Hafðu brennandi áhuga á húsi Jehóva
„Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp.“ — JÓH. 2:17.
1, 2. Hvað gerði Jesús í musterinu árið 30 og hvers vegna?
SJÁÐU fyrir þér sögusviðið. Það er komið að páskum árið 30. Jesús hóf starf sitt um hálfu ári áður og er nú á leið til Jerúsalem. Þegar hann kemur í forgarð heiðingja í musterinu sér hann „þá er seldu naut, sauði og dúfur og víxlarana sem sátu þar“. Hann bregður á loft svipu úr köðlum og rekur út öll dýrin, og kaupmennirnir fylgja auðvitað á eftir. Og Jesús steypir niður peningum víxlaranna og hrindir um koll borðum þeirra. Hann skipar dúfnasölunum að hafa sig á brott með hafurtask sitt. — Jóh. 2:13-16.
2 Atferli Jesú er nátengt áhuga hans á musterinu. „Gerið ekki hús föður míns að sölubúð,“ skipar hann. Þegar lærisveinar hans verða vitni að þessu rifjast upp fyrir þeim orð sem sálmaskáldið Davíð orti öldum áður: „Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp.“ — Jóh. 2:16, 17; Sálm. 69:10.
3. (a) Hvað er vandlæting? (b) Hvaða spurningar gætum við spurt okkur?
3 Það var vandlæting vegna húss Guðs sem knúði Jesú til verka. Vandlæting merkir meðal annars „ákefð, ötulleiki“ og lýsir brennandi áhuga á einhverju. Yfir sjö milljónir kristinna manna sýna brennandi áhuga á húsi Guðs núna á 21. öld. Við ættum hvert og eitt að spyrja okkur hvernig við getum verið enn áhugasamari um hús Jehóva. Til að svara því skulum við byrja á því að kanna hvað sé hús Guðs nú á tímum. Síðan lítum við á dæmi í Biblíunni um trúa þjóna Guðs sem höfðu brennandi áhuga á húsi hans. Sagt er frá þeim í Biblíunni „okkur til fræðslu“ og fordæmi þeirra getur verið okkur hvatning til að sinna húsi Guðs af enn meiri áhuga. — Rómv. 15:4.
Hús Guðs fyrr og nú
4. Hvaða tilgangi þjónaði musterið sem Salómon reisti?
4 Musterið í Jerúsalem var hús Guðs í Forn-Ísrael. Jehóva bjó auðvitað ekki þar í bókstaflegri merkingu. Hann sagði: „Himinninn er hásæti mitt og jörðin fótskör mín. Hvar er húsið sem þér gætuð reist mér, hvar sá staður sem verið gæti hvíldarstaður minn?“ (Jes. 66:1) Musterið, sem reist var í stjórnartíð Salómons, var engu að síður miðstöð tilbeiðslunnar á Jehóva og þar var beðið til hans. — 1. Kon. 8:27-30.
5. Um hvað var tilbeiðslan í Salómonsmusterinu fyrirmynd?
5 Nú á tímum er hús Jehóva ekki steinbygging í Jerúsalem eða annars staðar heldur sú ráðstöfun hans að tilbiðja hann á grundvelli lausnarfórnar Jesú. Allir trúir þjónar Guðs á jörð sameinast í þessu táknræna musteri til að tilbiðja hann. — Jes. 60:4, 8, 13; Post. 17:24; Hebr. 8:5; 9:24.
6. Hvaða Júdakonungar báru af sökum brennandi áhuga á sannri tilbeiðslu?
6 Ísraelsríkið skiptist í tvennt árið 997 f.Kr. Fjórir konungar af 19, sem fóru með völd í suðurríkinu Júda, báru af sökum þess hve brennandi áhuga þeir höfðu á sannri tilbeiðslu. Þetta voru þeir Asa, Jósafat, Hiskía og Jósía. Hvað getum við lært af fordæmi þeirra?
Heilshugar þjónusta er til blessunar
7, 8. (a) Hvers konar þjónustu blessar Jehóva? (b) Hvernig eru viðbrögð Asa konungs víti til varnaðar?
7 Í stjórnartíð Asa sendi Jehóva spámenn til að leiðbeina þjóðinni svo að hún væri honum trúföst. Þess er til dæmis getið að Asa hafi hlýtt á spámanninn Asarja Ódeðsson. (Lestu 2. Kroníkubók 15:1-8.) Siðbót Asa sameinaði Júdamenn og fjölda fólks frá norðurrríkinu Ísrael sem kom til Jerúsalem þar sem haldin var mikil samkoma. Hinir samankomnu lýstu yfir allir sem einn að þeir væru staðráðnir í að þjóna Jehóva dyggilega. Í frásögunni segir: „Þetta sóru þeir Drottni hárri röddu og með fagnaðarópi og blæstri í lúðra og hafurshorn. Allir Júdamenn glöddust vegna þessa eiðs af því að þeir höfðu svarið af öllu hjarta. Þeir leituðu Drottins heils hugar og hann lét þá finna sig. Drottinn veitti þeim frið allt um kring.“ (2. Kron. 15:9-15) Það er líka öruggt að Jehóva blessar okkur þegar við þjónum honum af heilum hug. — Mark. 12:30.
8 Því miður fór svo síðar meir að Asa brást ókvæða við þegar Hananí sjáandi leiðrétti hann. (2. Kron. 16:7-10) Hver eru viðbrögð okkar þegar Jehóva gefur okkur ráð eða leiðbeiningar fyrir milligöngu safnaðaröldunga? Tökum við fúslega til okkar biblíutengd ráð þeirra og gætum við þess að fyrtast ekki við?
9. Hvaða hætta steðjaði að Jósafat og Júdamönnum og hvernig brugðust þeir við?
9 Jósafat ríkti sem konungur í Júda á tíundu öld f.Kr. Þá blasti sú ógn við honum og þjóðinni að Ammónítar, Móabítar og íbúar Seírfjalla bjuggust til að ráðast sameiginlega á Júdaríkið. Hvað gerði konungur þótt skelfdur væri? Hann og menn hans, konur þeirra og börn söfnuðust saman í húsi Jehóva til að biðjast fyrir. (Lestu 2. Kroníkubók 20:3-6.) Jósafat ákallaði Jehóva í samræmi við það sem Salómon sagði fyrrum þegar musterið var vígt. Jósafat bað: „Munt þú, Guð, ekki dæma þá? Vér erum aflvana gegn þessum volduga her sem heldur gegn oss. Vér vitum ekki hvað vér getum gert, þess vegna beinum vér sjónum vorum til þín.“ (2. Kron. 20:12, 13) Eftir að Jósafat hafði beðist fyrir kom andi Jehóva yfir Jehasíel Levíta „mitt í söfnuðinum“ og hann taldi kjark í fólkið. — Lestu 2. Kroníkubók 20:14-17.
10. (a) Hvernig fengu Jósafat og Júdamenn leiðbeiningar? (b) Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta þá forystu sem Jehóva lætur okkur í té?
10 Jósafat konungur og Júdamenn fengu leiðbeiningar Jehóva fyrir milligöngu Jehasíels. Við fáum hughreystingu og leiðbeiningar fyrir atbeina hins trúa og hyggna þjóns. Við viljum auðvitað virða safnaðaröldungana og vera samvinnuþýð við þá því að þeir vinna hörðum höndum að því að gæta okkar og þeir fylgja leiðbeiningum hins trúa og hyggna þjóns. — Matt. 24:45; 1. Þess. 5:12, 13.
11, 12. Hvað má læra af reynslu Jósafats og Júdamanna?
11 Jósafat og Júdamenn söfnuðust saman til að leita leiðsagnar Jehóva. Við skulum að sama skapi sækja safnaðarsamkomur reglulega ásamt trúsystkinum okkar. Ef við lendum einhvern tíma í miklum nauðum og vitum ekki hvað við eigum til bragðs að taka skulum við fylgja góðu fordæmi Jósafats og Júdamanna. Leitum til Jehóva í bæn og treystum að hann bænheyri okkur. (Orðskv. 3:5, 6; Fil. 4:6, 7) Þegar við biðjum til Jehóva erum við sameinuð bræðrum og systrum um allan heim, jafnvel þó að við séum einangruð. — 1. Pét. 5:9.
12 Jósafat og samlandar hans fylgdu leiðbeiningum Jehóva sem Jehasíel miðlaði þeim. Árangurinn var sá að þeir gengu með sigur af hólmi gegn árásarmönnum og sneru „glaðir í bragði“ til Jerúsalem og húss Jehóva leikandi á „hörpur, gígjur og lúðra“. (2. Kron. 20:27, 28) Við virðum sömuleiðis fyrirmæli Jehóva og lofum hann í sameiningu.
Hugsum vel um samkomustaði okkar
13. Hvað lét Hiskía gera strax eftir að hann settist að völdum?
13 Í fyrsta mánuðinum, sem Hiskía var við völd, sýndi hann brennandi áhuga sinn á sannri tilbeiðslu þegar hann lét opna musterið að nýju og gera við það. Hann skipulagði hreinsun á húsi Guðs. Prestarnir og Levítarnir luku verkinu á 16 dögum. (Lestu 2. Kroníkubók 29:16-18.) Þetta átak minnir á hvernig brennandi áhugi okkar á sannri tilbeiðslu endurspeglast í því að við önnumst viðgerðir og viðhald á húsnæði sem við notum til að halda samkomur. Höfum við ekki heyrt frásögur sem sýna að fólk heillast af kostgæfni bræðra og systra sem taka þátt í slíkri vinnu? Þau lofa Jehóva með vinnuframlagi sínu.
14, 15. Hvaða starfsemi hefur verið Jehóva til lofs nú á tímum? Nefndu dæmi.
14 Í bæ einum á Norður-Englandi stóð til að gera upp ríkissal. Maður, sem bjó í næsta húsi, var því andvígur. Bræðurnir á staðnum voru vinsamlegir í viðmóti við manninn. Steinveggurinn milli ríkissalarins og lóðar nágrannans var viðhalds þurfi og bræðurnir buðust til að lagfæra hann honum að kostnaðarlausu. Þeir lögðu sig alla fram og endurbyggðu reyndar steinvegginn að mestu leyti. Svo vel tóku þeir á málinu að nágranninn söðlaði algerlega um. Nú er hann hjálpsamur og hefur auga með ríkissalnum og lóðinni.
15 Þjónar Jehóva taka þátt í byggingarframkvæmdum um heim allan. Vottar á staðnum ásamt sjálfboðaliðum, sem ferðast milli landa, reisa bæði ríkissali, mótshallir og Betelheimili. Sam er verkfræðingur, sérhæfður í hitalögnum, loftræstingu og loftkælingu. Hann og Rut, eiginkona hans, hafa ferðast til nokkurra landa í Evrópu og Afríku til að vinna við byggingarframkvæmdir. Þau taka líka þátt í boðunarstarfinu með söfnuðunum á hverjum stað. Hvað varð til þess að Sam ákvað að taka þátt í framkvæmdum á erlendri grund? Hann segir: „Það var hvatning frá þeim sem hafa starfað á Betelheimilum í ýmsum löndum. Gleði þeirra og brennandi áhugi vakti með mér löngun til að starfa á þessum vettvangi.“
Hlýðum fyrirmælum Guðs
16, 17. Hvaða átak hafa þjónar Guðs stundum gert og með hvaða árangri?
16 Auk þess að láta gera við musterið kom Hiskía því á að páskar væru haldnir ár hvert eins og Jehóva hafði gefið fyrirmæli um. (Lestu 2. Kroníkubók 30:1, 4, 5.) Hiskía og Jerúsalembúar buðu allri þjóðinni að koma, einnig þeim sem bjuggu í norðurríkinu. Hraðboðar fóru um landið með boðsbréf frá konungi. — 2. Kron. 30:6-9.
17 Á síðustu árum höfum við tekið þátt í einhverju svipuðu. Við höfum notað fallega boðsmiða til að bjóða fólki á starfssvæðum okkar að safnast saman með okkur í samræmi við fyrirmæli Jesú, til að halda hátíðlega kvöldmáltíð Drottins. (Lúk. 22:19, 20) Við höfum farið eftir leiðbeiningum, sem gefnar hafa verið á þjónustusamkomum, og tekið dyggilega þátt í þessu starfi. Og Jehóva hefur sannarlega blessað verk okkar. Á síðasta ári tóku um sjö milljónir votta þátt í að dreifa boðsmiðum og alls voru 17.790.631 viðstaddir minningarhátíðna.
18. Af hverju er ákaflega mikilvægt að hafa brennandi áhuga á sannri tilbeiðslu?
18 Í Biblíunni stendur: „Hiskía treysti Drottni, Guði Ísraels. Enginn var honum líkur meðal konunga Júda, hvorki fyrr né síðar. Hann var Drottni handgenginn og vék ekki frá honum. Hann hlýddi boðum þeim sem Drottinn hafði lagt fyrir Móse.“ (2. Kon. 18:5, 6) Við skulum líkja eftir Hiskía. Ef við höfum brennandi áhuga á húsi Guðs erum við ‚Drottni handgengin‘ og eigum eilíft líf í vændum. — 5. Mós. 30:16.
Fylgjum leiðbeiningum vel og dyggilega
19. Hvað leggja bræður og systur á sig í sambandi við minningarhátíðina?
19 Jósúa konungur sá líka til þess að haldnir væru páskar og undirbjó hátíðina af kostgæfni. (2. Kon. 23:21-23; 2. Kron. 35:1-19) Við reynum líka að búa okkur vel undir umdæmismót, svæðismót, sérstaka mótsdaga og svo auðvitað minningarhátíðina. Í sumum löndum hætta bræður og systur jafnvel lífinu til að geta safnast saman og minnst dauða Krists. Ötulir öldungar gæta þess að enginn í söfnuðinum gleymist. Þeir sem eru aldraðir og lasburða fá hjálp til að vera viðstaddir.
20. (a) Hvað gerðist í stjórnartíð Jósía og hvernig brást hann við? (b) Hvaða lærdóm viljum við draga af því?
20 Þegar Jósía konungur stóð fyrir viðgerðum á musterinu fann Hilkía æðstiprestur „lögmálsbók Drottins sem hafði verið opinberuð af munni Móse“. Hann afhenti hana Safan ríkisritara sem tók að lesa hana fyrir Jósía. (Lestu 2. Kroníkubók 34:14-18.) Konungur varð miður sín við upplesturinn. Hann reif klæði sín og sagði mönnunum að leita svara hjá Jehóva. Hulda spákona bar þeim boð frá Jehóva þar sem hann fordæmdi sumar af þeim trúariðkunum sem höfðu átt sér stað í Júda. Jehóva veitti þó athygli viðleitni Jósía til að uppræta skurðgoðadýrkunina, og Jósía naut velvildar Jehóva þrátt fyrir ógæfuna sem spáð var að koma myndi yfir þjóðina í heild. (2. Kron. 34:19-28) Hvaða lærdóm má draga af þessu? Okkur langar auðvitað til að líkjast Jósía. Við viljum bregðast vel og dyggilega við leiðbeiningum Jehóva og gæta þess að fráhvarf og ótryggð annarra hafi ekki áhrif á þjónustu okkar við hann. Og við getum treyst að Jehóva horfi með velþóknun á þann áhuga sem við sýnum á sannri tilbeiðslu, rétt eins og hann hafði velþóknun á Jósía.
21, 22. (a) Af hverju ættum við að hafa brennandi áhuga á húsi Jehóva? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?
21 Þessir fjórir Júdakonungar — Asa, Jósafat, Hiskía og Jósía — eru okkur til fyrirmyndar með brennandi áhuga sínum á húsi Guðs og tilbeiðslu. Við ættum einnig að vera kappsöm í þjónustu Jehóva og treysta honum í hvívetna. Það er bæði viturlegt og til gæfu fyrir okkur að vera hlýðin fyrirmælum Guðs og bregðast vel við leiðbeiningum sem við kunnum að fá fyrir milligöngu safnaðarins og umhyggjusamra öldunga.
22 Í næstu grein beinum við athyglinni að því hvernig við getum verið kappsöm í boðunarstarfinu, og unga fólkið fær hvatningu til að þjóna föðurnum á himnum vel og dyggilega. Við fjöllum einnig um það hvernig hægt sé að forðast einhver hættulegustu spillingaráhrif Satans. Ef við fylgjum dyggilega öllum þessum áminningum frá Jehóva líkjum við eftir syni hans, Jesú, en sagt var um hann: „Vandlæting vegna húss þíns hefur tært mig upp.“ — Sálm. 69:10; 119:111, 129; 1. Pét. 2:21.
Manstu?
• Hvers konar þjónustu blessar Jehóva og af hverju?
• Hvernig getum við sýnt að við treystum Jehóva?
• Hvernig tökum við leiðbeiningum Jehóva ef við erum kostgæfin?
[Mynd á blaðsíðu 9]
Hvernig sýndu Asa, Jósafat, Hiskía og Jósía brennandi áhuga á húsi Jehóva?