Hvernig getum við auðsýnt dyggð í trú okkar?
‚Auðsýnið í trú yðar dyggð.‘ — 2. PÉTURSBRÉF 1:5.
1, 2. Hvers vegna ættum við að vænta þess að þjónar Jehóva geri það sem er dyggðugt?
JEHÓVA er alltaf dyggðugur í framkvæmdum sínum. Hann gerir það sem er réttlátt og gott. Þess vegna gat Pétur postuli talað um Guð sem hann er kallaði smurða kristna menn ‚með dýrð sinni og dyggð.‘ Nákvæm þekking á dyggðugum, himneskum föður þeirra hafði sýnt þeim hvað þurfti til að ástunda sanna guðrækni í lífinu. — 2. Pétursbréf 1:2, 3.
2 Páll postuli hvetur kristna menn til að verða „eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.“ (Efesusbréfið 5:1) Líkt og himneskur faðir þeirra ættu tilbiðjendur Jehóva að gera það sem er dyggðugt undir öllum kringumstæðum. En hvað er dyggð?
Hvað er dyggð?
3. Hvernig hefur „dyggð“ verið skilgreind?
3 Nútímaorðabækur skilgreina „dyggð“ sem ‚góðan siðferðilegan eiginleika, siðgæði, mannkosti.‘ Hún er „rétt verk og hugsun; manngæði.“ Dyggðugur maður er réttlátur. Dyggð hefur líka verið skilgreind sem „það að fylgja staðli um hvað sé rétt.“ Þegar kristnir menn eiga í hlut er ‚staðallinn um hvað sé rétt‘ að sjálfsögðu ákveðinn af Guði og kemur skýrt fram í heilögu orði hans, Biblíunni.
4. Hvaða eiginleikar eru nefndir í 2. Pétursbréfi 1:5-7 sem kristnir menn verða að leggja hart að sér við að þroska?
4 Sannkristnir menn laga sig eftir réttlátum stöðlum Jehóva Guðs og þeir bregðast við dýrmætum fyrirheitum hans með því að iðka trú. Þeir fara líka eftir ráðleggingum Péturs: „Leggið þess vegna alla stund á að auðsýna í trú yðar dyggð, í dyggðinni þekkingu, í þekkingunni sjálfsögun, í sjálfsöguninni þolgæði, í þolgæðinu guðrækni, í guðrækninni bróðurelsku og í bróðurelskunni kærleika.“ (2. Pétursbréf 1:5-7) Kristinn maður verður að leggja hart að sér við að þroska þessa eiginleika. Það gerist ekki á fáeinum dögum eða árum heldur kostar stöðuga, ævilanga viðleitni. Já, það er áskorun í sjálfu sér að auðsýna dyggð í trú okkar!
5. Hvað er dyggð frá sjónarhóli Ritningarinnar?
5 Orðabókarhöfundurinn M. R. Vincent segir að hin upprunalega, klassíska merking gríska orðsins, sem þýtt er „dyggð,“ tákni „hvers kyns yfirburði.“ Pétur notaði fleirtölumynd orðsins þegar hann sagði að kristnir menn ættu að víðfrægja „dáðir“ eða dyggðir Guðs. (1. Pétursbréf 2:9) Frá sjónarhóli Ritningarinnar er dyggð þannig lýst að hún sé ekki aðgerðarlaus heldur „siðgæðisafl, siðferðiskraftur, sálarþróttur.“ Þegar Pétur minntist á dyggð hafði hann í huga hina hugrökku, siðferðilegu yfirburði sem ætlast er til að þjónar Guðs láti í ljós og viðhaldi. En getum við í raun og veru gert það sem er dyggðugt í augum Guðs úr því að við erum ófullkomin?
Ófullkomin en dyggðug
6. Hvers vegna má segja að við getum gert það sem er dyggðugt í augum Guðs, þótt við séum ófullkomin?
6 Við höfum erft ófullkomleika og synd þannig að okkur gæti verið spurn hvernig við getum í raun og veru gert það sem er dyggðugt í augum Guðs. (Rómverjabréfið 5:12) Við þörfnumst sannarlega hjálpar Jehóva til að hafa hrein hjörtu sem dyggðugar hugsanir, orð og athafnir geta komið frá. (Samanber Lúkas 6:45.) Eftir að hafa syndgað í tengslum við Batsebu sárbændi sálmaritarinn Davíð Guð iðrunarfullur: „Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.“ (Sálmur 51:12) Davíð fékk fyrirgefningu Guðs og þá hjálp sem hann þurfti til að lifa dyggðugu lífi. Þess vegna getum við snúið aftur inn á braut dyggðarinnar og haldið okkur á henni þótt við höfum syndgað alvarlega, ef við höfum þegið hjálp Guðs og safnaðaröldunganna með iðrunarhug. — Sálmur 103:1-3, 10-14; Jakobsbréfið 5:13-15.
7, 8. (a) Hvað er nauðsynlegt til að halda áfram að vera dyggðug? (b) Hvað hjálpar kristnum mönnum að vera dyggðugir?
7 Vegna meðfæddrar syndsemi okkar verðum við að heyja stöðuga innri baráttu til að gera það sem braut dyggðarinnar krefst af okkur. Ef við ætlum að halda áfram að vera dyggðug megum við aldrei leyfa okkur að verða þrælar syndarinnar. Þess í stað verðum við að vera „þjónar réttlætisins“ og alltaf hugsa, tala og hegða okkur á dyggðugan hátt. (Rómverjabréfið 6:16-23) Að sjálfsögðu eru holdlegar langanir okkar og syndugar tilhneigingar sterkar og við eigum í baráttu milli þeirra og dyggðanna sem Guð krefst af okkur. Hvað er þá hægt að gera?
8 Meðal annars þurfum við að fylgja handleiðslu heilags anda eða starfskraftar Jehóva. Við ættum þess vegna að fara eftir ráðleggingu Páls: „Lifið í andanum, og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins. Holdið girnist gegn andanum, og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru, til þess að þér gjörið ekki það, sem þér viljið.“ (Galatabréfið 5:16, 17) Já, við höfum anda Guðs sem réttlætisafl og orð hans sem leiðarvísi um rétta breytni. Við höfum líka kærleiksríka hjálp skipulags Jehóva og heilræði ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47) Þannig getum við barist sigurvænlega gegn tilhneigingum til syndar. (Rómverjabréfið 7:15-25) Að sjálfsögðu verðum við, ef óhrein hugsun skyldi koma upp í hugann, að vísa henni þegar í stað á bug og biðja um hjálp Guðs til að standa gegn sérhverri freistingu til að hegða okkur á nokkurn þann hátt sem er ódyggðugur. — Matteus 6:13.
Dyggð og hugsanir okkar
9. Hvers konar hugsunarháttur er nauðsynlegur til að vera dyggðugur í breytni?
9 Dyggð á upptök sín í hugsuninni. Til að njóta hylli Guðs verðum við að hugsa um það sem er réttlátt, gott og dyggðugt. Páll sagði: „Að endingu, bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ (Filippíbréfið 4:8) Við þurfum að einbeita huganum að því sem er réttlátt og hreint eða siðsamt og ekkert ódyggðugt ætti að höfða til okkar. Páll gat sagt: „Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra.“ Ef við erum eins og Páll — dyggðug í hugsun, tali og verki — þá verðum við góðir félagar og gott fordæmi í kristnu líferni og ‚Guð friðarins mun vera með okkur.‘ — Filippíbréfið 4:9.
10. Hvernig mun persónuleg heimfærsla 1. Korintubréfs 14:20 hjálpa okkur að halda áfram að vera dyggðug?
10 Ef við þráum að halda áfram að vera dyggðug í hugsun og þóknast þannig himneskum föður okkar er nauðsynlegt að við fylgjum ráðleggingu Páls: „Verið ekki börn í dómgreind, heldur sem ungbörn í illskunni, en fullorðnir í dómgreind.“ (1. Korintubréf 14:20) Þetta merkir að sem kristnir menn sækjumst við ekki eftir þekkingu eða reynslu í illskunni. Í stað þess að leyfa hugum okkar að spillast með þessum hætti er viturlegt af okkur að kjósa að vera áfram óreynd og saklaus eins og ungbörn í þessu efni. Um leið skiljum við til fulls að siðleysi og rangsleitni er syndsamleg í augum Jehóva. Áköf og innileg löngun til að þóknast honum með því að vera dyggðug er okkur til góðs því að hún fær okkur til að forðast óhreina skemmtun og önnur hugspillandi áhrif þessa heims sem er á valdi Satans. — 1. Jóhannesarbréf 5:19.
Dyggð og mál okkar
11. Hvernig tölum við ef við erum dyggðug og hvaða fordæmi hafa Jehóva Guð og Jesús Kristur sett í því efni?
11 Ef hugsanir okkar eru dyggðugar ætti það að hafa djúpstæð áhrif á það sem við segjum. Til að vera dyggðug þarf mál okkar að vera hreint, heilnæmt, satt og uppbyggjandi. (2. Korintubréf 6:3, 4, 7) Jehóva er „Guð sannleikans.“ (Sálmur 31:5, NW) Hann er trúfastur í öllum samskiptum sínum og fyrirheit hans eru áreiðanleg af því að hann getur ekki logið. (4. Mósebók 23:19; 1. Samúelsbók 15:29; Títusarbréfið 1:2) Sonur Guðs, Jesús Kristur, er „fullur náðar og sannleika.“ Meðan hann var á jörðinni talaði hann alltaf sannleikann eins og hann hafði fengið hann frá föður sínum. (Jóhannes 1:14; 8:40) Enn fremur „drýgði [Jesús] ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans.“ (1. Pétursbréf 2:22) Ef við erum í sannleika þjónar Guðs og Krists verðum við sannsöglir og heiðarlegir eins og við séum „gyrtir sannleika.“ — Efesusbréfið 5:9; 6:14.
12. Hvers konar tal verðum við að forðast ef við ætlum að vera dyggðug?
12 Ef við erum dyggðug forðumst við ýmiss konar málfar. Við látum þá stjórnast af leiðbeiningum Páls: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.“ „En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum. Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þess í stað komi miklu fremur þakkargjörð.“ (Efesusbréfið 4:31; 5:3, 4) Öðrum mun finnast hressandi að vera í félagsskap okkar vegna þess að réttlát hjörtu okkar knýja okkur til að forðast ókristilegt tal.
13. Hvers vegna verða kristnir menn að hafa taum á tungu sinni?
13 Löngun til að þóknast Guði og segja það sem er dyggðugt mun hjálpa okkur að hafa taum á tungu okkar. Vegna syndugra tilhneiginga okkar hrösum við öll stundum í orði. En lærisveinninn Jakob segir að „ef vér leggjum hestunum beisli í munn“ fari þeir hlýðnir þangað sem við beinum þeim. Þess vegna ættum við að leggja hart að okkur við að beisla tunguna og reyna að nota hana aðeins á dyggðugan hátt. Stjórnlaus tunga er „ranglætisheimur.“ (Jakobsbréfið 3:1-7) Alls konar ill einkenni þessa óguðlega heims tengjast ótaminni tungu. Hún ber ábyrgð á skaðsemdum svo sem fölskum vitnisburði, illmælgi og rógi. (Jesaja 5:20; Matteus 15:18-20) Og þegar óstýrilát tunga kemur með skömmóttar, meiðandi eða rógsamar athugasemdir er hún full af banvænu eitri. — Sálmur 140:4; Rómverjabréfið 3:13; Jakobsbréfið 3:8.
14. Hvaða tvöfeldni í tali verða kristnir menn að forðast?
14 Eins og Jakob gefur til kynna væri ósamræmi í því að ‚vegsama Jehóva‘ með því að tala vel um Guð en síðan misnota tunguna til að ‚formæla mönnum‘ með því að óska þeim ills. Það er syndsamlegt að syngja Jehóva lof á samkomum og fara síðan út og tala illa um trúbræður okkar! Það getur ekki streymt bæði sætt og beiskt vatn úr sömu uppsprettu. Ef við þjónum Jehóva geta aðrir réttilega ætlast til þess að við segjum það sem er dyggðugt í stað þess að segjum eitthvað ógeðfellt. Við skulum því forðast illt tal og leitast við að segja það sem er félögum okkar til góðs og andlegrar uppbyggingar. — Jakobsbréfið 3:9-12.
Dyggð og verk okkar
15. Hvers vegna er svona mikilvægt að forðast lævíst hátterni?
15 Hvað um verk kristins manns úr því að hugsun og tal verður að vera hreint? Það að vera dyggðugur í hegðun er eina leiðin til að þóknast Guði. Enginn þjónn Jehóva getur snúið baki við dyggðinni, gripið til lævísi og sviksemi og haldið með réttu að slíkt sé Guði þóknanlegt. Orðskviðirnir 3:32 segja: „Því að andstyggð er sá [Jehóva], er afvega fer, en ráðvandir menn alúðarvinir hans.“ Ef við látum okkur annt um samband okkar við Jehóva Guð ættu þessi umhugsunarverðu orð að aftra okkur frá því að leggja á ráðin um það sem valdið getur skaða eða vera lævís á nokkurn annan hátt. Meðal þeirra sjö hluta, sem eru Jehóva andstyggilegir, er „hjarta sem bruggar glæpsamleg ráð“! (Orðskviðirnir 6:16-19) Þar af leiðandi skulum við forðast slík verk og gera það sem er dyggðugt, öðrum mönnum til gagns og himneskum föður okkar til dýrðar.
16. Hvers vegna mega kristnir menn ekki vera hræsnisfullir?
16 Til að auðsýna dyggð þurfum við að vera heiðarleg. (Hebreabréfið 13:18, NW) Hræsnisfullur maður, sem lætur verk ekki vera samtaka orðum, er ekki dyggðugur. Gríska orðið, sem þýtt er „hræsnari“ (hypokritesʹ), merkir „sá sem svarar“ og er einnig notað um sviðsleikara. Þar eð grískir og rómverskir leikarar báru grímur var farið að nota þetta orð í myndhverfri merkingu um þann sem er með uppgerð. Hræsnarar eru ‚ótrúir.‘ (Berðu Lúkas 12:46 saman við Matteus 24:50, 51.) Hræsni (hypoʹkrisis) getur líka merkt illsku og flærð. (Matteus 22:18; Markús 12:15; Lúkas 20:23) Það er dapurlegt þegar einhver beitir brosi, smjaðri og athöfnum, sem eru aðeins yfirvarp, til að blekkja þann sem treystir honum! Á hinn bóginn yljar það okkur um hjartað þegar við vitum að við eigum samskipti við kristna menn sem við getum treyst. Og Guð blessar okkur fyrir að vera dyggðug og hræsnislaus. Velþóknun hans er yfir þeim sem sýna „hræsnislausa bróðurelsku“ og búa yfir „hræsnislausri trú.“ — 1. Pétursbréf 1:22; 1. Tímóteusarbréf 1:5.
Dyggð er virk góðvild
17, 18. Hvernig komum við fram við aðra þegar við sýnum af okkur góðvild sem er ávöxtur anda Guðs?
17 Ef við auðsýnum dyggð í trú okkar leggjum við okkur alla fram við að stilla okkur um að hugsa, segja og gera það sem er ótækt í augum Guðs. Það að sýna af okkur kristna dyggð útheimtir samt sem áður að við ástundum virka góðvild. Reyndar hefur dyggð verið skilgreind sem góðvild. Og góðvild er ávöxtur heilags anda Jehóva, ekki aðeins árangur mannlegrar viðleitni. (Galatabréfið 5:22, 23) Þegar við látum í ljós góðvild, sem er ávöxtur heilags anda, hvetur það okkur til að hugsa vel til annarra og hrósa þeim fyrir góða eiginleika sína, þrátt fyrir ófullkomleika þeirra. Hafa þeir þjónað Jehóva trúfastir í mörg ár? Þá ættum við að sýna þeim virðingu og tala vel um þá og þjónustu þeirra við Guð. Himneskur faðir okkar veitir athygli þeim kærleika sem þeir sýna nafni hans og dyggðugum trúarverkum þeirra. Það ættum við líka að gera. — Nehemíabók 13:31b; Hebreabréfið 6:10.
18 Dyggð gerir okkur þolinmóð, skilningsrík, brjóstgóð. Ef kvöl og þunglyndi leggst á trúbróður okkar munum við vera hughreystandi og leitast við að veita honum einhverja huggun líkt og himneskur faðir okkar huggar okkur. (2. Korintubréf 1:3, 4; 1. Þessaloníkubréf 5:14) Við sýnum samúð þeim sem syrgja, ef til vill vegna ástvinamissis. Ef við getum gert eitthvað til að lina sársauka annarra gerum við það, því að dyggðugt hugarþel kveikir kærleika og góðfýsi sem birtist í verki.
19. Hvernig er líklegt að aðrir komi fram við okkur ef við erum dyggðug í hugsun, orði og verki?
19 Alveg eins og við vegsömum Jehóva með því að tala vel um hann eru aðrir líklegir til að tala lofsamlega um okkur ef við erum dyggðug í hugsun, orði og verki. (Sálmur 145:10) Viturlegur orðskviður segir: „Blessun kemur yfir höfuð hins réttláta, en munnur óguðlegra hylmir yfir ofbeldi.“ (Orðskviðirnir 10:6) Óguðlegan og ofbeldisfullan mann skortir þá dyggð sem myndi gera hann ástfólginn öðrum. Hann uppsker það sem hann sáir því að fólk getur ekki í hreinskilni veitt honum blessun sína með því að tala vel um hann. (Galatabréfið 6:7) Þeir sem hugsa, tala og hegða sér dyggðuglega sem þjónar Jehóva eru miklu betur settir! Þeir ávinna sér kærleika, traust og virðingu annarra sem finna sig knúna til að blessa þá og tala vel um þá. Enn fremur hefur guðrækileg dyggð þeirra í för með sér hina ómetanlegu blessun Jehóva. — Orðskviðirnir 10:22.
20. Hvaða áhrif geta dyggðugar hugsanir, orð og verk haft á söfnuð þjóna Jehóva?
20 Dyggð í hugsun, orðum og verkum er söfnuði þjóna Jehóva tvímælalaust til góðs. Þegar trúbræður hugsa með hlýju og virðingu hver til annars dafnar bróðurelska meðal þeirra. (Jóhannes 13:34, 35) Dyggðugt tal, meðal annars að hrósa og uppörva einlæglega, ýtir undir vingjarnlegt andrúmsloft samvinnu og einingar. (Sálmur 133:1-3) Og hjartahlýja og dyggð, sem birtist í verki, hvetur aðra til að bregðast eins við. Umfram allt hefur það að iðka kristna dyggð í för með sér velþóknun okkar dyggðuga, himneska föður, Jehóva. Megum við þess vegna setja okkur það markmið að bregðast við dýrmætum fyrirheitum Guðs með því að iðka trú. Og leggjum okkur fyrir alla muni einlæglega fram um að auðsýna dyggð í trú okkar.
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig skilgreinir þú „dyggð“ og hvers vegna geta ófullkomnir menn verið dyggðugir?
◻ Hvers konar hugsanir útheimtir dyggð?
◻ Hvaða áhrif ætti dyggð að hafa á tal okkar?
◻ Hvaða áhrif ætti dyggð að hafa á verk okkar?
◻ Nefndu nokkra kosti þess að vera dyggðugur.
[Mynd á blaðsíðu 30]
Þar eð sætt og beiskt vatn getur ekki komið af sömu uppsprettu ætlast aðrir réttilega til þess að þjónar Jehóva tali það eitt sem er dyggðugt.