Vertu „kostgæfinn til góðra verka“
„[Jesús] gaf sjálfan sig fyrir okkur til þess að hann leysti okkur frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.“ — TÍT. 2:14.
1. Hvað gerðist á musterissvæðinu þegar Jesús kom þangað 10. nísan árið 33?
ÞAÐ er 10. nísan og örfáir dagar til páska. Fjöldi fólks bíður spenntur á musterissvæðinu í Jerúsalem. Hvað ætli gerist þegar Jesús kemur á staðinn? Þrír guðspjallaritarar, þeir Matteus, Markús og Lúkas, segja allir frá því að Jesús hafi þá öðru sinni rekið út þá sem voru að selja þar og kaupa. Hann hrindir um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna. (Matt. 21:12; Mark. 11:15; Lúk. 19:45) Jesús hefur sama brennandi áhugann á húsi Guðs og hann hafði þegar hann gerði eitthvað svipað þrem árum áður. — Jóh. 2:13-17.
2, 3. Hvernig vitum við að kostgæfni Jesú takmarkaðist ekki við það að hreinsa musterið?
2 Af frásögn Matteusar má sjá að kostgæfni Jesú við þetta tækifæri takmarkaðist ekki við það að hreinsa musterið. Hann læknaði líka blinda og halta sem komu til hans. (Matt. 21:14) Lúkas bætir við að Jesús hafi kennt daglega í helgidóminum. (Lúk. 19:47; 20:1) Atorka hans birtist greinilega þegar hann þjónaði meðal almennings.
3 Síðar sagði Páll postuli í bréfi til Títusar að Jesús hefði gefið „sjálfan sig fyrir okkur til þess að hann leysti okkur frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka“. (Tít. 2:14) Hvernig getum við sem nú lifum verið kostgæfin til góðra verka? Og hvernig getur fordæmi góðu konunganna í Júda verið okkur til hvatningar?
Brennandi áhugi á að boða og kenna
4, 5. Hvernig sýndu fjórir Júdakonungar að þeir voru kostgæfnir til góðra verka?
4 Asa, Jósafat, Hiskía og Jósía beittu sér allir fyrir átaki til að uppræta skurðgoðadýrkun í Júda. Asa „lét fjarlægja útlend ölturu og fórnarhæðirnar, braut merkisteinana og hjó niður Asérustólpana“. (2. Kron. 14:2) Jósafat, sem var líka kappsamur í tilbeiðslunni á Jehóva, „fjarlægði . . . fórnarhæðirnar og Asérustólpana frá Júda“. — 2. Kron. 17:6; 19:3.a
5 Eftir að Hiskía hafði látið halda vikulanga páskahátíð í Jerúsalem „fóru allir þeir Ísraelsmenn, sem höfðu verið viðstaddir, út í borgir Júda. Þeir brutu sundur merkisteinana, hjuggu niður Asérustólpana og rifu niður fórnarhæðirnar og ölturun alls staðar í Júda, Benjamín, Efraím og Manasse.“ (2. Kron. 31:1) Jósía var ekki nema átta ára þegar hann tók við konungdómi. Í frásögunni af honum segir: „Á áttunda stjórnarári Jósía, er hann var enn á unglingsaldri, tók hann að leita svara hjá Guði Davíðs, forföður síns. Á tólfta árinu tók hann að hreinsa fórnarhæðirnar og fjarlægja Asérustólpa, skurðgoð og líkneski úr Júda og Jerúsalem.“ (2. Kron. 34:3) Allir konungarnir fjórir voru því kostgæfnir til góðra verka.
6. Af hverju má líkja boðunarstarfi okkar við aðgerðir trúfastra konunga í Júda?
6 Við tökum líka þátt í átaki sem miðar að því að hjálpa fólki að losna úr fjötrum falskenninga, þar á meðal skurðgoðadýrkun. Við hittum alls konar fólk þegar við boðum fagnaðarerindið hús úr húsi. Ung asísk stúlka minnist þess hvernig móðir hennar viðhafði helgisiði frammi fyrir mörgum líkneskjum sem voru á heimilinu. Stúlkan hugsaði sem svo að ekki gætu öll þessi líkneski verið tákn hins sanna Guðs og bað þess oft í bænum sínum að hún mætti fá að kynnast honum. Einu sinni var bankað á dyrnar heima hjá henni og tveir vottar stóðu fyrir utan. Þeir kenndu henni nafn hins sanna Guðs, Jehóva. Hún fékk líka að vita sannleikann um skurðgoð og var innilega þakklát fyrir það. Nú er hún ötul að boða fagnaðarerindið og leggur sig fram um að hjálpa öðrum að kynnast hinum sanna Guði og vilja hans. — 2. Mós. 6:3, neðanmáls; Sálm. 115:4-8; 1. Jóh. 5:21.
7. Hvernig getum við líkt eftir kennurunum sem fóru um landið á dögum Jósafats?
7 Hve rækilega förum við yfir starfssvæði okkar þegar við boðum fagnaðarerindið hús úr húsi? Á þriðja stjórnarári sínu sendi Jósafat eftir fimm embættismönnum, níu Levítum og tveim prestum. Hann lét þá fara um allar borgir Júda til að kenna fólki lög Jehóva. Svo áhrifaríkt var þetta fræðsluátak að þjóðirnar umhverfis tóku að óttast Jehóva. (Lestu 2. Kroníkubók 17:9, 10.) Með því að fara í hús á mismunandi tímum og vikudögum náum við kannski að tala við marga í sömu fjölskyldu.
8. Hvernig getum við hugsanlega fært út kvíarnar í boðunarstarfinu?
8 Margir þjónar Guðs á okkar tímum hafa verið fúsir til að flytja búferlum til að starfa þar sem vantaði fleiri atorkusama votta. Geturðu farið að dæmi þeirra? Þeir sem geta ekki flutt búferlum gætu kannski reynt að vitna fyrir fólki sem býr á svæðinu en talar annað tungumál. Ron hittir fólk af alls konar þjóðerni á starfssvæði sínu. Hann var 81 árs þegar hann ákvað að læra að heilsa á 32 tungumálum. Fyrir skömmu rakst hann á afrísk hjón úti á götu og heilsaði þeim á móðurmáli þeirra, jórúba. Þau spurðu hvort hann hefði einhvern tíma komið til Afríku. Þegar hann svaraði því neitandi spurðu þau hvernig stæði á því að hann kynni jórúba. Í framhaldinu fékk hann gott tækifæri til að vitna fyrir þeim. Þau þáðu blöðin og gáfu honum fúslega upp heimilisfang sitt. Hann kom heimilisfanginu til viðkomandi safnaðar til að hjónin gætu fengið biblíunámskeið.
9. Af hverju er mikilvægt að lesa beint upp úr Biblíunni í boðunarstarfinu? Skýrðu svarið með dæmi.
9 Kennararnir, sem fóru um landið að boði Jósafats, höfðu með sér „lögmálsbók Drottins“. Út um allan heim reynum við að nota Biblíuna til að kenna fólki vegna þess að hún er orð Guðs. Við leggjum okkur sérstaklega fram um að sýna fólki hvað stendur í Biblíunni sjálfri. Linda var að boða fagnaðarerindið hús úr húsi. Kona nokkur sagði að maðurinn sinn hefði fengið heilablóðfall og hún þyrfti að sinna honum. „Ég skil ekki hvað ég hef gert til að Guð skuli láta þetta koma fyrir mig,“ sagði hún í mæðutón. „Má ég fullvissa þig um eitt?“ svaraði Linda. Síðan las hún Jakobsbréfið 1:13 og bætti við: „Engar af þeim þjáningum, sem við og ástvinir okkar verða fyrir, eru refsing frá Guði.“ Þá tók konan utan um Lindu og faðmaði hana hlýlega. „Mér tókst að nota Biblíuna til að hughreysta konuna,“ segir Linda. „Stundum lesum við upp vers úr Biblíunni sem húsráðandinn hefur aldrei heyrt áður.“ Í framhaldi af þessu samtali þáði konan biblíunámskeið.
Unglingar sem þjóna Guði dyggilega
10. Hvernig er Jósía kristnum ungmennum góð fyrirmynd?
10 Snúum okkur aftur að Jósía konungi. Við munum að hann stundaði sanna tilbeiðslu sem barn og unglingur, og um tvítugt gerði hann umfangsmikið átak til að uppræta skurðgoðadýrkun. (Lestu 2. Kroníkubók 34:1-3.) Ótal ungmenni á okkar tímum sýna sama brennandi áhugann á þjónustunni við Guð.
11-13. Hvað er hægt að læra af ungu fólki sem þjónar Jehóva af kappi?
11 Hannah býr á Englandi. Hún var 13 ára og var að læra frönsku í skóla þegar hún frétti að frönskumælandi hópur hefði verið myndaður í nærliggjandi bæ. Pabbi hennar féllst á að fara með henni þangað á samkomur. Hannah er nú orðin 18 ára og starfar sem brautryðjandi meðal frönskumælandi fólks. Gætir þú líka lært erlent tungumál til að hjálpa fólki að kynnast Jehóva?
12 Rachel hafði mikla ánægju af myndinni Pursue Goals That Honor God (Settu þér markmið sem eru Guði til heiðurs). „Ég hélt að ég hefði tileinkað mér sannleikann,“ segir hún þegar hún minnist þess hvernig hún hugsaði þegar hún byrjaði að þjóna Jehóva árið 1995. „Eftir að ég horfði á myndina áttaði ég mig á því að ég hafði aldrei lagt mig sérstaklega fram. Ég þarf að berjast fyrir sannleikanum og vera iðin við sjálfsnám og dugleg í boðunarstarfinu.“ Núna þjónar Rachel Jehóva af meira kappi en áður. Og hvað hefur hún hlotið í staðinn? „Ég á nánara samband við Jehóva. Bænir mínar eru innihaldsríkari, ég hef meiri ánægju af sjálfsnámi og atburðir biblíusögunnar eru raunverulegri í huga mér. Þar af leiðandi hef ég gaman af boðunarstarfinu og það gefur mér mikið að sjá hvernig orð Jehóva hughreystir aðra.“
13 Luke er ungur piltur sem varð fyrir sterkum áhrifum af myndinni Young People Ask — What Will I Do With My Life? (Ungt fólk spyr — hvernig ætti ég að nota líf mitt?) Luke segir eftir að hafa horft á myndina: „Mér finnst ég þurfa að endurskoða stefnu mína í lífinu.“ Hann viðurkennir: „Það hafði verið þrýst á mig að skapa mér fjárhagslegt öryggi með því að fara fyrst í háskólanám og snúa mér síðan að markmiðum í þjónustu Jehóva. En þetta viðhorf hjálpar manni ekki að eignast sterkt samband við Jehóva heldur hið gagnstæða.“ Ertu ungur bróðir eða systir? Kannaðu hvort þú getir ekki notað það sem þú lærðir í skóla til að færa út kvíarnar í þjónustunni líkt og Hannah gerði. Hvernig væri að taka sér Rachel til fyrirmyndar og keppa að því að ná markmiðum sem eru Guði til heiðurs? Fylgdu dæmi Lukes og forðastu gildrur sem mörg ungmenni hafa fest í.
Taktu viðvaranir alvarlega
14. Á hvers konar tilbeiðslu hefur Jehóva velþóknun og af hverju er það áskorun að halda sér hreinum frammi fyrir honum?
14 Þjónar Jehóva þurfa að vera hreinir til að hann hafi velþóknun á tilbeiðslu þeirra. Jesaja segir: „Farið burt, farið burt, haldið af stað þaðan. Snertið ekkert óhreint, haldið burt frá borginni [Babýlon], hreinsið yður, þér sem berið ker Drottins.“ (Jes. 52:11) Löngu áður en Jesaja skrifaði þetta skar Asa konungur upp herör gegn siðspillingu í Júda. (Lestu 1. Konungabók 15:11-13.) Og öldum síðar sagði Páll postuli Títusi að Jesús hefði gefið sjálfan sig til að hreinsa fylgjendur sína og gera þá „eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka“. (Tít. 2:14) Það er enginn hægðarleikur — sérstaklega fyrir unga fólkið — að halda sér siðferðilega hreinum í lastafullum heimi. Til að mynda þurfa allir þjónar Guðs, bæði ungir sem aldnir, að heyja harða baráttu til að spillast ekki af kláminu sem birtist á auglýsingaskiltum, í sjónvarpi, í kvikmyndum og síðast en ekki síst á Netinu.
15. Hvað getur hjálpað okkur að hata hið illa?
15 Ef við tökum viðvaranir Guðs alvarlega og leggjum okkur fram um að fara eftir þeim getum við lært að hata hið illa. (Sálm. 97:10; Rómv. 12:9) Við þurfum að hafa andstyggð á klámi til að „slíta okkur frá sterku segulmagni þess“ eins og vottur nokkur komst að orði. Til að losa sundur segulmagnaða málmbúta þarf að beita afli sem er sterkara en segulkrafturinn milli þeirra. Það þarf líka að beita afli til að standast aðdráttarafl klámsins. Ef við gerum okkur grein fyrir því hve skaðlegt klámið er hjálpar það okkur að hafa andstyggð á því. Bróðir nokkur beitti sig hörðu til að hætta að skoða klámfengnar vefsíður. Hann flutti heimilistölvuna þannig að hún blasti við hinum í fjölskyldunni. Og hann einsetti sér að hreinsa sjálfan sig og vera kostgæfinn til góðra verka. Hann gerði líka annað. Vegna vinnunnar þurfti hann að nota Netið en ákvað að gera það aldrei nema konan væri nærstödd.
Gildi góðrar breytni
16, 17. Hvaða áhrif getur góð breytni okkar haft á þá sem sjá til okkar? Lýstu með dæmi.
16 Hugarfar unga fólksins, sem þjónar Jehóva, er til fyrirmyndar og það hefur áhrif á þá sem til sjá. (Lestu 1. Pétursbréf 2:12.) Maður nokkur kom á Betel í Lundúnum og vann heilan dag við viðhald á prentvél. Það gerbreytti afstöðu hans til votta Jehóva. Breytingin fór ekki fram hjá konunni hans sem var að kynna sér Biblíuna með hjálp vottanna. Fram til þessa hafði hann ekki viljað að vottar kæmu í heimsókn. En eftir að hann hafði unnið einn dag á Betel fór hann lofsamlegum orðum um framkomu vottanna. Enginn hefði verið með ljótt orðbragð. Allir hefðu verið þolinmóðir og andrúmsloftið þægilegt. Hann var sérstaklega hrifinn af dugnaði ungra bræðra og systra sem unnu þar launalaust og gáfu fúslega tíma sinn og krafta til að stuðla að útbreiðslu fagnaðarerindisins.
17 Bræður og systur, sem vinna úti til að sjá fyrir fjölskyldum sínum, eru sömuleiðis duglegir starfsmenn. (Kól. 3:23, 24) Það hefur í för með sér að þeir halda frekar vinnunni því að vinnuveitendur kunna vel að meta samviskusemi og vilja síður missa þá sem starfsmenn.
18. Hvernig getum við verið ‚kostgæfin til góðra verka‘?
18 Við getum sýnt brennandi áhuga á húsi Jehóva með því að treysta honum, hlýða fyrirmælum hans og sjá vel um samkomustaði okkar. Við viljum líka taka sem mestan þátt í því að boða fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum. Hvort sem við erum ung eða gömul gerum við okkar ýtrasta til að halda þær siðferðisreglur sem tengjast trú okkar. Það er okkur til blessunar á marga vegu. Og við höldum áfram að vera ‚kostgæfin til góðra verka‘. — Tít. 2:14.
[Neðanmáls]
a Vera má að Asa hafi fjarlægt fórnarhæðir þar sem falsguðir voru dýrkaðir en ekki hæðir þar sem fólk tilbað Jehóva. Einnig er hugsanlegt að fórnarhæðir hafi verið endurreistar seint í stjórnartíð Asa og það hafi verið þær sem Jósafat, sonur hans, fjarlægði. — 1. Kon. 15:14; 2. Kron. 15:17.
Hvaða lærdóm má draga af frásögum frá biblíutímanum og nútímanum?
• Hvernig er hægt að sýna brennandi áhuga á því að boða og kenna?
• Hvernig geta kristnir unglingar verið ‚kostgæfnir til góðra verka‘?
• Hvernig er hægt að losna úr fjötrum siðspillandi ávana?
[Mynd á blaðsíðu 13]
Hefurðu vanið þig á að sýna fólki hvað stendur í Biblíunni?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Þú getur fært út kvíarnar í boðunarstarfinu með því að læra annað tungumál meðan þú ert í skóla.