Hvað mun koma Krists hafa í för með sér?
„SKÁLMÖLD Í SÃO PAULO.“ Þannig lýsti tímaritið Veja ástandinu sem ríkti í fjóra daga í maí 2006 þegar skipulagðir glæpir lömuðu stærstu og ríkustu borg Brasilíu. Um það bil 150 lögreglumenn, glæpamenn og almennir borgarar féllu í „skálmöld sem stóð í meira en 100 klukkutíma“.
Minnst er á ofbeldi í fyrirsögnum frétta í nánast öllum heimshornum. Mennskir leiðtogar virðast ekki geta gert neitt til að stöðva það. Það verður sífellt hættulegra að búa á jörðinni. Slæmar fréttir heyrast úr öllum áttum og það gerir þig ef til vill niðurdreginn. En breytingar eru í nánd.
Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja um að ríki Guðs myndi koma og að vilji Guðs yrði gerður „svo á jörðu sem á himni“. (Matteus 6:9, 10) Þetta ríki er stjórn þar sem Guð hefur skipað Jesú Krist sem konung. Það mun leysa öll vandamál manna. En til að ríki Guðs geti komið á þessum breytingum hér á jörð verður Kristur að taka stjórnina úr höndum manna. Og það er einmitt það sem koma hans hefur í för með sér.
Verða umskiptin friðsamleg?
Munu þjóðirnar ganga undir stjórn Krists með friði? Jóhannes postuli sá sýn sem svarar því. Hann segir svo frá: „Ég sá dýrið [stjórnmálakerfi heimsins] og konunga jarðarinnar og hersveitir þeirra safnaðar saman til að heyja stríð við þann [Jesú], sem á hestinum sat, og við herlið hans.“ (Opinberunarbókin 19:19) Hvað verður um konunga jarðarinnar í þessu stríði? Útvalinn konungur Jehóva mun „mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker“. (Sálmur 2:9) Stjórnmálakerfið verður afmáð með öllu. Guðsríki „mun knosa og að engu gjöra öll [mennsk] ríki, en sjálft mun það standa að eilífu“. — Daníel 2:44.
Hvað verður um fólk sem er andsnúið Guðsríki? „Þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns . . . kemur [hann] í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu.“ (2. Þessaloníkubréf 1:7, 8) „Hinir óguðlegu,“ segir í Orðskviðunum 2:22, „munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“
Í Biblíunni segir um komu Krists: „Sjá, hann kemur í skýjunum og hvert auga mun sjá hann.“ (Opinberunarbókin 1:7) Fólk mun ekki sjá hann bókstaflega. Frá því að Jesús steig upp til himna hefur hann verið andavera. „Hann býr í ljósi, sem enginn fær til komist, hann sem enginn maður leit né litið getur.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:16.
Jesús þarf ekki að taka sér mennskan líkama til að íbúar jarðarinnar geti séð hann, ekki frekar en Jehóva þurfti að gera það þegar hann lét plágurnar tíu koma yfir Egypta á dögum Móse. Fólkið á þeim tíma efaðist ekki um að Jehóva stæði að baki plágunum og neyddist til að viðurkenna kraft hans. (2. Mósebók 12:31) Þegar Kristur hefst handa við að fullnægja dómi Guðs neyðast hinir illu sömuleiðis til að „sjá“ eða skilja að Guð notar Jesú til að dæma þá. Þeir vita það vegna þess að mannkynið hefur fyrir fram verið varað við. Já, „hvert auga mun sjá [Jesú], og allar kynkvíslir jarðarinnar munu kveina yfir honum“. — Opinberunarbókin 1:7.
Áður en hægt er að koma á sönnum friði og velmegun á jörðinni er nauðsynlegt að eyða hinum illu og illum stjórnum þeirra. Kristur mun koma því til leiðar. Síðan tekur hann öll málefni jarðarinnar í sínar hendur og veigamiklar breytingar koma í kjölfarið.
Endurreisn til hagsbóta fyrir mannkynið
Pétur postuli talaði um þann tíma „þegar Guð endurreisir alla hluti, eins og hann hefur sagt fyrir munn sinna heilögu spámanna frá alda öðli“. (Postulasagan 3:21) Þessi endurreisn felur meðal annars í sér miklar breytingar á jörðinni undir stjórn Krists. Guð boðaði ‚endurreisn allra hluta‘ fyrir milligöngu Jesaja spámanns á 8. öld f.Kr. Hann sagði að „Friðarhöfðingi“, sem er Jesús Kristur, myndi koma aftur á friði hér á jörð. Í spádómi Jesaja sagði um stjórn Krists: „Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka.“ (Jesaja 9:6, 7) Jesús mun kenna jarðarbúum að lifa í friði og þeir munu „gleðjast yfir ríkulegri gæfu [„friði“, Biblían 1859].“ — Sálmur 37:11.
Hvað verður um fátækt og hungur undir stjórn Krists? Jesaja sagði: „Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, mergjuðum krásum og skírðu dreggjavíni.“ (Jesaja 25:6) Sálmaskáldið söng: „Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum.“ (Sálmur 72:16) Um íbúa jarðarinnar segir enn fremur: „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta, því að aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna, og mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna.“ — Jesaja 65:21, 22.
Jesaja spáði líka að sjúkdómar og dauði myndu hverfa. Guð sagði fyrir milligöngu Jesaja: „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi.“ (Jesaja 35:5, 6) „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24) Jehóva „mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi Drottinn mun þerra tárin af hverri ásjónu“. — Jesaja 25:8.
Hvað um alla sem hvíla í gröfinni? (Jóhannes 5:28, 29) Jesaja sagði: „Menn þínir, sem dánir eru, skulu lifna, lík þeirra rísa upp.“ (Jesaja 26:19) Já, þeir sem sofa dauðasvefninum verða reistir aftur til lífs.
„Hásæti þitt er Guðs hásæti um aldur og ævi“
Þegar Kristur kemur verður jörðin algerlega endurnýjuð. Henni verður breytt í yndislega paradís og mannkynið verður sameinað í tilbeiðslunni á hinum sanna Guði. Getum við verið viss um að Jesú Kristi takist að fjarlægja alla illsku og koma á réttlæti?
Veltu fyrir þér hvaðan Jesús fær vald sitt og mátt. Í Biblíunni er sagt um soninn: „Hásæti þitt er Guðs hásæti um aldur og ævi, sproti ríkis þíns er réttlætis-sproti.“ (Sálmur 45:7) Hásæti Jesú, það er að segja embætti hans eða vald kemur frá Jehóva. Engin vandamál verða of torleyst fyrir Jesú.
Eftir upprisu sína sagði Jesús við lærisveinana: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.“ (Matteus 28:18) „Englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir,“ segir í 1. Pétursbréfi 3:22. Enginn kraftur og ekkert vald verður honum yfirsterkara. Ekkert getur komið í veg fyrir að hann geti veitt mannkyninu varanlega blessun.
Hvaða áhrif hefur koma Krists á fólk?
Páll postuli sagði í bréfi sínu til kristinna manna í Þessaloníku: „Fyrir augsýn Guðs og föður vors erum vér sífellt minnugir starfs yðar í trúnni, erfiðis yðar í kærleikanum og stöðuglyndis yðar í voninni á Drottin vorn Jesú Krist.“ (1. Þessaloníkubréf 1:3) Páll benti á að vonin á Jesú Krist tengdist erfiði og stöðuglyndi. Þessi von er meðal annars fólgin í trú á komu Krists og þær breytingar sem henni fylgja. Slík von getur gefið sannkristnum mönnum þolgæði og hjálpað þeim að halda áfram þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður.
Tökum dæmi. Carlos býr í São Paulo í Brasilíu. Í ágúst 2003 greindist hann með krabbamein. Síðan þá hefur hann farið í átta aðgerðir sem hafa haft sársaukafullar aukaverkanir og dregið úr honum þrótt. Hann hefur engu að síður haldið áfram að veita öðrum uppörvun. Eitt sinn var hann til dæmis að boða fagnaðarerindið nálægt stóru sjúkrahúsi og hitti þá trúsystur sína. Eiginmaður hennar var í lyfjameðferð þar við krabbameini. Carlos hafði sjálfur upplifað afleiðingar krabbameins og gat því uppörvað hjónin og huggað þau. Þau sögðu seinna að samtal þeirra hefði verið þeim til mikillar hvatningar. Carlos uppskar það sem Páll sagði: „[Guð] huggar oss í sérhverri þrenging vorri, svo að vér getum huggað alla aðra í þrengingum þeirra með þeirri huggun, sem vér höfum sjálfir af Guði hlotið.“ — 2. Korintubréf 1:4.
Hvað hjálpar Carlosi að halda áfram að uppörva aðra þrátt fyrir veikindi sín? Vonin um komu Krists og allt sem hún hefur í för með sér er honum stöðug hvatning til að „gjöra það sem gott er“. — Galatabréfið 6:9.
Tökum annað dæmi. Samuel varð fyrir því að bróðir hans var myrtur 50 metrum frá húsi föður þeirra. Hann var skotinn tíu skotum. Líkið lá á gangstéttinni í átta tíma á meðan lögreglan rannsakaði glæpinn. Samuel mun aldrei gleyma þessum degi. En vonin um að Kristur fjarlægi alla illsku af jörðinni styrkir hann og hann hugsar líka til þess þegar réttlát stjórn Krists veitir mannkyninu blessun. Samuel sér oft fyrir sér þá gleðistund þegar hann faðmar upprisinn bróður sinn í paradís á jörð. — Postulasagan 24:15.
Hvað þarft þú að gera?
Þú getur sótt mikla huggun í vonina um komu Krists og það sem hún kemur til leiðar. Jesús Kristur mun uppræta öll vandamál manna og illskuna sem hrjáir okkur.
Hvað þarft þú að gera til að njóta þeirrar blessunar sem stjórn Krists mun veita mannkyninu? Gefðu þér tíma til að fræðast um orð Guðs, Biblíuna. Jesús sagði í bæn til föður síns: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3) Settu þér það markmið að rannsaka hvað Biblían kennir. Vottar Jehóva eru fúsir til að hjálpa þér við það. Þér er velkomið að hafa samband við þá eða skrifa útgefendum þessa blaðs.
[Mynir á blaðsíðu 7]
Koma Krists mun hafa í för með sér algera endurnýjun jarðar.
[Credit line]
Innfelld mynd, bakgrunnur: Rhino and Lion Park, Gauteng, South Africa.