Styrkjum trúna á það sem við vonum
„Trúin er fullvissa um það sem menn vona.“ – HEBR. 11:1.
1, 2. (a) Hver er munurinn á von sannkristinna manna og von fólks í heimi Satans? (b) Hvaða mikilvægu spurningar skoðum við í þessari grein?
SANNKRISTNIR menn eiga dásamlega von. Hvort sem við erum í hópi andasmurðra eða ,annarra sauða‘ vonumst við öll til að geta séð upprunalega fyrirætlun Jehóva ná fram að ganga og nafn hans helgast. (Jóh. 10:16; Matt. 6:9, 10) Þetta er það mikilvægasta sem nokkur maður getur vonast eftir. Við þráum líka að fá að lifa að eilífu eins og Jehóva hefur lofað okkur, hvort sem von okkar er að eiga hlut í ,nýjum himni‘ hans eða ,nýrri jörð‘. (2. Pét. 3:13) Þangað til vonum við að þjónar Guðs haldi áfram að dafna í trúnni.
2 Þeir sem tilheyra heimi Satans eiga sér líka einhvers konar von en þeir efast kannski um að hún verði nokkurn tíma að veruleika. Margir vonast til dæmis eftir að vinna í happdrætti en þeir geta varla verið öruggir um það. Sönn trú er aftur á móti „fullvissa“ um von kristinna manna. (Hebr. 11:1) En hvernig getum við styrkt von okkar? Og hvaða gagn höfum við af því að hafa sterka trú á það sem við vonum?
3. Á hvaða staðreynd byggist sannkristin trú?
3 Trú er ekki meðfæddur eiginleiki ófullkominna manna og hún kemur ekki sjálfkrafa. Kristin trú hlýst af því að heilagur andi Guðs verkar á hjörtu auðmjúkra manna. (Gal. 5:22) Í Biblíunni segir ekki að Jehóva hafi trú eða þurfi á henni að halda. Hann er almáttugur og alvitur og því getur ekkert aftrað honum frá því að koma vilja sínum til leiðar. Faðir okkar á himnum er svo viss um að loforð hans verði að veruleika að í hans augum hafa þau þegar ræst. Þess vegna segir hann: „Það er fram komið.“ (Lestu Opinberunarbókina 21:3-6.) Kristin trú byggist á þeirri staðreynd að Jehóva er „hinn trúfasti Guð“ sem stendur alltaf við loforð sín. – 5. Mós. 7:9.
LÆRUM AF TRÚ ÞJÓNA GUÐS TIL FORNA
4. Hvaða von höfðu trúfastir karlar og konur fyrir tíma kristninnar?
4 Í 11. kafla Hebreabréfsins er minnst á 16 karla og konur sem sýndu sterka trú. Biblíuritaranum var innblásið að skrifa um þau og marga aðra sem fengu „góðan vitnisburð fyrir trú sína“. (Hebr. 11:39) Þau voru öll fullviss um að Jehóva myndi vekja upp hinn fyrirheitna „niðja“ sem myndi gera uppreisn Satans að engu og láta upprunalega fyrirætlun Jehóva ná fram að ganga. (1. Mós. 3:15) Þetta trúfasta fólk dó áður en Jesús Kristur, hinn fyrirheitni ,niðji‘, opnaði fólki leið til að geta farið til himna. (Gal. 3:16) En það verður samt sem áður reist upp til að hljóta fullkomið líf í paradís á jörð þökk sé fyrirheitum Jehóva sem aldrei bregðast. – Sálm. 37:11; Jes. 26:19; Hós. 13:14.
5, 6. Hvaða von höfðu Abraham og fjölskylda hans og hvernig viðhéldu þau sterkri trú? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
5 Í Hebreabréfinu 11:13 segir um suma sem voru uppi fyrir tíma kristninnar: „Allir þessir menn dóu í trú án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim.“ Abraham var einn þeirra. Hafði hann skýrt í huga hina ánægjulegu von að lifa undir stjórn fyrirheitna ,niðjans‘? Jesús gaf ótvírætt svar við þeirri spurningu þegar hann sagði við andstæðinga sína: „Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn og hann sá hann og gladdist.“ (Jóh. 8:56) Hið sama á við um Söru, Ísak, Jakob og marga aðra sem horfðu fram til hins komandi ríkis, ríkisins „sem Guð hannaði og reisti“. – Hebr. 11:8-11.
6 Hvernig viðhéldu Abraham og fjölskylda hans sterkri trú? Sennilega kynntust þau Guði með því að hlusta á eldri þjóna hans, af því sem hann opinberaði þeim eða með því að lesa í áreiðanlegum fornum ritum. Síðast en ekki síst gleymdu þau ekki því sem þau höfðu lært heldur höfðu miklar mætur á loforðum Guðs og fyrirmælum, og hugleiddu þau. Þar sem von þessara karla og kvenna var svo örugg voru þau reiðubúin að þola hvaða raunir sem er til að vera Guði trú.
7. Hvað hefur Jehóva gefið okkur til að við getum styrkt trúna og hvað verðum við að gera?
7 Í kærleika sínum hefur Jehóva látið okkur í té Biblíuna, orð sitt í heild, svo að við getum viðhaldið sterkri trú. Til að vera hamingjusöm og vegna vel verðum við að lesa reglulega í orði Guðs, daglega ef hægt er. (Sálm. 1:1-3; lestu Postulasöguna 17:11.) Síðan verðum við, rétt eins og tilbiðjendur Jehóva til forna, að hugleiða loforð hans og hlýða fyrirmælum hans. Jehóva hefur líka blessað okkur með því að gefa okkur andlega fæðu í ríkum mæli fyrir milligöngu ,trúa og hyggna þjónsins‘. (Matt. 24:45) Með því að vera þakklát fyrir það sem við lærum af öllu því sem Jehóva veitir okkur verðum við eins og þjónar hans til forna sem voru fullvissir um að vonin um ríki Guðs myndi rætast.
8. Hvernig getur bænin styrkt trú okkar?
8 Bænin átti líka stóran þátt í að vottar Jehóva fyrir tíma kristninnar viðhéldu sterkri trú. Trú þeirra styrktist þegar þeir fundu að Guð svaraði bænum þeirra. (Neh. 1:4, 11; Sálm. 34:5, 16, 18; Dan. 9:19-21) Við getum líka úthellt áhyggjum okkar fyrir Jehóva, vitandi að hann hlustar á bænir okkar og styrkir okkur þannig að við getum haldið út með gleði. Þegar við fáum svör við bænum okkar styrkist trú okkar. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:14, 15.) Þar sem trú er hluti af ávexti andans þurfum við að vera dugleg að biðja um anda Guðs eins og Jesús hvatti okkur til. – Lúk. 11:9, 13.
9. Hverjum ættum við að biðja fyrir öðrum en sjálfum okkur?
9 Þegar við biðjum til Jehóva ættum við ekki aðeins að biðja hann um hjálp fyrir sjálf okkur. Við getum þakkað honum og lofað hann á hverjum degi fyrir ,máttarverk hans‘ sem eru „fleiri en tölu verði á komið“. (Sálm. 40:6) Í bænum okkar ættum við líka að minnast þeirra sem eru í fangelsi, rétt eins og ,við værum sambandingjar þeirra‘. Við ættum líka að biðja fyrir trúsystkinum okkar um allan heim, ekki síst þeim sem fara með forystuna. Það snertir hjörtu okkar að sjá hvernig Jehóva svarar bænum okkar. – Hebr. 13:3, 7.
ÞAU NEITUÐU AÐ VÍKJA FRÁ SANNFÆRINGU SINNI
10. Hvaða dæmi höfum við um þjóna Guðs sem neituðu að víkja frá sannfæringu sinni og hvað veitti þeim kraft til þess?
10 Í 11. kafla Hebreabréfsins lýsir Páll postuli raunum margra þjóna Guðs án þess að nafngreina þá. Hann minnist til dæmis á trúaðar konur sem misstu syni sína en endurheimtu þá þegar þeir voru reistir upp. Síðan minnist hann á aðra sem „þágu ekki lausn“ þar sem þeir vildu „öðlast betri upprisu“. (Hebr. 11:35) Við vitum ekki fyrir víst hverja Páll hafði í huga en sumir, þar á meðal Nabót og Sakaría, voru grýttir til dauða fyrir að hlýða Guði og gera vilja hans. (1. Kon. 21:3, 15; 2. Kron. 24:20, 21) Daníel og félögum hans stóð greinilega til boða að ,þiggja lausn‘ með því að víkja frá ráðvendni sinni. En trú þeirra á mátt Guðs gerði þeim kleift að ,byrgja gin ljóna‘ og ,slökkva eldsbál‘ ef svo má að orði komast. – Hebr. 11:33, 34; Dan. 3:16-18, 20, 28; 6:14, 17, 22-24.
11. Hvaða raunir þurftu sumir spámannanna að þola vegna trúar sinnar?
11 Spámenn eins og Míka og Jeremía „urðu að sæta háðsyrðum ... og fangelsi“ vegna trúar sinnar. Elía og fleiri „reikuðu um óbyggðir og fjöll og héldust við í hellum og gjótum“. Allir héldu þeir út vegna þess að þeir voru ,fullvissir um það sem þeir vonuðu‘. – Hebr. 11:1, 36-38; 1. Kon. 18:13; 22:24-27; Jer. 20:1, 2; 28:10, 11; 32:2.
12. Hver er besta fyrirmyndin um þolgæði í prófraunum og hvað hjálpaði honum að halda út?
12 Eftir að Páll hafði rætt um ýmsa karla og konur sem höfðu sterka trú beindi hann athyglinni að bestu fyrirmyndinni – Drottni okkar Jesú Kristi. „Hann leið með þolinmæði á krossi og mat smán einskis,“ segir í Hebreabréfinu 12:2, „af því að hann vissi hvaða gleði beið hans og hefur nú sest til hægri handar hástóli Guðs.“ Við ættum að leggja okkur fram um að ,virða fyrir okkur‘ trú Jesú en hann mátti þola erfiðustu prófraunir sem hugsast getur. (Lestu Hebreabréfið 12:3.) Lærisveinninn Antípas og aðrir píslarvottar á tímum frumkristninnar fóru að dæmi Jesú og neituðu að víkja frá ráðvendni sinni. (Opinb. 2:13) Þeir áttu von um að verða reistir upp til lífs á himnum – von sem var fremri hinni „betri upprisu“ sem þjónar Guðs til forna væntu. (Hebr. 11:35) Einhvern tíma eftir að ríki Guðs var stofnsett árið 1914 voru allir trúfastir andasmurðir þjónar Guðs, sem sváfu dauðasvefni, reistir upp til lífs á himnum til að ríkja með Jesú yfir mannkyninu. – Opinb. 20:4.
ÞJÓNAR GUÐS Á OKKAR DÖGUM SEM SÝNA STERKA TRÚ
13, 14. Hvaða raunir gekk Rudolf Graichen í gegnum og hvað hjálpaði honum að halda út?
13 Milljónir tilbiðjenda Guðs nú á dögum líkja eftir Jesú með því að hafa vonina skýrt í huga og leyfa ekki prófraunum að brjóta niður trú sína. Rudolf Graichen er einn þeirra en hann fæddist í Þýskalandi árið 1925. Hann minntist þess að heima hjá honum héngu myndir af ýmsu sem Biblían segir frá. Hann skrifaði: „Ein myndin var af úlfinum og lambinu, kiðlingnum og pardusdýrinu og kálfinum og ljóninu. Öll lifðu þau í friði hvert við annað og lítill strákur gætti þeirra ... Svona myndir höfðu varanleg áhrif á mig.“ (Jes. 11:6-9) Rudolf viðhélt sterkri trú á paradís á jörð þrátt fyrir grimmilegar ofsóknir í mörg ár, fyrst af hendi Gestapólögreglu nasista og síðar Stasi, leynilögreglu kommúnista í Austur-Þýskalandi.
14 Rudolf gekk einnig í gegnum margar aðrar raunir. Móðir hans lést úr taugaveiki í fangabúðunum í Ravensbrück og faðir hans veiktist í trúnni og undirritaði skjal þess efnis að hann væri ekki lengur vottur Jehóva. En Rudolf viðhélt sterkri trú. Eftir að hann var látinn laus úr fangelsi var hann útnefndur farandhirðir og var síðar boðið að sækja Gíleaðskólann. Hann var sendur sem trúboði til Síle þar sem hann sinnti farandstarfi á ný. En Rudolf var þar með ekki laus við allar raunir. Ári eftir að hann kvæntist trúboðssystur að nafni Patsy lést kornung dóttir þeirra. Síðar lést einnig konan hans aðeins 43 ára að aldri. Rudolf var ráðvandur í öllum þessum prófraunum og hann var brautryðjandi og öldungur þrátt fyrir veikindi og háan aldur þegar ævisaga hans birtist í Varðturninum á ensku 1. ágúst 1997, bls. 20-25.[1]
15. Nefndu dæmi um votta Jehóva nú á dögum sem halda glaðir út andspænis ofsóknum.
15 Vottar Jehóva halda áfram að gleðjast í voninni þrátt fyrir hatrammar og linnulausar ofsóknir. Hundruð bræðra okkar og systra eru til dæmis í fangelsum í Eritreu, Singapúr og Suður-Kóreu, flest vegna þess að þau hlýða orðum Jesú um að bregða ekki sverði. (Matt. 26:52) Þeirra á meðal eru Isaac, Negede og Paulos sem hafa setið í meira en 20 ár í fangelsi í Eritreu. Þeir hafa hvorki frelsi til að annast aldraða foreldra sína né kvænast og hafa mátt sæta illri meðferð, en þrátt fyrir það hafa þeir haldið ráðvendni sinni. Á vefsetri okkar, jw.org, má sjá mynd af þeim, en jákvæðnin, sem skín úr andlitum þeirra, sýnir að þeir hafa viðhaldið sterkri trú. Fangaverðirnir eru meira að segja farnir að sýna þeim virðingu.
16. Hvernig getur sterk trú verið þér til verndar?
16 Fæstir þjónar Jehóva hafa þurft að þola miklar ofsóknir. Trúarprófraunir þeirra hafa verið af öðrum toga. Margir hafa búið við fátækt eða þjáðst sökum borgarastyrjalda eða náttúruhamfara. Aðrir hafa, eins og Móse og ættfeðurnir, fórnað ýmsum þægindum eða frama í heiminum. Þeir leggja sig alla fram um að láta ekki freistast af efnishyggjunni og láta ekki lífið snúast um eigin hag. Hvað gerir þeim kleift að standast? Kærleikurinn til Jehóva og sterk trú á loforð hans um að útrýma öllu óréttlæti. Þeir vita að hann umbunar trúum þjónum sínum með eilífu lífi í réttlátum nýjum heimi. – Lestu Sálm 37:5, 7, 9, 29.
17. Hvað ætlar þú að gera og um hvað er rætt í næstu grein?
17 Í þessari grein höfum við séð hvernig trúin er „fullvissa um það sem menn vona“. Til að hafa slíka trú þurfum við að vera dugleg að biðja til Jehóva og hugleiða loforð hans. Það gerir okkur kleift að standast hvaða trúarprófraunir sem er. En eins og Biblían lýsir trú felst meira í henni. Um það er rætt í næstu grein.
^ [1] (14. grein.) Sjá einnig greinina „Þrátt fyrir prófraunir hef ég alltaf verið vonglaður“ í Vaknið! júlí-september 2002 en þar er sögð saga Andrejs Hanáks sem bjó þá í Slóvakíu.