Færum fórnir sem þóknast Jehóva
„Fyrir hann [Jesú Krist] skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.“ — HEBREABRÉFIÐ 13:15.
1. Hvað hvatti Jehóva synduga Ísraelsmenn til að gera?
JEHÓVA er hjálpari þeirra sem færa honum velþóknanlegar fórnir. Þess vegna hafði hann einu sinni velþóknun á Ísraelsmönnum sem færðu dýrafórnir. En hvað gerðist eftir að þeir höfðu syndgað æ ofan í æ? Fyrir munn spámannsins Hósea voru þeir hvattir: „Snú þú við, Ísrael, til [Jehóva], Guðs þíns, því að þú steyptist fyrir misgjörð þína. Takið orð með yður og hverfið aftur til [Jehóva]. Segið við hann: ‚Fyrirgef með öllu misgjörð vora og ver góður, og vér skulum greiða þér ávöxt vara vorra.‘“ — Hósea 14:2, 3.
2. Hverjar voru ‚fórnir varanna‘ og hvernig vísaði Páll í spádóm Hósea?
2 Þannig voru þjónar Guðs til forna hvattir til að færa Jehóva Guði ‚fórnir vara sinna.‘ Hvers konar fórnir voru það? Það voru einlægar lofgerðarfórnir! Páll postuli hafði þennan spádóm í huga er hann hvatti kristna Hebrea til að „bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.“ (Hebreabréfið 13:15) Hvað getur hjálpað vottum Jehóva að færa slíkar fórnir nú á dögum?
„Líkið eftir trú þeirra“
3. Hver er kjarni þess sem Páll sagði í Hebreabréfinu 13:7 og hvaða spurningu vekur það?
3 Það að fylgja þeim leiðbeiningum, sem Páll gaf Hebreum, mun hjálpa okkur að færa hinum mikla hjálpara okkar, Jehóva Guði, velþóknanlegar fórnir. Til dæmis skrifaði postulinn: „Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra.“ (Hebreabréfið 13:7) Hverja átti Páll við er hann sagði: „Verið minnugir leiðtoga yðar,“ eða „þeirra sem fara með forystuna meðal ykkar“? — NW.
4. (a) Hvaða hlutverki gegna ‚leiðtogarnir‘? (b) Hverjir fara með forystuna meðal votta Jehóva?
4 Páll talaði um þá sem ‚fóru með forystuna‘ eða voru ‚leiðtogar.‘ (Vers 7, 17, 24) Íslenska orðið „leiðtogi“ merkir forystumaður, fyrirliði eða, í fornu máli, leiðsögumaður. Kristnir öldungar beita hæfni sinni til að „stjórna,“ forystuhæfni sinni, til að leiðbeina söfnuðum sínum og vísa þeim veginn. (1. Korintubréf 12:28) En postularnir og aðrir öldungar í Jerúsalem mynduðu ráð sem leiðbeindi öllum söfnuðunum og áminnti þá. (Postulasagan 15:1, 2, 27-29) Nú á dögum starfar því stjórnandi ráð öldunga sem veitir vottum Jehóva um víða veröld andlega yfirumsjón.
5. Hvers vegna og hvernig ættum við að biðja fyrir safnaðaröldungum og meðlimum hins stjórnandi ráðs?
5 Öldungar hvers safnaðar og meðlimir hins stjórnandi ráðs taka forystuna á meðal okkar. Okkur ber því að virða þá og biðja þess að Guð veiti þeim þá visku sem þeir þurfa til að stýra söfnuðinum. (Samanber Efesusbréfið 1:15-17.) Það á vel við ef við munum eftir öllum ‚sem Guðs orð hafa til okkar talað‘! Tímóteus naut kennslu ekki aðeins móður sinnar og ömmu heldur einnig síðar Páls og annarra. (2. Tímóteusarbréf 1:5, 6; 3:14) Tímóteus gat því hugleitt hvert breytni þeirra sem tóku forystuna leiddi þá og gat líkt eftir trú þeirra.
6. Eftir trú hverra ættum við að líkja en hverjum fylgjum við?
6 Einstaklingar svo sem Abel, Nói, Abraham, Sara, Rahab og Móse iðkuðu trú. (Hebreabréfið 11:1-40) Við getum því hiklaust líkt eftir trú þeirra vegna þess að þau dóu drottinholl Guði. En við getum líka ‚líkt eftir trú‘ drottinhollra karlmanna sem fara núna með forystuna á meðal okkar. Að sjálfsögðu erum við ekki fylgjendur ófullkominna manna því að við beinum sjónum okkar að Kristi. Eins og biblíuþýðandinn Edgar J. Goodspeed sagði: „Hetjur fortíðarinnar eru ekki fyrirmyndir hins trúaða, því hann á sér betri fyrirmynd í Kristi . . . Kristinn hlaupagarpur verður að einblína á Jesú.“ Já, ‚Kristur leið fyrir okkur og lét okkur eftir fyrirmynd til þess að við skyldum feta í hans fótspor.‘ — 1. Pétursbréf 2:21; Hebreabréfið 12:1-3.
7. Hvaða áhrif ætti Hebreabréfið 13:8 að hafa á viðhorf okkar til þess að þjást fyrir Jesú Krist?
7 Páll beindi athygli okkar að syni Guðs og bætti við: „Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.“ (Hebreabréfið 13:8) Trúfastir vottar, svo sem Stefán og Jakob, höfðu sýnt óhagganlega ráðvendni í líkingu við staðfestu Jesú. (Postulasagan 7:1-60; 12:1, 2) Úr því að þeir voru fúsir til að deyja sem fylgjendur Krists er trú þeirra þess verð að við líkjum eftir henni. Í fortíðinni, núna og jafnvel í framtíðinni munu guðræknir menn ekki veigra sér við að líða píslavætti eins og lærisveinar Jesú liðu.
Forðist falskenningar
8. Endursegðu orð Páls í Hebreabréfinu 13:9.
8 Það að persónuleiki Jesú og kenningar skyldu vera óbreytanlegar ætti að koma okkur til að fylgja í hvívetna því sem hann og postular hans kenndu. Hebreum var sagt: „Látið ekki afvegaleiða yður af ýmislegum framandi kenningum. Það er gott að hjartað styrkist við náð, ekki mataræði. Þeir, sem sinntu slíku, höfðu eigi happ af því.“ — Hebreabréfið 13:9.
9. Hvað benti Páll kristnum Hebreum á sem betra var?
9 Gyðingar bentu á atriði svo sem það sjónarspil er lögmálið var gefið á Sínaífjalli og hinn varanlega konungdóm Davíðs. En Páll sýndi kristnum Hebreum fram á að enda þótt afhending lagasáttmálans hafi verið ógnþrungin hafi Jehóva borið enn kröftuglegar vitni með táknum, undrum, kraftaverkum og útbýtingu heilags anda er nýi sáttmálinn tók gildi. (Postulasagan 2:1-4; Hebreabréfið 2:2-4) Hið himneska ríki Krists haggast ekki eins og hinn jarðneski konungdómur valdhafa af ætt Davíðs árið 607 f.o.t. (Hebreabréfið 1:8, 9; 12:28) Enn fremur safnar Jehóva hinum smurðu saman frammi fyrir því sem er langtum tilkomumeira en hið undraverða sjónarspil á Sínaífjalli, því að þeir eru komnir til hins himneska Síonfjalls. — Hebreabréfið 12:18-27.
10. Hvað styrkir hjartað samkvæmt Hebreabréfinu 13:9?
10 Hebrear þurftu því að gæta þess að láta ekki ‚afvegaleiða sig af ýmsum framandi kenningum‘ þeirra sem fylgdu siðum og skoðunum Gyðinga. (Galatabréfið 5:1-6) Það var ekki með slíkum kenningum heldur ‚með náð Guðs sem hjartað gat styrkst‘ til að vera staðfast í trúnni. Sumir virðast hafa þrefað út af fæðu og fórnum, því að Páll sagði að hjartað styrktist ekki við ‚mataræði og þeir sem sinntu slíku hefði ekki happ af því.‘ Andlegt happ eða hagnaður kemur af guðrækni og jákvæðu mati á lausnargjaldinu, ekki af óþarfa umhyggju fyrir því að neyta ákveðins matar og halda ákveðna helgidaga. (Rómverjabréfið 14:5-9) Auk þess gerði fórn Krists levítafórnirnar gagnslausar. — Hebreabréfið 9:9-14; 10:5-10.
Fórnir sem Guði þóknast
11. (a) Hver er kjarni orða Páls í Hebreabréfinu 13:10, 11? (b) Hvaða táknrænt altari hafa kristnir menn?
11 Levítaprestarnir átu kjöt af fórnardýrunum en Páll skrifaði: „Vér höfum altari, og hafa þeir, er tjaldbúðinni þjóna, ekki leyfi til að eta af því. Því að brennd eru fyrir utan herbúðirnar hræ þeirra dýra, sem æðsti presturinn ber blóðið úr inn í helgidóminn til syndafórnar“ á friðþægingardeginum. (Hebreabréfið 13:10, 11; 3. Mósebók 16:27; 1. Korintubréf 9:13) Kristnir menn hafa táknrænt altari sem táknar það að þeir geti nálgast Guð á grundvelli fórnar Jesú sem friðþægir fyrir syndir og veitir fyrirgefningu Jehóva og hjálpræði til eilífs lífs.
12. Hvað voru smurðir kristnir menn hvattir til að gera í Hebreabréfinu 13:12-14?
12 Páll gerir ekki meira úr hliðstæðunni við friðþægingardaginn en bætir þó við: „Þess vegna leið og Jesús fyrir utan hliðið [hlið Jerúsalem], til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu.“ Þar dó Kristur og færði fullkomlega áhrifaríka friðþægingarfórn. (Hebreabréfið 13:12; Jóhannes 19:17; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Páll postuli hvatti smurða bræður sína: „Göngum því til [Krists] út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans. Því að hér höfum vér ekki borg er stendur, heldur leitum vér hinnar komandi.“ (Hebreabréfið 13:13, 14; 3. Mósebók 16:10) Þótt við séum hæddir eins og Jesús var sýnum við úthald sem vottar Jehóva. Við ‚afneitum óguðleika og veraldlegum girndum og lifum hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum‘ er við horfum fram til nýs heims. (Títusarbréfið 2:11-14; 2. Pétursbréf 3:13; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Og hinir smurðu okkar á meðal leita ‚borgarinnar,‘ hins himneska ríkis Guðs. — Hebreabréfið 12:22.
13. Hvað er ekki það eina sem felst í fórnum er Guði þóknast?
13 Páll minnist þessu næst á fórnir sem þóknast Guði og segir: „Fyrir hann [Jesú] skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans. En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.“ (Hebreabréfið 13:15, 16) Kristnar fórnir felast ekki eingöngu í mannúðarverkum. Fólk almennt vinnur slík verk. Það gerðist til dæmis þegar margar þjóðir komu til hjálpar fórnarlömbum jarðskjálftanna í Sovétlýðveldinu Armeníu síðla árs 1988.
14. Á hvað er lögð áhersla í sambandi við það að færa Guði fórnir sem honum þóknast?
14 Hin heilaga þjónusta, sem við veitum Jehóva „með lotningu og ótta,“ byggist á þeim fórnfúsa kærleika sem Jesús lét í ljós. (Hebreabréfið 12:28; Jóhannes 13:34; 15:13) Þessi þjónusta leggur áherslu á prédikunarstarf okkar, því að fyrir milligöngu Krists sem æðsta prests ‚berum við fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.‘ (Hósea 14:2; Rómverjabréfið 10:10-15; Hebreabréfið 7:26) Að sjálfsögðu ‚gleymum við ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni‘ sem nær jafnvel til annarra en ‚trúbræðra‘ okkar. (Galatabréfið 6:10) Einkum veitum við ástríka, efnislega og andlega hjálp þegar kristnir bræður okkar verða fyrir ógæfu eða komist í nauðir eða þrengingar. Hvers vegna? Vegna þess að við elskum hver annan. Við viljum líka að þeir geti haldið fast við opinbera játningu vonar sinnar án þess að hvika „því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.“ — Hebreabréfið 10:23-25; Jakobsbréfið 1:27.
Verum undirgefin
15. (a) Endursegðu heilræði Páls í Hebreabréfinu 13:17? (b) Hvernig sýnum við þeim sem með forystuna fara virðingu?
15 Til að færa fórnir sem Guði þóknast þurfum við að vera fullkomlega samstarfsfús við skipulag Guðs. Án þess að klifa á spurningunni um yfirvald skrifaði Páll: „Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.“ (Hebreabréfið 13:17) Við ættum að virða hina útnefndu öldunga sem taka forystuna í söfnuðinum, þannig að þeir þurfi ekki að andvarpa yfir samstarfsleysi af okkar hálfu. Ef við erum þeim ekki eftirlátir erum við að gera þeim starf sitt erfitt og það væri okkur til andlegs tjóns. Samstarfsandi auðveldar öldungunum að veita aðstoð og stuðlar að einingu og framför prédikunarstarfsins um Guðsríki. — Sálmur 133:1-3.
16. Hvers vegna er viðeigandi að vera eftirlátir þeim sem með forystuna fara?
16 Það er vel við hæfi að við séum undirgefnir þeim sem með forystuna fara! Þeir kenna á samkomum okkar og hjálpa okkur í þjónustunni. Sem hirðar leitast þeir við að tryggja velferð okkar. (1. Pétursbréf 5:2, 3) Þeir hjálpa okkur að varðveita gott samband við Guð og söfnuðinn. (Postulasagan 20:28-30) Með því að vera eftirlát hinni vitru og kærleiksríku umsjón þeirra sýnum við hinum æðsta hirði okkar, Jehóva Guði, og undirhirði hans, Jesú Kristi, virðingu. — 1. Pétursbréf 2:25; Opinberunarbókin 1:1; 2:1-3:22.
Verum bænrækin
17. Hvað fór Páll fram á og hvers vegna gat hann réttilega beðið um það?
17 Páll og félagar hans voru fjarri Hebreunum, ef til vill vegna ofsókna, og því sagði hann: „Biðjið fyrir oss, því að vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel. Ég bið yður enn rækilegar um að gjöra þetta, til þess að þér fáið mig brátt aftur heimtan.“ (Hebreabréfið 13:18, 19) Ef Páll hefði verið undirförull maður með flekkaða samvisku, með hvaða rétti hefði hann þá getað beðið Hebreana að biðja þess að hann mætti koma til þeirra? (Orðskviðirnir 3:23; 1. Tímóteusarbréf 4:1, 2) Að sjálfsögðu var hann heiðvirður þjónn orðsins sem stóð með góðri samvisku gegn þeim sem vildu fylgja siðum og trú Gyðinga. (Postulasagan 20:17-27) Páll treysti líka að hann myndi geta náð fundi Hebreanna fyrr ef þeir bæðu þess að það mætti gerast.
18. Hvaða spurninga gætum við spurt okkur ef við væntum þess að aðrir biðji fyrir okkur?
18 Beiðni Páls um bænir Hebreanna sýna að það er rétt af kristnum mönnum að biðja hver fyrir öðrum, jafnvel með nafni. (Samanber Efesusbréfið 6:17-20.) En ef við væntum þess að aðrir biðji fyrir okkur, ættum við þá ekki að vera eins og postulinn og gæta þess að ‚við höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel‘? Ert þú heiðarlegur í öllum þínum viðskiptum? Berð þú sama traust til bænarinnar og Páll? — 1. Jóhannesarbréf 5:14, 15.
Lokaorð og hvatning
19. (a) Hvers óskaði Páll Hebreunum til handa? (b) Hvers vegna er nýi sáttmálinn eilífur sáttmáli?
19 Eftir að Páll hafði beðið Hebreana að biðja fyrir sér lét hann í ljós þessa ósk sem jafnframt var bæn: „En Guð friðarins, er leiddi hinn mikla hirði sauðanna, Drottin vorn Jesú, upp frá dauðum með blóði eilífs sáttmála, hann fullkomni yður í öllu góðu til að gjöra vilja hans og komi því til leiðar í oss, sem þóknanlegt er í hans augum, fyrir Jesú Krist. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.“ (Hebreabréfið 13:20, 21) Með hina friðsælu, nýju jörð í vændum vakti „Guð friðarins“ Krist upp til ódauðleika á himnum þar sem Jesús bar fram verðgildi hins úthellta blóðs síns er fullgilti nýja sáttmálann. (Jesaja 9:6, 7; Lúkas 22:20) Það er eilífur sáttmáli vegna þess að þeir sem á jörðu búa hafa varanlegt gagn af þjónustu hinna 144.000 andlegu sona Guðs er ríkja með Jesú á himni og eiga aðild að nýja sáttmálanum. (Opinberunarbókin 14:1-4; 20:4-6) Það er fyrir milligöngu Krists sem Guð ‚fullkomnar okkur í öllu góðu til að gjöra vilja hans og kemur því til leiðar í oss, sem þóknanlegt er í hans augum.‘
20. Endursegðu og útskýrðu lokahvatningu Páls til kristinna Hebrea.
20 Páll vissi ekki hvernig Hebrearnir myndu bregðast við bréfi hans og sagði: „Ég bið yður, bræður, að þér takið vel þessum áminningarorðum [að hlýða á son Guðs, ekki þá sem vildu fylgja siðum og kenningum Gyðinga]. Fáort hef ég ritað yður [með tilliti til hins mikilvæga efnis]. Vita skuluð þér, að bróðir vor Tímóteus hefur verið látinn laus [úr fangelsi] og ásamt honum mun ég heimsækja yður, komi hann bráðum.“ Páll skrifaði bréfið líklega í Róm og vonaðist til að hann myndi, ásamt Tímóteusi, geta heimsótt Hebreana í Jerúsalem. Síðan sagði hann: „Berið kveðju öllum leiðtogum [hinum iðjusömu öldungum] yðar og öllum heilögum [þeim sem höfðu himneska von]. Mennirnir frá Ítalíu senda yður kveðju. Náð [Guðs] sé með yður öllum.“ — Hebreabréfið 13:22-25.
Bréf sem hefur varanlegt gildi
21. Hvaða meginatriði hjálpar Hebreabréfið okkur að skilja?
21 Hebreabréfið hjálpar okkur sennilega betur en nokkur önnur bók heilagrar Ritningar að skilja þýðingu þeirra fórna sem færðar voru undir lögmálinu. Bréfið sýnir okkur greinilega að fórn Jesú Krists er sú eina sem greiðir hið nauðsynlega lausnargjald fyrir syndugt mannkyn. Og það er eftirtektarverður boðskapur bréfsins að við ættum að hlýða á son Guðs.
22. Nefndu nokkrar ástæður fyrir því að vera þakklátur fyrir Hebreabréfið.
22 Enn fremur, eins og við höfum séð í greinunum tveim á undan, höfum við fleiri ástæður til að vera þakklát fyrir hið innblásna bréf til Hebreanna. Það hjálpar okkur að þreytast ekki í þjónustu okkar og fyllir okkur hugrekki, því að við vitum að Jehóva er hjálpari okkar. Enn fremur hvetur það okkur til að nota varir okkar og alla hæfileika með óeigingirni til að veita heilaga þjónustu dag og nótt og færa lofsverðum og ástríkum Guði okkar, Jehóva, fórnir af öllu hjarta.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig hjálpaði bréfið til Hebreanna þeim að forðast falskenningar?
◻ Hvaða mikilvægt starf er þungamiðja þeirra fórna sem Guði þóknast?
◻ Hverjir eru ‚leiðtogarnir‘ og hvers vegna ber okkur að vera þeim eftirlátir?
◻ Hvernig leggur Hebreabréfið áherslu á bænina?
◻ Hvernig getum við sagt að Hebreabréfið hafi varanlegt gildi?
[Myndir]
Fórnir, sem eru Guði þóknanlegar, fela meðal annars í sér þátttöku í opinberri prédikun og nytsamlegar leiðbeiningar til handa kristnum bræðrum okkar.