Trúin knýr okkur til verka
„Þú sérð, að trúin var samtaka verkum [Abrahams] og að trúin fullkomnaðist með verkunum.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 2:22.
1, 2. Hvað gerum við ef við höfum trú?
MARGIR segjast trúa á Guð. En trú, sem er orðin ein, er dauð eins og lík. „Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin,“ skrifaði lærisveinninn Jakob. Hann bætti við að trú hins guðhrædda Abrahams hafi verið „samtaka verkum hans.“ (Jakobsbréfið 2:17, 22) Hvaða þýðingu hafa þessi orð fyrir okkur?
2 Ef við höfum ósvikna trú látum við okkur ekki nægja að trúa bara því sem við heyrum á kristnum samkomum. Við sýnum trúna í verki af því að við erum virkir vottar um Jehóva. Já, trúin kemur okkur til að fara eftir orði Guðs í lífinu og hún knýr okkur til verka.
Manngreinarálit samræmist ekki trúnni
3, 4. Hvaða áhrif ætti trúin að hafa á framkomu okkar við aðra?
3 Ef við trúum í sannleika á Guð og Krist förum við ekki í manngreinarálit. (Jakobsbréfið 2:1-4) Sumir þeirra, sem Jakob skrifaði, sýndu ekki þá óhlutdrægni sem krafist er af sannkristnum mönnum. (Rómverjabréfið 2:11) Þess vegna segir Jakob: „Bræður mínir, farið ekki í manngreinarálit, þér sem trúið á dýrðardrottin vorn Jesú Krist.“ Ef ríkur, vantrúaður maður klæddur skartklæðum og með gullhring á hendi kom inn á samkomu, og einnig vantrúaður „fátækur maður í óhreinum fötum,“ þá átti að taka jafn vel á móti báðum. Í reynd beindist öll athyglin að hinum auðuga. Honum var boðið að setjast „í gott sæti“ en fátæka manninum var sagt að standa eða sitja á gólfinu við fætur einhvers.
4 Jehóva færði Jesú Krist sem lausnarfórn jafnt fyrir ríka sem fátæka. (2. Korintubréf 5:14, 15) Ef við færum að hygla ríku fólki værum við því að segja skilið við trúna á Krist sem ‚gerðist fátækur til að við auðguðumst af fátækt hans.‘ (2. Korintubréf 8:9) Við skulum aldrei dæma fólk þannig — af þeirri röngu hvöt að heiðra menn. Guð fer ekki í manngreinarálit en ef við gerðum það værum við orðnir „dómarar með vondum hugsunum.“ Við þráum að þóknast Guði og látum alls ekki undan þeirri freistingu að fara í manngreinarálit eða „meta menn eftir hagnaði.“ — Júdasarbréfið 4, 16.
5. Hverja hefur Guð útvalið til að vera „auðugir í trú“ og hvernig koma auðmenn oft fram?
5 Jakob bendir á hverjir séu auðugir í alvöru og hvetur til þess að öllum sé sýndur hlutdrægnislaus kærleikur. (Jakobsbréfið 2:5-9) ‚Guð hefur útvalið fátæka til þess að þeir verði auðugir í trú og erfingjar ríkisins.‘ Það kemur til af því að fátækir eru oft móttækilegri fyrir fagnaðarerindinu en ríkir. (1. Korintubréf 1:26-29) Auðmannastéttin kúgar aðra með skuldum, lágum launum og lögsóknum. Hún lastmælir Kristi og ofsækir okkur af því að við berum nafn hans. En við skulum vera staðráðin í að hlýða ‚hinu konunglega boðorði‘ sem útheimtir náungakærleika — að vera jafnkærleiksrík gagnvart ríkum og fátækum. (3. Mósebók 19:18; Matteus 22:37-40) Þar eð Guð krefst þessa er það „synd“ að fara í manngreinarálit.
„Miskunnsemin gengur sigri hrósandi að dómi“
6. Af hverju erum við lögbrjótar ef við erum ekki miskunnsamir við aðra?
6 Ef við sýnum það miskunnarleysi að fara í manngreinarálit erum við lögbrjótar. (Jakobsbréfið 2:10-13) Ef okkur verður á í þessu efni erum við sek við öll lög Guðs. Ísraelsmaður var brotlegur gagnvart Móselögmálinu hvort sem hann stal eða drýgði hór. Kristnir menn eru dæmdir eftir „lögmáli frelsisins“ — lögmáli andlegra Ísraelsmanna undir nýja sáttmálanum sem ritað er í hjörtu þeirra. — Jeremía 31:31-33.
7. Af hverju geta þeir sem halda áfram að fara í manngreinarálit ekki vænst miskunnar Guðs?
7 Við erum í hættu ef við segjumst hafa trú en höldum áfram að fara í manngreinarálit. Kærleikslausir og miskunnarlausir menn hljóta miskunnarlausan dóm. (Matteus 7:1, 2) Jakob segir: „Miskunnsemin gengur sigri hrósandi að dómi.“ Ef við þiggjum handleiðslu heilags anda Jehóva með því að vera miskunnsöm í öllum samskiptum við aðra, þá verðum við ekki sakfelld þegar dómur fellur heldur verður okkur miskunnað. Þannig hrósum við sigri yfir strangri réttvísi og óhagstæðum dómi.
Trú leiðir af sér góð verk
8. Hver er staða þess manns sem segist hafa trú en vantar verk?
8 Trúin leiðir af sér fleiri góð verk en þau að gera okkur kærleiksrík og miskunnsöm. (Jakobsbréfið 2:14-26) Auðvitað bjargar trúin okkur ekki ein og sér vanti hana verkin. Að vísu getum við ekki áunnið okkur réttlæti fyrir Guði með lögmálsverkum. (Rómverjabréfið 4:2-5) Jakob er að tala um verk sem stjórnast af trú og kærleika, ekki af lagasafni. Ef við látum slíka eiginleika knýja okkur látum við ekki nægja að óska þurfandi trúbræðrum velfarnaðar heldur veitum klæðalausum eða hungruðum bróður eða systur efnislega hjálp. Jakob spyr: ‚Ef þið segið við þurfandi bræður: „Farið í friði, vermið ykkur og mettið!“ en þið gefið þeim ekki það, sem líkaminn þarfnast, hvað stoðar það?‘ Ekkert. (Jobsbók 31:16-22) Slík „trú“ er lífvana!
9. Hvað sýnir að við höfum trú?
9 Vera kann að við umgöngumst fólk Guðs í einhverjum mæli, en það er aðeins með verkum af heilu hjarta sem við getum stutt þá fullyrðingu okkar að við höfum trú. Það er gott og blessað ef við höfum hafnað þrenningarkenningunni og trúum að til sé aðeins einn Guð. En það eitt er ekki trú. „Illu andarnir trúa“ og þeir „skelfast“ af því að eyðing bíður þeirra. Ef við höfum trú í alvöru knýr hún okkur til að vinna verk eins og að prédika fagnaðarerindið og veita þurfandi trúsystkinum fæði og klæði. Jakob spyr: „Fávísi maður [sem er ekki fullur nákvæmrar þekkingar á Guði]! Vilt þú láta þér skiljast, að trúin er ónýt án verkanna?“ Já, trú þarf að birtast í verki.
10. Af hverju er Abraham kallaður „faðir allra þeirra, sem trúa“?
10 Trú hins guðhrædda ættföður Abrahams knúði hann til verka. Hann var „faðir allra þeirra, sem trúa,“ og ‚réttlættist af verkum er hann lagði son sinn Ísak á altarið.‘ (Rómverjabréfið 4:11, 12; 1. Mósebók 22:1-14) Hvað nú ef Abraham hefði skort trú á að Guð gæti reist Ísak upp frá dauðum og uppfyllt loforð sitt um sæði fyrir milligöngu hans? Þá hefði hann aldrei reynt að fórna syni sínum. (Hebreabréfið 11:19) Það var vegna hlýðni Abrahams og verka sem ‚trú hans fullkomnaðist‘ eða varð heilsteypt. Þar með ‚rættist ritningin [1. Mósebók 15:6] sem segir: „Abraham trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað.“‘ Það verk Abrahams að reyna að fórna Ísak staðfesti fyrri yfirlýsingu Guðs þess efnis að Abraham væri réttlátur. Með trúarverkum sýndi hann kærleika sinn til Guðs og var kallaður ‚vinur Jehóva.‘
11. Hvernig bar Rahab vitni um trú sína?
11 Abraham sannaði „að maðurinn réttlætist af verkum og ekki af trú einni saman.“ Svo var einnig um Rahab, skækju í Jeríkó. Hún „réttlættist . . . af verkum, er hún tók við [ísraelsku] sendimönnunum og lét þá fara burt aðra leið“ þannig að þeir kæmust undan óvinum sínum, Kanverjum. Áður en hún hitti ísraelsku njósnarana vissi hún að Jehóva væri hinn sanni Guð og hún bar síðan vitni um trú sína með orðum sínum og með því að láta af skækjulifnaðinum. (Jósúabók 2:9-11; Hebreabréfið 11:31) Eftir þetta síðara dæmi um trú er birtist í verkum segir Jakob: „Eins og líkaminn er dauður án anda, eins er og trúin dauð án verka.“ Þegar maður er dauður er enginn lífskraftur eða ‚andi‘ í honum og hann getur ekkert. Trú, sem er aðeins játuð með munninum, er jafnlífvana og gagnslaus og lík. Ef við höfum raunverulega trú knýr hún okkur til guðræknisverka.
Hafðu taum á tungunni!
12. Hvað ættu öldungar safnaðarins að gera?
12 Tal okkar og kennsla getur líka borið trúnni vitni en þar er aðgátar þörf. (Jakobsbréfið 3:1-4) Öldungar eru kennarar í söfnuðinum og bera þar af leiðandi mikla ábyrgð og þurfa að standa Guði reikning. Þess vegna ættu þeir í auðmýkt að rannsaka hvatir sínar og hæfni. Auk þekkingar og hæfni þurfa þeir að bera djúpan kærleika til Guðs og trúbræðra sinna. (Rómverjabréfið 12:3, 16; 1. Korintubréf 13:3, 4) Öldungar verða að byggja ráðleggingar sínar á Ritningunni. Ef öldungur gerði skyssu í kennslu sinni og það ylli öðrum erfiðleikum myndi Guð dæma hann fyrir milligöngu Krists. Öldungar ættu því að vera auðmjúkir og námfúsir og halda sig trúfastir við orð Guðs.
13. Af hverju hrösum við í orði?
13 Jafnvel góðir kennarar ‚hrasa margvíslega‘ sökum ófullkomleika síns og það gerum við reyndar öll. Einhver algengasta hrösunin er í orði og hún getur valdið mestu tjóni. Jakob segir: „Hrasi einhver ekki í orði, þá er hann maður fullkominn, fær um að hafa stjórn á öllum líkama sínum.“ Ólíkt Jesú Kristi höfum við ekki fullkomna stjórn á tungunni. Ef við gerðum það gætum við haft stjórn á hinum limum líkamans. Þegar allt kemur til alls er hægt að hafa stjórn á hesti með beisli og méli, og með litlu stýri getur stýrimaður jafnvel stjórnað stóru skipi í hvössum vindi.
14. Hvernig leggur Jakob áherslu á að við þurfum að hafa taum á tungunni?
14 Við verðum öll að viðurkenna hreinskilnislega að við þurfum að leggja hart að okkur til að hafa taum á tungunni. (Jakobsbréfið 3:5-12) Beislið er ósköp lítið í samanburði við hestinn og stýrið í samanburði við skipið. Og í samanburði við mannslíkamann er tungan smá „en lætur mikið yfir sér.“ Þar eð Ritningin segir greinilega að stærilæti sé Guði vanþóknanlegt skulum við leita hjálpar hans til að forðast það. (Sálmur 12:4, 5; 1. Korintubréf 4:7) Megum við líka hafa taumhald á tungunni þegar við skiptum skapi, minnug þess að það þarf ekki nema lítinn neista til að kveikja í heilum skógi. Eins og Jakob bendir á er ‚tungan eldur‘ af því að hún getur valdið miklu tjóni. (Orðskviðirnir 18:21) Taumlaus tunga er meira að segja „ranglætisheimur“! Allt hið illa í þessum óguðlega heimi er tengt taumlausri tungu. Hún ber ábyrgð á skaðsemi svo sem rógi og falskenningum. (3. Mósebók 19:16; 2. Pétursbréf 2:1) Hvað finnst þér? Ætti trúin ekki að fá okkur til að leggja okkur alla fram við að hafa taum á tungu okkar?
15. Hvaða tjóni getur taumlaus tunga valdið?
15 Taumlaus tunga ‚flekkar okkur‘ algerlega. Ef við erum til dæmis staðin að því aftur og aftur að ljúga verðum við kannski þekkt sem lygarar. En hvernig kveikir taumlaus tunga „í hjóli tilverunnar“? Með því að gera lífið að eins konar vítahring. Taumlaus tunga getur komið heilum söfnuði í uppnám. Jakob nefnir „helvíti“ það er að segja „Gehenna“ eða Hinnomsdal. (NW) Hann var eitt sinn notaður til barnafórna en var síðar gerður að sorphaugi Jerúsalem þar sem sorpi var eytt í eldi. (Jeremía 7:31) Gehenna er því tákn gereyðingar. Í vissum skilningi hefur Gehenna ljáð taumlausri tungu eyðingarmátt sinn. Ef við höfum ekki taum á tungunni getum við sjálf orðið fórnarlömb þess elds sem við höfum kveikt. (Matteus 5:22) Hugsanlega yrði okkur jafnvel vikið úr söfnuðinum fyrir lastmæli. — 1. Korintubréf 5:11-13.
16. Hvað ættum við að gera í ljósi þess skaða sem taumlaus tunga getur valdið?
16 Eins og þú veist kannski af lestri þínum í orði Guðs er það tilskipun hans að maðurinn eigi að ráða yfir dýrunum. (1. Mósebók 1:28) Og alls konar skepnur hafa verið tamdar. Til dæmis hafa tamdir fálkar verið notaðir til veiða. ‚Skriðkvikindin,‘ sem Jakob nefnir, geta meðal annars verið höggormar tamdir af slöngutemjurum. (Sálmur 58:5, 6) Maðurinn getur jafnvel stjórnað hvölum en þar sem við erum syndugir getum við ekki tamið tunguna að fullu. Við ættum samt að forðast móðgandi, særandi eða ærumeiðandi orð. Stjórnlaus tunga getur verið hættulegt verkfæri full af banvænu eitri. (Rómverjabréfið 3:13) Því miður sneri tunga falskennara sumum hinna frumkristnu frá Guði. Látum eitruð orð fráhvarfsmanna aldrei yfirbuga okkur, hvort heldur þau eru töluð eða rituð. — 1. Tímóteusarbréf 1:18-20; 2. Pétursbréf 2:1-3.
17, 18. Hvaða ósamræmi er bent á í Jakobsbréfinu 3:9-12 og hvað ættum við að gera í því sambandi?
17 Trú á Guð og löngun til að þóknast honum getur verndað okkur fyrir fráhvarfi og hindrað að við séum sjálfum okkur ósamkvæm í notkun tungunnar. Jakob bendir á að sumir séu sjálfum sér ósamkvæmir og segir að ‚með tungunni vegsömum við Jehóva, föður okkar, og formælum mönnum sem skapaðir eru í líkingu Guðs.‘ (1. Mósebók 1:26) Jehóva er faðir okkar í þeim skilningi að hann „gefur öllum líf og anda og alla hluti.“ (Postulasagan 17:24, 25) Hann er líka faðir smurðra kristinna manna í andlegum skilningi. Öll erum við „í líkingu Guðs“ hvað varðar andlega og siðferðilega eiginleika, þar á meðal kærleika, réttvísi og visku sem greinir okkur frá dýrunum. Hvernig ættum við þá að koma fram ef við höfum trú á Jehóva?
18 Ef við formæltum mönnum þýddi það að við vildum kalla bölvun yfir þá. Þar eð við erum ekki guðinnblásnir spámenn og höfum ekki vald til að kalla bölvun yfir einn né neinn bæri slíkt tal vott um hatur sem gerði það einskis vert að við vegsömuðum Guð. Það á ekki við að bæði „blessun og bölvun“ gangi fram af sama munni. (Lúkas 6:27, 28; Rómverjabréfið 12:14, 17-21; Júdasarbréfið 9) Það væri syndsamlegt að syngja Guði lof á samkomum en tala svo illa um trúbræður okkar á eftir! Ferskt og beiskt vatn getur ekki komið úr sömu uppsprettulind. Eins og ‚fíkjutré getur ekki gefið af sér olífur eða vínviður fíkjur,‘ eins getur saltur brunnur ekki gefið af sér ferskt vatn. Það er eitthvað að okkur andlega ef orð okkar, sem eigum að tala gott eitt, eru sífellt beisk og skaðleg. Ef við erum komin í þann farveg skulum við biðja um hjálp Jehóva til að hætta að tala þannig. — Sálmur 39:2.
Breytum eftir viskunni að ofan
19. Hvaða áhrif getum við haft á aðra ef við látum stjórnast af himneskri visku?
19 Við þörfnumst öll visku til að segja og gera það sem sæmir trúuðum. (Jakobsbréfið 3:13-18) Ef við berum lotningarfullan ótta af Guði veitir hann okkur himneska visku, hæfni til að nota þekkinguna rétt. (Orðskviðirnir 9:10; Hebreabréfið 5:14) Orð hans kennir okkur að sýna ‚hógláta speki.‘ Og með því að vera hóglát og mild í lund stuðlum við að friði safnaðarins. (1. Korintubréf 8:1, 2) Hver sá sem stærir sig af því að vera mikill kennari trúbræðra sinna ‚lýgur gegn sannleika‘ kristninnar sem fordæmir hégómagirnd hans. (Galatabréfið 5:26) „Speki“ hans er „jarðnesk“ — einkennandi fyrir synduga menn sem eru fjarlægir Guði. Hún er „andlaus“ í þeim skilningi að hún er sprottin af holdlegum tilhneigingum. Hún er meira að segja „djöfulleg“ af því að illu andarnir eru drambsamir! (1. Tímóteusarbréf 3:6) Við skulum því vera vitur og auðmjúk þannig að við eigum engan þátt í að skapa andrúmsloft þar sem „böl“ á borð við róg og manngreinarálit getur þrifist.
20. Lýstu himneskri visku.
20 „Sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein“ og vítalaus og gerir okkur siðferðilega og andlega hrein. (2. Korintubréf 7:11) Hún er „friðsöm“ og fær okkur til að stunda frið. Himnesk viska gerir okkur „ljúfleg“ eða sanngjörn, ekki einstrengingsleg og þver. (Filippíbréfið 4:5, NW) Viskan að ofan er „sáttgjörn,“ fús að hlýða, og stuðlar að hlýðni við kenningu Jehóva Guðs og samvinnu við skipulag hans. (Rómverjabréfið 6:17) Viskan að ofan gerir okkur líka miskunnsöm og meðaumkunarsöm. (Júdasarbréfið 22, 23) Hún er full „góðra ávaxta“ og stuðlar að umhyggju fyrir öðrum og verkum sem samrýmast góðvild, réttlæti og sannleika. (Efesusbréfið 5:9) Og friðsamir menn njóta ‚ávaxtar réttlætisins‘ sem dafnar við friðsælar aðstæður.
21. Til hvaða verka ætti trúin á Guð að knýja okkur samkvæmt Jakobsbréfinu 2:1–3:18?
21 Ljóst er því að trúin knýr okkur til verka. Hún gerir okkur óhlutdræg, miskunnsöm og upptekin af góðum verkum. Trúin hjálpar okkur að hafa stjórn á tungunni að sýna himneska visku. En við getum lært fleira af þessu bréfi. Jakob hefur fleiri ráð fram að færa sem geta auðveldað okkur að hegða okkur eins og sæmir þeim sem trúa á Jehóva.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvað er rangt við að fara í manngreinarálit?
◻ Hver eru tengsl trúar og verka?
◻ Af hverju er mjög þýðingarmikið að hafa taum á tungunni?
◻ Lýstu himneskri visku.