Námskafli 52
Einlæg áminning
SAFNAÐARÖLDUNGAR þurfa að vera færir um að „áminna með hinni heilnæmu kenningu,“ stundum við vandasamar aðstæður. (Tít. 1:9) Það er mikilvægt að ráðleggingar, sem gefnar eru, séu í samræmi við leiðbeiningar Biblíunnar. Öldungar þurfa þess vegna að vera ‚kostgæfnir að áminna.‘ (1. Tím. 4:13) Efni þessa kafla er aðallega sniðið fyrir safnaðaröldunga og þá sem sækjast eftir öldungsstarfi, en stundum þurfa foreldrar líka að áminna börnin sín og leiðbeinendur að áminna biblíunemendur sína. Þessar leiðbeiningar eiga einnig við á þeim vettvangi.
Hvenær er einlæg áminning nauðsynleg? Til að kanna hvenær nauðsynlegt er að áminna er ágætt að skoða við hvaða aðstæður þær áminningar, sem Biblían segir frá, voru gefnar. Pétur postuli áminnti öldunga um að sinna vel þeirri skyldu að vera hirðar hjarðar Guðs. (1. Pét. 5:1, 2) Páll ráðlagði Títusi að áminna yngri menn um að „vera hóglátir.“ (Tít. 2:6) Páll hvatti trúbræður sína eindregið til að ‚vera allir samhuga‘ og umgangast ekki þá sem yllu sundurþykkju meðal bræðranna. (1. Kor. 1:10; Rómv. 16:17; Fil. 4:2) Og þó að Páll hrósaði safnaðarmönnum í Þessaloníku fyrir hið góða sem þeir gerðu, áminnti hann þá um að fara enn betur eftir þeim leiðbeiningum sem þeir höfðu fengið. (1. Þess. 4:1, 10) Pétur sárbændi trúsystkini sín um að ‚halda sig frá holdlegum girndum.‘ (1. Pét. 2:11) Júdas áminnti bræður sína um að ‚berjast fyrir trúnni‘ vegna áhrifa frá óguðlegum og taumlausum mönnum. (Júd. 3, 4) Allir kristnir menn voru hvattir til að áminna hver annan þannig að enginn forhertist af táli syndarinnar. (Hebr. 3:13) Pétur áminnti Gyðinga sem trúðu ekki enn á Krist: „Látið frelsast frá þessari rangsnúnu kynslóð.“ — Post. 2:40.
Hvaða eiginleika þarf til að geta hvatt aðra sterklega við aðstæður sem þessar? Hvernig er hægt að áminna með nokkrum krafti án þess að virka ráðríkur eða hranalegur?
„Vegna kærleika.“ Áminningin getur virkað ströng ef hún er ekki veitt „vegna kærleika.“ (Fílem. 9) Þegar málið er brýnt ætti það vissulega að heyrast á mæli þess sem áminnir. Ef hann er of mildur í máli gæti það hljómað eins og afsökunartónn. Hvatningin ætti jafnframt að vera einlæg og innileg. Kærleiksrík hvatning er líklegust til að vekja löngun hjá fólki til að gera eins og hvatt er til. Páll sagði Þessaloníkumönnum, og var þá að tala um sig og félaga sína: „Þér vitið, hvernig vér áminntum og hvöttum og grátbændum hvern og einn yðar, eins og faðir börn sín.“ (1. Þess. 2:11) Þessir kristnu umsjónarmenn hvöttu bræður sína vegna kærleika til þeirra. Láttu orð þín spretta af ósvikinni umhyggju fyrir áheyrendum þínum.
Vertu nærgætinn. Fáðu fólk ekki upp á móti þér þegar þú reynir að hvetja það til dáða. En veigraðu þér samt ekki við því að boða áheyrendum þínum „allt Guðs ráð.“ (Post. 20:27) Þeir sem kunna að meta áminninguna móðgast ekki og þeim þykir ekki minna vænt um þig þó að þú hvetjir þá vinsamlega til að gera það sem er rétt. — Sálm. 141:5.
Oft er gott að hrósa fólki einlæglega fyrir eitthvað ákveðið áður en það er áminnt. Hugsaðu um allt hið góða sem bræður þínir gera og hlýtur að gleðja Jehóva — trú þeirra sem birtist í verkum, kærleikann sem fær þá til að leggja sig fram og þolgæði þeirra í ýmsum erfiðleikum. (1. Þess. 1:2-8; 2. Þess. 1:3-5) Ef þú hrósar bræðrum þínum finna þeir að þú metur þá mikils og skilur þá, og þá eru þeir móttækilegir fyrir áminningunni sem á eftir kemur.
„Með öllu langlyndi.“ Það ætti að áminna „með öllu langlyndi.“ (2. Tím. 4:2) Hvað er átt við með því? Langlyndi felur í sér að umbera rangindi eða ögrun með þolinmæði. Langlyndur maður vonar að áheyrendur hans fari eftir því sem hann segir. Þegar þú áminnir með þessu hugarfari halda áheyrendur ekki að þú búist við hinu versta af þeim. Ef trúsystkini þín finna að þú treystir að þau vilji þjóna Jehóva eftir bestu getu styrkir það löngun þeirra til að gera hið rétta. — Hebr. 6:9.
„Með hinni heilnæmu kenningu.“ Hvernig getur öldungur áminnt „með hinni heilnæmu kenningu“? Með því að vera „fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem samkvæmt er kenningunni.“ (Tít. 1:9) Láttu orð Guðs gefa hvatningunni kraft í stað þess að segja þína eigin skoðun. Láttu Biblíuna hjálpa þér að koma auga á hvað segja þarf. Bentu á kosti þess að fara eftir því sem Biblían segir um viðkomandi mál. Hafðu skýrt í huga hvaða afleiðingar það hefur — bæði núna og í framtíðinni — að fara ekki eftir orði Guðs, og notaðu það til að sannfæra áheyrendur um að þeir þurfi að gera nauðsynlegar ráðstafanir.
Gættu þess að útskýra nákvæmlega fyrir áheyrendum hvað þeir eigi að gera og hvernig. Láttu það koma skýrt fram að rökfærsla þín eigi sér styrka stoð í Biblíunni. Ef Biblían býður upp á eitthvert svigrúm í einhverju máli skaltu gera grein fyrir því hve mikið svigrúmið er. Ljúktu svo máli þínu með hvatningu sem styrkir áheyrendur í að gera hið rétta.
Með „djörfung.“ „Djörfung í trúnni“ eða einurð er nauðsynleg til að hvetja aðra á áhrifaríkan hátt. (1. Tím. 3:13) Hvernig fær maður þessa einurð? Með því að vera „fyrirmynd í góðum verkum“ og lifa sjálfur í samræmi við það sem maður hvetur aðra til að gera. (Tít. 2:6, 7; 1. Pét. 5:3) Þeir sem fá hvatninguna gera sér þá ljóst að sá sem áminnir þá gerir sjálfur það sem hann ætlast til af öðrum. Þeir sjá að þeir geta líkt eftir trú hans því að hann leggur sig fram um að líkja eftir Kristi. — 1. Kor. 11:1; Fil. 3:17.
Kærleiksrík áminning, byggð á orði Guðs, getur komið mörgu góðu til leiðar. Þeir sem trúað er fyrir þeirri ábyrgð að veita hana ættu að leggja sig fram um að gera það vel. — Rómv. 12:8.