Glaðir „gjörendur orðsins“
„Takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði, er frelsað getur sálir yðar. Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 1:21, 22.
1. Hvernig ber okkur að líta á árstextann fyrir 1996?
„VERÐIÐ GJÖRENDUR ORÐSINS.“ Í þessum einföldu orðum eru kröftug skilaboð. Þau eru tekin úr Jakobsbréfinu í Biblíunni og verða til sýnis sem árstexti votta Jehóva í ríkissölum þeirra árið 1996.
2, 3. Af hverju var viðeigandi að Jakob skyldi skrifa bréfið er ber nafn hans?
2 Jakob, hálfbróðir Drottins Jesú, var áberandi í frumkristna söfnuðinum. Einu sinni eftir upprisu sína birtist Drottinn Jesús Jakobi persónulega og síðan öllum postulunum. (1. Korintubréf 15:7) Síðar, er Pétur postuli var leystur á undraverðan hátt úr fangelsi, bað hann hóp kristinna manna, sem saman voru komnir, að „segja Jakobi og bræðrunum frá þessu.“ (Postulasagan 12:17) Jakob var ekki postuli en hann virðist hafa verið í forsæti á fundi hins stjórnandi ráðs í Jerúsalem er postularnir og öldungarnir úrskurðuðu að menn af þjóðunum, sem tóku trú, þyrftu ekki að umskerast. Jakob greindi frá niðurstöðunni og heilagur andi staðfesti hana. Hún var síðan send öllum söfnuðunum. — Postulasagan 15:1-29.
3 Bersýnilega voru vel úthugsuð rök Jakobs þung á metunum. Sjálfur viðurkenndi hann þó auðmjúklega að hann væri bara „þjónn Guðs og Drottins Jesú Krists.“ (Jakobsbréfið 1:1) Innblásið bréf hans hefur að geyma mikinn sjóð heilræða og hvatningar handa kristnum mönnum nú á dögum. Hann lauk við að skrifa það um fjórum árum áður en Rómverjar réðust fyrst á Jerúsalem undir stjórn Cestíusar Gallusar hershöfðingja, eftir að fagnaðarerindið hafði verið prédikað í stórum stíl „fyrir öllu, sem skapað er undir himninum.“ (Kólossubréfið 1:23) Þetta voru erfiðir tímar og þjónum Jehóva var fullljóst að dómi hans var rétt í þann mund að verða fullnægt á Gyðingaþjóðinni.
4. Hvað gefur til kynna að frumkristnir menn hafi borið mikið traust til orðs Guðs?
4 Þessir kristnu menn höfðu þegar allar Hebresku ritningarnar og stóran hluta Grísku ritninganna. Ljóst er af fjölmörgum tilvitnunum kristinna biblíuritara í hin eldri rit að þeir báru greinilega mikið traust til orðs Guðs. Eins er það nú að við þurfum að nema orð Guðs einlæglega og fara eftir því. Til að vera þolgóð þurfum við þann andlega styrk og hugrekki sem Heilög ritning veitir. — Sálmur 119:97; 1. Tímóteusarbréf 4:13.
5. Af hverju þörfnumst við sérstakrar leiðsagnar núna og hvar fáum við hana?
5 Mannkynið stendur nú á þröskuldi ‚þeirrar miklu þrengingar, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.‘ (Matteus 24:21) Björgun okkar er undir því komin að við höfum leiðsögn Guðs. Hvernig fáum við hana? Með því að opna hjörtu okkar fyrir kenningum innblásins orðs Guðs. Það verður til þess að við verðum „gjörendur orðsins“ líkt og dyggir þjónar Jehóva fyrr á tímum. Við verðum að lesa og nema orð Guðs kostgæfilega og nota það honum til lofs. — 2. Tímóteusarbréf 2:15; 3:16, 17.
Þolgæði samfara gleði
6. Af hverju ættu prófraunir að vera okkur gleðiefni?
6 Í inngangsorðum bréfs síns nefnir Jakob gleði, annan af ávöxtum anda Guðs. Hann skrifar: „Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir. Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði, en þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki, til þess að þér séuð fullkomnir og algjörir og yður sé í engu ábótavant.“ (Jakobsbréfið 1:2-4; Galatabréfið 5:22, 23) Hvernig getur það verið „eintómt gleðiefni“ að rata í margs konar raunir? Nú, Jesús sagði jafnvel í fjallræðunni: „Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum.“ (Matteus 5:11, 12) Það fylgir því mikil gleði og ánægja að sjá Jehóva blessa viðleitni okkar er við keppum að markinu sem er eilífa lífið. — Jóhannes 17:3; 2. Tímóteusarbréf 4:7, 8; Hebreabréfið 11:8-10, 26, 35.
7. (a) Hvað hjálpar okkur að vera þolgóð? (b) Hvaða umbun getum við hlotið, líkt og Job?
7 Jesús var þolgóður „vegna gleði þeirrar, er beið hans.“ (Hebreabréfið 12:1, 2) Við getum líka haldið út ef við einblínum á hugrakkt fordæmi Jesú! Eins og Jakob nefnir í lok bréfs síns umbunar Jehóva ráðvöndum mönnum ríkulega. „Því vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið,“ segir Jakob. „Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir [Jehóva] gjörði á högum hans. [Jehóva] er mjög miskunnsamur og líknsamur.“ (Jakobsbréfið 5:11) Manstu hvernig Job var umbunuð ráðvendnin er hann endurheimti heilsu og hamingju í faðmi fjölskyldunar? Þolgæði og ráðvendni getur veitt þér sams konar gleði í hinni fyrirheitnu paradís í nýjum heimi Guðs. Gleðin, sem þú nýtur núna í þjónustu Jehóva, nær þá hámarki.
Leitað visku
8. Hvernig getum við fundið sanna, hagnýta visku og hvaða hlutverki gegnir bænin í því?
8 Með því að nema orð Guðs kostgæfilega og fara eftir því öflum við okkur guðlegrar visku og erum þannig í stakk búin að standast prófraunir sem verða á vegi okkar mitt í spillingunni í deyjandi heimskerfi Satans. Hvernig getum við treyst því að við finnum slíka visku? Jakob segir okkur: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast. En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi.“ (Jakobsbréfið 1:5, 6) Við ættum að biðja í einlægni, í óhagganlegu trausti þess að Jehóva heyri beiðnir okkar og svari þeim á sínum tíma og á sinn hátt.
9. Hvernig lýsir Jakob guðlegri visku og notkun hennar?
9 Guðleg viska er gjöf frá Jehóva. Jakob lýsir slíkum gjöfum þannig: „Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að og kemur niður frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né skuggar, sem koma og fara.“ Síðar í bréfinu útskýrir Jakob ávinninginn af því að afla sér sannrar visku: „Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal? Hann láti með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki. . . . Sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus.“ — Jakobsbréfið 1:17; 3:13-17.
10. Hvernig er fölsk trú í samanburði við sanna?
10 Í heimsveldi falskra trúarbragða, bæði innan kristna heimsins og utan, er víða siður að guðsdýrkendurnir syngi einhverja sálma, hlýði á staglsamar bænir og heyri kannski erindi. Engin hvatning er veitt til að boða vonarboðskap því að fæst trúarbrögð eygja nokkra ljósglætu í framtíðinni. Hin dýrlega von um Messíasarríki Guðs er annaðhvort aldrei nefnd eða algerlega misskilin. Jehóva segir spádómlega um fylgismenn kristna heimsins: „Tvennt illt hefir þjóð mín aðhafst: Þeir hafa yfirgefið mig, uppsprettu hins lifandi vatns, til þess að grafa sér brunna, brunna með sprungum, sem ekki halda vatni.“ (Jeremía 2:13) Þeir hafa ekkert sannleiksvatn. Þeir hafa enga himneska visku.
11, 12. (a) Hvernig ætti guðleg viska að hvetja okkur? (b) Við hverju varar viska Guðs okkur?
11 Hversu ólíkt er því ekki farið hjá vottum Jehóva nú á tímum! Með krafti frá Guði láta þeir fagnaðarerindið um hið komandi ríki hans streyma yfir jörðina. Viskan, sem þeir mæla, er traustlega byggð á orði Guðs. (Samanber Orðskviðina 1:20; Jesaja 40:29-31.) Þeir nota virkilega sanna þekkingu og skilning er þeir boða stórfenglegan tilgang Guðs okkar og skapara. Það ætti að vera löngun okkar að allir í söfnuðinum ‚fyllist þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans.‘ (Kólossubréfið 1:9) Á þeim grundvelli finna bæði ungir sem gamlir hjá sér löngun til að vera alltaf „gjörendur orðsins.“
12 „Sú speki, sem að ofan er,“ varar okkur við syndum sem gætu leitt til vanþóknunar Guðs. „Vitið, bræður mínir elskaðir,“ segir Jakob. „Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði. Því að reiði manns ávinnur ekki það, sem rétt er fyrir Guði.“ Já, við verðum að vera fljót og áköf að hlýða á ráðleggingar Guðs og fara eftir þeim. En við verðum að varast misnotkun tungunnar sem er „lítill limur.“ Með gorti, óviturlegu slúðri og sjálfbirgingslegu tali getur tungan táknrænt talað „kveikt í miklum skógi.“ Við þurfum þess vegna að rækta með okkur alúð og sjálfstjórn í öllum samskiptum við aðra. — Jakobsbréfið 1:19, 20; 3:5.
13. Af hverju er þýðingarmikið að við tökum á móti „hinu gróðursetta orði“?
13 „Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku,“ segir Jakob, „og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði, er frelsað getur sálir yðar.“ (Jakobsbréfið 1:21) Þessi gráðugi heimur er í þann mund að líða undir lok með oflæti sínu, efnishyggju, eigingirni og siðspillingu. „En sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Það er því sannarlega mikilvægt að við tökum á móti „hinu gróðursetta orði“! Viskan, sem við fáum frá orði Guðs, er alger andstæða illskunnar í þessum deyjandi heimi. Við viljum ekki koma nálægt þessari illsku. (1. Pétursbréf 2:1, 2) Við þurfum að elska sannleikann og hafa sterka trú í hjörtum okkar þannig að við verðum staðráðin í að hvika aldrei frá réttlátum vegum Jehóva. En er nóg bara að heyra orð Guðs?
Að verða „gjörendur orðsins“
14. Hvernig getum við orðið bæði „heyrendur“ og „gjörendur“ orðsins?
14 Í Jakobsbréfinu 1:22 lesum við: „Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður.“ „Verðið gjörendur orðsins“! Þetta stef er sannarlega undirstrikað í bréfi Jakobs. Við verðum að hlusta og síðan ‚gjöra svo‘! (1. Mósebók 6:22) Margir segja að það sé nóg að heyra prédikun eða taka stöku sinnum þátt í formbundinni guðsdýrkun en láta svo þar við sitja. Þeim finnst nóg að vera ‚góðar manneskjur‘ að eigin mati. En Jesús Kristur sagði: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér [„stöðuglega,“ NW].“ (Matteus 16:24) Þess er greinilega krafist af sannkristnum mönnum að þeir séu fórnfúsir í verki og þolgóðir í því að fylgja fyrirmynd Jesú í að gera vilja Guðs. Vilji Guðs með þá er sá sami nú á tímum og hann var á fyrstu öldinni er hinn upprisni Jesús fyrirskipaði: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“ (Matteus 28:19) Hvernig stendur þú þig í því?
15. (a) Hvaða líkingu kemur Jakob með sem sýnir hvernig við getum orðið hamingjusamir „gjörendur orðsins“? (b) Af hverju er ekki nóg að tilbiðja bara að forminu til?
15 Ef við höldum áfram að skyggnast í orð Guðs getur það verið eins og spegill sem sýnir okkur hvers konar menn við erum. Jakob segir: „Sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því, sem hann heyrir, heldur framkvæmir það, hann mun sæll verða í verkum sínum.“ (Jakobsbréfið 1:23-25) Já, hann verður hamingjusamur ‚gerandi orðsins.‘ Auk þess er þýðingarmikið að vera ‚gerandi‘ í öllum atriðum lífs okkar sem kristnir menn. Við ættum aldrei að telja okkur trú um að það sé nóg að tilbiðja bara að forminu til. Jakob ráðleggur okkur að gæta að nokkrum þáttum sannrar tilbeiðslu sem jafnvel kostgæfir kristnir menn kunna að hafa vanrækt. Hann skrifar: „Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði og föður er þetta, að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.“ — Jakobsbréfið 1:27.
16. Á hvaða vegu varð Abraham ‚vinur Jehóva‘ og hvernig getum við öðlast vináttu hans?
16 Það er ekki nóg að segjast bara trúa á Guð og láta þar við sitja. Eins og Jakobsbréfið 2:19 bendir á: „Þú trúir, að Guð sé einn. Þú gjörir vel. En illu andarnir trúa því líka og skelfast.“ Jakob leggur áherslu á að trúin sé „dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin“ og bendir svo á Abraham og segir: „Trúin var samtaka verkum hans og . . . trúin fullkomnaðist með verkunum.“ (Jakobsbréfið 2:17, 20-22) Verk Abrahams voru meðal annars þau að koma ættmennum sínum til hjálpar á neyðarstund, sýna gestrisni, búast til að fórna Ísak og ‚játa‘ opinberlega óhagganlega trú sína á fyrirheit Guðs um ‚borg, sem hefur traustan grunn,‘ það er að segja Messíasarríki framtíðarinnar. (1. Mósebók 14:16; 18:1-5; 22:1-18; Hebreabréfið 11:8-10, 13, 14; 13:2) Það var vel við hæfi að Abraham skyldi ‚vera kallaður vinur Jehóva.‘ (Jakobsbréfið 2:23) Við getum líka talist ‚vinir Jehóva‘ ef við boðum ötullega trú okkar og von á hið komandi réttlætisríki hans.
17. (a) Af hverju ‚réttlættist‘ Rahab og hvernig var henni umbunað? (b) Hvaða langan lista telur Biblían upp um menn sem ‚urðu gjörendur orðsins‘? (c) Hvernig var Job umbunað og hvers vegna?
17 Þeir sem ‚verða gjörendur orðsins‘ eru sannarlega ‚réttlættir af verkum og ekki af trú einni saman.‘ (Jakobsbréfið 2:24) Rahab var kona sem lét verkin vera samtaka trúnni á ‚orðið‘ sem hún hafði heyrt um máttarverk Jehóva. Hún leyndi njósnurum Ísraelsmanna og hjálpaði þeim að komast undan, og síðan safnaði hún heimilisfólki föður síns saman til björgunar. Hún á sannarlega eftir að gleðjast yfir því í upprisunni að trú hennar og verk skuli hafa leitt til þess að hún varð formóðir Messíasar! (Jósúabók 2:11; 6:25; Matteus 1:5) Ellefti kafli Hebreabréfsins telur upp marga aðra sem urðu „gjörendur“ með því að sýna trúna í verki, og þeim verður ríkulega umbunað fyrir. Ekki megum við heldur gleyma Job sem sagði er hann stóð í erfiðri prófraun: „Lofað veri nafn [Jehóva].“ Eins og við höfum áður nefnt var honum ríkulega umbunuð trú sín og verk. (Jobsbók 1:21; 31:6; 42:10; Jakobsbréfið 5:11) Þolgæði okkar nú á dögum sem „gjörendur orðsins“ veitir okkur einnig velþóknun Jehóva.
18, 19. Hvernig hafa bræður ‚orðið gjörendur orðsins‘ eftir áralanga kúgun og hvaða blessun hefur starf þeirra skilað?
18 Bræður okkar í Austur-Evrópu eru meðal þeirra sem hafa mátt þola mikið um langt árabil. Núna hefur mörgum hömlum verið aflétt og þeir eru sannarlega orðnir „gjörendur orðsins“ í sínu nýja umhverfi. Trúboðar og brautryðjendur frá grannríkjunum hafa flust þangað til að leggja hönd á plóginn við að kenna og skipuleggja. Útibú Varðturnsfélagsins í Finnlandi og önnur útibú í grenndinni hafa sent þangað reynda byggingamenn, og hið örláta heimsbræðrafélag hefur fjármagnað byggingu nýrra útibúa og ríkissala. — Samanber 2. Korintubréf 8:14, 15.
19 Eftir áralanga kúgun hafa þessir bræður sýnt mikla kostgæfni í boðunarstarfinu! Þeir ‚erfiða og leggja sig fram‘ til að nýta sér þau tækifæri sem þeir fóru á mis við á ‚erfiðleikatímanum.‘ (1. Tímóteusarbréf 4:10, NW; 2. Tímóteusarbréf 4:2, NW) Sem dæmi má nefna að í apríl síðastliðnum var öllu upplagi Fréttaritsins um Guðsríki, sem hét „Af hverju eru vandamálin svona mörg?,“ dreift á aðeins þrem dögum í Albaníu þar sem kúgunin hafði verið mjög grimmileg. Þetta var stórkostlegt framhald af minningarhátíðinni um dauða Jesú, en hana sótti 3491 — margfalt fleiri en boðberarnir 538.
20. Hvaða vísbendingu gefur aðsóknin að minningarhátíðinni og hvernig mætti hjálpa mörgum?
20 Önnur lönd áttu líka verulegan þátt í aðsókninni að minningarhátíðinni sem hefur á síðustu árum farið töluvert yfir 10.000.000. Nýir, sem styrkjast í trúnni við það að sækja minningarhátíðina, eru víða um lönd að ‚verða gjörendur orðsins.‘ Getum við hvatt fleiri nýja félaga til að verða hæfir fyrir þessi sérréttindi?
21. Hvaða stefnu ættum við að taka í samræmi við árstextann og með hvað að markmiði?
21 Líkt og kostgæfir kristnir menn á fyrstu öld og svo margir aðrir síðan skulum við vera ákveðin í að leggja okkur fram um að ‚keppa að markinu‘ sem er eilífa lífið, hvort sem það verður í ríkinu á himnum eða á jarðneskum vettvangi þess. (Filippíbréfið 3:12-14) Það er virði hvers sem er að ná því marki. Núna er enginn tími til að falla í þann farveg að verða aðeins heyrendur orðsins heldur ættum við að ‚vera hughraust og halda áfram verkinu.‘ (Haggaí 2:4; Hebreabréfið 6:11, 12) Þar eð við höfum ‚tekið við hinu gróðursetta orði,‘ megum við þá ávallt ‚vera glaðir gjörendur orðsins,‘ bæði núna og um alla eilífð.
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig getum við verið þolgóð með gleði?
◻ Hver er „sú speki, sem að ofan er,“ og hvernig getum við leitað hennar?
◻ Af hverju verðum við að ‚verða gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess‘?
◻ Hvaða fregnir ættu að hvetja okkur til að vera „gjörendur orðsins“?
[Mynd á blaðsíðu 31]
Megum við líka opna hjörtu okkar fyrir kennslu Guðs.
[Mynd á blaðsíðu 32]
Job var umbunuð ráðvendnin er hann endurheimti heilsu og hamingju í faðmi fjölskyldunar.