Sýnið öðrum persónulegan áhuga
„Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 2:4.
1, 2. Nefndu nokkrar ástæður fyrir því að sýna hvert öðru persónulegan áhuga.
VIÐ höfum fulla ástæðu til að hafa persónulegan áhuga hvert á öðru. Til dæmis ættu aðrir menn að vekja áhuga okkar vegna þess að við erum hvert öðru ólík. Arfberar líkamsfrumnanna geyma eins konar „vinnuteikningar“ að öllum þeim einkennum sem við höfum tekið í arf. Svo einkennandi er erfðaefni hvers manns að rannsóknarlögreglur sums staðar í heiminum nota það til að bera kennsl á afbrotamenn.
2 Það er margt annað sem gerir okkur ólíka og áhugaverða sem einstaklinga. Allt frá getnaði verðum við fyrir áhrifum af umhverfi okkar. Margt bendir til að ófædd börn bregðist að einhverju leyti við því sem gerist utan móðurlífsins. Síðan, eftir að við komum í heiminn sem sjálfstæðir einstaklingar, hafa viðhorf og daglegir hættir foreldra okkar áhrif á okkur. Við getum alist upp sem einbirni eða hluti af stórum systinahópi og átt einhvern þátt í að annast systkini okkar. Slíkur félagsskapur eða vöntun á honum hefur áhrif á hvernig við þroskumst. Það sem við lesum, lærum í skóla og sjáum í sjónvarpi hefur einnig áhrif á hugsun okkar og hegðun.
3. Hvers konar áhuga ættum við sérstaklega að hafa hvert á öðru í samræmi við Filippíbréfið 2:4?
3 Það sem er ólíkt með okkur mönnunum vekur því einhvern áhuga með okkur hvert fyrir öðru. En Páll postuli hafði í huga göfugari ástæðu fyrir því að sýna hvert öðru áhuga. Hann hvatti því kristna bræður sína til að ‚líta ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig hag annarra.‘ (Filippíbréfið 2:4) Í stað þess að hugsa aðeins um hag sjálfra okkar ættum við að hafa sérstakan áhuga á andlegum hag annarra. Með hvaða hætti sýnum við hvert öðru slíkan persónulegan áhuga?
Andlegur áhugi og ólíkir persónuleikar
4. Hvaða breytingar auka andlegan áhuga okkar á öðrum, samkvæmt Efesusbréfinu 4:22-24?
4 Það eykur persónulegan áhuga okkar á öðrum þegar við beitum sannleika Ritningarinnar og lærum að líkja eftir fordæmi Jesú Krists. (1. Pétursbréf 2:21) Sem sannkristnir menn ‚hættum við hinni fyrri breytni og afklæðumst hinum gamla manni‘ og leggjum okkur fram um að íklæðast í staðinn „hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ (Efesusbréfið 4:22-24) Þannig eru eigingjörn viðhorf smám saman látin víkja fyrir góðvild, tillitssemi og umhyggju fyrir öðrum. — Jesaja 65:25.
5. Hvers vegna er ólíka persónuleika að finna í kristna söfnuðinum og hvaða spurningu vekur það?
5 Þótt athyglisverðar breytingar hafi orðið á persónuleikum manna meðal þjóna Jehóva eiga þeir enn sem fyrr við syndugar tilhneigingar að glíma. Jafnvel Páll viðurkenndi að þótt hann ‚vildi gera hið góða væri hið illa honum tamast.‘ (Rómverjabréfið 7:21) Að sjálfsögðu fylgja okkur ýmis arfbundin eða áunnin sérkenni sem við þekkjumst á. Sumir eru listhneigðir, aðrir mjög skarpir í hugsun. Sumir eru hæglátir og hlédrægir en aðrir mannblendnir og félagslyndir. Hvernig er þá hægt að varðveita einingu kristna safnaðarins þegar mennirnir eru svona ólíkir?
6. Hvernig ættum við að líta á ólíka persónuleika manna og við hvað má líkja slíkum mun?
6 Ef við ætlum að sýna hvert öðru andlegan áhuga og varðveita kristna einingu verðum við að vera raunsæ og skilningsrík. Úr því að Guð krefst ekki fullkomleika af okkur ættum við ekki að krefjast hans af kristnum bræðrum okkar og systrum. Auk þess ætlast Jehóva ekki til að allir þjónar hans séu steyptir nákvæmlega í sama mótið. Það er rúm fyrir okkur öll í kristna söfnuðinum og við getum notað þá hæfileika sem Guð hefur gefið okkur og við höfum tekið í arf til að starfa í hans þágu. (1. Korintubréf 12:12-26) Ef við erum iðjusöm undir forystu höfuðs kristna safnaðarins, Jesú Krists, þá munum við ekki hafa tíma til að skoða hvert annað með gagnrýnum huga. (1. Korintubréf 4:1-4) Iðnaðarmaður veit að sérhvert verkfæri er hannað til síns ákveðna hlutverks. Er hægt að nota hamar sem bor og hefil sem skrúfjárn? Nei, sérhvert verkfæri er ætlað til ákveðinna nota.
7. Hvað ættum við að hafa efst í huga er við störfum saman í þjónustu Guðsríkis?
7 Það er dagsatt sem segir í einum af söngvum Guðsríkis, „Gleðileg þjónusta.“ Þar erum við hvött: „Þjónum Guði okkar og konungi með gleði, og notum gáfur okkar og hæfileika í starfi hans.“ Að vísu höfum við kannski enga afburðahæfileika, en við höfum efst í huga það starf sem okkur, vottum Jehóva, hefur verið falið og gefum okkur að því af heilu hjarta. Eins og söngurinn segir í framhaldinu: „Þótt þjónusta okkar sé smá sýnum við með henni hollustu hjartans og kærleika okkar.“ — Sing Praises to Jehovah, söngur nr. 130.
Metum aðra sem okkur meiri
8. Hvernig stuðlar það að einingu að fylgja orðum Páls í Filippíbréfinu 2:1-3?
8 Það stuðlar einnig að einingu að meta aðra sem sjálfum sér fremri. Páll skrifaði: „Ef nokkurs má sín upphvatning í nafni Krists, ef kærleiksávarp, ef samfélag andans, ef ástúð og meðaumkun má sín nokkurs, þá gjörið gleði mína fullkomna með því að vera samhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál.“ Síðan bætir postulinn við: „Gjörið ekkert af eigingirni [„þrætugirni,“ ísl. bi. 1859] eða hégómagirnd. Verið lítillátir og metið aðra meira en sjálfa yður.“ — Filippíbréfið 2:1-3.
9. Hvað merkir það að vera þrætugjarn og eigingjarn og hvernig getum við forðast það?
9 Þrætugjarn maður metur ekki aðra meira en sjálfan sig og sýnir oft „þrálífa og þreytandi tilhneigingu til að þrasa og karpa.“ (Webster’s New Collegiate Dictionary) Þetta einkenni getur birst í „orðastælum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:4) Andinn að baki orðunum og þær hugsanir, sem þau koma á framfæri, ætti auðvitað að vera aðalatriðið. Forðastu því að vera smámunasamur út af ákveðnu orðalagi sem birtist í ræðu eða riti. Og hvað átt þú að gera ef borið er upp við þig nýtt viðhorf til einhvers trúaratriðis? Sýndu tryggð þeim biblíulegu upplýsingum sem Guð hefur látið í té fyrir milligöngu hins ‚trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47) Það var þannig sem við kynntumst sannleikanum í byrjun. Ef við höfum það hugfast hjálpar það okkur að varast sjálfselsku og sjálfsþótta, að hugsa hærra um sjálfa okkur en tilefni er til.
Þroskaðu með þér áhuga á öðrum
10. Hvernig er hægt að heimfæra Filippíbréfið 2:4 innan safnaðarins?
10 Munum að Páll hvatti okkur til að ‚líta ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.‘ (Filippíbréfið 2:4) Hvað merkir það? Á sama hátt og það getur hjálpað okkur í þjónustunni á akrinum að taka vel eftir umhverfi okkar, eins mun áhugi á velferð annarra í söfnuðinum gefa okkur tækifæri til að styrkja þau kærleiksbönd sem binda okkur saman. Einkum er öldungunum skylt að sýna trúbræðrum sínum umhyggju því að orðskviður segir: „Haf nákvæmar gætur á útliti sauða þinna.“ (Orðskviðirnir 27:23) Að sjálfsögðu getum og ættum við öll að vera næm á þarfir trúbræðra okkar. — 1. Pétursbréf 2:17.
11. Hvers vegna þurfum við að hlusta vel þegar við ræðum við andlega bræður okkar og systur?
11 Önnur leið til að stuðla að einingu og þroska með okkur áhuga á öðrum er sú að taka okkur tíma til góðra samræðna og skoðanaskipta við andlega bræður okkar og systur. Dragðu fram hvað þeir eru að hugsa. Það getur þú gert þegar þú heimsækir þá, fyrir og eftir samkomur í Ríkissalnum og í dagskrárhléum á mótum. Hlustaðu vel þegar þeir tala. Þannig getum við hugsanlega heyrt um erfiðleika sem þeir standa frammi fyrir, en síðan getum við ef til vill hjálpað þeim að bera byrðar sínar og uppfyllt þannig lögmál Krists. (Galatabréfið 6:2) En fleira þarf þó til að varðveita einingu safnaðarins en aðeins að tala við bræður okkar. Hvað er það?
Láttu í ljós samkennd
12. Hvers vegna ber okkur að sýna samkennd?
12 Samkennd stuðlar einnig að kristinni einingu. Samhliða því að álag lífsins eykst þurfum við að sýna þennan eiginleika í ríkari mæli. Megum við aldrei vera svo niðursokkin í það sem okkur liggur á hjarta að við hugsum ekki um tilfinningar annarra. Nefnum dæmi: Bróðir, sem hafði atriði á dagskrá þjónustusamkomunnar, var nýstiginn inn úr dyrunum er öldungur minntist stuttlega á atriði við hann er tilkynna þurfti. Öldungurinn varð bæði undrandi og skömmustulegur er bróðirinn horfði á hann, brosti og sagði: „Fyrst, gott kvöld, bróðir!“ Eftir að hafa skipst á vingjarnlegum kveðjum ræddu þeir það sem tilkynna þurfti. Öldungurinn lærði sannarlega sína lexíu! Flýttu þér ekki of mikið þannig að þú skeytir ekki um almennar kurteisisvenjur sem stuðla að ánægjulegu sambandi milli þín og annarra.
13. Hvað fær samkennd öldungana til að gera í samskiptum við kristna bræður sína og systur?
13 Samkennd kemur öldungunum til að sýna hluttekningu og önnur góð einkenni. Stundum þurfa þeir að vera mildir „eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum.“ (1. Þessaloníkubréf 2:7) Það getur kostað mikla þolinmæði, kærleika og stuðning að hjálpa sumum einstaklingum. Þeir sem hafa ‚afrækt sinn fyrri kærleika‘ geta þurft hvatningu til aukins starfs og hjálp til að meta að fullu hve áríðandi okkar tímar eru. (Opinberunarbókin 2:4; 2. Tímóteusarbréf 4:2; Hebreabréfið 6:11, 12) Líkt og Páll bera öldungarnir „kærleiksþel“ til kristinna bræðra sinna og systra, áminna þá og hughreysta ‚til að þeir geti haldið áfram að breyta eins og samboðið er Guði.‘ — 1. Þessaloníkubréf 2:8, 11, 12.
14. Hvernig lét Páll í ljós að hann hefði samkennd?
14 Páll gaf öldungum gott fordæmi um hvernig þeir ættu að bera umhyggju fyrir velferð andlegra bræðra sinna og systra. Hann skrifaði: „Og ofan á allt annað bætist það, sem mæðir á mér hvern dag, áhyggjan fyrir öllum söfnuðunum.“ Sökum þessarar umhyggju sinnar gat Páll spurt: „Hver er sjúkur, án þess að ég sé sjúkur? Hver hrasar, án þess að ég líði?“ Hefur þú sem ert öldungur slíka samkennd með bræðrum þínum? — 2. Korintubréf 11:28, 29.
Að ávinna bróður þinn
15. Hvaða ráði Jesú í Matteusi 18:15 ber að fylgja og í hvaða augnamiði, þegar alvarlegir erfiðleikar verða í samskiptum bræðra?
15 Samkennd stuðlar að einingu meðal þjóna Jehóva. Einstöku sinnum getur þó komið upp ágreiningur eða missætti milli þeirra. Þegar það er alvarlegs eðlis eiga kristnir menn að fylgja heilræðum Jesú í Matteusi 18:15-17. Taktu eftir fyrsta skrefinu. Þú átt að ræða einslega við bróður þinn til að „tala um fyrir honum.“ Markmið þitt á að vera það að ‚vinna bróður þinn.‘ Jesús sagði: „Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn.“ Sem betur fer þarf yfirleitt ekki að ganga lengra en að ræða saman einslega til að koma aftur á friði milli þín og trúbróður þíns.
16. Hvað ber þér að gera ef þú veitir athygli að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér?
16 Ef þú veitir athygli að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér skaltu fylgja því ráði Jesú og „sættast við bróður þinn.“ (Matteus 5:24) Ræðið málið rólega og vinsamlega og reynið að skilja viðhorf hvors annars. Þannig er yfirleitt hægt að leysa málin og viðhalda friði safnaðarins.
Að ávinna vantrúaða
17, 18. Hvað ráðlagði Pétur kristnum eiginkonum á trúarlega sundurskiptum heimilum?
17 Einhver erfiðasta aðstaða, þar sem kristinn maður þarf að fylgja meginreglum Ritningarinnar, er á trúarlega sundurskiptu heimili. Margir kristnir menn strita trúfastir jafnhliða vonbrigðum og erfiðleikum sem fylgja því að einingu í trúnni skortir á heimili þeirra. Hvernig er hægt að hjálpa þeim?
18 Vegna persónulegs áhuga síns á öðrum veita öldungarnir þeim sem búa á trúarlega sundurskiptum heimilum fúslega andlega hjálp. Til dæmis er hægt að beina athyglinni að heilræðum Péturs um hegðun kristinna eiginkvenna við þessar aðstæður. Hann segir þeim að vera undirgefnar eiginmönnum sínum, jafnvel þótt þeir séu ekki í trúnni og ‚vilji ekki hlýða orðinu.‘ Til hvers eiga þær að vera undirgefnar? „Til þess að jafnvel þeir . . . geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna.“ (1. Pétursbréf 3:1) En hversu áhrifaríkt ráð er þetta?
19. Nefndu dæmi um gildi þess að fara eftir 1. Pétursbréfi 3:1.
19 Kona að nafni Vera viðurkennir að hún hafi, fyrst eftir að hún tók kristna trú, sífellt verið að tala við manninn sinn um sannleika Biblíunnar og að hann hafi orðið leiður á því. „Þá fór ég eftir ráðum öldungs,“ bætir hún við, „og ákvað að betra væri að sýna háttvísi og bíða eftir hentugum tækifærum.“ Í meginatriðum fór Vera eftir 1. Pétursbréfi 3:1 þótt hún hafi líka stundum átt frumkvæðið að því að fá manninn sinn, Barry, til að ræða meginreglur Biblíunnar. Hann sagði síðar: „Með árunum tók ég eftir að Vaknið! [gefið út samhliða tímaritinu Varðturninn] lá frammi á óvenjulegum stöðum á heimilinu. Það var margt hagnýtt efni í því og stundum var það á undan fréttum fjölmiðla.“ Afleiðingin er sú að nú eru Barry og Vera sameinuð í þjónustu Jehóva, eftir 20 ára ósamkomulag.
20. Hvernig geta öldungar hjálpað kristnum eiginmanni á trúarlega sundurskiptu heimili?
20 Trúaður eiginmaður er í mjög erfiðri aðstöðu ef eiginkona hans er andsnúin sannri kristni og hefur áhrif á börn þeirra í þá átt. Öldungarnir geta sýnt slíkum manni persónulegan áhuga með því að beina athygli hans að meginreglum Biblíunnar sem geta hjálpað honum. Til dæmis gætu þeir bent á að þrátt fyrir andstöðu konu hans sé hann höfuð fjölskyldunnar og ætti að fræða börn sín um Biblíuna. (Efesusbréfið 6:4) Þeir geta hvatt hann til að ‚búa með skynsemi saman við konu sína,‘ sýna áhuga því sem hún gerir og hjálpa henni við heimilisstörfin og umönnun barnanna. (1. Pétursbréf 3:7) Ekki síst ætti að hvetja trúaðan eiginmann og föður til að halda opinni leið samræðna og skoðanaskipta þannig að hann geti vitað hvað býr í hjarta hvers og eins í fjölskyldu hans. Öldungarnir geta líka hvatt hann til að halda áfram að reyna að hjálpa konu sinni með orðum sem eru ‚salti krydduð‘ og vekja háttvíslega athygli hennar á sannindum Biblíunnar þegar hentug tækifæri gefast. — Kólossubréfið 4:6.
21. Hvernig er hugsanlega hægt að vekja áhuga eiginkonu, sem ekki trúir, á sannleikanum?
21 Ef ættingjum kristins manns á trúarlega sundruðu heimili er sýndur áhugi getur það stundum kallað fram jákvæð viðbrögð við boðskapnum um Guðsríki. Nefnum dæmi: Kristinn maður var niðurdreginn vegna þess að konan hans hafði veitt honum hatramma mótstöðu í nokkur ár. Öldungur bauðst til að koma í heimsókn og hjálpa með umræðum út frá Biblíunni. Er öldungurinn kom inn á heimilið heilsaði hann konunni vingjarnlega og spurði: „Vildir þú taka þátt í samræðum okkar?“ Konan þáði fúslega þetta vingjarnlega boð. Nokkru síðar tók hún við sannleikanum og byrjaði að prédika fyrir öðrum.
22. Hvers vegna eigum við að hafa persónulegan áhuga hvert á öðru?
22 Sem vottar Jehóva skulum við því ‚gera allt vegna fagnaðarerindisins.‘ (1. Korintubréf 9:23) Við skulum því, meðan tími er til, „gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.“ (Galatabréfið 6:10) Megum við sýna hvert öðru persónulegan áhuga þannig að kærleikurinn megi dafna í alheimsbræðrafélagi okkar.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvers vegna ættum við sérstaklega að hafa áhuga hvert á öðru?
◻ Hvernig getum við þroskað með okkur persónulegan áhuga fyrir trúbræðrum okkar?
◻ Hvernig geta öldungar látið í ljós samkennd?
◻ Hvaða áhrif getur það haft ef við sýnum þeim sem ekki trúa persónulegan áhuga?
[Mynd á blaðsíðu 28, 29]
Hver og einn í kristna söfnuðinum getur notað þá hæfileika, sem Guð hefur gefið honum, í starfi Guðs, líkt og ólík verkfæri eru gerð til ákveðinna nota.
[Mynd á blaðsíðu 29]
Stuðlaðu að kristinni einingu með því að sýna öðrum persónulegan áhuga.