Slíkur fjöldi votta!
„Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, . . . þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.“ — HEBREABRÉFIÐ 12:1.
1, 2. (a) Hvað kann Páll að hafa haft í huga þegar hann skrifaði kristnum Hebreum? (b) Hvers vegna þurftu hebreskir trúbræður hans sterka trú?
HUGSAÐU þér þig sem hlaupara á leikvangi. Þú pínir þig áfram, hver vöðvi er þaninn og augu þín einblína á markið. En hvað um áhorfendurna? Þeir hafa líka allir tekið þátt í hlaupinu og sigrað! Þeir hafa ekki verið aðeins áhorfendur heldur virkir vottar bæði í orði og verki.
2 Páll kann að hafa haft slíka mynd í huga þegar hann skrifaði kristnum Hebreum (um árið 61). Þeir þurftu að vera staðfastir í trúnni. (Hebreabréfið 10:32-39) Einungis vegna trúar gátu þeir hlýtt aðvörun Jesú um að flýja þegar þeir sæju Jerúsalem umkringda herfylkingum (árið 66), fáeinum árum áður en Rómverjar lögðu borgina í rúst (árið 70). Trú myndi líka halda þeim uppi þegar þeir væru ‚ofsóttir fyrir réttlætis sakir.‘ — Matteus 5:10; Lúkas 21:20-24.
3. Hver er hin „viðloðandi synd“ nefnd í Hebreabréfinu 12:1, og hvaða skeið eru kristnir menn hvattir til að hlaupa þolgóðir?
3 Eftir að hafa rifjað upp trúarverk þjóna Guðs fyrir daga kristninnar (í Hebreabréfinu 11. kafla) hvatti Páll: „Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði [sem myndi íþyngja okkur andlega] og viðloðandi synd [skorti á trú] og þreytum þolgóðir skeið það [til eilífs lífs], sem vér eigum framundan.“ (Hebreabréfið 12:1) Yfirlit Páls yfir trúna í verki vekur athygli á ýmsum hliðum hennar og getur hjálpað okkur, hvort sem við erum smurðir kristnir menn sem keppa að ódauðleika á himnum eða tilheyrum þeim ‚mikla múgi‘ sem keppir að því marki að hljóta eilíft líf á jörð sem verður paradís. (Opinberunarbókin 7:4-10; Lúkas 23:43; Rómverjabréfið 8:16, 17) En hvað er trú? Í hvaða myndum birtist þessi andlegi gimsteinn? Hvernig breytum við ef við höfum trú? Þegar þú nemur greinina í einrúmi skaltu lesa þau vers í 11. og 12. kafla Hebreabréfsins, sem vísað er til, og leita svara við þessum spurningum. Hið sama skal gera þegar hún er numin í söfnuðinum.
Hvað er trú?
4. Hvað er trú?
4 Fyrst skilgreinir Páll hvað trú sé. (Lestu Hebreabréfið 11:1-3.) Trú er meðal annars „fullvissa um það, sem menn vona.“ Sá sem hefur trú hefur tryggingu fyrir því að allt sem Guð lofar sé svo gott sem uppfyllt. Trú er líka „sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.“ Hin sannfærandi sönnun um óséðan veruleika er svo sterk að trú er sögð jafngilda slíkum sönnunargögnum.
5. Hvað sjáum við vegna trúar?
5 Vegna trúar „fengu mennirnir fyrr á tíðum góðan vitnisburð“ um að þeir þóknuðust Guði. „Fyrir trú skiljum vér, að heimarnir,“ — jörðin, sólin, tunglið og stjörnurnar — „eru gjörðir með orði Guðs og að hið sýnilega hefur ekki orðið til af því, er séð varð.“ Við erum sannfærð um að Jehóva sé skapari alls slíks, þótt við getum ekki séð hann af því hann er ósýnilegur andi. — 1. Mósebók 1:1; Jóhannes 4:24; Rómverjabréfið 1:20.
Trú og ‚hinn forni heimur‘
6. Hvers vegna hafði Abel ‚fullvissu‘ um að spádómsorð Jehóva varðandi ‚sæði konunnar‘ myndi rætast?
6 Ein af hinum mörgu hliðum trúar er sú að gera sér ljóst að fórnar sé þörf fyrir syndir. (Lestu Hebreabréfið 11:4.) Í „hinum forna heimi“ sýndi Abel, annar sonur fyrstu hjónanna, Adams og Evu, trú á fórnarblóð. (2. Pétursbréf 2:5) Vafalaust gerði Abel sér grein fyrir að hann bæri í líkama sínum banvæn áhrif erfðasyndarinnar. (1. Mósebók 2:16, 17; 3:6, 7; Rómverjabréfið 5:12) Bersýnilega hafði hann líka séð uppfyllast ákvörðun Guðs sem leiddi strit og streð yfir Adam og töluverða þjáningu samfara meðgöngu hjá Evu. (1. Mósebók 3:16-19) Abel hafði því ‚fullvissu‘ um að annað það, sem Jehóva hafði talað, myndi rætast. Þar á meðal voru spádómsorðin sem Guð beindi til blekkingameistarans Satans: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ — 1. Mósebók 3:15.
7. (a) Hvernig lét Abel í ljós að hann skildi þörfina á syndafórn? (b) Hvernig ‚bar Guð vitni um fórn Abels‘?
7 Abel lét í ljós trú á hið fyrirheitna sæði með því að færa Guði dýrafórn sem gat í táknrænum skilningi komið í stað lífs Abels sjálfs. En trúlaus eldri bróðir hans, Kain, færði að fórn jurtir og grænmeti sem ekkert blóð hafa. Síðan úthellti Kain blóði Abels með því að myrða hann. (1. Mósebók 4:1-8) En Abel dó í þeirri vissu að Jehóva áliti hann réttlátan, því að „Guð bar vitni um fórn hans.“ Hvernig? Með því að þiggja þá fórn sem Abel bar fram í trú. Vegna trúar sinnar og velþóknunar Guðs, sem innblásin Ritning ber enn vitni, ‚talar Abel enn þótt dauður sé.‘ Hann skynjaði nauðsyn þess að færð væri fórn fyrir syndir. Hefur þú trú á hina langtum þýðingarmeiri lausnarfórn Jesú Krists? — 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2; 3:23.
8. (a) Hvað lærum við um trú af hugrökkum vitnisburði Enoks? (b) Hvernig var Enok „burt numinn, að eigi skyldi hann dauðann líta“?
8 Trú kemur okkur til að flytja boðskap Guðs með djörfung. (Lestu Hebreabréfið 11:5, 6.) Votturinn Enok sagði hugrakkur fyrir að Guð myndi fullnægja dómi sínum á hinum guðlausu. (Júdasarbréfið 14, 15) Vafalaust reyndu óvinir Enoks að drepa hann en Guð „nam hann burt“ til að hann þyrfti ekki að þola þjáningar dauðans. (1. Mósebók 5:24) En fyrst „hafði hann fengið þann vitnisburð, ‚að hann hefði verið Guði þóknanlegur.‘“ Hvernig þá? „Fyrir trú var Enok burt numinn, að eigi skyldi hann dauðann líta.“ Á sama hátt var Páll fluttur eða „hrifinn upp í Paradís,“ fékk að sjá í sýn hina andlegu framtíðarparadís kristna safnaðarins. (2. Korintubréf 12:1-4) Því virðist sem Enok hafi fengið að sjá í sýn hina komandi jarðnesku paradís þegar Jehóva lét hann sofna dauðasvefni, óhultan fyrir fjandmönnum sínum. Til að þóknast Guði verðum við, eins og Enok, að mæla fram boðskap Guðs með djörfung. (Postulasagan 4:29-31) Við verðum líka að trúa að Guð sé til og „umbuni þeim, er hans leita.“
9. Hvernig sýndi Nói að það sé þáttur í sannri trú að fylgja fyrirmælum Guðs gaumgæfilega?
9 Að fylgja gaumgæfilega fyrirmælum Guðs er annar þáttur trúar okkar. (Lestu Hebreabréfið 11:7.) Í trú gerði Nói ‚allt eins og Guð bauð honum.‘ (1. Mósebók 6:22; 7:16) Nói fékk „bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá“ og trúði orðum Jehóva um að koma myndi alheimsflóð. Í trú og lotningarfullum guðsótta ‚smíðaði Nói örk til björgunar heimilisfólki sínu.‘ Með hlýðni sinni og réttlátum verkum fordæmdi hann hinn vantrúaða heim fyrir óguðleg verk sín og sýndi fram á að hann verðskuldaði tortímingu. — 1. Mósebók 6:13-22.
10. Fyrir hvaða annað starf tók Nói sér tíma þótt hann væri að smíða örkina?
10 Nói var líka einn af vottum Jehóva í þeim skilningi að hann var ‚prédikari réttlætisins.‘ (2. Pétursbréf 2:5) Þótt hann væri önnum kafinn við að smíða örkina tók hann sér tíma til að prédika eins og vottar Jehóva gera núna. Nói var djarfmæltur þegar hann boðaði fólkinu fyrir flóðið aðvörun Guðs, en það ‚vissi ekki fyrr en flóðið kom og hreif það allt burt.‘ — Matteus 24:36-39.
Trú meðal ættfeðranna eftir flóðið
11. (a) Hvernig sýndi Abraham að trú felur í sér algert trúartraust á fyrirheit Jehóva? (b) Hvaða „borgar“ beið Abraham í trú?
11 Trú felur í sér algjört trúartraust á fyrirheit Jehóva. (Lestu Hebreabréfið 11:8-12.) Vegna trúar hlýddi Abraham (Abram) boði Guðs og fór frá Úr í Kaldeu, borg sem hafði margt að bjóða í efnislegu tilliti. Hann trúði fyrirheiti Jehóva þess efnis að ‚allar ættkvíslir jarðarinnar myndu blessun hljóta‘ vegna hans, og að afkvæmi hans yrði gefið land. (1. Mósebók 12:1-9; 15:18-21) Ísak, sonur Abrahams, og Jakob, sonarsonur hans, „voru samerfingjar með honum að hinu sama fyrirheiti.“ Vegna trúar „settist hann að í hinu fyrirheitna landi eins og útlendingur.“ Hann vænti „þeirrar borgar, sem hefur traustan grunn, þeirrar, sem Guð er smiður að og byggingarmeistari.“ Já, Abraham beið hins himneska ríkis Guðs þegar hann myndi fá upprisu til lífs á jörðinni. Skipar Guðsríki svona veigamikinn sess í þínu lífi? — Matteus 6:33.
12. Hvað gerðist vegna þess að Sara trúði á fyrirheit Jehóva?
12 Eiginkonur hinna guðhræddu ættfeðra trúðu líka fyrirheitum Jehóva. Til dæmis var eiginkonu Abrahams, Söru, vegna trúar gert fært að „eignast son“ vegna þess að hún „treysti þeim, sem fyrirheitið hafði gefið,“ Jehóva Guði, þótt hún væri ‚komin yfir aldur.‘ Þegar fram liðu stundir ól Sara Ísak. Því kom af hinum tíræða Abraham, „mjög ellihrumum, slík niðja mergð sem stjörnur eru á himni.“ — 1. Mósebók 17:15-17; 18:11; 21:1-7.
13, 14. (a) Hvað gerðu Abraham, Ísak og Jakob þótt þeir ‚öðluðust ekki fyrirheitin‘? (b) Hvaða gagn getum við haft af því að íhuga hollustu ættfeðranna við Jehóva, ef við sjáum ekki skjóta uppfyllingu fyrirheita hans?
13 Trú hjálpar okkur að vera drottinholl Jehóva jafnvel þótt við sjáum ekki fram á tafarlausa uppfyllingu fyrirheita hans. (Lestu Hebreabréfið 11:13-16.) Hinir trúföstu ættfeður dóu allir án þess að sjá rætast fyllilega loforð Guðs við þá. En „þeir sáu þau [loforð Guðs] álengdar og fögnuðu þeim og játuðu, að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.“ Já, þeir sýndu trú alla ævi því að margar kynslóðir liðu þar til fyrirheitna landið kom í hlut afkomenda Abrahams.
14 Þótt Abraham, Ísak og Jakob fengju ekki að sjá fyrirheit Guðs rætast meðan þeir lifðu urðu þeir hvorki bitrir né fráhverfir trúnni. Þeir sneru ekki baki við Jehóva, fóru heim til Úr og helltu sér út í veraldarvafstur. (Samanber Jóhannes 17:16; 2. Tímóteusarbréf 4:10; Jakobsbréfið 1:27; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.) Nei, þessir ættfeður „þráðu“ miklu betri stað en Úr, ‚það er að segja himneska ættjörð.‘ Þess vegna ‚blygðast Jehóva sín ekki fyrir að kallast Guð þeirra.‘ Þeir héldu trú sinni á hinn hæsta Guð allt til dauða og munu brátt rísa upp til lífs á jörðinni, hluta af yfirráðasvæði ‚borgarinnar,‘ Messíasarríkis Guðs sem þeim var fyrirbúið. En hvað um þig? Jafnvel þótt þú hafir ‚lifað í sannleikanum‘ um langt árabil og elst í þjónustu Jehóva verður þú að halda trúartrausti þínu á hina fyrirheitnu nýju skipan. (3. Jóhannesarbréf 4; 2. Pétursbréf 3:11-13) Þér og hinum trúföstu ættfeðrum verður ríkulega umbunuð slík trú!
15. (a) Hvað gerði Abraham fært að svo gott sem fórna Ísak? (b) Hvaða áhrif ættu atburðir tengdir Abraham og Ísak að hafa á trú okkar? (c) Hvaða spádómleg fyrirmynd var þessi atburður?
15 Skilyrðislaus hlýðni við Guð er þýðingarmikill þáttur trúar. (Lestu Hebreabréfið 11:17-19.) Með því að Abraham hlýddi Jehóva möglunarlaust svo gott sem fórnaði hann Ísak, „einkasyni sínum“ — þeim eina sem hann átti með Söru. Hvernig gat Abraham gert það? Vegna þess að „hann hugði, að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja [Ísak] upp frá dauðum“ ef þyrfti til að uppfylla loforðið um afkvæmi í gegnum hann. Í sömu andránni og Abraham reiddi upp hnífinn til að deyða Ísak gall við raust engils sem stöðvaði hann. Þess vegna „má svo að orði kveða“ að Abraham hafi heimt Ísak aftur úr dauðanum. Við ættum líka að hlýða Guði í trú jafnvel þótt líf okkar eða barna okkar sé í húfi. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Eftirtektarvert er einnig að Abraham og Ísak voru spádómleg fyrirmynd þess hvernig Jehóva myndi gefa eingetinn son sinn, Jesú Krist, sem lausnargjald, til að þeir sem iðkuðu trú á hann gætu hlotið eilíft líf. — 1. Mósebók 22:1-19; Jóhannes 3:16.
16. Hvaða fordæmi gáfu ættfeðurnir sem tengja má börnum okkar og trú á fyrirheit Guðs?
16 Ef við höfum trú, þá hjálpum við börnum okkar að setja von sína á það sem Guð lofar um framtíðina. (Lestu Hebreabréfið 11:20-22.) Svo sterk var trú ættfeðranna að enda þótt fyrirheit Jehóva við þá væru ekki búin að rætast fullkomlega meðan þeir lifðu létu þeir þau ganga til barna sinna sem dýrmæta arfleifð. Þannig „blessaði Ísak þá Jakob og Esaú einnig um ókomna tíma,“ og á dánarbeðinu blessaði Jakob þá Efraím og Manasse, syni Jósefs. Með því að Jósef trúði að Ísraelsmenn myndu yfirgefa Egyptaland og snúa heim til fyrirheitna landsins, lét hann bræður sína sverja að taka bein sín með þegar þeir færu. (1. Mósebók 27:27-29, 38-40; 48:8-22; 50:24-26) Hjálpar þú fjölskyldu þinni að þroska með sér sambærilega trú á það sem Jehóva hefur heitið?
Trú fær okkur til að láta Guð ganga fyrir
17. Hvernig sýndu foreldrar Móse trú?
17 Trú lætur okkur taka Jehóva og þjóna hans fram yfir allt annað sem þessi heimur hefur upp á að bjóða. (Lestu Hebreabréfið 11:23-26.) Ísraelsmenn voru þrælar sem þörfnuðust frelsunar úr fjötrum Egypta þegar foreldrar Móse létu trú ráða gerðum sínum. „Þau létu eigi skelfast af skipun konungsins“ um að drepa hebresk sveinbörn við fæðingu. Þess í stað leyndu þau Móse í þrjá mánuði og settu hann síðan í papýrusörk sem þau komu fyrir í sefinu við bakkar Nílar. Dóttir Faraós fann hann og „fóstraði sem sinn son.“ Móðir Móse hafði hann á brjósti og foreldrar hans, Amram og Jókabed, veittu honum andlegt uppeldi. Síðan var hann, sem einn úr fjölskyldu Faraós, „fræddur í allri speki Egypta“ og varð „máttugur í orðum sínum og verkum,“ máttugur bæði til huga og handar. — Postulasagan 7:20-22; 2. Mósebók 2:1-10; 6:20.
18. Hvaða afstöðu tók Móse til tilbeiðslunnar á Jehóva, vegna trúar sinnar?
18 En fræðslan meðal Egypta og hinar efnislegu allsnægtir í húsi konungs komu Móse ekki til að snúa baki við Jehóva og hverfa frá trúnni. Nei, „fyrir trú hafnaði Móse því, er hann var orðinn fulltíða maður, að vera talinn dóttursonur Faraós.“ Það lét hann í ljós þegar hann varði hebreskan bróður sinn. (2. Mósebók 2:11, 12) Móse „kaus fremur illt að þola með lýð Guðs [Ísraelsmönnum sem tilbáðu Jehóva] en njóta skammvinns unaðar af syndinni.“ Ef þú ert skírður þjónn Jehóva og átt þér traustan grunn í góðu, andlegu uppeldi, munt þú þá fylgja fordæmi Móse og vera staðfastur í sannri guðsdýrkun?
19. (a) Hvernig er ljóst að Móse tók Jehóva og þjóð hans fram yfir annað í lífi sínu? (b) Hvaða umbunar horfði Móse fram til?
19 Móse deildi örlögum með þjónum Jehóva því að „hann taldi vanvirðu Krists meiri auð en fjársjóðu Egyptalands.“ Að öllum líkindum ‚taldi Móse þá vanvirðu að vera forn fyrirmynd um Krist, hinn smurða þjón Guðs, meiri auðæfi en fjársjóðu Egyptalands.‘ Sem einn af konungsfjölskyldunni hefði hann getað notið auðs og mannvirðinga í Egyptalandi, en hann iðkaði trú og „horfði fram til launanna“ — vegna jarðneskrar upprisu í fyrirheitinni, nýrri skipan Guðs.
20. Hvað er það varðandi lífsreynslu Móse sem sýnir að trú gefur þjónum Jehóva hugrekki?
20 Trú veitir okkur hugrekki því að við treystum á Jehóva sem frelsara. (Lestu Hebreabréfið 11:27-29.) Eftir að Faraó frétti að Móse hefði drepið Egypta sóttist hann eftir lífi hans. „En Móse flýði undan Faraó og tók sér bústað í Midíanslandi.“ (2. Mósebók 2:11-15) Páll virðist því hafa hér í huga burtför Hebrea af Egyptalandi síðar þegar hann segir: „Fyrir trú yfirgaf hann [Móse] Egyptaland og óttaðist ekki reiði konungsins [sem ógnaði honum með dauða fyrir að vera fulltrúi Guðs af hálfu Ísraels], en var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.“ (2. Mósebók 10:28, 29) Enda þótt Móse sæi aldrei Guð í reynd voru viðskipti Jehóva við hann svo raunveruleg að hann hagaði sér eins og hann sæi „hinn ósýnilega.“ (2. Mósebók 33:20) Er samband þitt við Jehóva svona sterkt? — Sálmur 37:5; Orðskviðirnir 16:3.
21. Hvað gerðist varðandi burtför Ísraels af Egyptalandi?
21 Rétt áður en Ísraelsmenn yfirgáfu Egyptaland hafði Móse ‚fyrir trú haldið páska og látið rjóða blóðinu á húsin, til þess að eyðandi frumburðanna skyldi ekki snerta þá [frumburði Ísraelsmanna].‘ Já, það kostaði trú að halda páska í þeirri sannfæringu að frumgetnum sonum Ísraels yrði þyrmt meðan frumgetningar Egypta dæju, og þessi trú fékk sína umbun. (2. Mósebók 12:1-39) Það var líka ‚fyrir trú að Ísraelsmenn gengu gegnum Rauðahafið sem um þurrt land, og er Egyptar freistuðu þess, drukknuðu þeir.‘ Guð reyndist stórkostlegur frelsari! Og vegna þessarar frelsunar „óttaðist fólkið [Jehóva], og þeir trúðu á [Jehóva] og þjón hans Móse.“ — 2. Mósebók 14:21-31.
22. Hvaða spurningar í sambandi við trú bíða íhugunar?
22 Trú Móse og ættfeðranna er sannarlega fyrirmynd fyrir votta Jehóva nútímans. En hvað gerðist samfara frekari samskiptum Guðs við afkomendur Abrahams sem þjóð skipulagða á guðræðislega vísu? Hvað getum við lært af öðrum trúarverkum forðum daga?
Hverju svarar þú?
◻ Hvað er trú?
◻ Hvað kennir fordæmi Enoks okkur um trú?
◻ Hvernig sýndu guðhræddir ættfeður að trú felur í sér algert trúartraust á fyrirheit Jehóva?
◻ Hvaða verk Abrahams sýna að skilyrðislaus hlýðni við Guð er mikilvægur þáttur trúar?
◻ Hvaða verk Móse sýna að trú felur í sér að taka Jehóva og þjóna hans fram yfir allt sem heimurinn býður upp á?