Anabaptistar og „heilnæmu orðin“
PÁLL postuli varaði við því að eftir dauða hans myndu fráhvarfskristnir menn ganga berserksgang meðal hjarðar Guðs líkt og „skæðir vargar,“ í þeim tilgangi að „tæla lærisveinana“ á eftir sér. Hvernig myndu þeir fara að því? Með því að lauma inn erfi- og villukenningum til að brengla sannindi Ritningarinnar. — Postulasagan 20:29, 30; 1. Tímóteusarbréf 4:1.
Af þeirri ástæðu hvatti Páll hinn unga Tímóteus: „Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja. Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú. Varðveittu hið góða, sem þér er trúað fyrir, með hjálp heilags anda, sem í oss býr.“ Hver eru þessi ‚heilnæmu orð‘ sem hann átti að ‚hafa til fyrirmyndar‘? — 2. Tímóteusarbréf 1:13, 14.
‚Fyrirmyndin‘ gefin
Allar bækur kristnu Grísku ritninganna voru fullgerðar á fyrstu öld okkar tímatals. Þótt nokkrir menn ynnu að ritun þeirra tryggði heilagur andi Guðs eða starfskraftur að þær væru ein samstæð heild, og auk þess í fullu samræmi við Hebresku ritningarnar. Þannig varð til ‚fyrirmynd‘ heilnæmra biblíukenninga sem allir kristnir menn urðu að halda sér við, með svipuðum hætti og Jesús Kristur var þeim „fyrirmynd“ til að líkja eftir. — 1. Pétursbréf 2:21; Jóhannes 16:12, 13.
Hvað varð um „heilnæmu orðin“ á þeim myrku öldum sem hófust eftir dauða postulanna? Margt einlægra manna reyndi að koma auga á þau, enda þótt full endurreisn yrði að bíða ‚endalokanna.‘ (Daníel 12:4) Stundum var það einmana rödd sem talaði, stundum lítill hópur manna sem var að leita ‚fyrirmyndarinnar.‘
Valdensarnir virðast hafa verið slíkur minnihlutahópur.a Þeir bjuggu í Frakklandi, á Ítalíu og víðar í Evrópu á 12. til 14. öld. Anabaptistar spruttu síðar úr þeirri hreyfingu. Hverjir voru þeir og hverju trúðu þeir?
Undirstöðukenningarnar
Anabaptistar urðu fyrst áberandi um árið 1525 í Zürich í Sviss. Þaðan breiddist trú þeirra ört út til margra Evrópulanda. Siðbótin snemma á 16. öld hafði haft í för með sér ýmsar breytingar, en í hugum anabaptista hafði hún ekki gengið nógu langt.
Löngun anabaptista til að hverfa aftur til kristinna kenninga fyrstu aldar kom þeim til að hafna meiru af kreddum rómversk-kaþólskra en Marteinn Lúter og aðrir siðbótarmenn. Anabaptistar héldu því til dæmis fram að einungis fullvaxta fólk gæti vígt sig Kristi. Sökum þess að þeir iðkuðu fullorðinsskírn, jafnvel handa þeim sem höfðu verið skírðir sem ungbörn, var þeim gefið nafnið „anabaptistar“ sem merkir „endurskírendur.“ — Matteus 28:19; Postulasagan 2:41; 8:12; 10:44-48.
„Í hugum anabaptista var hin sanna kirkja samfélag fólks sem trúði,“ segir dr. R. J. Smithson í bók sinni The Anabaptists — Their Contribution to Our Protestant Heritage. Sem slíkir litu þeir á sig sem samfélag trúaðra innan samfélagsins í heild, og í upphafi höfðu þeir ekki sérmenntaða, launaða presta. Líkt og lærisveinar Jesú voru þeir farandprédikar sem fóru um borgir og bæi, töluðu við fólk á markaðstorgunum, í smiðjunum og á heimilum þess. — Matteus 9:35; 10:5-7, 11-13; Lúkas 10:1-3.
Hver einstakur anabaptisti var álitinn persónulega ábyrgur gagnvart Guði. Hann hafði frjálsan vilja og sýndi trú sína í verki, þótt ekki væri litið svo á að hjálpræði fengist með verkum einum saman. Ef einhver braut gegn trúnni var hægt að gera hann rækan úr söfnuðinum. Slíkir voru teknir inn í söfnuðinn aftur einungis ef þeir sýndu merki tilhlýðilegrar iðrunar. — 1. Korintubréf 5:11-13; samanber 2. Korintubréf 12:21.
Viðhorf þeirra til heimsins
Anabaptistar gerðu sér grein fyrir að þeir gætu ekki umbreytt heiminum. Þótt kirkjan hefði verið bandamaður ríkisins allt frá dögum rómverska keisarans Konstantínusar á fjórðu öld okkar tímatals, litu þeir ekki svo á að ríkið væri þar með orðið kristið. Af orðum Jesú réðu þeir að kristinn maður ætti ekki að ‚tilheyra heiminum,‘ jafnvel þótt það hefði í för með sér ofsóknir. — Jóhannes 17:15, 16; 18:36.
Þar sem ekki voru árekstrar milli kristinnar samvisku og hagsmuna ríkisins litu anabaptistar svo á að rétt væri að hlýða yfirvöldum og virða þau. Hins vegar blönduðu þeir sér ekki í stjórnmál, gengdu ekki opinberum embættum, dómaraembætti eða sóru eiða. Þeir tóku eindregna afstöðu gegn hvers kyns ofbeldi og valdbeitingu og komu hvergi nærri hernaði eða herþjónustu. — Markús 12:17; Postulasagan 5:29; Rómverjabréfið 13:1-7; 2. Korintubréf 10:3, 4.
Anabaptistar höfðu háan siðferðisstaðal, lifðu fábreyttu lífi og voru að mestu leyti lausir við efnishyggju og lífsþægindagræðgi. Kærleikur þeirra hver til annars kom þeim oft til þess að búa út af fyrir sig í þorpum eða nýlendum, enda þótt flestir hafi þeir hafnað sameignarlifnaði. Hins vegar litu þeir svo á að allt tilheyrði Guði og voru ávallt fúsir til að nota efnislegar eigur sínar til góðs fátækum. — Postulasagan 2:42-45.
Grandgæfilegt nám í Biblíunni, einkum kristnu Grísku ritningunum, varð til þess að sumir anabaptistar afneituðu kenningunni um þrjár persónur í einum Guði, eins og sum af ritum þeirra bera vitni. Guðsdýrkun þeirra var yfirleitt með einföldu sniði og skipaði kvöldmáltíð Drottins þar sérstakan sess. Þeir höfnuðu erfikenningum rómversk-kaþólskra, lúterskra og kalvínista og litu á heilaga kvöldmáltíð sem minningarmáltíð um dauða Jesú. R. J. Smithson segir: „Í þeirra huga var hún alvarlegasta athöfn, sem kristinn maður getur tekið þátt í, og fól í sér endurnýjun sáttmála hins trúaða um að helga líf sitt skilyrðislaust þjónustunni við Krist.“
Ofsóknir — og framhald
Anabaptistar voru mjög misskildir líkt og frumkristnir menn. Þeir voru álitnir raska hefðbundinni þjóðfélagsskipan og ‚koma allri heimsbyggðinni í uppnám.‘ (Postulasagan 17:6) Í félagi við siðbótarmanninn Ulrich Zwingli risu yfirvöld í Zürich í Sviss öndverð gegn anabaptistum, einkum vegna þess að þeir neituðu að skíra ungbörn. Árið 1527 drekktu þeir Felix Manz, einum af forystumönnum anabaptista, og ofsóttu svissneska anabaptista svo heiftarlega að þeir voru nánast þurrkaðir út.
Í Þýskalandi sættu anabaptistar heiftarlegum ofsóknum bæði frá kaþólskum og mótmælendum. Með keisaralegri tilskipun árið 1528 var felldur dauðadómur yfir hverjum þeim manni er gerðist anabaptisti — og mátti fullnægja honum án þess að nokkur réttarhöld færu fram. Ofsóknir í Austurríki ollu því að flestir anabaptistar þar leituðu hælis í Móravíu, Bæheimi og Póllandi, og síðar í Ungverjalandi og Rússlandi.
Þegar svona margir af frumleiðtogunum féllu frá var óhjákvæmilegt að öfgamenn næðu undirtökunum. Þeir höfðu í för með sér öfgar sem leiddu til mikillar ringulreiðar og síðan fráhvarfs frá þeim lífsstöðlum og trúaratriðum sem áður hafði verið fylgt. Það birtist með sorglegum hætti árið 1534 þegar slíkir öfgamenn beittu ofbeldi til að ná undir sig stjórn borgarinnar Münster í Vestfalíu. Árið eftir var borgin tekin af þeim aftur og fylgdu því miklar blóðsúthellingar og pyndingar. Þessir atburðir voru í algeru ósamræmi við hinar sönnu kenningar anabaptista og komu miklu óorði á þá. Sumir fylgjendur hreyfingarinnar reyndu að afneita nafninu anabaptistar og taka upp nafnið „baptistar.“ En hvort nafnið sem þeir báru sættu þeir mikilli andstöðu, ekki síst hins kaþólska rannsónarréttar.
Með tíð og tíma fluttust hópar anabaptista úr landi í leit að auknu frelsi og friði. Nú er þá að finna bæði í Norður- og Suður-Ameríku auk Evrópu. Margir trúarsöfnuðir hafa orðið fyrir árifum af þeim kenningum, sem þeir héldu fram í fyrstu, þeirra á meðal kvekarar, baptistar og bræðrahreyfing kennd við Plymouth. Kvekarar eru samstíga anabaptistum í hatri sínu á stríði og þeirri hugmynd að láta leiðast af ‚innra ljósi.‘
Hreyfing anabaptista lifir ekki síst í tveim áveðnum trúarhópum. Hinn fyrri er Hutterian Brethren, nefnd eftir leiðtoga sínum Jakob Hutter frá 16. öld. Þeir stofnuðu nýlendur á Englandi, í Vestur-Kanada, Paraguay og Suður-Dakóta í Bandaríkjunum. Hinn hópurinn eru mennonítar. Þeir draga nafn sitt af Menno Simons sem lagði sig í framkróka við að afmá hið slæma mannorð anabaptista í Hollandi eftir atburðina í Münster. Simons lést árið 1561. Nú er mennoníta að finna í Evrópu og Norður-Ameríku, ásamt amish-mennonítum.
‚Fyrirmyndin‘ nú á dögum
Þótt anabaptistar hafi leitast við að hafa „til fyrirmyndar heilnæmu orðin“ tókst þeim ekki að koma auga á þau nema að hluta. Auk þess segir K. S. Latourette í bók sinni A History of Christianity: „Í upphafi voru þeir afar trúboðssinnaðir, en ofsóknir urðu til þess að þeir drógu sig að verulegu leyti í hlé og viðhéldu sér einkum með barnsburði en ekki með því að snúa öðrum til trúar.“ Þannig er það enn þann dag í dag meðal þeirra hópa sem reka uppruna sinn til anabaptista. Löngun þeirra til að halda sér aðgreindum frá heiminum og háttum hans hefur orðið til þess að þeir skera sig úr í klæðaburði, enda hvatt til þess með því að þeir lifa oft í aðgreindum samfélögum.
Er þá ‚fyrirmynd heilnæmu orðanna‘ einhvers staðar að finna nú á dögum? Já, en það kostar tíma og kærleika til sannleikans að finna hana. Væri ekki hyggilegt af þér að sannreyna hvort það sem þú trúir á stenst samanburð við þá ‚fyrirmynd‘ sem Guð hefur opinberað? Það er ekki erfitt að ganga úr skugga um hvað eru erfikenningar manna og hvað biblíulegar staðreyndir. Vottar Jehóva í þínu byggðarlagi munu fúslega hjápa þér, því að þeir líta á það sem þeim hefur verið hjálpað til að skilja sem ‚fyrirmynd heilnæmu orðanna.‘
[Neðanmáls]
a Sjá Varðturninn þann 1. apríl 1983, bls. 19-22.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Vottar Jehóva hjálpa mörgum að skilja ‚fyrirmynd heilnæmu orðanna.‘