NÁMSGREIN 8
Hvernig getum við haldið gleðinni í prófraunum?
„Lítið á það sem eintómt gleðiefni, bræður mínir og systur, þegar þið lendið í ýmiss konar prófraunum.“ – JAK. 1:2.
SÖNGUR 111 Gleðjumst og fögnum
YFIRLITa
1, 2. Hvernig eigum við að líta á prófraunir samkvæmt Matteusi 5:11?
JESÚS lofaði fylgjendum sínum að þeir myndu njóta sannrar hamingju. Hann varaði líka við því að þeir sem elskuðu hann yrðu fyrir prófraunum. (Matt. 10:22, 23; Lúk. 6:20–23) Það gleður okkur að vera lærisveinar Krists. En hvað finnst okkur um þá tilhugsun að fjölskyldan gæti snúist gegn okkur, yfirvöld ofsótt okkur og að vinnufélagar eða skólafélagar gætu þrýst á okkur að gera það sem er rangt? Sú tilhugsun getur eðlilega valdið okkur kvíða.
2 Fólk lítur yfirleitt ekki á ofsóknir sem ástæðu til að gleðjast. En orð Guðs segir okkur að við eigum einmitt að gera það. Lærisveinninn Jakob skrifaði til dæmis að við ættum ekki að láta prófraunir buga okkur heldur líta á þær sem gleðiefni. (Jak. 1:2, 12) Og Jesús sagði að við ættum að vera hamingjusöm, jafnvel þegar við erum ofsótt. (Lestu Matteus 5:11.) Hvernig getum við verið glöð þrátt fyrir prófraunir? Við lærum margt þegar við hugleiðum sumt af því sem Jakob skrifaði frumkristnum mönnum. Byrjum á að skoða hvaða erfiðleika þeir máttu þola.
HVAÐA PRÓFRAUNIR MÁTTU KRISTNIR MENN Á FYRSTU ÖLD ÞOLA?
3. Hvað gerðist skömmu eftir að Jakob varð lærisveinn Jesú?
3 Skömmu eftir að Jakob hálfbróðir Jesú gerðist lærisveinn hófst andstaða gegn kristnum mönnum í Jerúsalem. (Post. 1:14; 5:17, 18) Þegar lærisveinninn Stefán var myrtur flúðu margir kristnir menn borgina og „dreifðust um alla Júdeu og Samaríu“ og fóru að lokum allt til Kýpur og Antíokkíu. (Post. 7:58–8:1; 11:19) Við getum rétt ímyndað okkur erfiðleikana sem þeir þurftu að þola. Samt héldu þeir áfram að boða fagnaðarboðskapinn af kappi hvert sem þeir fóru og söfnuðir voru myndaðir um allt Rómaveldi. (1. Pét. 1:1) En þeir áttu eftir að þola mun meiri erfiðleika.
4. Hvaða aðrar raunir gengu frumkristnir menn í gegnum?
4 Frumkristnir menn gengu í gegnum ýmiss konar raunir. Til dæmis rak Kládíus keisari alla Gyðinga út úr Róm í kringum árið 50. Kristnir menn sem voru Gyðingar neyddust því til að yfirgefa heimili sín og setjast að annars staðar. (Post. 18:1–3) Um árið 61 skrifaði Páll um trúsystkini sín sem höfðu verið smánuð fyrir opnum tjöldum, fangelsuð og rænd eigum sínum. (Hebr. 10:32–34) Og kristnir menn urðu veikir og fátækir rétt eins og annað fólk. – Rómv. 15:26; Fil. 2:25–27.
5. Hvaða spurningum fáum við svör við?
5 Þegar Jakob skrifaði bréf sitt fyrir árið 62 vissi hann vel af prófraununum sem trúsystkini hans voru að ganga í gegnum. Jehóva innblés honum að skrifa til þessara bræðra og systra og gefa þeim hagnýt ráð sem myndu hjálpa þeim að halda gleðinni þrátt fyrir prófraunir. Við skulum skoða Jakobsbréfið með eftirfarandi spurningar í huga: Um hvaða gleði skrifaði Jakob? Hvað getur rænt þjóna Guðs gleðinni? Og hvernig getur viska, trú og hugrekki hjálpað okkur að viðhalda gleðinni sama hvaða prófraunum við verðum fyrir?
HVAÐ GLEÐUR ÞJÓNA GUÐS?
6. Hvers vegna geta þjónar Guðs glaðst þegar þeir verða fyrir prófraunum, samanber Lúkas 6:22, 23?
6 Sumir telja að þeir geti ekki verið hamingjusamir nema þeir hafi góða heilsu, frið í fjölskyldunni og eigi mikið af peningum. En sú gleði sem Jakob skrifaði um er hluti af ávexti anda Guðs og ekki háð aðstæðum okkar. (Gal. 5:22) Þjónn Guðs gleðst, eða finnur til sannrar hamingju, þegar hann fylgir fordæmi Jesú og veit að hann nýtur velþóknunar Jehóva. (Lestu Lúkas 6:22, 23; Kól. 1:10, 11) Slík gleði logar í hjörtum þjóna Guðs, líkt og ljós logar í lukt. Gleðin fer ekki að flökta þegar heilsan bilar eða við eigum erfitt með að láta enda ná saman. Og andstaða frá fjölskyldunni eða öðrum slekkur hana ekki. Gleðin slokknar ekki þegar andstæðingar reyna að kæfa hana heldur logar hún bara skærar. Trúarprófraunir sem við verðum fyrir sýna að við erum sannir lærisveinar Krists. (Matt. 10:22; 24:9; Jóh. 15:20) Þess vegna gat Jakob skrifað: „Lítið á það sem eintómt gleðiefni, bræður mínir og systur, þegar þið lendið í ýmiss konar prófraunum.“ – Jak. 1:2.
7, 8. Hvers vegna styrkist trú okkar þegar hún er reynd?
7 Jakob nefnir aðra ástæðu fyrir því að þjónar Guðs eru fúsir til að þola erfiðar prófraunir. Hann segir: „Þegar trú ykkar stenst prófraunir verðið þið þolgóð.“ (Jak. 1:3) Prófraunum má líkja við eld sem er notaður við að móta sverð úr stáli. Þegar sverðsblaðið er hitað og kælt á víxl herðir það stálið. Trú okkar styrkist á sama hátt þegar við þolum prófraunir. Þess vegna skrifaði Jakob: „Leyfið þolgæðinu að ljúka verki sínu svo að þið verðið heil og heilbrigð að öllu leyti.“ (Jak. 1:4) Þegar við finnum að prófraunirnar styrkja trú okkar getum við þolað þær með gleði.
8 Í bréfi sínu nefnir Jakob einnig sumt af því sem gæti orðið til þess að við misstum gleðina. Hvað er það og hvernig getum við sigrast á því?
HVERNIG ER HÆGT AÐ SIGRAST Á ÞVÍ SEM GETUR RÆNT OKKUR GLEÐINNI?
9. Hvers vegna þurfum við visku?
9 Það sem getur rænt okkur gleðinni: Að vita ekki hvað við eigum að gera. Þegar við verðum fyrir prófraunum viljum við leita til Jehóva og fá hjálp hans til að taka ákvarðanir sem gleðja hann, eru bræðrum okkar og systrum til góðs og hjálpa okkur að vera Jehóva trú. (Jer. 10:23) Við þurfum visku til að vita hvaða stefnu við eigum að taka og hvernig við eigum að svara þeim sem rísa gegn okkur. Við getum orðið niðurdregin og fljótlega misst gleðina ef við vitum ekki hvað við eigum að gera.
10. Hvað segir Jakobsbréfið 1:5 að við þurfum að gera til að öðlast visku?
10 Það sem við getum gert til að halda gleðinni: Biðja Jehóva um visku. Til að geta staðist prófraunir með gleði þurfum við að byrja á því að biðja Jehóva að gefa okkur þá visku sem við þurfum til að taka skynsamlegar ákvarðanir. (Lestu Jakobsbréfið 1:5.) Hvað ættum við að gera ef okkur finnst Jehóva ekki svara bæn okkar strax? Jakob segir að við ættum „ekki að gefast upp á að biðja“. Jehóva verður ekki pirraður þó að við höldum áfram að biðja hann um visku. Hann reiðist okkur ekki fyrir það. Faðir okkar á himnum „gefur öllum af örlæti“ sem biðja hann um visku til að standast prófraunir. (Sálm. 25:12, 13) Hann sér raunir okkar, hefur samúð með okkur og vill gjarnan hjálpa okkur. Það gefur okkur sannarlega ástæðu til að gleðjast. En hvernig gefur Jehóva okkur visku?
11. Hvað annað þurfum við að gera til að öðlast visku?
11 Við fáum visku frá Jehóva í orði hans. (Orðskv. 2:6) Til að öðlast hana verðum við að lesa og hugleiða Biblíuna og biblíutengd rit. En við þurfum að gera meira en bara að afla okkur þekkingar. Við verðum að láta viskuna frá Guði hafa áhrif á líf okkar með því að fara eftir ráðum hans. Jakob skrifaði: ,Látið ykkur ekki nægja að heyra orðið heldur farið eftir því.‘ (Jak. 1:22) Þegar við förum eftir ráðum Guðs verðum við friðsamari, sanngjarnari og miskunnsamari. (Jak. 3:17) Þessir eiginleikar hjálpa okkur að þola hvaða prófraun sem er án þess að missa gleðina.
12. Hvers vegna er mikilvægt að við þekkjum Biblíuna vel?
12 Orð Guðs er eins og spegill. Það hjálpar okkur að koma auga á það sem við þurfum að bæta okkur í og að fylgja því svo eftir. (Jak. 1:23–25) Þegar við höfum lesið og hugleitt orð Guðs gætum við til dæmis gert okkur grein fyrir að við þurfum að læra að stjórna skapinu. Með hjálp Jehóva lærum við að sýna hógværð þegar við þurfum að fást við fólk eða vandamál sem reita okkur til reiði. Hógværð gerir okkur betur í stakk búin að rísa undir álagi því að þá getum við hugsað skýrar og tekið skynsamlegar ákvarðanir. (Jak. 3:13) Það er ákaflega mikilvægt að við þekkjum Biblíuna vel.
13. Hvers vegna ættum við að hugleiða fordæmi fólks sem sagt er frá í Biblíunni?
13 Stundum lærum við af hörðum skóla reynslunnar hvað við eigum að varast. En það er betra að öðlast visku með því að læra af góðum og slæmum fordæmum annarra. Þess vegna hvetur Jakob okkur til að hugleiða dæmi úr Biblíunni eins og fordæmi Abarahams, Rahab, Jobs og Elía. (Jak. 2:21–26; 5:10, 11, 17, 18) Þessir trúu þjónar Jehóva gátu þolað prófraunir sem hefðu getað rænt þá gleðinni. Þolgæði þeirra sýnir að við getum gert það sama með hjálp Jehóva.
14, 15. Hvers vegna megum við ekki hunsa efasemdir okkar?
14 Það sem getur rænt okkur gleðinni: Efasemdir. Af og til gætum við átt erfitt með að skilja eitthvað í Biblíunni. Og kannski svarar Jehóva ekki bænum okkar á þann hátt sem við höfðum vonast eftir. Það gæti vakið hjá okkur efasemdir. Ef við hunsum þær veikja þær trú okkar og skaða samband okkar við Jehóva. (Jak. 1:7, 8) Og við gætum jafnvel misst von okkar um framtíðina.
15 Páll postuli líkti von okkar um framtíðina við akkeri. (Hebr. 6:19) Akkeri heldur skipi stöðugu í óveðri og kemur í veg fyrir að það reki upp á sker. En akkerið kemur ekki að gagni ef keðjan slitnar. Efasemdir sem við hunsum veikja trú okkar rétt eins og ryð veikir keðju akkerisins. Þegar sá sem hefur efasemdir verður fyrir andstöðu sem reynir á trú hans gæti hann misst trúna á að Jehóva uppfylli loforð sín. Ef við missum trúna missum við von okkar. Jakob segir: „Sá sem efast er eins og sjávaralda sem berst og hrekst fyrir vindi.“ (Jak. 1:6) Sá sem líður þannig finnur líklega ekki til neinnar gleði.
16. Hvað ættum við að gera ef við erum með efasemdir?
16 Það sem við getum gert til að halda gleðinni: Taktu á efasemdunum og styrktu trúna. Gerðu eitthvað strax. Á dögum Elía spámanns var þjóð Jehóva orðin tvístígandi í trúnni. Elía sagði við þjóðina: „Hversu lengi ætlið þið að haltra til beggja hliða? Ef Drottinn er Guð, fylgið honum. En ef Baal er Guð, þá fylgið honum.“ (1. Kon. 18:21) Það sama á við nú á dögum. Við þurfum að kanna málið til að sannfæra okkur um að Jehóva sé hinn sanni Guð, að Biblían sé orð hans og að Vottar Jehóva séu þjónar hans. (1. Þess. 5:21) Þegar við gerum það hverfa efasemdirnar og trú okkar styrkist. Ef við þurfum aðstoð við að takast á við efasemdirnar getum við leitað til öldunganna. En við þurfum að gera eitthvað strax til að geta haldið gleðinni í þjónustu Jehóva.
17. Hvað gerist ef við missum kjarkinn?
17 Það sem getur rænt okkur gleðinni: Kjarkleysi. Í Biblíunni segir: „Látir þú hugfallast á degi neyðarinnar er máttur þinn lítill.“ (Orðskv. 24:10) Hebreska orðið sem er þýtt ,láta hugfallast‘ getur merkt ,missa kjarkinn‘. Ef þú missir kjarkinn missirðu fljótt gleðina.
18. Hvað felur þolgæði í sér?
18 Það sem við getum gert til að halda gleðinni: Treystu að Jehóva gefi þér kjark til að halda út. Við þurfum kjark til að halda út í prófraunum. (Jak. 5:11) Orðið sem Jakob notaði og er þýtt „þolgæði“ gefur hugmynd um einhvern sem stendur fastur fyrir. Við getum séð fyrir okkur hugrakkan hermann sem stendur óbifanlegur andspænis óvininum og gefur ekkert eftir, sama hvernig ráðist er að honum.
19. Hvað lærum við af fordæmi Páls postula?
19 Páll postuli gaf okkur einstakt fordæmi í hugrekki og þolgæði. Stundum fann hann til vanmáttar. En hann gat haldið út því að hann treysti að Jehóva gæfi sér þann styrk sem hann þyrfti. (2. Kor. 12:8–10; Fil. 4:13) Við getum fengið slíkan styrk og hugrekki ef við viðurkennum auðmjúk að við þurfum á hjálp Jehóva að halda. – Jak. 4:10.
NÁLGASTU GUÐ OG HALTU GLEÐINNI
20, 21. Hvað megum við vera viss um?
20 Við megum vera viss um að prófraunirnar sem við verðum fyrir eru ekki refsing frá Jehóva. Jakob segir: „Enginn ætti að segja þegar hann verður fyrir prófraun: ,Guð er að reyna mig.‘ Það er ekki hægt að freista Guðs með hinu illa og sjálfur reynir hann engan.“ (Jak. 1:13) Ef við erum sannfærð um að það sé rétt verðum við enn nánari kærleiksríkum föður okkar á himnum. – Jak. 4:8.
21 Jehóva „breytist ekki“. (Jak. 1:17) Hann studdi kristna menn á fyrstu öld í prófraunum þeirra og hann mun einnig hjálpa hverju og einu okkar. Biddu Jehóva í einlægni að gefa þér visku, trú og kjark. Hann verður við bænum þínum. Þá geturðu verið viss um að hann hjálpi þér að halda gleðinni í prófraunum.
SÖNGUR 128 Verum þolgóð allt til enda
a Í Jakobsbréfinu eru fjölmörg hagnýt ráð sem hjálpa okkur að takast á við prófraunir. Þessi grein fjallar um nokkur þeirra. Ráð Jakobs geta hjálpað okkur að þola erfiðleika án þess að missa gleðina í þjónustu Jehóva.
b MYND: Bróðir er handtekinn á heimili sínu. Konan hans og dóttir horfa á þegar lögreglumenn leiða hann í burtu. Á meðan hann er í fangelsi eru trúsystkini í söfnuðinum með mæðgunum í tilbeiðslustund fjölskyldunnar. Þær biðja Jehóva oft um styrk til að halda út í prófraununum. Jehóva gefur þeim kjark og hugarfrið. Trú þeirra styrkist og þær geta haldið út með gleði.