Hann gæti líka fengið kærleiksríkan bróður eða systur til að veita þeim athygli. Jafnvel eftir að þau eru orðin fullorðin getur Jehóva kallað fram minningar í huga þeirra um eitthvað sem þau lærðu áður. (Jóh. 14:26) Þú gefur Jehóva margt sem hann getur blessað þegar þú heldur áfram að kenna börnunum þínum með því sem þú segir og gerir.
19. Hvers vegna geturðu verið viss um að Jehóva hafi velþóknun á þér?
19 Kærleikur Jehóva til þín er ekki háður því sem börnin þín kjósa að gera. Hann elskar þig vegna þess að þú elskar hann. Ef þú ert einstætt foreldri lofar Jehóva að vera börnum þínum faðir og verndari þinn. (Sálm. 68:6) Þú getur ekki stjórnað því hvort börnin þín velji að þjóna Jehóva. En hann hefur velþóknun á þér ef þú heldur áfram að reiða þig á hann og gera þitt besta.
SÖNGUR 134 Ykkur er trúað fyrir börnunum
a Í þessari námsgrein skoðum við hvernig kristnar mæður geta haft gagn af fordæmi Evnike móður Tímóteusar og hjálpað börnum sínum að kynnast Jehóva og elska hann.
b Sumum nöfnum hefur verið breytt.
c Sjá til dæmis kafla 50 í bókinni Von um bjarta framtíð og greinina „Hugmyndir fyrir fjölskyldunám og sjálfsnám“ í Varðturninum 15. ágúst 2011, bls. 6–7.